• Lykilorð:
  • Fjármögnunarleiga
  • Samningur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júní 2018 í máli nr. E-2535/2017:

Lykill fjármögnun hf.

(Ólafur Hvanndal Ólafsson lögmaður)

gegn

Reyni Georgssyni

(Jóhann Tómas Sigurðsson lögmaður)

Mál þetta, sem dómtekið var 13. júní 2018, var höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 17. ágúst 2017. Stefnandi er Lykill fjármögnun hf., [...]. Stefnt er Reyni Georgssyni, […..]

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 3.311.678 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 53.181 kr. frá 15.4.2014 til 15.5.2014, af 829.648 kr. frá þeim degi til 15.6.2014, af 1.608.930 kr. frá þeim degi til 15.7.2014, af 2.394.377 kr. frá þeim degi til 15.8.2014, af 3.187.481 kr. frá þeim degi til 8.7.2015, af 3.215.381 kr. frá þeim degi til 25.8.2015, af 3.282.162 kr. frá þeim degi til 18.9.2015, af 3.295.678 kr. frá þeim degi til 18.11.2015 og af 3.311.678 kr. frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 877.791 kr. þann 14.12.2015. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda, en til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I.

Með fjármögnunarleigusamningi 6. desember 2006, nr. 138026-027, leigði stefnandi stefnda, 2006-árg. af Mercedes Benz Sprinter-sendibifreið, fastanr. PN-228. Aðilar samningsins sömdu um að leigugjald tæki mið af tilteknum erlendum myntum en í 2. gr. samningsins kemur fram hver sé leigugrunnurinn með virðisaukaskatti. Leigufjárhæð er þar einnig tilgreind án virðisaukaskatts og er sú fjárhæð einnig umreiknuð í þær erlendu myntir sem leigufjárhæðin miðast við og stefnandi fékk lánaðar hjá erlendum fjármögnunaraðilum sínum þegar hann keypti tækið. Í 4. gr. leigusamningsins er gerð grein fyrir grunnleigutímanum, hvenær leigugreiðslur hefjast og fjölda leigugreiðslna. Í 5. gr. leigusamningsins er fjallað um tilhögun leigugreiðslnanna og skiptingu þeirra eftir gjaldmiðlum samningsins. Í 13. gr. samningsins kemur fram að leigutaka beri að standa skil á leigu samkvæmt 5. gr. samningsins á umsömdum gjalddögum. Í 13. og 14. gr. samningsins kemur fram að leigusala sé heimilt að endurreikna leiguna miðað við breytingar á gengi og LIBOR-vöxtum. Með tilvísun í breytingar á gengi er tekið fram að í 2. gr. samningsins sé miðað við að leigugreiðslur séu tengdar tilteknum erlendum myntum, nánar tiltekið evrum, svissneskum frönkum og japönskum jenum. Í 27. gr. samningsins segir að greiði leigutaki ekki leigu og aðrar greiðslur sem honum beri að greiða á gjalddaga skuli hann greiða leigusala dráttarvexti af hinni vangreiddu fjárhæð ásamt kostnaði samkvæmt gjaldskrá leigusala og lögmanna félagsins. Í 28. gr. samningsins er fjallað um riftun. Í 29. gr. samningsins kemur fram að leigutaki beri allan kostnað af því að skila hinu leigða, svo sem flutningskostnað. Þar kemur einnig fram að kostnaður vegna söluskoðunar og viðgerða greiðist af leigutaka. Í 34. gr. leigusamningsins kemur fram að breytingar á samningnum megi aðeins gera með skriflegum viðauka, undirrituðum af samningsaðilum.

Gögn málsins bera með sér að aðilar samningsins hafi gert með sér fjölmarga viðauka við samninginn í samræmi við 34. gr.. Í flestum tilvikum var um að ræða tilhliðrun á greiðslu leigunnar, en þó ber þess að geta að 24. janúar 2008 tók eiginkona stefnda við samningnum með samkomulagi þess efnis en þann 28. maí 2009 tók stefndi við samningnum á ný. Þá gerðu aðilar með sér viðauka við samninginn þann 20. ágúst 2009 þar sem grunnleigutími hans var lengdur og lokadagsetningu grunnleigutímans breytt úr 15. apríl 2012 í 15. september 2014.

Í kjölfar hruns á fjármálamarkaði landsins í lok árs 2008 var mikil óvissa um stöðu gengistryggðra samninga og beindi Fjármálaeftirlitið þeim tilmælum til fjármálafyrirtækja að halda að sér höndum með útgáfu greiðsluseðla vegna slíkra samninga. Á sama tíma var rekinn fyrir dómstólum fjöldi mála sem m.a. fjölluðu um fjármögnunarleigusamningsform Lýsingar hf. (nú stefnanda, þ.e. Lykils fjármögnunar hf.). Mál nr. 652/2011 var hið fyrsta sinnar tegundar hvað þetta tiltekna samningsform varðaði og var niðurstaða Hæstaréttar sú að um væri að ræða leigusamning og því þóttu ákvæði laga nr. 38/2001 ekki girða fyrir að aðilum hefði verið heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra tæki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla.

