• Lykilorð:
  • Meiðyrði
  • Miskabætur
  • Ómerking ummæla
  • Tjáningarfrelsi
  • Meiðyrðamál

 

D Ó M U R

Mál þetta var höfðað með stefnu 27. júní 2018 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 6. febrúar sl. Stefnendur eru A [...] og B [...]. Stefndi er X [...].

            Stefnendur krefjast þess að eftirfarandi ummæli, sem birt voru á netmiðlinum Hringbraut, 5. og 9. nóvember 2015, verði dæmd dauð og ómerk: Í frétt, 5. nóvember 2015, kl. 12:30: 1. Grunur um viðurstyggilegan brotavilja; 2. ... leikur grunur á viðurstyggilegum brotavilja í þessum nauðgunarmálum; Í frétt, 9. nóvember 2015, kl. 08:02: 3. Grunur leikur á hrottalegum og viðurstyggilegum kynferðisglæpum í Hlíðunum; 4. Hrottalegar nauðganir voru þaulskipulagðar í íbúð í Hlíðahverfinu þar sem tæki til ofbeldisnotkunar hafa fundist; Í frétt, 9. nóvember 2015, kl. 11:25: 5. Komið í veg fyrir þriðju nauðgunina; 6. Sú saga gengur meðal nemenda Háskólans í Reykjavík að mennirnir sem grunaðir eru um að hafa nauðgað tveimur konum hafi haft fleiri fólskuverk í hyggju. Naumlega hafi verið komið í veg fyrir þriðju nauðgunina; 7. Þriðja unga konan hafi sloppið naumlega þegar hennar kærasti hafi náð að sækja hana; 8. ... svo virðist sem íbúð í Hlíðunum ... hafi verið útbún (sic) sérstaklega fyrir hrottalegar nauðganir með ýmsum tækjum til ofbeldis. Stefnendur krefjast þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða hvorum þeirra um sig miskabætur að fjárhæð 3.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. ml. 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. nóvember 2015 til 27. maí 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þeir krefjast þess einnig að forsendur og niðurstaða dóms í málinu verði birt á vefsvæði netmiðilsins Hringbrautar, www.hringbraut.is, eigi síðar en sjö dögum eftir dómsuppsögu, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 50.000 krónur fyrir hvern dag sem líður umfram áðurgreindan frest, án þess að birting fari fram. Þá krefjast þeir einnig málskostnaðar hvor fyrir sig.

            Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.

 

Yfirlit málsatvika

            Helstu atvik málsins eru þau að í hádeginu 5. nóvember 2015 birtist frétt á netmiðlinum Hringbraut, www.hringbraut.is, undir fyrirsögninni „Grunur um viðurstyggilegan brotavilja“ þar sem meðal annars sagði eftirfarandi:

 

„„Samkvæmt því sem við heyrum leikur grunur á viðurstyggilegum brotavilja í þessum nauðgunarmálum,“ segir heimild úr nemendahópi HR í samtali við Hringbraut. [/] Tveir menn eru grunaðir um aðild að tveimur nauðgunum og eru þolendur í báðum tilvikum nemendur HR. Starfsmaður hótelsins Reykjavík Marína hefur eftir því sem fram kom í hádegisfréttum Bylgjunnar verið sendur í leyfi. Grunur  lögreglu beinist að því að hann hafi ásamt nema við Háskólann í Reykjavík framið nauðgun á konu. Þá sé neminn grunaður um aðra hrottafengna nauðgun nokkru fyrr. [/] Fréttablaðið segir að báðar nauðganirnar hafi orðið í október með níu daga millibili. Í öðru tilvikinu komu nemar HR saman á Hótel Marina, þar sem annar meintra gerenda starfaði. [/] Lögregla gefur engar upplýsingar að svo stöddu aðrar en að málin séu í rannsókn.“

 

Hinn 9. sama mánaðar birtust tvær fréttir til viðbótar á netmiðlinum, önnur kl. 08:02 og hin kl. 11:25. Í þeirri fyrri sagði meðal annars eftirfarandi:

 

„Hrottalegar nauðganir voru þaulskipulagðar í íbúð í Hlíðahverfinu þar sem tæki til ofbeldisnotkunar hafa fundist. [/] Þetta kemur fram á forsíðu Fréttablaðsins í dag en blaðið vitnar í heimildir innan lögreglu. [/] Blaðið hefur áður greint frá tveimur nauðgunum sem grunur leikur á að hafi verið framdar í október þar sem tveir menn eru grunaðir, annar starfsmaður á hóteli í Reykjavík, hinn nemandi við frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík. Bæði fórnarlömbin voru nemar við skólann. Ekki virðist búið að víkja nemanum sem grunaður er um ofbeldið úr skólanum en hótelstarfsmaðurinn hefur verið sendur í leyfi. [/] Fram kemur í Fréttablaðinu að mönnunum tveimur hafi verið sleppt að lokinni frumrannsókn og ekki farið fram á gæsluvarðhald.“

 

Í seinni fréttinni sagði meðal annars eftirfarandi:

 

Sú saga gengur meðal nemenda Háskólans í Reykjavík að mennirnir sem grunaðir eru um að hafa nauðgað tveimur konum hafi haft fleiri fólskuverk í hyggju. Naumlega hafi verið komið í veg fyrir þriðju nauðgunina. Í báðum tilvikum séu fórnarlömbin nemar við HR. [/] Samkvæmt upplýsingum Hringbrautar úr nemendahópi Háskólans í Reykjavík eru bæði nauðgunarfórnarlömbin í sama bekk. Annar meintra nauðgara er einnig í bekknum en vinur hans hefur starfað á Reykjavík Marína hótelinu. Nemendur gagnrýna bæði lögreglu og skólann fyrir að taka ekki af meiri alvöru á málinu en raun beri vitni. [/] Haldið er fram að sambýlismaður ungrar konu sem talið er að hafi verið fórmarlömb númer tvö hafi ætlað að sækja hana niður í bæ en ekki verið hleypt inn á skemmtistaðinn þar sem annar meintu nauðgaranna tengist staðnum. Þriðja unga konan hafi sloppið naumlega þegar hennar kærasti hafi náð að sækja hana. [/] „Það er allt brjálað út af þessu.“ [/] Fréttablaðið hefur greint frá að svo virðist sem íbúð í Hlíðunum, undir forræði annars mannsins, hafi verið útbún (sic) sérstaklega fyrir hrottalegar nauðganir með ýmsum tækjum til ofbeldis. Þá leikur grunur á að nauðgunarlyf hafi verið notuð við verknaðinn.“

