• Lykilorð:
  • Skipstjóri
  • Vanhæfi
  • Áminning/brottvikning skiptastjóra

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 12. apríl 2019 í máli nr. X-6/2019:

Arion banki hf.

(Ólafur Eiríksson lögmaður)

gegn

Sveini Andra Sveinssyni

(sjálfur)

 

 

Með vísan til 3. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., hefur sóknaraðili, Arion banki hf., uppi kröfu um úrskurð um að varnaraðila, Sveini Andra Sveinssyni, verði vikið úr starfi skiptastjóra þb. Wow air hf. Málið var þingfest 10. apríl sl., og tekið til úrskurðar sama dag að undangengnum munnlegum málflutningi.

Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði vikið úr starfi skiptastjóra þb. Wow air hf.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað.

 

Sóknaraðili byggir á því að hann hafi um árabil verið aðalviðskiptabanki Wow air hf. og fyrirséð sé að bankinn muni verða meðal stærstu kröfuhafa þrotabúsins. Sóknaraðili eigi því aðild að kröfu samkvæmt 3. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991.

Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili uppfylli ekki hæfisskilyrði 6. tölul. 2. mgr. 75. gr. laga nr. 21/1991. Þar sé kveðið á um að ekki megi skipa mann skiptastjóra ef hann yrði vanhæfur sem dómari í einkamáli sem þrotamaðurinn eða sá sem eigi kröfu á hendur þrotabúinu ætti aðild að. Varnaraðili hafi gætt hagsmuna Sunshine Press Productions ehf. og Datacell ehf. í máli þeirra gegn Valitor hf. nr. E-234/2015 sem rekið sé fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, ásamt öðrum tengdum málum. Í því sambandi sé hins vegar rétt að geta þess að 23. nóvember 2018 hafi nýr lögmaður Datacell ehf. upplýst að varnaraðili hefði ekki haft umboð til að reka mál Datacell ehf. síðan á árinu 2015 eða 2016.

Valitor hf., sem sé dótturfélag sóknaraðila, sé í nær 100% eigu bankans og fari hann með virkan eignarhlut í félaginu. Að mati sóknaraðila hafi háttsemi og aðgerðir varnaraðila í tengslum við framangreind mál verið þess eðlis að þær myndu leiða til þess að hann yrði talinn vanhæfur sem dómari í máli sem sóknaraðili ætti aðild að. Þannig hafi varnaraðili, fyrir hönd umbjóðenda sinna, gert kröfu um að Valitor hf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta, en að mati sóknaraðila hafi sú krafa með öllu verið án tilefnis. Varnaraðili byggi á því að við mat á þessari aðgerð verði að líta til þess að Valitor hf. sé fjármálafyrirtæki og það þurfi sem slíkt að uppfylla lögbundnar eiginfjárkröfur og það lúti jafnframt eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Krafa um gjaldþrotaskipti sé því gríðarlega alvarleg fyrir slíkt félag. Svo hafi farið að Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að umbjóðendur varnaraðila ættu enga lögvarða kröfu á hendur Valitor hf., sbr. dóm Hæstaréttar frá 2. mars 2015 í máli nr. 139/2015. Varnaraðili hafi einnig í tvígang, fyrir hönd umbjóðanda sinna, gert kröfu um kyrrsetningu eigna Valitor hf. Að mati sóknaraðila hafi þær verið án alls tilefnis, enda þeim hafnað í báðum tilvikum. Varnaraðili hafi einnig krafist þess, fyrir hönd umbjóðanda sinna, að Fjármáleftirlitið myndi stöðva „öll áform um það að færa eignarhald á Valitor út úr Arion banka samstæðunni“. Varnaraðili hafi jafnframt mótmælt því harðlega í bréfi til Fjármálaeftirlitsins 22. maí 2018 „að hlutabréf í Arion banka [yrðu] sett á opinn hlutabréfamarkað í Kauphöllinni í Reykjavík og Stokkhólmi“. Í sama bréfi hafi varnaraðili skorað á Fjármálaeftirlitið að sjá til þess að „bætt verði úr skráningarlýsingu Arion banka varðandi afkomu og framtíðarhorfur Valitor Holding hf. og dótturfélaga þess“. Ekki sé að sjá, að mati sóknaraðila, að áskorunin hafi verið gerð fyrir hönd umbjóðenda varnaraðila. Rétt sé að geta þess að umrætt bréf hafi samkvæmt efni sínu ekki verið sent til Valitor hf. Það hafi aftur á móti verið sent til sóknaraðila, Fjármála- og efnahagsráðuneytisins, ríkislögmanns, Kauphallar Íslands og Stockholmsbörsen.

Sóknaraðili bendi jafnframt á að svo virðist sem varnaraðili sé með samning um hagsmunatengingu við Sunshine Press Productions ehf., Datacell ehf. eða aðra sem hlut eigi í ætlaðri kröfu þeirra á hendur Valitor hf., sem fjallað sé um í héraðsdómsmálinu nr. E-234/2015. Varnaraðili virðist því hafa persónulega hagsmuni af úrslitum málsins. Telji sóknaraðili það skipta verulegu máli varðandi hæfi varnaraðila, enda gefi viðtal varnaraðila við DV 13. janúar 2018 til kynna þá persónulegu áherslu sem varnaraðili leggi á umrætt mál gegn Valitor hf. Í þessu sambandi verði einnig að hafa í huga að í flestum löndum Evrópu sé slík hagsmunatengd þóknun bönnuð, sbr. gr. 3.3 í siðareglum CCBE. Með hliðsjón af þessu sé skorað á varnaraðila að upplýsa og leggja fram gögn um hagsmunatengingu lögmannsþóknunar hans vegna héraðsdómsmálsins nr. E-234/2015. Sóknaraðili skori jafnframt á varnaraðila að upplýsa um hvort hann eigi hlutdeild í þeirri kröfu sem höfð sé uppi í framangreindu héraðsdómsmáli nr. E-234/2015. Ef svo sé byggi sóknaraðili á því að varnaraðili sé í aðstöðu sem jafna megi við stöðu aðila að máli nr. E-234/2015. Verði þá að meta hæfi varnaraðila í því ljósi.

Sóknaraðili byggi jafnframt á því að varnaraðili uppfylli ekki hæfisskilyrði 4. tölul. 2. mgr. 75. gr. laga nr. 21/1991. Þar sé meðal annars kveðið á um að ekki megi skipa mann í starf skiptastjóra ef hann hafi sýnt af sér athæfi sem geri hann óverðugan nauðsynlegs trausts til að geta gengt starfanum. Í úrskurði Landsréttar frá 15. janúar 2019 í máli nr. 933/2018 hafi verið fjallað um kröfu Valitor hf. um að mál yrði fellt niður vegna útivistar Datacell ehf. Atvik málsins hafi verið þau að með tölvupósti fyrirsvarsmanns Datacell ehf., 18. ágúst 2015, hafi málflutningsumboði varnaraðila verið sagt upp, auk þess sem fyrirsvarsmaður Datacell ehf. hafi sent Hæstarétti Íslands erindi sama efnis á sama tíma. Varnaraðili hafi hvorki upplýst héraðsdóm né Valitor hf. um uppsögn málflutningsumboðsins. Í fyrirtöku sem haldin hafi verið í málinu 23. nóvember 2018 hafi nýr lögmaður Datacell ehf. upplýst að varnaraðili hefði ekki haft umboð til að reka mál Datacell ehf. síðan á árinu 2015 eða 2016. Með hliðsjón af þessu hafi Valitor hf. byggt á því að útivist hefði orðið í málinu. Landsréttur hafi hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að þótt heimildir varnaraðila hefðu vegna þessa verið almennt takmarkaðri en þær sem almennt felast í málflutningsumboði yrði ekki fallist á að varnaraðila hefði skort umboð til að sækja þing í málinu. Sóknaraðili byggi á því að jafnvel þótt að fyrirsvarsmaður Datacell ehf. hafi, með bréfi til Landsréttar, gefið varnaraðila afturvirkt umboð til að „koma í veg fyrir réttarspjöll og halda kröfu félagsins á hendur Valitor hf. vakandi“, og komið þannig í veg fyrir útivist Datacell ehf., þá dragi það ekki úr alvarleika þess að varnaraðili hafi rekið mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í um þrjú ár fyrir aðila sem hafði sagt upp málflutningsumboði hans. Sóknaraðili byggi á því að þessi háttsemi geri hann óverðugan nauðsynlegs trausts til að geta gegnt starfi skiptastjóra, sbr. 4. tölul. 2. mgr. 75. gr. laga nr. 21/1991.

Sóknaraðili bendi jafnframt á að sjö kröfuhafar þb. EK1923 ehf. hafi lagt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur kvörtun yfir háttsemi varnaraðila sem skiptastjóra framangreinds félags. Snúi kvörtun kröfuhafa, eftir því sem sóknaraðili komist næst, að óhæfilegu tímagjaldi lögmannsins, fjölda skráðra tíma, fjárhæð þóknunar, drætti á skilum tímaskýrslna, töku greiðslu af fé búsins upp í áfallna þóknun án þess að gætt hafi verið að skilyrðum 2. mgr. 77. gr. laga nr. 21/1991, og greiðslu útlagðs kostnaðar þrotabúsins til aðila sem muni vera tengdur varnaraðila. Telji sóknaraðili framangreint, ef rétt reynist, sýna fram á tjón fyrir kröfuhafa þess bús. Hafi sóknaraðili verulegar áhyggjur af svipaðri háttsemi við rekstur þrotabús Wow air hf. og byggi á því að þetta geri það að verkum að varnaraðili geti ekki notið nauðsynlegs trausts til að geta gegnt starfi skiptastjóra, sbr. 4. tölul. 2. mgr. 75. gr. laga nr. 21/1991.

Í bókun 4. apríl 2019 í aðfinnslumáli sóknaraðila nr. Ö-11/2019 gegn varnaraðila hafi varnaraðili og Þorsteinn Einarsson, skiptastjórar þb. Wow air hf., lýst því yfir að sá síðarnefndi myndi „alfarið hafa með höndum málefni Arionbanka við skiptin.“ Sóknaraðili byggi á því að þessi yfirlýsing skiptastjóra hafi enga þýðingu varðandi mat á hæfisskilyrðum varnaraðila. Báðir séu skipaðir skiptastjórar og beri ábyrgð á öllum störfum sem lúti að meðferð þrotabúsins, sbr. XIII. kafla laga nr. 21/1991. Engin heimild sé til að takmarka þá ábyrgð með verkaskiptingu. Auk þessa bendi sóknaraðili á að hann hafi hagsmuni af gjaldþrotaskiptunum í heild sinni, þar með talið afstöðu skiptastjóra til allra krafna í búinu, rekstur ágreiningsmála, riftunarmála o.s.frv. Jafnvel þótt verkaskipting væri heimil, þá myndi ekki nægja að varnaraðili kæmi ekki að málefnum sóknaraðila, enda hafi sóknaraðili hagsmuni af öllum ákvörðunum skiptastjóra við skiptin.

Sóknaraðili leggi áherslu á að tilvist reglna um hæfi skiptastjóra eigi að tryggja traust almennings og málsaðila til gjaldþrotaskipta. Matið á því hvort skiptastjóri sé hæfur til starfans ráðist því ekki af svari skiptastjórans heldur af athugun á atvikum í viðkomandi tilviki og svarinu við því hvort málsaðili hafi réttmæta ástæðu til að tortryggja óhlutdrægni eða traust manns til gegna starfi skiptastjóra. Í þessu ljósi verði að skoða framangreindar röksemdir sóknaraðila.

 

Varnaraðili byggir á því að 28. mars 2019 hafi varnaraðili, ásamt Þorsteini Einarssyni lögmanni, verið skipaður skiptastjóri þb. Wow air hf. Varnaraðili sé lögmaður Sunshine Press Productions ehf. í máli gegn Valitor hf. Hafi málið verið flutt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og bíði dómsuppkvaðningar. Varnaraðili hafi einnig í störfum sínum sem lögmaður höfðað mál á hendur ríkinu, tollstjóra, Íslandsbanka og Landsbanka, en þessir aðilar séu alla jafnan með kröfur í þrotabú. Samkvæmt 6. tl., 2. mgr. 75. gr. laga nr. 21/1991 megi engan skipa í starf skiptastjóra sem yrði talinn vanhæfur sem dómari í einkamáli sem þrotamaðurinn eða sá sem eigi kröfu á hendur þrotabúinu ætti aðild að eða, ef félag eða stofnun sé til gjaldþrotaskipta, í einkamáli sem stjórnarmenn eða starfsmenn sem hafi haft daglega stjórn félagsins eða stofnunarinnar með höndum ættu aðild að. Um vanhæfi dómara gildi ákvæði 5. gr. laga 91/1991, sem kveður á um það að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef hann sé aðili að málinu eða fyrirsvarsmaður aðila, hann hafi gætt réttar aðila varðandi sakarefnið eða veitt aðila ólögskyldar leiðbeiningar um það, hann hafi borið eða verið kvaddur til að bera vitni um atvik málsins af réttmætu tilefni eða verið mats- eða skoðunarmaður um sakarefnið, hann sé eða hafi verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar, hann tengist eða hafi tengst fyrirsvarsmanni eða málflytjanda aðila með þeim hætti sem segi í d-lið, hann tengist eða hafi tengst vitni í málinu með sama hætti og segi í d-lið, mats- eða skoðunarmanni eða manni sem neitar að láta af hendi sönnunargagn, eða fyrir hendi séu önnur atvik eða aðstæður sem séu fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. 

Um sé að ræða hlutafélag sem tekið hafi verið til gjaldþrotaskipta. Vanhæfisreglur lúti því að hvort einhver slík tengsl séu hjá skiptastjóra við stjórnarmenn eða stjórnendur Wow air hf. þannig að valda myndu vanhæfi varnaraðila. Svo sé ekki. Varnaraðili hafi lengi verið málkunnugur forstjóra og tveimur stjórnarmönnum Wow air hf.

Sóknaraðili telji að g-liður 5. gr. laga nr. 91/1991 myndi eiga við, væri varnaraðili dómari, það er að segja að fyrir hendi kunni að vera önnur atvik eða aðstæður sem séu fallnar til þess að draga óhlutdrægni varnaraðila með réttu í efa. Varnaraðili bendi á að varnaraðili sé lögmaður annars stefnenda í dómsmáli nr. E-234/2015, en sé ekki aðili að dómsmálinu. Ekki sé heimilt eða rétt að setja samasemmerki á milli lögmanns og skjólstæðings. Gildi þar einu hvort þóknun lögmanns sé hagsmunatengd eins og gjaldskrár flestra lögmanna heimili, eða ekki. Sóknaraðili sé ekki stefndi í dómsmáli nr. E-234/2015 sem varnaraðili reki heldur Valitor hf. Valitor hf. sé dótturfélag Valitor Holding hf. Valitor Holding hf. sé dótturfélag sóknaraðila. Valitor Holding hf., móðurfélag Valitor hf., sé í söluferli og hafi verið tekið út úr samstæðureikningi sóknaraðila. Verði það því ekki mikið lengur dótturfélag sóknaraðila. Komi til þess að Valitor hf. verði dæmt til greiðslu skaðabóta í máli E-234/2015 þá muni Landsbankinn axla 38% af fjárhæð bótanna, sbr. samning um sölu Landsbankans á á hlut sínum í Valitor til Arion banka hf.

Í 3. mgr. 75. gr. laga nr. 21/1991 sé kveðið á um það að ef sýnt þyki að störf skiptastjóra verði umfangsmikil geti héraðsdómari skipað tvo menn eða fleiri til að gegna þeim og ákveði þeir þá hvernig þeir skipti með sér verkum. Þetta hefur verið gert í tilviki þb Wow air hf. Hafi skiptastjórar lagt fram bókun í aðfinnslumáli nr. Ö-11/2019, þar sem þeir staðfesti, án þess að fallast á vanhæfissjónarmið sóknaraðila, en til þess að koma til móts við áhyggjur sóknaraðila, að varnaraðili muni víkja sæti þegar ákvarðanir séu teknar um samninga eða kröfur sóknaraðila eða um málefni sóknaraðila fjallað. Liggi fyrir að Þorsteinn Einarsson skiptastjóri muni alfarið sjá um málefni sóknaraðila við skiptin á þb. Wow air hf. Í 5. mgr. 75. gr. laga nr. 21/1991 sé kveðið á um það að ef í ljós komi eftir skipun skiptastjóra að hann sé vanhæfur til að leysa af hendi tiltekið verk í starfi sínu vegna fyrirmæla 6. tölul. 2. mgr., án þess að það verði talið varða neinu fyrir rækslu starfans að öðru leyti, geti héraðsdómari að ósk hans skipað annan löghæfan mann til að leysa verkið af hendi. Það leiði hins vegar af hlutarins eðli að þegar skiptastjórar séu tveir, sbr. 3. mgr. ákvæðisins, þá gerist þess ekki þörf að skipa þriðja löghæfa manninn til þess að leysa það verk af hendi.

Sóknaraðili sé einn fjölmargra kröfuhafa í þrotabú Wow air hf. Sóknaraðili sé hins vegar ekki sá stærsti. Hagsmunir sóknaraðila þegar komi að skiptum Wow air hf. séu tvenns konar. Annars vegar sértækir hagsmunir sóknaraðila varðandi einstakar ákvarðanir skiptastjóra og svo hins vegar almennir hagsmunir af gangi skiptanna. Hinir hugsanlegu sértæku hagsmunir sóknaraðila lúta að uppgjöri og frágangi vegna almennra bankaviðskipta og afléttingar veðsetninga á reikningum þrotabúsins, afhendingu bifreiða og annars lausafjár sem þrotabúið hafi verið umráðaaðili yfir en séu í eigu sóknaraðila, samningum um kaup sóknaraðila á eignum búsins, afstöðu til krafna sóknaraðila í búið og afstöðu til og eftir atvikum reksturs málaferla búsins gegn sóknaraðila. Nú þegar liggi fyrir að varnaraðili muni ekki koma að því leysa þessi tilteknu verk. Muni því dómari ekki þurfa að skipa löghæfan aðila til að leysa af þessi tilteknu verk af hendi. Þar fyrir utan sé ljóst sóknaraðili geti ávallt skotið ágreiningi um lýsta kröfu sína og annarra kröfuhafa til dómara og í annan stað sé ljóst að ákvarðanir um umfangsmikil málaferli verði ekki teknar nema að undangenginni umræðu á skiptafundi.

Til þess að frávikning á grundvelli 3. mgr. 76. gr. komi til álita þurfi að liggja fyrir að skiptastjóri sé vanhæfur til að rækja starfann að öðru leyti en að því er varði tiltekin verk í starfi sínu vegna fyrirmæla 6. tölul. 2. mgr. Þetta vanhæfi lyti þá að hinum almennu hagsmunum sóknaraðila. Almennir hagsmunir sóknaraðila séu þríþættir. Í fyrsta lagi að fjárhæð samþykktra forgangskrafna verði sem lægst þannig að almenn krafa eins og krafa sóknaraðila komist frekar að. Hljóti það að teljast langsótt að hlutdrægni varnaraðila í skilningi g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 sé slík gagnvart sóknaraðila að rökstudd hætta sé til þess að hann beiti sér fyrir því að samþykkja sem flestar forgangskröfur, aðeins til þess að valda sóknaraðila sem mestum búsifjum. Vert sé að minna á í þessu samhengi að skiptastjórarnir séu tveir og að sóknaraðili geti ávallt skotið til héraðsdóms ágreining um afstöðu til krafna, aukinheldur sem ábyrgðarsjóður launa hafi ávallt hönd í bagga þegar afstaða til forgangskrafna sé annars vegar. Í annan stað að kostnaður við skiptin verði hóflegur. Skiptastjórar Wow air hf. muni taka sama tímagjald og þeir muni þurfa að kvitta upp á reikning hvors annars. Allar ákvarðanir sem leiði til útgjalda fyrir búið séu teknar af skiptastjórunum báðum, í samráði við starfsmann búsins. Í þriðja lagi að sala eigna búsins skili sem mestu inn til búsins. Ákvarðanir um sölu eigna búsins, sem ekki séu það verðlitlar að starfsmaður búsins geti ekki gengið frá þeim, séu teknar af báðum skiptastjórum. Hljóti það að teljast langsótt að hlutdrægni varnaraðila í skilningi g-iðar 5. gr. laga nr. 91/1991 sé slík gagnvart sóknaraðila að rökstudd hætta sé til þess að hann beiti sér fyrir því að eignir búsins verði seldar á sem lægstu verði, aðeins til þess að valda sóknaraðila sem mestum búsifjum. Vert sé að minna á í þessu samhengi að skiptastjórarnir séu tveir og að venja sé að skiptastjóri beri undir stærstu kröfuhafa þegar komi að því að selja stærstu eignir bús. Með hliðsjón af ofangreindu sé fráleitt að varnaraðili geti ekki vegna vanhæfis gegnt störfum skiptastjóra á þeim grundvelli að sóknaraðili eigi almennra hagsmuna að gæta sem einn af kröfuhöfum. Þeir lögmenn séu vandfundnir sem aldrei hafi rekið mál gegn einhverjum af viðskiptabönkunum. Sé hætt við að nánast allir starfandi lögmenn yrðu þá vanhæfir almennt til skiptastjórastarfa. Viðbúið sé þegar jafn stórt fyrirtæki og Wow air hf. sé annars vegar, að sú staða komi upp að annar hvor skiptastjóranna hafi á einhverjum tímapunkti unnið sem lögmaður fyrir einhvern af kröfuhöfum eða viðskiptavinum hins gjaldþrota félags. Miðað við röksemdafærslu sóknaraðila hljóti það að leiða snimmhendis til almenns vanhæfis skiptastjóra. Ekki nema á því sé byggt að önnur sjónarmið gildi um banka en aðra kröfuhafa þegar komi að beitingu vanhæfisreglna laga nr. 21/1991.

Varðandi ávirðingar sóknaraðila í tengslum við málarekstur gegn Valitor hf. þá sé þeim alfarið vísað á bug. Þetta sé mat sóknaraðila, en byggi ekki á neinum sönnunum, heldur persónulegri skoðun lögmanns hans. Þannig hafi kyrrsetningarbeiðni umbjóðanda varnaraðila ekki verið fráleitari en svo að móðurfélag Valitor hf., Valitor Holding hf. hafi orðið að setja 750 milljónir króna sem nýtt hlutafé inn í Valitor hf. til að forðast kyrrsetningu. Virðist Fjármálaeftirlitið hafa deilt áhyggjum umbjóðenda varnaraðila. Höfnun héraðsdóms á því að samþykkja kyrrsetningu hafi í fyrra skiptið snúist um samlagsaðild. Í síðara skiptið hafi höfnun héraðsdóms byggst á því að dómari hafi misskilið meginregluna um res judicata, en Landsréttur séð ástæðu til þess að leiðrétta það. Eina sönnun þess að varnaraðili hafi sýnt harðfylgni í sínum málarekstri séu þau dómsmál sem sóknaraðili hafi tapað gegn umbjóðendum varnaraðila. Vísað sé á bug þeim ásökunum sem fram komi í greinargerð sóknaraðila og lúti að málflutningsumboði varnaraðila sem lögmanns í áðurnefndu máli. Landsréttur hafi ekki tekið undir sjónarmið sóknaraðila þar.

 

Niðurstaða:

Wow air hf. hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Hafa skiptastjórar verið skipaðir og er varnaraðili annar tveggja þeirra. Hafa skiptastjórar þegar birt innkallanir krafna í þrotabúið. Var því lýst yfir af hálfu sóknaraðila og varnaraðila í máli nr. Ö-11/2019 við héraðsdóms að sóknaraðili væri á meðal stærstu kröfuhafa í þrotabúinu. Þó svo ekki liggi fyrir að krafa af hálfu sóknaraðila hafi verið samþykkt í þrotabúinu þykir engu að síður unnt að leggja úrskurð á mál þetta í því horfi sem það nú er. Er það gert á grundvelli ofangreindrar yfirlýsingar og þess að miklir hagsmunir eru bundnir við að skiptastjórar sinni upphafsaðgerðum í búinu af fullum þunga frá fyrsta degi. Ágreiningi um hverjir séu skiptastjórar í þrotabúinu þarf því að ráða til lykta hið fyrsta.

