• Lykilorð:
  • Fangelsi
  • Skilorðsbundnir dómar
  • Skaðabætur
  • Skilasvik
  • Útivist

 

D Ó M U R

       Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2018 í máli nr. S-22/2018:

Ákæruvaldið

(Einar Laxness aðstoðarsaksóknari)

gegn

Jóhanni Ósland Jósefssyni

 

       Mál þetta, sem dómtekið var 27. júní sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 16. janúar 2018, á hendur Jóhanni Ósland Jósefssyni, kt. 000000-0000, Vallengi 7, Reykjavík, fyrir skilasvik, með því að hafa á tímabilinu 17-20. júní 2016 fjarlægt bifreiðina [---], án heimildar af bifreiðastæði á bifreiðaverkstæðinu Vélalandi ehf. að Bíldshöfða 8 í Reykjavík, en bifreiðin sem hafði verið þar í viðgerð frá 29. apríl sama ár, var skráð á fyrirtækið Íslón ehf., kt. 000000-0000, sem ákærði var í fyrirsvari fyrir, en fyrirtækið skuldaði Vélalandi ehf. reikning að fjárhæð kr. 1.794.022,-.

 

       Telst þetta varða við 2. tl. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

       Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkröfur:

       Af hálfu Brimborgar ehf., kt. 000000-0000, f.h. Vélalands ehf., er krafist skaðabóta úr hendi ákærða, Jóhanns Óslands Jósefssonar, að fjárhæð kr. 1.794.022,- með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 20 júní 2016 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt er þess krafist að sakborningur greiði óskipt brotaþola málskostnað að skaðlausu að mati dómsins.

 

       Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins og hafði ekki boðað forföll en hafði verið birt ákæra og fyrirkall. Verður málið dæmt samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála enda var þess getið í fyrirkallinu að þannig gæti farið um meðferð málsins.

Með vísan til framanritaðs og til rannsóknargagna málsins telst framangreind háttsemi sönnuð og er hún rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

       Ákærði er fæddur í febrúar 1957. Sakaferill hans hefur ekki áhrif við ákvörðun refsingar í málinu.

       Með hliðsjón af sakarefni þessa máls þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa að haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

       Skaðabótakröfur eru nægjanlega rökstuddar og verða teknar til greina, ásamt vöxtum, sem í dómsorði greinir. Bótakrefjandi hefur ekki sótt þing og verður því ekki dæmdur málskostnaður úr hendi ákærða.

       Engan sakarkostnað leiddi af meðferð málsins.  

       Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

                                                D Ó M S O R Ð:       

Ákærði, Jóhann Ósland Jósefsson, sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði Brimborg ehf. f.h. Vélalands ehf. 1.794.022 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 20. júní 2016 til 22. júlí 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir