• Lykilorð:
  • Sjómenn
  • Slysatrygging

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 10. júlí 2018 í máli nr. E-3357/2016:

X

(Jóhannes Albert Sævarsson lögmaður)

gegn

A og

(Eva Dís Pálmadóttir lögmaður)

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Jón Eðvald Malmquist lögmaður)

 

            Mál þetta, sem var dómtekið 21. júní sl., var höfðað 19. október 2016.

            Stefnandi er X, [...] í [...].

            Stefndu eru A, [...] á [...], og Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3 í Reykjavík.

            Endanlegar dómkröfur stefnanda eru í fyrsta lagi þær að ógiltur verði með dómi starfslokasamningur, dags. 15. júní 2014, á milli stefnda, A, og stefnanda.

            Þá er þess í öðru lagi krafist aðallega að stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., verði dæmdur til greiðslu „bóta úr slysatryggingu sjómanna“, en til vara að stefndi, A, verði dæmdur til greiðslu „bóta sömu fjárhæðar“, eða til greiðslu á kr. 4.644.000, ásamt 4,5% ársvöxtum, þ.m.t. vaxtavöxtum, samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af kr. 216.000 frá 1. ágúst 2014 til 1. september 2014, en af kr. 648.000 frá þeim degi til 1. október 2014, en af kr. 1.080.000 frá þeim degi til 1. nóvember 2014, en af kr. 1.512.000 frá þeim degi til 1. desember 2014, en af kr. 1.944.000 frá þeim degi til 1. janúar 2015, en af kr. 2.376.000 frá þeim degi til 1. febrúar 2015, en af kr. 2.808.000 frá þeim degi til 1. mars 2015, en af kr. 3.240.000 frá þeim degi til 1. apríl 2015, en af kr. 3.672.000 frá þeim degi til 1. maí 2015, en af kr. 4.104.000 frá þeim degi til 1. júní 2015, en af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til 3. desember 2016, en með dráttarvöxtum, þ.m.t. vaxtavöxtum, skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum kr. 2.692.296, sem greiddar voru stefnanda vegna umkrafins bótatímabils frá 17. júlí 2014 til 15. maí 2015, eða kr. 50.913 þann 1. ágúst 2014, kr. 339.859 þann 1. september 2014, kr. 269.761 þann 1. október 2014, kr. 351.760 þann 1. nóvember 2014, kr. 253.360 þann 1. desember 2014, kr. 234.913 þann 1. janúar 2015, kr. 361.702 þann 1. febrúar 2015, kr. 242.483 þann 1. mars 2015, kr. 264.988 þann 1. apríl 2015, kr. 306.559 þann 1. maí 2015 og kr. 15.998 þann 1. júní 2015, eða samtals kr. 2.692.296.

            Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., verði dæmdur til greiðslu „bóta úr slysatryggingu sjómanna“, en til þrautaþrautavara að stefndi, A, verði dæmdur til greiðslu „bóta sömu fjárhæðar“, eða til greiðslu á kr. 4.133.531, ásamt 4,5% ársvöxtum, þ.m.t. vaxtavöxtum, samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 af kr. 165.580 frá 1. ágúst 2014 til 1. september 2014, en af kr. 583.259 frá þeim degi til 1. október 2014, en af kr. 1.000.938 frá þeim degi til 1. nóvember 2014, en af kr. 1.418.617 frá þeim degi til 1. desember 2014, en af kr. 1.836.296 frá þeim degi til 1. janúar 2015, en af kr. 2.253.975 frá þeim degi til 1. febrúar 2015, en af kr. 2.671.654 frá þeim degi til 1. mars 2015, en af kr. 3.089.333 frá þeim degi til 1. apríl 2015, en af kr. 3.507.012 frá þeim degi til 1. maí 2015, en af kr. 3.924.691 frá þeim degi til 1. júní 2015, en af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til 3. desember 2016, en með dráttarvöxtum, þ.m.t. vaxtavöxtum, skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum kr. 2.692.296, sem greiddar voru stefnanda vegna umkrafins bótatímabils frá 17. júlí 2014 til 15. maí 2015, eða kr. 50.913 þann 1. ágúst 2014, kr. 339.859 þann 1. september 2014, kr. 269.761 þann 1. október 2014, kr. 351.760 þann 1. nóvember 2014, kr. 253.360 þann 1. desember 2014, kr. 234.913 þann 1. janúar 2015, kr. 361.702 þann 1. febrúar 2015, kr. 242.483 þann 1. mars 2015, kr. 264.988 þann 1. apríl 2015, kr. 306.559 þann 1. maí 2015 og kr. 15.998 þann 1. júní 2015, eða samtals kr. 2.692.296.

            Loks er í öllum tilvikum krafist málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.

            Stefndi, A, krefst aðallega sýknu en til vara lækkunar á kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar auk álags á málskostnað.

            Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., krefst aðallega sýknu en til vara lækkunar á kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar.

 

                                                                        I

            Mál þetta er sprottið af líkamstjóni sem stefnandi varð fyrir á vinstri hendi sinni. Byggir stefnandi á því að hann hafi orðið fyrir slysi við vinnu sína hjá stefnda, A, um borð í rækjubátnum B þann 15. maí 2014, þegar járnslá eða stútur, sem hafi verið hluti af stálrennu, hafi fallið ofan á vinstri hönd hans þegar báturinn var staddur á Húnaflóa. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., vefengir ekki þessa málsatvikalýsingu, en stefndi, A, byggir á því að stefnandi hafi í reynd orðið fyrir slysi áður en hann kom um borð í bátinn og því sé ekki unnt að rekja tjón stefnanda til meints atviks um borð í bátnum.

            Stefnandi viðurkennir að hann hafi vissulega lent í slysi á eigin vegum við flutning búslóðar fjölskyldu sinnar þann 29. apríl 2014, en það slys hafi ekki verið alvarlegt og hafi hann verið laus úr gifsi áður en hann hélt til starfa hjá stefnda, A. Um þetta vísi hann sérstaklega í læknabréf Einars Hjaltasonar, dags. 10. maí 2014.

            Óumdeilt er að engir sjónarvottar voru að því slysi sem stefnandi byggir á að hann hafi orðið fyrir þann 15. maí 2014 um borð í rækjubátnum B. Í gögnum málsins liggur þó fyrir tilkynning C, skipstjóra bátsins, til Sjúkratrygginga Íslands, dags. 30. júlí 2014, undir yfirskriftinni „Tilkynning um slys á sjómanni“. Um er að ræða eyðublað sem samkvæmt efni sínu er ætlað að gera skipstjóra kleift að standa undir þeirri skyldu sinni að „tilkynna öll slys er verða á skipi hans“. Í skjalið er skráð að stefnandi hafi orðið fyrir slysi á bátnum „á siglingu“. Báturinn hafi orðið rafmagnslaus og vélstjóri hafi velt járnslá á hönd stefnanda. Haldið hafi verið til hafnar á Hólmavík í framhaldinu. Í skjalinu er jafnframt að finna texta undir yfirskriftinni „viðbótarupplýsingar vegna bótaskyldra slysa“. Þann hluta skjalsins undirritaði D, framkvæmdastjóri stefnda, A

            Þá er greint frá því í skipsdagbók, undirritaðri af C, að stefnandi hafi farið á heilsugæslustöð til að láta líta á hönd sína sem hann hafi fengið högg á. Hafi stefnandi kennt sér mikilla eymsla. Læknir hafi sett hann í gifs og mælt með segulómskoðun til að kanna hvort um beinbrot væri að ræða.

            Í vottorði Jóns Baldurssonar, læknis á Landspítala, dags. 16. ágúst 2012, segir að stefnandi hafi komið á bráðadeild spítalans 25. maí 2014. Ástæða komunnar hafi verið vinnuslys 15. maí 2014. Stefnandi hafi við komuna verið með verk í úlnlið vinstri handar. Læknirinn lýsir fyrri komu á deildina vegna annars áverka, en þá hafi einkenni verið talin koma frá bátsbeini. Endurteknar röntgenmyndir vegna fyrri áverkans hafi þó ekki sýnt nein brot. Slysið 15. maí hafi atvikast þannig að þungur hlutur hafi dottið á stefnanda, líklega 30 til 40 kg málmhlunkur. Stefnandi hafi haft áhyggjur af því hversu seint það gengi að jafna sig af áverkanum. Nýjar röntgenmyndir af úlnlið og bátsbeini hafi ekki sýnt, frekar en áður, teikn um beinbrot. Teknar hafi verið tölvusneiðmyndir þann 4. júní 2014. Þær hafi sýnt brot í fjærhorni geirstúfsbeins (os trapezium). Brotið hafi verið án tilfærslu en brotalína hafi sést vel og náð inn í liðflöt úlnliðs- og miðhandarlið þumals. Ekki hafi enn verið komið beinbris (callus). Stefnandi hafi aftur leitað á bráðadeild Landspítala þann 23. júlí 2014, en þá hafi hann „fundið smell“ og fengið á ný sáran verk í úlnlið við minni háttar átak. Í samantekt ritar læknirinn að sennilega hafi brot stefnanda orðið við slys hans 15. maí 2014 frekar en við fyrra óhappið en ekki sé þó unnt að segja til um það með óyggjandi hætti.

            Stefnandi og stefndi, A, gerðu með sér starfslokasamning þann 15. júní 2014. Þar kemur fram að aðilar samningsins hafi komist að samkomulagi, „eftir vandlega skoðun á réttindum og skyldum hvors aðila um sig og með utanaðkomandi ráðgjöf“, um að stefnandi fái þegar í stað lausn frá störfum fyrir stefnda, A. Þá segir í samningnum: „Með því að A greiði, eða láti greiða, 350.000 ISK inn á reikning [...] og sýni fram á að innlögn hafi farið fram sunnudaginn 15. júní 2014, á X engar frekari fjárkröfur á A, sama hvaða nafni þær nefnast. Mun umrædd innlögn því teljast til fullnaðaruppgjörs- og kvittunar fyrir því að A hafi staðið við allar sínar fjárskuldbindingar við X og feli því í sér lokauppgjör á slysalaunum, starfslokalaunum og hverjum öðrum fjár-, slysa eða starfskröfum sem hafa (eða gætu haft) með starfssamband X og A að gera.“ Fram kemur í samningnum að stefnandi hafi verið stýrimaður á báti félagsins, og er það raunar óumdeilt í málinu.

            Líkamstjón stefnanda vegna slyssins, sem hann kveðst hafa orðið fyrir, er metið í áliti Magnúsar Páls Albertssonar læknis og Guðmundar Péturssonar lögmanns, dags. 12. nóvember 2015, sem þeir kalla matsgerð. Fram kemur í álitinu að það sé unnið að beiðni stefnanda og stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf. Þar segir að afstaða matsmanna sé að fyrra slys stefnanda, þ.e. svonefnt frítímaslys við flutninga 29. apríl 2014, hafi ekki skilið eftir sig nein einkenni sem áhrif hafi á ástand stefnanda eins og það sé í dag. Stefnandi hafi eftir slysið 15. maí 2014 verið með þráláta verki í vinstri úlnlið og hendi. Í fyrstu hafi ekki verið sýnt fram á neina brotáverka en fljótlega hafi þó komið í ljós á tölvusneiðmyndum að stefnandi hafi verið með ótilfært brot í geirstúfsbeini í vinstri úlnlið. Hann hafi því verið með spelku-umbúðir nokkuð lengi, enda hafi brotið gróið hægt. Stefnandi hafi einnig verið til meðferðar hjá sjúkraþjálfara og tekið bólgueyðandi lyf. Hann hafi gengist undir aðgerð vegna sinaskeiðabólgu „vinstra megin“ í lok október 2014 og gengist undir liðspeglunaraðgerð 16. mars 2015. Sú aðgerð hafi þó engin áhrif haft á líðan tjónþola, hvorki til hins betra né verra. Fram kemur að ekki muni vera fyrirhuguð nein sérstök frekari meðferð á stefnanda, nema ef til vill verkjameðferð.

            Loks segir í skjalinu að heilsufar stefnanda teljist hafa verið orðið stöðugt þegar ár var liðið frá slysinu, þ.e. 15. maí 2015. Tímabundið atvinnutjón stefnanda teljist hafa staðið að fullu leyti frá 15. maí 2014 til 15. maí 2015. Þjáningatími stefnanda með rúmlegu hafi verið tveir dagar en án rúmlegu 364 dagar. Varanlegur miski stefnanda sé metinn 17 stig og varanleg örorka 25%. Fyrst hafi verið tímabært að meta afleiðingar slyssins þann 16. október 2015.

            Áður höfðu þeir Magnús og Guðmundur metið afleiðingar svokallaðs frítímaslyss stefnanda frá 29. apríl 2014, sbr. álit þeirra, dags. 13. ágúst 2015, sem þeir kalla matsgerð. Þar var einnig vikið að vinnuslysinu sem stefnandi byggir á að hann hafi orðið fyrir 15. maí 2014, en ekki þótti tímabært að meta afleiðingar þess. Niðurstaða Magnúsar og Guðmundar varðandi frítímaslysið var sú að stefnandi hefði hlotið tímabundna örorku í 12 daga, en ekki hefði verið um varanlega læknisfræðilega örorku að ræða.

            Með bréfi, dags. 16. desember 2014, hafnaði stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., beiðni stefnanda um bætur úr slysatryggingu sjómanna. Stefnandi bar málið undir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum. Með úrskurði í máli nr. 32/2015 þann 23. mars 2015 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að stefnandi ætti rétt á bótum úr slysatryggingu sjómanna hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. Sagði þó í úrskurðarorði að umfang tjónsins væri enn óljóst. Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. samþykkta úrskurðarnefndarinnar, sem birtar voru með auglýsingu viðskiptaráðuneytis nr. 1090/2005, eru úrskurðir nefndarinnar ekki bindandi fyrir málskotsaðila, sem geta ávallt vísað málum til dómstóla þó að þau hafi farið fyrir nefndina. Þar segir þó einnig að úrskurður nefndarinnar sé bindandi fyrir hlutaðeigandi vátryggingafélag nema félagið tilkynni málskotsaðilanum og nefndinni sannanlega innan tveggja vikna frá því að það fékk úrskurð í hendur að það muni ekki hlíta honum og færi rök fyrir afstöðu sinni. Óumdeilt er að stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., sendi úrskurðarnefndinni ekki slíka tilkynningu.

            Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 26. nóvember 2015, var þess óskað við stefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., að félagið greiddi skaðabætur vegna tjóns stefnanda. Uppgjör, sem stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., kallar fullnaðaruppgjör, fór fram 2. desember 2015, en við það tækifæri greiddi félagið stefnanda 18.369.536 kr. Fram kemur í skjalinu að félagið telji kröfu um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón ekki eiga rétt á sér. Lögmaður stefnanda samþykkti uppgjörið með fyrirvara um meðal annars tímabundið atvinnutjón stefnanda.

            Höfðar stefnandi mál þetta einkum til að fá greiddar bætur vegna tímabundins atvinnutjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir.

            Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu fyrir dómi ásamt D, framkvæmdastjóra A.

 

                                                                        II

            Stefnandi byggir einkum á því að hann hafi orðið fyrir bæði tímabundnu og varanlegu líkamstjóni og fjártjóni, miska og varanlegri örorku af völdum vinnuslyss þann 15. maí 2014 um borð í bátnum B, sem gerður hafi verið út af stefnda, A. Þá sé það málsástæða stefnanda að vinnuslysið sé bótaskylt úr slysatryggingu sjómanna sem stefndi, A., hafi keypt hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. Til vara sé þess krafist að tjón vegna tímabundinnar óvinnufærni skuli bætt af útgerðinni í samræmi við veikindarétt stefnanda og rétt hans til bóta vegna tímabundins tekjutaps af völdum slyssins. Þá sé með matsgerð Magnúsar Páls Albertssonar læknis og Guðmundar Péturssonar lögmanns sannað orsakasamband milli vinnuslyssins 15. maí 2014 og afleiðinga slyssins, þar með talið tímabil tímabundinnar óvinnufærni í eitt ár frá slysdegi.

            Stefnandi reisi kröfur sínar meðal annars á kjarasamningi Landssambands íslenskra útvegsmanna og Sjómannasambands Íslands, en þar segi meðal annars að útgerðin skuli tryggja hvern þann mann sem samningurinn nái til og slasist um borð í skipi eða í beinum tengslum við rekstur skips í samræmi við ákvæði 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985 og að bætur úr vátryggingunni skuli ákvarðast á grundvelli laga nr. 50/1993 með síðari breytingum, leiði það til hærri heildarbóta en samkvæmt 172. gr. laga nr. 34/1985. Um vátryggingu þessa skuli að öðru leyti gilda almennir skilmálar um slysatryggingu sjómanna. Vinnuslysið sem stefnandi hafi orðið fyrir 15. maí 2014 um borð í B falli undir slysatryggingu sjómanna sem stefndi, A, hafi keypt hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf.

            Það sé málsástæða stefnanda að álit úrskurðarnefndar í máli nr. 32/2015, dags. 24. mars 2015, eigi jafnt við um bótaskyldu vegna tímabundinna sem varanlegra afleiðinga af völdum vinnuslyssins 15. maí 2014. Vátryggingafélagið hafi fallist á að bæta stefnanda varanlegar afleiðingar vinnuslyssins eins og þær birtist í matsgerð þeirra Magnúsar Páls Albertssonar læknis og Guðmundar Péturssonar lögmanns. Aftur á móti hafi félagið hafnað bótaskyldu vegna tímabundinnar óvinnufærni sem rekja megi til þessa sama tjónsatviks. Sú staðreynd að félagið hafi ekki sérstaklega tilkynnt um að það hygðist ekki una niðurstöðu úrskurðarnefndar, eins og félaginu hafi borið að gera samkvæmt 4. mgr. 7. gr. samþykkta nr. 1090/2005 fyrir nefndina, bindi félagið jafnt við úrskurðinn, hvort heldur sem litið verði til varanlegra afleiðinga slyssins eða tímabundinna afleiðinga, þar á meðal tímabundins tekjutaps.

            Stefnandi tefli fram gildum rökum gegn þeim starfslokasamningi sem gerður hafi verið þann 15. júní 2014 á milli stefnanda og stefnda, A. Líti stefnandi svo á að víkja eigi þessum samningi til hliðar þar sem ósanngjarnt sé og andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Neyð stefnanda hafi verið mikil þegar samningurinn hafi verið undirritaður.

            Starfslokasamningurinn beri það með sér að stefndi, A, hafi ekki ætlað að gera upp launakröfu stefnanda eða laun hans í veikindum, nema því aðeins að stefnandi afsalaði sér áður frekari réttindum til launa í veikindum og öllum öðrum kröfum vegna vinnuslyssins 15. maí 2014. Slíkur samningur standist ekki ákvæði III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og sé því í engu skuldbindandi fyrir aðila.

            Stefnandi vísi þó til þess að í starfslokasamningnum segi að hann sé lokauppgjör á slysalaunum, starfslokalaunum og hverjum öðrum fjár-, slysa- eða starfskröfum sem hafi með starfssamband stefnanda og stefnda, A, að gera. Með því renni samningurinn stoðum undir það að stefnandi hafi í reynd orðið fyrir slysi sem starfsmaður stefnda, A, og að hann hafi átt og eigi kröfur og réttindi vegna slyssins er tengist starfi hans fyrir útgerðina. Gerð starfslokasamningsins hafi augljóslega ekki verið beggja hagur, eins og gefið sé í skyn í inngangi að samningnum. Þá hafi verið til staðar fákunnátta hjá stefnanda um réttarstöðu sína, veikindarétt í forföllum vegna vinnuslyssins, slysabætur og önnur atriði er varðað hafi réttarasamband hans og útgerðarinnar við þær aðstæður sem uppi hafi verið vegna vinnuslyssins, enda hafi hann engrar utanaðkomandi ráðgjafar notið við gerð starfslokasamningsins þótt látið sé að því liggja í hinum sama inngangi.

            Þeirri staðhæfingu stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., að stefnandi hafi upplýst lögmann sinn um að til stæði að undirrita starfslokasamning 15. júní 2014 og að hann hafi leitað sér ráðgjafar vegna þess sé mótmælt sem rangri. Umboðið hafi verið veitt vegna væntanlegra samskipta lögmannsins við vátryggingafélagið, en ekki vegna uppgjörs eða starfsloka stefnanda hjá stefnda, A. Þáverandi lögmanni stefnanda hafi því ekki verið kunnugt um að til stæði að gera umræddan starfslokasamning.

            Stefnandi hafi leitað til stefnda, A, 15. júní 2014 í þeim tvíþætta tilgangi að fá uppgerð áunnin laun og laun í veikindum vegna vinnuslyssins og þá einnig til að knýja á um að fyrirsvarsmaður félagsins tilkynnti slysið til Sjúkratrygginga Íslands, eins og vinnuveitanda hafi borið að gera að eigin frumkvæði, sbr. 6. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga, sbr. einnig 16. gr. laga nr. 18/2013 um rannsókn samgönguslysa. Áður en til uppgjörsins hafi komið og áður en slysið hafi verið tilkynnt þá skyldi stefnandi fallast á starfslok með þeim skilmálum sem birst hafi í starfslokasamningi aðila. Slysatilkynningin hafi ekki verið undirrituð eða slysið tilkynnt fyrr en eftir að starfslokasamningurinn hafi verið undirritaður af stefnanda.

            Þá hafi stefndi fengið greidda slysadagpeninga frá Sjúkratryggingum Íslands. Hluti þeirra greiðslna hafi verið vegna veikindadaga eftir undirritun starfslokasamningsins 15. júní 2014, þegar stefnandi hafi verið búinn að falla frá öllum frekari kröfum til veikindalauna og vegna vinnuslyssins. Eftir það tímamark hafi stefndi tekið athugasemdalaust við dagpeningagreiðslum frá Sjúkratryggingum Íslands vegna slyssins, sem gefi ótvírætt til kynna að stefndi hafi sjálfur ekki litið svo á að starfslokasamningurinn væri endanlegt uppgjör vegna starfsloka. Þannig hafi aldrei farið fram formlegt lokauppgjör vegna þeirra tveggja mánaða sem stefnandi hafi sannarlega átt rétt til launa í veikindum eftir slysið. Haldi stefndi öðru fram sé það hans að sýna fram á það með óyggjandi hætti eða bera ella hallann af þeim sönnunarskorti.

            Þá sé því við að bæta að stefnandi geti ekki afsalað sér fyrir fram óvissum eða óstaðfestum réttindum sem stofnast hafi vegna vinnuslyssins, hvað svo sem kunni að líða gildi starfslokasamningsins að öðru leyti. Upplýsa hafi þurft stefnanda um það sérstaklega og geta þess í starfslokasamningi hvað stefnandi væri að fara á mis við með undirritun samkomulagsins og eins hverju hann væri þá beinlínis að afsala sér með undirritun samningsins. Þar sé til að mynda í engu fjallað um veikindarétt stefnanda, hvorki lengd veikindatíma né laun í veikindarétti. Þá sé í engu getið réttinda hans samkvæmt slysatryggingu sjómanna hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., vegna tímabundinna og varanlegra afleiðinga vinnuslyssins.

            Þá geti stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., ekki borið fyrir sig starfslokasamning milli stefnanda og stefnda, A, og þannig vikið sér undan því að bæta tímabundið tekjutap stefnanda, með þeim rökum að við starfslok hafi stefnandi ekki lengur verið í starfi og því ekki átt rétt til bóta úr slysatryggingu launþega vegna tímabundinnar óvinnufærni eftir starfslokin. Rétturinn til bóta hafi orðið til við vinnuslysið 15. maí 2014. Það sem síðar kunni að hafa gerst í samskiptum tjónþola og vinnuveitanda, sem leiði til starfsloka, hafi ekki þýðingu um rétt hins slasaða til bóta úr gildri slysatryggingu sjómanna.

            Um nánari tilgreiningu og sundurliðun dómkrafna sinna taki stefnandi fram að hvað ógildingarkröfu hans varði, þá sé vísað til III. kafla laga nr. 7/1936, einkum 31. gr., 33. gr. og 36. gr. laganna.

            Hvað varði aðalkröfu á hendur stefnda, Vátrygggingafélagi Íslands hf., um bætur úr slysatryggingu sjómanna stefnda, A, hjá vátryggingafélaginu vegna tímabundins tekjutaps þá sé miðað við tímabilið frá því að veikindaréttinum hafi sleppt (17. júlí 2014) til loka tímabils tímabundinnar örorku eins og hún hafi verið metin af þeim Magnúsi Páli Albertssyni lækni og Guðmundi Péturssyni lögmanni, en í heild sé um að ræða tímabil tímabundinnar óvinnufærni frá 15. maí 2014 til 15. maí 2015, eða í 52 vikur. Til vara sé stefndi A krafinn um bætur sömu fjárhæðar samkvæmt skaðabótareglum er gildi utan samninga, komist dómstóll að þeirri niðurstöðu að bótaréttur stefnanda kunni að hafa fallið niður samkvæmt slysatryggingu sjómanna vegna ákvæða í ógildanlegum starfslokasamningi, dags. 15. júní 2014. Starfslokasamningurinn hafi þannig skaðað möguleika stefnanda til að sækja réttmætar bætur úr slysatryggingu sjómanna vegna tímabundinnar óvinnufærni eftir að veikindaréttinum sleppti.

            Þannig sé í kröfugerðinni gert ráð fyrir að rétturinn til launa í veikindum hafi varað í átta vikur, eða frá 22. maí 2014 til 17. júlí 2014. Síðan taki við réttur til bóta vegna tímabundins tekjutaps úr slysatryggingu launþega í 43 vikur. Samtals 51 vika, en þrátt fyrir metna óvinnufærni í 52 vikur hafi stefnandi áfram verið stýrimaður um borð í B í eina viku eftir slysið og ekki farið frá borði fyrr en 22. maí 2014, þrátt fyrir handarbrotið, eins og fram komi í tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands.

            Að liðnum átta vikum frá 22. maí 2014, þ.e. því tímabili sem laun í veikindum taki til, taki við krafan á hendur stefnda, Vátryggingafélagi Íslands, um greiðslu bóta úr slysatryggingu sjómanna allt til loka óvinnufærnitímabilsins samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð eða til 15. maí 2015. Þar sé miðað við að stefnandi hafi átt rétt á 100.000 kr. á viku eða 400.000 kr. á mánuði (4 vikur * 100 þúsund) á meðan á óvinnufærni hafi staðið, sbr. fyrirliggjandi tilkynningu um slys á stefnanda til Sjúkratrygginga Íslands, auk 8% mótframlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Krafist sé greiðslu bóta frá 1. degi næsta mánaðar eftir greiðslumánuð og vaxta krafist frá þeim degi, eða af bótum vegna óvinnufærni í september 2014 frá 1. október sama ár, og svo framvegis út óvinnufærnitímann.

            Krafan um bætur á hendur stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., nái til tímabilsins frá 17. júlí 2014 til 15. maí 2015, eða í 9 mánuði og þrjár vikur, eða alls í 43 vikur * 100.000 krónur samtals 4.300.000 kr., að viðbættu 8% mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð (344.000 kr.) eða alls 4.644.000 kr.

            Til vara sé síðan gerð krafa á hendur stefnda, A, um bætur sömu fjárhæðar, vegna sama tímabils og með sömu vöxtum komi til þess að vátryggingafélagið verði sýknað í þessu máli af kröfunni um bætur vegna tímabundins tekjutaps.

            Um sundurliðun þrautavarakröfu á hendur stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., vísi stefnandi til þess að sú krafa taki til tímabilsins frá 17. júlí 2014 til 15. maí 2015, eða í 9 mánuði og þrjár vikur, eða alls í 43 vikur * 89.008 kr., eða samtals 3.827.344 kr., að viðbættu 8% mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð (306.188 kr.) eða alls kr. 4.133.531. Hér sé miðað við kauptryggingu stýrimanna samkvæmt kjarasamningi, en frá 1. mars 2014 skyldi hún vera á mánuði 351.039 kr., auk 10,17% orlofs eða samtals á mánuði 386.740 kr. Á viku geri niðurstaðan 89.008 kr., (386.740 * 12 = 4.640.880 á ári / 52,14 vikur = 89.008), auk síðan 8% mótframlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð, eða 96.129 kr. á viku.

            Til þrautaþrautavara sé síðan gerð krafa á hendur stefnda A um bætur sömu fjárhæðar, vegna sama tímabils og með sömu vöxtum komi til þess að stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., verði sýknaður í þessu máli af kröfunni um bætur vegna tímabundins tekjutaps.

            Krafan um vexti samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 vegna tímabundins atvinnutjóns sé frá gjalddögum hverrar mánaðargreiðslu, sem sé fyrsti dagur næsta mánaðar eftir greiðslumánuð. Þá sé krafist dráttarvaxta af stefnufjárhæðinni frá 3. desember 2016 samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, en þá hafi mánuður verið liðinn frá því að stefndi hafi sannanlega fengið vitneskju um kröfuna, sbr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001, og sé miðað við að sú vitneskja hafi borist á þingfestingardegi 3. nóvember 2016.

            Um lagarök vísi stefnandi meðal annars til III. kafla laga nr. 7/1936, einkum 31. gr., 33. gr. og 36. gr. Þá sé byggt á lögum nr. 34/1985, kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Sjómannasambands Íslands og lögum nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Þá sé vísað til laga nr. 50/1993 og almennra ólögfestra meginreglna skaðabótaréttarins.

 

                                                                        III

            Stefndi, A, byggir sýknukröfu sína einkum á því að að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni í vinnuslysi þann 15. maí 2014. Sönnunarbyrði um það hvíli á stefnanda sjálfum og sú sönnun hafi ekki tekist. Niðurstaða úrskurðarnefndar í vátryggingamálum um þetta atriði bindi ekki félagið, enda snúi hún aðeins að vátryggingarhluta málsins og félagið hafi ekki haft tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að við meðferð málsins hjá nefndinni. Hið sama eigi við um þá ákvörðun stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., að una niðurstöðunni að hluta og greiða bætur í kjölfar hennar. Því sé jafnframt hafnað að óvinnufærni stefnanda sé sönnuð eða að sannað sé að hana sé eingöngu að rekja til meints vinnuslyss þann 15. maí 2014. Niðurstaða fyrirliggjandi matsgerða Magnúsar Páls Albertssonar læknis og Guðmundar Péturssonar lögmanns bindi ekki stefnda, A, gegn andmælum hans, enda sé ekki um að ræða álit dómkvaddra matsmanna samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991, og stefnda hafi ekki gefist færi á að koma að sjónarmiðum sínum við matið.

            Hvað varði kröfu stefnanda um ógildingu starfslokasamnings, dags. 15. júní 2014, þá sé því alfarið hafnað að víkja eigi samningnum til hliðar, sbr. III. kafla laga nr. 7/1936. Um afar þröngar undantekningarreglur sé að ræða sem ekki komi til greina að beita, heldur beri að byggja á meginreglu samningaréttarins um að samninga skuli halda. Af hálfu stefnanda sé ekki byggt á öðrum málsástæðum en þeim er birtist í 31., 33. og 36. gr. laganna til stuðnings því að umræddur starfslokasamningur sé ógildur og verði dómsniðurstaða þar um því ekki reist á öðrum málsástæðum.

            Því sé mótmælt að neyð stefnanda hafi verið mikil þegar skrifað hafi verið undir samninginn. Stefnandi hafi sjálfur átt frumkvæðið að lokauppgjöri launa. Stefnandi hafi ekki verið tekjulaus, eins og haldið sé fram í stefnu, og ófær um að komast til fjölskyldu sinnar í Svíþjóð nema skrifa áður undir samninginn, heldur hafi hann þvert á móti verið að fá reglulegar greiðslur hraðar en lög og kjarasamningar hafi gert ráð fyrir.

            Því sé hafnað sem ósönnuðu að á þeim tímapunkti sem gengið hafi verið frá starfslokasamningi hafi staðið yfir frágangur á tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands eða hún hafi yfirhöfuð verið til umræðu milli stefnanda og stefnda, A. Þá sé því alfarið hafnað að stefndi hafi dregið að skila slíkum tilkynningum til þess að þvinga stefnanda til að skrifa undir starfslokasamning. Félagið hafi sent Sjúkratryggingum Íslands tilkynningu 26. júní 2014. Þann 22. júlí hafi félaginu borist erindi frá Sjúkratryggingum Íslands þess efnis að undirritun og frekari gögn vantaði. Stefnandi hafi vissulega óskað eftir því að þau gögn yrðu send. Þau gögn hafi stefndi, A, síðan sent Sjúkratryggingum Íslands.

            Þremur dögum áður en undirritun starfslokasamningsins hafi farið fram hafi stefnandi leitað til fyrrverandi lögmanns síns og skrifað undir það í starfslokasamningnum að hann hefði notið utanaðkomandi ráðgjafar áður en hann hafi skrifað undir samninginn. Sé byggt á því af hálfu stefnda að svo hafi verið. Jafnvel þótt það verði talið ósannað sé allt að einu ljóst að stefnandi hafi á þessum tíma haft greiðan aðgang að ráðgjöf lögmanns og verið í lófa lagið að nýta sér hana.

            Í ljósi alls framangreinds sé því hafnað að stefndi, A, hafi notað sér bágindi, einfeldni, fákunnáttu eða léttúð stefnanda eða það að hann hafi verið félaginu háður. Þá sé ósannað að mismunur sé á hagsmunum og endurgjaldi, þ.e. að stefndi hafi samið við stefnanda um verulega lægri veikindalaun en hann hafi átt rétt á. Ekki sé heldur óheiðarlegt af hálfu stefnda að bera samninginn fyrir sig eða ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju. Því beri að hafna kröfu stefnanda um ógildingu samningsins og hafi hann fullt gildi milli stefnanda og stefnda um uppgjör á öllum launum og slit ráðningarsambands þeirra á milli.

            Í stefnu gerði stefnandi upphaflega kröfu um laun í veikindaforföllum en til vara um skaðabætur úr hendi stefnda, A. Fyrir aðalmeðferð féll stefnandi frá þessum kröfum og er því óþarft að rekja málsástæður stefnda, A, í þeim efnum.

