• Lykilorð:
  • Bankar
  • Lánssamningur
  • Loforð
  • Tryggingarbréf
  • Veðréttindi
  • Vextir
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. febrúar 2019 í máli nr. E-170/2017:

Landsbankinn hf.

(Ásgeir Jónsson lögmaður)

gegn

Hreggviði Þorsteinssyni og                                         

Guðrúnu Björk Benediktsdóttur

(Ásgeir Þór Árnason lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð þess þann 25. janúar sl., er höfðað af Landsbankanum hf., Austurstræti 11, 155 Reykjavík, með stefnu birtri 13. janúar 2017, á hendur stefndu, Hreggviði Þorsteinssyni, Litla Moshvoli, 861 Hvolsvelli og Guðrúnu Björk Benediktsdóttur, Malarási 11, 110 Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi, Hreggviður Þorsteinsson, verði dæmdur til þess að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 50.035.384 krónur, ásamt 6.75% ársvöxtum frá 23. júní 2014 til 1. desember 2014, 6.50% ársvöxtum frá þeim degi til 1. febrúar 2015, 6.00% ársvöxtum frá þeim degi til 21. apríl 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi að honum verði með dómi heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt sem stefnandi á í eignarhlutum stefndu Guðrúnar Bjarkar Benediktsdóttur, í fasteigninni Malarás 11, fnr. 204-6123, 110 Reykjavík, samkvæmt tryggingarbréfi nr. 0135-63-354142, útgefnu 9. mars 2007, upphaflega að fjárhæð  20.000.000,00 króna miðað við grunnvísitölu 266,9 sem breytist í samræmi við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar, og tryggingarbréfi nr. 0135-63-353797, útgefnu 16. febrúar 2006 upphaflega að fjárhæð 10.000.000,00 króna miðað við grunnvísitölu 249,5 sem breytist í samræmi við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar, sett til tryggingar framangreindri skuld stefnda Hreggviðs.  

Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði í báðum tilvikum dæmd til greiðslu málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Stefndu geri aðallega þær dómkröfur að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda, en til vara gerir stefndi Hreggviður kröfu til þess að krafa stefnanda verði lækkuð og hann verði einungis dæmdur til að greiða stefnanda 31.982.551 krónu með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 38/2001 frá dómsuppsögu til greiðsludags.

Þá er þess í öllum tilvikum krafist að stefnanda verði gert að greiða hvorum stefndu um sig málskostnað.

 

Ágreiningsefni og málsatvik

Stefnandi höfðar mál þetta vegna endurútreiknaðs lánssamnings nr. 11022, dags. 17. október 2007, auk vaxta og dráttarvaxta, sem ekki hafi fengist greitt frá lánþega, stefnda Hreggviði, en skilmálum samningsins er nánar lýst í tengslum við málsástæður stefnanda. Þá fer stefnandi fram á að honum verði með dómi heimilað að gera fjárnám inn í þinglýstan veðrétt sinn í eignarhlutum meðstefndu Guðrúnar í þar tilgreindri fasteign hennar samkvæmt tveimur tryggingarbréfum sem stefnandi lítur svo á að honum hafi verið látinn í té til tryggingar á ofangreindri skuld stefnda Hreggviðs.

Forsaga málsins er annars sú að stefndi átti í viðskiptum við Hafnarfjarðarútibú Landsbanka Íslands hf. (hér eftir nefndur LBI hf.), forvera stefnanda, vegna reksturs endurskoðunarskrifstofu sinnar og hafði vegna þeirra gefið út tryggingarbréf nr. 0135-63-353797 til bankans með veði í fasteigninni Malarási 11 í Reykjavík fyrir yfirdrætti og öðrum skuldum allt að 10.000.000 króna er tók svo breytingum samkvæmt vísitölu.

Þann 9. mars 2007 tók stefndi Hreggviður síðan erlent lán hjá LBI hf. að jafnvirði 32.000.000 króna til 18 mánaða með gjalddaga 9. september 2008 og setti bankanum að handveði til tryggingar endurgreiðslu þess hlutabréf er hann keypti fyrir andvirðið, auk viðbótartryggingar í fasteigninni að Malarási 11 með útgáfu nýs tryggingarbréfs nr. 0135-63-354142 fyrir skuldum að fjárhæð 20.000.000 króna er tók svo breytingum samkvæmt vísitölu. Fulltrúar bankans við framangreind viðskipti voru þeir Gunnar Kristjánsson, þáverandi útibússtjóri í Hafnarfirði og staðgengill hans, Sigurður Þ. Þórðarson. Í málinu staðhæfir stefndi Hreggviður að við samningsgerðina hafi þessir tveir starfsmenn bankans lofað sér því að við uppgjör og uppgreiðslu lánssamningsins yrði þessu síðara tryggingarbréfi nr. 0135-63-354142 létt af fasteigninni og því aflýst. Stefndi seldi síðan umrædd hlutabréf og greiddi framangreint skuldabréfalán upp að fullu, 25. maí 2007. Staðhæfir stefndi Hreggviður að við uppgreiðsluna hafi Gunnar útibússtjóri lofað honum því að bankinn myndi annast um aflýsingu tryggingarbréfsins enda væri stefndi nú orðinn skuldlaus við bankann. En vegna skyndilegs fráhvarfs Gunnars sem útibússtjóra bankans í Hafnarfirði hafi honum hins vegar ekki unnist tími til þess að ganga frá málinu, en Gunnar hafi staðfest þessa frásögn með sérstakri yfirlýsingu sem lögð sé fram í málinu og árituð af Sigurði Þórðarsyni því til staðfestu.

Það næsta sem liggur fyrir í málinu er að 3. júlí 2007 gerði stefndi Hreggviður framvirkan samning við LBI hf., nr. 9582, um kaup stefnda á hlutabréfum í Straumi-Burðarási hf. af bankanum, þann 22. október 2007, að nafnverði 1.350.000 krónur, fyrir 30.000.000 króna, sem þá var markaðsverð þeirra. En eftir samningsgerðina tók markaðsverð hlutabréfanna hins vegar að lækka og þegar leið að efndatíma hafi verið orðið ljóst að stefndi myndi tapa 2.000.000 króna vegna þess að bréf í félaginu höfðu þá fallið í verði þannig að hlutur að nafnverði 1.350.000 varð þá aðeins 28.000.000 króna virði. En í stað þess að greiða bankanum þá tapið af afleiðuviðskiptunum upp á 2.000.000 króna lét stefndi til leiðast, að hans sögn fyrir áeggjan starfmanna bankans, að kaupa hlutabréfin af bankanum, eins og samningurinn kvað á um að hann gæti gert, enda hafi starfsmenn bankans boðist til að bankinn lánaði honum fyrir kaupverðinu gegn veði í bréfunum sjálfum, en ekki hafi verið rætt um frekari veð að stefndi telur. Að sögn stefnda hafi starfsmenn bankans einnig fullvissað hann um að um tímabundna lækkun á markaði væri að ræða sem örugglega myndi ganga til baka innan fárra daga. Frá framangreindum kaupum var síðan gengið þann 17. október 2007 með því að stefndi undirritaði framangreindan lánssamning nr. 11022 sem mál þetta snýst um og veitti bankanum handveð í bréfunum með handveðsyfirlýsingu nr. 0135-63-354351. Stefndi dagsetti og undirritaði einnig viðauka við lánssamninginn á sama tíma og fyllti þar inn dagsetningu á lánssamningnum í fyrstu línu efnisgreinar viðaukans, en kveðst síðan hafa gert ráð fyrir að starfsmenn bankans myndu ljúka þeim viðskiptum og skrá hlutabréfin sem hans eign. Stefndi kveðst hins vegar ekki hafa tilgreint útgreiðsludag í viðaukann og virðist sem starfsmenn bankans hafi síðar tilgreint hann sem 23. janúar 2008 í viðauka. Virðist stefnda sem bankinn hafi síðan skuldfært tékkareikning hans um kaupverðið frá samningsdegi og til þess dags þegar loks hafi verið gengið formlega frá kaupunum á hlutabréfunum og útgreiðslu lánsfjárhæðarinnar í bankanum.

Sem fyrr segir, og nánar er lýst hér í tengslum við málsástæður stefnanda, þá er framangreindur lánssamningur nr. 11022 fjölmyntarlán tilgreint í íslenskum krónum. Þann 21. september 2011 sendi stefnandi, er þá hafði óumdeilt öðlast stöðu kröfuhafa vegna lánssamningsins, bréf til stefnda Hreggviðs þar sem fram kom að í desember 2010 hefði Alþingi samþykkt breytingar á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sem kváðu á um endurútreikning lána með ólögmætri gengistryggingu. Var það mat stefnanda að fyrrgreint lán nr. 11022 kvæði á um slíka gengistryggingu og í samræmi við það voru eftirstöðvar lánsins endurútreiknaðar miðað við lægstu óverðtryggðu vexti Seðlabankans. Eftirstöðvar fyrir endurútreikning töldust þá vera 83.667.093 krónur, en eftir hann 45.873.892,00 krónur, en endurútreikningur miðaðist við 20. september 2011. Eftirstöðvar eftir endurútreikning mynduðu nýjan höfuðstól láns nr. 11022, en skilmálar þess aðrir en um vexti og gengistryggingu voru óbreyttir.

Af hálfu stefnda er lögð áhersla á það að við undirritun lánsamningsins nr. 11022 hafi legið fyrir yfirlit bankans um samninga og tryggingar stefnda, dags. 24. ágúst 2008. Var þar ekki sérstaklega getið um tryggingarbréf nr. 0135-63-354142 sem hvíldi á 5. veðrétti fasteignarinnar að Malarási 11. Kveðst stefndi því hafa gert ráð fyrir því að bankinn hefði verið búinn að færa það bréf til aflýsingar svo sem lofað hafi verið. Þann 11. ágúst 2009 hafi starfsmenn stefnanda síðan kallað á stefnda til sín og hann þá undirritað skilmálabreytingu lánssamningsins en með fyrirvara um betri rétt neytanda. Um áramótin 2009-2010 hafi stefndi Hreggviður síðan fyrst fengið vitneskju um það að tryggingarbréfið væri enn áhvílandi á eigninni og hafi hann þá ritað stefnanda bréf, dags. 1. febrúar 2010, og þá krafist aflýsingar bréfsins. Stefnandi hafi hins vegar ekki orðið við þeirri kröfu þrátt fyrir ítrekanir stefnda. Hafi stefndi vegna þessa leitað til umboðsmanns viðskiptamanna stefnanda, sbr. bréf 3. mars 2010, til umboðsmanns skuldara, með bréfi 10. ágúst 2010 og síðan með kvörtun til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, sem úrskurðaði stefnda í óhag þann 21. mars 2011, en stefndi sé ósáttur við þá afgreiðslu sem taki ekki mið af loforði um aflýsingu bréfsins. 

Eins og lýst er hér nánar í tengslum við málsástæður stefnanda, þá var þann 11. ágúst 2009 gerður viðauki við lánssamninginn nr. 11022 um endurgreiðslu eftirstöðva lánsins í einni greiðslu þann 1. janúar 2010, en vexti hafi þó borið að greiða á þriggja mánaða fresti út lánstímann. Þann 23. maí 2014 hafi stefnda Hreggviði síðan verið sent annað bréf frá stefnanda um leiðréttan endurútreikning umrædds lánssamnings nr. 11022 í kjölfar dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 600/2011 og nr. 464/2012. Staða lánsins, sem upphaflega var að höfuðstól 32.000.000 króna, hafi fyrir leiðréttingu verið 63.076.943 krónur, en væri eftir leiðréttingu 50.035.384 krónur, miðað við 20. maí 2014. Tekið var fram í bréfi stefnanda að þrátt fyrir að lánstíminn væri liðinn þá sýndi leiðréttur endurútreikningur að lánið til stefnda væri ekki að fullu greitt og þar eð lánstíminn væri liðin hefði lántaki 21 dag frá dagsetningu bréfsins til þess að semja um lúkningu skuldarinnar, en að þeim tíma liðnum myndu reiknast dráttarvextir á höfuðstól lánsins. Í kjölfarið var stefnda Hreggviði síðan sendur greiðsluseðill með gjalddaga 22. maí 2014, en ekki hafi verið greitt af láninu frá endurútreikningi þess. Eftirstöðvar uppreiknaðs höfuðstóls þann dag hafi verið 50.035.984 krónur sem sé stefnufjárhæð. Krafist sé dráttarvaxta frá 23. maí 2014, eða mánuði eftir dagsetningu bréfsins. Stefnda hafi verið sent innheimtubréf þann 28. desember 2015 en skuldin þó ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtu og sé stefnanda því nauðsyn að höfða málið.

 

Málsástæður og lagarök af hálfu stefnanda

Stefnandi byggi á því að 17. október 2007 hafi stefndi, Hreggviður Þorsteinsson, sem lántaki og LBI hf. sem lánveitandi, gert með sér lánssamning nr. 0135-36-11022 um fjölmyntalán upphaflega að jafnvirði 32.000.000 króna, þar sem 50% hafi verið í svissneskum frönkum (CHF) og 50% í japönskum jenum (JPY), en lánstími skyldi vera tvö ár og lánið greiðast í einni afborgun. Vexti hafi þó borið að greiða á þriggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. apríl 2008, sbr. gr. 2.1 í samningi. Vextir skyldu vera breytilegir og jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 2,25% vaxtaálags, sbr. gr. 3.1 í samningi. Vextir skyldu reiknast frá útborgunardegi lánsins og greiðast eftir á á gjalddögum, í fyrsta skipti 1. apríl 2008, sbr. gr. 3.3 í samningi. Stæði lántaki ekki skil á greiðslum á gjalddaga bæri að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð frá gjaldfellingardegi til greiðsludags. Um dráttarvexti skyldi fara samkvæmt ákvæðum vaxtalaga nr. 38/2001. Bankinn hefði val um hvort hann krefðist dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt, eða af skuldinni breyttri í íslenskar krónur, sbr. 6.1. gr. samnings. Í gr. 10.1 komi fram að ef vanskil yrðu á greiðslu afborgana eða vaxta sem varað hefðu í 14 daga eða lengur þá væri bankanum heimilt að segja samningnum upp einhliða og fyrirvaralaust og án aðvörunar eða sérstakrar uppsagnar, sbr. a-lið 10.1. gr. Kæmi til vanefnda af hálfu lántaka á skyldum hans samkvæmt samningum, þá skuldbindi lántaki sig til þess að greiða bankanum, auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, allan kostnað sem bankinn legði út fyrir vegna vanefndanna, málsóknar eða annarra réttargjalda, lögmannsþóknunar eða annars sem bankanum bæri að greiða, svo og annan lögfræðilegan kostnað vegna innheimtu lánsins, sbr. gr. 2.5 í samningi. Skilyrði fyrir útborgun lánsins, sbr. 7. gr., hafi meðal annars verið þau að stefnanda myndi berast beiðni um slíkt. Bankanum hafi borist slík beiðni 17. október 2007, sbr. viðauka 1, þar sem óskað hafi verið eftir því að lánið yrði greitt út 23. janúar 2008. Í kjölfarið hafi verið greiddar út 31.894.000 krónur, en þá hafi verið búið að draga af lántökugjald og kostnað, sbr. gr. 5.1 og 5.2. Þann 11. ágúst 2009 hafi síðan verið gerður viðauki við samninginn. Þar hafi komið fram að eftirstöðvar lánsins, 1. júlí 2009, væru JPY 26.041.865 og CHF 273.423,28. Hafi aðilar þá orðið ásáttir um breytingar á samningnum þannig að eftirstöðvar lánsins bæri að endurgreiða að fullu með einni greiðslu afborgunar í lok lánstímans, 1. janúar 2010, en vexti hafi þó borið að greiða á þriggja mánaða fresti út lánstímann, næst 1. júlí 2009 og skyldu þeir reiknast frá þeim degi. Þann 23. maí 2014 hafi stefnda Hreggviði verið sent annað bréf frá stefnanda þar sem fram hafi komið að með dómum í málum nr. 600/2011 og 464/2012 hafi Hæstiréttur Íslands komist að þeirri niðurstöðu að greiðslukvittanir hefðu jafngilt fullnaðarkvittunum og endurútreikningur lána hefði átt að taka mið af því. Með hliðsjón af þeim dómum hafi bankinn leiðrétt endurútreikning lánssamnings nr. 11022. Leiðréttingin hafi falið í sér að fram að 1. október 2008 hafi nýr höfuðstóll verið reiknaður miðað við efni fullnaðarkvittana. Þá hafi eftirstöðvar lánsins verið leiðréttar vegna greiðslna frá endurútreikningsdegi þar sem við hafi átt. Staða lánsins fyrir leiðréttingu hafi verið 63.076.943 krónur en eftir leiðréttingu 50.035.384 krónur. Staða lánsins fyrir og eftir leiðréttingu hafi verið miðuð við 20. maí 2014. Í bréfinu hafi verið tekið fram að þrátt fyrir að lánstíminn væri liðinn þá sýndi leiðréttur endurútreikningur að lánið væri ekki að fullu greitt. Þar sem lánstími væri liðinn hefði lántaki 21 dag frá dagsetningu bréfsins til að semja um greiðslu skuldar, en að þeim tíma liðnum myndu reiknast dráttarvextir á höfuðstólinn.

Lánssamningur nr. 11022 sé tryggður með tryggingarbréfum nr. 0135-63-354142 og nr. 0135-63-353797 sem bæði séu tryggð með veði í Malarási 11, fnr. 204-6723, Reykjavík. Tryggingarbréf nr. 0135-63-353797 hafi verið útgefið 16. febrúar 2006, af stefnda Hreggviði, til tryggingar á öllum skuldum og fjárskuldbindingum hans við LBI hf., upphaflega fyrir samtals 10.000.000 króna miðað við grunnvísitölu 249,5 sem breytist í samræmi við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Tryggingarbréf nr. 0135-63-354142 hafi verið útgefið 9. mars 2007, af stefnda Hreggviði, til tryggingar öllum skuldum og fjárskuldbindingum hans við bankann, upphaflega fyrir samtals 20.000.000 króna miðað við grunnvísitölu 266,9. Með afsali, dags. 17. apríl 2009, hafi stefndi Hreggviður selt Guðrúnu Björk Benediktsdóttur Malarás 11, fnr. 204-6723, en hún sé nú þinglýstur eigandi. Guðrúnu hafi verið sent innheimtubréf 28. apríl 2016, auk yfirlits ábyrgða, dags. 1. janúar 2011, 5. janúar 2013, 31. desember 2013, 3. janúar 2015 og 8. janúar 2016. Stefnanda sé nauðsynlegt að fá dóm um að honum sé heimilað fjárnám í umræddri fasteign meðstefndu að því marki sem veðtryggingin taki til dómkröfunnar samkvæmt ákvæðum ofangreindra tryggingarbréfa sem hvíli á eignarhlutum stefndu í Malarási 11, fnr. 204-6723, Reykjavík, en tryggingarbréfin séu allsherjarveð og því ekki unnt að fara beint í aðför samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/1989 eða beiðast nauðungarsölu samkvæmt 6. gr. laga nr. 90/1991 á grundvelli þeirra.

Hvað varði aðild stefnanda Landsbankans hf. að málinu, þá hafi Fjármálaeftirlitið (FME) með heimild í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tekið þá ákvörðun að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. (LBI hf.) til Nýja Landsbanka Íslands hf. Ákvörðun FME um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf., kt. 540291-2259, til Nýja Landsbanka Íslands hf., kt. 471008-0280 (nú nefndur Landsbankinn hf.), sé dagsett 9. október 2008.

Byggt sé á meginreglum kröfuréttar og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga og fullnustu á veðrétti kröfueiganda. Vísað sé til samningsveðlaga nr. 75/1997, einkum 3. mgr. 4. gr., 5. gr., 1. mgr. 9. gr. og 15. til 20. gr. og til vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum. Kröfu um dráttarvexti styðji stefnandi við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, einkum 1. mgr. 6 gr. og 3. mgr. 5. gr. Krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggi á lögum nr. 50/1988. Varðandi varnarþing þá vísist til 1. og 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991, en í lánssamningi aðila, gr. 15.1, sé samið um að mál vegna samningsins skuli höfða fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Um aðild stefndu vísist til 19. gr. laga nr. 91/1991, en um aðild stefnanda til 100. gr. a í lögum nr. 161/2002.

 

Málsástæður og lagarök af hálfu stefndu

Stefndu vísi til þess að krafa stefnanda sé reist á lánssamningi sem hann hafi eignast vegna yfirfærslu meintra kröfuréttinda samkvæmt honum frá LBI hf. fyrir ákvörðun fjármálaeftirlitsins. Lánssamningurinn lúti ekki viðskiptabréfareglum heldur verði stefnandi að sæta öllum sömu mótbárum stefndu eins og fyrirrennari hans samkvæmt meginreglum kröfuréttar. Stefndu byggi sýknukröfur á því að ógilda beri þá greiðsluskuldbindingu stefnda sem í lánssamningnum felist. En að því frágengnu að meint skuld samkvæmt honum sé fyrnd. Þá sé byggt á því, að vegna þess að engin skuld sé til staðar beri að hafna kröfu stefnanda um að honum verði heimilað fjárnám í fasteigninni Malárási 11, en að því frágengnu að fjárnám verði einungis heimilað inn í veðrétt samkvæmt tryggingarbréfi nr. 0135-63-353797, upphafleg fjárhæð 10.000.000 krónur, en sýknað verði af kröfu um að fjárnám verði heimilað inn í meintan veðrétt samkvæmt tryggingarbréfi nr. 0135-63-354142, upphaflega að fjárhæð 20.000.000 krónur, með því að stefnandi hafi lofað stefndu því að aflýsa því tryggingarbréfi.  

Umræddur lánssamningur, dags. 17. október 2007, hafi verið gerður milli stefnda Hreggviðs og forvera stefnanda, sem fjármögnun á framvirkum kaupum stefnda á hlutabréfum í Straumi-Burðarási hf. af bankanum.  Hlutabréf þessi hafi síðan reynst vera verðlaus við fall íslensku viðskiptabankanna haustið 2008 og hafi raunar einnig verið það við kaupin og lánveitinguna að mati stefnda. Stefndi byggi á því að bankinn hafi beitt blekkingum í viðskiptunum eða með öðrum hætti staðið þannig að málum gagnvart stefnda að kaup hans á hlutabréfunum séu ógild. Þar með sé engin skuld á bakvið lánssamninginn og því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Stefndi vísi til ógildingarreglna laga nr. 7/1936, með síðari breytingum, máli sínu til stuðnings um heimild dómstóla til að ógilda samninginn, einkum 31. gr. og 36. gr. 

Forvera stefnanda hafi verið óheimilt að selja stefnda slíka fjármálagerninga enda hafi hann ekki verið „fagfjárfestir“ samkvæmt skilgreiningu bankans um flokkun viðskiptamanna. Fyrirrennari stefnanda hafi notað sér einfeldni og fákunnáttu stefnda til að fá hann til að gera framvirkan samning um kaup á hlutabréfum og bankinn hafi þar með aflað sér hagsmuna sem hafi bersýnilega verið miklu verðmætari en hin verðlausu hlutabréf og bersýnilegur mismunur hafi því verið á hagsmunum þessum og endurgjaldi er fyrir átti að koma í formi umsamins kaupverðs og lánssamningurinn sé því ógildur gagnvart stefnda. Einnig sé byggt á því að víkja eigi samningnum til hliðar í heild eða að hluta, þar sem það verði að teljast ósanngjarnt af stefnanda eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig með því að innheimta samninginn að fullu hjá stefnda og eigi í því sambandi meðal annars að líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til.

Umrædd afleiðukaup teljist til verðbréfaviðskipta í skilningi þá gildandi laga nr. 33/2003. Forvera stefnanda hafi borið að fylgja almennri reglu 4. gr. þeirra sem leggi þá skyldu á fjármálafyrirtæki að starfa í samræmi við eðlilega viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum með trúverðugleika fjármálamarkaðar og hagsmuni viðskipta- vina að leiðarljósi. Honum hafi samkvæmt 5. gr. borið að afla sér sérstakrar þekkingar á stefnda og þekkja hann og gæta að öðrum ákvæðum II. kafla laganna, meðal annars að veita stefnda greinargóðar upplýsingar um áhættu sem viðskiptunum fylgdi og hafi þær orðið að vera skýrar og sanngjarnar og ekki mátt vera villandi svo að stefndi gæti tekið upplýsta fjárfestingarákvörðun. Ekki verði séð að bankinn hafi gætt skyldu samkvæmt þessu þannig að stefndi fengi nógu greinargóðar upplýsingar um þá áhættu sem falist hafi í því að gera afleiðusamning við bankann með umtalsverðri tapsáhættu og síðan, eftir að tap á þeim samningi upp á 2.000.000 króna hafi verið staðreynt, að taka enn meiri áhættu með því að kaupa sjálf hlutabréfin með 100% lánsfjármögnun frá bankanum. Enginn samningur hafi verið gerður við stefnda um markaðsviðskipti sem bankanum hafi þó verið skylt að gera samkvæmt 7. gr. fyrrgreindra laga. 

Stefndi hafi vegna villandi ráðgjafar starfsmanna forvera stefnanda samþykkt að gera afleiðusamninginn og síðan samþykkt lántökuna og bankinn sýnt af sér alvarlegt skeytingarleysi um hagsmuni stefnda sem hafi ekki haft mikla þekkingu á verðbréfa- viðskiptum, með því að upplýsa hann ekki um þá áhættu sem í þessu hafi falist. Þrátt fyrir framangreindar skyldur hafi starfsmenn bankans talað hlutabréfin upp og stefndi verið fullvissaður um að hann væri einn útvalinna sem fengju að komast í þann „elítuhóp“ er ættu kost á þessum viðskiptum. Sé á því byggt að stefndi hefði ekki gert afleiðusamninginn og ekki tekið lánið hefði honum verið veitt rétt ráðgjöf sem hefði skýrt hvaða afleiðingar það hefði ef forsendur um rekstur Straums-Burðaráss hf. og arðgreiðslur gengju ekki eftir og honum bent á hvaða aðra valkosti hann hefði. Sé þá sérstaklega vísað til þess að augljósast hefði verið að ráðleggja stefnda að láta staðar numið við tap á afleiðusamningnum upp á 2.000.000 krónur í stað þess að skuldbinda sig til greiðslu á 32.000.000 króna í von um að gengi hlutabréfanna myndi hækka.

Reikningar Straums-Burðaráss hf. hafi ekki, þá er kaupin gerðust, gefið raunsanna mynd af félaginu og markaðsverð hlutabréfanna hafi hvergi verið nálægt sannvirði þess félags og það hafi í raun verið komið í greiðsluþrot er stefndi hafi verið blekktur til kaupanna. Vísað sé til skýrslna Alþingis um hrun bankakerfisins. Starfsmenn forvera stefnanda hafi við viðskiptin gengið erinda þáverandi eigenda bankans sem þá höfðu nýlega eignast það stóran hlut í Straumi-Burðarási ehf. að yfirtökuskylda hafi skapast eða verið við það að skapast þannig að starfsmennirnir hafi verið að gæta hagsmuna þeirra til að koma í veg fyrir slíka yfirtökuskyldu með því að selja hluta af bréfum þeirra í félaginu til að minnka hluti þeirra niður fyrir það hlutfall sem skapaði yfirtökuskyldu. Starfsmennirnir hafi því verið vanhæfir til að hafa með höndum ráðgjöf til stefnda í viðskiptunum. Til tryggingar láninu hafi verið hin seldu hlutabréf að nafnvirði 1.350.000 krónur, sett að handveði til stefnanda, sbr. grein 9.2. í lánssamningi. Stefnda hafi verið talin trú, af starfsmönnum fyrirrennara stefnanda, að hlutabréfin myndu alltaf duga fyrir skuldinni og veðréttur bankans í bréfunum sjálfum, sem stofnaður hafi verið samhliða kaupunum, myndi verða eina trygging bankans fyrir endurgreiðslu. Ósanngjarnt sé því að stefnandi dragi nú fram eldra tryggingarbréf sem stefndi hafi gefið út til fyrirrennara stefnanda vegna allt annarra viðskipta þeirra.

Umræddur lánssamningur sem stefnandi byggi kröfu sína á eigi rót að rekja til kaupa stefnda á hlutabréfum í Straumi-Burðarási hf. af forvera stefnanda með framvirkum samningi. Hafi verið þannig búið um hnútana við kaupin og undirritun lánssamningsins, 17. október 2007, að kaupverð skyldi greitt til bankans sem seljanda hlutabréfanna og stefndi því undirritað samhliða því viðauka 1 með lánssamningnum um að lánsféð yrði greitt út. Engu skipti í því tilliti þótt svo virðist sem að starfsmenn bankans hafi ekki gegnið formlega frá kaupunum fyrr en 23. janúar 2008. Andvirði lánsins hafi runnið til greiðslu fyrir hlutabréfin. Forveri stefanda hafi því í raun selt stefnda hlutabréfin með greiðslufresti í formi lánssamningsins. Þegar þannig hátti til fyrnist krafa lánveitandans á 4 árum, sbr. 2. mgr. 5. gr. fyrningarlaga nr. 150/2007. Sé hér á því byggt að krafa stefnanda sé þess vegna fallin niður fyrir fyrningu beinlínis samkvæmt tilvitnuðu ákvæði, en til vara á grundvelli lögjöfnunar, enda verði að telja að hið sama eigi að gilda um viðskipti stefnda og bankans þótt talið verði að raunverulegur seljandi hlutabréfanna hafi ekki verið bankinn heldur ótilgreindur markaðsaðili. Um viðskiptin beri að fara eftir nýju fyrningarlögunum nr. 150/2007 með því að útgreiðsla lánsfjárins hafi átt sér stað eftir gildistökudag þeirra, 1. janúar 2008, þó samningurinn hafi komist á í gildistíð eldri laga. Verði talið að um lögskiptin að þessu leyti beri að fara að eldri fyrningarlögum nr. 14/1905 þá sé vísað til þess að samkvæmt þeim hafi einnig gilt fjögurra ára fyrningarfestur sbr. 1. tölulið 3. gr. þeirra og sé þá vísað til þess að andlag viðskiptinna hafi verið lausafé í skilningi ákvæðisins, sbr. samanburðarskýringu við 1. mgr. 1. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000.   

Krafa stefnanda sé byggð á lánssamningi, sem undirritaður hafi verið 17. október 2007, þar sem fram komi að stefnandi láni stefnda „fjölmyntalán til 2 ára að jafnvirði kr. 32.000.000“ og virðist lánið hafa verið greitt út þann 23. janúar 2008.  Komi fram í málatilbúnaði stefnanda að það hafi verið gert með millifærslu á 31.894.000 krónum inn á reikning stefnda þegar frá hefði verið dregið lántökugjald og kostnaður, sbr. kaupnóta, dags. 23. janúar 2008.  Í stefnu komi fram að stefnandi hafi litið svo á að lánið hafi í raun verið lán í íslenskum krónum og bundið ólögmætri gengistryggingu. Sé því lýst að stefnandi hafi vegna þess endurreiknað lánið, miðað við 20. september 2011, á grundvelli laga um breytingar á vaxtalögum nr. 38/2001, sem kveðið hafi á um endurútreikning lána með ólögmætri gengistryggingu, og síðan leiðrétt þann endurútreikning með tilkynningu til stefnda með bréfi, dags. 23. maí 2014, þar sem því hafi verið lýst að endurútreikningur lánsins hefði átt að taka mið af vissum dómum Hæstaréttar Íslands um gildi fullnaðarkvittana. Með bréfinu hafi fylgt útreikningar stefnanda og komi þar fram að þá frá hafi verið dregnar afborganir „vanskil og önnur gjöld“ hafi eftirstöðvar lánsfjárhæðarinnar numið 31.982.551 krónu 1. október 2008. Við úrlausn varakröfu stefnda þá samþykki hann að lagt verði til grundvallar að hann hafi skuldað stefnanda þá fjárhæð á greindum degi samkvæmt lánssamningi aðila.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. fyrningarlaga nr. 150/2007 gildi 10 ára fyrningarfrestur peningalána ekki um vexti. Um vexti gildi hinn almenni 4 ára fyrningarfestur er kveðið sé á um í 3. gr. langanna. Hið sama eigi við verði talið að eldri fyrningarlög nr. 14/2005 eigi við samkvæmt 2. tölulið 3. gr. þeirra laga. Stefndi byggi á því að vegna fyrningar geti stefnandi ekki krafið hann um vexti lengra aftur í tímann en fyrir síðustu fjögur ár fyrir þingfestingu málsins. Beri því að hafna kröfu stefnanda um það að höfuðstóll kröfu hans verði til dæmdur honum að fjárhæð 50.035.384 krónur, enda inniberi sú fjárhæð augljóslega fyrnda vexti að fjárhæð 18.052.833 krónur er stefnandi hafi reiknað sér fyrir tímabilið frá 1. október 2008 til 20. maí 2014. Beri því að fallast á varakröfu stefnda um það að hann verði þá einungis dæmdur til að greiða stefnanda 31.982.551 krónur, er sé óumdeildur höfuðstóll skuldar samkvæmt lánssamningunum.

Stefndi geri kröfu um það að hann verið einungis dæmdur til að greiða stefnanda vexti til viðbótar við höfuðstólinn frá dómsuppsögudegi til greiðsludags sbr. 1. mgr. 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Stefndi telji að ekki séu efni til að dæma hann til að greiða stefnanda vexti vegna eldri tíma. Í fyrsta lagi vegna þess að vextir eldri en fjögurra ára séu fyrndir, en í öðru lagi vegna þess að atvik er varði stefnanda og sem stefnda verði ekki um kennt valdi því að greiðsla hafi ekki farið fram, sbr. 7. gr. laganna. Þau atvik er stefndi vísi sérstaklega til í þessu sambandi séu innheimtukröfur stefnanda með innheimtubréfum, dags. 28. desember 2015 og 28. apríl 2016, þar sem hann krefjist greiðslna á fjárhæðum er séu ekki í neinu samræmi við réttmætar kröfur hans að lögum og á meðan stefnandi hafi ekki lagað kröfugerð sína til réttmætrar kröfu geti hann ekki átt rétt á dráttarvöxtum. Vísað sé til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um skyldu stefanda til þess að starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. 

