• Lykilorð:
  • Farbann
  • Gæsluvarðhaldsvist
  • Handtaka
  • Miskabætur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2018 í máli nr. E-2251/2017:

X

(Bjarni Hauksson lögmaður)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 27. mars 2018, var höfðað 28. júní 2017 af hálfu X, [...] ríkisborgara með lögheimili á [...], f. 18. apríl 1990, á hendur íslenska ríkinu, Reykjavík, til greiðslu miskabóta.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 5.750.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þingfestingardegi til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti af málflutningsþóknun lögmanns, án tillits til gjafsóknar.

Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins. Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Atvik málsins eru þau að 15. mars 2015 lagði kona fram kæru hjá lögreglu um að brotið hefði verið gegn henni kynferðislega aðfaranótt 14. mars 2015 á heimili hennar í Reykjavík. Hún kvaðst hafa hitt þrjá erlenda karlmenn á veitingastaðnum English Pub og hefði hún boðið þeim heim til sín eftir lokun staðarins. Tveir mannanna hefðu fljótlega yfirgefið staðinn, en einn orðið eftir og hefði sá brotið gegn henni. Hann hafi verið að hjálpa henni að leita að símanum hennar í sófa þegar hann hafi dregið niður um sig buxurnar, farið ofan á hana í sófanum, dregið buxur hennar niður og haft við hana samræði án hennar samþykkis.

Í kjölfar kærunnar var stefnandi handtekinn 17. mars 2015 og settur í fangaklefa á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík. Var hann yfirheyrður sama dag og honum kynnt að hann lægi undir grun um kynferðisbrot. Stefnandi gekkst við því að hafa átt samskipti við umrædda konu, en neitaði afdráttarlaust að hafa brotið gegn henni. Tæpum sólarhring eftir handtöku stefnanda, um hádegisbil þann 18. mars 2015, var honum með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur gert að sæta gæsluvarðhaldi í einangrun til 20. mars 2015, kl. 16.00, á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Þann 20. mars 2015 var stefnandi leiddur að nýju fyrir dómara sem úrskurðaði hann í farbann til 17. apríl 2015 á grundvelli b-liðar 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 100. gr. sömu laga. Stefnandi var yfirheyrður fjórum sinnum vegna málsins á tímabilinu 17. til 31. mars 2015. Hann neitaði því alltaf að hafa brotið gegn kæranda, en greindi frá því að hann hefði farið heim með henni umrædda nótt og hefðu þau látið vel hvort að öðru. Þau hefðu bæði fækkað fötum, en þegar hann hefði gert sig líklegan til að hafa við hana samfarir hefði hún ýtt honum frá sér. Ekkert kynferðislegt hefði gerst eftir það og hefði hann þá yfirgefið íbúðina. Í upphafi fyrstu skýrslutöku kvaðst stefnandi hafa farið einn með konunni heim, en kannaðist er leið á skýrslutökuna við það sem konan hafði lýst, að tveir aðrir menn hefðu einnig verið með í för, en þeir hefðu verið farnir þegar umrædd samskipti hans og konunnar hefðu orðið. Kvaðst stefnandi aðeins vilja tala um sjálfan sig og neitaði að tjá sig um þessa menn, sem væru [...] hælisleitendur hér á landi. Þegar stefnandi var handtekinn var ekki vitað hverjir hinir tveir mennirnir væru en það var síðar upplýst og í skýrslum sínum hjá lögreglu, 20. mars 2015, staðfestu þeir í meginatriðum það sem fram hafði komið hjá konunni og stefnanda um viðdvöl þeirra og brottför af heimili konunnar.

Með bréfi ríkissaksóknara, dags. 20. apríl 2015, var stefnanda tilkynnt að rannsókn málsins væri lokið og að málið hefði verið fellt niður á grundvelli 145. gr. laga nr. 88/2008, þar sem það sem fram hefði komið við rannsóknina þætti ekki nægilegt eða líklegt til sakfellingar. Stefnandi var í þágu rannsóknar málsins einangraður í gæsluvarðhaldi frá hádegi 18. mars 2015 til síðdegis 20. mars s.á., en honum hafði áður verið haldið yfir nótt á lögreglustöð. Stefnandi var í farbanni frá 20. mars 2015 til 17. apríl s.á., eða í samtals 29 daga. Krefst hann í málinu miskabóta vegna þessara aðgerða, en stefndi hafnar bótaskyldu vegna þeirra.

Við aðalmeðferð málsins gaf skýrslu lögreglumaður sem fór með rannsókn þess.

Málsásæður og lagarök stefnanda

Bótaskylda stefnda

Bótaskylda ríkisins á grundvelli 245. gr. (áður 228. gr.) laga nr. 88/2008 liggi fyrir, en samkvæmt 1. og 2. mgr. lagagreinarinnar eigi maður sem borinn hefur verið sökum í sakamáli rétt til bóta vegna handtöku, gæsluvarðhalds og farbanns hafi mál hans verið fellt niður. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar skuli bæta bæði fjártjón og miska.

Þvingunaraðgerðir í formi handtöku, gæsluvarðhalds og farbanns feli í sér meiri háttar skerðingu á persónufrelsi einstaklinga. Slíkt frelsi sé verndað með 67. gr. stjórnarskrárinnar, 5. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu og fleiri alþjóðasáttmálum til verndar mannréttindum. Þessar þvingunaraðgerðir séu þær mest afgerandi sem ríkisvaldið geti beitt gegn borgurunum og það sé augljós krafa samfélagsins að einstaklingar fái bætt það tjón sem hljótist af þeim þegar í ljós komi að þeim hafi verið beitt ranglega. Stefnandi hafi með ólögmætum hætti verið sviptur frelsinu og hafi ríkisvaldið þannig brotið á hans helgustu mannréttindum.

Stefnandi hafi alltaf neitað sök undir rannsókn málsins og miðað við rannsóknargögn virðist grunur lögreglu nær eingöngu hafa byggst á framburði brotaþola. Með vísan til þess að málið var látið niður falla gagnvart stefnanda og til atvika allra liggi bótaskylda ríkisins á grundvelli 245. gr. laga nr. 88/2008 fyrir, en samkvæmt ákvæðinu eigi maður sem borinn hefur verið sökum í sakamáli rétt til bóta vegna aðgerða samkvæmt IX.–XIV. kafla laganna hafi mál hans verið fellt niður. Fyrir liggi að stefnandi hafi saklaus verið handtekinn, sætt gæsluvarðhaldi í þrjá daga og í framhaldi af því hafi hann þurft að þola farbann á Íslandi í 29 daga.

Jafnvel þó að talið yrði að framangreindar þvingunaraðgerðir hefðu verið lögmætar, eins og á stóð þegar ákvörðun um þær voru teknar, og að það mat lögreglu og dómstóla að beita þessum úrræðum hefði verið byggt á lögmætum grundvelli, breyti það engu um bótarétt stefnanda. Bótaréttur stofnist þegar mál manns sem borinn hefur verið sökum í sakamáli sé fellt niður samkvæmt lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008. Bótaskilyrði eldri laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, hafi hins vegar verið þrengri og miðast við að bótaréttur stofnaðist aðeins ef sýnt væri fram á að lagaskilyrði hefðu ekki verið fyrir hendi til að beita þvingunarráðstöfum, nægilegt tilefni hefði ekki verið til aðgerða, eins og á stóð, eða þær hefðu verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt, sbr. 176. gr. laganna.

Engin skilyrði séu fyrir hendi til að lækka bætur eða fella þær niður á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 245. gr. laga nr. 88/2008, enda hafi stefnandi ekki valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisi kröfu sína á. Grunur lögreglu hafi verið byggður á veikum grunni og stefnandi hafi afdráttarlaust neitað sök frá upphafi. Framburður hans hafi verið stöðugur og staðfastur um þau atriði sem máli hafi skipt og hann hafi t.a.m. strax gengist við því að hafa átt samskipti við brotaþolann. Þá hafi hann aldrei reynt að afvegaleiða lögreglu með svörum sínum í skýrslutökum og hafi að öðru leyti verið samvinnuþýður eftir handtöku.

