• Lykilorð:
  • Fjársvik
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 12. október 2018 í máli nr. S-297/2018:

Ákæruvaldið

(Margrét Herdís Jónsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Pétri Áskeli Svavarssyni

(Steinn S. Finnbogason lögmaður)

 

 

            Mál þetta, sem er dómtekið 28. ágúst 2018 er höfðað með ákæru, útgefinni af Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 22. maí 2018, á hendur Pétri Áskeli Svavarssyni, [...], fyrir eftirtalin brot:

 

 

„Umferðarlagabrot með því að hafa:

 

1. Fimmtudaginn 6. október 2016 ekið bifreiðinni [...] óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna og slævandi lyfja (í blóði mældist alprazólam 8 ng/ml, metýlfenídat 15 ng/ml og oxýkódon 160 ng/ml) um bifreiðastæði við lögreglustöðina á Dalvegi 18, Kópavogi, uns lögregla stöðvaði aksturinn.

Mál 007-2016-058845

Telst þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1., sbr. 2. mgr. 44. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr.  umferðarlaga nr. 50/1987.

 

2. Aðfaranótt laugardagsins 8. júlí 2017 ekið bifreiðinni [...] óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna og slævandi lyfja (í blóði mældist amfetamín 20 ng/ml, metýlfenídat 35 ng/ml, morfín 25 ng/ml og oxýkódon 120 ng/ml) um Miklubraut, Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn skömmu síðar við Stakkahlíð.

Mál 007-2017-038379

Telst þetta varða við 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1., sbr. 2. mgr. 44. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr.  umferðarlaga.

 

3. Laugardaginn 8. júlí 2017 ekið bifreiðinni [...] óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa slævandi lyfja (í blóði mældist alprazólam 10 ng/ml, klórdíazepoxíð <200 ng/ml, demoxepam 240 ng/ml, desmetýlklórdíazepoxíð 210 ngl/ml, nordíazepam 50 ng/ml, morfín 40 ng/ml og oxýkódon 160 ng/ml) um Reykjavíkurveg, Hafnarfirði, uns lögregla stöðvaði aksturinn skömmu síðar við Hótel Hafnarfjörð.

Mál 007-2017-038462

Telst þetta varða 1., sbr. 2. mgr. 44. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr.  umferðarlaga.

 

 

Þjófnað með því að hafa:

 

4. Miðvikudaginn 14. júní 2017 í verslun [...], Reykjavík, stolið Philips Lumea Prestige háreyðingatæki, og farið með út úr versluninni, án þess að greiða fyrir.

Mál nr. 007-2017-35132

 

5. Fimmtudaginn 20. júlí 2017 farið í heimildarleysi inn í bifreiðina [...] sem lagt var í bifreiðastæði við [...], [...], og þaðan stolið bolla og svartri íþróttatösku sem innihélt fatnað og skó að óþekktu verðmæti.

Mál nr. 007-2017-040835

 

6. Fimmtudaginn 20. júlí 2017 farið í heimildarleysi inn í bifreiðina [...] sem lagt var í bifreiðastæði við [...] og þaðan stolið svartri leður tösku sem innihélt lyf, snyrtivörur, Samsung hleðslusnúru og hleðslukubb.

Mál nr. 007-2017-040837

 

Teljast brot þessi varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

 

 

Fjársvik með því að hafa:

7. Miðvikudaginn 13. september 2016, í 5 skipti, heimildarlaust notað kreditkort Steinunnar [...], kt. [...], og blekkt starfsfólk í neðangreindum verslunum, með því að framvísa kreditkorti frá [...] á nafni Steinunnar [...], sem hann hafði komist yfir og með því svikið út vörur og þjónustu, samtals að fjárhæð kr. 63.926 og þannig látið skuldfæra andvirðið á kreditkortareikninginn eins og hér greinir:

Mál nr. 007-2016-054628

 

Í verslun [...], kr. 19.246.

Í verslun [...], kr. 17.540.

Í versluninni [...], kr. 11.995.

Í verslun [...], kr. 14.995. 

Í sjálfsala [...], kr. 150.

 

Samtals kr. 63.926.

 

8. Miðvikudaginn 13. september 2016, í 3 skipti, heimildarlaust notað debetkort Steinunnar [...], kt. [...], og blekkt starfsfólk í neðangreindum verslunum, með því að framvísa kreditkorti frá [...] á nafni Steinunnar [...], sem hann hafði komist yfir og með því svikið út vörur og þjónustu, samtals að fjárhæð kr. 3.234 og þannig látið skuldfæra andvirðið á kreditkortareikninginn eins og hér greinir:

Mál nr. 007-2016-054628

 

Á [...] pyslur, kr. 240.

Í versluninni [...], kr. 328.

Í versluninni [...], kr. 2.666.

Samtals kr. 3.234.

 

Teljast brot þessi varða við 248. gr. almennra hegningarlaga.

 

 

Gripdeild með því að hafa, sunnudaginn 4. september 2016, hrifsað veski af Viðari Jóhannssyni, kt. [...], sem hann geymdi undir setunni á hjólastól sínum, og hlaupið með það á brott.

Mál nr. 007-2016-052131

 

Telst brot þetta varða við 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.“

 

 

            Ákærði sótti ekki þing er málið var þingfest 20. júní 2018 en verjandi hans sótti þing. Málinu var frestað til 28. ágúst 2018 og sótti ákærði þá ekki heldur þing og boðaði ekki forföll.

            Verður málið dæmt samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála enda var þess getið í fyrirkallinu að þannig gæti farið um meðferð málsins.

Með vísan til framanritaðs og til rannsóknargagna málsins telst framangreind háttsemi sönnuð og er hún rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

            Ákærði er fæddur í maí 1980. Á hann langan sakaferil að baki. Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði var ákærða veitt reynslulausn hinn 8. apríl 2016  á eftirstöðvum refsingar 100 dögum með því skilyrði að hann gerðist ekki sekur um nýtt brot á reynslutímanum, sem var eitt ár. Hefur hann því rofið skilyrði reynslulausnarinnar. Þá hefur hann áður gerst sekur um auðgunarbrot og er því um ítrekun að ræða. Enn fremur ber að líta til þess að ákærði stal veski af manni í hjólastól og ber að virða það honum til refsiþyngingar. Samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ber að taka upp reynslulausnina og dæma brotin í einu lagi. Þykir refsing hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Þá ber að svipta ákærða ökurétti fyrir umferðarlagabrot þau sem hann gerðist sekur um samkvæmt I. kafla ákæru. Ákærði gekkst hinn 16. janúar 2015 undir sekt og var sviptur ökurétti í þrjá mánuði vegna brots gegn 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a í umferðarlögum. Með hliðsjón af 6. mgr. 102. gr. sömu laga ber að svipta hann ökurétti í þrjú ár frá birtingu dóms þessa að telja.

 

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Steins S. Finnbogasonar, en hann gætti enn fremur hagsmuna ákærða á rannsóknarstigi, 200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og 667.974 krónur í annan sakarkostnað.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Katrín Ólöf Jónsdóttir aðstoðarsaksóknari fyrir Margréti Herdísi Jónsdóttur saksóknarfulltrúa.

 

 

 

 

D Ó M S O R Ð:

 

Ákærði, Pétur Áskell Svavarsson [...] sæti fangelsi í sex mánuði. Ákærði er sviptur ökurétti í þrjú ár frá birtingu dóms þessa að telja.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun verjanda síns, Steins S. Finnbogasonar, lögmanns, 200.000 krónur, og 667.974 krónur í annan sakarkostnað.

 

                                                                                                Kolbrún Sævarsdóttir