• Lykilorð:
  • Manndráp
  • Fangelsi
  • Tilraun

Árið 2018, fimmtudaginn 21. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-116/2018: Ákæruvaldið gegn Degi Hoe Sigurjónssyni, en málið var dómtekið 12. þ.m.

            Málið er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri 2. mars 2018, á hendur:

 

            Degi Hoe Sigurjónssyni, kennitala [...],

            Bárugötu 17, Akranesi,

            til dvalar í fangelsinu Litla-Hrauni,

 

fyrir manndráp og tilraun til manndráps, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 3. desember 2017, á Austurvelli í Reykjavík, veist að A og B með hnífi, sem var með 9,5 cm löngu blaði, og margsinnis lagt til þeirra og stungið þá með hnífnum, en ákærði stakk A í bringu vinstra megin og gekk hnífurinn inn í hjartað, í hægri öxl og tvívegis í bakið, og þá stakk ákærði B í bakið, í vinstri öxl, á vinstri upphandlegg og í vinstri kálfa. Afleiðingar árásar ákærða á A voru þær að hann hlaut skurðsár vinstra megin á brjóstkassa sem fór inn í hjartað, á hægri miðju brjóstkassa að aftanverðu, á svæði hægra herðablaðs, á hægri öxl, í vinstri lófa, rispur á miðnes og rétt fyrir ofan vinstri kinn, skrámur við hlið vinstri augabrúnar, neðan við hliðarhorn vinstra auga, ofan við vinstri mjaðmakamb, á hægri framhandlegg, við vinstri olnboga og framan á hægri fótlegg, gat á vinstra lunga og lét A lífið af sárum sínum fimm dögum síðar, en áverkinn á hjartanu var banvænn og höfðu önnur skurðsár áhrif á andlát hans. Afleiðingar árásar ákærða á B voru þær að hann hlaut skurðsár efst á bak vinstra megin, utanvert á vinstri öxl, aftan til á vinstri upphandlegg og á vinstri kálfa sem náði ofan í slagæð og olli slagæðarblæðingu.

 

Telst þetta varða við 211. gr. og 211. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Einnig er krafist upptöku samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga á hnífi í eigu ákærða af gerðinni Muela sem lögregla lagði hald á (munanúmer 45349).

 

Einkaréttarkröfur:

 

Af hálfu C, móður brotaþolans B, er gerð krafa á hendur ákærða um að hann verði dæmdur til þess að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 10.000.000 svo og skaðabætur vegna alls útlagðs kostnaðar að fjárhæð kr. 867.237 eða samtals kr. 10.867.237 auk dráttarvaxta skv. IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 28. febrúar 2018 til greiðsludags. Auk þess er gerð krafa um málskostnað úr hendi ákærða skv. mati réttarins að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Þess er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól dómkröfu og málskostnað á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta, sbr. 12. gr. fyrrgreindra laga.

 

Af hálfu D, föður brotaþolans A, er gerð krafa á hendur ákærða um að hann verði dæmdur til þess að greiða honum miskabætur að fjárhæð kr. 10.000.000 auk dráttarvaxta skv. IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 28. febrúar 2018 til greiðsludags. Auk þess er gerð krafa um málskostnað úr hendi ákærða skv. mati réttarins að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Þess er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól dómkröfu og málskostnað á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta, sbr. 12. gr. fyrrgreindra laga.

 

Af hálfu brotaþolans B, kt. [...], er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða honum bætur að fjárhæð kr. 3.243.040 auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi til þess dags er mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar og dráttarvaxta skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 6. gr. vaxtalaga. Einnig er gerð krafa um skipun réttargæslumanns skv. 42. gr. laga nr. 88/2008 og að ákærði verði dæmdur til að greiða hæfilegan kostnað vegna réttargæslu skv. ákvörðun dómsins, skv. 48. gr., sbr. 1. mgr. 217. gr. laga nr. 88/2008, en til vara er gerð krafa um að kærði verði dæmdur til að greiða lögmannskostnað við að koma bótakröfunni á framfæri og vegna hagsmunagæslu við meðferð málsins fyrir dómi skv. tímaskýrslu og málskostnaðarreikningi sem lögð verða fram við meðferð málsins, með vísan til 1. mgr 176. gr. laga nr. 88/2008, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.“

 

Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði felld niður og til þrautavara vægustu refsingar sem lög leyfa. Í öllum tilfellum er þess krafist að bótakröfum verði vísað frá dómi, en til vara að þær verði lækkaðar verulega. Þess er krafist að málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði, samkvæmt framlagðri tímaskýrslu.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, dagsettri 3. desember 2017, barst lögreglu tilkynning kl. 04.51 aðfaranótt sunnudagsins 3. desember sl. um að maður lægi á Austurvelli, mögulega með stungusár. Við komu lögreglu á vettvang komu þeir að hópi fólks sem var að hlúa að manni sem lá á gangstétt á Austurvelli. Í skýrslunni er lýst stungusárum á manninum sem hafi verið mjög blóðugur. Lögreglumenn beittu hjartahnoði uns sjúkraflutningamenn komu og tóku við og fluttu manninn á sjúkrahús. Í skýrslunni er því lýst að vitni sem rætt var við á vettvangi hafi greint frá því að ákærði hefði rifist við tvo menn og elt annan þeirra yfir Austurvöll og sparkað í manninn eftir að hann féll í jörðina. Ákærði hefði síðan forðað sér.

Því er lýst í skýrslunni er lögreglan rakti blóðslóð frá Austurvelli að [...], þar sem haft var tal af B sem hefði verið með stungusár á fæti og á baki.

Þá er í lögregluskýrslunni lýst aðgerðum lögreglu í kjölfarið og m.a. því að ákærði hefði verið handtekinn á heimili sínu síðar um nóttina og að blóðugur vasahnífur hefði fundist í fórum hans.

Í öðrum rannsóknargögnum er greint frá ráðstöfunum sem gerðar voru og vinnu lögreglu, m.a. vettvangsvinnu o.fl., sem síðar verður rakið eins og ástæða þykir.

Við skýrslutöku af ákærða hjá lögreglunni, 5. desember sl., kvaðst hann hafa lent í útistöðum við tvo menn og lýsti hann átökunum við mennina en kvaðst ekki hafa beitt hníf í átökunum eða í samskiptunum við þá. Framburður ákærða hjá lögreglu verður rakinn síðar eins og ástæða þykir.

           

Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi

           

Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa verið á tónleikum í miðbænum á þessum tíma, ásamt unnustu sinni. Hann lýsti rifrildi þeirra sem lauk með því að ákærði gekk í burtu og gerði það sama og hann geri alla jafnan við aðstæður sem þessar, þegar hann brotni niður eða komist í geðshræringu eða í uppnám. Við slíkar aðstæður hafi hann venju að setjast niður einn með sjálfum sér og þá vilji hann fá frið. Hann lýsti því að væri hann með hníf á sér við slíkar aðstæður þá skæri hann sig iðulega og skýrði hann tilgang þessarar háttsemi þannig að þetta gerði hann í því skyni að ná áttum. Hann hefði setið á bekk við Austurvöll, þótt hann myndi ekki nákvæmlega hvernig hann kom þangað. Að því hefði komið að A eða B reyndi að tala við ákærða, sem hefði beðið manninn að láta sig í friði en maðurinn hefði ekki virt það. Hann kvaðst hvorugan hafa þekkt og engin deili vitað á þeim. Þá hefði komið að annar maður og kvað ákærði sér ekki hafa litist á það og áfram beðið mennina að láta sig í friði. Hann kvað sig minna að hann hefði rætt við mennina á ensku, en hann myndi ekki hvað þeir sögðu. Mennirnir hefðu ekki sinnt þessu og kvaðst ákærði hafa upplifað ástandið þannig að mennirnir hefðu stöðugt nálgast sig þar sem hann sat á bekknum. Hann lýsti því að á þessari stundu hefði rifjast upp atburður frá því nokkrum mánuðum fyrr er erlendir menn réðust á ákærða og vin hans. Hann kvaðst hafa upplifað það sem gerðist á Austurvelli nánast eins og árásina á þá kunningja hans, sem hann lýsti. Hann kvaðst þannig ekki hafa vitað hvort mennirnir ætluðu að ráðast á hann, ræna hann eða að tala við hann. Hann hafi ekki vitað hvað væri í gangi og honum hafi ekki liðið vel og verið óöruggur og hræddur, þar sem mennirnir sinntu því ekki að láta hann í friði. Hann kvað hafa komið að því að annar mannanna sparkaði í ökkla ákærða, sem stóð þá á fætur og bað mennina enn um að láta sig í friði. Það næsta sem hann viti er að hann fékk högg aftan á hnakkann svo hann „datt alveg út“ og muni ekkert fyrr en hann lá í jörðinni, á bakinu, með A ofan á sér. A hafi staðið á fætur og ætlað að hlaupa í burtu en dottið. Ákærði kvaðst þá hafa staðið á fætur og gengið í áttina að A og ýtt við honum, en hann hefði ekki hreyft sig. Ákærði kvaðst ekki muna neitt eftir átökunum við mennina og hann muni aðeins eftir sér er A var ofan á honum, eins og rakið var. Hann kvaðst árangurslaust hafa reynt að rifja upp atburðarásina. Hann lýsti tilfinningum sínum er hann sá A hreyfingarlausan í jörðinni, en tilfinningin var ekki góð að hans sögn. Hann kvaðst hafa fengið „pínu sjokk“ og gengið í burtu. Hann kvaðst hafa verið kominn nærri MR er hann áttaði sig á því hvað væri í gangi og þá hefði hellst yfir hann enn þá meiri panikk og hræðsla vegna þess að hann vissi ekki hvað hefði gerst, en hann kvaðst hafa verið blóðugur á höndunum og hann viti ekki og geti ekki skýrt tilvist blóðsins. Þar sem þannig hafi staðið á hafi hann orðið hræddur um að hið versta gæti hafa gerst, sem væri að hann gæti hafa drepið einhvern á þessu tímabili sem hann myndi ekki eftir. Þegar þannig standi á og einstaklingur viti ekki neitt panikki maður, að sögn ákærða. Hann hafi þessu næst hringt í E, kunningja sinn, og beðið hann að sækja sig, sem E hefði gert og sótt ákærða og tekið hann upp í bíl sinn nærri BSÍ. Ákærði kvaðst á heimleiðinni hafa reynt að ná í unnustu sína og lýsti hann áhyggjum af henni. Hann hefði farið heim til sín í Garðabæ og ætlað að sofna en ekki getað það og kvaðst hann þá hafa farið út með hníf sem hann kvaðst hafa ætlað að nota til að skera sig. Hann hefði ekki gert það heldur sest á bekk þar sem hann hefði tálgað spýtu, uns hann hefði gengið til baka áleiðis heim en verið handtekinn á leiðinni.

Spurður hvort hann hefði verið með hníf á þeim tíma sem í ákærunni greinir kvaðst hann ekki geta sagt að hann myndi það. Hann þyrði ekki að fara með það og vildi ekki segja ósatt. Hann myndi ekki eftir því að hafa verið með hníf meðferðis í bænum á þessum tíma. Spurður um ástand sitt á þessum tíma kvaðst ákærði hafa verið „fullur“, það væri augljóst mál, og lýsti hann áfengisdrykkju sinni þetta kvöld. Spurður um það hvort hann hefði stungið mennina eins og í ákæru greinir kvaðst ákærði aðeins geta gefið það svar að hann myndi ekki eftir því að hafa haldið á hnífi og stungið mennina.

Ákærði kvaðst eiga hnífinn sem lagt var hald á við handtöku, en á hnífnum greindist blóð sem við rannsókn reyndist innihalda DNA snið úr A. Spurður um þetta kvað ákærði þetta ekki koma á óvart, þar sem átökin við A hefðu verið blóðug og hann verið blóðugur á höndum er hann stóð upp og blóðið á hnífnum kynni að hafa borist þangað er ákærði handlék hnífinn síðar um nóttina. Hann gæti ekki skýrt þetta á annan hátt.

Spurður um það hvort hann myndi atburði vegna ölvunarinnar kvaðst hann ekki muna allt sem gerðist og hann myndi ekki eftir förinni á Austurvöll. Hann myndi ekki eftir samskiptum við lögreglu um kvöldið, hann myndi ekki eftir öðru fólki á Austurvelli, en kvaðst viss um að hafa átt í útistöðum við tvo menn.

Ákærði var spurður um vitnisburð E, sem hafði eftir ákærða að hann hefði stungið Pólverja í miðbænum þessa nótt. Ákærði kvaðst ekki muna eftir þessu en ekki halda því fram að E segði ekki rétt frá þessu.

            Á upptöku eftirlitsmyndavéla frá Austurvelli frá þessum tíma sést A í hvítum bol falla í götuna og annar maður kemur á eftir honum og stuggar við honum með fætinum. Ákærði kvaðst muna eftir að hafa staðið á fætur, eins og rakið var, og hafa gengið að A þar sem hann lá og ýtt við honum. A hefði ekki hreyft sig og ákærði gengið í burtu eftir þetta.