 

Af hálfu stefnda er á það bent að umfjöllun fjölmiðla hafi hafist 4. nóvember 2015, eða degi áður en fyrsta frétt Hringbrautar um málið var birt, með umfjöllun miðla á vegum 365 miðla ehf. Sú umfjöllun virðist hafa verið byggð á yfirlýsingu sem Háskólinn í Reykjavík sendi frá sér þess efnis að alvarlegt atvik hefði komið upp á bekkjarskemmtun innan skólans, innan frumgreinadeildar. Umfjöllun í fjölda fjölmiðla hafi svo haldið áfram næstu daga og hafi þá verið vísað til þess að lögregla hefði staðfest að hún hefði til rannsóknar ætluð kynferðisbrot sem framin hefðu verið á bekkjarskemmtun Háskólans í Reykjavík mánuðinn þar á undan. Óumdeilt sé að annar stefnenda hafi verið nemandi við frumgreinadeild skólans og annar grunaðra í rannsókninni. Nánar er vikið að umfjöllun annarra fjölmiðla um mál stefnanda í reifun málsástæðna og lagaraka aðila, svo og í forsendum dómsins eftir því sem þýðingu þykir hafa fyrir úrlausn málsins.

            Við aðalmeðferð málsins gáfu stefnendur aðilaskýrslu. Þá kom fyrir dóminn sem vitni [...] fyrrverandi starfsmaður Hringbrautar.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnenda

            Stefnendur byggja kröfur sínar á því að með hinum umstefndu ummælum á netmiðlinum Hringbraut hafi stefnendum verið gefin að sök refsiverð háttsemi sem varði við XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 194. gr. laganna. Stefndi hafi ekki sparað lýsingarorð í umfjöllun sinni og brotum stefnenda verið lýst sem hrottalegum og þaulskipulögðum árásum þar sem konum voru byrluð eiturlyf og ólyfjan áður en þeim var nauðgað í íbúð sem var búin tækjum til ofbeldisverka og útbúin til nauðgana. Stefnendur byggja á því að í öllum hinum umstefndu ummælum í töluliðum 1 til 12 í dómkröfukafla í stefnu felist ásakanir um að stefnendur hafi gerst sekir um hrottaleg hegningarlagabrot sem hafi enga stoð átt sér í raunveruleikanum, eins og stefndi hefði komist að hefði hann vandað til verka. Öll ummælin hafi verið til þess fallin að meiða æru stefnenda.

            Í fyrsta lagi séu stefnendur ásakaðir um viðurstyggilegan brotavilja og að þeir hafi þaulskipulagt brotin. Stefnendur hafi ekki brotið gegn neinum og geti því ekki hafa haft viðurstyggilegan brotavilja né þaulskipulagt nein brot. Ummælin feli ekki aðeins í sér staðhæfingu um að stefnendur hafi framið refsiverð brot, heldur einnig að þeir hafi haft mikinn ásetning til þeirra og lagt á ráðin um hvernig best væri að fremja þau. Ummælin séu því sérlega gróf árás á persónur stefnenda. Í öðru lagi séu stefnendur ásakaðir um hrottafengnar nauðganir og viðurstyggilega kynferðisglæpi. Stefnendur hafi verið kærðir fyrir kynferðisbrot, lögreglan rannsakað málin og héraðssaksóknari fellt þau niður, enda hafi ásakanir meintra brotaþola reynst vera tilhæfulausar. Staðhæfing stefnda þess efnis að hin meintu kynferðisbrot hafi verið hrottaleg og viðurstyggileg eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Í fjórða lagi eru stefnendur ásakaðir um að hafa framið hin meintu kynferðisbrot í íbúð, sérstaklega útbúinni fyrir hrottalegar nauðganir með ýmsum tækjum til ofbeldisnotkunar. Íbúð stefnandans B hafi ekki verið búin tækjum til ofbeldisverka og lögregla hafi engin tól og tæki fundið heima hjá stefnandanum B sem hafi verið notuð við nauðganir. Enn á ný ásaki stefndi stefnendur um refsiverða háttsemi sem enginn fótur er fyrir. Ummælin hafi verið skáldskapur stefnda. Í fimmta lagi hafi stefnendur verið ásakaðir um að hafa haft fleiri fólskuverk í hyggju, en naumlega hafi verið komið í veg fyrir þriðju nauðgunina. Stefnendur hafi verið sakaðir um að hafa skipulagt gróf brot gegn mörgum konum og hafa meðal annars fengið fleiri til liðs við sig til að koma í veg fyrir að sambýlismaður annarrar konunnar sem þeir voru sagðir hafa nauðgað yrði hleypt inn á skemmtistað til að sækja hana. Með því hafi þeim tekist ætlunarverk sitt gagnvart henni. Þá eru þeir einnig sagðir hafa haft fleiri fólskuverk í hyggju, og að naumlega hafi verið komið í veg fyrir þriðju nauðgunina með því að kærasti þeirrar náði að sækja hana áður en þeim hafi tekist að brjóta gegn henni. Í þessum ummælum felist alvarlegar ásakanir um refsiverða verknaði. Þau séu hins vegar alrangur uppspuni stefnda.

            Stefnendur vísa til þess að það séu grundvallarmannréttindi í réttarríki að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli vera talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð að lögum. Það séu handhafar opinbers valds sem til þess séu bærir að annast rannsókn og saksókn í sakamálum og dómstólar leysi úr sekt eða sakleysi þeirra sem sæti ákæru. Stefndi hafi svipt stefnendur þessum grundvallarmannréttindum og úthrópað þá sem nauðgara og ofbeldismenn án þess að stefnendur hefðu verið ákærðir fyrir slíka háttsemi, hvað þá heldur dæmdir.

            Stefnendur telja öll ummæli sem rakin eru í kröfugerð þeirra fela í sér brot gegn 235. gr. og 1. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því beri að ómerkja ummælin með vísan til 1. mgr. 241. gr. sömu laga. Hin umstefndu ummæli séu ósönn, óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta stefnendur. Hagsmunir stefnenda af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu því miklir.

            Miskabótakrafa stefnenda er reist á 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og vísað til þess að virðing stefnenda hafi beðið hnekki og brotið hafi verið gegn rétti þeirra til æruverndar og friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrár, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Slagkraftur umfjöllunarinnar í samfélaginu um stefnendur hafi verið slíkur að stefnendur hafi óttast um líf sitt vegna múgæsingsins sem umfjöllun fjölmiðla skapaði og hrökklast úr landi, þar sem þeir dvöldu meira og minna næstu níu mánuði. Stefnandinn B hafi misst vinnuna í kjölfar umfjöllunar stefndu og stefnandinn A hafi þurft að hætta námi við Háskólann í Reykjavík. Hvorugur hafi átt afturkvæmt í fyrra starf eða nám. Báðir stefnendur hafi glímt við langvarandi kvíða og þunglyndi vegna umfjöllunarinnar. Hún hafi leitt til þess að nöfnum og myndum af stefnendum var dreift mörg þúsund sinnum á samfélagsmiðlunum þar sem stefnendur voru úthrópaðir sem nauðgarar og þeim hótað líkamsmeiðingum og lífláti.

            Stefnendur vísa til þess að engu skipti þótt stefndi hafi talið að fjölmiðlar sem hann byggði umfjöllun sína á hefðu við gerð frétta sinna gætt grundvallarreglna sem fjölmiðlum beri að virða, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 38/2011 – stefndi hafi sjálfur átt að gæta að þessum reglum. Á stefnda hafi hvílt sérstök skylda til að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi, meðal annars friðhelgi einkalífs, og uppfylla kröfur um hlutlægni og nákvæmni í fréttum og fréttatengdu efni og gæta þess að mismunandi sjónarmið kæmu fram.

            Umfjöllun stefnda byggi, að hans sögn, einnig á viðtölum við nemendur Háskólans í Reykjavík, sem hafi lýst eigin vitneskju um málið. Ekki sé hægt að telja það góða blaðamannshætti að byggja umfjöllun sína alfarið á slíkum sögusögnum. Í þessu samhengi benda stefnendur einnig á 3. gr. siðareglna blaðamanna. Umfjöllun stefnda hafi verið algjörlega einhliða og byggst á vafasömum heimildum. Hún hafi ekki verið hlutlaus endursögn á því sem fram hafi komið í fréttum annarra fréttamiðla, heldur hafi stefndi gert hana að sinni eigin með því að skreyta hana með lýsingarorðum. Slíkar viðbótarlýsingar virðist aðeins hafa verið til þess að fá sem flesta smelli á fréttirnar, og hala þannig inn sem mestum tekjum. Af því leiði að stefndi geti ekki verið talinn hafa verið í góðri trú.

            Krafa stefnenda um birtingu er reist á 59. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla og um aðild stefnda að málinu er vísað til c-liðar 1. mgr. 51. gr. sömu laga. Kröfur um vexti eru byggðar á 1. ml. 4. gr. laganna, sbr. 8. gr. sömu laga, en krafa um dráttarvexti á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. sömu laga. Í því tilviki sem hér um ræði sé miðað við dagsetningu kröfubréfa í málinu 27. apríl 2016 og krafist dráttarvaxta frá 27. maí 2016 til greiðsludags.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnda

            Stefndi reisir sýknukröfu sína á grundvallarreglunni um tjáningarfrelsi sem varið er af 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sem og 19. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá árinu 1966, sbr. lög nr. 10/1979. Hann vísar til þess að hann hafi verulegt svigrúm til tjáningar, þar á meðal til almennrar umfjöllunar um menn og málefni. Réttur þessi sé, samkvæmt dómafordæmum mannréttindadómstóls Evrópu, sérlega ríkur og mikilvægur í lýðræðissamfélagi, þegar um sé að ræða málefni sem telja megi að eigi erindi við almenning og geti talist innlegg í samfélagsumræðuna. Af fyrrgreindum ákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmálans leiði að takmarkanir á tjáningarfrelsinu, svo sem þær sem stefnendur geri kröfu um, geti einungis komið til ef nauðsyn krefur í lýðræðislegu samfélagi, en í því felist krafa um „knýjandi þjóðfélagslega nauðsyn“. Stefndi telur ekki að umfjöllun miðilsins Hringbrautar, sem ekki er deilt um að hann beri ábyrgð á samkvæmt fjölmiðlalögum, hafi farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis, svo að nauðsynlegt og réttlætanlegt sé að skerða tjáningarfrelsi fjölmiðilsins og tjáningarfrelsi almennt, með þeim hætti sem felist í kröfum stefnanda, að virtum öllum málavöxtum.

            Stefndi bendir á að ábyrgð hans í málinu sé reist á ritstjórnarlegri ábyrgð, samkvæmt c-lið 1. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2001. Sé því um að ræða ábyrgð án sakar. Stefndi hafi ekki skrifað umræddar fréttir eða lagt nokkuð til þeirra efnislega, þó ekki sé deilt um að hann beri ábyrgð á skrifunum sem ritstjóri vefmiðilsins Hringbrautar. Samkvæmt 18. gr. almennra hegningarlaga verði refsing ekki lögð við verknaði nema hann sé unninn af ásetningi. Sérstaka lagaheimild þurfi til þess að refsa fyrir gáleysisbrot. Engin heimild sé í 235. eða 236. gr. hegningarlaga til að refsa fyrir brot af gáleysi. Þar sem enginn ásetningur stefnda liggi fyrir beri að sýkna hann af kröfum stefnenda.

            Stefndi byggir einnig á því að fjölmiðillinn Hringbraut og þeir blaðamenn sem unnu fréttina hafi einfaldlega verið að sinna störfum sínum sem starfsmenn fjölmiðils, en óumdeilt hlutverk fjölmiðla sé að taka við upplýsingum sem eiga erindi við almenning og skila þeim áfram til samfélagsins. Ekki sé heldur deilt um að upplýsingarnar sem um ræðir hafi verið þess eðlis að þær hafi átt erindi við almenning. Því sé ekki um ólögmæta háttsemi stefnda að ræða, eða annarra sem áttu hlut að máli.

            Stefndi vísar til þess að umfjöllun Hringbrautar hafi verið birt í góðri trú um réttmæti þeirra upplýsinga, enda hafi hún byggst á trúverðugum heimildum. Í fyrsta lagi hafði lögregla staðfest að til rannsóknar væru kynferðisbrot í málinu og hafi hún meðal annars beitt rannsóknaraðgerðum gegn stefnendum, svo sem húsleit og haldlagningu. Í öðru lagi hafi birst yfirlýsing frá Háskólanum í Reykjavík um að alvarleg atvik hefðu komið upp á nemendaskemmtun í miðbæ Reykjavíkur og nemendur skólans fengið viðeigandi aðstoð vegna þess. Í þriðja lagi hafi nokkrir fjölmiðlar þegar verið búnir að fjalla mjög ítarlega um málið er vefmiðillinn Hringbraut gerði það. Umfjöllun Hringbrautar hafi jafnframt byggst á heimildarmönnum sem rætt var við innan skólans. Því verði að telja að vefmiðillinn hafi gætt allrar varkárni og réttra vinnubragða við vinnslu umfjallananna sem um ræði og mátt vera í góðri trú um réttmæti þeirra, auk þess sem miðillinn hafi gætt fjarlægðar milli sín og umfjöllunar í öðrum miðlum.

            Stefndi hafnar því að með hinum umstefndu ummælum hafi verið dróttað að æru stefnenda með ólögmætum hætti og að umfjöllunin hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn æru þeirra. Ummælin hafi verið sönn á þeim tíma sem þau féllu, í þeim skilningi að með þeim hafi ekki annað verið fullyrt en það sem haft hafi verið eftir öðrum og gerðir á því ýmsir fyrirvarar. Yrðu kröfur stefnenda teknar til greina fælist í því að dómstólar væru í raun að leggja bann við flutningi frétta af sakamálum sem til rannsóknar eru hjá lögreglu, sérstaklega af kærumálum sem varða kynferðisbrot, en upplýsingar um slík brot séu jafnan hluti þjóðfélagsumræðunnar. Fjölmiðlum sé bæði rétt og skylt að greina frá slíkum brotum. Fréttaflutningur Hringbrautar hafi að engu leyti verið óhefðbundinn og þess hafi verið gætt að ganga ekki lengra en nauðsynlegt var. Stefnendur hafi aldrei verið nafngreindir og geti stefndi ekki borið ábyrgð á því að nöfn stefnenda hafi komið fram í umfjöllun á samfélagsmiðlum. Það breyti engu um þessi atriði þó að endingu hafi ekki verið skilyrði til útgáfu ákæru í máli stefnenda – ummælin hafi verið sönn á þeim tíma sem þau voru birt. Stefndi vísar til þeirrar meginreglu að sannindi ummæla séu ábyrgðarleysisástæða.

            Að því er varðar þau ummæli sem tilgreind eru í fyrstu tveimur liðum í kröfugerð stefnenda vísar stefndi til þess að með þeim hafi verið sagt frá því að fram hefði komið í fjölmiðlum að grunur léki á afbrotum sem á alla mælikvarða gátu talist viðurstyggileg og hrottaleg. Þá hafi verið höfð eftir ummæli nemenda við Háskólann í Reykjavík og fréttin lýst því sem nemendur höfðu heyrt. Ummælin hafi því verið sönn þegar þau hafi verið lesin í samhengi við fréttina alla. Þá vísar stefndi til þess að orðið „viðurstyggilegur“ sé gildishlaðið orð og leiði ekki eitt og sér til þess að ummæli verði ærumeiðandi aðdróttun. Orðið „brotavilji“ lýsi huglægri afstöðu og þegar um grun um nauðgun sé að ræða hljóti lögum samkvæmt að vera fyrir hendi ásetningur eða brotavilji. Því hafi ekki verið um ærumeiðandi aðdróttun að ræða, heldur sönn ummæli.

            Að því er varðar ummæli í þriðja lið í kröfugerð stefnenda vísar stefndi til sambærilega sjónarmiða og um fyrstu tvo kröfuliði stefnenda. Hann leggur áherslu á að í fréttinni hafi verið greint frá því sem birst hafði á forsíðu Fréttablaðsins, víðlesnasta dagblaði landsins, þennan sama morgun. Sé litið fram hjá gildishlöðnum orðum í ummælunum segi þau ekkert annað en að grunur leiki á kynferðisglæpum í Hlíðunum, en þau ummæli hafi verið sönn og réttmæt enda hafi komið fram í frétt Fréttablaðsins að lögregla væri að rannsaka mál þar sem grunur væri um að kynferðisbrot hefði verið framið í íbúð í Hlíðunum. Að því er varðar ummæli sem greinir í fjórða lið kröfugerðar stefnenda vísar stefndi til sambærilegra sjónarmiða og áður greinir og leggur áherslu á að þau hafi efnislega verið í samræmi við forsíðufrétt Fréttablaðsins sama dag.

            Að því er varðar ummæli sem greinir í fimmta lið kröfugerðar stefnenda byggir stefndi á því að í stefnu sé rangt farið með ummælin. Þetta hafi verið fyrirsögn fréttarinnar, en hún hafi hins vegar birst með spurningarmerki. Í fréttinni hafi verið greint frá sögusögnum sem gengu meðal nemenda við Háskólann í Reykjavík, þar sem annar stefnenda var nemandi, um að þriðja konan hefði komið við sögu í málinu. Þetta hafi þó ekki verið sett fram með sterkari hætti en svo að fyrirsögnin hafi verið í spurningarformi. Því hafi ekki verið um að ræða fullyrðingu um staðreynd heldur sönn ummæli, enda liggi fyrir að framangreindur orðrómur hafi verið á kreiki meðal nemenda háskólans. Fjölmiðillinn Hringbraut hafi enga afstöðu tekið til málsins, heldur miðlað upplýsingunum áfram með þessum hætti, sem heimilt hafi verið að gera, sem innleggi í samfélagsumræðuna. Þá verði að skoða ummælin í því ljósi að þau hafi verið sett fram og birst sem gagnrýni á forsvarsmenn háskólans og lögreglu þess efnis að þar á bæ hefðu menn ekki tekið málið nægilega alvarlega, meðal annars þar sem grunur léki á fleiri sambærilegum brotum. Nemendum hafi verið rétt að setja fram þá gagnrýni og fjölmiðlinum rétt að birta hana. Fara beri varlega í að hefta umræðu sem felur í sér gagnrýni á valdhafa og stjórnendur stofnana. Stefndi vísar til sömu sjónarmiða varðandi þau ummæli sem greinir í sjötta og sjöunda lið kröfugerðar stefnenda.

            Að því er varðar ummæli sem tilgreind eru í áttunda lið kröfugerðar stefnenda leggur stefndi áherslu á að í upphafi setningarinnar segi: „Fréttablaðið hefur greint frá að …“. Ummælin séu þannig tekin úr samhengi og fyrirvarinn sem settur hafi verið við ummælin felldur út. Með því sé reynt að láta líta út eins og um hafi verið að ræða fullyrðingu af hálfu Hringbrautar, en svo hafi alls ekki verið. Engum hafi getað dulist að verið væri að vísa í það sem fram kom í umfjöllun Fréttablaðsins. Eðlilegt hafi verið að greina frá því, enda fréttnæmt.

            Samkvæmt framansögðu beri að hafna öllum kröfum stefnenda um ómerkingu. Mikilvægt sé að hafa í huga að slík niðurstaða feli ekki í sér efnislega afstöðu til ummælanna, þ.e.a.s. hvort þau teljist þar með sönn, heldur til umfjöllunar fjölmiðils. Það geti ekki haft úrslitaáhrif að síðar hafi komið í ljós að heimildir Fréttablaðsins, sem aðrir fjölmiðlar reiddu sig á, voru ónákvæmar.

            Stefndi krefst þess því að miskabótakröfu stefnenda verði hafnað, án tillits til niðurstöðu málsins að öðru leyti. Stefndi hafnar því að hafa framið ólögmæta meingerð gegn stefnendum með umfjöllun Hringbrautar. Stefnendur hafi heldur ekki sýnt fram á né leitt að því minnstu líkur að umrædd umfjöllun hafi eða geti hafa skaðað hagsmuni þeirra á einhvern hátt. Allra síst sé sannað að umfjallanir á vefmiðli Hringbrautar hafi valdið þeim miska, umfram t.d. umfjöllun 365 miðla ehf. og annarra miðla. Fyrir þessu sé engan rökstuðning að finna í stefnu málsins. Þá er bent á að samkvæmt skaðabótalögum sé einfalt gáleysi ekki nægilegt til að fallast á greiðslu miskabóta á grundvelli ákvæðisins. Til þess þurfi stórfellt gáleysi. Ekkert slíkt sé sannað í málinu, hvorki ásetningur né stórfellt gáleysi. Raunar hafi verið gætt ýtrustu varfærni í umfjöllun Hringbrautar og þess verið vandlega gætt að vitna til heimilda. Vakin er sérstök athygli á því að mennirnir voru ekki nafngreindir í umfjöllun Hringbrautar og hvorki stefndi né fjölmiðillinn Hringbraut geti borið ábyrgð á því að nöfn stefnenda hafi verið til umfjöllunar á samfélagsmiðlum, allra síst skaðabótaábyrgð. Stefndi mótmælir einnig kröfu stefnenda um birtingu dóms og dómsorðs í málinu.

            Til vara krefst stefndi þess, ef einhver ummæli verða ómerkt og talið verður að efni séu til að fallast á kröfu um miskabætur, að miskabótakrafa stefnenda verði lækkuð verulega. Umfjöllun Hringbrautar hafi hvorki verið ósanngjörn né villandi, heldur endursögn annarra miðla. Óumdeilt sé að málið hafi átt fullt erindi við almenning, sem best sjáist á viðbrögðum og umfjöllun almennings um það. Mjög óeðlilegt hefði verið ef allir fjölmiðlar hefðu ekki greint frá málinu og því sem fram var komið. Verulega ósanngjarnt yrði að gera stefnda að greiða háar miskabætur vegna umfjöllunarinnar, enda hafi stefnendur þegar rekið mál gegn 365 miðlum ehf. Engin ástæða sé til að dæma stefnendum frekari miskabætur.

            Stefndi mótmælir kröfu um vexti og dráttarvexti og telur að vextir á miskabótakröfu, ef á hana yrði fallist, eigi að miðast við dómsuppsögu. Málið hafi hins vegar ekki verið höfðað fyrr en í júní 2018 eða tæpum þremur árum eftir umfjöllunina. Ekki sé eðlilegt að stefnendur geti krafist vaxta fyrir það tímabil. Vaxtakröfur séu auk þess vanreifaðar í stefnu.

 

Niðurstaða

Að mati dómsins fer ekki á milli mála að í öllum þeim ummælum sem tilgreind eru í kröfugerð stefnenda, og birtust á netmiðlinum Hringbraut 5. og 9. nóvember 2015, fólust aðdróttanir um alvarleg kynferðisafbrot stefnenda eða útbreiðsla slíkra aðdróttana. Falla öll ummælin því undir orðalag 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Svo sem áður greinir voru fréttir Hringbrautar ekki birtar í nafni nafngreinds blaðamanns. Er ekki um það deilt að stefndi var ritstjóri og ábyrgðarmaður netmiðilsins og bar á honum refsi- og fébótaábyrgð samkvæmt c-lið 1. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla, sbr. 14. gr. laga nr. 54/2013. Er haldlaus sú málsástæða stefnda að við þessar aðstæður beri stefnendum, sem ekki hafa uppi kröfu um að stefnda verði gerð refsing, að sýna fram á að skilyrði um ásetning sé fullnægt um hann persónulega svo að kröfur þeirra um ómerkingu ummæla, miskabætur og birtingu dóms verði teknar til greina. Hins vegar er ekkert komið fram um að stefndi eða aðrir blaðamenn Hringbrautar hafi ákveðið að birta áðurgreindar fréttir gegn betri vitund eða án sennilegrar ástæðu til að halda þær réttar, þannig að ákvæði 236. gr. laganna geti átt við í málinu. Samkvæmt framangreindu getur einungis komið til skoðunar hvort birting umræddra ummæla hafi falið í sér brot gegn 235. gr. hegningarlaga, eins og það ákvæði verður skýrt réttri lögskýringu.