            Hvað varðar kröfu stefnanda um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns, þá tekur stefndi, A, fram að þeirri kröfu sé aðallega beint að stefnda, Vátryggingafélagi Íslands, en til vara krefjist stefnandi þess að meint tjón verði bætt af stefnda, A. Í stefnu komi fram að krafan gegn stefnda, A, byggi á skaðabótareglum utan samninga reynist starfslokasamningur stefnanda og stefnda hafa skaðað möguleika stefnanda til að sækja bætur úr slysatryggingu sjómanna vegna tímabundinnar óvinnufærni. Af hálfu stefnanda sé þessi krafa ekki byggð á öðrum málsástæðum svo þær verði að teljast of seint fram komnar héðan í frá. Ekki sé tilgreint nánar á hvaða reglum skaðabótaréttarins ábyrgð stefnda skuli vera reist eða, ef það er á hinni almennu sakarreglu, hvaða sök stefndi eigi að hafa sýnt af sér, ekki sé farið yfir orsakatengsl eða sennilega afleiðingu, hvernig tjón stefnanda sé tilkomið og svo framvegis. Verði starfslokasamningurinn ekki ógiltur með dómi sé ljóst að málsástæðum stefnanda fyrir ógildingu hans á grundvelli III. kafla laga nr. 7/1936 hafi verið hafnað. Þá standi eftir að stefnandi og stefndi, A, hafi ákveðið af fúsum og frjálsum vilja að gera samning sín á milli og verði annar aðilinn ekki talinn bera ábyrgð á meintu tjóni hins aðilans af samningagerðinni án frekari rökstuðnings. Kröfur stefnanda að þessu leyti séu þannig órökstuddar, órökréttar og á ákveðinn hátt mótsagnakenndar og eðlilegt að stefndi verði sýknaður af þeim.

            Komi til þess að skaðabótaskylda stefnda yrði talin vera til staðar að þessu leyti þurfi að líta á tölulegan málatilbúnað stefnanda. Fyrir það fyrsta sé á því byggt að með öllu sé órökstutt af hverju líta beri til umsaminnar eða kjarasamningsbundinnar kauptryggingar við útreikning á bótakröfu stefnanda. Ljóst sé að ráðningu stefnanda og stefnda hafði verið slitið sumarið 2014 og ósannað sé að stefnandi hafi átt óslitinn starfsferil sem stýrimaður áður en hann réð sig hjá stefnda eða hann hafi haft annað starf í sigtinu. Samkvæmt fyrirliggjandi staðgreiðsluskrá hafi stefnandi síðast verið í starfi í júlí 2013 áður en hann hafi hafið störf hjá stefnda, A. Stefnandi hafi engin gögn lagt fram um störf sín í Svíþjóð, hafi þau verið einhver. Ljóst sé að t.d. atvinnuleysisbætur frá 1. janúar 2014 hafi numið 178.823 kr. á mánuði og 184.188 kr. á mánuði frá 1. janúar 2015 og þær greiðslur sem stefnandi hafi fengið séu hærri en sem því nemi. Því sé þess vegna mótmælt að sannað sé tjón hjá stefnanda vegna tímabundins tekjutaps sem bæta skuli á grundvelli 2. gr. laga nr. 50/1993. Því beri að sýkna stefnda af þessari kröfu.

            Verði það niðurstaða dómsins að reikna skuli tjón stefnanda út frá upplýsingum um kauptryggingu sé vísað til þess að kjarasamningsbundin trygging með orlofi eftir 1. mars 2014 hafi numið 386.740 kr. á mánuði, 4.640.880 kr. á ári (m.v. 12 mánuði á ári) eða 89.008 kr. á viku (m.v. 52,14 vikur í ári). Launakrafa vegna 43 vikna næmi því aðeins 3.827.346 kr. Frá henni bæri að draga nánar tilgreinda frádráttarliði samkvæmt 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Komi til þess að ábyrgð stefnda verði talin vera til staðar og tjón sömuleiðis sé krafist lækkunar á dómkröfum stefnanda miðað við þá frádráttarliði.

            Eðli máls samkvæmt þekki stefndi, A, ekki uppruna allra framangreindra greiðslna sem stefnandi hafi fengið frá þriðju aðilum en hyggist stefnandi byggja á því að einhverjar þeirra skuli ekki dragast frá skaðabótum vegna tímabundins tekjutaps sé skorað á hann að leggja fram gögn um eðli og uppruna greiðslnanna. Hið sama eigi við um dreifingu greiðslna innan mánaða ef stefnandi hyggist mótmæla því að til einföldunar skuli miða við frádrátt vegna greiðslna frá 1. ágúst 2014 til 31. maí 2015. Í öllu falli sé skorað á stefnda að leggja fram upplýsingar um uppruna og forsendur greiðslna frá Tryggingamiðstöðinni hf.

            Hvað varði kröfu um álag á málskostnað þá byggi stefndi, A, á c-lið 1. mgr. 131. gr. þar sem stefnandi hafi haft uppi kröfur, staðhæfingar og mótbárur sem hann hafi mátt vita að væru rangar og haldlausar og því megi dæma hann til að greiða álag á málskostnað, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991. Frá upphafi hafi legið fyrir að stefnandi hafi fengið verulega hærri greiðslur frá stefnda, A, en fram komi í dómkröfum hans en hann hafi engu að síður kosið að höfða mál á hendur stefnda, A.

            Um lagarök sé einkum vísað til almennra reglna samningaréttarins, 31., 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936, 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, 172. gr. laga nr. 34/1985, IX. kafla og 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og laga nr. 50/1993, einkum 2. gr. þeirra.

 

                                                                        IV

            Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., mótmælir alfarið öllum kröfum, málsástæðum og lagarökum stefnanda. Í máli þessu gildi almennar sönnunarreglur skaðabótaréttar. Leiði af þeim reglum að sönnunarbyrðin hvíli óskipt á stefnanda, m.a að sanna að hann hafi orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni og umfang þess.

            Af stefnu megi ráða að krafa stefnanda á hendur stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., um bætur að fjárhæð 4.644.000 kr. úr slysatryggingu sjómanna vegna tímabundins atvinnutjóns fyrir tímabilið 17. júlí 2014 til 15. maí 2015 sé miðuð við að stefnandi hafi átt rétt á 100.000 kr. á viku eða 400.000 kr. á mánuði auk mótframlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð.

            Byggt sé á því að umstefnt tjón sé ósannað. Stefnandi eigi ekki rétt til greiðslu bóta úr slysatryggingu sjómanna vegna tímabundins atvinnutjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir í vinnuslysinu þann 15. maí 2014. Stefnandi hafi fengið greiddar allar þær bætur sem hann eigi rétt á úr slysatryggingu sjómanna og að stefnandi eigi ekki rétt til frekari greiðslna úr henni fyrir tímabundið atvinnutjón.

            Í því sambandi sé byggt á því að stefnandi hafi ekki sannað að hann hafi orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni eða sannað umfang þess.

            Með samkomulagi því sem stefnandi hafi gert við stefnda, A, hafi stefnandi fyrirgert frekari rétti sínum til greiðslna vegna tímabundins atvinnutjóns. Í samkomulaginu sé skýrt kveðið á um að um sé að ræða lokauppgjör á slysalaunum, starfslokalaunum og hverjum öðrum fjár-, slysa- eða starfskröfum sem hafi tengst eða geti tengst starfssambandi samningsaðila.

            Jafnframt sé byggt á því að frá skaðabótum sem stefnandi kunni að eiga rétt á fyrir tímabundið atvinnutjón eigi að draga allar greiðslur sem stefnandi hafi fengið eða átt rétt á frá vinnuveitanda, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1993. Tímabundið atvinnutjón stefnanda sé metið frá 15. maí 2014 til 15. maí 2015. Stefnandi hafi á því tímabili fengið greiddar 1.179.095 kr. frá stefnda, A. Þá hafi stefnandi átt rétt á frekari greiðslum frá meðstefnda, A, ef hann hefði ekki gert áðurnefndan starfslokasamning. Samkvæmt kjarasamningi hafi stefnandi átt rétt á veikindalaunum í tvo mánuði og rétt til launa í uppsagnarfresti í þrjá mánuði, en það liggi fyrir að hefði stefnandi ekki lent í slysinu og starfað áfram hjá stefnda, A, hefði hann misst vinnuna þegar útgerðin hafi hætt starfsemi 23. júlí 2014. Þannig sé á því byggt að frá skaðabótum sem stefnandi kunni að eiga rétt á beri að draga að minnsta kosti 2.000.000 kr. (800.000 kr. vegna veikindaréttar stefnanda og 1.200.000 kr. vegna launa í uppsagnarfresti). Það að stefnandi hafi misst rétt með því að undirrita samkomulagið hafi ekki þau réttaráhrif að hann eignist kröfu á hendur stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., sem nemi þeirri fjárhæð sem hann kunni að hafa afsalað sér gagnvart stefnda, A. Að minnsta kosti beri að draga frá þær greiðslur sem hann hafi fengið frá stefnda, A.

            Einnig sé byggt á því að frá skaðabótum beri að draga 60% af greiðslu frá lífeyrissjóði, greiðslur frá sjúkrasjóði, dagpeninga og aðrar bætur frá opinberum tryggingum fyrir tímabundið atvinnutjón og vátryggingabætur þegar greiðsla vátryggingafélags sé raunveruleg skaðabót, svo og sambærilegar greiðslur sem tjónþoli fái vegna þess að hann sé ekki fullvinnufær, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1993. Byggt sé á því að frá kröfu stefnanda beri því að draga að minnsta kosti nánar tilgreindar greiðslur samtals að fjárhæð 1.864.039 kr.