Með vísan til niðurstöðu þessara dóma var skorað á stefnda að greiða gjaldfallna leigu samkvæmt samningnum. Stefndi varð ekki við áskorunum stefnanda og var samningnum rift í júlí 2014. Stefndi varð ekki við áskorunum stefnanda um greiðslu og afhendingu leigumuna og höfðaði stefnandi því aðfararmál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í lok árs 2014. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2015 í máli A-842/2014 var stefnanda veitt heimild til að fá, með beinni aðfarargerð, tiltekin tæki tekin úr vörslum stefnda. Á meðal þessara tækja var leiguandlag þess samnings sem hér er fjallað um.

Stefndi höfðaði mál gegn stefnanda í upphafi árs 2015 þar sem hann fór fram á að fjármögnunarleigusamningar aðila yrðu dæmdir ógildir og til vara að ótiltekin ákvæði um gengistryggingu yrðu dæmd óskuldbindandi fyrir stefnda. Málinu var vísað frá dómi með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur dags. 15. febrúar 2016. Í apríl 2016 höfðaði stefndi nýtt mál gegn stefnanda og gerði kröfu um að tiltekið orðalag í þremur fjármögnunarleigusamningum aðila yrði dæmt óskuldbindandi. Byggði stefndi m.a. á því að fjármögnunarleigusamningar aðila væru lánssamningar en ekki leigusamningar. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. nóvember 2016 í máli E-1163/2016 var því slegið föstu að fjármögnunarleigusamningur aðila, nr. 138026, væri fjármögnunarleigusamningur sem heimilt hefði verið að binda við gengi erlendra gjaldmiðla eftir ákvæðum VI. kafla laga nr. 38/2001. Um þetta atriði er því ekki deilt í máli því sem hér er komið til úrlausnar héraðsdóms.

Aðfarargerð í leiguandlag þess samnings sem hér er til umfjöllunar fór fram 26. júní 2015. Í kjölfarið fór fram mat á tækinu og uppgjör. Uppgjörinu var mótmælt af hálfu stefnda með bréfi 24. september 2015. Með ódagsettri uppboðsbeiðni sem árituð er um greiðslu hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu 30. október 2015 óskaði stefnandi eftir því að bifreiðin PN 228 yrði seld á uppboði á grundvelli 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/1991. Bifreiðin var seld á uppboði sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 9. desember 2015. Í framhaldi af því var uppgjör aðila leiðrétt, sbr. verðmatsskýrslu stefnanda 14. desember 2015 og greiðsluseðla sem sendir voru stefnda sama dag, auk bréfs stefnanda til stefnda um uppgjörið 15. desember 2015 þar sem stefnda var gefinn 7 daga frestur til að greiða eftirstöðvar skuldarinnar.

Stefndi hefur ekki greitt skuld samkvæmt uppgjöri samningsins og höfðaði stefnandi mál þetta til innheimtu eftirstöðva.

II.

Stefnandi byggir á því að ógreidd sé skuld stefnda samkvæmt eftirfarandi leigureikningum, sem og reikningum vegna útlagðs kostnaðar stefnanda:

Nr. reiknings

Lýsing

Gjalddagi

Eindagi

Fjárhæð

11740079

Leigureikningur

15.4.2014

15.4.2014

53.181

11745384

Leigureikningur

15.5.2014

15.5.2014

776.467

11751257

Leigureikningur

15.6.2014

16.6.2014

779.282

11756300

Leigureikningur

15.7.2014

15.7.2014

785.447

11765362

Leigureikningur

15.8.2014

15.8.2014

793.104

11833933

Flutningur

8.7.2015

8.7.2015

27.900

11842262

PN228-Askja-Lykill m/fjarst.

25.8.2015

25.8.2015

66.781

11844917

PN228-Frumherji-Skoðun og kostn.

18.9.2015

18.9.2015

13.516

11855349

Nauðungarsölu-gjald

18.11.2015

18.11.2015

9.500

11855354

Uppboðsbeiðni

18.11.2015

18.11.2015

6.500

 

Frá ofangreindri skuld dragist innborgun 14. desember 2015 að fjárhæð 877.791 kr. Innborgunin jafngildir matsverði tækisins, sbr. 30. gr. fjármögnunar­leigu­samningsins.

Til frekari skýringar skiptir stefnandi kröfum sínum samkvæmt framangreindri töflu í tvo flokka, nánar tiltekið leigusamninga og reikninga vegna útlagðs kostnaðar.

  1. Leigureikningar.

Að sögn stefnanda eru fimm leigureikningar ógreiddir sem tilgreindir eru sem leigugreiðslur í töflunni hér að ofan. Um sé að ræða kröfur stefnanda um greiðslu samkvæmt fjármögnunarleigusamningi aðila nr. 138026. Umræddir reikningar hafi verið gefnir út mánaðarlega í samræmi við ákvæði fjármögnunarleigusamnings aðila. Fjárhæðir ofangreindra leigureikninga hafi verið umreiknaðar úr erlendum myntum yfir í íslenskar krónur, í samræmi við ákvæði 2. gr. og 14. gr. fjármögnunar­leigu­samningsins. Um nánari sundurliðun á leigugreiðslum vísar stefnandi til framlagðra afrita af umræddum leigureikningum.

  1. Reikningar vegna útlagðs kostnaðar.

Krafist er greiðslu reikninga vegna ógreidds kostnaðar við verðmat bifreiðarinnar og kaupa á nýjum lyklum þar sem stefndi fékkst ekki til að afhenda lykilinn að bifreiðinni.

Jafnframt er krafist greiðslu á kostnaði við flutning tækisins við vörslusviptingu þess á grundvelli aðfararheimildar, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjaness 9. mars 2015, en samkvæmt 29. gr. fjármögnunarleigusamningsins beri leigutaki allan kostnað af því að skila hinu leigða. Nánar vísar stefnandi um þetta til framlagðra afrita af reikningum vegna útlagðs kostnaðar.

Stefnandi vísar til þess að gjald­dagi leigugreiðslna hafi verið 15. hvers mánaðar líkt og fram komi í fjármögnunarleigusamningnum, svo og í útgefnum reikningum. Dráttarvextir af útlögðum kostnaði reiknist frá gjalddaga hvers reiknings, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi til almennra reglna kröfuréttarins um greiðslu fjárskuldbindinga og til ákvæða samningalaga nr. 7/1936. Vaxtakröfur styður stefnandi við 1., 2. og 3. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varnarþing stefnda byggir á 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991, en fram kemur í 35. gr. fjármögnunarleigusamnings aðila að heimilt sé að höfða mál þetta fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

III.

Kröfur stefnda um sýknu eða lækkun dómkröfu stefnanda eru á því reistar að ákvæði 29. og 30. gr. fjármögnunarleigusamnings aðila séu í andstöðu við ákvæði laga og verði ekki lögð til grundvallar uppgjöri aðila. Að minnsta kosti verði ákvæðunum, auk ákvæðis 27. gr. samningsins, ekki beitt í lögskiptum aðila nema að hluta og að undangengum breytingum.

            Stefndi byggir á því að ákvæði 1. töluliðar 1. mgr. 30. gr. fjármögnunarleigusamningsins sé andstætt meginreglum kröfu- og leiguréttar. Með yfirlýsingu 11. júlí 2014 hafi stefnandi lýst yfir riftun fjármögnunarleigusamnings aðila og þar með bundið enda á samningssamband þeirra. Samkvæmt meginreglum kröfu- og leiguréttar feli riftun í sér tilkynningu yfirlýsingargjafa um að hann ætli ekki að efna samninginn að sínu leyti, vegna vanefnda gagnaðila, og leysi hann þá gagnaðila jafnframt undan skyldu sinni samkvæmt samningnum.

Málatilbúnaður stefnanda sé í ósamræmi við þessa meginreglu. Nánar tiltekið krefji stefnandi stefnda um greiðslu vegna leigu með gjalddaga 15. júlí og 15. ágúst 2014, þ.e. eftir að riftun var lýst yfir og hún móttekin af stefnda. Þegar af þessari ástæðu verði stefndi ekki krafinn um greiðslu leigu á umræddum gjalddögum. eftir að samningi hefur verið rift.

Stefndi telur engu breyta í þessum efnum þó svo að í 1. tölulið 1. mgr. 30. gr. fjármögnunarleigusamningsins sé vísað til þess að leigutaki skuli greiða ógjaldfallna leigu í kjölfar riftunar. Stefndi telur að víkja beri ákvæðinu til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, enda sé ákvæðið bersýnilega ósanngjarnt. Íslenskir dómstólar hafi talið að umræddur fjármögnunarleigusamningur sé leigusamningur, en ekki lánssamningur. Sama niðurstaða hafi orðið í máli E-1163/2016 sem stefndi höfðaði á hendur stefnanda. Í greinargerð stefnda þess máls, stefnanda þessa máls, hafi í löngu máli verið rakið að samningur aðila væri leigusamningur – ekki lánssamningur. Stefnandi telur að víkja beri ákvæðinu til hliðar enda fái ekki staðist að stefnandi geti byggt á því að um leigusamning sé að ræða, og þannig komist undan banni laga nr. 38/2001 gegn gengistryggingu lánssamninga, en um leið byggt á meginreglum sem gilda um uppgjör lánssamninga við útreikning kröfu sinnar. Í þessu sambandi vísar stefndi jafnframt til eftirfarandi kafla úr greinargerð stefnanda sem lögð var fram í máli nr. E-1163/2016:

 

Stefnandi [stefndi þessa máls] á ekki að geta komist upp með það að kalla fjármögnunarleigusamningana ýmist leigusamninga eða lánssamninga eftir því hvað honum hentar hverju sinni. Komist hann upp með það auðgast hann á ólögmætan hátt.

Stefnandi hafi með öðrum orðum lýst því yfir að ósanngjarnt sé að velja regluverk eftir því sem hentar best hverju sinni. Málatilbúnaður stefnanda í þessu máli sé í ósamræmi við þetta.

Telji stefnandi sig hafa orðið fyrir tjóni vegna riftunarinnar beri honum að höfða mál á hendur stefnda til greiðslu skaðabóta. Það hafi stefnandi ekki gert, heldur krafist greiðslu vegna tveggja ofangreindra gjalddaga á grundvelli 30. gr. fjármögnunarleigusamningsins. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Stefndi byggir varnir sínar einnig á því að ákvæði 4. og 5. málsliðar 1. mgr. 29. gr. fjármögnunarleigusamnings málsaðila, um skil leigumunar, og 4. töluliðar 1. mgr. 30. gr., um uppgjör, séu andstæð 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt 19. gr. laganna beri fjármálafyrirtækjum að starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði.

Ákvæðið um heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti sé nánar útfært í reglum Fjármálaeftirlitsins nr. 670/2013. Í 1. tölulið 9. gr. reglnanna komi fram að fjármálafyrirtæki skuli tryggja í samskiptum við viðskiptamenn að það starfi á heiðarlegan og réttlátan hátt og annist viðskipti sín af fagmennsku og kostgæfni með hagsmuni viðskiptamanna og trúverðugleika fjármálamarkaðarins að leiðarljósi. Í 2.– 5. tölulið 9. gr. sé fjallað um víðtæka upplýsingaskyldu fjármálafyrirtækis gagnvart viðskiptamanni. Samkvæmt 6. tölulið beri fjármálafyrirtæki að tryggja að viðskiptamaður sé ekki beittur óeðlilegum þrýstingi til að hafa áhrif á ákvörðun hans.

Fjármálaeftirlitið hafi slegið því föstu að sú aðferðafræði sem tilgreind er í fjármögnunarleigusamningnum við verðmat af þeim toga sem stefnandi lét framkvæma á bifreiðinni, sbr. 4. og 5. málslið 1. mgr. 29. gr. fjármögnunarleigusamningsins, sé í andstöðu við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Andmæli stefnda við hinu ólögmæta verðmati hafi leitt til þess að bifreiðin var seld á nauðungaruppboði, þvert gegn vilja stefnda, í stað þess að bjóða bifreiðina fyrst til sölu á frjálsum markaði með það fyrir augum að fá hærra verð fyrir hana. Uppboðið hafi með öðrum orðum verið þvingað fram gegn mótmælum stefnda á grundvelli hins ólögmæta samningsákvæðis. Mótmæli stefnda hafi ekki verið tilhæfulaus. Þau hafi byggst á verðmati Bílaumboðsins Öskju, umboðsaðila Mercedes Benz hér á landi, þar sem verðmæti bifreiðarinnar hafi verið talið 1.800.000 til 2.200.000 krónur auk virðisaukaskatts. Í verðmati Öskju komi fram að bifreiðin sé „ágætlega vel útbúin“ og að „farið [sé] að sjá á lakki en bíllinn í góðu lagi“. Verðmæti bifreiðarinnar sé tilgreint á bili því „spurning [sé] hvað á að ganga langt í lakkviðgerð“.

Samkvæmt eigin verðmatsskýrslu stefnanda hafi bifreiðin hins vegar verið metin á 510.812 krónur án virðisaukaskatts. Nánar tiltekið hafi listaverð bifreiðarinnar (sem á að taka mið af aldri og ástandi bifreiðar) verið talið 1.800.000 krónur en „uppítökuverð“ talið 1.530.000 krónur, eða 15% lægra. Viðgerðarkostnaður vegna ástands bifreiðarinnar hafi verið talinn 1.019.188 krónur og matsverð bifreiðarinnar því samtals 510.812 krónur. Fjármálaeftirlitið hafi lýst þessa aðferðafræði í andstöðu við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, enda feli hún í sér að ástand bifreiðar vegna aldurs sé dregið tvisvar frá matsvirðinu því gangvirði miðist við að um notaða bifreið sé að ræða.

Væri uppgjörsaðferð stefnanda lögð til grundvallar væri stefnandi að hagnast með ólögmætum hætti á kostnað stefnda, enda verði að ætla að ef framkvæmd yrði viðgerð á bifreiðinni fyrir rúma eina milljón króna þá myndi það leiða til sambærilegrar hækkunar á verðmæti bifreiðarinnar.

Á þessum grundvelli og með vísan til 36. gr. samningalaga telur stefndi að víkja beri 4. og 5. málslið 1. mgr. 29. gr., þar sem framangreindri aðferðafræði er lýst, og 4. tölulið 1. mgr. 30. gr. fjármögnunarleigusamningsins til hliðar, enda hafi uppboð bifreiðarinnar á grundvelli ákvæðisins verið bein afleiðing af aðferðafræði samkvæmt 29. gr. samningsins sem Fjármálaeftirlitið telur að sé andstæð lögum.

