• Lykilorð:
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Vinnuslys
  • Viðurkenningardómur
  • Skaðabótamál, miski/örorka

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur frá 10. desember 2018 í máli nr. E-1063/2018:

Malgorzata Rosinska

(Jóhannes Albert Sævarsson lögmaður)

gegn

Reykjavíkurborg og

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Dagmar Arnardóttir lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð þess þann 15. nóvember sl., höfðar Malgorzata Rosinska, Torfufelli 46, Reykjavík, með stefnu birtri 20. mars 2018 á hendur Reykjavíkurborg, Tjarnargötu 11, Reykjavík, og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík. 

Stefnandi krefst viðurkenningar á bótaskyldu stefndu og bótarétti stefnanda úr frjálsri ábyrgðartryggingu stefnda Reykjavíkurborgar hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf., vegna tjóns sem stefnandi varð fyrir af völdum slyss, 13. maí 2015.

Þá krefst stefnandi enn fremur málskostnaðar úr hendi stefndu að teknu tilliti til virðisaukaskatts, en til vara að málskostnaður verði látinn falla niður.

Stefndu krefjast þess að verða sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til þess að greiða stefndu málskostnað.

 

Ágreiningsefni og málsatvik

Málsatvik eru þau að 13. maí 2015 varð stefnandi fyrir slysi við störf hjá Dalskóla í Úlfarsárdal, sem er grunnskóli á vegum stefnda Reykjavíkurborgar. Var stefnandi í umrætt sinn að ganga eftir hellulagðri gangstétt með pappakassa út í ruslagám sem var í um 50 metra fjarlægð frá umræddu skólahúsi. Engir sjónarvottar voru að því sem síðan átti sér stað, en stefnandi lýsir því svo að pappakassi hafi þá fokið úr höndum hennar í vindhviðu og hann borist út á bílastæði við skólann. Þegar stefnandi hugðist fara á eftir kassanum hafi hún stigið fram af gangstéttarkanti við skólann og inn á bílastæðið. Vildi þá svo illa til að hún lenti með hægri fót ofan á frárennslisröri sem skagaði fram undan horni á gangstéttarkantinum og sneri sig við það á hægri ökkla.

Stefnandi leitaði sama dag á bráðamóttöku Landspítala-Háskólasjúkrahúss (LSH) í Fossvogi. Í bráðamóttökuskrá þann dag segir meðal annars: „Malgorzata er skólaliði í Dalsskóla í Úlfarsdal. Var í vinnunni, steig á eitthvað rör og sneri hæ. ökklann. Er mjög aum og hefur ekki stigið í ökklann síðan þetta varð.“ Greiningin var tognun og ofreynsla á hægri ökkla. Í bráðamóttökuskrá LSH, dags. 26. maí 2015, segir síðan að stefnandi komi aftur nú, tveimur vikum eftir ökklatognun, og geti ekkert stigið í fótinn ennþá. Stefnandi hafi þá verið sett í sérmótaða L-spelku með þrýstingi. Hún stígi ekki í og verði sem mest í hálegu með fótinn. Í göngudeildarnótu LSH, dags. 3. júní 2015, kemur fram að TS-mynd af ökkla og talus hafi ekki sýnt neitt brot. Gipsspelkan hafi verið fjarlægð og mjúkar umbúðir settar í staðinn. Í læknisvottorði LSH til atvinnu- rekanda, dags. 13. maí 2015, kemur síðan fram að stefnandi sé óvinnufær frá þeim degi og óvíst hversu lengi það verði. Það segir einnig í vottorði Þórðar G. Ólafssonar á heilsugæslunni í Efra-Breiðholti, dags. 29. júní 2015. Stefnandi leitaði síðan til Marek Minda, læknis í Póllandi, sumarið 2015 og í vottorði þaðan, dags. 27. ágúst 2015, kemur fram að við skoðun hafi komið í ljós áverki á hægri tibiofibular syndesmosis og bólgur á hægri ökklalið. Var stefnandi sett í átta vikna gips vegna þessa.

