• Lykilorð:
  • Hegningarauki
  • Skattsvik
  • Skilorð

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2018 í máli nr. S-570/2017:

Ákæruvaldið

(Ólafur Hallgrímsson saksóknarfulltrúi)

gegn

Kristjáni Ólasyni

(Ómar R. Valdimarsson lögmaður)

og

Erni Björnssyni

(Sigurbjörn Ársæll Þorbergsson lögmaður)

 

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 26. janúar 2018, var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dags. 16. október 2017 á hendur:

 

            „Kristjáni Ólasyni, kt. 000000-0000

            [...] Reykjavík

            og

            Erni Björnssyni, kt. 000000-0000,

            [...] Reykjavík

 

fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum í rekstri einkahlutafélagsins Endurbætur, kt. 000000-0000, ákærða Kristjáni sem framkvæmdarstjóra til og með 8. júní 2015 en frá þeim degi sem daglegum stjórnanda og ákærða Erni sem daglegum stjórnanda til og með 8 júní 2015 en frá þeim degi sem framkvæmdarstjóra, með því að hafa:

 

1.      Staðið ríkissjóði skil á efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum einkahlutafélagsins vegna tímabilanna maí – júní til og með nóvember – desember rekstrarárið 2015, hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskattskýrslu einkahlutafélagsins á lögmæltum tíma vegna uppgjörstímabilsins september – október rekstrarárið 2015 og hafa eigi staðið skil á virðisaukaskatti vegna uppgjörstímabilanna mars – apríl og nóvember - desember rekstrarárið 2015 í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 22.770.521 bæði hvað varðar ákærða Kristján og ákærða Örn sem sundurliðast sem hér greinir:

 

Vangoldinn                       Vangoldinn               

VSK hvað                          VSK hvað

varðar Kristján                 varðar Örn     

Árið 2015                               

mars – apríl                        kr. 4.041.875                     kr. 4.041.875  

maí – júní                           kr. 3.110.527                     kr. 3.110.527

júlí – ágúst                         kr. 3.878.681                     kr. 3.878.681

september – október          kr. 5.062.334                     kr. 5.062.334

nóvember - desember        kr. 6.677.104                     kr. 6.677.104

 

Samtals                             kr. 22.770.521                  kr. 22.770.521           

 

2.      Eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna greiðslutímabilanna apríl til og með desember rekstrarárið 2015, í samræmi við fyrirmæli III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 samtals að fjárhæð kr. 26.270.874 hvað varðar ákærða Kristján og kr. 28.046.379 hvað varðar ákærða Örn sem sundurliðast sem hér greinir:

 

Vangoldin                    Vangoldin                 

staðgr. hvað                 staðgr. hvað

varðar Kristján            varðar Örn     

Árið 2015                               

apríl                             kr. 2.443.332               kr. 2.628.592

maí                               kr. 2.581.499               kr. 2.781.828

júní                              kr. 3.009.116               kr. 3.195.329

júlí                               kr. 2.435.042               kr. 2.643.697

ágúst                            kr. 2.929.288               kr. 3.122.346

september                    kr. 3.538.394               kr. 3.731.452

október                        kr. 2.819.810               kr. 3.012.868

nóvember                     kr. 3.920.607               kr. 4.143.423

desember                     kr. 2.593.786               kr. 2.786.844

 

Samtals                       kr. 26.270.874            kr. 28.046.379

 

Framangreind brot ákærða teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig:

a)      1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 1. tölulið ákæru.

b)      2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 2. tölulið ákæru.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

            Verjandi ákærða Kristjáns Ólasonar krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

            Verjandi ákærða Arnar Björnssonar krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst hann hæfilegrar þóknunar sér til handa.

