• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot
  • Útivist
  • Ökuréttarsvipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2018  í máli nr. S-636/2017:

Ákæruvaldið

(Jóhann Svanur Hauksson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Herði Hákoni Jónssyni

 

            Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 7. nóvember 2017, á hendur Herði Hákoni Jónssyni, kt. 000000-0000, [--], Reykjavík, fyrir eftirtalin umferðarlagabrot á árinu 2017 í Reykjavík með því að hafa:

 

I.

Sunnudaginn 25. júní ekið bifreiðinni [--] sviptur ökurétti um Suðurhlíð við Fossvogskirkjugarð uns aksurinn var stöðvaður skömmu síðar.

 

II.

Aðfaranótt laugardagsins 5. ágúst ekið bifreiðinni [--] sviptur ökurétti norður Snorrabraut við bensínstöð ÓB uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

 

III.

Fimmtudaginn 24. ágúst ekið bifreiðinni [--] sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist tetrahýdrókannabínól 1,6 ng/ml) vestur Bústaðaveg við Grensásveg uns aksturinn var stöðvaður skömmu síðar.

 

Teljast brot í öllum liðum varða við 1. mgr. 48. gr., og brot í lið III auk þess við 1. og 2. mgr. 45. gr. a., allt sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006

 

       Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006

 

 

 

 

       Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins og hafði ekki boðað forföll en hafði verið birt ákæra og fyrirkall með birtingu í Lögbirtingablaði 20. febrúar sl. Verður málið dæmt samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála enda var þess getið í fyrirkallinu að þannig gæti farið um meðferð málsins.

Með vísan til framanritaðs og til rannsóknargagna málsins telst framangreind háttsemi sönnuð og er hún rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

       Ákærði er fæddur í maí 1976. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 26. október 2017, gekkst hann undir sektarrefsingu með lögreglustjórasátt vegna fíkniefnaaksturs, 31. júlí 2013 og aftur með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 7. september 2016, vegna sams konar brots.

       Með hliðsjón af framangreindu, dómaframkvæmd og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga.

       Með vísan til lagaákvæða í ákæru, einkum 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga, er ákærði sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.

       Ákærði greiði 138.909 krónur í sakarkostnað.

       Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

 

                                                D Ó M S O R Ð:       

       Ákærði, Hörður Hákon Jónsson, sæti fangelsi í 30 daga.

       Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.

       Ákærði greiði 138.909 krónur í sakarkostnað.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir