• Lykilorð:
  • Líkamsárás

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2019 í máli nr. S-555/2018:

Ákæruvaldið

(Vilhjálmur Reyr Þórhallsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Benjamín Harðarsyni

                                                (Þormóður Skorri Steingrímsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 14. janúar 2019, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglu­stjóranum á höfuðborgarsvæðinu 11. september 2018, á hendur Benjamín Harðarsyni, kt. [... ],  „fyrir líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 7. maí 2016 utandyra við skemmtistaðinn Lebowski bar við Laugaveg 20 í Reykjavík, veist með ofbeldi að E, og slegið hann ítrekað hnefahöggum í andlit, höfuð og líkama og ýtt honum þannig að hann féll í götuna, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut nefbeinabrot, mar á nefi, glóðarauga beggja vegna, skurð á hægri augabrún, tvísýni, heilahristing og yfirborðsáverka á vinstri fótlegg.

(Mál nr. 007-2016-25745)

 

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

Þá gerir Sif Magnúsdóttir hdl., fyrir hönd E kröfu til þess að ákærði Benjamín Harðarson verði dæmdur til greiðslu skaða- og miskabóta að fjárhæð kr. 1.025.250 að viðbættum vöxtum frá 7. maí 2016 til greiðsludags samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., samanber 9. gr. sömu laga, að mánuði liðnum frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

Þá er þess krafist að sakborningur verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar vegna þóknunar lögmanns kröfuhafa fyrir að hafa uppi bótakröfu þessa samkvæmt mati réttarins.“

Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins en til þrautavara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst verjandi hans málsvarnarlauna.

 

Málavextir:

            Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að aðfaranótt laugardagsins 7. maí 2016 hafi lögregla verið kölluð að Lebowski bar við Laugaveg vegna slagsmála. Fyrir utan staðinn hafi verið hópur manna, þ. á m. brotaþoli E. Hann hafi verið í miklu uppnámi og lítið getað tjáð sig sökum ölvunar. Hann sagðist hafa verið sleginn með krepptum hnefa og vissi ekki hvers vegna. Hann var með skurð fyrir ofan hægra auga og bólginn á hægri kinn. Vinir brotaþola hafi bent lögreglu á mann sem átti að hafa ráðist á brotaþola en það reyndist vera ákærði í máli þessu. Hann stóð hinum megin götunnar ásamt erlendri stúlku. Ákærði skýrði lögreglu frá því að brotaþoli hefði sýnt honum og vinum hans mikinn hroka, verið með leiðindi og rifið kjaft. Ákærði hefði orðið reiður og misst stjórn á skapi sínu. Hefði hann slegið brotaþola tvisvar til þrisvar sinnum með krepptum hnefa. Hann kvaðst ekki vita hvar hann hefði slegið brotaþola en hélt að það hefði verið í andlitið. Hann viðurkenndi enn fremur að hafa ýtt brotaþola í götuna. Brotaþoli hafi ekki slegið hann til baka. Ákærði viðurkenndi að hann hefði haldið áfram að veitast að brotaþola hefði erlenda stúlkan ekki stöðvað hann. Í frumskýrslu er ekki hafður framburður eftir öðrum en ákærða og brotaþola á vettvangi.

            Brotaþola var ekið á slysadeild. Samkvæmt læknisvottorði, dagsettu 10. nóvember 2016, greindist hann með nefbeinsbrot (S02.2), tvísýni (H53.2), heilahristing (S06.0) og yfirborðsáverka á fótlegg, ótilgreindur (S80.9). Brotaþoli hlaut bæði nefbrot og heilahristing. Reiknaði læknirinn með að tvísýni hans hefði rjátlast af honum á nokkrum dögum eða viku. Í vottorðinu hefur læknirinn eftir brotaþola að hann hafi verið staddur niðri í bæ. Hann hefði verið að ræða við vin sinn og hefði verið kýldur upp úr þurru í bringuna. Hann hefði legið í jörðinni og hefði þá höggin dunið endurtekið á honum. Hann hafi ekki rotast og muni eftir atvikum.

   Hinn 12. maí 2016 mætti brotaþoli á lögreglustöð og kærði líkamsárás sem hann hefði orðið fyrir. Í kæruskýrslu hans kemur fram að hann hafi verið fyrir utan Lebowski bar er hann hafi lent í einhverju rifrildi við strák. Hafi hann ekki vitað fyrr en strákurinn hafi komið aftan að honum og sparkað í hann þannig að hann féll í gangstéttina. Hann hafi fundið högg og spörk sem lentu í andliti og höfði hans og hafi hann reynt að verja höfuðið eins og hann gat. Hann viti ekki hvort fleiri en þessi strákur hafi tekið þátt í árásinni á hann.

   Lögregla hóf rannsókn málsins sem fólst í öflun læknisvottorðs og skýrslutökum. Ákærði var yfirheyrður með réttarstöðu sakbornings 10. maí 2017. Hann greindi frá því að hann hefði verið að ganga niður Laugaveginn með félögum sínum. Að þeim hefði komið hávaxinn gæi og tekið í hann. Þetta hafi „strákarnir“ sagt honum og sagt honum að hann hafi kýlt einhvern. Hann muni eftir því að vera að kýla og að félagi hans hafi tekið brotaþola í lás og ákærði hefði farið í adrealínkast. Hann muni þetta þó ekki vel. Hann haldi að þetta hafi verið meira svona að brotaþoli hafi tekið í hann og sagst geta lamið þá alla. Félagi hans hafi þá tekið hann í lás og þá æstist ákærði upp og kýldi brotaþola. Hann haldi að félagi hans hafi tekið sig í höfuðlás því hann var svo æstur.

 

Enn fremur voru þrír aðrir menn yfirheyrðir með réttarstöðu sakbornings og einn með réttarstöðu vitnis.

 

Skýrslutökur fyrir dómi:

Ákærði man að hafa verið fyrir utan skemmtistaðinn Lebowski með æskuvinum sínum, B, H, K og Í. Hann man eftir að það hafi verið æsingur í gangi en svo muni hann ekkert, þ.e. hafi farið í svokallað black-out.  Var svo að skilja á ákærða að framburður hans hjá lögreglu, þar sem hann viðurkenndi sök sína, hefði verið tilkominn vegna þess að hann og vinir hans hefðu verið að rifja upp atvik málsins. Hann hefði sagt það sem hann hélt að hefði gerst. Aðspurður sagðist ákærði vera 174 cm á hæð.

Brotaþoli kveðst hafa komið út af skemmtistaðnum Lebowski og gengið yfir götuna. Þar hafi hann hitt fyrir mann sem hann hafi átt í orðaskiptum við. Maðurinn hafi slegið hann í andlitið, að því að brotaþoli telur hnefahöggi, en hann hafi vankast við það. Hafi brotaþoli við það fallið í jörðina. Við það hafi hann fengið fleiri högg í líkamann, aðallega bringu og bak. Hann hafi reynt að verja höfuðið með því að halda um það. Hann hafi þó hugsanlega fengið högg í hnakka og hendur. Taldi hann að spörkin hefðu komið frá fleiri en einum er hann lá í götunni. Hann kvaðst ekki hafa þekkt manninn sem réðst á hann. Aðspurður kvaðst brotaþola vera rúmlega tveir metrar á hæð.

B skýrði svo frá að hann hefði verið með félögum sínum fyrir utan Lebowski. Brotaþoli hefði komið upp að þeim og spurt um vin sinn. Hann hefði tekið utan um höfuð ákærða. Bragi hefði þá tekið brotaþola í höfuðlás og þá hefðu slagsmáls hafist. Hefði ákærði kýlt brotaþola. Hann taldi að félagar þeirra, H og K hefðu líka tekið þátt. Brotaþoli hefði fallið í jörðina þegar hann hafi verið með hann í hálstaki og þá hefðu slagsmálin stöðvast. B hefði síðar tekið ákærða líka í höfuðlás. Hann hefði verið farinn er lögregla kom á vettvang. B bar ítrekað fyrir sig minnisleysi um atburðinn.

H skýrði svo frá að hann hefði verið með félögum sínum niðri í bæ. Þar hafi brotaþoli komið að þeim og slegið ákærða. B hafi tekið brotaþola í höfuðlás og hafi ákærði slegið brotaþola. Hafi brotaþoli verið tekinn niður í jörðina. Vitnið bar að öðru leyti fyrir sig minnisleysi um atvik næturinnar. Hann taldi að hann hefði sjálfur ekki tekið þátt í slagsmálunum. Framburður hans hjá lögreglu er á svipuðum nótum en hann spyr þó hvort hann fái sömu refsingu og ákærði komi í ljós að hann hafi kýlt brotaþola einu sinni.

C skýrði svo frá að hann hefði verið með félögum sínum fyrir utan Lebowski. Brotaþoli hefði komið þar að og sagt að hann gæti lamið þá alla. Brotaþoli hefði verið að „böggast“ í ákærða. Ákærði hefði lagt hendur á brotaþola og kýlt hann nokkur högg í andlitið. B hefði tekið brotaþola í höfuðlás og tekið hann niður. Vitnið sagðist ekki hafa blandast í átökin. Enginn annar en ákærði hefði tekið þátt í árásinni á brotaþola. Vitnið bar fyrir sig minnisleysi um atvik.

Þ sagðist hafa verið staddur fyrir utan Lebowski. Hann hefði setið á girðingu fyrir utan staðinn. Brotaþoli hefði komið að strákunum og svo hafi allt í einu byrjað slagsmál. Ákærði hefði slegið brotaþola nokkur högg. Síðan hefði B komið og reynt að stoppa þetta með því að taka annan hvorn þeirra hálstaki. Hann hafi ekki séð brotaþola veita ákærða högg. Hann hefði ekki séð aðra veitast að brotaþola. Þeir hafi verið í götunni um tíma.

Í, félagi ákærða, kveðst hafa verið fyrir utan Lebowski bar. Þá hefði lögreglan komið að. Hann hefði vitað að það hefðu verið slagsmál en hann hafi sjálfur engin slagsmál séð.

S var við störf á Lebowski bar umrædda nótt. Hún fór út að reykja eftir lokun og hafi þá verið slagsmál í gangi. Hún man eftir að brotaþoli (stóri gæinn) hafi verið tekinn niður og hafi farið í jörðina.Hún hafi ekki séð aðdragandann að því. Hafi einhverjir tveir farið á hann (þ. á m. sá sem tók brotaþola niður), barið og sparkað í hann. Lágvaxnari maðurinn hefði veitt brotaþola hnefahögg. Hefðu slagsmálin verið stöðvuð af dyravörðum. Hún hafi hringt í lögreglu.

V var að vinna sem dyravörður á Lebowski bar umrædda nótt. Eftir lokun hefði komið til slagmála þar sem hávaxinn maður hefði verið laminn. Lögregla hefði komið á vettvang. Lögregla hefði talað við mann sem vitnið hefði séð kýla brotaþola. Hefði lögregla síðan sagt honum að maðurinn hefði viðurkennt að hafa kýlt brotaþola og þeir þyrftu því ekki að ræða frekar við hann.

J var að vinna sem dyravörður á Lebowski bar umrædda nótt. Hann bar að eftir lokum hefði hópur fólks ráðist á hávaxinn mann. Fyrst hefði brotaþoli verið standandi en síðan hafi hann verið dreginn niður í jörðina þar sem haldið var áfram að veitast að honum með höggum í höfuð og skrokk. Dyraverðir hefðu stöðvað átökin og hefði lögregla síðan komið á svæðið. Hann gat ekki lýst árásarmönnunum né hver þáttur þeirra var. Hann sagði að hann teldi að allir hefðu í raun átt hlut að máli hvort sem það væri beint eða óbeint.

SE var að vinna sem dyravörður á Lebowski bar umrædda nótt. Það hefði verið búið að loka staðnum og hefðu þá átök átt sér stað fyrir utan staðinn. Manni hefði verið haldið og verið var að kýla hann. Hann minnti að árásarmaðurinn hefði verið í hvítri skyrtu. Brotaþoli hefði verið hávaxinn. Árásarmaðurinn hefði kýlt hávaxna manninn þar sem vinur hans hefði haldið honum. Hann hefði ekki séð þann sem var með brotaþola í taki slá hann. Hann mundi ekki hvort átökin hefðu endað í götunni. Aðrir dyraverðir hefðu stöðvað átökin. Hann bar kennsl á ákærða sem árásarmanninn í dómsal.

R lögreglumaður staðfesti frumskýrslu sína í málinu. Hún mundi lítið eftir málinu. Framburður hefði verið settur inn í bókun af öðrum lögreglumönnum og hefði hún haft hana til hliðsjónar við gerð frumskýrslunnar.

A lögreglumaður kvaðst ekkert muna eftir málinu en hún mun hafa komið með lögreglu á vettvang.

B, sérfræðingur í bráðalækningum, staðfesti vottorð sitt um áverka á brotaþola.

 

Niðurstaða:

Frávísunarkrafa ákærða er á því byggð að fjöldi vitna sem ekki hafi gefið skýrslu hjá lögreglu hafi komið fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins. Telur ákærði að þetta hafi brotið gegn rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar. Að mati dómsins verður að horfa til þess að lögregla taldi forsendur til þess að gefa út ákæru á grundvelli þeirra gagna sem voru fyrir hendi og verður það mat lögreglu ekki endurskoðað af dóminum. Þá verður ekki séð að það hafi komið niður á vörn ákærða þótt vitni sem ekki gáfu skýrslu hjá lögreglu hefi verið leidd fyrir dóminn. Verður frávísunarkröfu því hafnað.

Atvik máls áttu sér stað eftir lokun skemmtistaða aðfaranótt laugardagsins 7. maí 2016. Langt er um liðið og þá voru mörg vitna undir áhrifum áfengis umrædda nótt sem hafði greinilega áhrif á framburð þeirra fyrir dóminum.

Ákærði neitar sök. Fyrir dómi kvaðst hann ekki muna eftir atvikum sökum ölvunar. Á vettvangi er haft eftir ákærða að hann hafi slegið brotaþola tvisvar til þrisvar sinnum með krepptum hnefa. Hann kvaðst ekki vita hvar hann hefði slegið brotaþola en hélt að það hefði verið í andlitið. Hann viðurkenndi enn fremur að hafa ýtt brotaþola í götuna. Í skýrslu hjá lögreglu 10. maí 2017 kemur fram að ákærði muni ekki vel eftir málavöxtum vegna ölvunar en hann muni eftir því að vera að kýla hávaxinn mann. Virðist hafið yfir vafa að það hafi verið brotaþoli en hann er yfir tveir metrar á hæð.

Félagar ákærða bera að ákærði hafi kýlt eða slegið brotaþola. Þannig bar B að hann hefði tekið brotaþola í höfuðlás og þá hafi ákærði kýlt hann. Hann hélt að H og C hefðu enn fremur slegið brotaþola. H bar að B hefði tekið brotaþola í höfuðlás og þá hefði ákærði slegið hann. C bar að ákærði hefði kýlt brotaþola í andlitið. Þá bar Þ að ákærði hefði slegið brotaþola nokkur högg. Þessir þrír síðastnefndu bera ekki um þátt annarra en ákærða.

Nokkrir starfsmenn skemmtistaðarins Lebowski gáfu skýrslu fyrir dóminum en þeir höfðu ekki verið kallaðir til skýrslutöku hjá lögreglu. Þannig bar SE dyravörður að hávöxnum manni hefði verið haldið og hafi maður í hvítri skyrtu verið að slá hann. Bar hann kennsl á manninn sem ákærða. V dyravörður bar að hávaxinn maður hefði verið laminn. Lögregla hefði talað við árásarmanninn á vettvangi en það stemmir við ákærða. S starfsmaður bar að brotaþoli hefði verið tekinn niður. Tveir menn hefðu farið á hann, þ. á m. sá sem hafi tekið hann niður, barið og sparkað í hann. Hafi lágvaxnari maðurinn kýlt brotaþola. J dyravörður bar að hópur fólk hefði ráðist á ákærða.

Eins og fram hefur komið er frásögn brotaþola misvísandi um atvik máls. Í frumskýrslu kemur fram að hann hafi verið í miklu uppnámi og lítið getað tjáð sig sökum ölvunar. Hann sagðist hafa verið sleginn með krepptum hnefa og vissi ekki hvers vegna. Í læknisvottorði er haft eftir honum að hann hefði verið að ræða við vin sinn og hefði verið kýldur upp úr þurru í bringuna. Hann hefði legið í jörðinni og hefðu þá höggin dunið endurtekið á honum. Í kæruskýrslu hjá lögreglu kvaðst brotaþoli hafa verið fyrir utan Lebowski bar er hann hafi lent í einhverju rifrildi við strák. Hafi hann ekki vitað fyrr en strákurinn hafi komið aftan að honum og sparkað í hann þannig að hann féll í gangstéttina. Hann hafi fundið högg og spörk sem lentu í andliti og höfði hans og hafi hann reynt að verja höfuðið eins og hann gat. Hann viti ekki hvort fleiri en þessi strákur hafi tekið þátt í árásinni á hann. Hann efist um að það hafi bara verið einn aðili sem sló og sparkaði í höfuð hans þar sem  hann lá á gangstéttinni. Fyrir dómi bar brotaþoli að hann hafi komið út af skemmtistaðnum Lebowski og gengið yfir götuna. Þar hafi hann hitt fyrir mann sem hann hafi átt í orðaskiptum við. Maðurinn hafi slegið hann í andlitið, að því er brotaþoli telur hnefahöggi, en hann hafi vankast við það. Hafi brotaþoli við það fallið í jörðina. Við það hafi hann fengið fleiri högg í líkamann, aðallega bringu og bak. Hann hafi reynt að verja höfuðið með því að halda um það. Hann hafi þó hugsanlega fengið högg í hnakka og hendur. Taldi hann að spörkin hefðu komið frá fleiri en einum er hann lá í götunni.

Með hliðsjón af framangreindum framburði ákærða, brotaþola og vitna telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi veitt brotaþola mörg hnefahögg sem lentu í andliti hans. Bæði veittist ákærði að brotaþola þar sem félagi ákærða, Bragi, hélt brotaþola í höfuðlás og þar sem brotaþoli lá í jörðinni. Þá virðist mögulegt að fleiri árásarmenn hafa slegist í leikinn en vafi leikur á því hverjir það hafi verið, hve margir þeir voru og hvað þeir gerðu. Þótt fleiri kunni að hafa veist að brotaþola þar sem hann lá í jörðinni á þess að veita mótspyrnu þá er að mati dómsins ósannað að þeir hafi veitt honum högg í höfuðið eins og talið er sannað að ákærði hafi gert. Verður því að telja að áverkar á höfði brotaþola séu tilkomnir vegna árásar ákærða en ósannað er að yfirborðsáverki á vinstri fótlegg sé tilkomin vegna ákærða.

 

            Heimfærsla til refsiákvæða, refsing, einkaréttarkrafa og málskostnaður:

Brot ákærða er réttilega heimfært til 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 í ákæru.

Ákærði er fæddur í [..]. Hann hefur samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði ekki sætt refsingu. Ekkert hefur komið fram í málinu sem réttlætir árás hans á ákærða. Hætta stafaði af árás ákærða en hann sló brotaþola ítrekað í höfuðið. Með hliðsjón af framangreindu þykir refsing hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði. Er fullnustu hennar frestað til tveggja ára haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Brotaþoli gerir kröfu um að ákærði greiði honum eina milljón króna í miskabætur og 26.815 krónur í útlagðan læknis-og lyfjakostnað. Brotaþoli hefur lagt fram reikninga sem sanna útlagðan kostnað og verður ákærði dæmdur til að greiða hann. Með vísan til læknisvottorðs er ljóst að ákærði hefur bakað sér bótaábyrgð gagnvart brotaþola. Verður hann með vísan til 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 dæmdur til að greiða honum 400.000 krónur í miskabætur og skal fjárhæðin bera vexti eins og í dómsorði segir. Við upphaf dráttarvaxta er tekið mið af því að ákærða virðist fyrst hafa verið kynnt bótakrafa við þingfestingu  málsins þrátt fyrir að hún lægi fyrir er hann var yfirheyrður hjá lögreglu vegna málsins. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða málskostnað lögmanns brotaþola, Sifjar Magnúsdóttir, sem ákveðst 250.000 krónur.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Þormóðs Skorra Steingrímssonar lögmanns, 483.460 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kristmundur Stefán Einarsson aðstoðarsaksóknari.

Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Benjamín Harðarson, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði E 426.815 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 7. maí 2016 til 17. nóvember 2018 en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags, auk 250.000 kr. í málskostnað.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Þormóðs Skorra Steingrímssonar lögmanns, 483.460 krónur.

 

                                                                        Kolbrún Sævarsdóttir                                                            

 

 

---------------------          ---------------------          ---------------------

Rétt endurrit staðfestir,

Héraðsdómi Reykjavíkur, 12. febrúar 2019