• Lykilorð:
  • Handveð
  • Samningur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 11. október 2018 í máli nr. E-2677/2016:

Arion banki hf.

(Þorsteinn Ingi Valdimarsson lögmaður)

gegn

AE Endurheimtum ehf.

(Saga Ýrr Jónsdóttir lögmaður)

 

            Mál þetta, sem var dómtekið 25. september sl., var höfðað 25. maí 2016.

            Stefnandi er Arion banki hf., Borgartúni 19 í Reykjavík.

            Stefndi er AE Endurheimtur ehf., Mörkinni 3 í Reykjavík.

            Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 13.752.701 JPY, 71.086,22 GBP, 260.382,99 EUR og 511.854,61 USD ásamt dráttarvöxtum frá 15. september 2012 til greiðsludags, sem skuli vera 13,91750% af 13.752.701 JPY, 16,96125% af 71.086,22 GBP, 16,83125% af 260.382,99 EUR og 15,46750% af 511.854,61 USD, að frádregnum innborgunum hinn 1. desember 2011 að fjárhæð 600.000 kr. og 15. janúar 2013 að fjárhæð 300.000 kr.

            Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 105.268.104 kr. ásamt dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð frá 15. september 2012 til greiðsludags, sem skal vera 31,3880%, að frádregnum innborgunum hinn 1. desember 2011 að fjárhæð 600.000 kr. og 15. janúar 2013 að fjárhæð 300.000 kr.

            Til þrautavara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 87.124.127 kr. ásamt dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð frá 15. september 2012 til greiðsludags, sem skal vera 31,3880%, að frádregnum innborgunum hinn 1. desember 2011 að fjárhæð 600.000 kr. og 15. janúar 2013 að fjárhæð 300.000 kr.

            Til þrautaþrautavara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 86.921.781 kr. ásamt dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. september 2012 til greiðsludags, að frádregnum innborgunum hinn 1. desember 2011 að fjárhæð 600.000 kr. og 15. janúar 2013 að fjárhæð 300.000 kr.

            Í öllum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar.

            Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar.

 

                                                                        I

            Mál þetta má rekja til lánssamnings sem Kaupþing banki hf. gerði við stefnda 2. júní 2005. Yfirskrift samningsins er „Lánssamningur í erlendum myntum“. Í grein 2.1 í samningnum kemur fram að lána eigi „að jafnvirði allt að íslenskar krónur 100.000.000 [...] í þeirri mynt sem lántaki óskar eftir“. Lánið skyldi samkvæmt grein 2.3 greiðast inn á sex reikninga stefnda í bankanum, en fimm þeirra eru sagðir gjaldeyrisreikningar.

            Til tryggingar á greiðslu skuldarinnar fékk Kaupþing banki hf. handveð í hlutabréfum MP-Fjárfestingarbanka hf., sem síðar fékk heitið MP banki hf. og enn síðar EA fjárfestingarfélag ehf., en við síðastnefndu breytinguna var félaginu jafnframt breytt í einkahlutafélag, að því er virðist á grundvelli 132. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Umrædd hlutabréf voru í eigu stefnda annars vegar og Margeirs Péturssonar hins vegar. Nafnverð hinna veðsettu hlutabréfa nam 77.000.000 kr.

            Þann 13. júní 2005 óskaði stefndi skriflega eftir því á grundvelli lánssamningsins að lán að jafnvirði 33.000.000 kr. yrði greitt út til sín í bandaríkjadölum og lán að jafnvirði 16.000.000 kr. yrði greitt út til sín í evrum. Samkvæmt svokallaðri kaupnótu frá stefnanda voru stefnda samdægurs greiddir 506.144,39 bandaríkjadalir og 203.864,77 evrur inn á tvo gjaldeyrisreikninga stefnda.

            Með tölvubréfi Margeirs Péturssonar, fyrirsvarsmanns stefnda, frá 27. desember 2005 til Kaupþings banka hf. var farið fram á frekari ádrátt samkvæmt lánssamningnum, þ.e. 10.000.000 kr. í íslenskum krónum, 10.000.000 kr. í bandaríkjadölum, 10.000.000 kr. í evrum, 10.000.000 kr. í sterlingspundum og 10.000.000 kr. í japönskum jenum. Í tölvubréfinu segir Margeir síðan að selja þurfi erlendu myntirnar og greiða andvirði lánsins inn á þann reikning stefnda sem skráður var í íslenskum krónum. Í gögnum málsins liggur fyrir svokölluð kaupnóta frá Kaupþingi banka hf. til stefnda, dags. 27. desember 2005. Af henni verður ráðið að fjárhæðirnar hafi verið lagðar inn á fimm mismunandi reikninga stefnda í samræmi við útgreiðslumyntir lánsins, þ.e. fjóra gjaldeyrisreikninga og loks einn reikning sem skráður er í íslenskum krónum. Ágreiningslaust er að stefndi gerði upp að fullu fyrrnefndan lánshluta að fjárhæð 10.000.000 íslenskar krónur með greiðslu í íslenskum krónum 27. nóvember 2007. Er enginn ágreiningur uppi í málinu um þann þátt lánssamningsins.

            Þann 23. maí 2006 var gerður viðauki við lánssamninginn, sem fól einkum í sér framlengingu lánsins og hækkun á vaxtaálagi LIBOR-vaxta og EURIBOR-vaxta úr 2,25% í 2,50%. Aftur var lánið framlengt með viðauka, dags. 23. nóvember 2006. Loks var nýr viðauki samþykktur þann 4. desember 2007, en með honum var samþykkt að framlengja lánið og var vaxtaálag á LIBOR-vexti og EURIBOR-vexti samhliða því hækkað í 2,90%. Skyldi höfuðstóll endurgreiddur með einni afborgun 1. desember 2008. Vextir skyldu greiddir þann 1. desember 2007, 1. júní 2008 og 1. desember 2008. Óumdeilt er að eftir 2. júní 2008 greiddi stefndi ekki frekari afborganir af láninu

            Fjármálaeftirlitið neytti 9. október 2008 heimildar í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Kaupþingi banka hf., víkja stjórn félagsins frá og setja yfir það skilanefnd. Í framhaldi af því var stofnaður Nýi Kaupþing banki hf., sem nú ber heiti stefnanda. Stefnandi tók við ýmsum réttindum og skyldum eldri bankans og er óumdeilt að hann hafi þar á meðal tekið yfir kröfu á hendur stefnda samkvæmt lánssamningnum frá 2. júní 2005.