            Þá sé í gögnum málsins að finna greiðslur frá Tryggingamiðstöðinni hf. að fjárhæð 988.700 kr. Í málinu sé ekki upplýst hvaða greiðslur (tekjur) um sé að ræða. Skorað sé á stefnanda að upplýsa nánar hvaða greiðslur þetta séu og sé áskilinn allur réttur til því að byggja á því að jafnframt beri að draga þessar greiðslur frá mögulegum skaðabótum.

            Jafnframt sé byggt á því að ekkert liggi fyrir um að stefnandi hefði fengið aðra vinnu ef hann hefði ekki orðið fyrir slysinu og haldið áfram vinnu hjá stefnda, A, þar til útgerð hafi verið hætt 23. júlí 2014. Þegar horft sé á fyrri atvinnusögu stefnanda sé ekkert sem gefi til kynna að stefnandi hefði farið í aðra vinnu þegar útgerð var hætt. Sönnunarbyrðin um það hvíli á stefnanda. Þá sé algjörlega óljóst hvort stefnandi hafi átt einhvern rétt til atvinnuleysisbóta. Jafnvel þó að stefnandi hefði átt rétt til atvinnuleysisbóta, þá liggi fyrir að þegar tekið hafi verið tillit til greiðslna sem stefnandi hafi fengið og átt rétt á frá stefnda, A, lífeyrissjóði, sveitarfélagi og Sjúkratryggingum Íslands þá eigi hann ekki frekari rétt til skaðabóta fyrir tímabundið atvinnutjón úr slysatryggingu sjómanna.

            Einnig sé byggt á því að stefnandi hafi ekki átt rétt á því að fá greiddar 100.000 kr. á viku eða 400.000 kr. á mánuði vegna tímabundins atvinnutjóns fyrir allt tímabilið, þ.e. 15. maí 2014 til 15. maí 2015. Í því sambandi sé minnt á að útgerðin hafi hætt 23. júlí 2014 þannig að þó að stefnandi hefði ekki orðið fyrir slysinu hefði hann ekki unnið lengur hjá stefnda A en til þess tíma. Ítrekað sé að öll sönnunarbyrði hvíli á stefnanda að sanna tjón sitt, en það liggi ekkert fyrir í málinu um að hann hefði verið með þessi laun það tímabil sem hann krefji stefnda, Vátryggingafélag Íslands, um bætur fyrir. Í þessu sambandi sé til dæmis bent á að kauptryggingin samkvæmt kjarasamningi sé mun lægri. Ekkert liggi þó fyrir í málinu sem styðji það að stefnandi hafi átt rétt til greiðslu kauptryggingar og þá hve lengi. Miðað við fyrri atvinnusögu stefnanda sé eins og áður greini ekkert sem gefi til kynna að stefnandi hefði farið í aðra vinnu þegar útgerð hefði verið hætt.

            Þá sé byggt á því að krafan sé ekki rétt reiknuð. Í stefnu sé miðað við að stefnandi hafi átt rétt á 100.000 kr. á viku eða 400.000 kr. á mánuði. Síðan segi að krafan um bætur á hendur stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., taki til tímabilsins 17. júlí 2014 til 15. maí 2015, þ.e. í níu mánuði og þrjár vikur, eða alls í 43 vikur. Ef miðað sé við 9 mánuði og fjórar vikur í hverjum mánuði þá sé um 36 vikur að ræða og ef þremur sé bætt við þá geri þetta samtals 39 vikur. Í öllu falli beri því að lækka kröfu stefnanda sem nemi fjórum vikum eða 400.000 kr. auk þess að lækka kröfu í lífeyrissjóð sem því nemi.

            Hvað varði kröfu stefnanda um að ógiltur verði með dómi starfslokasamningur, dags. 15. júní 2014, á milli stefnanda og stefnda, A þá sé því mótmælt að lagarök standi til þess að ógilda beri samninginn. Þar sem um sé að ræða samning milli stefnanda og stefnda, A, sjái stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., ekki sérstaka ástæðu til þess að fjalla frekar um þessa kröfu stefnanda. Þó sé rétt að ítreka að verði ekki fallist á kröfu stefnanda um ógildingu á samningi stefnanda og meðstefnda A þá geti stefnandi ekki krafist greiðslna úr slysatryggingu sjómanna vegna þeirra réttinda sem stefnandi hefði átt hefði ekki komið til gerðar samkomulagsins.

            Þá sé vaxtakröfum stefnanda mótmælt. Engin efni séu til að reikna dráttarvexti fyrr en í fyrsta lagi frá dómsuppsögu enda ekki ljóst fyrr en þá hvort stefnandi eigi einhverja kröfu á hendur stefnda.

            Um lagarök sé einkum vísað til almennra reglna vátrygginga- og skaðabótaréttar, einkum meginreglna um sönnun og sönnunarbyrði. Vísað sé til laga nr. 50/1993, laga nr. 37/1999, laga nr. 30/2004, laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, laga nr. 35/1985, laga nr. 34/1985, vátryggingaskilmála nr. SS25 og YY10, auk laga nr. 91/1991 eftir því sem við eigi.

 

                                                                        V

            Eins og áður segir þá vefengir stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., ekki að stefnandi hafi orðið fyrir slysi á vinstri hendi við störf sín um borð í bátnum B þann 15. maí 2014. Stefndi, A, dregur aftur á móti í efa að stefnandi hafi orðið fyrir umræddu slysi. Að mati dómsins telst sannað, einkum með hliðsjón af framburði stefnanda, færslu í skipsdagbók og afdráttarlausri tilkynningu C, skipstjóra B, til Sjúkratrygginga Íslands, dags. 30. júlí 2014, að stefnandi varð fyrir vinnuslysi um borð í bátnum umræddan dag. Hefur stefnda, A, ekki tekist að hnekkja tilkynningu skipstjórans að þessu leyti. Verður því lagt til grundvallar niðurstöðu dómsins að stefnandi hafi orðið fyrir áðurnefndu vinnuslysi þann 15. maí 2014.

            Ágreiningur stefnanda og stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., um bótarétt stefnanda úr slysatryggingu sjómanna hjá vátryggingafélaginu var upphaflega tekinn til meðferðar af úrskurðarnefnd í vátryggingamálum. Með úrskurði, dags. 24. mars 2015, í máli nr. 32/2015 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að stefnandi ætti rétt á bótum úr umræddri slysatryggingu. Þessi niðurstaða nefndarinnar byggðist meðal annars á þeirri röksemd að hafna bæri málsástæðu stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., um að starfslokasamningur stefnanda og stefnda, A, frá 15. júní 2014, skerti bótarétt stefnanda að þessu leyti.

            Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. samþykkta úrskurðarnefndarinnar, sem birtar voru með auglýsingu viðskiptaráðuneytis nr. 1090/2005, eru úrskurðir nefndarinnar ekki bindandi fyrir málskotsaðila, sem geta ávallt vísað málum til dómstóla þó að þau hafi farið fyrir nefndina. Þar segir þó einnig að úrskurður nefndarinnar sé bindandi fyrir hlutaðeigandi vátryggingafélag nema félagið tilkynni málskotsaðilanum og nefndinni sannanlega innan tveggja vikna frá því að það fékk úrskurð í hendur að það muni ekki hlíta honum og færi rök fyrir afstöðu sinni.

            Óumdeilt er að stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., sendi úrskurðarnefndinni ekki slíka tilkynningu, enda þótt félaginu hefði verið í lófa lagið að gera slíkt hygðist það ekki una úrskurðinum. Þegar af þessari ástæðu telst félagið vera bundið af þeirri niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar að því beri að greiða stefnanda bætur úr slysatryggingu sjómanna, sem óumdeilt er að stefndi, A, hafði keypt hjá vátryggingafélaginu. Af þessari niðurstöðu leiðir jafnframt að stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., getur ekki byggt á því fyrir dómi að stefnandi hafi með starfslokasamningnum afsalað sér rétti til að krefjast bóta úr slysatryggingunni.

            Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., byggir á því að jafnvel þótt fallist verði á greiðsluskyldu hans úr umræddri tryggingu vegna tímabundins atvinnutjóns þá séu bæði aðalkrafa og þrautavarakrafa stefnanda vegna þess tjóns engu að síður of háar.

            Þegar úrskurðarnefnd í vátryggingamálum kvað upp úrskurð sinn lá nákvæmt umfang tjóns stefnanda ekki fyrir. Öfluðu stefnandi og stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., álits Magnúsar Páls Albertssonar læknis og Guðmundar Péturssonar lögmanns á tjóninu. Í skjali, dags. 12. nóvember 2015, sem þeir kalla matsgerð, er lagt mat á tjón stefnanda. Var það álit í framhaldinu lagt til grundvallar í uppgjöri stefnanda og stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., þó þannig að félagið hafnaði bótagreiðslu vegna tímabundins atvinnutjóns stefnanda.