            Stefndi reisir varnir sínar jafnframt á því að samkvæmt 3. mgr. 69. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu skuli ákvæðum 57. gr. laganna beitt við nauðungarsölu lausafjármuna. Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laganna getur gerðarbeiðandi aðeins krafið gerðarþola um greiðslu þess sem eftir standi af skuldbindingunni að því leyti sem gerðarbeiðandi sýnir fram á að markaðsverð eignarinnar hafi við samþykki boðs ekki nægt til fullnustu kröfunnar. Þetta ákvæði laganna sé reist á meginreglunni um skyldu aðila til takmörkunar tjóns. Stefndi telur að ákvæði 4. töluliðar 1. mgr. 30. gr. fjármögnunarleigusamnings aðila sé í andstöðu við þessi ákvæði laganna og jafnframt andstætt meginreglunni um skyldu aðila til takmörkunar tjóns. Stefndi byggir ennfremur á því að ákvæðið sé andstætt 19. gr. laga nr. 161/2002, enda geti samningsákvæði sem er andstætt lögum aldrei talist vera í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Stefnandi hafi engin gögn lagt fram til stuðnings því að markaðsverð bifreiðarinnar hafi við framkvæmd uppboðs verið lægra en höfuðstóll kröfu hans. Þvert á móti virðist krafa stefnanda, að frádregnum kröfuliðum vegna leigugreiðslna á gjalddaga 15. júlí og 15. ágúst 2014, hafa verið lægri en sem nemur markaðsverði bifreiðarinnar.

Stefndi byggir á því að hann njóti sama réttar og stefnandi samkvæmt 27. gr. fjármögnunarleigusamningsins til að greiða í uppgjörsmyntum samnings. Samkvæmt niðurlagi þess samningsákvæðis sé stefnanda heimilt að láta verð- eða gengistryggingu haldast á gjaldfallinni fjárhæð. Stefndi byggir á því að ekki fáist staðist að stefnandi geti einn krafist þess að gjaldfallin fjárhæð sé gengistryggð. Þannig geti stefnandi borið fyrir sig gengistryggingu verði þróun gjaldmiðla honum í hag en haldið sig við fjárhæð á útgáfudegi reiknings þegar gengi gjaldmiðla hefur þróast honum í óhag. Stefndi byggir á því að skýra verði 27. gr. fjármögnunarleigusamningsins með þeim hætti að stefnda sé heimilt að greiða vangreiddar kröfur í sömu erlendu myntum og eru grundvöllur leigufjárhæðar eða jafngildi þeirra í íslenskum krónum.

Kröfu sinni til stuðnings vísar stefndi til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og 19. gr. laga nr. 161/2002. Þá vísar stefndi einnig til þess að kröfur á grundvelli fjármögnunarleigusamningsins voru ekki gjaldfelldar í einu lagi heldur er krafist greiðslu úr hendi stefnda vegna hvers gjalddaga.

Með vísan til framangreindra málsástæðna telur stefndi að víkja beri 4. og 5. málslið 29. gr. og 1. og 4. tl. 1. mgr. 30. gr. fjármögnunarleigusamningsins til hliðar. Stefndi telur bæði ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að ákvæðunum verði beitt um uppgjörið í óbreyttri mynd og að stefnandi hafi einn val um hvort gengistrygging fjármögnunarleigusamningsins haldi eftir vanskiladag. Breyta verði þessum ákvæðum samningsins til samræmis við meginreglur kröfu- og leiguréttar og ákvæði nauðungarsölulaga þannig að aðilar njóti jafns réttar við uppgjör samningsins. Við mat samkvæmt framangreindu verði jafnframt að horfa til 19. gr. laga nr. 161/2002.

Hvað efni samningsins snertir þá veiti 27. gr. samningsins stefnanda einhliða rétt til að bera fyrir sig gengistryggingu, sé það honum hagfellt, annars ekki. Ákvæðið sé því bersýnilega ósanngjarnt, svo lengi sem stefnda er ekki veittur sami réttur. Hvað varðar þá aðferðafræði við verðmat sem lýst er í 4. og 5. málslið 1. mgr. 29. gr. samningsins þá liggi fyrir sú afstaða Fjármálaeftirlitsins, sem sé ekki mótmælt af markaðsaðilum, að aðferðafræðin sé í andstöðu við lög. Ákvæði 1. og 4. tl. 1. mgr. 30. gr. samningsins sé í andstöðu við meginreglur kröfu- og leiguréttar og ákvæði nauðungarsölulaga.

