• Lykilorð:
  • Kjarasamningur
  • Laun
  • Miskabætur
  • Uppsögn
  • Vinnulaunamál

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 13. apríl 2018 í máli nr. E-1448/2017:

A

(Guðmundur Njáll Guðmundsson lögmaður)

gegn

X

(Jóhannes Ásgeirsson lögmaður)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 1. mars sl., höfðaði A, [...], [...], gegn X [...],[...], með stefnu birtri 27. apríl 2017.

            Stefnandi gerir þá kröfu að stefnda verði gert að greiða henni 883.794 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 383.794 krónum frá 19. nóvember 2016 til þingfestingardags en frá þeim degi af 883.794 krónum til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu og að mati dómsins.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að dómkröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

 

II

Málsatvik og yfirlit ágreiningsefna

Stefnandi starfaði í hlutastarfi hjá stefnda við afgreiðslustörf og ræstingar í [...]versluninni X að [...] í [...] frá árinu 2013. Henni var sagt fyrirvaralaust upp störfum með bréfi stefnda, dagsettu 29. ágúst 2016, en stefnandi byggir á því að hún hafi fyrst fengið fregnir af uppsögninni frá móður sinni, B, 27. ágúst 2016. B starfaði einnig í versluninni og var sagt upp störfum hjá stefnda sama dag, og var tilkynnt um uppsögn hennar og stefnanda á fundi þennan dag með fyrirsvarsmönnum stefnda.

Stefnandi fékk uppsagnarbréfið í hendur 30. ágúst 2016. Með bréfinu, sem liggur fyrir í málinu og ber yfirskriftina tilkynning um fyrirvaralausa uppsögn, er stefnanda tilkynnt að vegna alvarlegra brota hennar í starfi og trúnaðarbrests sé henni sagt fyrirvaralaust upp störfum í versluninni, frá og með 27. ágúst 2016. Varðar ágreiningur aðila í máli þessu lögmæti uppsagnarinnar og rétt stefnanda til launa í uppsagnarfresti og til miskabóta.

Meðal framlagðra gagna er hljóðupptaka af framangreindum fundi, en fyrirsvarsmaður stefnda sakar þar stefnanda og móður hennar um þjófnað á vörum úr versluninni.

Stefndi byggir á því að í maí 2016 hafi verið haldinn starfsmannafundur þar sem fjallað hafi verið um innbrot í verslunina en í kjölfar þess hafi verið settar upp eftirlitsmyndavélar. Þá hafi verið fjallað um vörurýrnun í versluninni á þessum fundi. Í framhaldi af fundinum hafi fyrirsvarsmenn stefnda farið að kanna ástæður fyrir vörurýrnuninni. Við skoðun á upptökum úr eftirlitsmyndavél hafi stefnandi sést setja vörur í poka og afhenda hann mágkonu sinni sem ekki hafi greitt fyrir vörurnar.

Óumdeilt er að starfsmenn fengu 40% afslátt af úttektum í versluninni og hafi sá afsláttur komið fram þegar vörurnar voru greiddar í gegnum sölukerfi. Starfsmönnum hafi hins vegar verið heimilt að skrá úttektir í sérstaka bók en greiða þær síðar. Í málatilbúnaði stefnda kemur fram að af hans hálfu hafi ekki verið reglubundið eftirlit með skráningu starfsfólks á úttektum og greiðslum vegna þeirra.

Þá liggur fyrir afrit af tilkynningu stefnda til lögreglu, dagsettri 24. ágúst 2017, um að stefnandi og [...] hennar hafi stundað talsverðan þjófnað á vörum úr versluninni. Meðal framlagðra gagna er ljósrit úr úttektarbók sem starfsmönnum bar að skrá í þær úttektir sem ekki var greitt fyrir í gegnum sölukerfi um leið og úttektin fór fram og yfirlit stefnda yfir atvik sem sjá megi á upptöku úr eftirlitsmyndavél verslunarinnar á tímabilinu júní til ágúst 2016, sem hann telur að staðfesti grun sinn um að stefnandi hafi tekið vörur úr versluninni án þess að greiða fyrir þær. Þá liggur fyrir afrit af kvörtun stefnanda til persónuverndar vegna mynd- og hljóðupptöku í eftirlitsmyndavélakerfi verslunarinnar, afrit af bréfaskriftum aðila vegna þeirrar kvörtunar og úrskurður persónuverndar frá 16. október 2017 þar sem fram kemur að rafræn vöktun á vegum stefnda hafi ekki samrýmst lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og reglum nr. 837/2006 um rafræna vöktun.

Loks liggur fyrir afrit af bréfaskriftum milli aðila vegna kröfu stefnanda. Kemur þar fram að stefndi hafnaði öllum kröfum stefnanda um greiðslu launa í uppsagnarfresti og byggði uppsögn stefnanda á ætluðum þjófnaði hennar úr versluninni.

            Við aðalmeðferð málsins gáfu stefnandi og fyrirsvarsmaður stefnda, C, aðilaskýrslu. Þá gáfu einnig vitnaskýrslur D, E, F, G og H.

 

III

Málsástæður og lagarök stefnanda

Krafa stefnanda í máli þessu er tvíþætt. Annars vegar er krafa um greiðslu launa og orlofs í uppsagnarfresti, og orlofs- og desemberuppbótar, samtals 383.794 krónur, auk dráttarvaxta. Hins vegar gerir hún kröfu um greiðslu miskabóta á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, að fjárhæð 500.000 krónur auk dráttarvaxta. Samtals nemi dómkrafa málsins 883.794 krónum.

Stefnandi byggir kröfu sína á því að stefndi hafi vanefnt að greiða henni laun í uppsagnarfresti vegna september, október og nóvember 2016, auk orlofs og desemberuppbótar, allt samkvæmt kjarasamningi VR og SA, auk orlofs af ógreiddum launum. Vísar stefnandi máli sínu til stuðnings til meginreglna vinnu-, samninga- og kröfuréttar um að greiða beri umsamin laun og aðrar greiðslur í samræmi við gildandi ráðningar- og kjarasamninga, auk gildandi laga. Samkvæmt grein 12.1 í gildandi kjarasamningi VR og SA frá árinu 2016 hafi stefnandi haft þriggja mánaða uppsagnarfrest, sbr. og 1. gr. laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla. Kröfu um greiðslu orlofs byggi stefnandi á 4. kafla kjarasamnings VR og SA og orlofslögum nr. 30/1987, einkum 1. og 7. gr. en einnig 8. gr. þar sem kveðið er á um uppgjör orlofs við starfslok. Þá byggi krafa um orlofs- og desemberuppbót á greinum 1.3.1 og 1.3.2 í kjarasamningnum. Enginn skriflegur ráðningarsamningur hafi verið gerður milli aðila og telur stefnandi að stefndi eigi að bera hallann af því.

Stefnandi byggir einnig á því að stefndi hafi í engu sýnt fram á þau brot sem vísað var til þegar henni var sagt upp fyrirvaralaust. Stefndi hafi ekki sýnt fram á meinta sök stefnanda en sönnunarbyrðin hvíli alfarið á stefnda. Þá hafni stefnandi því að hún hafi viðhaft þá vítaverðu háttsemi í starfi sem stefndi sakar hana um. Samkvæmt almennum reglum vinnuréttar skuli uppsagnir gerðar með fyrirvara, nema um alvarlegt brot sé að ræða. Þetta hafi stefndi ekki virt. Telur stefnandi, í ljósi atvika, að stefndi hafi gerst sekur um ólögmæta, fyrirvaralausa uppsögn. Stefnandi hafi sett fram kröfu á hendur stefnda um greiðslu launa í uppsagnarfresti með bréfi dagsettu 19. október 2016. Þá vísar stefnandi til þess að samkvæmt grein 12 í kjarasamningi VR og SA taki uppsögn gildi um mánaðamót og skuli hún vera skrifleg, sbr. einnig 6. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1979.

Í stefnu er krafa stefnanda vegna greiðslu launa í uppsagnarfresti sundurliðuð. Gerir stefnandi kröfu um greiðslu þrennra mánaðarlauna að fjárhæð 120.146 krónur á mánuði, samtals 360.438 krónur, 10,17% orlof í uppsagnarfresti eða 12.221 krónu, orlofsuppbót vegna ársins 2017, til 7. desember, 5.383 krónur, og desemberuppbót, 5.752 krónur. Er samtala kröfunnar 383.794 krónur. Byggi krafan á meðallaunum stefnanda síðasta árið fyrir uppsögn, eða frá september 2015 til ágúst 2016. Miðað sé við að tímakaup dagvinnu sé 1.906 krónur og að stefnandi hafi unnið að meðaltali 15,17 stundir á mánuði og að tímakaup vegna yfirvinnu sé 3.389 krónur og að stefnandi hafi unnið 26,92 stundir að meðaltali á þessu tímabili. Þannig sé gerð krafa um greiðslu á 28.146 krónum á mánuði vegna yfirvinnu eða samtals 91.232 krónum á meðan á uppsagnarfresti stóð.

Þá byggir stefnandi á því að tjón hennar sé ekki að fullu bætt með greiðslu launa á uppsagnarfresti eða bótum sem samsvari slíku uppgjöri og telur að bótagrundvöllurinn fari út fyrir mörk slíks uppgjörs. Gerir hún kröfu um að stefndi greiði henni 500.000 krónur í miskabætur á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993, þar sem stefndi hafi við uppsögn stefnanda gengið fram á særandi og harkalegan hátt og með því hafi hann gerst sekur um ólögmæta meingerð gagnvart æru og friðhelgi stefnanda. Séu hinar röngu og ósönnuðu fullyrðingar stefnda um alvarlegt brot stefnanda gagnvart stefnda til þess fallnar að skaða æru hennar og valda henni álitshnekki. Slík starfslok spyrjist jafnan hratt út á meðal manna og erfitt geti reynst að byggja upp orðspor sitt eftir slíkar ásakanir og rógburð. Byggir stefnandi á því að stefndi hafi við hina ólögmætu, fyrirvaralausu uppsögn gengið fram á óþarflega særandi og harkalegan hátt og því bakað sér bótaábyrgð á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Stefnandi byggir á því að uppsögnin hafi valdið henni andlegum þjáningum og óþægindum og hafi hún um tíma lokað sig af og ekki umgengist fólk að ráði. Þyki henni það særandi að stefndi hafi ekki fengist til að greiða henni þau litlu réttindi sem hún hafi þó átt og telur að stefndi hafi ætlað að reyna að komast undan skyldu sinni með því að varpa meintri sök málsins alfarið á herðar stefnanda. Þá hafi stefnandi glímt við alvarlega áfallastreituröskun eftir brottvikninguna og í kjölfarið kvíðaröskun og hafi leitað aðstoðar [...] geðlæknis og þurft að nota svefnlyf og róandi lyf vegna afleiðinga brottvikningarinnar.

Stefnandi telur að skilyrði 26. gr. laga nr. 50/1993 um ólögmæta meingerð séu uppfyllt, en stefndi hafi gengið fram með saknæmum og ólögmætum hætti í málinu og beri því skaðabótaábyrgð samkvæmt ákvæðinu. Stefndi hafi valdið stefnanda miklum miska og felist ófjárhagslegt tjón hennar einkum í augljósri röskun á stöðu og högum auk verulegs mannorðshnekkis, ærumeiðingar og fordæmingar og telur stefnandi fjárhæð miskabótakröfu vera mjög stillt í hóf.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi á ólögmætan hátt ætlað að koma sér undan greiðslu launa í uppsagnarfresti með því að hóta stefnanda að mál hennar yrði kært til lögreglunnar ef hún mundi ekki sætta sig við þessi málalok, þ.e. hætta undir eins án þess að fá greidd laun í uppsagnarfresti. Vísar stefnandi til þess að á hljóðupptöku sem gerð var á fundi með móður stefnanda vegna uppsagnar komi þetta sjónarmið fyrirsvarsmanns stefnda fram. Stefndi fór til lögreglu og lét bóka eða tilkynnti málið án þess þó að leggja fram formlega kæru. Telur stefnandi að stefndi hafi ætlað sér að nota bókunina sem einhvers konar vopn eða dulda hótun í uppsagnarferlinu. Hafi stefndi talið að stefnandi og [...] hennar hefðu gerst brotlegar við hegningarlög hefði hann átt að leggja fram formlega kæru hjá lögreglu. Þá byggi stefnandi á því að þær upptökur sem stefndi noti sem hótun og til stuðnings ásökunum sínum á hendur þeim mæðgum um þjófnað sýni ekki fram á neitt saknæmt af þeirra hálfu.

Einnig byggir stefnandi á því, í samhengi við aðrar málsástæður og einnig sjálfstætt, að með því að leggja fram tilhæfulausa bókun hjá lögreglu hafi stefndi komið því til leiðar að nafn stefnanda sé nú komið í LÖKE-skrá ríkislögreglustjóra án þess að hún hafi nokkuð um það að segja, en slíkt geti valdið fólki vandræðum síðar. Á sama hátt byggi stefnandi á því að öll framganga stefnda varðandi ólögmætar upptökur í hljóð og mynd séu grundvöllur fyrir ólögmætri meingerð gegn persónu hennar og æru. Vöktunin samrýmist ekki 6. gr. reglna nr. 837/2006 um rafræna vöktun. Þá hafi stefnandi aldrei fengið fræðslu um vöktunina né fengið upplýsingar um víðtæki hennar eða um öryggi og varðveislu gagna, en nú liggi fyrir að gögnunum hafi verið dreift til nokkurra aðila vegna uppsagnarinnar. Það miskatjón sem stefnandi telur að stefndi hafi valdið sér með þessu sé því algerlega sjálfstætt gagnvart þeirri stjórnvaldsákvörðun sem Persónuvernd eigi eftir að taka gagnvart stefnda. Stefnandi telur að vinnsla persónuupplýsinga í tengslum við uppsögnina hafi út af fyrir sig valdið miskatjóni sem ekki sé kveðið á um í lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000, sbr. 43. gr. laganna sem varði einungis bætur fyrir fjárhagslegt tjón.

Þá bendir stefnandi á að svo virðist sem henni hafi verið sagt upp störfum án þess að fyrir lægi í raun hvað kæmi fram á upptökunum. Í bréfi lögmanns stefnda frá 27. október 2016 hafi t.d. komið fram að þá væri verið að vinna við skoðun á upptökunum í samstarfi við Öryggismiðstöðina og var áætlað að niðurstaða lægi fyrir um miðjan nóvember. Áður en þessi vinna hófst hafi stefndi í mörgum tilvikum fullyrt að stefnandi hefði gerst sek um þjófnað.

Loks byggir stefnandi á því að öll framganga við sjálfa uppsögnina hafi verið særandi og harkaleg. Stefnandi hafi fengið fyrstu fréttirnar um uppsögnina frá móður sinni laugardaginn 27. ágúst 2016 eftir að stefndi tilkynnti henni um uppsögnina og sagði henni að koma þessu áleiðis til stefnanda. Þá hafi yfirmenn stefnda kosið að vera ekki á staðnum 30. ágúst 2016 þegar stefnandi kom til að gera upp ógreiddar skuldir og sækja uppsagnarbréf sitt, sem óbreyttur starfsmaður stefnda hafi afhent henni. Þá hafi síðasti launaseðill stefnanda verið afhentur henni af sama starfsmanni, nokkrum dögum síðar, í opnu umslagi.

Loks vísar stefnandi til þess að samkvæmt ákvæði 13.4.4 í kjarasamningi VR og SA geti brot á ákvæðum kaflans um framkvæmd uppsagna varðað bótum samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins.

Um lagarök að öðru leyti en þegar hafi verið rakið vísist einkum til VII. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Hvað varðar kröfu um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt á málskostnað er byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

 

IV

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Vísar hann til þess að þó að fallast megi á að það sé almennt skilyrði fyrir því að hægt sé að segja manni upp starfi að honum hafi verið gefin viðvörun, hann áminntur og honum tilkynnt með sannanlegum hætti að láti hann ekki af háttsemi sinni muni það valda brottrekstri úr starfi, þá eigi það ekki við í máli þessu. Háttsemi stefnanda hafi verið með þeim hætti og trúnaðarbrot stefnanda gagnvart stefnda svo langvarandi, eins og framlögð gögn staðfesti, að stefndi hafi litið svo á að fyrirvaralaus brottrekstur væri fyllilega réttmætur. Verði hér að líta til þess hvaða úrræði stefndi hafi haft gagnvart stefnanda, sem ítrekað hefði brotið af sér. Þá hafi verið um ásetningsbrot að ræða sem hafi heimilað stefnda að rifta ráðningarsamningi án undanfarandi sérstakrar áminningar.

Þá bendir stefndi á að miskabótakrafa stefnanda komi einungis til álita að ásakanir stefnda reynist haldlausar. Einnig bendir hann á að færsla stefnanda á vörusölu til viðskiptavinar til eigin úttektar, þannig að hann hafi fengið vörur með 40% afslætti, sé með öllu óheimilt. Þá gefi myndbandsupptaka og færslur stefnanda í úttektarbók fullt tilefni til að draga ráðvendni stefnanda í efa og geti vart orðið grundvöllur miskabótakröfu.

Til stuðnings sýknukröfu vísar stefndi til framlagðra gagna, þ. á m. upptöku af ljósriti úr úttektarbók, þar sem fram komi að stefnandi hafi tekið út vörur og merkt við þær sem greiddar þó að svo hafi ekki verið, en vörurnar hafi ekki verið skráðar í sölukerfi stefnda.

Hvað varðar kröfu um málskostnað þá vísar stefndi til ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

V

Forsendur og niðurstaða

Í máli þessu krefst stefnandi greiðslu launa í uppsagnarfresti og miskabóta vegna ólögmætrar uppsagnar, en óumdeilt er að stefnanda var fyrirvaralaust sagt upp störfum í verslun stefnda. Stefnandi byggir kröfu sína á kjarasamningi VR og SA frá árinu 2016 og lögum um orlof nr. 30/1987. Samkvæmt gr. 12.1 í kjarasamningnum á stefnandi rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti nema hún hafi sýnt af sér vítaverða vanrækslu í starfi. Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að um alvarlegt trúnaðarbrot hafi verið að ræða af hálfu stefnanda, sem hafi verið langvarandi og framið af ásetningi, og hafi réttlætt fyrirvaralausa uppsögn. Byggir stefndi á því að stefnandi beri að einhverju leyti ábyrgð á vörurýrnun í versluninni og skipti fjárhæðir ekki máli í því samhengi heldur það að um trúnaðarbrot hafi verið að ræða. Stefnandi neitar því alfarið að hafa brotið af sér í starfi og gerst þannig sek um þá háttsemi sem stefndi ber á hana.

Stefndi ber sönnunarbyrði fyrir því að stefnandi hafi brotið af sér í starfi þannig að það réttlæti fyrirvaralausa uppsögn hennar.

Óumdeilt er að stefnandi hafði, eins og aðrir starfsmenn, heimild til að kaupa vörur í versluninni með 40% afslætti. Af framburði vitnanna D og E má ráða að starfsmönnum hafi borið að skrifa úttektir, sem ekki voru greiddar strax í gegnum sölukerfi, í úttektarbók og hafi starfsmenn haft svigrúm til að greiða þær úttektir eftir hentugleika. Af framburði vitna og gögnum málsins má ráða að ekki hafi verið nægileg festa á framkvæmd úttekta starfsmanna úr versluninni, og þar á meðal greiðslu úttekta, og byggir stefndi sjálfur á því að eftirlit af hans hálfu hafi, hvað þetta varðar, verið lítið. Af framburði stefnanda og framlögðum gögnum má ráða að hún hafi vanrækt að skrá á sig eina úttekt úr versluninni að fjárhæð 11.294 krónur. Óumdeilt er að hún hafi, eftir að henni var sagt upp störfum, hlutast til um að skrá úttektina og síðan greitt hana. Verður ekki, með vísan til framkvæmdar hvað þetta varðar og fjárhæð úttektar, talið að hér sé um að ræða ávirðingu sem hafi réttlætt fyrirvaralausa uppsögn stefnanda.