 

                                                                        I

            Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins dagsettu 21. júní 2017 var mál þetta sent embætti Héraðssaksóknara til rannsóknar vegna meintra brota ákærðu, sem fyrrum fyrirsvarsmanna Endurbóta ehf., á lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með áorðnum breytingum. Til grundvallar lá rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á staðgreiðslu opinberra gjalda og innheimts virðisaukaskatts. Tilkynning var send á lögheimili skattaðilans 12. apríl 2016 um að rannsókn málsins væri hafin á uppgjörstímabilum á rekstrarárinu 2015. Samkvæmt skráningu í fyrirtækjaskrá RSK var tilgangur Endurbóta ehf. alhliða byggingastarfsemi o.fl.

            Með bréfi skattrannsóknarstjóra dagsettu 19. desember 2016 var ákærðu tilkynnt um lok rannsóknarinnar og fyrirhugaða ákvörðunartöku um refsimeðferð í málinu. Var ákærðu veittur frestur til þess að tjá sig um ákvörðunina á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Engar athugasemdir bárust frá ákærðu af þessu tilefni.

            Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins leiddi í ljós að staðin hefðu verið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna maí–júní, júlí–ágúst, september–október og nóvember–desember rekstrarárið 2015. Þannig hafi verið vanrækt að telja fram skattskylda veltu skattaðila og útskatt. Mögulegur innskattur væri til staðar. Einnig hefði rannsóknin leitt í ljós að vanrækt hefði verið að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var vegna uppgjörstímabilanna mars–apríl, júlí–ágúst, september–október og nóvember–desember rekstrarárið 2015. Þá hefði rannsóknin leitt í ljós að vanrækt hefði verið að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil, á lögmæltum tíma, á virðisaukaskattsskýrslu vegna uppgjörstímabilsins september–október rekstrarárið 2015. Jafnframt hafi verið vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna skattaðila vegna greiðslutímabilanna apríl til og með desember rekstrarárið 2015.

            Mat skattrannsóknarstjóra ríkisins að lokinni rannsókn var að ákærðu hefðu í krafti stöðu sinnar og með saknæmri háttsemi brotið gegn lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Vísað var til fyrirsvars ákærðu fyrir Endurbætur ehf. allt frá stofnun félagsins og þar til það var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2016. Ákærði Kristján Ólason hafi verið stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi frá 5. desember 2014 til og með 8. júní 2015 og daglegur stjórnandi reksturs og fjármála skattaðila á rannsóknartímabilinu. Ákærði Örn Björnsson hafi verið varamaður í stjórn skattaðila frá 5. desember 2014 til og með 8. júní 2015 og stjórnarmaður og framkvæmdastjóri með prókúru skattaðila frá 8. júní 2015 til og með 11 desember 2015.

            Skiptum bús Endurbóta ehf. lauk 26. apríl 2017 og var félagið afskráð 26. maí 2017.

            Þann 16. október 2017 gaf héraðssaksóknari út ákæru í málinu.

 

                                                                        II

            Ákærði Kristján Ólason kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri þess félags sem hafi í reynd tekið við af ABHHH ehf. tímabilið 5. desember 2014–8. júní 2015. Það hafi verið sinnuleysi ákærða að gera Örn ekki framkvæmdastjóra strax, en hann hafi haldið utan um fjármál félagsins frá upphafi, stýrt tilboðsgerð og öðru. Hafi félagið unnið verk fyrir viðskiptavini Arnar. Kvaðst ákærði hafa falið Erni að stýra félaginu, en hann hefði sóst eftir því, svo og formlegri skráningu þess efnis. Þeir hafi báðir verið með prókúru. B, starfsmaður félagsins, hafi séð um bókhaldið og verið með prókúru. Hún hafi aldrei tekið sjálfstæða afstöðu um fjármál. Hafi hún leitað til ákærðu beggja en þó meira til Arnar. Örn hafi haft aðgang að bankareikningum og debetkort á reikning. Hafi það fyrirkomulag verið að um einn aðalreikning hafi verið að ræða og svo innkaupareikning. Gerði ákærði ráð fyrir að Örn hefði haft aðgang að netbanka rétt eins og hann. Þá hafi hann einnig haft aðgang að bókhaldskerfi og netbanka í gegnum notandanafn Kristjáns. Hann upplýsti að vangoldin staðgreiðsla opinberra gjalda vegna launatímabila þeirra sem tilgreind eru í ákæru hefði runnið í reksturinn. Það eigi bæði við um þær greiðslur sem hann telji sig með réttu bera ábyrgð á og einnig þær sem Örn hafi borið ábyrgð á.

            Ákærði Örn Björnsson kvaðst hafa litið á sig sem verkefnastjóra Endurbóta ehf. en sjálfur hefði hann verið verktaki og aldrei verið á launaskrá hjá félaginu. Þetta félag hafi verið „copy paste“ af félaginu Allt viðhald ehf. (síðar ABHHH ehf.) Kristján hafi beðið hann að skrifa upp á að vera í stjórn félagsins. Hafi skráningin verið mistök sem hann sjái eftir í dag. Hafi hann ekki hugleitt hvernig hefði farið fyrir fyrra félaginu. Kvaðst hann þó hafa verið reynslunni ríkari þegar Endurbætur hófu starfsemi sína og þekkt betur til ábyrgðar sinnar en áður. Aðspurður kvaðst hann hafa áttað sig á því að staða félagsins væri slök en hann hefði svifið um á „bleiku skýi“.

            Ákærði kvaðst ekki hafa sóst eftir að vera framkvæmdastjóri félagsins og ekki hafa haft með höndum daglega stjórn. Hlutverk hans hefði ekkert breyst eftir hina formlegu skráningu. Hann hafi ekki talið sig vera yfirmann B og ekki gefið henni fyrirmæli um fjármál félagsins. Hún hafi heyrt undir Kristján, sem hafi alfarið séð um fjármálin, og aðallega leitað til hans. Ákærði hafi síðan í auknum mæli átt samskipti við hana og hafi það þróast svo að hún hafi orðið hans undirmaður og leitað til hans. Hún hafi þó borið ákveðna hluti undir Kristján, t.d. þegar vantaði peninga. Ákærði kvaðst ekki hafa haft aðgang að reikningum eða bókhaldi. Hann hafi verið með kort á hliðarreikning og minnti hann að minnislykill að heimabanka hefði fylgt en hann hefði ekki notað hann. Hann hafi ekki notað netbankann. Ákærði kvaðst hafa starfað til jafns á skrifstofu og á verkstað og hafi dagleg störf hans verið tengd ákveðnum verkum með sama hætti og hjá Allt viðhald ehf. Aðspurður kvaðst hann kannast við að hafa farið með Kristjáni á einn fund til Tollstjóra.

            Ákærði kvaðst vita að þegar Endurbætur ehf. hefðu liðið undir lok hefði allt í raun runnið inn í rekstur nýs félags, Viðhald og viðgerðir ehf.

            B kvaðst hafa verið ráðin til skrifstofustarfa fyrir ABHHH ehf. frá 1. mars 2014 og fram til þess tíma er það var tekið til gjaldþrotaskipta. Hafi Kristján ráðið hana til starfa á skrifstofu. Hún kvaðst hafa litið á ákærðu báða sem sína yfirmenn. Þann tíma sem hún starfaði hjá félaginu hafi engin breyting orðið á rekstrinum og ekki heldur eftir að Endurbætur ehf. hefði tekið við. Hún kvaðst hafa litið á ákærðu báða sem sína yfirmenn en Örn hefði séð um fjármál félagsins og „skaffaði fé“. Kvað hún Örn hafa séð um fjármálastjórn að mestu og þeir hefðu báðir séð um daglegan rekstur. Hann hafi verið titlaður framkvæmdastjóri en Kristján eigandi. Hafi Örn haft betri yfirsýn yfir verkin og haldið utan um innheimtuna. Hann hafi verið á skrifstofu en meira á verkstað. Hún hafi framkvæmt greiðslur og millifært en báðir ákærðu hafi veitt leyfi til þess. Báðir hafi verið með kort en hún hafi haldið að Örn hafi ekki haft aðgang að aðalbankareikningnum. Örn hafi ekki séð um bókhald heldur hafi það verið gert hjá endurskoðanda úti í bæ en báðir ákærðu hafi séð um þau samskipti.

            Vitnið kvaðst hafa sent út launakeyrslur að beiðni annars hvors ákærða og greitt virðisaukaskatt. Allur gangur hafi verið á því hvort hún hafi leitað til Arnar eða Kristjáns. Hafi hún alltaf borið ákvarðanir varðandi fjármál undir annan hvorn og sá sem „var nær“ svarað henni. Aðspurð kvað hún ákærðu báða hafa séð um skattinn en hún viti ekki hver hafi gert skýrslur og skilagreinar. Hún kvað ákærða Örn hafa verið ágætlega upplýstan um fjárhagsstöðu félagsins og stundum fengið útprentun af stöðu. Hann hafi ekki haft aðgang að aðalreikningi félagsins og ekki beðið um að fara inn á hann. Hún hafi alltaf gefið honum upplýsingar um stöðu reikninga og annað sem hann hafi beðið um. Til þess hafi hún ekki þurft leyfi Kristjáns. Þá hafi Örn notað annan reikning til að kaupa vöru. B kvaðst muna eftir tímabili er Örn hefði orðið veikur en hann hefði ekki verið lengi fjarverandi. Þau hafi haft samskipti símleiðis um ákvarðanir á meðan á veikindunum stóð.

            Þá kvað B rétt vera að hún hefði verið starfsmaður Kristjáns og síðast starfað í félagi í hans eigu. Í dag sé hún hins vegar atvinnulaus enda hafi það félag liðið undir lok um áramótin.

 

                                                                III.

            Ákærðu er, eins og áður er rakið, gefið að sök brot á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir að hafa hvor um sig, á þeim tíma er þeir voru í fyrirsvari fyrir félagið, staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum Endurbóta ehf., fyrir að hafa eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum á lögmæltum tíma og fyrir að hafa eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum, á þeim tímabilum sem nánar greinir í ákæru. Rannsókn málsins beindist að tímabilinu frá 15. maí 2015 til 5. febrúar 2016.

            Við upphaf aðalmeðferðar vakti sækjandi athygli á því að í ákærutextanum segði ranglega að ákærðu hefðu eigi staðið skil á virðisaukaskatti vegna uppgjörstímabilanna mars–apríl og nóvember–desember rekstrarárið 2015. Með réttu ætti að standa þar til og með eins og ljóst megi vera af sundurliðun í ákæru. Taldi sækjandi því að um augljósa villu væri að ræða og óskaði að bókað yrði um það eða honum gefinn kostur á að koma að framhaldsákæru. Verjandi ákærða Kristjáns mótmælti því og taldi ákærutextann eins og hann stæði bindandi fyrir ákæruvaldið.

            Samkvæmt 1. mgr. 153. gr. laga nr. 88/2008 má ákærandi m.a. breyta ákæru með framhaldsákæru til að leiðrétta augljósar villur. Þessi leið verður hins vegar ekki farin þegar minna en tvær vikur eru til aðalmeðferðar, nema ákærði samþykki. Ákvæði þetta er heimildarákvæði og verður ekki skilið svo að leiðréttingu verði ekki að komið með bókun. Ber dómara þá að leysa úr því hvort leiðréttingunni verði komið að með þeim hætti gegn andmælum ákærða. Í ákæru er að finna skilmerkilega sundurliðun á vangoldnum virðisaukaskatti ákærðu hvors um sig, tímabilin mars–apríl, maí–júní, júlí–ágúst, september–október og nóvember–desember. Þá er í rannsóknargögnum að finna gögn með nákvæmri sundurliðun. Þessi gögn voru lögð fyrir ákærðu í skýrslutökum hjá héraðssaksóknara. Í ljósi þessa telur dómurinn að vörnum ákærðu verði í engu áfátt þó leiðréttingu þessari verði komið við og er á hana fallist.

 

            Ákærðu Kristján Ólason og Örn Björnsson neita sök. Ákærði Kristján er, samkvæmt skráningu í fyrirtækjaskrá RSK, framkvæmdastjóri og aðalmaður í stjórn félagsins frá 5. desember 2014 til 8. júní 2015 og prókúruhafi frá 5. desember 2014 og út rannsóknartímabilið. Hann reisir kröfu sína um sýknu á því að hann beri ekki ábyrgð á skattskilum, hvorki innan þess tímabils er hann var formlega skráður í fyrirsvari né eftir það sem daglegur stjórnandi. Telur hann meðákærða Örn hafa alfarið borið ábyrgð á daglegri fjármálastjórn í krafti stöðu sinnar sem framkvæmdastjóra.

            Ákærði Örn er, samkvæmt fyrirtækjaskrá RSK, framkvæmdastjóri frá 8. júní 2015 til 11. desember 2015 og aðalmaður í stjórn og prókúruhafi frá 8. júní 2015 út rannsóknartímabilið. Krafa hans um sýknu er af sama meiði og meðákærða, sem hann kveður alfarið hafa sinnt daglegri fjármálastjórn. Sjálfur hafi hann ekki haft færi á því nema að takmörkuðu leyti. Hin formlega skráning hafi verið til málamynda og fyrir þann tíma hafi hann ekki sinnt daglegri stjórn félagsins.

 

            Ágreiningslaust er að skráningar um fyrirsvar ákærðu í fyrirtækjaskrá RSK eru réttar, en þær eru í samræmi við tilkynningar frá félaginu. Þá er ekki uppi tölulegur ágreiningur.

            Samkvæmt 1.–3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög ber félagsstjórn ábyrgð á því að skipulag þess og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Ber hún ábyrgð á meðferð og eftirliti með fjármunum félagsins og bókhaldi. Samkvæmt framangreindum ákvæðum ber framkvæmdastjóri einnig ábyrgð og skal hann annast daglegan rekstur og sjá um að bókhald sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna félags sé með tryggilegum hætti. Þannig bera félagsstjórn og framkvæmdastjóri einkahlutafélags ábyrgð á því að skattskilum sé hagað í samræmi við lög, eða í þessu tilviki í samræmi við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.

            Ákærðu vilja hvorugur kannast við að hafa borið ábyrgð á fjármálastjórn félagsins og skattskilum, hvorki á þeim tíma er formleg skráning tekur til né utan þess tíma, eins og nánar greinir í ákæru. Ákæruvaldið byggir á því að ákærðu Kristján og Örn beri í krafti stöðu sinnar sameiginlega ábyrgð á skattskilum það tímabil, þ.e. á grundvelli þeirrar ábyrgðar sem þeir báru í raun sem daglegir stjórnendur og á grundvelli formlegrar skráningar sem framkvæmdastjórar.

            Vitnið B hefur borið á sama veg á rannsóknarstigi og hér fyrir dómi um að ákærðu hafi í sameiningu stýrt félaginu og tekið ákvarðanir um fjárhagstengd málefni. Þá hafi launamál og skattskil fallið undir ábyrgð þeirra beggja. Engin breyting hafi orðið á fyrirkomulagi stjórnunar eftir að félagið Endurbætur ehf. tók við af ABHHH ehf. Hún hafi litið á ákærða Kristján sem eiganda félagsins og Örn sem framkvæmdastjóra. Að mati dómsins er ekkert fram komið sem dregur úr trúverðugleika vitnisins og vandséð hvaða hagsmuni hún hefur af því að bera rangt um þessi atriði. Hvað varðar ákærða Örn þá telur dómurinn einu gilda þó að hann hafi haft takmarkaðan rafrænan aðgang að reikningum félagsins, enda voru heimildir hans víðtækar og hann hafði alla möguleika til þess að nýta sér þær. Sú málsvörn ákærða að skráning í Fyrirtækjaskrá RSK hafi verið til málamynda er sömuleiðis í andstöðu við framangreint og þátttöku hans í rekstrinum og er því haldlaus með öllu. Þá liggur ekki fyrir sönnun þess að hann hafi ekki getað sinnt störfum sökum heilsubrests það tímabil sem ákæra lýtur að.

