• Lykilorð:
  • Hald
  • Lögreglurannsókn
  • Skaðabætur
  • Skaðabótamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2019 í máli nr. E-1586/2018:

Sverrir Sverrisson

(Unnar Steinn Bjarndal lögmaður)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen lögmaður)

 

1.    Mál þetta var höfðað 30. apríl 2018 og dómtekið 12. mars 2019. Stefnandi er Sverrir Sverrisson, Bragavöllum 8 í Reykjanesbæ og stefndi er íslenska ríkið, Stjórnarráðinu við Lækjargötu í Reykjavík.

 

2.    Dómkröfur stefnanda eru að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda gagnvart stefnanda vegna fjártjóns og kostnaðar sem stefnandi varð fyrir sökum ólögmætrar ákvörðunar Samgöngustofu 8. apríl 2014 þar sem hafnað var kröfu um afléttingu lögregluláss af bifreiðinni UX-290 og eftirfarandi athafnaleysis Samöngustofu allt fram til október 2017. Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða honum í málskostnað 928.636 krónur. Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað.

 

3.    Stefnandi fékk bifreiðinni UX-290 afsalað til sín 21. október 2013. Afsalið mun hafa verið gert og bifreiðin afhent til tryggingar endurgreiðslu láns sem stefnandi veitti fyrri eiganda. Þann 28. mars 2014 skráði Samgöngu­stofa, sem annast um að halda ökutækjaskrá, svokallaðan „lögreglulás“ á bifreiðina að beiðni rannsóknardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum. Með þeirri skráningu var komið í veg fyrir að unnt væri að skrá eigendaskipti að bifreiðinni. Ósk lögreglunnar mun hafa verið sett fram vegna rannsókn­ar á því hvort fjársvik eða skjalafals hafi verið framið í tengslum við þau viðskipti sem að baki eigendaskiptum að bifreiðinni stóðu. Stefnandi krafðist þess bréflega 7. apríl 2014 að skráningu yrði aflétt en Samgöngu­stofa hafnaði þeirri beiðni með ákvörðun 8. apríl 2014. Stefnandi kærði ákvörðun Samgöngustofu til innanríkisráðuneytisins 4. júlí 2014 en ráðu­neytið vísaði kærunni frá með úrskurði 28. apríl 2015. Var þar vísað til þess að skráning og aflétting lögreglulása væri ekki stjórnvaldsákvörðun. Nefndum lögreglulási var svo loks aflétt í október 2017 án þess að nefnd lögreglurannsókn hefði þá eða síðar leitt til neinna frekari aðgerða af hálfu lögreglu eða ákæruvalds. Lögreglumálið hafði þannig í raun dagað uppi. Stefnandi krafði Samgöngustofu um bætur vegna fjártjóns 23. október 2017 er lögreglulásinn hafði staðið á bifreiðinni í þrjú ár og sjö mánuði en kröfu stefnanda var hafnað.

 

4.    Stefnandi telur að engin lagaheimild hafi staðið til þess að setja á lögreglu­lás eins og þann sem hann mátti búa við í þessu máli. Auk þess telur hann að ekkert réttlæti það hversu lengi lögreglulásinn stóð á bifreið hans með til­heyrandi skerðingu á eignar- og ráðstöfunarrétti og að framganga stefnda standist ekki kröfur stjórnsýsluréttar um meðalhóf og málshraða. Stefn­andi telur að verklagsreglur Samgöngustofu, með ákvæðum þeim sem á var byggt um lögreglulás, standist ekki lögmætisreglu stjórnskipun­ar­réttar, reglur um birtingu stjórnvaldsfyrirmæla og takmarki eignarrétt með ólög­mætum hætti. Reglurnar hafi því verið óbindandi fyrir almenna borgara. Stefnandi áréttar að enga lagaheimild sé að finna, hvorki í lögum né reglu­gerðum sem veiti Samgöngustofu heimild til að leggja hömlur á heimild til að breyta skráningu ökutækja með þeim hætti sem gert hafi verið með lögreglulásnum. Þá finnist heldur engar lögbundnar heimildir til þess fyrir lögreglu að óska eftir að slíkum læsingum. Stefnandi vísar til þess að eign­arskerðing sú sem honum var gert að þola hafi staðið í 43 mánuði sem sé drjúgur hluti líftíma bifreiðarinnar og hafi valdið honum tjóni með skerð­ingu markaðsvirðis og auk þess valdið honum kostnaði vegna geymslu­gjalda og lögfræðikostnaðar. Með vísan til þessa krefst hann viðurkenn­ingar á skaðabótaskyldu stefnda.