Við nánari skýringu 235. gr. hegningarlaga verður að líta til þess að tjáningarfrelsi stefnda er verndað með 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 11. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. samnefnd lög nr. 62/1994. Samkvæmt 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar geta takmarkanir á tjáningarfrelsinu meðal annars helgast af nauðsyn þess að vernda mannorð annarra, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, en ljóst er að fyrrgreint ákvæði hegningarlaga hefur vernd mannorðs eða æruvernd að markmiði. Er sömuleiðis ljóst að vernd mannorðs og friðhelgi einkalífs nýtur verndar stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. einkum 71. gr. stjórnarskrárinnar, eins og greininni var breytt með 9. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Samkvæmt umræddum ákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu verður einnig, við mat á því hvort takmörkun tjáningarfrelsis á grundvelli umrædds ákvæðis teljist heimil, að horfa til þess hvort takmörkun sé nauðsynleg og samrýmist lýðræðishefðum, þ.á m. sú takmörkun tjáningarfrelsis sem felst í eftirfarandi dómi um ómerkingu ummæla, greiðslu miskabóta og birtingu dóms. Í því sambandi ber sérstaklega að horfa til þess sérstaka og mikilvæga hlutverks sem fjölmiðlar gegna í lýðræðissamfélagi við að taka á móti og miðla upplýsingum til almennings, svo og vera vettvangur umræðu um mikilvæg þjóðfélagsleg málefni. Leiðir af þessu að játa verður fjölmiðlum ríkt svigrúm til að gera grein fyrir málum sem erindi eiga við almenning, þ.á m. alvarlegum sakamálum á rannsóknarstigi, svo sem hér um ræðir. Jafnframt leiðir þetta til þrengri skýringar ákvæðis 235. gr. hegningarlaga en leiðir af orðalagi ákvæðisins. Í þessu felst þó ekki að skýra beri téð ákvæði svo þröngt að svigrúm fjölmiðla til að birta ásakanir um ámælisverða eða refsiverða hegðun manna sé ótakmarkað, enda myndi slík skýring ganga berlega gegn þeirri vernd sem æru og einkalífi manna er veitt með stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum og gerður er fyrirvari um í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Samkvæmt framangreindu ber fjölmiðlum við umfjöllun sína um alvarlegar ásakanir gegn einstaklingum um refsiverða háttsemi manna að gæta að friðhelgi þeirra sem í hlut eiga og einnig að uppfylla kröfur um hlutlægni og nákvæmni í fréttaflutningi sínum, svo og að gæta þess að mismunandi sjónarmið komi fram, sbr. til hliðsjónar 26. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla. Eiga þessar kröfur um vandvirkni og meðalhóf, sem leiðir af áðurlýstri vernd æru manna og einkalífs, sérstaklega við þegar fjölmiðlar fjalla um ásakanir gegn mönnum sem ekki teljast opinberar persónur, eins og óumdeilt er að átti við um stefnendur í máli þessu.

A

Við mat á ummælum sem birt voru í frétt Hringbrautar kl. 12.30 miðvikudaginn 5. nóvember 2015 ber að líta til þess að einn af stærstu fjölmiðlum landsins, Fréttablaðið, hafði degi fyrr birt frétt á forsíðu sinni um að lögregla hefði til rannsóknar „gróft kynferðisafbrot“ sem sagt var hafa átt sér stað á bekkjarskemmtun nemenda Háskólans í Reykjavík helgina 16. til 17. október þess árs og voru þolendur sagðir tvær skólasystur gerandans. Var í fréttinni einnig vitnað til yfirlýsingar frá háskólanum um að fram hefðu komið upplýsingar um „alvarlegt atvik innan hóps nemenda í frumgreinadeild skólans“. Í málinu er einnig óumdeilt að á þessum tíma hafði lögregla einnig móttekið kæru tveggja nemenda við skólann vegna kynferðisbrota, svo sem einnig kemur fram í téðri frétt Fréttablaðsins þótt þar sé raunar einnig vikið að því að lögregla hafi varist allra svara um það hvort kærur hefðu borist.

            Á það verður fallist með stefnendum að í umræddri frétt Hringbrautar hafi, með orðalaginu „grunur um viðurstyggilegan brotavilja“, verið dróttað að því að brot stefnenda væru sérlega ámælisverð og þá jafnvel með einhverjum hætti umfram það sem almennt á við um alvarleg kynferðisbrot af því tagi sem hér um ræddi. Að mati dómsins var þó hér í öllum meginatriðum um að ræða efnislega sambærilega frásögn þeirri sem áður hafði birst í Fréttablaðinu, þar sem meðal annars var vísað til þess að umrædd brot væru „gróf“. Fól tilvísun Hringbrautar til „heimildar úr nemendahópi HR“ um „grun á viðurstyggilegum brotavilja“ því í reynd ekki í sér efnislega viðbót við fyrri fréttaflutning Fréttablaðsins. Þá var hér vitnað til gildisdóms ónafngreinds nemanda um alvarleika þeirra brota sem Hringbraut mátti ætla að væru til rannsóknar hjá lögreglu samkvæmt fyrrgreindri umfjöllun Fréttablaðsins.

            Játa verður blaðamönnum svigrúm til þess að setja fram fréttir sínar með þeim stílbrögðum sem þeir kjósa eða velja úr ummælum viðmælenda sinna gildishlaðið orðalag sem þeir telja best þjóna fréttaflutningi sínum á hverjum tíma. Í umræddri frétt Hringbrautar var með skýrum hætti vísað til fréttaflutnings Fréttablaðsins og mátti lesanda því vera vel ljóst að þær ásakanir sem fjallað var um í fréttinni byggðust að meginstefnu á þeirri heimild, þó svo að einnig væri vísað til ummæla ótilgreinds nemanda við Háskólann í Reykjavík. Svo sem áður greinir er ekkert fram komið í málinu um að stefndi hafi haft ástæðu til að ætla að fréttaflutningur Fréttablaðsins væri rangur. Með hliðsjón af eðli fréttarinnar, sem að meginstefnu var endursögn fréttaflutnings annars miðils, og þeirra aðstæðna sem uppi voru í málinu að öðru leyti verður það ekki heldur virt stefnda til sakar að hafa ekki leitað eftir sjónarmiðum stefnenda.

