• Lykilorð:
  • Líkamsárás

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 13. júní 2018  í máli nr. S-296/2018:

Ákæruvaldið

(Sigrún Inga Guðnadóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

 

 

            Mál þetta sem dómtekið er í dag var höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 22. maí sl. „á hendur X, kt. [...], [...], [...] fyrir ofbeldi í nánu sambandi með því að hafa, mánudaginn 12. júní 2017, veist að sambýliskonu sinni A, kt. [...], á heimili þeirra að [...] í [...], dregið hana á hárinu, kýlt í axlir hennar, sparkað ítrekað í andlit hennar og hendur þegar hún bar þær fyrir höfuð sitt þar sem hún lá í gólfinu, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut mar og miklar bólgur á höndum, rispur á hægri öxl og yfirborðsáverka á andliti auk þess sem blæddi úr nefi og vörum hennar.

            Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. 

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærði er fæddur í [...]. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot. Við ákvörðun refsingar verður litið til skýrlausrar játningar ákærða en jafnframt til 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði en fullnustu refsingarinnar er frestað og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Engan kostnað leiddi af meðferð málsins.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigrún Inga Guðnadóttir aðstoðarsaksóknari.

Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                              D ó m s o r ð :

            Ákærði, X, sæti fangelsi í tvo mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.