• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Refsiákvörðun

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júlí 2018 í máli nr. S-274/2018:

Ákæruvaldið

(Matthea Oddsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

A

(Oddgeir Einarsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 27. júní 2018, var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dags. 3. maí 2018 á hendur:

 

„A, kennitala 000000-0000,

[...], 201 Kópavogi

 

fyrir ólögmæta nauðung og barnaverndarlagabrot, með því að hafa [...] 2016 hlaupið ógnandi og öskrandi á eftir B, þá 14 ára, frá [...] að [...] í Reykjavík, þar sem  hann náði taki á úlpuermi stúlkunnar, hélt henni fastri og öskraði á hana, þar til íbúi að [...] kom út og  náði að koma stúlkunni inn á heimili sitt  en ákærði reyndi að komast öskrandi inn á eftir þeim, þannig að halda þurfti hurðinni.

 

Telst brot þetta varða við 225. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. 

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

            Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.

 

            Ákærði er fæddur árið 1995. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað en atvik áttu sér stað í [...] 2016. Þá hefur ákærði játað brot sitt skýlaust. Ákærði iðrast gjörða sinna og hefur sýnt það í verki með því að leita sér aðstoðar eins og framlagt sálfræðivottorð ber með sér. Kemur þar fram að atvikið hafi tekið á hann andlega en honum tekist að vinna úr því með ábyrgum hætti.

Ákærði var sjáanlega undir áhrifum fíkniefna þegar hann var handtekinn í kjölfar atburða þessara. Hann kvað alla skynjun sína hafa verið brenglaða umrætt sinn en hann hefði tekið LSD og hefði það ráðið gjörðum hans.

Ákærði ber ábyrgð á gjörðum sínum þó hann hafi verið undir áhrifum fíkniefna. Á hinn bóginn má leggja til grundvallar að ásetningur hans hafi verið þokukenndur umrætt sinn. Þó að ekki liggi fyrir bótakrafa í málinu og að ráðið verði af framburði brotaþola að atvikið hafi ekki valdið henni verulegri vanlíðan lítur dómurinn háttsemi ákærða alvarlegum augum enda var hún til þess fallin að valda brotaþola, sem í þessu tilviki var ung stúlka, mikilli hræðslu.

Að öllu framangreindu virtu og þegar litið er til þess að mál þetta hefur dregist óhæfilega miðað við umfang hjá ákæruvaldinu verður ákvörðun um refsingu ákærða frestað og fellur hún niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar lögmanns, 518.568 krónur, þar með talið fyrir vinnu hans á rannsóknarstigi. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málsvarnarlauna. Þá skal ákærði greiða 231.965 krónur í annan sakarkostnað samkvæmt framlögðu sakarkostnaðaryfirliti.

 

            Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

 

                                                            D ó m s o r ð :

            Ákvörðun refsingar ákærða, A, er frestað og fellur niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar lögmanns, 518.568 krónur, og 231.965 krónur í annan sakarkostnað.

 

                                                            Sigríður Hjaltested (sign.)