            Hvað varðar læknisfræðilegt umfang tjóns stefnanda þá hefur stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., ekki mótmælt sérstaklega eða fært nokkur rök gegn því að álit Magnúsar Páls Albertssonar læknis og Guðmundar Péturssonar lögmanns, dags. 12. nóvember 2015, verði lagt til grundvallar niðurstöðu dómsins. Var meðal annars vísað til þess af lögmanni stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., í undirbúningsþinghaldi 20. mars 2018 fyrir aðalmeðferð, eftir að lögmenn voru spurðir af dómara hvort þeir teldu þörf á því að sérfróður meðdómandi tæki sæti í dóminum, að þess gerðist ekki þörf, enda væri ekki ágreiningur um læknisfræðileg atriði uppi á milli félagsins og stefnanda. Verður álit Magnúsar Páls Albertssonar læknis og Guðmundar Péturssonar lögmanns, dags. 12. nóvember 2015, því lagt til grundvallar við mat á tímabundnu atvinnutjóni stefnanda að því er varðar kröfur stefnanda á hendur stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. Í álitinu kemur fram að tímabundið atvinnutjón stefnanda teljist hafa verið fyrir hendi að fullu leyti frá 15. maí 2014 til 15. maí 2015. Með þessu er engu slegið föstu um það hvort sama niðurstaða verði lögð til grundvallar gagnvart stefnda, A, sem eins og áður segir mótmælir því að dómurinn verði reistur á álitinu að því er sig varðar. Nánar er vikið að því álitaefni hér á eftir.

            Um tímabundið atvinnutjón gilda reglur 2. gr. laga nr. 50/1993. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal ákveða bætur fyrir slíkt tjón fyrir tímann frá því að tjón varð þangað til tjónþoli getur hafið vinnu að nýju eða þar til heilsufar hans er orðið stöðugt. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal þó draga frá þessum bótum laun í veikinda- eða slysaforföllum, 60% af greiðslu frá lífeyrissjóði, greiðslur frá sjúkrasjóði, dagpeninga og aðrar bætur frá opinberum tryggingum fyrir tímabundið atvinnutjón og vátryggingabætur þegar greiðsla vátryggingafélags er raunveruleg skaðabót, svo og sambærilegar greiðslur sem tjónþoli fær vegna þess að hann er ekki fullvinnufær.

            Óumdeilt er að um störf stefnanda hjá stefnda, A, fór eftir kjarasamningi Landssambands íslenskra útvegsmanna og Sjómannasambands Íslands, sem upphaflega var gerður 17. desember 2007. Um réttindi tengd slysum vísar grein 1.21 í kjarasamningnum til 36. gr. laga nr. 35/1985. Í 1. mgr. 36. gr. laganna er miðað við að verði skipverji óvinnufær vegna meiðsla sem hann verði fyrir meðan á ráðningartíma standi skuli hann eigi missa neins í af launum sínum í allt að tvo mánuði. Í 3. mgr. 36. gr. laganna segir að skipverji, sem forfallist frá vinnu vegna slysa við vinnu, skuli fá greitt fast kaup, kauptryggingu eða sérlega umsamið veikindakaup í allt að þrjá mánuði til viðbótar greiðslum samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins.

            Af framangreindu leiðir að á tjónsdegi tryggðu bæði lög og kjarasamningur stefnanda rétt til umsaminnar kauptryggingar í fimm mánuði frá slysinu úr hendi stefnda, A. Dómurinn telur sannað, meðal annars með vísan til tjónstilkynningar til Sjúkratrygginga Íslands, dags. 30. júlí 2014, sem stefnandi undirritaði ásamt framkvæmdastjóra stefnda, A, að umsamin kauptrygging hafi verið 100.000 kr. á viku og að stefnanda og A, hafi samist um að miðað yrði við að hver mánaðargreiðsla skyldi nema fjögurra vikna kauptryggingu, þ.e. 400.000 kr. Stefnandi byggir reyndar sjálfur á því að kauptrygging hafi numið 100.000 kr. á viku en telur aftur á móti að miða eigi við hærri fjárhæð á mánuði en nemi fjórum vikum. Um þetta atriði er málatilbúnaður stefnanda þó misvísandi þar sem hann segir einnig berum orðum í stefnu að hann hafi „átt rétt á kr. 100.000 á viku eða kr. 400.000 á mánuði“. Gegn mótmælum stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., verður því ekki lögð til grundvallar hærri fjárhæð að þessu leyti.

            Að þessu virtu ber að fallast á það með stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., að launagreiðslur sem stefnandi átti rétt á umrætt fimm mánaða tímabil skuli koma til frádráttar bótum fyrir tímabundið atvinnutjón stefnanda, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1993. Við mat á framangreindum frádrætti ræður því ekki úrslitum hvort stefnandi hafi í reynd fengið þær greiðslur sem vikið er að í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1993, heldur nægir að hann hafi átt rétt til slíkra greiðslna en ekki sóst eftir þeim, enda bar honum skylda til að takmarka tjón sitt, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 27. mars 2014 í máli nr. 623/2013.

            Í samræmi við þetta tekur greiðsluskylda stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., aðeins til tímabundins atvinnutjóns stefnanda í sjö mánuði, þ.e. frá 15. október 2014 til 15. maí 2015. Við mat á því hvaða tekjur skuli lagðar til grundvallar við útreikning tímabundins atvinnutjóns á tímabilinu verður að líta til þess að á slysdegi var stefnandi starfsmaður stefnda, A. Ekkert liggur fyrir um að ráðningin hafi verið tímabundin. Þannig er til að mynda ekkert vikið að slíkum fyrirvara í atvinnutilboði stefnda, A, til stefnanda um stöðu stýrimanns í tölvubréfi, dags. 1. maí 2014. Í slíkum tilvikum verður almennt að ganga út frá því að höfuðstóll tímabundins atvinnutjóns, áður en til frádráttar samkvæmt 2. gr. laga nr. 50/1993 kemur, sé reiknaður til samræmis við laun í því starfi, nema eitthvað sérstakt gefi til kynna að víkja verði frá því viðmiði. Í þessu máli háttar hins vegar svo sérstaklega til að í dómi Hæstaréttar frá 28. janúar 2016 í máli nr. 462/2015 er því slegið föstu að síðasta löndun B hafi farið fram 23. júlí 2014. Vegna lagabreytingar mun stefndi, A, ekki hafa fengið úthlutað frekari veiðiheimildum til tiltekinna rækjuveiða. Því mun B hafa hætt að stunda rækjuveiði þann 23. júlí 2014. Samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 hefur dómur fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greinir þar til hið gagnstæða er sannað. Að þessu virtu, og þar sem stefnandi hefur engin gögn lagt fyrir dóminn til sönnunar á hinu gagnstæða, verður lagt til grundvallar að stefnanda hefði, ef ekki hefði komið til umrædds slyss, verið sagt upp störfum og að sú uppsögn hefði tekið gildi eigi síðar en 15. október 2014, þ.e. á þeim degi er rétti stefnanda til áðurnefndrar fimm mánaða kauptryggingar úr hendi stefnda, A, lauk.

            Við mat á því hvort og þá hvaða tekjur skuli miða við eftir að áðurnefnd uppsögn hefði tekið gildi þykir ekki óvarlegt að líta svo á að stefnandi hefði getað tryggt sér sambærilegt starf og hann gegndi þegar tjónið átti sér stað, þó þannig að stefnandi telst ekki hafa sýnt nægilega fram á að vænta hefði mátt hærri fjárhæðar í kauptryggingu en sem næmi kjarasamningsbundnum greiðslum. Óumdeilt er að sú fjárhæð nam, að meðtöldum orlofsgreiðslum, 386.740 kr. á mánuði auk 8% mótframlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Samtals eru það 417.679 kr. Gegn mótmælum stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., hefur stefnandi ekki fært nein rök fyrir því að reikna skuli fleiri en fjórar vikur í mánuði við útreikning framangreindra launa, en um það hvílir sönnunarbyrðin á stefnanda. Á umræddu sjö mánaða tímabili nema þessar greiðslur samtals 2.923.753 kr. Þessa fjárhæð ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1993 ber stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., að greiða stefnanda vegna tímabundins atvinnutjóns hans, þó að frátöldum frekari liðum sem koma til frádáttar kröfu stefnanda samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1993. Við mat á þeim frádráttarliðum verður að mati dómsins að líta heildstætt á tímabil tímabundins atvinnutjóns stefnanda sem stóð, eins og áður segir, frá 15. maí 2014 til 15. maí 2015.

