• Lykilorð:
  • Eignaspjöll
  • Fangelsi
  • Skilorðsbundnir dómar
  • Skaðabætur
  • Skilorð
  • Útivist
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2018 í máli nr. S-571/2018:

Ákæruvaldið

(Guðmundur Þórir Steinþórsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Hermanni Ragnarssyni

 

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 14. september 2018, á hendur Hermanni Ragnarssyni, [...],[...],Reykjavík, fyrir hegningarlagabrot sem hér segir :

 

                                                                        I.

1.  Eignaspjöll með því að hafa, laugardaginn 15. október 2016, brotið rúðu í strætóskýli við Háaleitisbraut, milli Miklubrautar og Safamýrar. Áætlað tjón af háttsemi ákærða nam 65.255 krónur.

Telst framangreind háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

                                                                        II.

Þjófnaðarbrot, með því að hafa:

2.  Þriðjudaginn 22. nóvember 2016, í verslun [...], Reykjavík, stolið matvörum, samtals að verðmæti 4.850 krónur sem ákærði setti í plastpoka og gekk með út úr versluninni.

3.  Miðvikudaginn 23. nóvember 2016, í verslun [...], Reykjavík, stolið matvörum, samtals að verðmæti 3.295 krónur sem ákærði setti í plastpoka og gekk með út úr versluninni.

4.  Mánudaginn 20. febrúar 2017, í verslun [...], Reykjavík, stolið Baileys áfengisflösku að verðmæti 3.899 krónur.

5.  Miðvikudaginn 29. mars 2017, í verslun [...], Reykjavík, stolið matvörum samtals að verðmæti 967 krónur.

Telst framangreind háttsemi ákærða varða við 1.mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

 

Einkaréttarkröfur:

Vegna 1. tl. ákæru gerir Einar Hermannsson, kt. [...], kröfu f.h. AFA JCDecaux Ísland, kt. [...], þar sem þess er krafist að ákærða verði gert að greiða skaðabætur að upphæð 65.255 krónur. Kröfuhafi styður kröfu sína um greiðslu bóta við 1. mgr. 172. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, almennar reglur skaðabótaréttar og III. og IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og, ef við á, 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Vegna 4. tl. ákæru gerir Erla Skúladóttir hdl., fyrir hönd Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR), kt. [...], kröfu að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 3.899 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 20. febrúar 2017 til 23. mars 2017. Eftir það er krafist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. laganna til greiðsludags. Að auki er krafist lögmannskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, sem áskilinn er réttur til að leggja fram síðar.

Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins og hafði ekki boðað forföll en hafði verið birt ákæra og fyrirkall. Verður málið dæmt samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála enda var þess getið í fyrirkallinu að þannig gæti farið um meðferð málsins.

Með vísan til framanritaðs og til rannsóknargagna málsins telst framangreind háttsemi sönnuð og er hún rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur í nóvember 1987. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 12. september 2018, var hann dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir ítrekuð þjófnaðarbrot með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, dagsettum 29. nóvember 2016. Með brotum þeim sem ákærði er ákærður fyrir í þessu máli hefur hann rofið skilorð framangreinds dóms. Ber nú að dæma skilorðsdóminn upp og er ákærða gerð refsing í einu lagi, sbr. 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með hliðsjón af framangreindu, dómvenju og sakarefni þessa máls þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa að haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Í málinu er hafðar uppi tvær skaðabótakröfur, annars vegar af hálfu AFA JCDecaux Ísland vegna fyrsta ákæruliðar og hins vegar af hálfu ÁTVR vegna fjórða ákæruliðar. Þykja bótakröfur nægjanlega rökstuddar og verða teknar til greina, ásamt vöxtum sem í dómsorði greinir. Upphafsdagur dráttarvaxta er miðaður við þann dag er liðnir voru 30 dagar frá birtingu ákæru, sbr. og 1. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.

Þá greiði ákærði jafnframt málsvarnarþóknun lögmanns bótakrefjenda Ómars R. Valdimarssonar, 84.320 krónur.

Engan sakarkostnað leiddi af meðferð málsins.

Þórhildur Líndal, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

 

                                                   D Ó M S O R Ð:       

Ákærði, Hermann Ragnarsson, sæti fangelsi í 60 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði AFA JCDecaux Íslandi 65.255 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. október 2016 til 11. nóvember 2018 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins 3.899 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. febrúar 2017 til 11. nóvember 2018 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun lögmanns bótakrefjenda, Ómars R. Valdimarssonar, 84.320 krónur.

 

                                                   Þórhildur Líndal

 

 

---------------------            ---------------------          ---------------------

Rétt endurrit staðfestir,

Héraðsdómi Reykjavíkur, 17. október 2018