Ákærði var spurður um staðsetningu sína og fleira sem fram kemur á upptökum eftirlitmyndavéla. Þar sést m.a. er B gengur í burtu. Í ljós kom að upptökurnar rifjuðu ekkert upp fyrir ákærða um það sem gerðist. Hann myndi ekkert frá þessum tíma.

            Við skýrslutöku hjá lögreglu lýsti ákærði því í upphafi að hann hefði barist með hnefahöggum við mennina tvo á Austurvelli. Spurður um breyttan framburð frá þessari skýrslu kvað hann hugsanlegt að hann hefði á þessum tíma munað eitthvað örlítið betur frá atburðinum. Hann kvaðst áður hafa lent í „black outum“ þar sem hann myndi atburði betur strax eftir atburð, en verr síðar.

 

            Vitnið B kvað þá A, vin sinn, hafa verið á veitingastað í miðbænum á þessum tíma. Er þeir fóru þaðan og út á Austurvöll hefðu þeir séð strák sem þar sat og grét. Þeir A hefðu rætt hvernig þeir gætu hjálpað stráknum og þá farið til hans til að rétta honum hjálparhönd. Þeir hefðu spurt strákinn á ensku hvað þeir gætu gert fyrir hann til að róa hann niður og í því skyni boðið honum sígarettu. Þeir A hefðu ekki á nokkurn hátt verið ógnandi í garð ákærða, sem hefði ekkert sagt áður en hann stóð upp og veittist að þeim A vopnaður hníf. Ítrekað spurður kvað hann þá A aðeins hafa ætlað að rétta ákærða hjálparhönd þar sem hann sat grátandi og endurtók að þeir A hefðu ekki verið ógnandi. Spurður um það hvort annar hvor þeirra A hefði sparkað í ákærða lýsti hann því svo að þeir hefðu reynt að ýta ákærða frá og B hefði í því skyni sparkað í eða að ákærða. Þá fyrst kvaðst hann hafa séð hnífinn. Aðdragandinn hefði enginn verið og ákærði strax gripið til hnífsins og beitt honum gegn þeim A og sagt við þá að þeir gætu hjálpað honum svona, og hefði ákærði haldið áfram að veitast að þeim með hnífnum. B kvaðst hafa hlaupið frá en árásarmaðurinn hefði stungið hann með hnífnum. Hann kvaðst hafa verið á grúfu er hann fékk hnífinn í bakið en hann hefði séð er hnífsstungan kom á fótlegg hans. Spurður hvort hann hefði séð ákærða stinga A og þá hversu oft kvaðst hann hafa séð A verða fyrir hnífsstungum en hann gæti ekki lýst þeim í smáatriðum og hann gæti ekki lýst fjölda þeirra, en þær hefðu verið margar en hann kvað ákærða bæði hafa notað hníf og hnefa í árásinni. B sýndi hvernig ákærði hélt á hnífnum í árásinni. Hann hefði farið heim til sín að [...] eftir þetta og ætlað að gera sjálfur að sárum sínum með aðstoð vina en hann kvað mikið hafa blætt. Hann hafi ekki ætlað til lögreglu og kvað hann ástæðuna þá að hann hefði ekki haft dvalarleyfi hér á landi. Hann kvað sig minna að A hefði fyrst verið stunginn og hefði B þá komið honum til aðstoðar til að koma í veg fyrir frekari árás. Við þetta hefði hann dottið í götuna, á grúfu, og þá hefði ákærði stungið hann með hnífnum í öxlina eða á aftanvert herðablaðið og lýsti hann þessu. Hann kvaðst síðan hafa séð A hlaupa frá vettvangi er hann hefði reynt að ýta ákærða frá, en hann hefði áfram reynt að stinga með hnífnum og þá hefði hann fengið hnífsstunguna í fótlegginn. Eftir þetta hafi ákærði farið í burtu. Hann kvaðst hafa orðið mjög hræddur og farið heim til sín.

            B var kynntur framburður ákærða þess efnis að hann hefði fengið högg á hnakkann í þessari atburðarás og við það dottið út, eins og ákærði bar. B kvað þennan framburð ákærða rangan.

            B bar fyrir dóminum undir aðalmeðferðinni að hann myndi eftir stungum í bak og öxl en við skýrslutöku af vitninu fyrir dómi 5. desember sl. kvaðst hann ekki hafa vitað af stungunum fyrr en við komu á spítala. Hann kvað skýringuna á þessu þá að hann hefði ekki séð stunguna í bak sér og öxl og hann hefði ekki áttað sig á því hvers kyns var fyrr en eftir komu á sjúkrahúsið. Við skýrslutökuna fyrir dómi 5. desember sl. kvaðst hann ekki hafa séð er A var stunginn, en fyrir dóminum undir aðalmeðferðinni kvaðst hann hafa séð það. Spurður um skýringu á þessu kvaðst hann hafa séð ákærða með hnífinn og hafa séð hann stinga og berja A endalaust. Hann hafi séð þetta vel og ekki geta lýst þessu betur, en hann gæti ekki lýst því hvar stungurnar komu.

            B lýsti líðan sinni eftir atburðinn. Hann kvað sér hafa liðið illa andlega og hann hafi leitað sér sálfræðiaðstoðar vegna þessa og sú aðstoð standi enn. Hann lýsti þessu nánar. Þá lýsti hann afleiðingum hnífsstungunnar á fótlegginn en hún hefði haft í för með sér dofa og líðan hans væri ekki góð vegna þessa.

            Vitnið F kvaðst hafa verið stödd á Austurvelli ásamt G, H og I, kunningjum sínum, þar sem þau settust á bekk. Ákærði hafi setið á bekk við hlið þeirra og hafi hann klárlega verið í einhverju ástandi, talandi við sjálfan sig, veifandi hníf. Nánar spurð um ástand ákærða kvað hún hann hafa verið frekar ógnvekjandi og lýsti hún þessu og kvað ákærða augljóslega hafa verið manneskju sem maður átti ekki að skipta sér af. Hún kvaðst ekki hafa séð hnífinn, heldur G vinkona hennar. Stuttu síðar hefðu tveir menn komið gangandi til ákærða og virtust þeir vera að athuga hvort allt væri í lagi með hann, sem hefði ekki verið „með öllu réttu“, eins og vitnið bar. Mennirnir sem komu að ákærða hefðu verið eðlilegir drengir „á lífinu“ og að athuga hvort ekki væri í lagi með ákærða, sem klárlega hefði ekki verið í lagi með og mennirnir virtust hafa áhyggjur af honum, eftir því sem henni virtist. Ákærði hefði strax brugðist illa við komu mannanna, byrjað að hrópa á þá og ögra þeim og staðið á fætur. Þá urðu slagsmál milli mannanna og minnti hana að annar þeirra sem komu að ákærða hefði sparkað í fótlegg hans, en það hefði verið svar við háttsemi ákærða. Hún kvað slagsmálin hafa borist víða um Austurvöll og hún hefði séð högg á báða bóga, en ekki séð hnífsstungur. Hún kvaðst ekki viss um það hvort einhver hefði dottið í þessari atburðarás. Við skýrslutöku hjá lögreglu greindi vitnið svo frá að sparkað hefði verið í ákærða liggjandi. Fyrir dóminum kvað hún það rétt. Hafi þessu lokið með því að ákærði sparkaði í manninn sem lá í jörðinni og gekk því næst í burtu. Vitnið og kunningjar hennar komu að og sáu stungusár á manninum sem lá hreyfingarlaus í götunni. Eftir þetta var hringt á sjúkrabíl.

            Vitnið G var á Austurvelli ásamt F, H og I, félögum sínum, á þessum tíma. Hún sat þar á bekk og ákærði sat á öðrum bekk skammt frá og lék sér með hníf. Hún taldi ákærða hafa verið undir miklum áhrifum vegna þess að hann talaði við sjálfan sig. Þá hefði komið að honum maður og svo annar maður sem virtust ætla að hjálpa ákærða, enda hefði maðurinn sem kom að ákærða ekki verið árásargjarn að sjá. Hún heyrði ekki hvað þeim fór á milli. Mennirnir og ákærði hefðu talað eitthvað saman uns ákærði stóð á fætur, en annar aðkomumannanna hefði gefið ákærða létt spark í fótinn og þá hófust slagsmál og ákærði „hjólaði í hann“ og sló manninn og höggin hefðu gengið á báða bóga. Ákærði hefði haldið á hnífnum í slagsmálunum við báða mennina, þótt hún hefði ekki séð hnífsstungur. Á einhverjum tímapunkti hefði ákærði fallið í götuna þar sem sparkað var í hann. Síðan hefði annar mannanna hlaupið í burtu en hinn hefði fallið í götuna. Vitnið og vinir hennar hefðu reynt að aðstoða manninn en ákærði hefði gengið rólega í burtu.

            Vitnið H var staddur á Austurvelli á þeim tíma sem um ræðir, ásamt I, F og G. Þau sátu þar á bekk og ákærði sat á nálægum bekk, en hann vissi hver ákærði var. Ákærði hefði verið hlæjandi og taldi vitnið eitthvað vera að hjá ákærða. Tveir útlendingar hefðu þá komið að ákærða og byrjað að atast í honum, eins og þeir ætluðu að ráðast á hann. Sá sem síðar féll í götuna sparkaði í fót ákærða þar sem hann sat og hófust þá slagsmál. H hafi ekki virst þetta vera neitt alvarlegt en annar aðkomumannanna hefði hlaupið í burtu og ákærði og annar strákurinn orðið eftir, eins og fastir saman þar sem þeir stóðu. Síðan hefði ákærði farið í burtu en hinn strákurinn lagst niður og er vitnið kom að til að aðstoða hann sá hann blóð leka frá manninum. Hann kvaðst ekki hafa séð hníf.

            Vitnið I var staddur á Austurvelli ásamt F, G og H, kunningjum sínum, á þessum tíma. Ákærði, sem hafi verið í mjög annarlegu ástandi, hafi setið fyrir framan þau. Þá hafi komið tveir strákar að ákærða og hafi þeir angrað hann og fyrr en varði byrjuðu átök. I hafi snúið baki í þá og ekki séð hvert upphafið var og ekki heyrt orðaskipti, en sér virtust mennirnir tveir ekki þannig að þeir hefðu viljað byrja slagsmál. Hann hefði síðan séð er mennirnir sem komu að ákærða voru allir ataðir blóði, en hann kvaðst hafa talið að e.t.v. væri um að ræða nefbrot. Nánar spurður hvort hann gæti lýst slagsmálunum kvað hann þetta hafi litið út eins og ákærði hefði staðið upp og ráðist á mennina sem báðir hefðu reynt að sparka í ákærða og fella hann. Að því hefði komið að annar mannanna varð óstöðugur á fótunum og missti jafnvægið. Mennirnir tveir hefðu hlaupið í burtu, hvor í sína áttina, en annar þeirra féll í götuna skammt frá. I kom síðan að manninum sem féll og sá þá stungusár á honum og hringdi í sjúkrabíl. Hann sá ákærða ekki með hníf.

            Vitnið J var á Austurvelli ásamt K, vinkonu sinni, á þessum tíma. Er þau gengu inn á Austurvöll sáu þau slagsmál þriggja manna, að því er þeim virtist, við styttu Jóns Sigurðssonar. Hann kvað menn hafa fallið í götuna og verið sparkað í liggjandi mann. Er þau komu nær, til að athuga hvað væri í gangi,  hefði K, vinkona hans, kallað til mannanna og spurt hvað væri í gangi. Er þau komu enn nær hefði blóðugur maður komið á móti þeim og staulast fram hjá þeim. Síðan kom annar maður á eftir hinum fyrri, haldandi á stórum hníf, sýndist honum og virtist þeim manni vera heitt í hamsi og vera að elta hinn. Þau K viku sér undan, hvort í sína áttina, en hringdu síðan í lögregluna.

            Vitnið K kvað þau J hafa komið inn á Austurvöll á þessum tíma og þá séð slagsmál á miðjum Austurvelli. Þau hafi ekki látið mikið með þetta og ætlað að velja sér aðra gönguleið er hún sá og heyrði að þetta var alvarlegra en þau töldu í fyrstu. Er þau komu nær sáu þau þrjá menn og einn liggjandi í götunni og var sparkað harkalega í hann og kvaðst hún nokkuð viss um að maðurinn sem sparkað var í hefði verið sá sami og síðar kom blóðugur á móti þeim J og lést síðar. Sér hafi virst sem tveir menn ættu í útistöðum við einn. Hún hefði kallað til mannanna og spurt hvað væri að gerast og gengu þau J í áttina til þeirra og heyrðu þá skerandi öskur. Hún lýsti því er strákur, alblóðugur, kom hlaupandi og haltrandi á móti þeim og féll í götuna stuttu síðar. Hún lýsti því að maður hefði komið og gengið ákveðið á eftir manninum, haldandi á hníf í hægri hendi. Maðurinn hafi verið „óhuggulegur í andlitinu“ og virst vera ákveðinn og sér hefði virst sem maðurinn sæi þau ekki. Hún hringdi í lögregluna eftir þetta og lýsti hún samtali sínu við lögreglu, sem bað hana um að færa sig nær atburðunum en hún hefði ekki þorað það.

            Vitnið E lýsti því að ákærði hefði hringt í miklu uppnámi um fjögur leytið aðfaranótt 3. desember sl. og greindi ákærði svo frá að hann hefði stungið mann. E  kvaðst hafa greint unnustunni sinni frá þessu og síðan farið og sótt ákærða og tekið upp í bíl sinn nærri BSÍ. Ákærði hefði verið með skurð á hendi er hann kom í bíl vitnisins. Hann ók áleiðis í Garðabæ en þeir stönsuðu á leiðinni þar sem ákærði ræddi málið og það sem hafði gerst. Ákærði hefði verið í miklu uppnámi og sagðist hafa stungið tvo menn á Austurvelli og ekki vita hvort annar þeirra myndi lifa af. Ákærði hafi sagst ætla heim og drekka sig í hel. Ákærði hafi sagt að hann hefði setið grátandi vegna samskipta við unnustu sína er tveir menn komu að honum og sparkað hafi verið í sköflunginn á honum. Ákærði hefði þá „snappað“ og ráðist á mennina. Hann hafi lýst því að mennirnir hefðu komið yfir hann og hann hafi þá stungið þá í síðuna og í bakið. Annar mannanna hefði forðað sér en hinn hefði fallið í götuna. Ákærði hefði farið úr bílnum nærri heimili sínu í Garðabæ.

            Vitnið L lýsti því er E, unnusti hennar, fékk símtal aðfaranótt 3. desember sl. og fór skömmu síðar þeirra erinda að sækja ákærða. Hann hefði komið til baka um hálftíma síðar, eftir að hafa ekið ákærða heim til sín, og greindi E frá því og hafði eftir ákærða að ákærði hefði stungið mann eða menn á Austurvelli.

            Vitnið M lögreglumaður lýsti komu lögreglunnar á Austurvöll á þeim tíma sem um ræðir. Hann staðfesti frumskýrslu lögreglu sem vísað var til að ofan. Vitnið kom fyrstur á vettvang ásamt tveimur öðrum lögreglumönnum. Hópur fólks var á Austurvelli að hlúa að A. Hann lýsti vinnu lögreglunnar á vettvangi í framhaldinu og m.a. hjartahnoði sem beitt var uns sjúkraflutningamenn komu og fluttu A á sjúkrahús.

            Vitnið N lögreglumaður kom með þeim fyrstu á vettvang og lýsti vinnu sinni þar. Hann lýsti því er hann rakti blóðslóð frá vettvangi að [...], þar sem haft var tal af B sem var inni á snyrtingunni að gera að sárum sínum. Hann kvað mikið blóð hafa verið á staðnum og B virtist vera í sjokki og enga aðstoð vilja. N kvaðst hafa fylgt B á slysadeild.

            Vitnið O lögreglumaður lýsti vinnu sinni og lögreglunnar á vettvangi. Í ljósi alvarleika málsins hefði verið kölluð út aðstoð. Hann lýsti söfnun blóðsýna og blóðslóð sem lögreglan rakti að [...]. O ljósmyndaði vettvang á Austurvelli og að [...].

            Undir rannsókn málsins voru send til DNA-greiningar hjá Nationellt forensiskt centrum - NFC í Svíþjóð ýmis sýni sem safnað var undir rannsókninni. Í greinargerð lögreglunnar, sem dagsett er 2. maí 2018, er svofelldur kafli:

            „Sjö sýni voru varðveitt við rannsókn á hníf, sem fannst í vasa grunaðs. Tvö sýni, bæði af sömu hlið blaðsins, reyndust innihalda blöndu DNA sniða frá a.m.k. tveim einstaklingum, og sýndu niðurstöðurnar að um var að ræða blöndu DNA sniða frá látna, A, og grunuðum, Degi Hoe Sigurjónssyni. Önnur sýni, varðveitt af hnífnum, höfðu öll sama DNA snið, og var það snið eins og DNA snið grunaðs, Dags Hoe Sigurjónssonar.“

 

Vitnið P, sérfræðingur hjá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, skýrði og staðfesti rannsóknina sem rakin var að ofan. Hann kvað útlit gata á bol B, sem lagt var hald á að [...], geta samrýmst því að vera stunguför eftir eggvopn. Hann var spurður út í fimm göt á bakhlið úlpu A og taldi þau hafa verið þannig að þau samrýmdust því að vera eftir eggvopn. Fjögur göt náðu í gegnum úlpuna. Fatnaður ákærða var rannsakaður og var blóð úr öllum flíkum hans rannsakað. Hann kvað hafa verið send 47 sýni úr fatnaði ákærða og 35 þeirra hefðu verið rannsökuð. 11 sýni af gallabuxum reyndust úr ákærða sjálfum en ekki væri hægt  að aldursgreina hvenær blóðið kom í buxurnar. Send voru 13 sýni úr jakka og 10 sýni voru rannsökuð og kom í ljós að sum sýnin innihéldu DNA-snið ákærða og A. Áður var vikið að sýnum á hnífnum sem rannsökuð voru.

Sýnin sem tekin voru úr blóðslóð að [...] reyndust öll úr B.

Sýni á fatnaði B sem rannsökuð voru reyndust bæði vera úr honum sjálfum.

 

Meðal gagna málsins er bráðabirgðavottorð Landspítala vegna komu A á sjúkrahúsið 3. desember 2017. Í vottorðinu segir m.a. svo:

 

            „[.....]“

 

R sérfræðilæknir ritaði vottorðið sem hann staðfesti og skýrði fyrir dómi. Hann lýsti áverkunum og ástandinu á sama hátt og rakið var að ofan. Hann lýsti því sem gert var í framhaldinu en engin lífsmörk hefðu verið við komu A á sjúkrahúsið. Horfur hans hefðu ekki verið góðar.

Meðal gagna málsins er læknisvottorð fyrir B, dagsett 7. desember 2017. Í vottorðinu eru m.a. svofelldir kaflar:

 

„[...]“

 

Þá er svofelldur kafli:

 

„[...]“

 

Loks er svofelldur kafli:

 

„[...]“

 

Síðan segir í skýrslunni:

 

„[...]“

 

R sérfræðilæknir ritaði læknisvottorðið sem rakið var. Hann skýrði það og staðfesti fyrir dóminum og lýsti áverkum á sama hátt og í læknisvottorðinu. Hann kvað sig minna að greint hefði verið frá því að B hefði verið stunginn en því ekki verið lýst í hvaða stöðu eða því um líkt. Stungusár hafi verið nálægt mikilvægum líkamshlutum. Hann kvað hafa verið lýst mikilli blæðingu frá skurði á kálfanum en hann hefði ekki séð það. B hefði ekki verið í lífshættu.