Í vottorði Guðmundar Arnar Guðmundssonar bæklunarskurðlæknis, dags. 28. október 2016, kemur fram að stefnandi hafi gengist undir liðspeglunaraðgerð á hægri ökkla 18. maí 2016 og hafi þá komið í ljós mikill örvefur í liðpoka. Reynt hafi verið að fjarlægja örvefinn en stefnandi glími við örvefjarmyndun í liðpoka er valdið hafi verkjum og stirðleika. Hún glími við viðvarandi hreyfiskerðingu og óþægindi í hægri ökkla sem séu á grunni örvefjarmyndunar í liðpokanum. Í læknisvottorði Þórarins Ingólfssonar, heilsugæslulæknis í Efra-Breiðholti, dags. 17. apríl 2017, kemur svo fram að stefnandi hafi alloft haft samband við lækna þar vegna ökklameiðsla og óvinnufærni sem fylgt hafi því hversu bágt hún hafi átt með að stíga í fótinn. Þá hafi hún leitað til sérfræðilækna vegna hægs bata. Hún hafi síðan leitað á heilsugæsluna 20. júní 2016 til að fá vinnufærnivottorð, þar sem hún væri þá að hefja störf að nýju eftir slysið. Hafi hún verið með öllu óvinnufær frá slysdegi 13. maí 2015 til 19. júní 2016, en síðan verið vinnufær frá 20. júní 2016. Frá 2008 hafi engin önnur slys eða áverkar verið skráðir í sjúkraskrá eða nokkrir sjúkdómar í stoðkerfi sem geti haft áhrif á mat á áverkum þeim sem hún varð fyrir í slysinu 13. maí 2016. Í beiðni um sjúkraþjálfun, dags. 18. maí 2016, segir læknirinn, Guðmundur Örn Guðmundsson, síðan að ökklinn hafi verið speglaður þann dag og greinilegur sé örvefur og stirðleiki.      

Í greinargerð Patrycja Wielgus, sjúkraþjálfara hjá Gáska, dags. 10. janúar 2017, en þangað leitaði stefnandi í 81 skipti vegna afleiðinga slyssins, segir að þrátt fyrir umfangsmikla sjúkraþjálfunarmeðferð finni stefnandi fyrir stirðleika í ökklanum og í veðrabrigðum fyrir þrýstingsverkjum. Í október 2016 hafi hún byrjað að finna fyrir mjóbakseinkennum.

Afleiðingar slyssins hafa nú verið metnar til læknisfræðilegrar örorku af Magnúsi Páli Albertssyni bæklunar- og handarskurðlækni og liggur fyrir matsgerð hans, dags. 11. ágúst 2017. Niðurstaða hennar er sú að tímabundin örorka stefnanda sé 100% í 404 daga, varanleg læknisfræðileg örorka sé 7%, en stöðugleikatímamarki hafi verið náð 28. júní 2016. Af hálfu stefnanda er vísað til þess að eftir slysið hafi hún ekki lengur sömu hreyfigetu og áður í hægri fæti, auk þess sem um viðvarandi verkjaástand sé að ræða frá ökklanum. Stefnandi hafi lengi verið með öllu ófær til starfa sinna og enn þann dag í dag sé starfsorka hennar verulega skert. 