            Með bréfi stefnanda, dags. 8. júní 2010, var stefnda tilkynnt um að lögfræðideild bankans hefði verið falið að innheimta skuld stefnda samkvæmt lánssamningnum auk tveggja skulda sem tengdust veltureikningi. Í bréfinu er vísað til áðurnefndra handveðsyfirlýsinga stefnda og Margeirs Péturssonar. Síðan segir meðal annars: „Arion banki hf. sem veðhafi samkvæmt framangreindu, tilkynnir yður hér með að verði ofangreindar kröfur ekki greiddar innan 30 daga frá birtingu greiðsluáskorunarinnar, inn á reikning lögfræðideildar bankans [...] mun bankinn láta selja ofangreinda handveðssamninga, leysa til sín eða ganga að þeim á annan hátt, í samræmi við ákvæði handveðssamnings aðila og nýta andvirði þess til þess að greiða niður ofangreindar kröfur.“ Því næst segir: „Hér með er skorað á yður að greiða skuldina eða semja um greiðslu [...] innan 30 daga frá móttöku greiðsluáskorunar þessarar.“

            Með bréfi, dags. 30. júní 2010, svaraði stefndi framangreindu bréfi stefnanda. Þar segir meðal annars að stefndi hafi ítrekað óskað eftir fundum með þar til bærum aðilum til að „fjalla um og semja um mál sín og áframhaldandi viðskipti“. Sú ósk standi enn óbreytt. Einnig segir í bréfinu að geri stefnandi alvöru úr þeim áætlunum sem fram komi í bréfunum, þ.e. að innheimta kröfuna með aðför eða atbeina dómstóla, þá verði tekið til ítrustu varna. Loks er því haldið fram að umræddur lánssamningur innihaldi ólögmæta gengistryggingu.

 

                                                                        II

            Stefnandi byggir kröfur sínar á áðurnefndum lánssamningi nr. 2352 í erlendum myntum milli Kaupþings banka hf., sem lánveitanda, og stefnda, sem lántaka, dags. 2. júní 2005. Stefndi hafi greitt allar vaxtagreiðslur lánsins, nema vaxtagreiðslu sem fallið hafi í gjalddaga 23. nóvember 2007, þ.e. vegna tímabilsins 23. maí 2007 til 23. nóvember 2007.

            Þann 23. nóvember 2007 hafi sá hluti lánsins, sem veittur hafi verið í íslenskum krónum, verið endurgreiddur lánveitanda ásamt vöxtum­. Höfuðstóll þess hluta lánsins, sem veittur hafi verið í erlendum myntum, sé hins vegar ógreiddur frá gjalddaga þann 1. desember 2008. Eftirstöðvar kröfu lánssamningsins á þeim degi hafi numið samtals 13.752.701 JPY, 71.086,22 GBP, 260.382,99 EUR og 511.854,61 USD, sem sé höfuðstóll aðalkröfu stefnanda í málinu.

            Stefndi hafi skuldajafnað kröfu sinni á hendur Kaupþingi banka hf. að fjárhæð 16.356.171 kr. upp í þá kröfu sem málið varði með yfirlýsingu, dags. 30. nóvember 2011. Framangreind greiðsla komi fram í útreikningi sem liggi til grundvallar hverjum kröfulið stefnanda. Þá hafi verið litið til innborgana stefnda að fjárhæð 600.000 kr. og 300.000 kr.

            Stefndi hafi ekki orðið við kröfum stefnanda um greiðslu eftirstöðva lánssamningsins, sbr. meðal annars bréf stefnanda, dags. 8. júní 2010, og sé því stefnanda nauðugur sá kostur að höfða mál þetta til innheimtu eftirstöðva lánssamningsins.

            Stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á því að við undirritun umrædds lánssamnings hafi stofnast lögmæt skuldbinding milli Kaupþings banka hf., nú stefnanda, og stefnda. Lánssamningurinn hafi fallið í gjalddaga 1. desember 2008 án þess að eftirstöðvar kröfunnar á þeim degi hafi verið greiddar. Samkvæmt aðalkröfu sé byggt á því að skuldbinding lánssamningsins sé í erlendum myntum, en í vara-, þrautavara- og þrautaþrautavarakröfu sé byggt á því að skuldbinding samningsins sé gengistryggð í íslenskum krónum, en mismunandi forsendur lagðar til grundvallar útreikningi á eftirstöðvum lánssamningsins.

            Hvað varðar aðalkröfu stefnanda þá tiltekur hann sérstaklega að krafa lánssamningsins, fyrir utan þá kröfu lánssamningsins sem sannanlega hafi verið í íslenskum krónum og uppgreidd 23. nóvember 2007, hafi verið í erlendum myntum, þ.e. USD, JPY, GBP og EUR. Bæði form og efni lánssamningsins bendi eindregið til þess að krafan hafi verið lögmæt krafa í tilgreindum erlendum myntum. Ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu eigi því ekki við um kröfuna. Í yfirskrift lánssamningsins segi að um sé að ræða lán í erlendum myntum. Í grein 2.1 sé lánsfjárhæðin raunar tilgreind sem „að jafnvirði“ 100.000.000 kr. í „þeirri mynt sem lántaki óskar eftir og bankinn samþykkir hverju sinni“, en í grein 2.3 segi að lánsfjárhæðina eigi að greiða í erlendum myntum á erlenda gjaldeyrisreikninga stefnda, sem hafi verið gert, sbr. fyrirliggjandi kaupnótur. Í grein 2.7 komi jafnframt fram að lánið beri að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstandi af, en í því skyni hafi lántaki veitt lánveitanda heimild til að skuldfæra tilgreinda gjaldeyrisreikninga fyrir greiðslum afborgana og vaxta, sbr. grein 2.5 í lánssamningnum. Afborganir vaxta hafi verið inntar af hendi af hálfu stefnda ýmist í hinum erlendu myntum eða í íslenskum krónum, sbr. fyrirliggjandi lánsyfirlit. Því teljist lánið vera lögmætt lán í erlendum myntum, en um þetta sé einnig vísað til dómafordæma Hæstaréttar.

            Dráttarvaxtakrafa stefnanda byggi á grein 3.7 í lánssamningnum.

            Varakrafa stefnanda byggi á því að lánssamningurinn hafi falið í sér gengistryggða skuldbindingu í íslenskum krónum sem eigi að bera þá vexti sem samningurinn sjálfur ákveði að „lánshlutar“ hans í íslenskum krónum eigi að bera. Nánar tiltekið að lánið skuli bera REIBOR-vexti, eins og þeir ákvarðast tveimur virkum bankadögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils, auk vaxtaálags (sem hafi í upphafi lánstíma verið ákveðið 2,25%), sbr. grein 3.3 í lánssamningnum. Í samræmi við framangreint leggi stefnandi fram endurreikning lánssamnings nr. 2352, en þar komi fram að eftirstöðvar lánssamningsins hafi verið 105.268.104 kr. þann 1. desember 2008.

            Þrautavarakrafa stefnanda byggi einnig á því að skuldbinding lánssamnings nr. 2352 feli í sér gengistryggða skuldbindingu í íslenskum krónum sem eigi að bera REIBOR-vexti, eins og þeir ákvarðist tveimur virkum bankadögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils, auk vaxtaálags (sem hafi í upphafi lánstíma verið ákveðið 2,25%), sbr. grein 3.3 í lánssamningnum. Aftur á móti byggi þrautavarakrafa stefnanda á því, andstætt við varakröfu stefnanda, að stefnanda sé ekki heimilt, við endurreikning lánsins, að krefja stefnda um viðbótargreiðslu vaxta. Því eigi stefndi að njóta þess þegar hann hafi fullnaðarkvittun fyrir greiðslu vaxta lánsins og stefnandi geti ekki krafið stefnda um frekari vaxtagreiðslur vegna tímabila sem slíkar fullnaðarkvittanir ná til. Nánar tiltekið séu þau tímabil þar sem stefndi hafi ekki fullnaðarkvittun vaxta, 23. maí 2007 til 23. nóvember 2007 (en þá sé reiknuðum vöxtum að fjárhæð 7.275.381 kr. bætt við höfuðstól í endurreikningi lánsins) og 30. nóvember 2008 til 1. desember 2008 (en þá sé reiknuðum vöxtum að fjárhæð 45.499 kr. bætt við höfuðstól í endurreikningi lánsins).

            Þrautaþrautavarakrafa stefnanda byggi einnig á því að krafa umrædds lánssamnings sé gengistryggð krafa í íslenskum krónum. Krafan byggi aftur á móti á því að krafa lánssamningsins eigi að bera vexti samkvæmt 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, þ.e. óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands, sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001. Jafnframt byggi krafan á því að stefnanda sé ekki heimilt að krefja stefnda um viðbótargreiðslu vaxta í endurreikningi lánsins. Því eigi stefndi að njóta þess þegar hann hafi fullnaðarkvittun fyrir greiðslu vaxta lánsins og stefnandi geti ekki krafið stefnda um frekari vaxtagreiðslur vegna tímabila sem slíkar fullnaðarkvittanir nái til.

            Um lagarök sé vísað til almennra reglna kröfuréttar og meginreglna samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga, sbr. lög nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Um aðild stefnanda vísist til 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Dráttarvaxtakrafa styðjist meðal annars við 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. jafnframt ákvæði umrædds lánssamnings.

 

                                                                        III

            Stefndi byggir kröfu sína um sýknu aðallega á því að engin krafa sé fyrir hendi þar sem stefnandi hafi á miðju ári 2010 gengið að þeim veðum sem hann hefði haft til tryggingar skuldinni. Um hafi verið að ræða hlutabréf í MP banka hf., að nafnverði 77.000.000 kr.

            Í umræddum handveðsyfirlýsingum komi skilmerkilega fram að verði vanskil á skuld sem veðandlagið eigi að tryggja geti stefnandi, að undangenginni greiðsluáskorun, notað andvirði veðsins í hluta eða heild til fullnustu þeirrar kröfu sem veðandlagið eigi að tryggja. Þá komi fram að stefnandi geti valið annan af tveimur kostum til fullnustu á kröfum sínum, taki hann veðandlagið til sín. Annars vegar geti stefnandi látið selja veðandlagið, eins og það sé á hverjum tíma, á hverjum þeim skipulega verðbréfamarkaði sem stefnandi ákveði, og ráðstafað andvirði þess, að því marki sem þörf sé, til greiðslu þeirrar kröfu sem veðandlagið tryggi. Hins vegar geti stefnandi leyst til sín veðandlagið, að því marki sem þörf sé, til fullnustu á þeirri kröfu sem veðandlagið tryggi. Enn fremur komi fram í umræddum handveðsyfirlýsingum að þeim hluta inneignar veðsala sem ekki teljist þörf á til greiðslu á kröfum stefnda við stefnanda, samkvæmt framangreindum tveimur kostum, skuli stefnandi skila til stefnda innan sjö sólarhringa frá því að ljóst sé að hvaða marki þurfi að fullnusta veðandlagið.

            Fyrir liggi að lán stefnda hafi verið í vanskilum frá 1. desember 2008. Hefði stefnandi því strax í upphafi ársins 2009 getað, og átt, að fullnusta þau veð sem hann hafi haft til tryggingar efndum lánssamningsins, enda hefði stefnandi þá þegar hafið innheimtu skuldarinnar. Þetta virðist stefnandi hins vegar ekki hafa gert. Verði slík vanræksla stefnanda ekki lögð á stefnda. Stefnandi hafi ákveðna trúnaðarskyldu gagnvart stefnda við framkvæmd ákvæða lánssamningsins. Það sé almenn og viðkennd regla við gerð, framkvæmd og slit samninga að aðilum beri að sýna viðsemjendum sínum heiðarleika, tillitssemi og eðlilega sanngirni við samningsgerð og túlkun og framkvæmd samninga. Í því felist m.a. að samningsaðili megi ekki láta eigin hagsmuni ráða einhliða athöfnum sínum eða athafnaleysi, heldur verði hann að taka tillit til hagsmuna viðsemjenda sinna. Þá beri samningsaðila að koma fram af heiðarleika gagnvart viðsemjendum sínum og nýta sér ekki með óréttmætum eða ósanngjörnum hætti aðstöðu sína gagnvart þeim. Gera beri ríkari kröfur til banka og lánastofnana að þessu leyti. Að þessu virtu liggi fyrir að sú skylda hafi hvílt á stefnanda að leysa til sín þær tryggingar sem hann hafi haft til fullnustu lánssamningsins eins fljótt og mögulegt væri og takmarka þannig mögulegt tjón sitt eða tjónshættu, enda liggi fyrir að bæði hagsmunir stefnanda og stefnda hafi staðið til þess að slíkt yrði gert.

            Í máli þessu liggi fyrir að stefndi hafi orðið fyrir umtalsverðu tjóni vegna stórkostlegs hirðuleysis stefnanda. Í þessu samhengi beri að minnast á það að stefndi hafi verið stærsti hluthafi í hinu veðsetta hlutafélagi sem hafi á þessum tíma verið í beinni samkeppni við stefnanda. Töluverð viðskipti hafi verið með hlutabréf hins veðsetta hlutafélags á þessum tíma og hefði stefndi því auðveldlega getað fengið kröfuna að fullu greidda með innlausn veða.

            Að teknu tilliti til upplýsinga í ársreikningi MP banka hf. fyrir árið 2009 þá hafi verðmæti hinna veðsettu hlutabréfa ekki verið minna en 385.000.000 kr., þ.e. umtalsvert hærri fjárhæð en uppgreiðsluverðmæti lánsins á árinu 2009, jafnvel þótt gengið yrði út frá því að lánið hefði verið lögmætt gengistryggt lán. Ljóst sé því samkvæmt þessu að stefnandi hefði hæglega getað fengið lán sitt að fullu greitt hefði hann sinnt innheimtu sinni sem skyldi.

            Þrátt fyrir það að stefnandi hafi ekki, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, innleyst hin veðsettu hlutabréf strax árið 2009 þá liggi fyrir að stefnandi innleysti þau í júlí 2010, sbr. bréf, dags. 8. júlí 2010, þar sem stefnda hafi verið tilkynnt með fyrirvaralausum og bindandi hætti að stefnandi myndi láta selja umrædda handveðssamninga, leysa þá til sín eða ganga að þeim á annan hátt, ef skuld stefnda samkvæmt lánssamningnum yrði ekki að fullu uppgerð innan 30 daga frá birtingu bréfsins. Með þessu bréfi hafi stefnandi tilkynnt stefnda með fyrirvaralausum og bindandi hætti að stefnandi hefði ákveðið að nýta sér andvirði hinna veðsettu hlutabréfa til fullnustu á kröfum sínum í samræmi við heimild handveðssamninga. Ekki komi fram í stefnu með hvaða hætti stefnandi leysti til sín bréfin, þ.e. hvort bréfin eru enn í eigu stefnanda eða hvort stefnandi nýtti samningsbundna heimild sína til þess að selja hin veðsettu hlutabréf. Í öllu falli sé ljóst að verðmæti hinna veðsettu hlutabréfa á þessum tíma nægði til að greiða kröfuna að fullu. Þannig megi ráða af ársreikningi MP banka hf. fyrir árið 2010 að verðmæti umræddra hluta hafi numið hærri fjárhæð en skuld stefnda við stefnanda.

            Stefndi hafi því ekki getað annað en verið í góðri trú um það að stefnandi hefði innleyst veðin. Feli þessi tilkynning stefnanda því óumdeilanlega í sér bindandi yfirlýsingu um innlausn hinna veðsettu hlutabréfa. Stefnandi geti þar með á engan hátt borið því við nú, vegna eigin vanrækslu, að veðin hafi ekki verið innleyst, sbr. einnig eðlilega viðskiptahætti og venjur samkvæmt 19. gr. laga nr. 161/2002. Ljóst sé að hin stórkostlega vanræksla stefnanda hafi valdið stefnda tjóni og með réttu ætti stefndi því skaðabótakröfu á hendur stefnanda vegna þessarar háttsemi. Fyrir liggi a.m.k. að skuld stefnanda við stefnda sé að fullu greidd með innlausn veða og beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

            Verði ekki fallist á þessa málsástæðu þá byggi stefndi á því að raunverulegt verðmæti umræddra hlutabréfa eigi að koma til frádráttar kröfunni. Jafnvel þó fallist yrði á að stefnandi hefði ekki leyst til sín hin veðsettu hlutabréf í júlí 2010, þá gæti stefnandi ekki fengið dóm fyrir kröfu sinni þar sem hann eigi enn eftir að leysa til sín hin veðsettu hlutabréf. Sé endanleg fjárhæð kröfu stefnanda af þessum sökum með öllu óljós. Beri af þessum sökum að vísa þessu máli frá dómi ex officio.

            Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda á grundvelli innlausnar fyrirliggjandi veða þá krefst stefndi sýknu af aðalkröfu stefnanda þar sem umrætt lán feli í sér ólögmæta gengistryggingu, sbr. lög nr. 38/2001. Einsýnt sé að bæði form og efni lánssamningsins, sem og atvik er varði útborganir og innborganir á lánið, beri það eindregið með sér að um sé að ræða lán með ólögmætri gengistryggingu. Í fyrsta lagi þá breyti engu þó fram komi í fyrirsögn lánssamningsins að um sé að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 603/2010. Í öðru lagi þá sé lánsfjárhæðin einungis tilgreind í íslenskum krónum í lánssamningi aðila og hvergi komi fram hver fjárhæð þess sé í öðrum gjaldmiðlum eða hvernig lánið bindist eða reiknist í erlendum gjaldmiðlum. Það að lánsfjárhæðin sé tilgreind sem jafnvirði fjárhæðar í íslenskum krónum geti með engu móti talist vera staðfesting eða samþykki stefnda við því að skuldin hafi verið í erlendum gjaldmiðlum, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 603/2010 og 155/2010. Enn fremur beri til þess að líta að hvergi í lánssamningi aðila var tekið fram að hlutfall lánsins þyrfti að vera í einhverjum erlendum gjaldmiðlum fremur en íslenskum krónum, hvaða fjárhæð eða hlutfall lánsins ætti að vera í íslenskum krónum eða hvaða fjárhæð eða hlutfall ætti að vera í erlendum gjaldmiðlum. Þess í stað hafi eina fjárhæðin sem tilgreind hafi verið í samningnum verið í íslenskum krónum. Í þriðja lagi þá breyti kaupnótur sem stefnandi hafi lagt fram engu um gildi samningsins og að um hafi verið að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum, sbr. fyrrnefnda dóma Hæstaréttar. Í raun hafi það verið svo að í kvittunum sem stefnandi hafi fengið fyrir ádrætti á lánið hafi útborgunarfjárhæðin verið tilgreind bæði í erlendum gjaldmiðlum og íslenskum krónum. Enn fremur þá komi fram í beiðni stefnda um útborgun, dags. 13. júní 2005, að stefndi óski eftir útborgun samkvæmt lánssamningi í USD að jafnvirði kr. 33.000.000 og í EUR að jafnvirði kr. 16.000.000. Í beiðni stefnda um útborgun lánsins, dags. 27. desember 2005, komi svo fram að hann óski eftir að fá útborgun í erlendum gjaldmiðlum að jafnvirði 10.000.000 kr.í USD, 10.000.000 kr. í EUR, 10.000.000 kr. í GBP og 10.000.000 kr.í JPY og að leggja eigi fjárhæðina inn á reikning 306-26-29 í íslenskum krónum. Ljóst sé því samkvæmt þessu að stefndi hafi fengið lánað í íslenskum krónum en ekki í erlendum gjaldmiðlum þó svo að reynt hafi verið að klæða lánið í annan búning. Það að útborganir lánsins hafi verið lagðar inn á gjaldeyrisreikninga stefnda helgist af þeirri staðreynd að stefndi átti umrædda reikninga til. Hefði svo ekki verið þá hefðu útborganir væntanlega verið lagðar beint inn á reikning stefnda í íslenskum krónum. Ljóst sé að tilgangur stefnda hafi alltaf verið að fá greitt í íslenskum krónum. Í fjórða lagi þá hafi stefndi ýmist greitt innborganir og vaxtagreiðslur af láninu í íslenskum krónum eða erlendum myntum.

            Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar ráðist niðurstaða um það hvort lán sé í raun í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum oftast af ákveðnu heildarmati fremur en formi lánssamnings. Fyrrgreind atriði renni frekar stoðum undir það að um hafi verið að ræða lán í íslenskum krónum en ekki í erlendum gjaldmiðlum. Ef lánið hefði í raun verið í erlendum gjaldmiðlum þá hefði tilgreining stefnanda í lánssamningi um jafnvirði og fjárhæð í íslenskum krónum verið með öllu óþörf. Þá hafi engin fjárhæð verið tilgreind í lánssamningnum önnur en fjárhæð hans í íslenskum krónum og engin skipting eða fjárhæð þeirra gjaldmiðla, sem lánað hafi verið í, tilgreind. Þá sé heldur ekkert tilgreint um það hvert hlutfall lánsins eða fjárhæð þess sé í íslenskum krónum og hvert hlutfall þess eða fjárhæð sé í erlendum gjaldmiðlum. Enn fremur liggi fyrir að stefndi greiddi innborganir á lánið ekki í viðkomandi erlendum gjaldmiðli. Þá eigi tilvitnaðir dómar Hæstaréttar, sem stefnandi byggi á í stefnu, ekki við í þessu máli með vísan til þess er að framan greini. Því beri að sýkna stefnda af aðalkröfu stefnanda.

            Með vísan til ólögmætrar gengistryggingar og 18. gr. laga nr. 38/2001 geti stefnandi í öllu falli ekki miðað við þá vexti sem ákveðið væri að lánshluti hans í íslenskum krónum hefði átt að vera. Þá geti stefnandi ekki krafið stefnda um viðbótargreiðslu vaxta fyrir liðinn tíma. Samkvæmt meginreglu kröfuréttar eigi kröfuhafi sem fái minna greitt en hann eigi rétt til í lögskiptum aðila rétt til viðbótagreiðslu úr hendi skuldara. Frá þessari meginreglu séu hins vegar þær veigamiklu undantekningar að fullnaðarkvittun kröfuhafa fyrir greiðslu geti valdið því að hann glati rétti sínum til viðbótargreiðslu. Í máli þessu liggi fyrir að stefndi greiddi tilteknar vaxtagreiðslur af láninu. Í öllum þeim tilvikum hafi stefnandi tekið athugasemdalaust við greiðslum og fært til innborgunar á lánið. Hafi stefndi verið í góðri trú um að umræddar greiðslur fælu í sér fullnaðargreiðslu vaxta fyrir umrætt tímabil enda hafi stefndi greitt umræddar greiðslur samkvæmt greiðslukröfu stefnanda sem byggt hafi á einhliða útreikningi hans á fjárhæðinni. Slík fyrirvaralaus viðtaka stefnanda á greiðslum stefnda jafngildi því fullnaðarkvittun fyrir umræddum greiðslum. Þá sé til þess að líta að stefnandi sé stórt fjármálafyrirtæki sem boðið hafi stefnda lánakjör og lánsskilmála sem stefnandi hafi ákveðið einhliða. Standi það því stefnanda nær að bera þann vaxtamun sem hlotist hafi af hinni ólögmætu gengistryggingu lánsins, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012. Því beri að sýkna stefnda af varakröfu stefnanda.

            Þá krefjist stefndi þess að hann verði sýknaður af þrautavarakröfu stefnanda með vísan til framangreindra röksemda.

            Stefndi mótmæli ekki sérstaklega útreikningi eða fjárhæð þrautaþrautavarakröfu stefnanda miðað við gefnar forsendur hans. Stefndi byggi þó á því að sýkna beri hann af þessari kröfu á þeirri forsendu að krafan sé að fullu greidd með innlausn stefnanda á þeim veðum er stóðu til tryggingar efndum lánssamningsins.

            Þá hafni stefndi og mótmæli í öllum tilvikum dráttarvaxtakröfum stefnanda. Stefndi hafi ítrekað óskað eftir því við stefnanda að gengið yrði til samninga um uppgjör lánsins svo með einhverjum hætti væri hægt að koma því í skil. Stefnandi hafi aldrei sýnt nein viðbrögð eða vilja til samninga um málið, þrátt fyrir ítrekaðar óskir stefnda þar um. Stefnandi geri kröfu um dráttarvexti frá 15. september 2012 en ljóst sé að engin rök eða efni standi til þess að dráttarvextir greiðist fyrir umræddan tíma þar sem stefnda verði ekki kennt um að lánið hafi verið í vanskilum svo lengi sem raun beri vitni. Slík atvik verði rakin til seinagangs og hirðuleysis stefnanda við innheimtuaðgerðir og ekki sé hægt að leggja hallann af því á stefnda. Af þessum sökum hafni stefndi því að lánið eigi að bera dráttarvexti, sbr. 7. gr. laga nr. 38/2001, heldur eigi samningsvextir, eða eftir atvikum aðrir lögbundnir vextir, eingöngu að bætast við lánið.

            Þá mótmæli stefndi sérstaklega þeim dráttarvöxtum er stefnandi geri kröfu um í vara- og þrautavarakröfu sinni. Þar sem lánið hafi í raun verið lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu þá geti samningsbundnir dráttarvextir eða aðrir dráttarvextir en kveðið sé á um í lögum nr. 38/2001 ekki gilt um lánið, sbr. 18. gr. sömu laga.

            Stefndi byggi varakröfu sína, um verulega lækkun á kröfum stefnanda, á öllum sömu málsástæðum og sjónarmiðum og vísað er til í sýknukröfu. Verði ekki fallist á það að innlausnarverðmæti hinna veðsettu hlutabréfa hafi nægt til greiðslu skuldarinnar að fullu þá eigi innlausnarverð hinn veðsettu bréfa í öllu falli að koma til frádráttar kröfu stefnanda. Verði aftur á móti ekki fallist á það að hin veðsettu hlutabréf hafi verið innleyst beri að lækka fjárhæð þeirrar kröfu sem stefnandi eigi á hendur stefnda um það sem nemi raunvirði hinna veðsettu hlutabréfa.

            Um lagarök vísi stefndi sérstaklega til meginreglna samningaréttar og kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga, laga nr. 161/2002, laga nr. 38/2001 og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

                                                           

                                                                        IV

            Fyrir liggur að Kaupþing banki hf. og stefndi gerðu með sér umræddan lánssamning 2. júní 2005. Þá er ágreiningslaust að stefnandi tók síðar yfir kröfu Kaupþings banka hf. á hendur stefnda samkvæmt lánssamningnum. Stefndi byggir, eins og áður segir, á því að stefnandi hafi notfært sér fyrirliggjandi handveðsyfirlýsingar stefnda og Margeirs Péturssonar, fyrirsvarsmanns stefnda, með því að leysa í júlí 2010 til sín hlutabréf í MP banka hf., sem nú ber heitið EA fjárfestingarfélag ehf. Þannig sé engri kröfu lengur til að dreifa á hendur stefnda samkvæmt lánssamningnum frá 2. júní 2005. Þetta telur stefndi að megi ráða af bréfi stefnanda, dags. 8. júní 2010, til stefnda. Í umræddu bréfi segir meðal annars að verði krafa stefnanda samkvæmt lánssamningnum ekki greidd innan 30 daga þá muni stefnandi notfæra sér veðréttindi sín á grundvelli áðurnefndra handveðsyfirlýsinga og nýta til að greiða inn á skuldir stefnda gagnvart stefnanda. Stefndi heldur því fram að hann hafi því verið í góðri trú um það að stefnandi hefði innleyst veðin. Í niðurlagi bréfsins segir reyndar einnig að skorað sé á stefnda að greiða skuldina eða semja um greiðslu innan 30 daga.