Að öðru leyti en hér að framan er rakið eru ávirðingar stefnda á hendur stefnanda óljósar. Stefndi tilkynnti ætlað brot stefnanda til lögreglu en lagði ekki fram formlega kæru. Byggði hann þar á því að upptökur úr eftirlitsmyndavél verslunarinnar staðfestu að stefnandi hefði, ásamt móður sinni, stundað talsverðan þjófnað úr versluninni. Af hálfu stefnda var lagt fram skjal þar sem lýst er 29 atvikum er gerðust í versluninni og var skjalið unnið upp úr upptökum úr eftirlitsmyndavél verslunarinnar á tímabilinu júní til ágúst 2016. Eru þessar lýsingar á atvikum í skjalinu takmarkaðar og verður ekki af því eða þeim upptökum úr eftirlitsmyndavélum og öðrum gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu nánar upplýst um atvik hvað þetta varðar. Þá lagði stefnandi fram yfirlit sem sýnir greiðslur hennar inn á reikning stefnda. Verður ekki, með vísan til þessa, talið sannað með framangreindum gögnum að stefnandi hafi tekið vörur ófrjálsri hendi úr versluninni. Þá eru engin gögn fram komin sem staðfesta að stefnandi hafi selt viðskiptavinum verslunarinnar vörur með starfsmannaafslætti.

Þá verður ekki talið að það hafi áhrif á rétt stefnanda, eins og á stendur í máli þessu, að hún lagði ekki fram kæru á hendur stefnda vegna rangra sakargifta.

Með hliðsjón af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu verður ekki talið að stefndi hafi sýnt fram á að stefnandi hafi brotið af sér þannig að það réttlæti fyrirvaralausa uppsögn hennar. Þá óskaði stefndi ekki eftir frekara vinnuframlagi af hálfu stefnanda á uppsagnarfresti. Með vísan til framangreinds þykir stefnandi eiga rétt til greiðslu launa í uppsagnarfresti. Þá á stefnandi rétt til greiðslu er samsvarar orlofi á uppsagnarfresti í samræmi við ákvæði 4. kafla kjarasamningsins, sbr. og lög um orlof nr. 30/1987, einkum 8. gr., og desember- og orlofsuppbót samkvæmt gr. 1.3 í kjarasamningnum. Ekki er tölulegur ágreiningur milli aðila um launakröfu stefnanda né heldur er gerð athugasemd við vaxtakröfur eða upphafstíma vaxta. Er því fallist á kröfu stefnanda að því er varðar kröfu um greiðslu launa í uppsagnarfresti eins og hún er fram sett.

Stefnandi gerir einnig kröfu um að stefnda verði gert að greiða henni miskabætur á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Er fallist á það með stefnanda að með vísan til þess hvernig staðið var að uppsögn verði að telja að um ólögmæta meingerð stefnda gagnvart stefnanda hafi verið að ræða. Framburður stefnanda og málatilbúnaður hennar bendir til þess að ásakanir stefnda og uppsögnin hafi lagst þungt á hana og haft mikil áhrif á líðan hennar. Eins og atvikum var háttað er því fallist á að stefnandi eigi rétt til miskabóta sem þykja, með hliðsjón af atvikum, hæfilega ákveðnar 200.000 krónur.

Eftir framangreindri niðurstöðu verður stefndi, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem ákveðinn er 900.000 krónur, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Við ákvörðun málskostnaðar var tekið tillit til þess að málið var af hálfu lögmanns stefnanda unnið samhliða hliðstæðu máli Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-[...].

Af hálfu stefnanda flutti málið Guðmundur Njáll Guðmundsson lögmaður og af hálfu stefnda flutti málið Jóhannes Ásgeirsson lögmaður.

Uppkvaðning dómsins hefur dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Aðilar og dómari töldu að ekki væri þörf á endurflutningi málsins.

Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, X greiði stefnanda, A, 583.794 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 383.794 krónum frá 19. nóvember 2016 til 2. maí 2017 en frá þeim degi af 583.794 krónum til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 900.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                        Sigríður Elsa Kjartansdóttir