Hvað stöðu aðila snertir vísar stefndi til þess að stefnandi sé fjármálafyrirtæki sem starfar samkvæmt opinberu leyfi og hefur á að skipa starfsmönnum sem hafa sérþekkingu á fjármögnunarleigusamningum. Öll skjöl í málinu, þ.m.t. fjármögnunarleigusamningurinn, hafi verið útbúin af stefnanda. Óumdeilt sé hins vegar að stefndi bjó hvorki yfir sérstakri menntun né þekkingu á þessu sviði og sé því ljóst að stefnandi hafi haft yfirburðaaðstöðu í lögskiptum þeirra. Því hafi verið rík ástæða fyrir stefnanda til að vanda vinnubrögð við samningsgerðina, enda miklir fjárhagslegir hagsmunir verið í húfi fyrir stefnda.

Hvað varðar atvik við samningsgerðina og atvik sem síðar komu til þá liggi ekkert fyrir um það í málinu að stefnandi hafi greitt upp undirliggjandi samninga í erlendri mynt. Þvert á móti megi ætla að stefnandi muni njóta ávinnings af því að uppgjör kröfunnar miðist við stöðu undirliggjandi gjaldmiðla á gjalddögum fjármögnunarleigusamningsins árið 2014, en ekki stöðu gjaldmiðla við síðara tímamark. Þannig hafi kröfur á grundvelli fjármögnunarleigusamningsins ekki verið gjaldfelldar í einu lagi heldur krefjist stefnandi greiðslu úr hendi stefnda vegna hvers gjalddaga. Þá sé alls óvíst og í reynd ósannað að stefnandi hafi þurft að endurgreiða þá fjármuni sem stefnandi tók að láni til að fjármagna fjármögnunarleigusamninginn.

Stefndi krefst þess aðallega að við útreikning á kröfu stefnanda verði einungis horft til gjaldfallinna greiðslna, að frádregnu markaðsvirði bifreiðarinnar þegar hún var seld á uppboði 9. desember 2015. Þá verði enginn viðbótarkostnaður lagður á stefnda vegna nauðungarsölu bifreiðarinnar, enda hefði aldrei þurft að koma til hennar, hefði rétt markaðsvirði verið lagt til grundvallar. Stefndi byggir á því að þessi aðferðafræði leiði til þess að stefnandi eigi enga kröfu á hendur stefnda og því beri að sýkna stefnda. Raunin sé enda sú að stefndi eigi inneign hjá stefnanda vegna þessa samnings líkt og neðangreindir útreikningar beri með sér:

 

Markaðsverð bifreiðar án vsk:                        2.200.000 kr.

Leigugreiðslur gjaldfallnar fyrir riftun:                       -1.608.930 kr.

            Mismunur (inneign stefnda):                    591.070 kr.

 

Telji dómurinn allt að einu að stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda á grundvelli þessarar aðferðafræði,byggir stefndi á því að leggja verði til grundvallar að honum sé heimilt að greiða kröfuna miðað við gengi undirliggjandi gjaldmiðla, svissnesks franka og japansks jens, á dómsuppkvaðningardegi.

Telji dómurinn að stefnandi eigi kröfu vegna allra ógreiddra gjalddaga samkvæmt leigusamningnum byggir stefndi á því að draga verði frá kröfu stefnanda markaðsvirði bifreiðarinnar á þeim tíma þegar hún var seld á uppboði 9. desember 2015. Þá verði enginn viðbótarkostnaður lagður á stefnda vegna nauðungarsölu bifreiðarinnar, enda hefði hún aldrei þurft að koma til hefði réttri aðferðafræði verið beitt, og jafnframt að lagt verði til grundvallar að stefnda sé heimilt að greiða kröfuna miðað við gengi undirliggjandi gjaldmiðla, svissnesks franka og japansks jens, á dómsuppkvaðningardegi.

Leigugreiðslur skv. útreikningum stefnanda:  3.187.481 kr.

Markaðsvirði bifreiðar án vsk:                                    -2.200.000 kr.

            Mismunur (m.v. eldra gengi):                   987.481 kr.

 

Til vara byggir stefndi á því að draga verði frá kröfu stefnanda markaðsvirði bifreiðarinnar á þeim tíma þegar hún var seld á uppboði 9. desember 2015 og jafnframt að lagt verði til grundvallar að stefnda sé heimilt að greiða kröfuna miðað við gengi undirliggjandi gjaldmiðla, svissnesks franka og japansks jens, á dómsuppkvaðningardegi.

 

Krafa stefnanda:                                                         3.311.678 kr.

Markaðsvirði bifreiðar án vsk:                                    2.200.000 kr.

            Mismunur (m.v. eldra gengi):                          1.111.678 kr.

Til þrautavara byggir stefndi á því að frá dómkröfu stefnanda verði dregin fjárhæð sem sé hærri en úthlutunarvirði bifreiðarinnar, 877.791 króna, allt að áliti dómsins, og jafnframt að lagt verði til grundvallar að stefnda sé heimilt að greiða kröfuna miðað við gengi undirliggjandi gjaldmiðla, svissnesks franka og japansks jens, á dómsuppkvaðningardegi.

Til þrautaþrautavara byggir stefndi á því að frá dómkröfu stefnanda verði dregin fjárhæð sem sé hærri en úthlutunarverð bifreiðarinnar, 877.791 krónur.

Verði fallist á dómkröfu stefnanda að einhverju leyti krefst stefndi þess að dráttarvextir verði ekki dæmdir fyrr en frá dómsuppkvaðningardegi.

Málskostnaðarkrafa stefnda byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.     

IV.

Lögskiptum málsaðila til grundvallar liggur fjármögnunarleigusamningur þeirra á milli sem undirritaður var 6. desember 2006 og ber númerið 138026-027. Andlag leigusamningsins var Mercedes Benz Sprinter-sendibifreið með fastanúmerið PN-228, árgerð 2006. Ekki er um það deilt að stefndi hafi staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum lengi framan af eða allt fram til ársins 2014. Mál þetta hefur stefnandi sem fyrr segir höfðað vegna vanskila stefnda eftir það tímamark.

            Með bréfi þáverandi lögmanns stefnda 24. september 2015 voru sett fram mótmæli gegn verðmati sem stefnandi hafði látið framkvæma á títtnefndri bifreið nr. PN-228 28. ágúst 2015. Jafnframt var í bréfinu mótmælt uppgjöri stefnanda 21. september 2015. Mótmæli stefnda voru byggð á því að mat stefnanda væri of lágt og endurspeglaði ekki verðmæti leiguandlagsins.

            Í síðastgreindu bréfi þáverandi lögmanns stefnda var um rökstuðning vitnað sérstaklega til 29. gr. og 4. tl. 30. gr. fjármögnunarleigusamnings aðila, sem stefndi telur nú að séu í andstöðu við ákvæði laga og verði ekki lögð til grundvallar uppgjöri aðila. Í 29. gr. samningsins er að finna ákvæði um skil leigumunar og þar kemur meðal annars fram að stefnanda sé „heimilt að láta meta leigumun til uppítökuverðs af umboðsaðila eða öðrum til þess bærum aðila að mati Lýsingar hf. (nú stefnanda) og skulu við það bætast 15% viðbótarafföll auk viðgerðarkostnaðar og 3% sölulauna“. Í beinu framhaldi segir orðrétt: „Ef um bifreið er að ræða sem skráð er í Bíló (viðmiðunarverðskrá bílaumboðanna) skal matið miðað við það kauptilboð (uppítökuverð) sem þar er tilgreint auk 15% viðbótaraffalla, viðgerðarkostnaðar og 3% sölulauna. Kostnaður vegna söluskoðunar og viðgerða greiðist af leigutaka.“

            Í tilvitnuðum 4. tl. 30. gr. samningsins segir meðal annars: „Frá skuld leigutaka til Lýsingar hf. skv. tl. 1-3 hér að framan skal draga verðmat hins leigða. Verði ágreiningur um matið og/eða viðgerðarkostnað og aðilar ná ekki samkomulagi, má leigusali láta selja hið leigða á opinberu uppboði skv. 8. gr. laga nr. 90/1991, enda hafi leigutaki mótmælt matinu eða uppgjörinu skriflega innan 7 daga frá því honum mátti vera það kunnugt.“

            Í áðurnefndu bréfi þáverandi lögmanns stefnda 24. september 2015 er staðhæft að tilkynning um mótmæli stefnda við verðmati og uppgjöri stefnanda sé send innan tilskilins frests. Af málsgögnum verður ekki annað ráðið en að stefnandi hafi, að mótmælum þessum fram komnum, hagað athöfnum sínum í samræmi við ákvæði 4. tl. 30. gr. samnings málsaðila með því að beina uppboðsbeiðni til sýslumanns á grundvelli 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/1991 í október 2015. Í lagaákvæði þessu er kveðið á um heimildir „til að ráðstafa eign ef þess er krafist af eiganda hennar eða eigendum báðum eða öllum, séu þeir fleiri en einn“. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 90/1991 um nauðungarsölu segir um ákvæði þetta að það geymi heimild til þess að eigandi eða eftir atvikum eigendur eignar leiti eftir ráðstöfun hennar samkvæmt ákvæðum þessum af fúsum og frjálsum vilja. Um ákvæði 1. mgr. 8. gr. segir nánar í athugasemdunum að heimildarákvæði þetta njóti sérstöðu meðal annarra ákvæða frumvarpsins að því leyti að það taki til frjálsrar ráðstöfunar á eign. Ákvæðið leyfi eiganda eignar að leita eftir því að aðferðum frumvarpsins verði beitt til að koma eign hans í verð í stað þess að hann selji hana sjálfur í frjálsum viðskiptum. Þá segir jafnframt í athugasemdunum að með heimild 1. mgr. 8. gr. sé eiganda „veittur aðgangur að því að fá eign sinni komið í verð eftir aðferðum frumvarpsins, ef hann svo kýs, en réttaráhrif sölunnar eru ekki frábrugðin þeim sem mundu fylgja frjálsri sölu með venjulegum hætti.“ Bifreiðin PN-228 var í samræmi við þetta seld á svokölluðu frjálsu uppboði, sem fram fór samkvæmt vilja stefnda sjálfs. Að teknu tilliti til þessa verður ekki talið að tilefni sé til þess að gera efnislegar athugasemdir við það hvernig staðið var verki við sölu bifreiðarinnar af hálfu stefnanda. Gildir hið sama um verðmat og uppgjör sem stefnda hefur verið kynnt á fyrri stigum, sbr. bréf stefnanda þar að lútandi 15. desember 2015.