Krafa sóknaraðila um að varnaraðila verði vikið úr starfi skiptastjóra Wow air hf. byggir í fyrsta lagi á því að varnaraðili hafi gætt hagsmuna Sunshine Press Productions ehf. og Datacell ehf. í máli félaganna gegn Valitor hf. nr. E-234/2015, sem rekið sé fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur ásamt öðrum tengdum málum, á þann veg að hann hafi með framferði sínu í þeim málarekstri gert það að verkum að hann sé vanhæfur til starfa sem skiptastjóri Wow air hf. Hafi varnaraðili rekið málin í eigin nafni og að hluta til umboðslaus.

Samkvæmt 2. gr. laga um lögmenn, nr. 77/1998, verður ekki öðrum en lögmanni falið að gæta hagsmuna aðila fari hann ekki sjálfur með mál sitt fyrir dómi eða sá sem að lögum getur verið fyrirsvarsmaður hans í dómsmáli. Lögmenn fara með mál í skjóli málflutningsumboðs samkvæmt 21. gr. laganna. Við rækslu þessara starfa sinna og á grundvelli þess málflutningsumboðs verða lögmenn, eðli máls samkvæmt, ekki aðilar málsins. Sóknaraðili hefur ekki lagt fram haldbær gögn um að varnaraðili hafi persónulega gerst aðili að tilvitnuðum málum Sunshine Productions ehf. og Datacell ehf. gegn Valitor hf. Ræksla málflutningsstarfa í skjóli málflutningsumboðs skapar eitt og sér ekki vanhæfi gagnvart þeim aðilum sem málum er beint gegn. Hefur sóknaraðili ekki leitt í ljós nein þau atriði í tengslum við málarekstur Sunshine Productions ehf. og Datacell ehf. sem leitt geta til þess að varnaraðili geti talist vanhæfur til að vera skiptastjóri í þb. Wow air hf. 

Í annan stað reisir sóknaraðili kröfu sína um að varnaraðila verði vikið úr starfi skiptastjóra Wow air hf. á því að sjö kröfuhafar þb. EK1923 ehf. hafi lagt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur kvörtun yfir háttsemi varnaraðila sem skiptastjóra framangreinds félags, sem snúi að óhæfilegu tímagjaldi lögmannsins, fjölda skráðra tíma og viðlíka atriða. Njóti varnaraðili ekki þess trausts sem gera verði til skiptastjóra. Verði því að víkja varnaraðila úr starfi.

Við úrlausn um þessa röksemd sóknaraðila er til þess að líta að ágreiningur um þóknun skiptastjóra á undir kröfuhafa þrotabús. Er skiptastjóra rétt að bera slíkan ágreining upp við kröfuhafa á kröfuhafafundi og gera tilraun til að jafna ágreininginn. Slíkur fundur kann að leiða til þess að þóknun verði eftir atvikum lækkuð. Takist ekki að leysa ágreininginn er það skiptastjóra að skjóta slíkum ágreiningi til dómstóla í sérstöku ágreiningsmáli. Úr þessum álitaefnum verður ekki leyst í því máli sem hér er til meðferðar. Þá er til þess að líta að varnaraðili hefur lýst því yfir að þóknun hinna tveggja skiptastjóra þb. Wow air hf. verði samræmd og hófstillt þegar kemur að málefnum þrotabúsins. Í þessu ljósi eru engin efni til að víkja varnaraðila úr starfi á þessum grundvelli.

Engum öðrum rökum hefur verið teflt fram í málinu af hálfu sóknaraðila sem leiðir til þess að fallist verði á kröfur sóknaraðila. Með hliðsjón af ofangreindu verður kröfum sóknaraðila í málinu hafnað.

Úrskurðinn kveður upp Símon Sigvaldason dómstjóri.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

     Kröfu sóknaraðila, Arion banka hf., um að varnaraðila, Sveini Andra Sveinssyni, verði vikið úr starfi sem skiptastjóra þb. Wow air hf., er hafnað.

 

                                                                 Símon Sigvaldason

 

 

--------------------

Rétt endurrit staðfestir

Héraðsdómi Reykjavíkur 12. apríl 2019.