• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 16. október 2018 í máli nr. S-577/2018:

Ákæruvaldið

(Pétur Hrafn Hafstein saksóknarfulltrúi)

gegn

X

 

 

            Mál þetta sem dómtekið er í dag var höfðað með ákæru útgefinni af héraðssaksóknara þann 20. september 2018 „á hendur X, kennitala [...], [...], [...], fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa laugardaginn 11. mars 2017, að [...] í [...], hótað að taka lögreglukylfu af lögreglumanninum A, sem var þar við skyldustörf, og valda honum líkamsmeiðingum með henni.

            Telst þetta varða við 1.mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að hann er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærði er fæddur í [...] [...]. Hann hefur einu sinni gengist undir lögreglustjórasátt vegna umferðar- og fíkniefnalagabrota. Við ákvörðun refsingar verður litið til játningar ákærða og þess að hann hefur nú tekið sig á. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga en fullnustu refsingarinnar er frestað og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Engan kostnað leiddi af meðferð málsins.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Pétur Hrafn Hafstein saksóknarfulltrúi.

            Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                              D Ó M S O R Ð :

            Ákærði, X, sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.