            Frétt Hringbrautar kl. 8:02 9. nóvember 2015 fól eingöngu í sér endursögn á fréttaflutningi Fréttablaðsins sama dag án þess að þar væri bætt við nýjum ásökunum, upplýsingum um stefnendur eða öðrum efnisatriðum. Svo sem áður greinir er ekkert fram komið um að stefndi eða aðrir starfsmenn Hringbrautar sem komu að vinnslu fréttarinnar hafi haft ástæðu til þess að ætla að fréttaflutningur Fréttablaðsins væri rangur. Með sama hætti og áður greinir verður það ekki heldur virt stefnda til sakar að hafa ekki, við þessar aðstæður, leitað eftir sjónarmiðum stefnenda.

            Að öllu þessu virtu telur dómurinn að sú tjáning sem fólst í framangreindum fréttum Hringbrautar 5. og 9. nóvember 2015 hafi fallið innan marka 73. gr. stjórnarskrár og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eins og greinarnar verða skýrðar samkvæmt því sem áður greinir. Verður stefndi þar af leiðandi ekki látinn sæta ábyrgð á einstökum ummælum sem fram komu í fréttunum samkvæmt 235. gr. hegningarlaga og sýknaður af öllum kröfum stefnenda vegna þeirra ummæla sem tilgreind eru í 1. til 4. lið kröfugerðar þeirra.

B

Að því er varðar ummæli í frétt Hringbrautar sem birtist kl. 11:25 9. nóvember 2015 er um það deilt hvort fyrirsögn fréttarinnar, „Komið í veg fyrir þriðju nauðgunina“, hafi verið með spurningarmerki eða ekki við upphaflega birtingu fréttarinnar á Netinu. Í málinu liggja fyrir tvö endurrit fréttarinnar og er fyrirsögn hennar, í því endurriti sem stefndi hefur lagt fram, með spurningarmerki en ekki í því endurriti sem stefnendur hafa lagt fram. Það endurrit sem stefndi hefur lagt fram í málinu ber með sér að hafa verið prentað út 25. september 2018, en það endurrit sem stefnendur hafa lagt fram ber með sér að hafa verið prentað út mun fyrr, eða 1. apríl 2016. Að þessu virtu verður að miða við að fréttin hafi, a.m.k. á einhverju tímabili, birst með þeirri fyrirsögn sem tilgreind er í kröfugerð stefnenda.

            Í umræddri fyrirsögn fólst fyrirvaralaus fullyrðing um nýtt og sjálfstætt brot sem tengt var stefnendum í meginmáli fréttarinnar. Á það verður fallist að fyrirsögnina verði allt að einu að virða í ljósi meginmáls fréttarinnar þar sem fullyrðingin var studd „upplýsingum Hringbrautar úr nemendahópi Háskólans í Reykjavík“. Sama á við um aðrar þær fullyrðingar í meginmáli fréttarinnar sem stefnendur telja að hafi brotið gegn sér, þ.e. að stefnendur hafi haft „fleiri fólskuverk í hyggju“ og að „þriðja unga konan hafi sloppið naumlega þegar kærasti hennar hafi náð að sækja hana“ á skemmtistað sem annar stefnenda hafi tengst.

            Gagnstætt því sem átti við um þær aðrar fréttir Hringbrautar sem áður greinir var frásögn Hringbrautar af tilraunum stefnenda til nýrra kynferðisbrota ekki studd umfjöllun annarra fjölmiðla og byggðist hún alfarið á „upplýsingum Hringbrautar úr nemendahópi Háskólans í Reykjavík“, svo sem áður greinir. Á þessum tíma höfðu stefnendur verið tilgreindir með svo ítarlegum hætti í fjölmiðlum að vandalítið var fyrir þá sem vildu að komast að því hverjir þeir væru. Mátti blaðamönnum Hringbrautar því vera ljóst að í reynd fjallaði frétt þeirra um persónugreinanlega einstaklinga. Að mati dómsins mátti blaðamönnum Hringbrautar einnig vera vel ljóst að hér var um að ræða hreinar sögusagnir við aðstæður sem einkenndust af geðshræringu meðal ýmissa nemenda Háskólans og jafnvel múgæsingu sem teygði sig út fyrir veggi skólans. Af framburði [...] fyrrverandi blaðamanns Hringbrautar fyrir dómi verður ekki dregin önnur ályktun en sú að engin tilraun hafi verið gerð til þess að rannsaka umræddar sögusagnir nánar, svo sem með viðtölum við sjónarvotta eða með því afla upplýsinga frá lögreglu. Þá staðfesti [vitnið] að ekki hefði verið reynt að leita eftir afstöðu stefnenda þar sem fram hefði komið í öðrum fréttum að ómögulegt væri að ná sambandi við þá. Ekki er um það deilt að umræddar sögusagnir reyndust vera ósannar og án tilefnis.

            Það er álit dómsins að með því að birta, án frekari rannsóknar og án þess að leitast við að afla sjónarmiða stefnenda eða annarra sem skýrt gátu málið frá þeirra sjónarhóli, hafi starfsmenn Hringbrautar bersýnilega brugðist skyldu um hlutlægni og nákvæmni í fréttaflutningi. Þótt í fréttinni væri vísað til „upplýsinga Hringbrautar úr nemendahópi Háskólans í Reykjavík“ fólst í fyrirvaralausri fyrirsögn fréttarinnar ákveðin afstaða til trúverðugleika heimildarinnar. Þá var í engu lögð áhersla á að hér væri aðeins um hreinar sögusagnir að ræða eða leitast við að gera aðra fyrirvara við áreiðanleika téðrar heimildar. Að mati dómsins gat þessi fréttaflutningur, sem í raun var ekki annað en útbreiðsla á óstaðfestum en jafnframt alvarlegum áburði meðal ótilgreindra nemenda við Háskólann í Reykjavík, ekki helgast af því að hér væri um að ræða málefni sem ætti erindi við almenning þannig að hann nyti verndar 73. gr. stjórnarskrár og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þvert á móti var téður fréttaflutningur af því tagi sem full ástæða er til að setja skorður í lýðræðislegu þjóðfélagi sem kennir sig við réttarríki, sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrár og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Með þessum óvandaða fréttaflutningi var því brotið freklega gegn friðhelgi einkalífs og æru manna sem voru, svo sem áður greinir, ekki opinberar persónur. Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að þau ummæli í umræddri frétt Hringbrautar sem tilgreind eru í 5. til 7. lið kröfugerðar stefnenda hafi öll brotið gegn 235. gr. hegningarlaga og verður því fallist á kröfu stefnenda um ómerkingu þeirra samkvæmt 241. gr. sömu laga.