 

5.    Stefndi vísar til þess að um lögreglulása séu ákvæði í skráningarreglum Samgöngustofu en þær reglur séu settar á grundvelli 5. mgr. 4. gr. reglu­gerðar um skráningu ökutækja nr. 751/2003. Sú reglugerð eigi sér lagastoð í umferðarlögum nr. 50/1987. Skráning lögreglulása sé eingöngu gerð að beiðni lögreglu hvort sem er um að leggja þá á eða aflétta þeim. Þá fram­kvæmd annist Samgöngustofa, sem fari með stjórnsýslulega umsjá öku­tækja­skrár, án þess að taka efnislega afstöðu til einstakra mála. Þetta telur stefndi helgast af því að ákvörðun um skráningu lög­reglulása sé á forræði lögreglu en ekki Samgöngustofu. Stefndi mótmælir því að skráning lög­regl­u­lása byggi á ólögmætum grunni eða að lagagrund­völlur framkvæmd­arinnar sé ófullnægjandi eða brjóti í bága við lögmætis­reglu. Þá mótmælir hann því að ekki sé fullnægt áskilnaði um birtingu stjórnvaldsfyrirmæla að því er varðar reglur um skráningu lögreglulása. Stefndi vísar til þess að stefnandi beini kröfum sínum að röngum aðila í þessu máli. Þannig hefði hann átt að beina kröfum sínum að lögreglu eða ráðuneyti lögreglumála. Þá telur stefndi að skilyrðum þess að unnt sé að fallast á viðurkenningar­kröfu stefnanda sé hvað sem efni málsins líður ekki fullnægt með því að stefnandi hafi ekki gert neinn reka að því að leiða líkum, hvað þá sanna, að hann hafi orðið fyrir tjóni. Þá telur stefndi málsgrundvöll stefn­anda vanreifaðan svo varði frávísun án kröfu.

 

6.    Vafalaust er að umsýsla um skráningu ökutækja samkvæmt VIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987 sem Samgöngustofa annast nú eftir lögum um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála nr. 119/2012 er opin­ber stjórnsýsla. Í því felst að stofnuninni er falið að annast meðferð opinbers valds og taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á rétt manna eða skyldur samkvæmt lögum. Ákvörðun Samgöngustofu 28. mars 2014 um að skrá svokallaðan lögreglulás á bifreið stefnanda að beiðni rannsókn­ar­deild­ar lögreglunnar á Suðurnesjum var því stjórnsýsluákvörðun.

 