Kemur þá til skoðunar sú málsástæða stefnda að ákvæði 1. töluliðar 1. mgr. 30. gr. fjármögnunarleigusamningsins sé andstætt meginreglum kröfu- og leiguréttar. Umrætt samningsákvæði geymir ákvæði um uppgjör vegna loka samningsins, þar á meðal vegna riftunar af hálfu stefnanda, sem nánar tilgreint er þess efnis að leigutaki skuli greiða alla ógjaldfallna leigu samkvæmt 5. gr. samningsins og skatta og gjöld samkvæmt 26. gr. samningsins, vátryggingar samkvæmt 23. gr. og allan annan kostnað af hinu leigða ásamt dráttarvöxtum frá uppgjörsdegi. Við mat á því hvort samningsákvæði þetta fari í bága við meginreglur íslensks kröfu- og leiguréttar verður ekki horft fram hjá niðurlagsákvæði samningsins þar sem fram kemur meðal annars í feitletruðum texta að leigutaki hafi kynnt sér „og hafa ekkert við að athuga alla skilmála samnings þessa, greinar 1-35 og þá sérstaklega ákvæði greina nr. 19, 20, 21, 22, 24, 28, 29 og 30“. Þá er jafnframt til þess að líta að Hæstiréttur Íslands hefur fengið sambærileg samningsákvæði í stöðluðum samningum stefnanda til skoðunar og ekki gert athugasemdir við efni þeirra út frá meginreglum íslensks réttar, sbr. t.a.m. dóm réttarins 18. maí 2017 í máli nr. 596/2016. Í niðurstöðu héraðsdóms sem staðfestur var með síðastnefndum dómi Hæstaréttar með vísan til forsendna kemur fram að það sé eitt megineinkenni fjármögnunarleigusamninga að leigusali geti við riftun slíkra samninga krafið leigutaka meðal annars um alla ógjaldfallna leigu. Samningur sá sem liggur lögskiptum málsaðila hér til grundvallar ber, sem fyrr segir, yfirskriftina „Fjármögnunarleigusamningur“ og hefur öll sömu einkenni og sambærilegir samningar um fjármögnunarleigu sem komið hafa til skoðunar hjá íslenskum dómstólum á síðustu árum, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar Íslands 24. maí 2012 í máli nr. 652/2011 og dóm Hæstaréttar 12. júlí 2013 í máli nr. 459/2013. Að þessu aðgættu verður ekki á það fallist með stefnda að inntak tilvísaðs ákvæðis 1. mgr. 30. gr. samnings málsaðila fari í bága við meginreglur íslensks réttar svo að ógildi varði. Með sömu rökum ber að hafna málsástæðum stefnda að því er viðvíkur 27. og 29. gr. fjármögnunarleigusamnings aðila.

Ákvæði á borð við það sem tilgreint er í 4. tl. 1. mgr. 30. gr. fjármögnunarleigusamningsins hafa lengi tíðkast í íslenskum rétti enda gefa slík ákvæði samningsaðilum kost á úrlausn ágreinings sem getur verið aðilum hagfelld. Í því samhengi sem hér um ræðir verður heldur ekki fram hjá því litið að stefndi hefur sjálfur á fyrri stigum borið efni þessa ákvæðis fyrir sig í samskiptum við stefnanda, sbr. áðurnefnt bréf þáverandi lögmanns hans til stefnanda 24. september 2015. Getur þessi mótbára því ekki komið stefnda að haldi nú. Af öllu framanskráðu leiðir að kröfur stefnanda verða teknar til greina, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Samkvæmt þessum úrslitum málsins, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákvarðaður 950.000 kr.

Arnar Þór Jónsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

            Stefndi, Reynir Georgsson, greiði stefnanda, Lykli fjármögnun ehf., 3.311.678 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 53.181 krónu frá 15.4.2014 til 15.5.2014, af 829.648 krónum frá þeim degi til 15.6.2014, af 1.608.930 krónum frá þeim degi til 15.7.2014, af 2.394.377 krónum frá þeim degi til 15.8.2014, af 3.187.481 krónu frá þeim degi til 8.7.2015, af 3.215.381 krónu frá þeim degi til 25.8.2015, af 3.282.162 krónum frá þeim degi til 18.9.2015, af 3.295.678 krónum frá þeim degi til 18.11.2015 og af 3.311.678 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 877.791 króna þann 14.12.2015.

            Stefndi greiði stefnanda 950.000 króna í málskostnað.

 

Arnar Þór Jónsson