En hvernig sem málsúrslit verða að öðru leyti þá byggi stefndu hér á því að sýkna verði af kröfu stefnanda um að honum verði heimilað að gera fjárnám „inn í veðrétt sem stefnandi á“ í eignarhlutum meðstefndu Guðrúnar Bjarkar Benediktsdóttur í fasteigninni Malarási 11, samkvæmt tryggingarbréfi nr. 0135-63-354142, útgefnu 9. mars 2007, upphaflega að fjárhæð 20.000.000 krónur. Byggi stefndu á því að stefnanda sé óheimilt að nýta sér tryggingarbréf þetta með því að hann hafi lofað stefnda að aflýsa því af eigninni þegar stefndi hefði greitt upp lánssamning við stefnda frá 9. mars 2007 hinn 27. maí 2007. Byggt sé á meginreglu samningaréttar um það að samningar skuli standa og sé vísað til yfirlýsingar Gunnars Kristjánssonar fyrrverandi útibússtjóra og Sigurðar Þ. Þórðarsonar fyrrverandi starfsmanns þess því til staðfestu. Við gerð þess lánssamnings sem mál þetta sé sprottið af, 17. október 2007, hafi stefndi gengið út frá því að búið væri að aflýsa tryggingarbréfinu í samræmi við þetta loforð og fái það stoð í fyrirliggjandi tryggingaryfirliti LBI hf. frá 24. ágúst 2007 þar sem ekki sé getið um tryggingarbréf þetta sem gildandi tryggingu til bankans frá stefnda.

Afsakanlegt hafi verið að stefndi skyldi ekki gera sérstaka athugasemd við texta tilgreiningu í grein 9.1. í lánssamningnum, við gerð hans, um að „núverandi allsherjarveð tryggð með veði í ýmsum eignum lántaka“ stæðu til tryggingar skuldinni, þegar framangreint sé virt, enda hafi þá legið fyrir að stefnandi hafi haft allsherjarveð í eignum stefnda samkvæmt tryggingarbréfi því sem hvíli á 4. veðrétti upphaflega að fjárhæð 10.000.000 krónur. Verði að telja texta lánssamningsins um þetta vísa til þeirrar tryggingar, en ekki þess tryggingarbréfs sem stefnandi hafi lofað stefnda að aflýsa. Stefnandi verði að bera hallann af því að þessum tryggingum, sem fyrirrennari hans hafi talið sig hafa í eignum stefnda, hafi ekki verið lýst með nákvæmari hætti í lánssamningi, enda séu strangar kröfur gerðar til fjármálafyrirtækja og lánastofnanna um að þær tryggi sér skýrar og ótvíræðar sannanir fyrir tilvist veðréttinda sinna, umfangi þeirra og heimildir að öðru leyti. Beri lánastofnanir að öðrum kosti halla af sönnunarskorti í þeim efnum, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í dómasafni 1990/1250, 1993/1882, 1995/1807, 1997/2805 og í máli sambærilegu og þessu nr. 666/2010. Ómögulegt sé að stefnandi geti nú öðlast réttindi á hendur stefndu á grundvelli tryggingarbréfs sem hann hafi verið búinn að lofa stefnda að aflýsa vegna þess að trassaskapur starfsmanna hafi orðið þess valdandi að bréfið hafi ekki verið fært til aflýsingar eftir uppgreiðslu þeirrar skuldar sem það hafi átt að tryggja.

 Þá sé bent á það að við gerð lánssamnings aðila, 17. október 2007, hafi hin veðsettu hlutabréf ásamt tryggingarbréfinu á 4. veðrétti, staðið fyllilega til tryggingar fyrir láninu en það tryggingarbréf hafi þá verið uppreiknað að verðmæti liðlega 11 milljónir króna og tryggingar á þeim tíma því verið að verðmæti rúmar 44.000.000 króna til tryggingar á 32.000.000 króna láni eða 73%, sem hafi verið innan marka bankans. Stefndu hafi ítrekað mótmælt við stefnanda að hann teldi tryggingarbréfið til tryggingarréttinda sinna, meðal annars með því að senda honum mótmæli við árlegum tilkynningum til stefndu um það og hafi þau því gert stefnanda það ljóst að þau samþykki ekki slík réttindi hans. Stefndu byggi einnig á því að ógilda beri tryggingar- bréfið með þeim lögfylgjum að stefnandi geti ekki nýtt sér það við fjárheimtunna vegna þessara atvika sem upp hafi komið eftir útgáfu þess á grundvelli 1. mgr., sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 enda verði að telja það í senn ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af stefnanda að bera gildi þess fyrir sig og sé þar þá bent á skyldur stefnanda samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. 

 

Niðurstaða.

Ágreiningur málsaðila í málinu er að meginstefnu til tvíþættur. Snýr hann annars vegar að því hvort fyrir hendi sé skuld stefnda Hreggviðs samkvæmt framangreindum lánssamningi nr. 11022, sem gerður var 17. október 2007, eða hvert sé þá með réttu umfang þeirrar skuldar þess stefnda gagnvart stefnanda. Hins vegar er í málinu, að því marki sem að framangreind fjárkrafa stefnanda kunni að vera fyrir hendi, deilt um þá kröfu stefnanda að honum verði heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt sem stefnandi telur sig eiga í eignarhlutum meðstefndu Guðrúnar Bjarkar, í Malarási 11, samkvæmt þeim tveimur tryggingabréfum, sem hafi verið sett til tryggingar framangreindri skuld stefnda Hreggviðs, og er þá einkum ágreiningur varðandi tryggingabréf nr. 0135-63-354142, útgefið 9. mars 2007, upphaflega að fjárhæð 20.000.000. En stefndu byggja hér einkum á því að af hálfu starfsmanna fyrirrennara stefnanda hafi legið fyrir loforð um að því tryggingabréfi yrði aflýst að uppfylltum skilyrðum sem hafi verið uppfyllt.

Í fyrsta lagi verður vikið hér að þeirri málsástæðu stefnda Hreggviðs, að sýkna beri hann alfarið af greiðslukröfu stefnanda, þar sem ógilda beri skuldbindingar hans samkvæmt lánssamningi nr. 11022 á þeim forsendum að hann hafi við töku þess láns verið blekktur af starfsmönnum fyrirrennara stefnanda til lántöku til hlutabréfakaupa í Straumi-Burðarás hf., eða þá ekki notið forsvaranlegrar ráðgjafar í þeim viðskiptum.

Fyrir liggur í málinu að stefndi Hreggviður gerði 17. október 2007 lánssamning nr. 11022 við fyrirrennara stefnanda LBI hf., í tengslum við kaup hans, sem fóru í öllu falli fram fyrir milligöngu LBI hf., á hlutabréfum í Straumi-Burðarás hf., en kaupnótur gefa til kynna að hlutbréfakaupin teljist hafa átt sér stað í tvennu lagi, 19. október og 1. nóvember 2007, en uppgjör telst hafa verið 24. október og 26. nóvember sama árs.  

Eins og stefnandi hefur vísað til þá verður ekki séð að Landsbankinn hf. hafi tekið við skuldbindingum LBI hf. varðandi ágreining um sölu hlutabréfa sem slíkra, sbr. 7. gr. í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 og viðauka við hana, sbr. ákvörðun þess 19. október 2008 um afleiðusamninga auk viðauka. En hvað varðar síðan töku láns í þessu skyni, sbr. lánssamning nr. 11022, þá liggur fyrir að stefndi, sem er löggiltur endurskoðandi, sóttist sjálfur upphaflega eftir lántöku til að fjármagna viðskipti sín við LBI hf. með fjármálagerninga og voru honum óumdeilt í janúar 2006 látnar í té leiðbeiningar til viðskiptamanna um áhættu tengda markaðsviðskiptum, þar á meðal í skráðum félögum. Þá verður hér einnig að líta til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 489/2001 þar sem vísað var til þess að starfsmönnum LBI hf. hefði á því tímabili sem hér um ræðir ekki mátt vera ljóst að hlutabréf í Straumi-Burðarás hf. yrðu verðlaus síðar. Geta þau takmörkuðu og almennu gögn er stefndi hefur nú lagt fram í málinu um þessi efni ekki leitt til annarrar ályktunar um þetta. Verður því með hliðsjón af framangreindu að hafna þessari sýknuáðstæðu stefnda Hreggviðs í málinu.

Í öðru lagi er hér fyrir hendi ágreiningur málsaðila um það hvort, eða að hvaða marki, stefnandi eigi mögulega greiðslukröfu á hendur stefnda umfram það sem stefndi getur, við svo búið, fallist á að sé samkvæmt lánssamningi nr. 11022. Það er að stefndi verði þá einungis dæmdur til þess að greiða stefnanda 31.982.551 krónu með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 38/2001 frá dómsuppsögu til greiðsludags. En fyrir liggur að uppreiknuð dómkrafa stefnanda á hendur stefnda Hreggviði vegna lánssamningsins eftir leiðréttingu miðar við 50.035.384 krónur, ásamt vöxtum og dráttarvöxtum, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 23. júní 2014 til greiðsludags.

Hvað varðar þennan ágreining málsaðila, þá verður að fallast á með stefnanda að umræddur lánssamningur nr. 11022 telst samkvæmt ákvæðum hans vera peningalán, sem telst vera formlega afmarkað frá þeim kaupum stefnda á hlutabréfum sem einkum virðist þó hafa verið lánað fyrir og tekur fyrning á höfuðstólsfjárhæð lánsins því mið af  þessu, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 390/2013. Verður við það að miða að samkvæmt skilmálum lánssamningsins hafi krafan á stefnda stofnast við útborgun þess, 23. janúar 2008. Af því leiðir að lög nr. 150/2007 gilda þá um fyrningu þeirra kröfuréttinda sem lánssamninginn varðar, sbr. 28. gr. hans, en málsaðilar eru að öðru leyti sammála um að þessi lagaskil hafi þó ekki sérstaka þýðingu við úrlausn málsins. Leiðir þá af 1. málslið 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007 að fyrningarfrestur höfuðstóls lánsins telst vera 10 ár. Þar sem miðað er við það í 2. gr. lánssamningsins að gjalddagi lánsins yrði að tveimur árum liðnum frá því að lánið taldist hafa verið veitt, þá liggur ljóst fyrir að krafa stefnanda á stefnda um endurgreiðslu á höfuðstól lánssamningsins telst ótvírætt vera ófyrnd, enda er mál þetta hafið með birtingu stefnu 13. janúar 2017.

Hvað varðar þá ágreining málsaðila um vexti og endurútreikning höfuðstóls, þá liggur fyrir að dómkrafa stefnanda byggir á fyrirliggjandi endurútreikningi hans á láni samkvæmt lánsamningi nr. 11022, sem var í íslenskum krónum en bundið við erlenda mynt, sbr. ákvæði 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010. Að teknu tilliti til breyttrar kröfugerðar stefnanda í málinu frá því sem var í stefnu, með hliðsjón af tímabundnu greiðsluskjóli stefnda, þá verður ekki séð að fallist verði á það með stefnda að útreikningar á kröfu stefnanda séu ekki til samræmis við lög nr. 150/2007, eða þá að hluti kröfu hans sé niður fallinn vegna fyrndra vaxta. Verður því tekið mið af dómkröfu stefnanda eins og hún liggur fyrir í kröfugerð hans.

Í þriðja lagi, hvað varðar ágreining málsaðila um að stefnanda verði nú með dómi heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt samkvæmt tryggingarbréfum sem stefnandi telur sig eiga í eignarhlutum stefndu Guðrúnar Bjarkar í Malarási 11, þá verður, að því gættu að fallist hefur verið hér á framangreinda skuldakröfu stefnanda, að líta svo á að eftirstandandi ágreiningur aðila um heimild til fjárnáms í tryggingaréttindum snúi nú einvörðungu að því að stefndu verði þá engu að síður sýknuð af slíkri kröfu hvað varði tryggingarbréf nr. 0135-63-354142, útgefið 9. mars 2007, upphaflega að fjárhæð 20.000.000 krónur, þar sem útibússtjóri fyrirrennara stefnanda hafi sérstaklega lofað stefnda Hreggviði að því tiltekna veðbréfi yrði aflýst, sem ekki hafi þó verið gert.

Hér verður þá til þess að líta að í 9. gr. umrædds lánssamnings nr. 11022 kemur fram, að til tryggingar á lánum sem veitt kunni að verða samkvæmt samningnum „verða núverandi allsherjarveð tryggð með veði í ýmsum eignum lántaka“. Þá segir að til tryggingar greiðslu samkvæmt samningnum hafi lántaki „sett bankanum að veði hlutabréf í STRB að nafnvirði kr. 1.350.000,-, skv. handveðsyfirlýsingu nr. 0135-63-354351“. En að mati dómsins veitir umræddur texti takmarkaðar vísbendingar um það hvort heimfæra megi að öllu öðru virtu hér undir framangreint umdeilt tryggingarbréf.

Af hálfu stefnanda þá hefur einkum verið vísað til þess að í fyrirliggjandi afsali, dags. 21. mars 2010, vegna sölu stefnda til meðstefndu á Malarási 11, komi skýrt fram sem áhvílandi á fasteigninni umrætt tryggingarbréf stefnanda er ekki hafi verið aflýst. Í afsalinu er svo einnig vísað til kaupsamnings, dags. 1. október 2010, en ljóst sé að stefndi hafi ekki gert athugasemd við tryggingarbréfið fyrr en í bréfi 1. febrúar 2010. Þá er af hálfu stefnanda vísað til vitnisburðar Árna Ragnars Magnússonar, fyrrum útibússtjóra, hér fyrir dómi, sem annaðist um lánsviðskiptin, um að lánveitingin hafi tekið mið af áframhaldandi tilvist tryggingarbréfsins er öllum hafi mátt vera ljóst.

Af hálfu stefnda er hins vegar einkum byggt á fyrirliggjandi vitnisburði Gunnars Kristjánssonar, fyrrum útibússtjóra, sbr. skjalfesta yfirlýsingu hans frá 22. janúar 2010, vottaða af Sigurði Þ. Þórðarsyni, fyrrum starfsmanni bankans, sem þeir báðir staðfestu hér fyrir dómi, þess efnis að stefnda hafi sannarlega verið lofað því af hálfu bankans að umræddu tryggingarbréfi, upphaflega að fjárhæð 20.000.000 króna, yrði aflýst við uppgreiðslu eldri lánssamnings, sem þó hafi láðst að gera vegna skyndilegs fráhvarfs Gunnars sem útibússtjóra. Er það mat dómsins að með hliðsjón af þeirri afdráttarlausu yfirlýsingu Gunnars Kristjánssonar, er þá hafi haft ótvírætt stöðuumboð til að láta hana í té, þá hafi stofnast bindandi loforð af hálfu stefnanda gagnvart stefnda Hreggviði þess efnis að umræddum veðréttindum í formi tryggingabréfs yrði aflýst af fasteigninni Malarási 11, þegar fyrri viðskipti aðila væru uppgerð, sem ekki var þó gert. En hvað varði frekari samskipti aðila, þá telur dómurinn að líta verði einnig til þess að stefnda var svo einnig látið í té yfirlit frá bankanum, dags. 24. ágúst 2007, um yfirlit yfir samninga og tryggingar, þar sem umrædds tryggingarbréfs er að engu getið.

Vissulega má telja það vera nokkurt tómlæti af hálfu stefnda að hafast ekki að gagnvart stefnanda með athugasemdir vegna tilvistar tryggingarbréfsins sem þinglýsts veðskjals, fyrr en í febrúar 2010. Það sýnir þó, að mati dómsins, eitt og sér ekki fram á að síðara samkomulag hafi verið gert um að tryggingarbréfið hafi átt að halda gildi sínu við síðari viðskipti. Að framangreindu virtu verður því að leggja það hér til grundvallar, sbr. einnig framburð stefnda Hreggviðs hér fyrir dómi, að hann hafi við gerð lánssamnings nr. 11022 mátt byggja á því loforði útibússtjórans að umræddu tryggingarbréfi, nr. 0135-63-354142, yrði aflýst og að það kæmi ekki til álita sem veðskjal í tengslum við umrædd viðskipti með lánssamning nr. 11022, enda eðlilegt skýringarsjónarmið að meta verði hér stefnanda, sem lánastofnun er stóð að samningsgerð, allan vafa í óhag við það að tryggja umdeild réttindi gagnvart stefndu. Verður því, með hliðsjón af framangreindu, að sýkna stefndu af kröfu stefnanda um það að honum verði heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt í eignarhlutum stefndu Guðrúnar, í fasteigninni Malarási 11 Reykjavík, samkvæmt tryggingarbréfi nr. 0135-63-354142, upphaflega að fjárhæð 20.000.000 króna.

Með hliðsjón af öllu hér framangreindu þá verður, að mati dómsins, ekki talið að aðrar fram komnar röksemdir eða málsástæður hafi við svo búið sérstaka þýðingu í málinu eða geti leitt til annarrar niðurstöðu, sbr. e-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991.

Að öllu hér framangreindu virtu, þá verður það því niðurstaða dómsins að fallast verði á kröfuréttindi stefnanda gagnvart stefnda Hreggviði, sbr. dómkröfu hans. Einnig að stefnandi eigi heimild til fjárnáms í óumdeildum veðréttindum samkvæmt tryggingarbréfi nr. 0135-63-353797, útgefnu 16. febrúar 2006, upphaflega að fjárhæð 10.000.000 króna.  Hins vegar verður, svo sem að framan er rakið, ekki fallist á að lagaskilyrði séu hér til þess að stefnanda verði heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt í eignarhlutum stefndu, Guðrúnar Bjarkar Benediktsdóttur, í fasteigninni Malarási 11, samkvæmt tryggingarbréfi nr. 0135-63-354142, upphaflega að fjárhæð 20.000.000 króna og verða stefndu því sýknuð af þeirri dómkröfu stefnanda í máli þessu.

Að þessum úrslitum fengnum þykir rétt að málskostnaður á milli aðila falli niður.      

Málið flutti Ásgeir Jónsson lögmaður, fyrir stefnanda, en Ásgeir Þór Árnason lögmaður, fyrir stefndu.

Pétur Dam Leifsson héraðsdómari kvað upp dóminn. Dómarinn tók við meðferð máls þessa þann 10. janúar sl., en hafði fram til þess engin afskipti af meðferð þess.

 

D ó m s o r ð

Stefndi, Hreggviður Þorsteinsson, greiði stefnanda, Landsbankanum hf., skuld að fjárhæð 50.035.384 krónur, ásamt 6.75% ársvöxtum frá 23. júní 2014 til 1. desember 2014, 6.50% ársvöxtum frá þeim degi til 1. febrúar 2015, 6.00% ársvöxtum frá þeim degi til 21. apríl 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnanda, Landsbankanum hf., er heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt sem stefnandi á í eignarhlutum stefndu, Guðrúnar Bjarkar Benediktsdóttur, í fasteigninni Malarási 11, fnr. 204-6123, 110 Reykjavík, samkvæmt tryggingarbréfi nr. 0135-63-353797, útgefnu 16. febrúar 2006 upphaflega að fjárhæð 10.000.000,00 króna miðað við grunnvísitölu 249,5 sem breytist í samræmi við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar, sett til tryggingar framangreindri skuld stefnda Hreggviðs. 

Stefndu, Hreggviður Þorsteinsson og Guðrún Björk Benediktsdóttir, eru sýknuð af kröfu stefnanda, Landsbankans hf., þess efnis að stefnanda verði heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt í eignarhlutum stefndu, Guðrúnar Bjarkar Benediktsdóttur, í fasteigninni Malarási 11, fnr. 204-6123, 110 Reykjavík, samkvæmt tryggingabréfi nr. 0135-63-354142, upphaflega að fjárhæð 20.000.000 króna, sett til tryggingar framangreindri skuld stefnda Hreggviðs.

Málskostnaður fellur niður.

 

Dóminn kveður upp Pétur Dam Leifsson héraðsdómari.