            Óumdeilt er að stefnandi hefur dregið greiðslur samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1993 frá kröfu sinni, a.m.k. að vissu marki. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., byggir þó á því að frekari frádrátt skorti í þessum efnum. Nánar tiltekið kom fram við munnlegan flutning málsins, eftir að endanleg kröfugerð stefnanda lá fyrir, að stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., gerði athugasemd við að frádrátt vantaði vegna tiltekinnar greiðslu frá Garðabæ. Óumdeilt er að greiðslan nam 117.491 kr., en stefnandi dregur aðeins frá kröfu sinni 50.913 kr. Stefnandi hefur ekki fært haldbær rök fyrir því að miða skuli við aðra fjárhæð til frádráttar en 117.491 kr. og ber því að bæta 66.578 kr. við þá frádráttarliði sem stefnandi gerir þegar ráð fyrir í kröfugerð sinni. Við þetta hækka frádráttarliðir í kröfugerð stefnanda úr 2.692.296 kr. í 2.758.874 kr.

            Loks krefst stefnandi dráttarvaxta af kröfu sinni frá 3. desember 2016, en þá var mánuður liðinn frá þingfestingu málsins. Verður fallist á að krafan beri dráttarvexti frá þeim degi, sbr. sbr. 6. og 9. gr. laga nr. 38/2001.

            Í framangreindri niðurstöðu fellst að dómurinn sýknar stefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., af aðalkröfu stefnanda, en dæmir félagið til greiðslu á hluta af þrautavarakröfu stefnanda, þó þannig að fallist er á tiltekna frádráttarliði sem stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., ber fyrir sig og raktir hafa verið hér að framan. Aftur á móti verður varakröfu og þrautaþrautavarakröfu stefnanda um bætur úr hendi stefnda, A, vísað frá dómi af sjálfsdáðum eins og nú verður rakið nánar.

            Eins og áður greinir öfluðu stefnandi og stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., sameiginlega álits þeirra Magnúsar Páls Albertssonar læknis og Guðmundar Péturssonar lögmanns, dags. 12. nóvember 2015. Áttu stefnandi og stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., þess báðir kost að leggja fram gögn og koma að upplýsingum við matið. Aftur á móti átti stefndi, A, enga aðkomu að matinu og var ekki gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við matið. Stefndi, A, hefur í greinargerð mótmælt því að álitið verði lagt til grundvallar gagnvart sér. Eftir að greinargerð félagsins var lögð fram átti stefnandi þess kost að bregðast við þessum málatilbúnaði með frekari öflun sönnunargagna, svo sem með dómkvaðningu matsmanna til að sýna fram á tjón sitt í samræmi við ákvæði IX. kafla laga nr. 91/1991. Það gerði hann aftur á móti ekki. Er því ekki unnt að leggja álit þeirra Magnúsar og Guðmundar til grundvallar við mat á því hvort skilyrði séu til að dæma stefnda, A, til greiðslu bóta vegna tímabundins atvinnutjóns stefnanda. Fer málatilbúnaður stefnanda að þessu leyti í bága við e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 19. nóvember 2015 í máli nr. 359/2015. Verður varakröfu og þrautaþrautavarakröfu stefnanda því af sjálfsdáðum vísað frá dómi, sbr. einnig 4. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991. Til sömu niðurstöðu leiðir einnig að málatilbúnaður stefnanda um þessar fjárkröfur sínar á hendur stefnda, A, er óglöggur og vanreifaður.

            Samhliða öðrum kröfum sínum í málinu krefst stefnandi þess loks að ógiltur verði starfsloksamningur, dags. 15. júní 2014, á milli hans og stefnda, A. Byggir stefnandi á 31., 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 í þeim efnum. Forsenda þess að unnt sé að leggja dóm á þessa kröfu stefnanda er að fyrir liggi upplýsingar um það með hvaða hætti ójafnvægi kunni að hafa einkennt samningssamband aðila þannig að hægt sé að slá því föstu hvort og þá með hvaða hætti áðurnefndum ógildingarreglum laga nr. 7/1936 verði beitt um starfslokasamninginn. Í þeim efnum nægir ekki einungis að meta hver hámarksslysaréttur skipverja er samkvæmt kjarsamningi og lögum, heldur er nauðsynlegt að fyrir liggi mat á því hversu langan tíma atvinnutjón stefnanda varði í reynd. Nánar tiltekið gera lög nr. 35/1985 ráð fyrir því að skipverji geti átt rétt til kauptryggingar frá vinnuveitanda sínum í allt að fimm mánuði, þ.e. í tvo mánuði samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laganna og þrjá mánuði til viðbótar samkvæmt 3. mgr. 36. gr. laganna, frá vinnuveitanda sínum. Vari óvinnufærni í skemmri tíma verður vinnuveitanda ekki gert að greiða kauptryggingu allan þennan tíma. Af þessu verður ráðið að mat á raunverulegu tímabili tímabundinnar óvinnufærni stefnanda hefur verulega þýðingu við úrlausn ógildingarkröfu stefnanda. Stefnandi og stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., eru eins og áður segir sammála um að leggja álit þeirra Magnúsar Páls Albertssonar læknis og Guðmundar Péturssonar lögmanns, dags. 12. nóvember 2015, til grundvallar við mat á lengd tímabundins atvinnutjóns stefnanda. Sá grundvallarmunur er á afstöðu framangreindra málsaðila annars vegar og stefnda, A, hins vegar, að síðarnefnda félagið mótmælir því að álitið verði lagt til grundvallar gagnvart sér og hefur dómurinn fallist á þann málatilbúnað með frávísun á varakröfu og þrautaþrautavarakröfu stefnanda. Þar sem dómurinn hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé unnt að leggja álit þeirra Magnúsar og Guðmundar til grundvallar við mat á tímabundnu atvinnutjóni stefnanda, að því er varðar kröfur stefnanda á hendur stefnda, A, verður engu slegið föstu gagnvart félaginu um það hver nákvæm lengd tímabundins atvinnutjóns stefnanda hafi í reynd verið og þá jafnframt hvort nokkuð hafi hallað á stefnanda með gerð starfslokasamningsins. Þegar af þessari ástæðu telst málatilbúnaður stefnanda að þessu leyti fara í bága við e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. til hliðsjónar áðurnefndan dóm Hæstaréttar frá 19. nóvember 2015 í máli nr. 359/2015. Verður kröfu stefnanda um ógildingu starfslokasamningsins því af sjálfsdáðum vísað frá dómi, sbr. einnig 4. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991.

            Stefnandi fékk gjafsókn með bréfi innanríkisráðherra, dags. 1. september 2016. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Jóhannesar Alberts Sævarssonar, sem þykir hæfilega ákveðin 1.250.000 kr., að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

            Með hliðsjón af þessum málsúrslitum, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 1.250.000 kr., og rennur sú fjárhæð í ríkissjóð. Að öðru leyti þykir rétt að málskostnaður falli niður.

            Af hálfu stefnanda flutti málið Jóhannes Albert Sævarsson lögmaður.

            Af hálfu stefnda, A, flutti málið Eva Dís Pálmadóttir lögmaður.

            Af hálfu stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., flutti málið Jón Eðvald Malmquist lögmaður.

            Arnaldur Hjartarson héraðsdómari kveður upp þennan dóm. Dómarinn tók við meðferð málsins 19. febrúar sl., en hafði fram til þess engin afskipti haft af meðferð þess.

 

                                                            D Ó M S O R Ð:

            Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, X, 2.923.754 krónur, ásamt 4,5% ársvöxtum, þar með talið vaxtavöxtum, samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 208.839 krónum frá 1. nóvember 2014 til 1. desember 2014, en af 626.519 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2015, en af 1.044.198 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2015, en af 1.461.877 krónum frá þeim degi til 1. mars 2015, en af 1.879.556 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2015, en af 2.297.235 krónum frá þeim degi til 1. maí 2015, en af 2.714.914 krónum frá þeim degi til 1. júní 2015, en af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til 3. desember 2016, en með dráttarvöxtum, þar með talið vaxtavöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 2.758.874 krónum, sem greiddar voru stefnanda vegna bótatímabilsins sem stóð frá 15. maí 2014 til 15. maí 2015, þ.e. 117.491 krónum þann 1. ágúst 2014, 339.859 krónum þann 1. september 2014, 269.761 krónum þann 1. október 2014, 351.760 krónum þann 1. nóvember 2014, 253.360 krónum þann 1. desember 2014, 234.913 krónum þann 1. janúar 2015, 361.702 krónum þann 1. febrúar 2015, 242.483 krónum þann 1. mars 2015, 264.988 krónum þann 1. apríl 2015, 306.559 krónum þann 1. maí 2015 og 15.998 krónum þann 1. júní 2015.

            Vísað er frá dómi varakröfu og þrautaþrautavarakröfu stefnanda á hendur stefnda, A.

            Vísað er frá dómi kröfu stefnanda um ógildingu starfslokasamnings á milli stefnanda og stefnda, A, sem dagsettur er 15. júní 2014.

            Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Jóhannesar Alberts Sævarssonar, 1.250.000 krónur.

            Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði 1.250.000 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.

            Að öðru leyti fellur málskostnaður niður.

 

                                                                        Arnaldur Hjartarson