Þann 22. september 2015 sendi lögmaður stefnanda kröfubréf hennar til stefnda Reykjavíkurborgar. Í svarbréfi stefnda Reykjavíkurborgar, dags. 1. október 2015, var upplýst um það að starfsmenn væru slysatryggðir allan sólarhringinn, en um ætlaða bótaskyldu, þá skyldi beina slíkum kröfum til tryggingafélags borgarinnar, stefnda Sjóvár-Almennra trygginga. Fyrir liggur að 24. ágúst 2017 var gengið frá uppgjöri til stefnanda á slysabótum vegna slysatryggingar launþega og 1.733.316 krónur síðan lagðar inn á reikning lögmanns stefnanda. Lögmaður stefnanda beindi kröfu til stefnda Sjóvár-Almennra trygginga með tölvuskeyti, dags. 15. október 2015. Með bréfi, dags. 27. nóvember 2015, var bótaskyldu stefndu síðan hafnað af hálfu tryggingafélagsins. Skaut stefnandi ágreiningi um þá ákvörðun stefnda til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum með málskoti, dags. 27. maí 2016. Í áliti úrskurðarnefndar í máli nr. 169/2016, dags. 1. júlí 2016, segir: „Ekki er sýnt fram á af hálfu M að frágangi á rörinu sem um ræðir hafi verið ábótavant, um hafi verið að ræða hættulegar aðstæður eða að þær hafi farið gegn fyrirmælum laga eða reglna sem geti átt við hvað varðar hugsanlega bótakröfu M. Ekki er sýnt fram á vanrækslu eða sök R eða aðila sem R ber ábyrgð á. M á því ekki rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu R hjá V.“ Þessu vill stefnandi ekki una og telur sig ekki eiga að bera skaðann af völdum slyssins, þar sem frágangur og aðstæður á slysstað hafi verið óforsvaranlegar og varasamar og leitt til slyssins. Henni sé því nauðsyn að höfða mál þetta til viðurkenningar á bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu Reykjavíkurborgar hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Í málinu er því aðeins deilt um ætlaða bótaskyldu stefndu fyrir framangreint tjón stefnanda.

Málsástæður og lagarök af hálfu stefnanda

Stefnandi hafi orðið fyrir vinnuslysi 13. maí 2015 sem teljist bótaskylt samkvæmt almennum skaðabótareglum úr hendi stefnda Reykjavíkurborgar og úr frjálsri ábyrgðartryggingu stefnda hjá Sjóvá. Stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni af völdum slyssins, en varanleg læknisfræðileg örorka hennar hafi verið metin 7% af Magnúsi Páli Albertssyni lækni, auk þess sem tímabundin læknisfræðileg örorka hafi verið metin 100% í 404 daga, frá slysdegi að telja til 19. júní 2016.  Það séu því lögvarðir hagsmunir stefnanda að fá úr því skorið hvort fyrir hendi sé bótaskylda úr ábyrgðartryggingu Reykjavíkurborgar hjá Sjóvá vegna afleiðinga slyssins.

Aðstæður á slysstað hafi verið óforsvaranlegar, en frágangi á frárennslisröri hafi verið ábótavant og hann valdið hættu á slysum fyrir gangandi vegfarendur sem leið hafi átt um lóð og bílastæði við Dalskóla eða átt erindi í skólann. Hafi aðstæður á slysstað beinlínis verið varasamar og það hafi verið orsök slyssins. Bílastæðið sé hluti af lóð skólans sem sé eign Reykjavíkurborgar og því teljist afleiðingar slyssins vera á ábyrgð Reykjavíkurborgar. Þá hafi eftirlit starfsmanna Reykjavíkurborgar með framkvæmdum og frágangi á lóðinni augljóslega brugðist þegar skilinn hafi verið eftir óvarinn rörstútur án allra hættumerkinga eða viðvarana til þeirra sem nauðsynlega hafi þurft að fara um bílastæðið og lóðina til að komast að skólanum.

Ljósmyndir af frárennslisrörinu sýni að frágangur þess hafi verið óforsvaranlegur. Í bréfi stefnda Sjóvár-Almennra trygginga hf. segi að rörinu hafi verið ætlað að drena gangstéttina og koma í veg fyrir vatns- og svellmyndun. Erfitt sé að sjá hvernig sú fullyrðing geti staðist. Rörið hafi legið í kverk kantsteins sem skilið hafi að bílastæði og gangstétt. Hafi þetta átt að vera dren hafi vantað niðurfall á bílastæðið til að taka á móti drenvatninu, en niðurfall sé hvergi sjáanlegt á ljósmyndum. Varla tíðkist að drena sérstaklega gangstéttar með þessum hætti. Ef svo er hafi frágangur verið klúðurslegur og fordæmalaus. Verði hér helst að álykta að gleymst hafi að ganga frá þessu horni bílastæðisins, fjarlægja rörið eða stytta það þannig að það skagaði þá ekki út úr kantinum. Nú muni vera búið að taka rörbútinn og lagfæra allar aðstæður á slysstað.

Þessi ályktun stefnanda fái stuðning í bréfi Agnars Guðlaugssonar, deildarstjóra byggingardeildar skrifstofu framkvæmda og viðhalds Reykjavíkurborgar, dags. 4. nóvember 2015. Þar segir að sá frágangur á frárennslisrörinu við bílastæðið sem sjáist á ljósmyndum hafi verið til bráðabirgða þar sem framkvæmdum hafi ekki verið lokið á þessu svæði þegar slysið varð. Rörið hafi verið sett í lægsta punkt á bílastæðinu til að hindra vatnssöfnun og svellamyndun. Ekki sé augljóst af gögnum frá stefnda Reykjavíkurborg hvort tilgangur með rörinu hafi verið sá að drena bílastæðið frá lægsta punkti þess til að forða uppsöfnun vatns eða ætlunin hafi verið að drena gangstéttina, eins og haldið sé fram í bréfi stefnda Sjóvár-Almennra trygginga hf. Þá komi fram í bréfi deildarstjórans að rörið hafi ekki verið lagfært þar sem enginn hafi gert sér grein fyrir því að meiri hætta stafaði af því en af möl og steinum sem liggi þarna um allt, þar sem hverfið sé í byggingu. 

Frágangur á rörinu hafi verið óafsakanlegur þótt til bráðabirgða hafi verið. Bráðabirgðafrágangur þurfi einnig að uppfylla öryggiskröfur og vera hættulaus fyrir gangandi umferð. Möl og grjót hafi mátt sjá í kringum slysstað, en rörið hafi verið fastur, viðskeyttur hlutur og það hafi verið neðst í kverkinni við bílastæðið þegar stefnandi hafi komið þar að og stigið fram af gangstéttarkantinum. Frágangur á rörinu hafi ekki talist ásættanlegur og orðið til þess að stefnandi hafi slasast.

Þá hafi frárennslisrörið og staðsetning þess brotið í bága við eðlilegan frágang á byggingarstað og lóð, þar sem rörið hafi skagað út úr steinsteyptum gangstéttarkanti. Slíkur frágangur á röri geti aldrei talist ásættanlegur eða réttlætanlegur enda hættulegur. Úr því að frágangur á rörinu með þessum hætti hafi aldrei getað talist forsvaranlegur til frambúðar, meðal annars sökum þeirrar hættu sem af rörinu hafi getað hlotist, þá hafi sá frágangur til bráðabirgða heldur aldrei getað talist forsvaranlegur af sömu ástæðu. Slysið hefði aldrei orðið nema vegna þess að frágangi rörsins hafi verið ábótavant og það hafi verið á ábyrgð lóðareigandans, Reykjavíkurborgar.

Byggingarreglugerð nr. 112/2012 kveði á um að hönnun bílastæða og gönguleiða innan lóða skuli vera með þeim hætti að ekki skapist hætta fyrir gangandi vegfarendur. Þá skuli frágangur gangstíga og bílastæða vera þannig að þar verði ekki uppsöfnun vatns. Í þéttbýli skuli frágangur bílastæða vera með þeim hætti að möl eða laus jarðefni berist ekki á gangstétt, sbr. grein 6.2.5. Þá segi um öryggi í grein 12.1.1 að lóðir skuli þannig hannaðar og byggðar að hætta á slysum sé í lágmarki. Gera skuli viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir slysahættu, svo sem vegna hæðarmunar í byggingum eða á lóðum, vegna oddhvassra hluta, o.fl. Frágangur og umhirða byggingarvinnustaða skuli ávallt vera þannig að ekki skapist óþarfa hætta á slysum. Þá segi í kafla 12.10, um varnir gegn slysum á lóð, að aðkoma að hverri byggingu, bílastæði og almennt að göngusvæði skuli þannig frágengin að ekki skapist slysahætta á svæðinu. Frágangur á frárennslisröri er valdið hafi slysinu verði ekki talinn uppfylla þær kröfur um öryggi og varnir gegn slysum á lóðum sem gerðar séu í reglugerðinni.

Þá gildi um skóla lög nr. 7/1998 og reglugerð nr. 941/2002. Dalskóli sé starfs- leyfisskyldur. Í 3. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti séu skólar skilgreindir þannig: „Skólar taka til húsnæðis og lóðar svo sem leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og sérskóla, hvort sem um er að ræða einkaskóla eða skóla sem reknir eru á vegum opinberra aðila.“ Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. skuli húsnæði vera þannig gert og viðhaldið, umgengið og þrifið að þeir sem þar dveljist, starfa, eða nálægir íbúar, hljóti ekki heilsutjón eða óþægindi af. Þetta gildi einnig um lóðir, beint eða fyrir lögjöfnun, þ.e. að lóð í kringum skóla skuli þannig viðhaldið að þeir sem þar dveljist eða starfa hljóti ekki heilsutjón eða óþægindi af. Þá skuli lóð í kringum húsnæði vera frágengin og henni haldið hreinni svo að hún valdi ekki óþægindum fyrir þá sem þar dvelji eða leiti þjónustu. Þá skuli byggingar og mannvirki hönnuð, byggð og þeim viðhaldið þannig að heilsu manna sé ekki stefnt í hættu, sbr. 16. gr. reglugerðarinnar.

Dalskóli sé barnaskóli sem dragi að sér börn, foreldra og starfsfólk. Verði því að gera þær kröfur til eiganda slíks húsnæðis og lóðar, gangstétta og bílastæða að hann tryggi öryggi þeirra sem þangað eigi erindi. Því beri ávallt að tryggja að þeim sem þangað leiti á hverjum tíma stafi ekki hætta eða ógn af umgengni við húsnæðið eða lóðina. Öryggi hafi ekki verið tryggt og hætta verið ótvíræð þegar stefnandi hafi orðið fyrir því slysi að stíga fram af gangstéttarbrún ofan á óvarið frárennslisrör og slasast. Slíkar aðstæður séu óforsvaranlegar á skólalóð. Þá sé vísað í dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 777/2013 og nr. 184/2007. Það sem ekki teljist vera forsvaranlegt til frambúðar geti ekki heldur talist vera forsvaranlegt til bráðabirgða af sömu ástæðu. 

Því sé krafist viðurkenningar á bótaskyldu úr frjálsri ábyrgðartryggingu Reykjavíkurborgar hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. vegna þess tjóns er stefnandi hafi orðið fyrir í vinnuslysi þann 13. maí 2015, sem rekja megi til óviðunandi aðstæðna á lóð Dalskóla í Reykjavík. Krafist sé viðurkenningardóms um bótaskyldu stefndu með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi styðji kröfu um málskostnað við lög nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað sé reist á lögum nr. 50/1988, sbr. og reglugerð nr. 562/1989. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyld og því beri henni nauðsyn til að fá álag sem þeim skatti nemur úr hendi stefndu.

 

Málsástæður og lagarök af hálfu stefndu

Bótakrafa stefnanda byggi á sakarreglunni og reglunni um vinnuveitandaábyrgð. Sönnunarbyrði um að vinnuveitandi eða starfsmenn hans hafi sýnt af sér saknæma háttsemi, eða að vinnuaðstæður hafi verið svo óforsvaranlegar að bótaskylda hafi stofnast, hvíli því á stefnanda. Ósannað sé að slysið sé að rekja til atvika sem stefndi Reykjavíkurborg beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Af gögnum málsins megi ráða að orsök slyssins hafi verið óhappatilviljun og eða þá aðgæsluleysi stefnanda sjálfrar.

Stefndu mótmæli málsástæðum stefnanda, sérstaklega því að rörið í gangstéttar- kverkinni hafi verið óforsvaranlega vanbúið og skapað svo hættulegar aðstæður að bótaskylda hafi stofnast. Þvert á móti hafi umrætt rör verið sett undir gangstéttina til að varna slysum því áður hafi vatn ekki átt greiða leið í burtu og það hafi leitt til þess að pollar hafi myndast og hreyfing komist á gangstéttarhellurnar. Fyrir tilstuðlan skólayfirvalda hafi svæðið verið lagað um ári fyrir slysið, byggt undir stéttina og hún breikkuð, gangstéttarkantar settir og rörinu komið fyrir til að ræsa eða drena stéttina og bílaplanið. Rörið hafi verið sett í lægsta punkt bílaplansins til þess að taka á móti vatni, en það hafi staðið um 10 cm út og verið hvítt á lit og því verið vel sýnilegt.

Stefnandi hafi hafið störf hjá Dalskóla 15. ágúst 2014 og hafði hún því verið í fullu starfi hjá skólanum í um níu mánuði þegar slysið hafi átt sér stað. Hluti af starfsskyldum hennar hafi falist í því að ferja ýmsan varning á milli færanlegra kennslustofa og Dalskólabyggingarinnar. Það sé því ljóst að stefnandi hafi gjörþekkt allar aðstæður enda hluti af starfi hennar að ganga þarna um margsinnis dag hvern, en stefnandi starfi enn í dag í Dalskóla í fullu starfi. Þegar stefnandi hafi misstigið sig umrætt sinn hafi vindhviða feykt kassa úr fangi hennar og út á bílaplanið. Að öllum líkindum hafi stefnandi því brugðist hratt við og stigið frá hinni eðlilegu gönguleið og út á planið í flýti til að ná til pappakassans. Hér hafi verið um óhappatilvik að ræða og mögulega aðgæsluleysi af hálfu stefnanda, þannig að hún hafi ekki gætt nægilega vel að sér þegar hún reyndi að fanga kassann. Fólk geti misstigið sig við ýmsar aðstæður og jafnvel á jafnsléttu. Ekkert styðji þá staðhæfingu stefnanda að afleiðingar af óhappi hennar hefðu orðið minni eða aðrar ef frárennslisrörið hefði ekki verið á staðnum.

Dalskóli sé nýr skóli er hóf starfsemi 2010 og hafi stækkað mikið á undanförnum árum. Fyrsta haustið hafi rúmlega 80 börn verið í skólanum en árið 2017 hafi þau verið orðin um 340. Árið 2015, þegar slysið varð, hafi skólinn verið í uppbyggingu. Kennsla haustið 2017 hafi farið fram í 26 lausum stofum, í Dalskólabyggingunni og í um 800 fermetra nýbyggðum skóla. Enn sé unnið að uppbyggingu og standi til að taka næsta hluta í notkun haustið 2018. Búið sé að breyta stéttinni þar sem stefnandi hafi fallið og það verið liður í uppbyggingu skólans og örum vexti. Sú breyting hafi ekki verið gerð vegna þess að skólayfirvöld hafi talið hættu stafa af rörinu eða að aðstæður væru óforsvaranlegar. Þvert á móti hafi skólastjórinn lýst því í bréfi, 11. nóvember 2015, að frágangur starfsmanna Reykjavíkurborgar hefði verið til fyrirmyndar, „rörið hvítt, lítið og vel sjáanlegt og myndi að okkar dómi ekki geta talist slysagildra, enda sett upp til að verjast slysum og gerði gönguleiðina trausta og örugga“.

Það sé óumdeilt að aðgengi við Dalskóla skuli vera gott og gætt skuli fyllsta öryggis enda fari fjöldi gangandi vegfarenda um skólalóðina; skólabörn, foreldrar og starfsfólk. Sérstaklega hafi verið gætt að öryggismálum hjá Dalskóla og reynt að tryggja góðar aðstæður og aðbúnað um leið og unnið sé að uppbyggingu skólans. Þannig komi fram í umsögn skólastjóra að ástand svæðisins hafi verið gott, engin hálka eða ójöfnur. Gönguleiðin hafi verið vel upplýst og vel um hana hugsað. Hún hafi verið sönduð, söltuð og mokuð þegar þess hafi þurft. Breiðir matarvagnar hafi verið dregnir þarna daglega og það verið hluti af starfsskyldum stefnanda. Þá gangi börn þarna um oft á dag og hafi einnig leikið sér á þessari stétt og geri enn. Í umsögn skólastjóra segi: „Svæðið er ekki hættulegt gangandi vegfarendum en hann blés úr norðaustri eins og algengt er hér í Dalnum.“ Stefndu sé ekki kunnugt um það að önnur slys hafi orðið vegna þessa tiltekna rörs eða sambærilegs frágangs annars staðar.

Í lögum og reglugerðum sé lögð áhersla á að tryggt sé öryggi gangandi vegfarenda á leið um útisvæði og lóðir mannvirkja. Hvergi sé hins vegar kveðið á um með hvaða hætti skuli haga frágangi við kantsteina. Stefndu mótmæli því harðlega að frágangur á kantsteininum og rörinu hafi brotið gegn skriflegum hátternisreglum. Stefndu telji að gengið hafi verið frá svæðinu í samræmi við hefðbundinn frágang gangstétta og kantsteina. Rörið hafi verið nægilega áberandi og frágangur í kringum það snyrtilegur. Engin sérstök fallhætta hafi fylgt rörinu, ekki meiri en af kantsteinum almennt.

Aðstæður í kringum gangstéttina hafi með engum hætti verið sérstaklega varhugaverðar. Frágangur sem þessi sé alvanalegur enda nauðsynlegt að geta fleytt vatni frá gangstéttum og bílastæðum svo að ekki myndist pollar. Í 7. hluta byggingar- reglugerðar nr. 112/2012 segi að frágangur lóða og útisvæða skuli vera þannig að þar verði ekki uppsöfnun vatns. Sýknukrafa sé á því byggð að ósannað sé að frágangur á frárennslisrörinu hafi verið svo hættulegur og óforsvaranlegur að bakað hafi stefndu bótaskyldu á grundvelli sakarreglu. Ef dómur fallist ekki á sýknukröfu telji stefndu að stefnandi verði a.m.k. að bera stóran hluta tjóns síns sjálf vegna eigin aðgæsluleysis.

 

Niðurstaða.

Í málinu liggur ljóst fyrir að stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni í framangreindu vinnuslysi 13. maí 2015 og að slysið hafi einnig haft verulegar afleiðingar fyrir heilsu hennar og vinnufærni, sem hún glímir enn við. Þá liggur einnig fyrir að stefnandi hafi þegið slysabætur úr slysatryggingu launþega vegna afleiðinga slyssins. Stefnandi gerir nú í máli þessu kröfu um það að viðurkennd verði bótaskylda úr ábyrgðartryggingu stefnda Reykjavíkurborgar hjá meðstefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf., vegna tjóns stefnanda sem leitt hafi af slysinu og stefnandi telur að stefndu beri ábyrgð á. Að mati dómsins þá verður í máli þessu að taka mið af því að slysið hafi gerst með þeim hætti sem stefnandi hefur hér borið um, en engir sjónarvottar voru að sjálfu atvikinu.

