• Lykilorð:
  • Gripdeild
  • Líkamsárás
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 9. apríl 2019 í máli nr. S-110/2019:

Ákæruvaldið

(Elín Hrafnsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

 

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, var höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 12. febrúar 2019 á hendur „X, kt. [...], [...], [...], fyrir eftirtalin umferðar-, lögreglu- og hegningarlagabrot í Reykjavík:

 

I

Umferðar- og lögreglulagabrot með því að hafa:

 

1. Mánudaginn 24. júlí 2017 ekið bifreiðinni [...] án gildra ökuréttinda og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 2,01 ‰) um Breiðholtsbraut uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

 

2. Aðfaranótt mánudagsins 25. desember 2017 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 2,32 ‰) um Bárugötu og Stýrimannastíg, ekki sinnt stöðvunarmerkjum sem lögregla gaf honum heldur aukið hraðann suður Stýrimannastíg og síðan um Öldugötu á miklum hraða, ekki náð beygju inn á Unnarstíg sökum hálku og bleytu, þar sem aksturinn stöðvaðist og farið út úr bifreiðinni og reynt að komast undan á hlaupum en lögregla hljóp hann uppi og handtók skömmu síðar við vesturenda Landakotsspítala.

 

3. Síðdegis fimmtudaginn 26. júlí 2018 ekið sömu bifreið sviptur ökurétti og með 82 km hraða á klst. austur hringbraut við Njarðargötu, þar sem leyfður hámarkshraði var 60 km á klst.

 

II

Hegningarlagabrot, líkamsárás og gripdeild með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 30. apríl 2017 á veitingastaðnum [...] í [...] tekið úlpu A, sem í voru farsími hennar, húslyklar og fleira, og er hún kom að ákærða íklæddum úlpunni fyrir utan [...] í [...] og hugðist fá úlpuna sína til baka, veist að henni og slegið ítrekað hnefahöggum í andlitið með þeim afleiðingum að hún hlaut skurð á andliti og mar og yfirborðsáverka á öðrum hlutum höfuðs.

 

Teljast brot í öllum liðum kafla I varða við 1. mgr. 48. gr., og brot í liðum 1 og 2 auk þess við 1. sbr. 3. mgr. 45. gr., en brot í lið 3 auk þess við 1. sbr. 3. mgr. 37. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðalaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997, og brot í lið 2 telst einnig varða við 1. mgr. 19. gr., sbr. 41. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, þá telst brot í kafla II varða við 1. mgr. 217. gr. og 245. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.

 

Einkaréttarkrafa:

Þá gerir Bjarni Þór Sigurbjörnsson, hdl., f.h. A, kt. [...], kröfu um að ákærða X, kt. [...], verði gert að greiða A skaða- og miskabætur samtals að fjárhæð kr. 1.744.280-, með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 30. apríl 2017 þar til 30 dagar eru liðnir frá birtingu kröfunnar, en síðan með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.“

 

            Ákærði sótti ekki þing við fyrirtöku málsins í dag og hafði ekki boðað forföll þrátt fyrir löglega birtingu ákæru og fyrirkalls. Verður málið dæmt samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála enda var þess getið í fyrirkallinu að þannig gæti farið um meðferð málsins.

            Með vísan til framanritaðs og til rannsóknargagna málsins telst framangreind háttsemi sönnuð og er hún rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærði er fæddur í [...] [...]. Hann hefur einu sinni gengist undir lögreglustjórasátt vegna umferðarlagabrots og er ákæruliður I.1 hegningarauki við þá sátt. Með hliðsjón af framangreindu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 90 daga en fullnustu refsingarinnar er frestað og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Með vísan til lagaákvæða í ákæru er ákærði sviptur ökurétti í fimm ár, frá 29. september 2019 að telja.

 

            Af hálfu A er krafist miskabóta að fjárhæð 1.500.000 krónur auk málskostnaðar. Brotaþoli á rétt á miskabótum með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 300.000 krónur ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir. Þá á brotaþoli rétt til málskostnaðar sem ákveðinn verður 210.800 krónur.

            Ákærði greiði 92.410 krónur í sakarkostnað.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Elín Hrafnsdóttir aðstoðarsaksóknari.

            Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

 

                                                              D Ó M S O R Ð :

            Ákærði, X, sæti fangelsi í 90 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði er sviptur ökurétti í fimm ár, frá 29. september 2019 að telja.

            Ákærði greiði A 300.000 krónur með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. apríl 2017 til 28. apríl 2019 en þá með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags, auk 210.800 króna í málskostnað.

            Ákærði greiði 92.410 krónur í sakarkostnað.