7.    Ákvæði sakamálalaga nr. 88/2008 áskilja að þeir sem rannsaka sakamál skuli gæta þess að mönnum verði ekki gert meira tjón, óhagræði eða miski en óhjákvæmilegt er við rannsóknir sakamála. Þá ber þeim sem rannsaka sakamál jafnframt að hraða meðferð mála eftir því sem kostur er. Heimildir lögreglu til að hlutast til um vörslur eða varðveislu muna sem taldir eru tengjast rannsókn sakamáls, kunna að hafa sönnunargildi, hefur verið aflað á refsiverðan hátt, kunna að verða gerðir upptækir eða sem hætta er talin á að kunni að fara forgörðum eða vera stungið undan er að finna í IX. kafla sakamálalaga nr. 88/2008 um hald á munum. Þá er í 88. gr. sakamálalaga ákvæði sem varðar heimild til að kyrrsetja eignir til tryggingar greiðslu sektar, sakarkostnaðar og upptöku ávinnings, sem aflað hefur verið með broti. Í þessum ákvæðum sakamálalaga er mælt fyrir um hvernig með þessar heimildir lögreglu skuli farið og sett ákvæði sem ætlað er að tryggja rétt þeirra sem slíkar ráðstafanir þurfa að þola. Í 15. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 eru lögreglu veittar víðtækar heimildir til að hafa afskipti af hagsmunum almennra borgara, þar á meðal að leggja hald á muni í þeirra eigu í því skyni að tryggja framgang aðgerða sem gerðar eru í þágu almannafriðar og allsherjarreglu og koma í veg fyrir yfirvofandi röskun til að gæta öryggis einstaklinga eða almennings eða til að afstýra afbrotum eða stöðva þau. Í þessum tilvitnuðu lagaákvæðum eru tæmandi taldar þær heimildir sem stjórnvöld hafa til að leggja eignarhömlur á muni almennra borgara í þágu rannsóknarhagsmuna vegna rannsóknar saka­máls. Ekkert þessara lagaákvæða veitir fullnægjandi stoð fyrir þeirri framkvæmd stefnda að leggja hömlur á eignarhald á bifreiðum með því að leggja á svokallaða lögreglulása í ökutækjaskrá. Slíkar heimildir er ekki að finna í umferðarlögum eða lögum um samgöngustofu eða reglugerðum um skráningu ökutækja. Ákvæði 107. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 um haldsrétt í ökutækjum veitir heldur ekki lagastoð í þessu þar sem ákvæðið er bundið við heimildir lögreglu gagn­vart ökumönnum vélknúinna ökutækja sem búsettir eru erlendis til að tryggja greiðslu sekta, skaðabóta eða iðgjalda fyrir lögboðna ábyrgðar­tryggingu.

 

8.    Stjórnvöldum er ekki heimilt að standa að annarri framkvæmd en þeirri sem þeim er að lögum gert eða heimilað að annast. Sú framkvæmd stefnda að skrá svokallaða lögreglulása á bifreiðar að beiðni lögreglu hefur ekki stoð í lögum og er því ólögmæt. Upplýst var við aðalmeðferð máls þessa að framkvæmd skráningar lögreglulása hafi eftir að atvik þessa máls urðu verið breytt þannig að hún sé nú framkvæmd af lögreglu beint en án aðkomu Samgöngustofu. Framkvæmdinni mun hafa verið breytt án þess að breyting yrði á lögum. Vandséð er að þessi breyting standist betur lög en fyrri framkvæmd. Í ljósi þessa verður fallist á kröfur stefnanda í máli þessu. Alkunna er að bifreiðar rýrna í verði með aldrinum. Frásögn stefnanda af því að hann hafi eignast bifreiðina UX-290 í viðskiptum og ætlað hana til endursölu er trúverðug og ekkert fram komið sem er til þess fallið að draga úr trúverðugleika frásagnar hans. Með þessu hefur stefnandi sýnt nægjanlega fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni til að unnt sé að leggja dóm á viðurkenningarkröfu hans. Eftir þessum málalyktum verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað eins og greinir í dómsorði. Af hálfu stefnanda flutti málið Unnar Steinn Bjarndal lögmaður. Af hálfu stefnda flutti málið Óskar Thorarensen lögmaður. Ástráður Haraldsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 


Dómsorð

Viðurkennd er skaðabótaskylda stefnda, íslenska ríkisins, gagnvart stefnanda, Sverri Sverrissyni, vegna fjártjóns og kostnaðar sem stefnandi varð fyrir sökum ólögmætrar ákvörðunar Samgöngustofu 8. apríl 2014, þar sem hafnað var kröfu um afléttingu lögregluláss af bifreiðinni UX-290, og eftirfarandi athafnaleysis Samgöngustofu allt fram til október 2017. Stefndi greiði stefnanda í málskostnað 928.636 krónur.

 

Ástráður Haraldsson