            Að því er varðar ummæli í umræddri frétt Hringbrautar um að svo virðist sem íbúð í Hlíðunum hafi verið útbúin sérstaklega fyrir hrottalegar nauðganir með ýmsum tækjum til ofbeldis, sbr. 8. lið í kröfugerð stefnenda, var um ræða endursögn á frétt Fréttablaðsins sama dag ásamt beinni tilvísun til þess miðils. Þótt sú fullyrðing sem fólst í ummælunum hafi síðar reynst röng liggur ekkert fyrir um að blaðamenn Hringbrautar hafi vitað betur eða haft ástæðu til þess að draga þennan fréttaflutning Fréttablaðsins í efa. Eiga því hér við sömu sjónarmið og áður ræðir um ummæli í öðrum fréttum Hringbrautar 5. og 9. nóvember 2015. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnenda vegna þessara síðastgreindu ummæla.

C

Að mati dómsins þykja stefnendur eiga rétt á miskabótum samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 úr hendi stefnda vegna hinna ærumeiðandi aðdróttana sem fólust í hinum ómerktu ummælum og fólu í sér ólögmæta meingerð gegn friði, æru og persónu þeirra. Við ákvörðun bóta verður að horfa til þess að umfjöllun fjölmiðla hafði víðtæk og neikvæð áhrif á líf þeirra, meðal annars þannig að báðir hafa þeir þurft að hverfa frá því námi og starfi sem þeir sinntu áður og flytja búferlum. Þótt stefnendur hafi aldrei verið nafngreindir í umfjöllun stefnda telur dómurinn komið fram að hinn 9. nóvember 2015, þegar hin ómerktu ummæli voru látin uppi, hafi, svo sem áður greinir, verið vandalaust fyrir þá sem vildu að komast að því hverjir mennirnir væru. Svo sem áður er lýst var um að ræða rangar og tilhæfulausar ásakanir gegn stefndu um alvarleg brot við aðstæður sem í ýmsu tilliti einkenndust af vaxandi múgæsingi. Báru stefnendur fyrir dómi að þeir hefðu á þessum tíma óttast um öryggi sitt og telur dómurinn þann framburð trúverðugan.

            Áður er rakið að fréttaflutningur Hringbrautar af ætluðum nýjum brotum stefnenda, ekki síst fyrirvaralaus fyrirsögn fréttarinnar 9. nóvember 2015 þess efnis, gat með engum hætti helgast af lýðræðislegu hlutverki fjölmiðla. Þvert á móti brást fjölmiðillinn skyldum sínum að þessu leyti og afvegaleiddi enn frekar þá umræðu sem þá geisaði um mál stefnenda. Þá leitaðist fjölmiðillinn ekki með neinum hætti við að rétta hlut stefnenda síðar þegar atvik málsins skýrðust. Á hinn bóginn verður að horfa til þess að umfjöllun Hringbrautar var einungis hluti af heildarumfjöllun fjölmiðla um mál stefnenda á þeim tíma sem hér um ræðir og verður að ætla að umfjöllun annarra og stærri miðla hafi orsakað miska stefnanda í mun meira mæli en téð ummæli í frétt Hringbrautar. Að þessu virtu þykja miskabætur til hvors stefnenda samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 hæfilega ákveðnar 250.000 krónur. Með vísan til 2. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu verða vextir ekki dæmdir.

            Með vísan til 59. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011 verður fallist á kröfu stefnenda um að forsendur og niðurstaða dóms í málinu verði birt á netmiðlinum www.hringbraut.is, á þeim stað að eftir verði tekið, eigi síðar en sjö dögum eftir dómsuppsögu, að viðlögðum 50.000 króna dagsektum fyrir hvern dag án birtingar umfram áðurgreindan frest.

            Eftir úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til að greiða stefnendum, hvorum um sig, stærstan hluta málskostnaðar þeirra, en við ákvörðun málskostnaðar verður þó horft til þess að stefnendur hafa rekið málið sameiginlega. Þykir málskostnaður til hvors stefnanda um sig hæfilega ákveðinn 500.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu stefnenda flutti málið Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður.

Af hálfu stefnda flutti málið Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

Eftirfarandi ummæli, sem birtust á netmiðlinum Hringbraut 9. nóvember 2015, skulu vera dauð og ómerk: „Komið í veg fyrir þriðju nauðgunina“; „Sú saga gengur meðal nemenda Háskólans í Reykjavík að mennirnir sem grunaðir eru um að hafa nauðgað tveimur konum hafi haft fleiri fólskuverk í hyggju. Naumlega hafi verið komið í veg fyrir þriðju nauðgunina.“; „Þriðja unga konan hafi sloppið naumlega þegar hennar kærasti hafi náð að sækja hana.“. Að öðru leyti er stefndi, X, sýkn af kröfum stefnenda, A og B, um ómerkingu ummæla.

Stefndi greiði hvorum stefnenda 250.000 krónur í miskabætur.

Birta skal forsendur og dómsorð dóms þessa eigi síðar en sjö dögum eftir dómsuppkvaðningu á netmiðlinum www.hringbraut.is, á þeim stað að eftir verði tekið, eigi síðar en sjö dögum eftir dómsuppsögu, að viðlögðum 50.000 króna dagsektum fyrir hvern dag án birtingar umfram áðurgreindan frest.

Stefndi greiði hvorum stefnenda 500.000 krónur í málskostnað.

 

                                    Skúli Magnússon