            Með vísan til framangreinds og með stoð í gögnum málsins telur dómurinn sannað að ákærðu hafi sameiginlega borið ábyrgð á rekstri félagsins, þ.m.t. skattskilum. Ákærðu bar að sjá til þess að fjármál félagsins væru í góðu horfi og skattskil í samræmi við ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Verður að virða háttsemi ákærðu til stórkostlegs hirðuleysis. Þegar litið er til fjárhæða verða brotin talin meiri háttar og því verða þau einnig heimfærð til 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Eru brot ákærðu rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

                                                                IV

Refsiákvörðun

            Í dag var kveðinn upp dómur í máli S-331/2017 sem var m.a. höfðað gegn ákærðu. Farin var sú leið að sameina þau mál ekki en hins vegar voru þau rekin samhliða. Var ákærði Kristján dæmdur til fimm mánaða skilorðsbundinnar refsingar en ákærði Örn til fjögurra mánaða skilorðsbundinnar refsingar. Jafnframt var þeim gert að greiða sekt í ríkissjóð. Ber að dæma ákærðu hegningarauka við þann dóm. Verður skilorðsdómur þeirra því dæmdur upp og þeim ákveðin refsing í einu lagi, sbr. 60. gr., 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Sektarrefsing samkvæmt þeim dómum stendur óhögguð.

            Ákærðu hafa samkvæmt framlögðum sakavottorðum ekki áður gerst sekir um refsiverðan verknað.

            Með hliðsjón af þeim brotum sem ákærðu Kristján og Örn hafa verið sakfelldir fyrir og dómvenju á þessu sviði þykir refsing ákærða Kristjáns hæfilega ákveðin 15 mánaða fangelsi og ákærða Arnar 14 mánaða fangelsi. Fullnustu refsingarinnar verður frestað skilorðsbundið eins og í dómsorði greinir.

            Ákærðu verða samhliða skilorðsbundinni refsingu dæmdir til greiðslu sektar samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Verður sekt miðuð við lögbundið lágmark í samræmi við kröfu ákæruvaldsins, eða tvöfalda skattfjárhæð af þeirri fjárhæð sem vangreidd var eða samtals 49.041.395 kr. hvað ákærða Kristján varðar en 52.592.405 kr. hvað varðar ákærða Örn. Um vararefsingu fer eins og nánar greinir í dómsorði.

            Ákærði Kristján greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ómars M. Valdimarssonar lögmanns, 779.960 kr., og Ólafs Kristinssonar lögmanns, 442.680 kr.

            Ákærði Örn, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurbjörns Þorbergssonar lögmanns, 864.280 kr.

            Við ákvörðun málsvarnarlauna er tekið tillit til vinnu lögmanna á rannsóknarstigi en Ólafur Kristinsson lögmaður var tilnefndur verjandi ákærða Kristjáns á rannsóknarstigi og að hluta til fyrir dómi. Þá er litið til þess hagræðis sem var af fyrirkomulagi við málflutning verjenda Kristjáns og Arnar, en samhliða þessu máli var flutt mál S-331/2017 sem höfðað var gegn þeim. Einnig er litið til umfangs málsins.

            Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                            D ó m s o r ð:

            Ákærði, Kristján Ólason, sæti fangelsi í 15 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falli niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

            Ákærði Kristján greiði 49.041.395 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 270 daga.

            Ákærði, Örn Björnsson, sæti fangelsi í 14 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falli niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

            Ákærði Örn greiði 52.592.405 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 270 daga.

            Ákærði Kristján greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ómars M. Valdimarssonar lögmanns, 779.960 krónur, og Ólafs Kristinssonar lögmanns, 442.680 krónur.

            Ákærði Örn greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurbjörns Þorbergssonar lögmanns, 864.280 krónur.

 

                                                            Sigríður Hjaltested (sign.)