            Þrátt fyrir framangreindan málatilbúnað stefnda brást hann við fyrrnefndu erindi stefnanda með svarbréfi, dags. 30. júní 2010, þar sem ítrekaður var vilji stefnda til að semja um mál félagsins gagnvart stefnanda. Verður ekki annað séð en að það bréf hafi verið í samræmi við þann valkost sem stefnandi tefldi fram í áðurnefndu bréfi sínu frá 8. júní 2010, þar sem stefndi var hvattur til að greiða skuldina eða semja um greiðslu innan 30 daga. Í síðara bréfi stefnda, dags. 13. janúar 2011, til stefnanda er auk þess vísað til lánsins og rætt um frekari veð sem stefndi kunni að geta boðið stefnanda vegna „óvissu um verðmæti eigna [stefnda] og þar með þeirra veða og trygginga“ sem stefnandi hafi „nú þegar fyrir skuldum“ stefnda. Verður ekki ráðið af framangreindum bréfaskiptum að stefndi hafi í reynd staðið í þeirri trú að stefnandi hefði gengið að umræddum veðum árið 2010.

            Við þetta má bæta að í lið nr. 8 í ársreikningi stefnda fyrir árið 2011 kom fram að félagið ætti enn eignarhlut í EA fjárfestingarfélagi ehf. Þar sagði einnig að síðarnefnda félagið hefði átt í samningaviðræðum við kröfuhafa en niðurstaða lægi ekki fyrir. Því væri eignarhluturinn í því félagi færður að fullu niður í varúðarskyni, þ.e. bókfærður sem 0 krónur. Í lið nr. 9 í ársreikningnum sagði einnig að eignir stefnda í hlutabréfum annarra félaga stæðu til tryggingar á skuldum þess við lánastofnanir. Þá ber ársreikningur EA fjárfestingarfélags ehf. fyrir árið 2011 með sér að stefndi hafi enn verið skráður hluthafi í félaginu á þeim tíma.

            Að öllu framangreindu virtu gefur ekkert í gögnum málsins til kynna að stefnandi hafi í reynd gengið að umræddum handveðum. Þá ber að hafna þeim málatilbúnaði stefnda að stefnanda hafi beinlínis verið skylt að ganga að umræddum veðum, enda gat stefnandi samkvæmt umræddum handveðsyfirlýsingum sjálfur metið hvort og að hvaða marki hann nýtti sér veðréttindin. Þannig gat hann metið hvort veita ætti stefnda ákveðna umlíðan í þessum efnum, eins og stefndi virðist raunar hafa sóst sérstaklega eftir, sbr. til dæmis áðurnefnt bréf hans til stefnanda, dags. 13. janúar 2011. Þá verður bréf stefnanda, dags. 8. júní 2010, til stefnda ekki skilið á þann veg að stefnandi hafi skuldbundið sig til að leysa til sín veðréttindin sem fólust í hlutum í EA fjárfestingarfélagi ehf. Þvert á móti gerði bréfið ráð fyrir því að stefnandi gæti, eins og áður segir, samið við stefnda og var stefndi raunar hvattur til samningaviðræðna hygðist hann ekki greiða skuld sína innan 30 daga. Með vísan til framangreindra röksemda um efni fyrirliggjandi handveðsyfirlýsinga verður heldur ekki fallist á þá málsástæðu stefnda að stefnandi geti ekki hlotið dóm fyrir allri kröfu sinni samkvæmt lánssamningnum vegna þess eins að hann njóti veðréttinda sem hann hafi ekki enn kosið að notfæra sér.

            Stefndi byggir einnig á því að umræddur lánssamningur feli í sér ólögmæta gengistryggingu. Umtalsverð dómaframkvæmd Hæstaréttar liggur fyrir um margvíslega lánssamninga þar sem deilt hefur verið um það hvort um væri að ræða lögmæt lán í erlendum gjaldmiðlum eða lánssamninga sem bundnir væru ólögmætri gengistryggingu. Við úrlausn þeirra mála hefur fyrst og fremst verið byggt á skýringu á texta viðkomandi lánssamnings þar sem lýst er skuldbindingu þeirri sem lántaki gengst undir. Í þeim tilvikum þegar textaskýring tekur ekki af skarið um það hvers efnis lánssamningurinn er hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hann hefur verið efndur og framkvæmdur að öðru leyti, sbr. dóm Hæstaréttar frá 15. janúar 2015 í máli nr. 409/2014. Verður nú vikið að megineinkennum lánssamningsins frá 2. júní 2005.

            Yfirskrift samningsins er, eins og áður segir, „Lánssamningur í erlendum myntum“. Í grein 2.1 í samningnum kemur fram að lána eigi „að jafnvirði allt að íslenskar krónur 100.000.000 [...] í þeirri mynt sem lántaki óskar eftir“. Lánið skyldi samkvæmt grein 2.3 greiðast inn á sex reikninga stefnda í bankanum, en fimm þeirra eru sagðir gjaldeyrisreikningar. Ef stefndi óskaði eftir útgreiðslu í annarri mynt skyldi hann stofna gjaldeyrisreikning í viðkomandi mynt og fá lánið greitt á þann reikning. Samkvæmt grein 2.5 heimilaði stefndi lánveitanda að skuldfæra áðurnefnda bankareikninga sína fyrir greiðslum afborgana og vaxta. Samkvæmt grein 2.7 bar stefnda að endurgreiða lánið í þeim gjaldmiðlum sem það samanstæði af. Þar kemur einnig fram að verði greitt í íslenskum krónum þá skuli greitt samkvæmt sölugengi bankans. Í 3. kafla samningsins er fjallað um vexti af láninu, sbr. greinar 3.1, 3.2 og 3.3. Þar segir að lánshlutar í öðrum myntum en evrum skuli bera breytilega vexti, þ.e. LIBOR-vexti að viðbættu 2,25% vaxtaálagi. Lánshlutar í evrum skuli einnig bera breytilega vexti, þ.e. EURIBOR-vexti að viðbættu 2,25% vaxtaálagi. Loks skuli lánshlutar í íslenskum krónum jafnframt bera breytilega vexti, þ.e. REIBOR-vexti að viðbættu 2,25% vaxtaálagi. Eins og að framan greinir þá var vaxtaálag á LIBOR-vexti og ERUIBOR-vexti tvívegis hækkað með viðaukum eftir gerð lánssamningsins.

            Hinn 13. júní 2005 óskaði stefndi skriflega eftir því á grundvelli lánssamningsins að fá greitt út lán að jafnvirði 33.000.000 kr. í bandaríkjadölum og lán að jafnvirði 16.000.000 kr. í evrum. Samkvæmt svokallaðri kaupnótu frá stefnanda voru stefnda samdægurs greiddir 506.144,39 bandaríkjadalir og 203.864,77 evrur inn á tvo gjaldeyrisreikninga stefnda.

            Með tölvubréfi Margeirs Péturssonar, fyrirsvarsmanns stefnda, frá 27. desember 2005 til Kaupþings banka hf. var farið fram á frekari ádrátt samkvæmt lánssamningnum, þ.e. 10.000.000 kr. í íslenskum krónum, 10.000.000 kr. í bandaríkjadölum, 10.000.000 kr. í evrum, 10.000.000 kr. í sterlingspundum og 10.000.000 kr. í japönskum jenum. Í tölvubréfinu segir Margeir síðan að selja þurfi erlendu myntirnar og greiða andvirði lánsins inn á þann reikning stefnda sem skráður var í íslenskum krónum. Í gögnum málsins liggur fyrir svokölluð kaupnóta frá Kaupþingi banka hf. til stefnda, dags. 27. desember 2005. Af henni verður ráðið að fjárhæðirnar hafi verið lagðar inn á fimm mismunandi reikninga stefnda í samræmi við útgreiðslumyntir lánsins, þ.e. fjóra gjaldeyrisreikninga og loks einn reikning sem skráður er í íslenskum krónum. Ágreiningslaust er að stefndi gerði upp að fullu fyrrnefndan lánshluta að fjárhæð 10.000.000 íslenskar krónur með greiðslu í íslenskum krónum 27. nóvember 2007. Er enginn ágreiningur uppi í málinu um þann þátt lánssamningsins.

            Í málinu liggur fyrir svokallað lánayfirlit stefnda hjá stefnanda, dags. 28. febrúar 2011. Skjalið var lagt fram af stefnanda en stefndi hefur ekki vefengt þær upplýsingar sem þar koma fram. Í skjalinu eru greiðslur stefnda af lánssamningnum frá 2. júní 2005 raktar. Verður ekki annað ráðið af þeim gögnum en að stefndi hafi iðulega greitt þá hluta lánsins, sem skráðir voru í erlendri mynt, í viðkomandi mynt. Í öðrum tilvikum greiddi stefndi þó afborganir með íslenskum krónum sem þá voru umreiknaðar á þáverandi gengi í þá mynt sem greiða átti.

            Þegar litið er til orðalags lánssamningsins frá 2. júní 2005 sem og þess hvernig hann hefur verið efndur og framkvæmdur verður ekki annað ráðið en að það lán sem eftir standi sé gild samningsskuldbinding í erlendum myntum, sem ekki falli undir reglur VI. kafla laga nr. 38/2001 um heimildir til verðtryggingar lánsfjár í íslenskum krónum, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 15. júní 2012 í máli nr. 3/2012 og dóm Hæstaréttar frá 1. nóvember 2012 í máli nr. 66/2012. Ber því að hafna þeirri málsástæðu stefnda að sýkna beri hann á þeirri forsendu að krafa stefnanda byggist á ólögmætri gengistryggingu.

            Að öllu framangreindu virtu verður að fallast á það með stefnanda að stefnda beri að greiða eftirstöðvar skuldar samkvæmt umræddum lánssamningi. Fyrir dómi staðfesti lögmaður stefnda að ekki væri ágreiningur um útreikning kröfugerðar stefnanda. Þá er enginn ágreiningur uppi um skuldajöfnuð og innborganir sem stefnandi hefur tekið tillit til í kröfugerð sinni. Í samræmi við þetta verður fallist á aðalkröfu stefnanda, eins og nánar greinir í dómsorði.

            Stefnandi krefst þess að krafan beri nánar tilgreinda dráttarvexti frá 15. september 2012, þ.e. fjórum árum fyrir þingfestingu málsins. Krafa stefnanda um dráttarvexti á sér stoð í grein 3.7 í lánssamningnum frá 2. júní 2005. Ber því að fallast á kröfuna, sbr. einnig til hliðsjónar áðurnefndan dóm Hæstaréttar frá 15. júní 2012 í máli nr. 3/2012, enda er ekki unnt að fallast á málatilbúnað stefnda um viðtökudrátt þar sem stefndi hefur ekki boðið fram greiðslu kröfunnar eða geymslugreitt.

            Eftir þessum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 850.000 kr.

            Af hálfu stefnanda flutti málið Þorsteinn Ingi Valdimarsson lögmaður.

            Af hálfu stefnda flutti málið Saga Ýrr Jónsdóttir lögmaður.

            Dóm þennan kveður upp Arnaldur Hjartarson héraðsdómari. Dómarinn tók við meðferð málsins 19. febrúar sl., en hafði fram til þess engin afskipti haft af meðferð þess.

 

                                                            D Ó M S O R Ð:

            Stefndi, AE Endurheimtur ehf., greiði stefnanda, Arion banka hf., 13.752.701 JPY, 71.086,22 GBP, 260.382,99 EUR og 511.854,61 USD ásamt dráttarvöxtum frá 15. september 2012 til greiðsludags, sem skulu vera 13,91750% af 13.752.701 JPY, 16,96125% af 71.086,22 GBP, 16,83125% af 260.382,99 EUR og 15,46750% af 511.854,61 USD, að frádregnum innborgunum, hinn 1. desember 2011 að fjárhæð 600.000 krónur og 15. janúar 2013 að fjárhæð 300.000 krónur.

            Stefndi greiði stefnanda 850.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                        Arnaldur Hjartarson