Jafnvel þó að talið yrði að stefnandi hefði að einhverju leyti valdið þeim aðgerðum sem hann reisi kröfu sína á hafi þær gengið of langt. Ekki hafi verið ástæða til að svipta hann frelsinu í svo langan tíma. Ekkert virðist hafa gerst í rannsókn málsins eftir að stefnandi var yfirheyrður í síðasta skipti af lögreglu 31. mars 2015 þar til mál hans var fellt niður með bréfi ríkissaksóknara, dags. 20. apríl 2015. Úrskurður um farbann hafi runnið sitt skeið þann 17. apríl 2015, en miðað við framgang málsins virðist sérstök ástæða hafa verið til þess að losa stefnanda úr farbanni fyrir þann tíma.

Bótakrafa stefnanda

Ljóst megi vera að stefnandi hafi orðið fyrir stórfelldum miska vegna þvingunaraðgerða lögreglu og íslenskra yfirvalda. Við mat á miska verði að hafa í huga að stefnandi hafi ranglega verið sakaður um kynferðisbrot. Hann hafi ekki aðeins þurft að þola langvarandi frelsissviptingu vegna málsins heldur fylgi slíku máli mikil fordæming af hálfu samfélagsins. Stefnandi búi á [...] og hafi upphaflega ætlað að staldra hér stutt við, en hann hafi komið hingað vegna veikinda ungs ættingja síns. Hann hafi þurft að útskýra fyrir fjölskyldu sinni og vandamönnum af hverju hann hefði ekki skilað sér fyrr heim frá Íslandi og hafi enga tryggingu fyrir því að upplýsingar um málið rati ekki í framtíðinni til samferðamanna hans.

Stefnandi sundurliði kröfu sína um miskabætur svo:

  1. Handtaka (1 d * 500.000 kr.)                   500.000 krónur

2. Gæsluvarðhald (3 d * 300.000 kr.)

   900.000 krónur

3. Farbann (29 d * 150.000 kr.)

4.350.000 krónur

Samtals

5.750.000 krónur

Vísað sé til 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, þar sem segi að hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skuli hann eiga rétt til skaðabóta, og til ákvæðis 245. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, þar sem fram komi í 1. mgr. að maður sem borinn hefur verið sökum í sakamáli eigi rétt til bóta skv. 2. mgr. hafi mál hans verið fellt niður eða hann verið sýknaður með endanlegum dómi án þess að það hafi verið gert vegna þess að hann væri talinn ósakhæfur.

Vísað sé til ákvæða mannréttindasáttmála Evrópu, sem veitt hafi verið lagagildi á Íslandi með lögum nr. 62/1994, alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. auglýsingu nr. 10/1979, og almennra skaðabótareglna. Mál stefnanda hafi verið fellt niður af ríkissaksóknara og liggi þannig fyrir að hann hafi saklaus sætt þvingunaraðgerðum lögreglu. Stefnandi eigi rétt á fullum bótum og verði hann ekki sakaður um að hafa valdið eða stuðlað að aðgerðum lögreglu og dómstóla sem hann reisi kröfu sína á þannig að efni séu til að lækka eða fella niður bætur.

Krafan um vexti og dráttarvexti á stefnukröfu sé byggð á ákvæðum III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafan um málskostnað sé byggð á 129. til 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og krafa um virðisaukaskatt á málskostnað byggi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Um aðild vísist til 1. mgr. 247. gr. (áður 230. gr.) laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Um varnarþing vísist til 3. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefnandi hafi verið í haldi lögreglu í mjög stuttan tíma. Hann hafi verið handtekinn 17. mars 2015, kl. 11.42 og hafi daginn eftir verið leiddur fyrir dómara og úrskurðaður í gæsluvarðhald til 20. mars 2015 kl. 16.00. Þá var hann úrskurðaður í farbann til 17. apríl 2015 kl. 16.00. Það sé rangt að stefnandi hafi verið þrjá daga í gæsluvarðhaldi. Hann hafi verið tvo daga og rúmar fjórar klukkustundir í varðhaldinu.

Í málinu liggi fyrir fjórar skýrslur vegna stefnanda. Tvær hafi verið teknar meðan hann hafi verið í haldi lögreglu, ein stutt hafi verið gerð 23. mars 2015 og virðist aðeins taka tæpar 10 mínútur og vera tekin til að kynna stefnanda tilhögun farbanns. Síðasta skýrslan hafi verið tekin 31. mars 2017. Síðari tvær skýrslurnar hafi verið teknar eftir að stefnanda hafi verið sleppt úr gæsluvarðhaldi. Eftir lok rannsóknar máls hjá lögreglu hafi það verið sent ákærusviði lögreglu. Málið hafi síðan verið sent til ríkissaksóknara. Allt þetta ferli hafi því tekið mjög stuttan tíma og tíminn verið vel nýttur. Sjónarmiðum stefnanda um annað sé mótmælt.

Konan hafi kært nauðgun og bent á stefnanda sem geranda. Í upphafi hafi ekki verið vitað með vissu hver stefnandi væri og lítið vitað um hann annað en upplýsingar af facebook sem kærandi hafi lagt fram. Vísað sé til neyðarmóttökugagna um ástand konunnar. Við mat á aðgerðum lögreglu þurfi að líta til þess hvernig málið hafi horft við lögreglu þegar rannsókn þess hafi hafist. Vísað sé til rökstuðnings lögreglu fyrir gæsluvarðhaldskröfu og farbannskröfu sem fram komi í fyrirliggjandi úrskurðum héraðsdóms í málinu.

Í ljósi framangreinds og þess að stefnandi hafi breytt framburði sínum teljist eðlilegt að krafist hafi verið gæsluvarðhalds á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Telja verði að hann hafi í raun valdið því að þörf hafi verið talin á að krefjast gæsluvarðhalds yfir honum, þar sem hann hafi gefið rangan framburð í fyrstu hjá lögreglu. Vísað sé til lagaraka í gæsluvarðhaldsúrskurði. Þá hafi sakborningur aðeins setið í rúma tvo daga í gæsluvarðhaldi. Þann 20. mars 2015 hafi þess verið krafist að hann sætti farbanni. Stefnandi sé erlendur ríkisborgari sem komið hafði til landsins 2. mars 2015 og hafi átt bókaða flugferð til baka frá Íslandi þann 12. mars 2015. Sömu rök eigi við um þörfina á farbanni og þörfina á framangreindu gæsluvarðhaldi. Að auki sé vísað til 100. gr. laga nr. 88/2008 og til lagaraka sem fram komi í farbannsúrskurði.

Sakborningur hafi torveldað rannsókn málsins í upphafi með því að gefa rangan framburð. Því hafi verið talið að framburður hans væri ótrúverðugur. Þá hafi verið talið, vegna framburðar kæranda og þess að hún leitaði fljótlega á neyðarmóttöku, að rökstuddur grunur væri uppi um að sakborningur hefði gerst sekur um þau brot sem honum voru gefin að sök. Því hafi ekki verið óeðlilegt að farið hafi verið fram á farbann þar sem hætta hafi verið á að hann myndi reyna að komast úr landi, þar sem hann hafi enga tengingu haft við landið og hafi aðeins dvalið hér á landi í stuttan tíma. Sakborningur hafi í raun valdið eða stuðlað að framangreindum aðgerðum, hann eigi því ekki rétt á bótum, og því eigi að sýkna stefnda, sbr. 2. mgr. 245. gr. (áður 228. gr.) laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Allar aðgerðir lögreglu hafi verið lögmætar og sé öðru mótmælt. Því sé mótmælt að þvingunaraðgerðum hafi verið beitt ranglega og að stefnandi hafi með ólögmætum hætti verið sviptur frelsi og að ríkisvaldið hafi brotið á hans helgustu mannréttindum. Því sé mótmælt að miðað við rannsóknargögn virðist grunur lögreglu nær eingöngu hafa byggst á framburði brotaþola. Bent sé í þessu sambandi á ástand brotaþola sem lýst sé í gögnum frá neyðarmóttöku. Því sé mótmælt að grunur lögreglu hafi verið á veikum grunni. Stefndi sé ósammála því að framburður stefnanda hafi verið stöðugur og staðfastur um þau atriði sem skiptu máli. Stefnandi hafi leynt því að fleiri hefðu verið í íbúðinni í upphafi og hafi ekki viljað tjá sig mikið um þá aðila. Það sé rangt að stefnandi hafi aldrei reynt að afvegaleiða lögreglu með svörum sínum í skýrslutöku. Hann hafi torveldað rannsókn málsins í upphafi með því að gefa rangan framburð.

Nauðsynlegt hafi verið að lögregla rannsakaði framkomna kæru. Því sé mótmælt að brotið hafi verið gegn 67. gr. stjórnarskrár og 5. gr. laga nr. 62/1994 eða öðrum þeim réttarheimildum sem stefnandi vísi til. Ekki séu skilyrði til að dæma bætur samkvæmt almennum skaðabótareglum. Því sé mótmælt að aðgerðir hafi gengið of langt og að ekki hafi verið ástæða til að svipta stefnanda frelsi í þennan tíma. Engin ástæða hafi verið til að losa stefnanda fyrr úr farbanni. Með framangreindu sé því ekki haldið fram að stefnandi hafi þrátt fyrir allt verið sekur.

Verði að einhverju leyti fallist á bótaskyldu stefnda á grundvelli annarra réttarheimilda en 245. gr. laga nr. 88/2008 sé jafnframt byggt á eigin sök stefnanda. Mótmælt sé öllum málsástæðum og kröfum stefnanda. Vegna málskostnaðarkröfu vísist til 130. gr. laga nr. 91/1991.

Varakrafa um lækkun styðjist við sömu málsástæður og sjónarmið og aðalkrafa. Stefnukrafa sé allt of há, hver liður sé allt of hár og krafist sé verulegrar lækkunar.

Samkvæmt 2. ml. 2. mgr. 245. gr. laga nr. 88/2008 sé heimilt að lækka bætur hafi sakborningur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisi kröfu sína á. Lækka eigi bætur þar sem stefnandi hafi valdið og stuðlað að þeim aðgerðum sem krafa hans er reist á. Einnig vísist til 245. gr. laga nr. 88/2008 í heild.

Niðurstaða

Í máli þessu hefur stefnandi uppi bótakröfu vegna miska af völdum handtöku, gæsluvarðhalds í einangrun og farbanns. Vísast til kafla um málsatvik hér að framan um tilefni þeirra aðgerða. Byggir stefnandi aðallega á því að hann eigi rétt á bótum á grundvelli 245. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, og vísar hann til stuðnings bótakröfu sinni jafnframt m.a. til 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, um að maður sem hefur verið sviptur frelsi sínu að ósekju skuli eiga rétt til skaðabóta.

Samkvæmt 1. mgr. 245. gr. sakamálalaga á maður sem borinn hefur verið sökum í sakamáli rétt til bóta ef mál hans hefur verið fellt niður eða hann verið sýknaður með endanlegum dómi án þess að það hafi verið gert vegna þess að hann væri talinn ósakhæfur. Mál stefnanda var fellt niður í skilningi 1. mgr. 245. gr. sakamálalaga með bréfi ríkissaksóknara 20. apríl 2015. Í 2. mgr. 245. gr. sakamálalaga segir að dæma skuli bætur vegna ráðstafana samkvæmt IX. til XIV. kafla laganna ef skilyrði 1. mgr. eru fyrir hendi, en ákvæði um heimild til handtöku, gæsluvarðhalds og farbanns er einmitt að finna í þeim köflum laganna. Þá segir í ákvæðinu að bætur megi fella niður eða lækka ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisi kröfur sínar á. Bæta skal fjártjón og miska ef því er að skipta samkvæmt 5. mgr. 245. gr. sakamálalaga.

Úrlausn þess hvort stefnandi hafi fyrirgert rétti þeim til bóta sem mælt er fyrir um í fyrri málslið 2. mgr. 245. gr. laga nr. 88/2008, eða hvort bætur skuli sæta lækkun, veltur á því hvort hann hafi í skilningi annars málsliðar 2. mgr. 245. gr. laganna valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem bótakröfur hans eru reistar á. Af hálfu stefnda er á því byggt til stuðnings sýknukröfu og varakröfu um lækkun bóta á þessum grundvelli að stefnandi hafi breytt framburði sínum og ekki viljað aðstoða lögreglu við að hafa uppi á þeim aðilum sem lögregla taldi mikilvæg vitni um aðdraganda þess atviks sem til rannsóknar var. Þó að stefnandi hafi í upphafi fyrstu skýrslutöku ekki upplýst um að fleiri menn en hann hefðu fylgt konunni heim þá leiðrétti hann þann framburð við sömu skýrslutöku, og áður en til kröfu um gæsluvarðhald kom. Verður ekki séð að stefnandi hafi reynt að villa um fyrir lögreglu í þessu efni og upplýsti hann að mennirnir tveir væru hælisleitendur frá [...], en færðist undan því að benda á myndir af þeim. Samkvæmt gögnum málsins var stefnandi frá upphafi staðfastur í framburði sínum um brotið sem honum var gefið að sök. Framburður þeirra aðila sem lögregla hafði leitað að reyndist ekki varpa ljósi á málið, en honum bar í meginatriðum saman við framburð bæði stefnanda og konunnar um atvik og samskipti þeirra í aðdraganda þess að þau urðu tvö ein eftir í íbúðinni.

Þegar atvik málsins eru virt, eins og þau horfðu við þeim sem með rannsókn málsins fóru, þykir handtaka og krafa um gæsluvarðhald í einangrun hafa verið í samræmi við rannsóknarhagsmuni eins og á stóð, með þeim tímamörkum sem ákveðin voru í úrskurði héraðsdóms 18. mars 2015. Rannsókn málsins var þá skammt á veg komin. Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglu voru sýni sem tekin höfðu verið á neyðarmóttöku LSH af kæranda tekin til rannsóknar í tæknideild 20. mars 2015. Í ljósi stöðu rannsóknar málsins og alvarleika brotsins sem til rannsóknar var telst ólíklegt að eina ástæðan fyrir kröfu lögreglu um að stefnandi sætti gæsluvarðhaldi í einangrun hafi verið sú að framburður hans þætti ótrúverðugur þar sem hann gat í upphafi fyrstu skýrslutöku ekki um mennina tvo. Verður ekki fallist á að stefnandi hafi með því valdið eða stuðlað að gæsluvarðhaldinu og þar með fyrirgert bótarétti sínum.

Farbannskrafan sem héraðsdómur féllst á var, að teknu tilliti til takmarkaðra tengsla stefnanda við landið, einnig réttmæt meðan rannsókn málsins var ólokið. Ekki var krafist framlengingar farbannsins, sem rann út þremur dögum áður en ákvörðun ríkissaksóknara um niðurfellingu málsins lá fyrir þann 20. apríl 2015, en málið var sent ríkissaksóknara til ákvörðunar 8. apríl s.á. Meðferð málsins hjá lögreglu og ákæruvaldi telst samkvæmt þessu hafa gengið tiltölulega hratt fyrir sig.

Stefnandi sætti frelsissviptingu samfellt frá handtöku 17. mars 2015 til 20. mars s.á., þar af gæsluvarðhaldi í einangrun, á grundvelli rannsóknarhagsmuna, í tvo daga og fjórar klukkustundir og í framhaldi af því farbanni í fjórar vikur. Stefnandi krefst miskabóta vegna handtöku, gæsluvarðhalds og farbanns, að fjárhæð 5.750.000 krónur. Stefndi telur fjárhæð kröfunnar ekki vera í samræmi við dómaframkvæmd, hún sé allt of há, og krefst stefndi verulegrar lækkunar hennar.

Til að gæta jafnræðis, eftir því sem unnt er, ber að taka mið af dómaframkvæmd við ákvörðun fjárhæðar bóta, sem ríkinu er gert að greiða samkvæmt 245. gr., sbr. áður 228. gr., laga nr. 88/2008. Við mat á bótafjárhæð hefur í dómaframkvæmd m.a. verið litið til þess hvers eðlis þvingunaraðgerðir séu og til þess hversu lengi þær standa. Þá verður ráðið að málsatvik skipti máli þegar bótafjárhæð er ákveðin, m.a. um ástæður þess hversu lengi þvingunaraðgerðir standa. Litið er annars vegar til þess hvort sá sem í gæsluvarðhaldi hefur setið hefur verið staðfastur í framburði sínum eða hvort framburður hans hafi tekið slíkum breytingum að rannsókn dragist á langinn af þeim sökum. Hins vegar kann að standa svo á að yfirvöld hafi dregið yfirheyrslur eða aðrar rannsóknaraðgerðir að nauðsynjalausu þannig að þvingunaraðgerðir hafi af þeim sökum staðið lengur en efni stóðu til.

Stefnandi vísar til stuðnings bótakröfum sínum m.a. til þess að brotið sem honum hafi verið gefið að sök sé alvarlegt og fordæmt í samfélaginu og miski hans sé því mikill. Sú málsástæða að eðli brots skuli hafa áhrif á bótafjárhæð vegna gæsluvarðhalds fær að nokkru stoð í réttarframkvæmd hér á landi og í öðrum norrænum ríkjum. Á það einnig við um ástæðu farbannsins sem stefnandi kveðst hafa þurft að útskýra fyrir fjölskyldu sinni og vandamönnum. Almennt hefur það einnig áhrif til hækkunar bóta vegna gæsluvarðhaldsvistar þegar viðkomandi er gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu, burtséð frá ástæðum þess að einangrunar sé þörf. Ekki þykir ástæða til að draga í efa að umræddar aðgerðir hafa valdið stefnanda miska.

Að öllu framangreindu virtu á stefnandi á grundvelli 1. mgr. 245. gr. sakamálalaga rétt til miskabóta svo sem hann krefst vegna umræddra aðgerða, sem ekki verður talið að hann hafi sjálfur valdið eða stuðlað að. Þegar miskabætur eru ákveðnar á þessum grundvelli eru þær almennt ákveðnar í einu lagi og hefur ekki skapast dómvenja fyrir því að ákveða sérstaklega bætur fyrir handtöku þegar jafnframt er krafist bóta vegna gæsluvarðhalds og eftir atvikum farbanns.

Á hinn bóginn fær fjárhæð bótakröfu stefnanda ekki stoð í dómaframkvæmd í málum af þessu tagi. Verður því fallist á kröfu stefnda um verulega lækkun hennar.

Að virtum málsatvikum og þeim sjónarmiðum sem að framan hafa verið rakin eru miskabætur sem stefnda verður gert að greiða stefnanda vegna framangreindra rannsóknaraðgerða hæfilega ákveðnar 700.000 krónur. Dæmdar miskabætur skulu bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. júlí 2017, það er mánuði frá höfðun máls þessa, til greiðsludags, sbr. 9. gr. sömu laga.

Samkvæmt fyrirmælum 1. mgr. 247. gr. laga nr. 88/2008, sbr. áður 1. mgr. 130. gr. laganna, var stefnanda með bréfi innanríkisráðuneytisins, 7. júlí 2016, veitt gjaf­sókn til að reka þetta mál fyrir héraðsdómi. Ekki eru því efni til að gera stefnda að greiða stefnanda málskostnað og verður hann felldur niður. Allur gjafsóknar­kostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin mál­flutn­ings­þóknun Bjarna Haukssonar lögmanns hans, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti 840.000 krónur.

Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

 

D Ó M s o r ð

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, X, [...] ríkisborgara með lögheimili á [...], f. 18. apríl 1990, 700.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verð­trygg­ingu, frá 28. júlí 2017 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Bjarna Haukssonar, 840.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Kristrún Kristinsdóttir