• Lykilorð:
  • Gjafsókn
  • Líkamstjón
  • Ríkisstarfsmaður
  • Vinnuslys
  • Sýkna
  • Skaðabótamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2018 í máli nr. E-2549/2017:

A

(Jóhannes Albert Sævarsson lögmaður)

gegn

íslenska ríkinu

(Eiríkur Áki Eggertsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 2. október 2018, var höfðað 8. ágúst 2017 af A, [...], gegn íslenska ríkinu, Reykjavík, til viðurkenningar á skaðabótaskyldu.

Stefnandi krefst viðurkenningar á bótaskyldu íslenska ríkisins vegna tjóns síns af völdum vinnuslyss í [...] þann 21. maí 2014. Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda að mati réttarins að meðtöldum 24% virðisaukaskatti, samkvæmt málskostnaðarreikningi, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál. Til vara er þess krafist að málskostnaður verði látinn niður falla.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda. Stefndi krefst einnig málskostnaðar að mati dómsins, en til vara er þess krafist að hann verði látinn niður falla.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi var handavinnukennari við [...] þegar hún hlaut áverka í vinnuslysi 21. maí 2014. Stefnandi lýsir atvikum svo að hún hafi verið að færa saumavél í geymslu inn af kennslustofu, en þar hafi tæki og kennslugögn verið geymd. Kennslustofan sé nýtt til almennrar kennslu og því hafi þurft að tæma hana eftir hverja kennslustund. Stefnandi hafi á þeirri leið orðið að fara upp á pall sem var til hækkunar fyrir kennaraborðið í stofunni og aftur niður af pallinum til að komast inn í geymsluna. Hún hafi haldið á saumavél í fanginu, þannig að með hægri hendi hafi hún haldið um höldu ofan á vélinni og stutt undir vélina með vinstri hendi, auk þess að vera með í þeirri hendi snúrur og fótstig vélarinnar. Hún hafi rekið sig í stólfót sem skagað hafi út í gönguleið hennar að geymslunni og krækt hægri fæti í stólfótinn þannig að stóllinn dróst til og flæktist fyrir henni. Við það hafi hún misst jafnvægið og hnotið fram fyrir sig fram af pallinum og inn um dyr kompunnar. Þar inni hafi saumavélin skollið ofan á borð og vinstri hönd stefnanda orðið undir vélinni.

Stefnandi leitaði á slysadeild […] sama dag og slysið varð. Í bráðamóttökuskrá sjúkrahússins er slysinu svo lýst „Í kvöld var hún að ganga frá eftir kennslu þegar hún var að burðast með saumavél, er eitthvað að reyna að styðja við saumavélina til þess að hún missi hana ekki. Á sama tíma stígur hún niður 1 tröppu og sneri við það upp á hægra hné, meiðir sig einnig í hægri ökkla og endar með því að hún styður vinstri hendi á borð og fær saumavélina ofan á svæðið proximalt yfir þumal vinstri handar.“ Engir sjónarvottar voru að slysinu samkvæmt tilkynningu stefnanda til Sjúkratrygginga Íslands 3. desember 2014. Þar lýsir stefnandi slysinu svo: „Var að ganga frá eftir kennslu og var að bera saumavél inn í geymslu. Hélt á henni með báðum höndum. Hægri hendi í handfang ofan á vélinni og vinstri hendi hélt á fótstigi og snúru og studdi undir vélina. Festi hægri fót í stólfæti sem stóð í dyraopinu. Sá ekki stólinn fyrir vélinni og missti jafnvægið og missi vélina ofan á vinstri hendi. Sneri hægra hné og ökkla og einnig hægri úlnlið.“ Í lokavottorði B, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum, frá 24. mars 2016 er tildrögum slyssins lýst þannig: „Var að bera saumavél, ætlaði að ná betra taki þegar hún stígur niður tröppu og missir jafnvægið.“ Í umsögn skólameistara [...] frá 11. ágúst 2015 kemur m.a. fram að stefnandi hafði kennt í umræddri skólastofu um nokkurn tíma og hafi þekkt allar aðstæður vel.

Stefnandi kveður vinstri hönd sína vera alvarlega skaddaða eftir slysið og kveðst ekki hafa náð neinum bata svo að heitið geti. Það útiloki hana frá handavinnu. Hún hafi einnig snúið sig á hægra hné og ökkla og á hægri úlnlið og fengið slink á hálsinn við þessa hrösun. Afleiðingum slyssins og heilsufari stefnanda, bæði fyrir slysið og eftir það, er nánar lýst í vottorðum lækna, iðjuþjálfa og sjúkraþjálfara sem fyrir liggja í málinu.

Í örorkumati A, bæklunar- og handarskurðlæknis, frá 16. október 2016 var varanleg læknisfræðileg örorka stefnanda metin 10% vegna slyssins, þar af 4% vegna afleiðinga slyssins á vinstri þumalrót, en í því efni var sérstaklega litið til þess að fyrir slysið hafði stefnandi verið með einkennagefandi slitgigt. Á grundvelli matsgerðarinnar fékk stefnandi greiddar kjarasamningsbundnar slysatryggingarbætur.

Mál þetta höfðar stefnandi til viðurkenningar á skaðabótaábyrgð íslenska ríkisins á slysinu og tjóni sínu. Stefndi hafnar skaðabótaskyldu og um þetta snýst ágreiningur aðila. Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu um síma og skólameistari [...] bar vitni með sama hætti.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Vinnuslysið 21. maí 2014 teljist bótaskylt samkvæmt almennum skaðabótareglum úr hendi íslenska ríkisins. Stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni af völdum slyssins og varanleg læknisfræðileg örorka hennar verið metin 10% af A lækni, auk þess sem tímabundin læknisfræðileg örorka var metin 100% í 12 mánuði frá 21. maí 2014 til 21. maí 2015 og eftir það 50%. Stefnandi hafi því lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort hún eigi bótarétt hjá íslenska ríkinu vegna afleiðinga slyssins.

Vinnuaðstæður hafi verið óforsvaranlegar á slysstað. Kennslustofan hafi ekki verið fagkennslustofa, heldur einnig verið notuð til almennrar kennslu. Stefnandi hafi því hverju sinni að aflokinni handavinnukennslu orðið að ganga frá öllu því sem tilheyrði kennslunni inn í sérstaka geymslu. Þar á meðal nokkrum saumavélum í eigu skólans sem lánaðar voru nemendum við kennsluna. Geymslan hafi verið fyrir aftan sérsmíðaðan pall eða upphækkun og hafi stefnandi hverju sinni þurft að rogast með þungar og fyrirferðarmiklar saumavélar yfir pallinn til að komast í kompuna. Slíkar vinnuaðstæður teljist óviðunandi og séu beinlínis varasamar ef ekki hættulegar. Pallurinn hafi verið seinni tíma smíð, ætlaður til að hækka upp kennaraborðið. Um leið hafi hann verið tálmi á leið til geymslunnar í andstöðu við upphaflega hönnun húsnæðisins og skólastofunnar, sem gert hafi ráð fyrir að gengið yrði inn í geymsluna beint af gólfi stofunnar án þess að fyrst þyrfti að fara yfir þessa varasömu upphækkun.

Á pallinum við dyr geymslunnar hafi verið komið fyrir tölvuborði og stól, en hvorutveggja hafi skagað að hluta til út í gönguleiðina að kompunni. Þegar stefnandi slasaðist hafi stóllinn ekki verið upp við tölvuborðið heldur staðið lengra út í gangveginn en alla jafna. Stefnandi hafi ekki vitað af því að stóllinn stóð út frá tölvuborðinu og hafi ekki séð hann þar sem saumavélin sem hún bar í fanginu byrgði henni sýn að nokkru leyti. Þegar hún síðan hafi hnotið um stólinn og hrasað fram af pallinum inn í geymsluna hafi komið slinkur á líkamann, hún misst jafnvægið og slasast. Jafnvel þó að stóllinn hefði ekki skagað lengra út í gangveginn en venjulega teljist ámælisvert að koma fyrir tölvuborði og stól sem standi út í gönguleiðina og þrengi að dyraopinu. Pallurinn í skólastofunni hafi verið hærri en sem nemi hæð á einu tröppuþrepi eða uppstigi í stiga/tröppu, og það auki enn á hættueiginleika hans. Sú vansmíði brjóti í sjálfu sér í bága við byggingarreglugerð á hverjum tíma.

Orsakasamband sé á milli aðstæðna á vinnustað, slyssins þegar stefnandi hrasaði og saumavélin skall á vinstri hönd hennar og afleiðinga slyssins. Stefnandi geti ekki svarað því hvers vegna stólfótur hafi verið í veginum eða hver kunni að hafa skilið stólinn þannig eftir. Fjöldi nemenda hefði verið í kennslustundinni sem nýlokið var og hefðu þeir að einhverju leyti tekið þátt í frágangi. Tölvuborð sé þétt upp við geymsludyrnar og stóll við borðið hefði skagað út í gangveginn að geymsludyrunum að baki pallsins og örlítil tilfærsla á stólnum frá tölvuborðinu hefði þrengt enn frekar að gönguleiðinni. Tölvuborði og stól hafi augljóslega verið komið fyrir í of grunnu rými í horni við geymsludyrnar sem óhjákvæmilega hafi þrengt gangveginn að þeim. Sú uppstilling tölvuaðstöðunnar hafi ekki verið á ábyrgð stefnanda heldur [...]. Ekki hafi verið um sérkennslustofu að ræða heldur hafi stefnandi, með aðstoð nemenda, þurft að ganga sérstaklega frá öllu tengdu handavinnukennslunni þar sem kennslustofan var einnig nýtt til almennrar kennslu. Aðstæður í skólastofunni hafi að þessu leyti verið óforsvaranlegar.

Um [...] gildi lög nr. 7/1998. Skólinn sé starfsleyfisskyldur samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 941/2002, sbr. fskj. 1, um starfsleyfisskylda starfsemi. Samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 941/2002, um hollustuhætti, skuli húsnæði á hverjum tíma vera þannig gert og viðhaldið, umgengið og þrifið að þeir sem þar dveljast, starfa, eða nálægir íbúar, hljóti ekki heilsutjón eða óþægindi af. Í skólanum séu nemendur, kennarar og starfsfólk. Því verði að gera þær kröfur til eiganda slíks húsnæðis að hann tryggi öryggi þeirra sem þangað eiga erindi eða sækja þar kennslu. Óháð byggingarári húsnæðis, gildandi byggingarreglugerðum á hverjum tíma og þeim reglum um hollustuhætti og öryggismál sem gilt hafi á byggingartíma fasteignar, eða á hverjum tíma við endurbætur eða breytingar á nýtingu á húsnæðinu, beri ávallt að tryggja að þeim sem þangað leita á hverjum tíma stafi ekki hætta eða ógn af umgengni um, við eða í húsnæði. Öryggi hafi ekki verið tryggt og hætta augljóslega verið fyrir hendi í kennslustofunni þegar stefnandi hafi hrasað þar. Slíkar aðstæður séu óforsvaranlegar í kennsluhúsnæði þar sem fjölda fólks sé ætlað að fara um. Um vanbúnað hafi því verið að ræða sem brjóti í bága við ákvæði laga og reglugerðar nr. 941/2002, og húseigandi beri ábyrgð á. Því sé krafist viðurkenningar á bótaskyldu íslenska ríkisins vegna þess tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir í vinnuslysinu 21. maí 2014, sem rekja megi til óviðunandi vinnuaðstæðna í umræddri kennslustofu [...]. Þær ófullnægjandi aðstæður sem slysinu hafi valdið séu að fullu á ábyrgð stjórnenda skólans, sem beri að tryggja öruggt og áhættulaust starfs- og vinnuumhverfi jafnt fyrir kennara sem nemendur skólans.

Krafist sé viðurkenningardóms um bótaskyldu stefnda með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi styðji kröfur um málskostnað við lög nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað sé reist á lögum nr. 50/1988, sbr. og reglugerð nr. 562/1989. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyld og sé því nauðsyn að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnda.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi hafni því að slysið megi rekja til ófullnægjandi starfsumhverfis í skólastofunni þar sem slysið varð og telji að slysið megi rekja til óhappatilviljunar eða óaðgæslu af hálfu stefnanda. Sýkna eigi stefnda af kröfum stefnanda.

Stefndi fallist ekki á að slysið verði rakið til meints skorts á að mæta öryggiskröfum eða til ófullnægjandi vinnuaðstæðna. Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að gerð pallsins í skólastofunni hafi brotið í bága við ákvæði byggingarreglugerðar, sem nú er nr. 112/2002. Umræddur pallur hafi verið í skólastofunni í um fjörutíu ár. Í gögnum málsins komi fram að stefnandi hafi hrasað vegna þess að hún hafi ekki séð stólinn sem orðið hafi á vegi hennar þar sem saumavélin sem hún hafi haldið á hafi byrgt henni sýn. Engin haldbær rök hafi því verið færð fyrir því að pallurinn hafi sem slíkur verið haldinn sérstökum hættueiginleikum eða slysið verði rakið til vansmíði hans.

Í tilkynningu um slysið til Vinnueftirlitsins komi fram að stefnanda hafi fundist hún vera að missa takið á saumavélinni þegar hún var komin upp á pallinn. Þá hafi hún lyft hægri fæti undir vélina, flækt fótinn í stólfætinum, misst jafnvægið og henst niður af pallinum og inn í kompuna. Ekki liggi fyrir hvers vegna stefnandi hafi misst takið á saumavélinni en ekki virðist vera hægt að útiloka að fyrra heilsufar hennar kunni að hafa átt þar hlut að máli, svo sem vegna hreyfiskerðingar, verkja eða minnkaðs gripstyrks í höndum. Í tilkynningu stefnanda til Sjúkratrygginga Íslands komi auk þess fram að hún hafi haldið á fótstigi og snúru í vinstri hendi og stutt undir vélina. Stefnanda hefði verið unnt að losa snúrurnar áður en hún lagði af stað með vélina, enda þótt það kynni að kosta hana tvær ferðir í stað einnar. Með því móti hefði hún líklega haft betra tak á vélinni og náð að halda henni þannig að hún sæi fram fyrir sig.

Hafi stefnandi talið að hún eða nemendur hennar gætu ekki flutt saumavélar í og úr geymslunni án þess að setja sjálfa sig í háska hafi henni borið í ljósi stöðu sinnar sem kennari og í raun sem verkstjórnanda að gæta þess að vélarnar væru fluttar á sem öruggastan hátt. Stefnandi hafi þekkt vel til aðstæðna í skólastofunni og mátt vera ljósar þær hættur sem þar væru til staðar. Ekkert komi fram í gögnum málsins um að stefnandi hafi fyrir slysið talið að vinnuaðstæður í skólastofunni væru ófullnægjandi eða hættulegar. Engin skilyrði séu til að fella bótaskyldu á íslenska ríkið þó að stóllinn sem stefnandi rak sig í hafi færst úr stað. Breyti engu þótt stólnum hafi verið ætlað að vera við tölvuborð sem var til hliðar við utanvert hurðarop geymslunnar. Einatt sé við því að búast að borð og stólar í skólastofum geti færst úr stað og hafi stefnandi haft öll tök á að varast þá hættu sem af því stafi. [...] sé fyrst og fremst bóknámsskóli og verði skólayfirvöldum þar ekki metið til sakar að hafa boðið nemendum upp á kennslu í handavinnu án þess að hafa til reiðu sérútbúið rými. Ekki sé einsdæmi í framhaldsskólum landsins að almenn kennslurými séu nýtt til kennslu í handavinnu, en auk þess hafi nemendur í sumum tilvikum komið með sínar eigin saumavélar í handavinnutíma.

Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísist í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um það hvort stefndi eigi að bera skaðabótaábyrgð á vinnuslysi sem stefnandi varð fyrir við frágang eftir kennslu í handavinnu í [...] 21. maí 2014. Ágreiningslaust er að stefnanda sé fært að fá úr því skorið með dómi hvort bótaskylda sé fyrir hendi, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

Engin vitni voru að slysinu og er frásögn stefnanda af því hvernig slysið varð lögð til grundvallar. Þeim atvikum hefur hún ítrekað lýst, í meginatriðum með sama hætti, allt frá komu á sjúkrahús slysdaginn sjálfan, til skýrslugjafar hér fyrir dómi. Stefnandi kenndi hannyrðir við skólann frá árinu 2006 þar til slysið varð í maí 2014. Mun kennslan jafnan hafa verið á stundaskrá síðdegis og stefnandi því átt nokkurt val um hvaða kennslustofa nýtt yrði til kennslunnar. Liggur ekki annað fyrir en að aðstæður í umræddri kennslustofu hafi verið óbreyttar á starfstíma hennar við skólann og að hún hafi þekkt þær vel.

Upplýst er að slysið var ekki tilkynnt til Vinnueftirlits fyrr en 4. september 2014, í kjölfar þess að stefnandi gerði skólameistara grein fyrir þeim afleiðingum slyssins að hún kæmi ekki til vinnu um haustið. Í tilkynningu skólans til Vinnueftirlitsins er aðstæðum í kennslustofunni og slysinu lýst þannig: „Saumavélar og önnur tæki þarf að fjarlægja úr kennslustofunni eftir tímann vegna annarrar kennslu þess utan. Þau eru geymd í geymslu innaf kennslustofunni, til að komast þar inn þarf að fara upp pall, þar sem fyrir er borð og stóll. [Stefnandi] var að fara með tækin inn í geymsluna og fannst hún vera að missa takið á vélinni þegar hún var komin upp á pallinn. Þá lyfti hún hægri fæti undir vélina en flækti fótinn í stólfætinum og missti jafnvægið, hentist niður af pallinum og inn í kompuna. Til að reyna að bjarga saumavélinni slengdi hún vélinni upp á borð og studdi vinstri hendinni á borðið. Vélin skellur ofan á höndina sem var á borðinu svo höggið kom ofan á höndina við þumalinn.“ Tilkynningin leiddi hvorki til þess að fram færi sérstök rannsókn á þeim aðstæðum sem í henni er lýst né til annarra athugasemda Vinnueftirlits en þeirrar, að tilkynna hefði átt um slysið fyrr. Án tillits til þess er óumdeilt að aðstæður á slysstað þegar slysið varð hafi verið með líkum hætti og birtist á ljósmynd sem stefnandi tók sjálf 10. september 2014 og hefur lagt fram í málinu.

Í stefnu er því haldið fram að pallurinn í skólastofunni hafi verið hærri en sem nemi hæð á einu tröppuþrepi og brjóti sú vansmíð í bága við byggingarreglugerð á hverjum tíma. Stefndi andmælir því og vísar til núgildandi byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Þar segir í grein 6.4.9 að uppstig þrepa skuli vera á bilinu 120–180 mm. Í umsögn skólameistara til ríkislögmanns frá 11. ágúst 2015 kemur fram að þrepið upp á pallinn hafi verið um 18 sentimetrar. Þeirri staðhæfingu hefur hvorki verið mótmælt né hnekkt af hálfu stefnanda, sem ekki hefur sýnt fram á að gerð pallsins brjóti í bága við byggingarreglugerð að þessu leyti eða öðru.

Stefnandi vísar til almenns ákvæðis í þriðja málslið 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 941/2002, um hollustuhætti, þar sem fram kemur að húsnæði skuli vera þannig gert og viðhaldið að þeir sem þar dveljast eða starfa hljóti ekki heilsutjón eða óþægindi af. Stefnandi kveður aðstæður á vinnustaðnum ekki hafa fullnægt þessum skilyrðum og hafi þær því verið óforsvaranlegar og öryggi ekki tryggt. Slysið hafi orðið vegna þessa vanbúnaðar, sem stefndi beri ábyrgð á, og beri stefndi þar af leiðandi skaðabótaábyrgð á slysinu og tjóni stefnanda.

Á fyrrnefndri ljósmynd af aðstæðum sést að hluti af pallinum var á gólfi skólastofunnar fyrir framan dyr að geymslu, sem opnast með hurð inn í geymsluna, frá pallinum. Á hurð geymslunnar og á veggjum beggja vegna hennar er fest tússtafla. Þegar geymsluhurðin er lokuð getur sá sem stendur á pallinum notað tússtöfluna á hurðinni eins og á veggjunum. Tölvuborð stendur á enda pallsins í skoti við geymsludyrnar. Augljóst er af ljósmyndinni að rými við hlið dyragáttar að geymslunni nægir tæplega fyrir tölvuborðið sjálft og að sá sem vinnur við tölvuna og situr á stól við borðið situr þá um það bil fyrir miðjum geymsludyrunum. Staðsetning tölvuborðs og stóls á pallinum, sem mun hafa ráðist af þrengslum í kennslustofunni, var þannig óheppileg með tilliti til aðgengis að geymslunni þar sem saumvélarnar voru geymdar. Stefnandi bar fyrir dóminum að hún færði stólinn iðulega frá tölvuborðinu, að veggnum handan dyranna, til þess að hann hindraði ekki aðgengi að geymslunni meðan á kennslu stóð. Jafnframt kvað hún nemendur oft hafa þurft að nota tölvuna í kennslustundum og færðu þeir stólinn þá að borðinu aftur til þess.

Við kennslu var stefnandi í hlutverki verkstjórnanda, en það er almennt í verkahring verkstjóra að tryggja að hættu sé afstýrt verði hann var við einhver þau atriði sem leitt geti til hættu á slysum eða sjúkdómum, en sé þess ekki kostur skal hann gera vinnuveitanda aðvart, sbr. 23. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Bar stefnandi að þessu leyti ábyrgð á aðstæðum í kennslustofunni, einnig gagnvart nemendum. Í framburði stefnanda kom fram að hún hefði gert sér grein fyrir því að aðstæður væru varasamar og hefði þess vegna iðulega fært stólinn frá dyrunum. Í framburði skólameistara kom fram að hann minntist þess ekki að stefnandi hefði á starfstíma hennar við skólann gert nokkrar athugasemdir við aðstæður í kennslustofunni. Einnig bar skólameistari að stefnandi hefði sjálf valið sér umrædda kennslustofu í gamla skólahúsinu fyrir hannyrðakennsluna þó að aðrir kostir hefðu staðið til boða.

Ekki er útilokað að aðstæður til hannyrðakennslu í fagkennslustofu, þar sem ekki er þörf á saumavélaburði fyrir og eftir kennslustund, séu öruggari en aðstæður voru í umræddri kennslustofu, svo sem stefnandi heldur fram. Á það verður þó ekki fallist að þetta leiði sjálfkrafa til þess að aðstæður á vettvangi þessa máls teljist hafa verið óforsvaranlegar. Þó að óhentugt sé að ganga yfir pall til að komast í geymslu telst það eitt ekki hættulegt. Pallar voru síðar fjarlægðir úr kennslustofum í umræddu skólahúsi en það var samkvæmt vitnisburði skólameistara gert vegna þess að með breyttum kennsluháttum þykir upphækkun undir kennaraborð ekki lengur hentugt fyrirkomulag í kennslustofu.

Stefnandi kennir því einkum um slys sitt að fyrrnefndur stóll hafi verið í gangveginum að geymslunni þegar hún var að bera þangað saumavél eftir að nemendur höfðu gengið frá sínum vélum inn í geymsluna og farið heim. Ekki liggur annað fyrir en að stefnandi hafi sjálf stjórnað aðgengi nemenda bæði að geymslunni og að tölvunni í kennslustundum. Einnig er ljóst að hún stýrði verklagi við frágang eftir kennslu við aðstæður sem hún gjörþekkti. Stefnandi hefur lýst því fyrir dóminum að stóllinn sem hún hnaut um hafi iðulega verið færður til í kennslustundum og fyrir geymsludyrnar, stundum hafi hann verið þar og stundum ekki. Í ljósi stöðu stefnanda á vettvangi og þekkingar á aðstæðum verður að ætlast til þess af henni að hún hagaði athöfnum sínum og verklagi í samræmi við þær aðstæður og sýndi eðlilega aðgát við það einfalda verk að flytja saumavélina í geymsluna. Slysið varð þegar stefnandi hafði ekki gætt að því hvort stóllinn væri í gangveginum áður en hún fór upp á pallinn með saumavél, snúrur og fótstig, sem hún hélt þannig á í fanginu að hún sá ekki hvað framundan var.

Samkvæmt því sem að framan er rakið þykir hvorki hafa verið sýnt fram á að aðstæður hafi verið ólögmætar, óforsvaranlegar eða hættulegar né leitt í ljós að slysið hafi orðið vegna þess að húsnæðið hafi ekki uppfyllt skilyrði þriðja málsliðar 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 941/2002. Ekki er á því byggt að bótaskylda leiði af öðru en aðstæðum á vinnustað eða sé fyrir hendi á öðrum grundvelli. Verður stefndi að öllu framangreindu virtu sýknaður af kröfum stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður milli aðila. Stefnandi hefur gjafsókn í málinu og greiðist allur gjafsóknarkostnaður hennar því úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun Jóhannesar Alberts Sævarssonar lögmanns hennar, sem ákveðin er 1.235.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. 

Dóminn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, A.

Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun Jóhannesar Alberts Sævarssonar lögmanns, 1.235.000 krónur.            

                                                                                                Kristrún Kristinsdóttir