 

Fyrir liggur skýrsla, dagsett 21. febrúar 2018, sem S, svæfinga- og gjörgæslulæknir, ritaði vegna komu og meðferðar A á landspítalanum aðfaranótt 3. desember 2017. Þar er lýst ásandi sjúklings og læknismeðferð sem hann hlaut. S  skýrði og staðfesti skýrsluna fyrir dómi. S sinnti A á gjörgæsludeild spítalans og sá hann fyrst 4. desember 2017. Hann lýsti læknismeðferð A á sjúkrahúsinu uns hann lést 8. desember en A hefði aldrei komið til meðvitundar.

           

            T, sérfræðingur í réttarlæknisfræði, krufði lík A. Í krufningarskýrslu, dagsettri 23. janúar 2018, segir m.a. svo:

 

„[...]“

 

Síðar í skýrslunni segir:

„[...]“

 

T kom fyrir dóminn og skýrði skýrslu sína og staðfesti. Hann skýrði frá því að ein stunga vinstra megin á brjóstkassa, milli þriðja og fjórða rifs, hefði náð inn í hjarta. Þetta hafi orsakað mikið blóðtap og bráða lífshættu sem leiðir til dauða samstundis, nema þegar gripið sé til viðeigandi læknismeðferðar. Hann lýsti öðrum hnífsstungum og áverkum sem getið er í krufningarskýrslunni að ofan og skýrði áverkana og annað það sem fram kemur í samantekt á niðurstöðu sem rakin var. Hann skýrði mögulega innbyrðis afstöðu árásarmanns og A er hann  hlaut einstaka stunguáverka og skýrði í því sambandi afl sem þarf til til að valda einstökum stunguáverkum.

T kvaðst ekki hafa verið beðinn um að rannsaka dýpt stungusársins vinstra megin, sem gekk inn í hjarta, með hliðsjón af hnífnum sem lagt var hald á í málinu. Hann kvað ekki hafa verið unnt að rannsaka lögun stungusársins er vitnið kom að málinu, þar sem A hafði þá gengist undir læknisaðgerð og sárið verið saumað. Hins vegar má finna dýpt stungusársins. Bornar voru undir T ljósmyndir af hnífnum sem um ræðir og hann spurður hvort mögulegt væri að stungusárið sem hér um ræðir væri af völdum hnífsins. Hann lýsti dýpt hnífsstungunnar og að mögulegt væri, með hliðsjón af því, að stungan væri af völdum þessa hnífs eða annars hnífs með sambærilega blaðlengd og skýrði hann þetta nánar. Hann skýrði ákefð eða afl sem beitt hefði verið við einstakar hnífsstungur. Þá skýrði hann og staðfesti niðurstöðu krufningarinnar.

U heimilislæknir vann réttarlæknisfræðilega skoðun á ákærða 3. desember 2017. Í skýrslu U segir [...].

U kom fyrir dóminn og skýrði og staðfesti skýrslu sína. Hún kvað ákærða hafa verið óvenjulegan og skýrði það. U var greint frá því að ákærði hefði fyrir dómi greint frá höfuðhöggi sem hann hefði hlotið og við það dottið út. Spurð um það hvort ákærði hefði ekki minnst á þetta við skoðunina eða hún greint kúlu eða eymsli á hnakka eða á höfði utanverðu kvað hún ekki minnast þessa og ekki hafa skrifað um það í skýrsluna.

 

V geðlæknir vann geðrannsókn á ákærða og er skýrsla hans um rannsóknina dagsett 18. janúar 2018. Í skýrslunni er svofelldur niðurstöðukafli:

 

„[...]“

 

V geðlæknir kom fyrir dóminn og skýrði og staðfesti matið. Ákærði hafi átt við að stríða ýmiss konar vandamál frá unga aldri, sem hann lýsti. V greindi frá sjúkdómseinkennum ákærða, persónulegum högum hans og fleiru. Hann greindi frá árás sem ákærði varð fyrir sumarið 2017. Ákærði geri lítið úr þeim atburði, en V kvað að m.v. frásögn móður ákærða hefði hann haft einkenni sem V kvað mega túlka sem áfallastreitueinkenni og skýrði hann þetta. V kvaðst ekki hafa fundið nein geðrofseinkenni hjá ákærða. Ákærði hefði lýst rödd sem hann heyri stundum, en hann kvað röddina ekki hafa plagað sig nóttina sem um ræðir. Ákærði hafi ekki sagst muna frá atburðum. V kvað álitamál hvort minnisleysið væri tengt áfengisnotkuninni eða hvort þetta tengdist hugrofi eða minnistruflunum, sem hann skýrði, auk þess sem ekki væri hægt að útiloka að ákærði gerði sér upp minnisleysi. Hann kvað hafa komið fram hjá ákærða að hann hefði um árabil verið upptekinn af hnífum og hann hafi notað þá til að skera sig til að bæta líðan sína. Slíka hegðun megi oft sjá hjá einstaklingum sem séu haldnir persónuleikaröskun eins og þeirri sem ákærði hafi greinst með. Niðurstaða sín væri sú að ákærði væri ekki haldinn sjúkdómum sem um ræðir í 15. gr. almennra hegningarlaga. Þá hafi ekkert læknisfræðilegt komið fram um að refsing gæti ekki borið árangur.

 

Að beiðni V geðlæknis vann X, sálfræðingur í klínískri sálfræði, sálfræðilegt mat á ákærða. Í lok skýrslu X, sem dagsett er 5. janúar 2018, er svofelldur kafli:

 

„[...]“

 

X sálfræðingur kom fyrir dóminn og skýrði skýrslu sína og staðfesti. Hann lýsti prófunum sem hann vann vegna þessa og niðurstöðum þeirra.

 

Geðlæknarnir Y og Z voru dómkvaddar til að vinna yfirmat á geðheilbrigði ákærða. Yfirmatsgerð þeirra er dagsett 25. maí 2018. Niðurstöðukaflinn er svofelldur:

 

[...]“

 

Vitnið Z geðlæknir kom fyrir dóminn og skýrði og staðfesti yfirmatið. Hún kvað ákærða hafa verið samvinnuþýðan við rannsóknina. Hún skýrði niðurstöðu yfirmatsins um að ákærði væri sakhæfur og engin merki væru um alvarlegan geðrænan sjúkdóm, hvorki fyrir atburðinn í ákæru, meðan á honum stóð, né eftir hann. Ákærði hafi hins vegar verið undir verulegum áhrifum áfengis á verknaðarstundu. Niðurstaða yfirmatsmanna um minnisleysi ákærða um atburðinn, sem í ákæru greinir, sé að það sé afleiðing af ölvunarástandi hans. Ákærði hefði sögu um að fá minnisleysi eða „black out“ frá því hann var yngri og tengist það áfengisdrykkju. Áfengismagn í blóði ákærða á verknaðarstundu hafi verið svo hátt, eða 2,2 ‰, að þá sé mjög líklegt að fólk fái óminni í kjölfarið og matsmenn telji það langlíklegustu skýringuna á minnisgloppunum. Ákærði muni að áliti matsmanna minna en meira og líklegra sé að hann geti í eyðurnar fremur en að hann geri sér upp minnisleysi. Z skýrði niðurstöðu yfirmatsmanna nánar um einstaka þætti. Hún kvað yfirmatsmenn telja að 16. gr. almennra hegningarlaga ætti ekki við, þótt ljóst væri að ákærði muni þurfa á aðstoð að halda vegna geðrænna vandamála.

 

Y geðlæknir staðfesti yfirmatsskýrsluna fyrir dómi og kvað niðurstöðu þeirra Z  vera sameiginlega og matið sameiginlegt mat þeirra beggja.

 

Að beiðni verjanda voru geðlæknarnir Y og Z dómkvaddar til að meta eftirfarandi til viðbótar fyrirliggjandi matsgerð V geðlæknis:

 

            „[...]“

 

Lokakafli matsgerðarinnar ber heitið: Svör við spurningum í viðbótarmatsbeiðni og er svofelldur:

 

„[...]“

 

Z geðlæknir kom fyrir dóminn og skýrði og staðfesti niðurstöðu matsmanna sem rakin er að ofan. Hún kvað matsmenn hafa fengið Þ sálfræðing til að vinna að matinu með hinum dómkvöddu matsmönnum og skýrði hún ástæðu þess. Niðurstaða matsins væri sú að ákærði hefði ekki verið haldinn áfallastreituröskun á verknaðarstundu. Spurð um niðurstöðu þriðju matsspurningarinnar, um það hvort ákærði hefði verið í ákafri geðshræringu vegna annars skammvinns ójafnvægis á geðsmunum á verknaðarstundu, kvað hún hafa verið farið vel í gegnum það og niðurstaðan verið sú að ákærði væri ekki með undirliggjandi geðröskun sem gæti gert það að verkum að hann gæti ekki ráðið gerðum sínum eða ekki gert sér grein fyrir þeim á verknaðarstundu. Matsmenn telji að hegðun hans á verknaðarstundu stafi fyrst og fremst af ölvunarástandi. Ölvunin sé það sem skýri hegðunina þótt aðrir þættir ýti undir, annars vegar deilur við unnustu hans, sem kom ákærða í tilfinningalegt uppnám, og líkamsárás sem ákærði varð fyrir í september 2017 hafi aukið á reiði ákærða í samskipum við brotaþola.

 

Y geðlæknir staðfesti matsskýrsluna fyrir dóminum og kvað niðurstöðu þeirra Z sameiginlega.

 

Þ, yfirsálfræðingur á Landspítala, rannsakaði mat á afleiðingum áfalls í tengslum við matsgerð Z og Y geðlækna. Skýrsla Þ er dagsett 21. maí 2018 og lokakaflinn er svofelldur:

 

„[...]“

 

Þ sálfræðingur kom fyrir dóminn og staðfesti og skýrði rannsókn sína. Hún kvað ákærða hafa verið samvinnuþýðan við rannsóknina. Hún kvað vinnu sína hafa miðað að því að vinna mat á áfallastreituröskun ákærða á verknaðarstundu í kjölfar atburðar sem hann varð fyrir í september 2017 og að skoða mat á hugrofseinkennum og hvort þau hefðu verið til staðar á sama tímabili. Hún kvað ákærða ekki hafa uppfyllt viðmið um áfallastreituröskun á verknaðarstundu og skýrði hún niðurstöðuna nánar. Hún kvað flókið mál að sortera út vægi annarra atburða sem kynnu að hafa haft áhrif á upplifun ákærða og viðbrögð á verknaðarstundu, m.t.t. ölvunarástands hans. Hún kvað áfengismagn í blóði ákærða á verknaðarstundu hafa verið það mikið að það myndi vega þungt er metin væru hlutfallsleg áhrif þess gagnvart öðrum tilvikum sem kynnu að hafa haft áhrif.

 

Niðurstaða

Ákærði neitar sök. Eins og rakið hefur verið man ákærði ekki atburði á Austurvelli á þeim tíma sem í ákæru greinir nema að mjög takmörkuðu leyti. Hann virðist hins vegar hafa munað betur frá þessum tíma strax á eftir, svo sem ráða má að einhverju leyti af fyrstu skýrslum hans hjá lögreglu og einnig af að því er virðist nákvæmri frásögn hans er hann greindi E frá atburðum síðar sömu nótt. Engu verður með vissu slegið föstu um minnisleysi ákærða og ástæðu þess þótt langlíklegast sé að mati dómsins að það sé vegna ölvunar hans og vísast um þetta til niðurstöðu yfirmatsmanna en áfengismagn í blóði ákærða á verknaðarstundu var 2,2 prómill. Þá töldu yfirmatsmenn líklegra að ákærði myndi minna en meira og líklegt væri að hann gæti í eyðurnar. Samkvæmt þessu og með vísan til alls ofanritaðs verður aðeins að takmörkuðu leyti unnt að styðjast við framburð ákærða um það sem gerðist á Austurvelli þessa nótt og verður því að ráða það af vitnisburði og öðrum gögnum málsins.

Ákærða er gefið að sök að hafa veist að A og B með hnífi. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa verið með hníf á þessum tíma. Vitnið G sá ákærða handleika hníf áður en ákærði veittist að A og B og vitnin J og K lýstu því er maður, sem af samhenginu að ráða var ákærði, kom á móti þeim og á eftir A með hníf í hendi. Öll báru þessi vitni um háttalag ákærða á þessum tíma og hið sama gerðu vitnin F, H og I og vísast um það til þess sem rakið var að ofan. Mörg vitnanna þekktu til ákærða og vissu á honum deili. Vísað er til DNA-rannsóknar blóðsýna á hníf og fatnaði sem rakin var að ofan en blóð úr A fannst á hnífnum sem ákærði kvaðst eiga og lagt var hald á við handtöku hans. Þá fannst blóð úr A í fatnaði ákærða. Auk þessa er vísað til vitnisburðar T sem bar fyrir dóminum að stungusár á A kunni að hafa verið eftir hníf eins og þann sem hér um ræðir. Skýringar ákærða á því hvernig blóð kunni að hafa borist á hnífinn og í fötin eru fráleitar og verður ekki á þeim byggt.

Að öllu framanrituðu virtu er sannað gegn neitun ákærða að hann hafði hnífinn sem um ræðir í fórum sínum framangreinda nótt á Austurvelli.

Vitnið og brotaþolinn B lýsti tilefnislausri árás ákærða á þá A um nóttina. Vitnisburður hans er trúverðugur og verður hann lagður til grundvallar niðurstöðunni en vitnisburður B fær stoð í vitnisburði F og G og er með stoð í vitnisburði H og I þótt hinir tveir síðarnefndu beri hvor með sínum hætti um upphafið. Er með þessum vitnisburði og öðru því sem rakið hefur verið og með öðrum gögnum málsins, m.a. DNA-rannsóknum og með upptökum úr eftirlitsmyndavélum sem styðja að mestu leyti frásögn vitna, og með stoð af vitnisburði J og K sannað, gegn neitun ákærða, að hann veittist að þeim A og B vopnaður hnífi eins og lýst er í ákærunni.

Með læknisfræðilegum gögnum og vitnisburði sem rakinn var um áverka A og B og um andlát A er sannað, gegn neitun ákærða, að afleiðingar árásar hans á mennina urðu þær sem lýst er í ákærunni.

Brot ákærða gagnvart A varðar við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og lýst er í ákærunni enda mátti ákærða vera ljóst að bani væri líklegasta afleiðing ofsafenginnar hnífaárásar hans á A.

Ákærði stakk B í bakið, í vinstri öxl, á vinstri upphandlegg og í vinstra kálfa. Ákærði virðist hafa verið hamslaus er hann veittist að mönnunum og algjör tilviljun hefur ráðið því hvar hnífstungurnar komu á þá A og B. Þessu til stuðnings er vísað til þess sem vitni báru um hamsleysi ákærða og vitnið E kvað ákærða hafa lýst því að hann hefði ,,snappað“ er hann stakk mennina með hnífnum. Þótt ákærði hafi ekki fyrir fram haft ásetning til að fremja manndráp ber hann refsiábyrgð á grundvelli líkindaásetnings eins og rakið var er varðar A. Það er mat dómsins er tekið er mið af stórhættulegri og ofsafenginni atlögu ákærða að B og fjölda stungusára sem ákærði veitti honum að ákærði hafi átt að gera sér grein fyrir því bani að væri líkleg afleiðing þessa en hending réði því að svo varð ekki. Að þessu virtu og öðru því sem rakið hefur verið er það mat dómsins að heimfæra beri brot ákærða gagnavart B sem tilraun til manndráps sem varði við þau lagaákvæði sem í ákæru greinir.

Vísað er til þess sem rakið var að framan um læknisfræðilegar rannsóknir á ákærða með tilliti til sakhæfis hans. Að því sem þar kemur fram virtu og öðrum gögnum málsins er það mat dómsins að ákærði sé sakhæfur.

Að öllu framanrituðu virtu er það mat dómsins að skýringa á háttsemi ákærða greint sinn sé helst að leita í ölvun hans. Hvorki ölvunin né annað ójafnvægi sem ákærði kann að hafa verið haldinn á verknaðarstundu leysir hann undan refsiábyrgð.

Refsing ákærða er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga. Árás ákærða á A og B með hinum gríðarlega alvarlegu afleiðingum var tilefnislaus og hrottafengin og á ákærði sér engar málsbætur. Ákærði er dæmdur fyrir manndráp og tilraun til manndráps. Að þessu virtu þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 17 ár en til frádráttar refsingunni komi samfellt gæsluvarðhald ákærða frá 3. desember 2017 að telja til dagsins í dag.

Með vísan til 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga er dæmdur upptækur hnífur af gerðinni Muela.

Ákærði er bótaskyldur gagnvart öllum bótakrefjendum.

C, móðir A, á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja miskabætur hennar hæfilega ákvarðaðar 3.500.000 króna. Þá greiði ákærði C 867.237 krónur vegna útlagðs kostnaðar. Ákærði er þannig dæmdur til að greiða C 4.367.237 krónur auk vaxta svo sem í dómsorði greinir en vaxtakröfu var ekki andmælt.

D, faðir A, á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja miskabætur hans hæfilega ákvarðaðar 3.500.000 króna auk vaxta svo sem í dómsorði greinir en vaxtakröfu var ekki andmælt.

Ákærði greiði 843.200 króna réttargæsluþóknun Láru V. Júlíusdóttur lögmanns, skipaðs réttargæslumanns C og D.

B á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja miskabætur hans hæfilega ákvarðaðar 1.500.000 krónur  auk vaxta svo sem í dómsorði greinir en vaxtakröfunni var ekki andmælt.

Ákærði greiði 948.600 króna réttargæsluþóknun Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, skipaðs réttargsælumanns B.

Ákærði greiði 5.851.943 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins.

Ákærði greiði 6.908.970 króna málsvarnarlaun Unnsteins Arnar Elvarssonar lögmanns og 148.500 krónur vegna ferðakostnaðar. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna.

Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

            Dómsorð:

Ákærði, Dagur Hoe Sigurjónsson, sæti fangelsi í 17 ár. Frá refsivistinni skal draga óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 3. desember 2017 til dagsins í dag að telja.

Upptækur er dæmdur hnífur af gerðinni Muela.

Ákærði greiði C 4.367.237 krónur í miska- og skaðabætur og D 3.500.000 krónur í miskabætur og báðum með dráttarvöxtum samkvæmt IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 28. febrúar 2018 til greiðsludags. Dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta, sbr. 12. gr. fyrrgreindra laga.

Ákærði greiði 843.200 króna réttargæsluþóknun Láru V. Júlíusdóttur lögmanns, skipaðs réttargæslumanns C og D.

Ákærði greiði B 1.500.000 krónur í miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 3. desember 2017 til 18. mars 2018 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

Ákærði greiði 948.600 króna réttargæsluþóknun Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, skipaðs réttargæslumanns B.

Ákærði greiði 5.851.943 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins.

Ákærði greiði 6.908.970 króna málsvarnarlaun Unnsteins Arnar Elvarssonar lögmanns og 148.500 krónur vegna ferðakostnaðar.

             

Guðjón St. Marteinsson