Stefnandi byggir hér öðru fremur á því að ætlaða bótaskyldu stefndu sé að rekja til þess að frágangi á umræddu frárennslisröri á mörkum gangstéttar og bílastæðis við hús Dalskóla hafi verið ábótavant og valdið hættu á slysum fyrir gangandi vegfarendur sem leið hafi átt um lóð og bílastæði við Dalskóla eða átt erindi í skólann, en stefnandi vísar þar um einnig til laga og reglugerða um umbúnað slíkra mannvirkja, svo sem að framan er rakið. Stefndi vísar hins vegar til þess að umbúnaður á frárennslisrörinu hafi talist vera eðlilegur miðað við aðstæður, en að slys stefnanda hafi verið óhapp og þá mögulega tengt aðgæsluleysi hennar sjálfrar. Þá liggi einnig fyrir að stefnandi hafi þegar slysið átti sér stað starfað við skólann í nokkra mánuði og því þekkt aðstæður.

Fyrir liggur að sá umbúnaður og frágangur lóðar við Dalskóla sem hér um ræðir á árinu 2015 var til bráðabirgða, en byggt er á fyrirliggjandi myndum hvað hann varðar sem sýna rörið sem stefnandi steig á í greint sinn, en gerðar hafa verið umtalsverðar breytingar á lóðinni síðan þá og er svæðið við skólann enn í uppbyggingu. Um var að ræða um 10 cm. ávalt hvítt plaströr sem gegndi á þessum tíma hlutverki sem dren inni á bílaplaninu til að takmarka fallhættu á svæðinu. Var rörið ekki staðsett á auðkenndri gönguleið heldur var í kverk á gangstéttarkanti á milli bílaplansins og göngustígsins.

Að mati dómsins þá er ekki unnt að staðhæfa það að þessum frágangi rörsins hafi verið svo ábótavant, eða að sá umbúnaður hafi almennt verið til þess fallinn að skapa óásættanlega hættu fyrir gangandi umferð við skólann, þannig að teljist fara í bága við þau lög og þær reglugerðir sem stefnandi vísar hér til. Verður því fremur að ætla, eins og atburðum hefur hér verið lýst, að telja verði það til óhapps að stefnandi stígur í umrætt sinn, þegar hún átti leið um göngustíginn með pappakassa í ruslagám, snögglega til hliðar án þess að sjá þá vel til og ofan á umrætt rör og snýr sig þá á fæti þegar hún seilist eftir pappakassa sem hún hafði þá misst úr fanginu í vindhviðu með þeim slæmu afleiðingum sem liggja fyrir. Er því fallist á það með stefndu að ekki hafi hér verið sýnt fram á það að umræddur umbúnaður við drenið á skólalóðinni hafi farið gegn almennum fyrirmælum laga eða reglna um slík mannvirki, þannig að leiði hér til þess að fallast beri á viðurkenningu á bótaskyldu stefndu og þá bótaréttar stefnanda úr ábyrgðartryggingu stefnda, Reykjavíkurborgar, hjá meðstefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., vegna þess tjóns sem stefnandi varð fyrir vegna slyssins 13. maí 2015.

Að öllu hér framangreindu virtu þá verður því að sýkna stefndu af dómkröfum stefnanda í máli þessu, en eins og málið liggur hér fyrir þykir þó vera rétt að málskostnaður á milli aðila verði látinn falla niður, eins og í dómsorði greinir.      

Málið flutti Jóhannes Albert Sævarsson lögmaður fyrir stefnanda, en Dagmar Arnardóttir lögmaður fyrir stefndu.

Pétur Dam Leifsson héraðsdómari kvað upp dóminn. 

 

 

D ó m s o r ð:

Stefndu, Reykjavíkurborg og Sjóvá Almennar tryggingar hf., eru sýknaðir af dómkröfum stefnanda, Malgorzata Rosinska, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

 

                                                     Pétur Dam Leifsson (sign.)