• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Hegningarauki
  • Ítrekun
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Skilorðsrof
  • Upptaka
  • Vörslur
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2018 í máli nr. S-284/2018:

Ákæruvaldið

(Guðmundur Þórir Steinþórsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Richardt Anthon Sören Larsen

(Ásgeir Helgi Jóhannsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 27. júní sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 15. maí 2018, á hendur Richardt A. S. Larsen, kt. 000000-0000, Suðurgötu 22, Sandgerðisbæ, fyrir eftirtalin brot, framin á árinu 2017:

 

1)        Þjófnað með því að hafa, fimmtudaginn 12. janúar, brotist inn í verslun Nýherja við Borgartún 37, Reykjavík, og þaðan stolið Bose hátalara, Bose heyrnartólum og Lenovo fartölvu, samtals að verðmæti kr. 336.800,-

 

Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

2)        Fíkniefnalagabrot með því að hafa, fimmtudaginn 12. janúar, haft í vörslum sínum 9,02 g af marijúana og 0,96 g af ecstasy (MDMA) sem lögregla fann við leit á heimili [A], kt. 000000-0000, að [---] í Reykjavík.

 

Telst þessi háttsemi varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

 

3)        Þjófnað með því að hafa, sunnudaginn 16. janúar, brotist inn í verslun Tölvulistans að Suðurlandsbraut 26, Reykjavík, með því að brjóta rúðu og þaðan stolið raftækjum af óþekktri tegund og verðmæti.

 

Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

4)        Tilraun til þjófnaðar með því að hafa, sunnudaginn 16. janúar, í auðgunarskyni reynt að brjótast inn í verslun Tölvuteks að Hallarmúla 2, Reykjavík, og í því skyni reynt að brjóta rúðu í versluninni sem ákærða tókst ekki.

 

Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr. sömu laga.

 

5)        Þjófnað með því að hafa, laugardaginn 21. janúar, brotist inn í verslun Tölvulistans að Suðurlandsbraut 26, Reykjavík, með því að brjóta rúðu og þaðan stolið öryggiskerfi af óþekktri tegund og verðmæti.

 

Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

6)        Þjófnað með því að hafa, laugardaginn 28. janúar, í verslun Elko að Skógarlind 2, Kópavogi,  stolið tveimur hörðum diskum að verðmæti kr. 49.995,- sem ákærði faldi innanklæða og gekk úr versluninni án þess að greiða fyrir.

 

Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

7)        Þjófnað með því að hafa, miðvikudaginn 1. febrúar, stolið spjaldtölvu að verðmæti kr. 39.995,- í húsnæði íþróttafélagsins Mjölnis að Seljavegi 2, Reykjavík, en lögregla fann spjaldtölvuna í fórum ákærða við afskipti sem frá er greint í 8. tl. ákæru.

 

Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

8)        [...]

 

9)        Fíkniefnalagabrot með því að hafa, fimmtudaginn 2. febrúar, haft í vörslum sínum 0,69 g af amfetamíni sem ákærði geymdi í úlpuvasa og fundust við leit lögreglu í kjölfar afskipta af ákærða á Álfhólsvegi í Kópavogi, sbr. 8. tl. ákæru.

 

Telst þessi háttsemi varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

 

10)    Þjófnað með því að hafa, mánudaginn 6. febrúar, í verslun Elko að Fiskislóð 15, Reykjavík, stolið hörðum disk að verðmæti kr. 21.995,- sem ákærði faldi innanklæða og gekk úr versluninni án þess að greiða fyrir.

 

Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

11)    Þjófnað með því að hafa, föstudaginn 17. febrúar, í verslun Elko í Skeifunni 7, Reykjavík, stolið herrarakvél að verðmæti kr. 18.995,- sem ákærði faldi innanklæða og gekk úr versluninni án þess að greiða fyrir.

 

Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að gerð verði upptæk framangreind 9,02 g af marijúana, 0,96 g af ecstasy 0,69 g af amfetamíni samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

 

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

 

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

Ákærði er fæddur í september 1993. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 8. maí 2018, hefur hann ítrekað gerst sekur um auðgunarbrot. Þannig hefur hann með fjórum dómum og einni sátt verið fundinn sekur um þjófnað. Nú síðast var ákærði dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir þjófnað með dómi Héraðsdóms Reykjaness, uppkveðnum 31. janúar 2017. Þar af voru þrír mánuðir skilorðsbundnir til tveggja ára. Með dóminum var skilorð eldri dóms tekið upp og dæmt með. Með brotum sínum nú hefur ákærði rofið framangreint skilorð og verður refsingin því tekin upp og ákærða gerð refsing í einu lagi, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þau brot sem ákærði er sakfelldur fyrir í þessu máli samkvæmt 1-6 tölulið ákæru voru framin fyrir uppkvaðningu framangreinds dóms Héraðsdóms Reykjaness frá 31. janúar 2017 og verður ákærða því dæmdur hegningarauki, samkvæmt 78. gr. almennra hegningaralaga nr. 19/1940.

 Ákærði hefur játað brot sín greiðlega og er það virt honum til málsbóta. Á hinn bóginn verður litið til þess að ákærði er nú sakfelldur fyrir að hafa á tímabilinu 12. janúar 2017 til 17. febrúar sama ár ítrekað gerst brotlegur við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar verður einnig litið til ítrekaðra auðgunarbrota ákærða sbr. 255., sbr. 71. gr. laga nr. 19/1940.

Með hliðsjón af framangreindu, sakarefni þessa máls og að virtri 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði. Ekki þykja efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru gerð upptæk til ríkissjóðs 9,02 g af marijúana, 0,96 g af ecstasy (MDMA) og 0,69 g af amfetamíni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Ásgeirs Helga Jóhannssonar lögmanns, 126.480 krónur og þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Ólafs Freys Frímannssonar lögmanns 200.880 krónur.

Engan annan sakarkostnað leiddi af meðferð málsins.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigurður Pétur Ólafsson aðstoðarsaksóknari.

Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

 

                                                   D Ó M S O R Ð:       

Ákærði, Richardt Anthon Sören Larsen, sæti fangelsi í átta mánuði.

Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 9,02 g af marijúana, 0,96 g af ecstasy (MDMA) og 0,69 g af amfetamíni.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Ásgeirs Helga Jóhannssonar, 126.480 krónur og þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Ólafs Freys Frímannssonar lögmanns, 200.880 krónur.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir