• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Skilorðsrof
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2018 í máli nr. S-191/2018:

Ákæruvaldið

(Kristmundur Stefán Einarsson saksóknarfulltrúi)

gegn

Pétri Þór Birgissyni

 

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 10. apríl 2018, á hendur Pétri Þór Birgissyni, kt. 000000-0000,           Arnarsmára 28, 201 Kópavogi, fyrir eftirtalin umferðarlagabrot á árunum 2016 og 2017:

 

I.

Með því að hafa, laugardaginn 10. desember 2016, ekið bifreiðinni [---] sviptur ökurétti norður Mýrargötu í Reykjavík að Seljavegi, uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

 

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

 

II.

Með því að hafa, föstudaginn 5. maí 2017, ekið bifreiðinni [---] sviptur ökurétti um Bústaðaveg í Reykjavík, við Sogaveg, uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

 

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

 

III.

Með því að hafa, miðvikudaginn 21. júní 2017, ekið bifreiðinni [---] sviptur ökurétti vestur Engihjalla í Kópavogi, móts við hús nr. 1, uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

 

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

 

 

 

IV.

Með því að hafa, fimmtudaginn 17. ágúst 2017, ekið bifreiðinni [---] sviptur ökurétti um Gullinbrú í Reykjavík, við Stórhöfða, uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

 

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

 

V.

            Með því að hafa, þriðjudaginn 5. desember 2017, ekið bifreiðinni [---] sviptur ökurétti suður Suðurlandsveg á Selfossi, við bensínstöð Orkunnar, uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

 

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

 

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

            Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

 

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærði er fæddur í ágúst 1981. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 6. apríl 2018, á ákærði að baki nokkurn sakaferil sem nær aftur til ársins 1997. Hefur hann margítrekað verið fundinn sekur um að aka sviptur ökurétti. Nú síðast var hann sakfelldur fyrir sviptingarbrot með dómi Héraðsdóms Reykjaness, uppkveðnum 21. maí 2015. Var hann dæmdur til að sæta fangelsi í fjóra mánuði. Ákærði var dæmdur í 60 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir fíkniefnalagabrot, 27. september 2016. Með brotum sínum nú hefur ákærði rofið framangreint skilorð og verður refsingin því tekin upp og ákærða gerð refsing í einu lagi, sbr. 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði er nú sakfelldur fyrir að hafa í alls fimm skipti á tímabilinu 10. desember 2016 til 5. desember 2017 ekið sviptur ökurétti.

            Með hliðsjón af framangreindu, sakarefni málsins og dómvenju þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 17 mánuði.

            Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Ómars R. Valdimarssonar lögmanns, 126.480 krónur.

            Engan annan sakarkostnað leiddi af meðferð málsins.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kristmundur Stefán Einarsson saksóknarfulltrúi.

            Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

                                                D Ó M S O R Ð:       

       Ákærði, Pétur Þór Birgisson, sæti fangelsi í 17 mánuði.

       Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Ómars R. Valdimarssonar lögmanns, 126.480 krónur.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir