• Lykilorð:
  • Fyrning
  • Samkeppni
  • Skaðabótamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2018 í máli nr. E-2431/2014:

Póstmarkaðurinn ehf.

(Hörður Felix Harðarson lögmaður)

gegn

Íslandspósti ohf.

(Andri Árnason lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 30. janúar 2018, var höfðað 10. apríl 2014 af hálfu Póstmarkaðarins ehf., Kjalarvogi 7-15, Reykjavík, á hendur Íslandspósti ohf., Stórhöfða 29, Reykjavík til greiðslu skaðabóta og málskostnaðar.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 96.565.927 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 10. apríl 2010 til 26. mars 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að mati dómsins með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 10. apríl 2010 til 26. mars 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Í báðum tilvikum er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti eða samkvæmt mati dómsins.

Stefndi krefst aðallega sýknu af dómkröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu að mati dómsins.

 

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi er einkahlutafélag, stofnað í október 2007, og er skráður tilgangur félagsins almenn póstþjónusta. Stefndi er opinbert hlutafélag, alfarið í eigu ríkissjóðs.

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 19/2002 um póstþjónustu, hefur íslenska ríkið einkarétt á póstþjónustu vegna áritaðs pósts sem vegur á bilinu 0-50 grömm. Sá einkaréttur er nú rekinn á vettvangi stefnda, á grundvelli rekstrarleyfis frá Póst- og fjarskiptastofnun. Jafnframt hefur stefnda verið falið að sinna alþjónustu í samræmi við IV. kafla fyrrnefndra laga. Hefur stefndi því afar sterka stöðu á póstmörkuðum og er hann með 100% markaðshlutdeild vegna framangreinds einkaréttar sem hann fer með fyrir hönd ríkisins og hlutverks síns sem alþjónustuveitandi. Á þeim grunni hefur stefndi byggt upp öflugt landsdreifikerfi og haslað sér völl á tengdum mörkuðum. Vegna einkaréttarins sem stefndi fer með geta keppinautar stefnda á póstmarkaði þurft tiltekinn aðgang að dreifikerfi stefnda. Þar af leiðandi geta keppinautar stefnda komist í þá stöðu að vera einnig viðskiptavinir fyrirtækisins.

Í stefnu er því lýst að stefnandi hugðist hefja starfsemi við söfnun og miðlun bréfapósts haustið 2008. Stefnanda hafi verið ljóst að í ljósi einkaréttar stefnda þyrftu samningar að nást við hann um dreifingu bréfapósts undir 50 grömmum að þyngd.

Í bréfi 12. október 2008 óskaði stefnandi eftir upplýsingum frá Póst- og fjarskiptastofnun um gjaldskrá stefnda samkvæmt 5. mgr. 16. gr. laga nr. 19/2002. Í lagaákvæðinu er rekstrarleyfishafa póstþjónustu veitt heimild til að gefa út sérstaka gjaldskrá, t.d. fyrir þá sem afhenda mikið magn póstsendinga í einu. Í svari Póst- og fjarskiptastofnunar 14. október 2008 greinir frá því að í framkvæmd hafi stefndi ekki sett slíka sérstaka gjaldskrá. Stefndi hafi hins vegar veitt afslátt af almennri gjaldskrá af svokölluðum magnpósti innanlands, þ.e. fyrir viðskiptavini sem sendu mikið magn af bréfum eða 500 talsins eða fleiri í einu. Byðist þeim viðskiptavinum afsláttur af almennri gjaldskrá stefnda af vélflokkanlegum og handflokkanlegum eins til 50 gramma magnpósti og handflokkanlegum magnpósti á bilinu 51 til 2000 grömm að þyngd. Almenn gjaldskrá stefnda, sem honum væri skylt að setja fyrir þau bréf undir 50 grömmum að þyngd sem einkaréttur ríkisins næði til, sbr. 6. mgr. 16. gr. laga nr. 19/2002, hefði verið samþykkt af Póst- og fjarskiptastofnun 23. júlí 2008. Sú gjaldskrá væri aðgengileg á heimasíðu stefnda, en einnig fylgdi afrit af verðskránni með svari Póst- og fjarskiptastofnunar.

Í tölvupósti framkvæmdastjóra stefnanda til stefnda 24. október 2008 var óskað eftir tilboði fyrir áritaðan bréfapóst 0-2000 grömm að þyngd og vísað um þá beiðni til áðurgreindrar 5. mgr. 16. gr. laga nr. 19/2002. Greint var frá því að áætlað magn sendinga yrði frá einni milljón bréfa og allt að 15 milljónum bréfa á ári og að stærstur hluti þeirra yrði undir 50 grömmum að þyngd. Óskað var eftir því að skýrt yrði tekið fram hvernig afsláttur hækkaði með auknu magni af sendum bréfum og hverjir afhendingarskilmálar væru. Í svari stefnda í tölvubréfi 4. nóvember 2008 kom fram að stefndi gæti ekki veitt stefnanda umbeðin viðskiptakjör þar sem stefnandi hefði ekki rekstrarleyfi fyrir póstþjónustu frá Póst- og fjarskiptastofnun, sbr. 12. og 13. gr. laga nr. 19/2002.

Framkvæmdastjóri stefnanda sendi samdægurs bréf til Samkeppniseftirlitsins og gerði grein fyrir því að hann teldi synjun stefnda gefa tilefni til íhlutunar af hálfu eftirlitsins á grundvelli 11. gr. og b-liðs 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga og var þess krafist að tekin yrði ákvörðun til bráðabirgða í málinu. Nánar tiltekið að Samkeppniseftirlitið legði fyrir stefnda að svara erindi stefnanda og ganga til samninga við félagið á sama grundvelli og aðra sem nytu afsláttarkjara á grundvelli magns bréfasendinga. Með tölvupósti 5. nóvember 2008 ritaði stefnandi á ný erindi til Samkeppniseftirlitsins og gerði grein fyrir þeim afsláttarkjörum sem hann taldi stefnda bjóða öðrum viðskiptavinum með magnsendingar bréfpósts upp á. 

Í bréfi stefnda 11. nóvember 2008 voru stefnanda veittar upplýsingar um afsláttarkjör stefnda vegna svokallaðs magnafsláttar, þ.e. vegna mikils magns sem afhent væri í einu, og upplýst að auk þess væri veittur svonefndur „stórnotendaafsláttur“ vegna afhents magns á ársgrundvelli, þ.e. færi afhent magn yfir eina milljón sendinga á ári. Hámarksafsláttur væri 30% miðað við 20.001 sendingu eða meira í hvert sinn og allt að einni milljón bréfa á ári. Um afhendingarskilmála vegna magnpósts var vísað til viðskiptaskilmála stefnda.

Í bréfi stefnda 15. desember 2008 voru stefnanda veittar viðbótarupplýsingar um afslætti miðað við umframmagn, þ.e. umfram þá gjaldskrárviðmiðun sem áður hafði verið send. Tekið var fram að upplýsingarnar miðuðu við magn á bilinu ein til 15 milljónir sendinga og að viðbótarafsláttur væri veittur væri fjöldi sendinga á bilinu fimm til 10 milljónir og umfram það á ársgrundvelli. Samkvæmt bréfinu gat afsláttur því verið allt að 41%, miðað við magn umfram 10 milljónir póstsendinga á ári. Jafnframt var þar vísað til þess að til greina kæmi að gera samning við stefnanda á þeim grunni sem þar kæmi fram og yrði hann uppsegjanlegur af beggja hálfu með tveggja mánaða fyrirvara.

Í bréfi stefnda til stefnanda 6. apríl 2009 var áréttað að afsláttarstefna stefnda fyrir viðskiptavini með yfir 500.000 sendingar á ári ætti eingöngu við bréf í þyngdarflokknum 0-50 grömm.

Í bréfi stefnanda til Samkeppniseftirlitsins 6. maí 2009 var saga málsins, eins og hún horfði við stefnanda, rakin og ítrekað að stefnandi teldi að stefndi hefði með framferði sínu gagnvart stefnanda brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga. Stefnandi kvaðst enn leitast við að ná samningum við stefnda á grundvelli þeirra afsláttarkjara sem sambærilegum viðsemjendum stefnda stæði til boða. Þá var enn á ný biðlað til Samkeppniseftirlitsins um aðstoð í málinu og þess m.a. krafist að Samkeppniseftirlitið hlutaðist til um gerð samnings milli stefnanda og stefnda, eftir atvikum með bráðabirgðaákvörðun.

Með bréfi 1. júlí 2009 sendi stefnandi að nýju formlegt erindi til Samkeppniseftirlitsins og óskaði eftir íhlutun þess vegna meintra brota stefnda gegn 11. gr. samkeppnislaga. Í erindinu færði stefnandi rök fyrir því að stefndi hefði brotið gegn ákvæðinu með því í fyrsta lagi að veita upplýsingar seint og tefja þannig innkomu stefnanda á markað fyrir póstmiðlun. Í öðru lagi bar stefnandi því við að hafa ekki enn fengið réttar upplýsingar um verðskrá stefnda og í þriðja lagi hefði stefndi ekki gætt jafnræðis gagnvart viðskiptaaðilum. Stefnandi vísaði til þess að þær upplýsingar um kjör stefnda sem hann hefði þó fengið hefðu lotið að gjaldskrá fyrir magnpóst, en stefnandi teldi á umræddu tímamarki að upplýsa hefði átt um kjör sem stórnotendur hefðu í reynd hjá stefnda. Hefði stefnandi því einungis fengið upplýsingar um afslætti vegna magns í hverri sendingu. Taldi stefnandi að þau kjör sem stefndi hefði boðið honum hefðu í veigamiklum atriðum verið frábrugðin því sem aðrir viðskiptavinir hafi notið og hafi það leitt til misræmis í afsláttarkjörum. Eins var því haldið fram að stefndi hefði hamlað innkomu stefnanda á markað fyrir póstmiðlun.

Í bréfi stefnda til Samkeppniseftirlitsins, 19. ágúst 2009, í kjölfar síðastgreinds erindis stefnanda, var ásökunum stefnanda alfarið hafnað og byggt á því að allar upplýsingar hafi verið veittar og að samræmis hafi verið gætt á milli viðskiptavina.

Með erindum stefnanda, fyrst í formi andsvara við bréfi stefnda 19. ágúst 2009 í bréfi 3. september 2009, sem og í bréfum 9. og 22. október 2009, var frekari sjónarmiðum og ábendingum komið á framfæri við Samkeppniseftirlitið um meint samkeppnisbrot stefnda.

Stefnandi óskaði eftir því við stefnda 21. janúar 2010 að gerður yrði viðskiptasamningur við stefnanda á þeim forsendum að árlegt magn félagsins á sendingum nafnpósts innan einkaréttar ríkisins, á vegum stefnda, færi yfir 10 milljónir bréfa. Samkvæmt gögnum málsins bárust Samkeppniseftirlitinu ábendingar þess efnis að þeirri umleitan hefði ekki verið svarað af hálfu stefnda, en stefndi hafi hins vegar óskað eftir að fá lista yfir þá viðskiptaaðila sem stefnandi hefði náð til sín í viðskipti.

Þann 27. janúar 2010, í kjölfar frekari ábendinga frá stefnanda, gerði Samkeppniseftirlitið húsleit á starfstöðvum stefnda vegna meintra brota á samkeppnislögum og ákvörðunum samkeppnisyfirvalda.

Í bréfi 28. janúar 2010 gerði Samkeppniseftirlitið stefnda grein fyrir því að sennilegt væri talið að hann hefði brotið gegn ákvæðum 11. gr. samkeppnislaga með meintri sölusynjun og ósanngjörnum skilmálum gagnvart stefnanda. Samkeppniseftirlitið teldi að tilefni gæti verið til töku bráðabirgðaákvörðunar, sbr. 3. mgr. 16. gr. samkeppnislaga, sem gæti falið í sér að stefnda yrði bannað að setja tiltekna skilmála fyrir veitingu afsláttar á dreifingu blaða og tímarita í þágu stefnanda. Jafnframt gæti sú ákvörðun falið í sér að stefnda bæri að draga til baka þá kröfu fyrir viðskiptum við stefnanda að listi yfir viðskiptaaðila yrði afhentur stefnda. Einnig kynni slík ákvörðun að fela í sér að stefnda yrði gert skylt að semja við stefnanda á þeim forsendum sem stefnandi hefði krafist, miðað við þá skilmála og afslætti sem fram kæmu í gjaldskrá stefnda fyrir stórnotendur.

Í bréfum til Samkeppniseftirlitsins 1. og 2. febrúar 2010 hafnaði stefndi því að umræddri tilboðsbeiðni stefnanda 21. janúar 2010 hefði ekki verið svarað innan eðlilegra tímamarka og að málið væri á misskilningi byggt. Aldrei hefði verið gerð krafa um afhendingu á lista yfir viðskiptavini stefnanda, það væri þó hluti af vinnu við viðskiptasamning, af þeim toga sem stefnandi hefði óskað eftir, að meta umsýslu og umfang viðskiptanna, m.a. um tíðni og dreifingu magns á ársgrundvelli, en engar slíkar upplýsingar hefðu borist frá stefnanda. Stefndi hélt því fram að ef viðskiptavinir gætu krafist hámarksafsláttar fyrirfram, án þess að nokkuð lægi fyrir um hvernig skilyrðum um heildarmagn yrði fullnægt, myndi hver einasti póstleggjandi hafa möguleika á því að njóta hámarksafsláttar án tillits til póstlagðs magns.

Í samningaviðræðum stefnda og stefnanda, sem áttu sér stað dagana í kjölfarið, fyrir tilstuðlan Samkeppniseftirlitsins, setti stefndi fram tiltekna skilmála fyrir samkomulagi við stefnanda. Meðal gagna málsins eru samskipti stefnanda við Samkeppniseftirlitið þar sem þeim skilmálum er lýst og tilgreint að stefnandi teldi þá fela í sér mismunun, enda þyrftu aðrir viðskiptavinir stefnda ekki að undirgangast sams konar skilmála. Nánar tiltekið var um að ræða skilmála um afhendingu, framlagningu tryggingar fyrir magni viðskipta o.fl.

Þann 9. febrúar 2010 tók Samkeppniseftirlitið bráðabirgðaákvörðun nr. 1/2010. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að sennilegt væri að stefndi hefði brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga. Samkeppniseftirlitið lagði fyrir stefnda að semja við stefnanda miðað við áætlað magn sendinga á vegum hans, í samræmi við gjaldskrá stefnda fyrir stórnotendur og skilmála hennar. Jafnframt kom fram að viðskiptaskilmálar skyldu vera almennir, þannig að fyrirtæki sem ættu í sams konar viðskiptum við stefnda nytu sömu kjara.

Samkvæmt gögnum málsins hófust í kjölfarið samningaviðræður á milli stefnanda og stefnda, en stefnandi sá til þess að Samkeppniseftirlitið var upplýst um framgang viðræðna á tímabilinu 11.-16. febrúar 2010. Þar setti stefndi skilyrði fyrir samningi, sem stefnandi taldi enn að aðrir viðskiptavinir stefnda þyrftu ekki að sæta, m.a. um að flokka skyldi og raða pósti í heimilisfangaröð, framlagningu tryggingar af hálfu stefnanda fyrir viðskiptum, auk þess sem settar voru takmarkanir á fjölda afhendinga á degi hverjum.

Með bréfi 16. febrúar 2010 gerði Samkeppniseftirlitið stefnda grein fyrir því að framangreindir skilmálar fyrir samningi við stefnanda brytu að líkindum gegn 11. gr. samkeppnislaga og ákvæðum bráðabirgðaákvörðunar nr. 1/2010. Kæmi því til greina að leggja dagsektir á stefnda til að ná fram markmiði ákvörðunarinnar. Stefndi féll að endingu frá umræddum skilmálum, öðrum en um framlagningu tryggingar. Samningur tókst milli aðila 24. febrúar 2010 og undirritaði stefnandi tryggingarbréf 1. mars 2010 að fjárhæð 70 milljónir króna fyrir viðskiptum við stefnda. Þann 5. mars 2010 hóf stefnandi svo starfsemi sína á markaði fyrir söfnun og miðlun bréfpósts.

Í erindi stefnanda til Samkeppniseftirlitsins 3. maí 2010 var á því byggt að krafa stefnda um tryggingu úr hendi stefnda við gerð samningsins hafi falið í sér brot gegn 11. gr. samkeppnislaga. Gerð var og krafa um aðgerðir af hálfu Samkeppniseftirlitsins vegna þess að stefndi hafði samið við keppinaut stefnanda, Pósthúsið, um afslátt sem ekki væri í samræmi við sent magn samkvæmt þeim skilmálum sem giltu um viðskipti stefnanda. Erindið fór í umsagnarferli þar sem stefndi hafnaði því að um brot hefði verið að ræða. Hann hefði ekki átt annarra kosta völ varðandi stefnanda, enda væri þar um nýjan viðskiptavin að ræða, sem ekki væri með þekkta viðskiptasögu.

Í svonefndu andmælaskjali Samkeppniseftirlitsins 23. október 2012, vegna þeirra atvika sem áttu sér stað í aðdraganda bráðabirgðaákvörðunar 1/2010 frá 9. febrúar 2010, kemur fram það frummat Samkeppniseftirlitsins að gögn málsins bentu til þess að stefndi hefði með tiltekinni háttsemi brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga. Taldi samkeppniseftirlitið að skilyrði stefnda um að stefnandi upplýsti hverjir væru viðskiptavinir félagsins fæli í sér ósanngjarna skilmála í skilningi 11. gr. samkeppnislaga. Þá taldi Samkeppniseftirlitið að með því að leggja fyrir stefnanda skilmála sem hvorki hefðu verið í samræmi við þá skilmála sem stefndi hefði sett í gjaldskrá sinni fyrir stórnotendur, né í samræmi við samninga annarra stórnotenda við stefnda, hefði fyrirtækið mismunað viðskiptavinum í sambærilegri stöðu. Var þar um að ræða skilmála um tiltekna tíðni og flokkun í afhendingu pósts. Að lokum taldi Samkeppniseftirlitið einnig fela í sér mismunun að krefja stefnanda um 70 milljóna króna tryggingu í tengslum við viðskiptasamning fyrirtækjanna.

Í athugasemdum stefnda í tilefni af framangreindu andmælaskjali var því hafnað að félagið hefði gripið til einhverra þeirra aðgerða gagnvart stefnanda sem hefðu miðað að því að koma í veg fyrir innkomu félagsins á póstmarkað. Samskipti við stefnanda hafi miðað að því að koma á eðlilegu viðskiptasambandi við nýjan viðskiptavin. Þá var því hafnað að stefndi hefði mismunað stefnanda eða beitt félagið sölusynjun í andstöðu við 11. gr. samkeppnislaga. Að sögn stefnda hafi öll samskipti félagsins við stefnanda miðað að því að stefnandi hæfi viðskipti við stefnda á sömu forsendum og aðrir stórnotendur á markaðnum á þeim tíma. Það hafi ekki hentað stefnanda og félagið hafi frekar kosið að „hagnýta sér glufur í útgefnum skilmálum Íslandspósts á umræddum tíma“, en þá þegar hafi verið hafinn undirbúningur að heildarendurskoðun í tengslum við breytingar á dreifikerfi félagsins. Að mati stefnda hafi eini tilgangur stefnanda verið að ná fram kjörum sem hann hafi vitað að aðrir í sambærilegri stöðu nytu ekki í viðskiptum við stefnda og tryggja sér á þeim grundvelli þegar í upphafi yfirburðastöðu á viðkomandi markaði.

Varðandi hina meintu sölusynjun, sem fólst í kröfu stefnda um að stefnandi afhenti viðskiptamannalista sinn, byggði stefndi á því að sá sem veiti magnafslátt, sem miðist við afhent magn yfir tiltekið tímabil, veiti almennt slíkan magnafslátt eftir á, þ.e. þegar ljóst sé að tilskildu magni hafi verið náð yfir tímabilið. Slíkir skilmálar kveði að jafnaði ekki á um að magnafsláttur skuli veittur fyrirfram, án þess að nokkuð liggi fyrir um að viðkomandi muni uppfylla kröfur um magn til afsláttarkjaranna. Í stað þess að synja stefnanda beinlínis um magnafslátt í ljósi þessa, hafi stefndi hins vegar leitað eftir réttlætingu þess að veita umræddan afslátt fyrirfram, til að bregða ekki fæti fyrir stefnanda og samhliða að mismuna ekki öðrum aðilum á viðkomandi markaði. Að sögn stefnda hafi stefnandi hins vegar kosið að gera það tortryggilegt og leitað fulltingis Samkeppniseftirlitsins. Af hálfu stefnda var jafnframt byggt á því að félagið gerði ekki kröfu um að stefnandi gæfi upp upplýsingar um viðskiptavini sína, þ.e. hverjir þeir væru, og var því sérstaklega mótmælt að munnleg yfirlýsing stefnanda um þetta væri látin hafa nokkurt sönnunargildi í þessu sambandi gegn mótmælum stefnda.

Stefndi hafnaði einnig öllum ásökunum um að hafa mismunað stefnanda með ósanngjörnum viðskiptaskilmálum. Félagið byggði á því að þau atriði sem nefnd væru í andmælaskjali Samkeppniseftirlitsins hafi grundvallast á fyrirkomulagi við móttöku póstsendinga frá stórnotendum, sem hafi byggt á áralangri framkvæmdarvenju sem líta mætti á sem umsamda skilmála gagnvart stórnotendum, og væru jafnframt forsenda afsláttarkjara til þessara aðila. Af hálfu stefnda var á því byggt að aðrir stórnotendur hefðu í reynd gengist undir sambærileg skilyrði þó að þau hafi ekki verið tiltekin berum orðum í skilmálum félagsins. Stefnandi hafi hins vegar með kröfum sínum gert tilraun til að kollvarpa gildandi fyrirkomulagi og öðlast þannig viðbótarafslætti án þess að nokkuð hagræði hafi legið þeim til grundvallar fyrir stefnda. Stefndi lagði fram yfirlýsingar frá stórnotendum sem staðfestu umrætt verklag.

Að lokum, varðandi kröfu stefnda um tryggingu úr hendi stefnanda, byggði stefndi á því að tryggingin hefði verið málefnaleg og nauðsynleg í ljósi aðstæðna. Um hafi verið að ræða verulega þjónustuúttekt nýs viðskiptavinar með enga viðskiptasögu þar sem fjárhæðin hafi numið allt að 10% af heildartekjum stefnda. Stefndi hefði ekki getað leyft sér að taka slíka áhættu að lána einum viðskiptavini allt að 10% af heildartekjum félagsins án nokkurra trygginga. Þá var á það bent að í samkeppnisrétti geti það talist hlutlæg réttlætingarástæða ef markaðsráðandi fyrirtæki fer fram á tryggingar frá nýjum viðskiptavinum, jafnvel þeim sem einnig gætu verið keppinautar hins ráðandi félags, vegna slíkrar áhættu og svo lengi sem gætt væri meðalhófs og jafnræðis við slíka beiðni.

Í bréfi 26. febrúar 2014 krafði stefnandi stefnda um skaðabætur að fjárhæð 111.986.207 króna auk vaxta og kostnaðar vegna þess tjóns sem hann áleit að hann hefði orðið fyrir vegna ólögmætra og saknæmra aðgerða stefnda á tímabilinu frá haustinu 2008 til mars 2010, sem hafi haldið stefnanda frá póstmarkaði. Stefndi hafnaði þeirri kröfu með bréfi 14. mars 2014. Sættir hafa ekki náðst á milli aðila málsins og er það tilefni málshöfðunar þessarar.

Undir rekstri málsins aflaði stefnandi í því skyni að renna stoðum undir dómkröfu sína matsgerðar dómkvadds matsmanns, Sigurðar Jónssonar, endurskoðanda, sem dómkvaddur var 6. mars 2015. Matsgerð hans, dags. 22. október 2015, var lögð fram við fyrirtöku málsins 21. janúar 2016. Felst í henni mat á tekjum, rekstrarkostnaði og hagnaði stefnanda, annars vegar fyrir tekjuskatt og hins vegar að honum frádregnum, á tímabilinu frá og með mars 2010 til og með júlí 2011, allt á mánaðarlegum grundvelli. Samandregin niðurstaða fyrir umrætt tímabil var sú að hagnaður af rekstri stefnanda, fyrir tekjuskatt, nam 106.973.000 krónum. Við undirbúning matsgerðarinnar var m.a. stuðst við framlögð gögn stefnanda, opinber gögn og gögn úr bókhaldi stefnanda.

Þegar matsgerðin var komin fram var meðferð málsins frestað utan réttar í febrúar 2016, að beiðni stefnda með samþykki stefnanda, í tilefni af því að stefndi og Samkeppniseftirlitið unnu þá að sáttargerð sem tengist málinu. Sáttin lá fyrir einu ári síðar þann 3. febrúar 2017. Sáttin miðaði að því að ljúka rannsókn og meðferð vegna allmargra kvartana og ábendinga frá aðilum sem starfa á einstökum undirmörkuðum póstþjónustu hérlendis eða tengdum mörkuðum. Af gögnum málsins má ráða að sáttaviðræður þar að lútandi hófust að beiðni stefnda um miðbik árs 2013, en stefnandi var upplýstur um sáttaviðræðurnar í bréfi Samkeppniseftirlitsins 26. júní 2013. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2017, vegna sáttarinnar 3. febrúar 2017, kemur fram að umkvartanir að baki sáttinni endurspegli mikla tortryggni og vantraust gagnvart stefnda og því markaðsumhverfi sem háttsemi fyrirtækisins og staða þess skapi keppinautunum.

Meðal helstu umkvörtunarefna sem tekið var á í umræddri sátt voru þær umkvartanir stefnanda sem reifaðar hafa verið hér. Í sáttinni greinir og frá því að Samkeppniseftirlitið hefði brugðist við þeim kvörtunum og ábendingum að ýmsu leyti, meðal annars með andmælaskjalinu frá 23. október 2012, þar sem komist var að þeirri frumniðurstöðu að stefndi hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína í viðræðum við stefnanda, annars vegar við verðlagningu á þjónustu vegna dreifingar fjölpósts og hins vegar með hindrunum á markaði fyrir póstsöfnun, svo sem áður hefur verið rakið. Þá var vísað til fyrrgreindar bráðabirgðaákvörðunar Samkeppniseftirlitsins frá 9. febrúar 2010 vegna kvörtunar stefnanda.

Í sáttinni fólst að stefndi skuldbatt sig til að gera verulegar breytingar á skipulagi og háttsemi fyrirtækisins og dótturfélaga þess. Þar var á hinn bóginn tekið fram að í sáttinni fælist ekki viðurkenning á brotum af hálfu stefnda. Þá var stefnda ekki gert að greiða sektir vegna brota og tekið var fram að sáttin væri þannig frábrugðin flestum sáttum sem Samkeppniseftirlitið gerði í málum af þessum toga. Um þá ákvörðun vísaði eftirlitið til þess að löggjafinn hafi búið starfsemi stefnda flókna umgjörð sem rekstrarleyfishafa, einkaréttarhafa og alþjónustuveitanda, án þess að tryggja fyrirtækinu tiltekna fjármuni til að standa undir þeim kvöðum, en með því að ganga út frá því að einkaréttur til dreifingar bréfa undir 50 grömmum að þyngd nægði til þess. Löggjafinn hafi því ekki markað afdráttarlaus og skýr skil milli samkeppnisrekstrar og einkaleyfisstarfsemi. Það megi ráða af 16. gr. laga nr. 19/2002, um að heimilt geti verið að nota tekjur af þjónustu í einkarétti til að greiða niður þjónustugjöld í alþjónustu sem ekki falli undir einkarétt, þ.e. í samkeppnisrekstri, ef sýnt hefur verið fram á að slíkt sé beinlínis nauðsynlegt til að verða við sérstökum alþjónustukvöðum sem hvíli á rekstrarleyfishafa. Eins hefði ríkt langvarandi ágreiningur á milli Póst- og fjarskiptastofnunar og stefnda um mat á umfangi alþjónustubyrði í tengslum við eftirlit stofnunarinnar með starfsemi stefnda samkvæmt lögum nr. 19/2002. Af þessu leiddi að það gæti verið afar flókið viðfangsefni að tryggja að samkeppnisrekstur stefnda njóti í engu einkaréttarstarfsemi fyrirtækisins eða þeirrar stöðu sem af henni leiði.

Í ákvörðunarorði ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2017 er efni sáttarinnar tíundað með vísan til 17. gr. f. samkeppnislaga og 22. gr. reglna um málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins nr. 880/2005. Greinir þar frá því að stefndi hafi samþykkt sáttina og staðfest efni hennar með undirritun sinni og sé hún því bindandi fyrir stefnda. Um markmið ráðstafana samkvæmt sáttinni segir, að ætlunin með þeim sé að efla samkeppni á þeim sviðum póstmarkaðar sem stefndi starfi á, með því að vinna gegn samkeppnishömlum, sem að mati Samkeppniseftirlitsins hafi stafað af stöðu Íslandspósts á póstmarkaði og tengdum mörkuðum. Í því skyni að ná því markmiði hafi þau fyrirmæli sem fram kæmu í sáttinni tiltekinn megintilgang. Í fyrsta lagi að stuðla að aukinni fjarlægð milli samkeppnisrekstrar stefnda og þeirrar starfsemi fyrirtækisins sem nýtur einkaréttar, og vinna þannig gegn því að staða Íslandspósts í skjóli einkaréttar og markaðsstyrks sé nýtt til þess að skapa óeðlilegt samkeppnisforskot gagnvart keppinautum. Í öðru lagi að tryggja að keppinautar á sviði póstþjónustu njóti sambærilegra skilmála og kjara í viðskiptum við stefnda og aðrir viðskiptavinir fyrirtækisins í sömu stöðu. Með því er m.a stuðlað að sem hagkvæmustu dreifikerfi pósts á Íslandi. Í þriðja lagi að vinna gegn því að stefndi verði í aðstöðu til þess að koma í veg fyrir samkeppni frá nýjum eða minni keppinautum með undirverðlagningu, víxlniðurgreiðslu, ómálefnalegri höfnun viðskipta eða með öðrum hætti. Í fjórða lagi að stuðla að gagnsæi og skapa skýrari grundvöll til eftirlits með samkeppnisstarfsemi stefnda og styðja með því við önnur markmið sáttarinnar. Í fimmta lagi að tryggja að stefndi starfi í samræmi við markmið og fyrirmæli sáttarinnar og í samræmi við ákvæði samkeppnislaga.

Með sáttinni skuldbatt stefndi sig til að gera umtalsverðar breytingar á skipulagi sínu og starfsháttum. Með ákvörðuninni lauk Samkeppniseftirlitið rannsókn níu mála sem það hafði þá haft til meðferðar vegna stefnda. Litið var svo á að með skilyrðum sáttarinnar hafi verið brugðist við þeim umkvörtunarefnum, sem birst höfðu í formlegum erindum og ábendingum, þ.m.t. þeim sem stöfuðu frá stefnanda og bjuggu að baki bráðabirgðaákvörðuninni 9. febrúar 2010 og andmælaskjalinu frá 23. október 2012. Þá var með ákvörðuninni mælt fyrir um skipan sérstakrar eftirlitsnefndar sem fylgjast skyldi með því að þær breytingar á starfsemi stefnda sem sáttin nær til gangi eftir. Eiga viðskiptavinir og keppinautar stefnda að geta beint til nefndarinnar kvörtunum og ábendingum um starfsemi stefnda.

Með stjórnsýslukæru 16. mars 2017 kærði stefnandi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2017 til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Við fyrirtöku þessa máls næsta dag óskuðu lögmenn aðila eftir frekari frestun meðferðar þess þar til endanleg niðurstaða lægi fyrir. Í stjórnsýslukæru sinni krafðist stefnandi þess aðallega að hin kærða ákvörðun yrði felld úr gildi en til vara að tiltekin efnisatriði í ákvörðunarorði hennar yrðu felld úr gildi, nánar tiltekið um lúkningu rannsóknarmála tengdum þeim kvörtunum frá stefnanda, sem hér að framan eru tíundaðar, um meint samkeppnislagabrot stefnda í aðdraganda þess að rekstur stefnanda hófst. Málsástæður að baki kröfugerð stefnanda í kærumálinu voru þær að kvartanir hans til Samkeppniseftirlitsins hefðu ekki fengið nauðsynleg málalok vegna sáttarinnar.

Með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála 14. ágúst 2017 var ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli nr. 8/2017 staðfest. Nefndin leit svo á að efnisatriði hinnar undirliggjandi sáttar væru heildstæð, ítarleg og gangi langt í þá átt að koma fyrirfram í veg fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu stefnda. Samkeppniseftirlitinu hafi lögum samkvæmt verið heimilt að gera sáttina og að í henni hafi verið brugðist við umkvörtunarefnum vegna stefnda með fullnægjandi hætti. Þeirri niðurstöðu hefur hvorki verið hnekkt né mál höfðað til að fá úrskurðinn felldan úr gildi.

Aðalmeðferð máls þessa, sem fyrirhuguð var 12. september 2017, var frestað að beiðni lögmanns stefnanda með samþykki lögmanns stefnda, og fór hún fram 30. janúar 2018. Þá gáfu skýrslur Reynir Árnason, framkvæmdastjóri stefnanda, og vitnið Héðinn Gunnarsson, fyrrum starfsmaður stefnda. Verður framburður þeirra reifaður eins og þurfa þykir í niðurstöðukafla dómsins. Þá kom fyrir dóminn Sigurður Jónsson, endurskoðandi og dómkvaddur matsmaður, og staðfesti niðurstöður matsgerðar sinnar frá 22. október 2015.

 

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi reisi kröfu sína um skaðabætur úr hendi stefnda á bótareglum skaðabótaréttar, einkum almennu skaðabótareglunni og reglu skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð. Stefndi hafi með saknæmri og ólögmætri háttsemi valdið stefnanda umtalsverðu fjártjóni með háttsemi sinni. Það hafi stefndi gert af ásetningi enda hafi aðgerðir hans beinst sérstaklega gegn stefnanda en ekki öðrum viðskiptavinum stefnda í sambærilegri stöðu. Horfa yrði til þess að um margþætt og samfelld brot hafi verið að ræða sem hafi náð yfir langt tímabil. Í öllu falli yrði að meta umrædda háttsemi stefnda honum til gáleysis. Stefndi hafi nánar tiltekið með háttsemi sinni komið í veg fyrir að stefnandi gæti hafið starfsemi á markaði fyrir söfnun og miðlun bréfapósts haustið 2008 og haldið stefnanda út af markaði allt þar til í mars 2010 er stefndi hafi verið þvingaður til samningsgerðar fyrir tilstilli Samkeppniseftirlitsins. Fjártjón stefnanda sé bein og sennileg afleiðing af þessari háttsemi stefnda.

Íslenska ríkið hafi einkarétt á póstþjónustu vegna póstsendinga bréfa allt að 50 grömmum að þyngd samkvæmt 7. gr. laga nr. 19/2002. Fjallað sé um framsal á þeim rétti ríkisins í 11. gr. laganna og feli Póst- og fjarskiptastofnun rekstrarleyfishafa að annast þann einkarétt ríkisins með útgáfu starfsleyfis. Stefndi fari með einkaréttinn á grundvelli slíks starfsleyfis og annist einnig svokallaða alþjónustu, en gerð sé grein fyrir inntaki hennar í IV. kafla laga nr. 19/2002. Af alþjónustukvöðinni leiði m.a. að stefndi skuli bjóða öllum notendum sem búi við sambærilegar aðstæður eins þjónustu, án mismununar af nokkru tagi, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna.

Lagðar séu skyldur á stefnda í 16. gr. laga nr. 19/2002 til að birta opinberlega almenna viðskiptaskilmála og gjaldskrá innan einkaréttar. Í 4. mgr. ákvæðisins sé mælt fyrir um að gjaldskrár fyrir alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna, jafnræðis skuli gætt og slíkar gjaldskrár skuli vera auðskiljanlegar. Sérstaklega sé tiltekið að heimilt sé að setja sérstaka gjaldskrá fyrir þá sem afhenda mikið magn póstsendinga í einu eða þá sem safna saman póstsendingum mismunandi viðskiptavina. Slík gjaldskrá skuli samkvæmt ákvæðinu taka mið af kostnaði sem ekki hafi þurft að leggja út í við venjulega póstþjónustu.

Stefndi starfi á heildarmarkaði fyrir póstþjónustu en þar undir falli söfnun, flokkun, flutningur og afhending á pósti. Heildarmarkaði fyrir bréfapóst megi skipta í markað fyrir áritaðan og óáritaðan póst, oft nefndan fjölpóst. Staðganga sé ekki á milli hefðbundins nafnpósts og fjölpósts og falli síðarnefndi markaðurinn utan ágreiningsefnis málsins. Vegna einkaréttar ríkisins á dreifingu hefðbundins nafnpósts allt að 50 grömmum að þyngd teljist dreifing og afhending slíkra bréfa til sjálfstæðs markaðar í skilningi 5. tl. 1. mgr. 4. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Þá leiði jafnframt af einkaréttinum að stefndi teljist markaðsráðandi á þeim markaði, sbr. 4. tl. 1. mgr. 4. gr. sömu laga, enda sé öðrum keppinautum ekki til að dreifa. Stefndi sé jafnframt markaðsráðandi í dreifingu þyngri bréfa þótt fyrirtækið njóti ekki einkaréttar þar.

Á grundvelli laga nr. 19/2002 um póstþjónustu, sbr. einkum 5. mgr. 16. gr. laganna, sé ljóst að til staðar sé undirmarkaður eða markaður fyrir söfnun og miðlun pósts. Slík starfsemi gangi út á að safna saman miklu magni póstsendinga frá mismunandi viðskiptavinum og afhenda til rekstrarleyfishafa, í þessu tilviki stefnda. Um sé að ræða markað sem sé aðgreindur frá almennri póstþjónustu þar sem starfsemi sem þessi taki einungis til söfnunar og forflutnings eða forflokkunar en ekki dreifingar og afhendingar pósts. Þótt tilvist þessa markaðar eigi beina stoð í lögum nr. 19/2002 um póstþjónustu þá sé ljóst að starfsemi af þessum toga eigi sér mun lengri sögu hérlendis. Af inntaki umræddrar starfsemi leiði að póstmiðlunarfyrirtækjum sé nauðsynlegt að eiga viðskipti við rekstrarleyfishafa eða annan póstdreifingaraðila. Í ljósi einkaréttar stefnda á dreifingu bréfa allt að 50 grömmum að þyngd, sem séu um 90-95% alls nafnpósts, sé ekki öðrum viðsemjendum til að dreifa en stefnda. Þá sé einnig ljóst að stefndi sinni einnig þeim þjónustuþætti að safna og forflokka póst og sé hann því beinn keppinautur póstmiðlunarfyrirtækja.

Á markaðsráðandi fyrirtækjum hvíli ríkar skyldur á grundvelli 11. gr. samkeppnislaga til að grípa ekki til neinna ráðstafana sem raskað geti með óeðlilegum hætti samkeppni á markaði eða misbeita með öðrum hætti stöðu sinni. Umfang þeirra skyldna sem hvíli á markaðsráðandi fyrirtækjum ráðist af atvikum og aðstæðum hverju sinni en ríkari kröfur séu gerðar til þeirra fyrirtækja sem njóti mjög hárrar markaðshlutdeildar. Af ákvæði 11. gr. samkeppnislaga leiði meðal annars að markaðsráðandi fyrirtækjum sé óheimilt að setja samkeppnishamlandi skilyrði fyrir viðskiptum eða neita aðilum um viðskipti án hlutlægra eða málefnalegra ástæðna. Þá sé lagt bann við því í c-lið ákvæðisins að mismuna viðskiptaaðilum með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum. Misnotkun geti jafnframt verið fólgin í ósanngjörnum viðskiptaskilmálum, sbr. a-lið 11. gr. samkeppnislaga, eða að sett séu skilyrði fyrir samningagerð þar sem viðsemjendur taki á sig viðbótarskuldbindingar sem tengjast ekki efni samninganna, sbr. d-lið ákvæðisins.

Stefndi hafi beitt stefnanda samfelldri sölusynjun frá því í október 2008 og þar til samningar hafi tekist fyrir tilstilli Samkeppniseftirlitsins í lok febrúar 2010. Um sé að ræða skýrt brot gegn 11. gr. samkeppnislaga enda hafi engar málefnalegar eða hlutlægar ástæður verið fyrir þeirri ákvörðun stefnda að bregðast ekki við óskum stefnanda um viðskipti á umræddu tímabili. Þar sem stefndi hafi farið með einkarétt ríkisins á markaði fyrir nafnpóst allt að 50 grömmum sé ljóst að starfsemi stefnanda, rétt eins og annarra fyrirtækja sem hyggist starfa við söfnun og miðlun bréfapósts, hafi verið háð því að samningar tækjust við stefnda. Í ljósi þessarar einokunarstöðu stefnda hafi hvílt sérstaklega rík skylda á honum að ganga til samninga við stefnanda án óeðlilegra tafa og án þess að sett yrðu ómálefnaleg skilyrði fyrir viðskiptunum eða skilyrði sem öðrum viðsemjendum stefnda hafi ekki verið gert að sæta.

Samskipti stefnanda, stefnda og Samkeppniseftirlitsins á tímabilinu október 2008 til loka febrúar 2010 sýni að stefndi hafi án nokkurra málefnalegra ástæðna haldið stefnanda frá viðskiptum á tímabilinu. Upplýsingar sem stefndi hafi veitt um viðskiptakjör hafi fyrst í stað ekki verið í neinu samræmi við erindi stefnanda. Ósk stefnanda um tilboð eða viðskiptasamning hafi frá upphafi verið skýr um að umfang viðskiptanna gæti numið allt að 15 milljónum bréfa á ársgrundvelli og að samningurinn yrði að endurspegla stigvaxandi afslætti eftir umfangi viðskiptanna. Þrátt fyrir að afslættir til söfnunaraðila hafi á þessum tíma numið allt að 41% hafi fyrstu svör stefnda gefið til kynna að hámark afslátta væri 30%. Upplýsingar um gjaldskrá sem veittar hafi verið 15. desember 2008 hafi einnig reynst rangar og ófullnægjandi. Ekki hafi verið upplýst um þá staðreynd að afslættir af bréfapósti yfir 50 grömmum gæti numið allt að 60%, auk þess sem hámarksafsláttur af viðskiptum allt að fimm milljónum bréfa hafi verið sagður vera 30%. Stefndi hafi gert samninga í byrjun árs 2009 við nokkurn fjölda viðskiptavina um 32% afslátt fyrir viðskipti sem samkvæmt gjaldskrá frá 15. desember 2008 hefðu aldrei getað leitt til hærri afsláttar en 30%.

Af gögnum málsins megi sjá að stefnanda hafi ekkert orðið ágengt í að ná samningum við stefnda enda hafi hann hvorki fengið formlegt tilboð um viðskipti né drög að viðskiptasamningi þrátt fyrir margvísleg afskipti Samkeppniseftirlitsins. Þegar stefndi hafi loks ljáð máls á því að ganga frá viðskiptasamningi hafi hann sett þau skilyrði að stefnandi upplýsti fyrirfram hverjir viðskiptavinir hans væru. Þetta skilyrði hafi ekki einungis verið ómálefnalegt heldur hafi það einnig falið í sér hvatningu til ólögmætra samskipta milli keppinauta, sbr. 10. gr. samkeppnislaga.

Stefndi hafi að endingu fallið frá kröfum um að stefnandi veitti upplýsingar um viðskiptavini sína en þess í stað boðið samning á þeim grundvelli að miðað yrði við magn hvers mánaðar í stað magns á ársgrundvelli. Þessi skilmáli hafi ekki verið í samræmi við gjaldskrá stefnda fyrir stórnotendur og þegar af þeirri ástæðu ómálefnalegur. Þá hafi þetta skilyrði stefnda falið í sér mismunun og því verið andstætt c-lið 11. gr. samkeppnislaga, enda hafi aðrir stórnotendur notið afslátta í samræmi við umfang viðskipta á ársgrundvelli.

Þá hafi stefndi gert það að skilyrði fyrir viðskiptum við stefnanda að póstur yrði ekki afhentur oftar en tvisvar á dag og að stefnanda bæri að flokka bréf eftir póstnúmerum og í heimilisfangaröð. Þessi skilyrði hafi ekki átt stoð í gjaldskrá eða skilmálum stefnda og hafi auk þess ekki verið að finna í samningum stefnda við aðra stórnotendur. Um hafi verið að ræða ólögmæta mismunun samkvæmt c-lið 11. gr. samkeppnislaga. Þá hafi áskilnaður um flokkun bréfa eftir póstnúmerum og í heimilisfangaröð verið ómálefnalegur og falið í sér brot gegn bæði a- og c-lið 11. gr. samkeppnislaga. Stærstur hluti umrædds bréfapósts sé flokkaður sjálfkrafa í öflugum flokkunarvélum stefnda. Sérstök flokkun stefnanda hefði því verið óþörf auk þess sem hún hefði útheimt umtalsverðar fjárfestingar stefnanda í vélakosti og/eða mannafla. Stefnda hafi því mátt vera ljóst að stefnandi gæti ekki starfað á grundvelli þessara skilyrða.

Stefndi hafi fallið frá þessum skilyrðum eftir að Samkeppniseftirlitið hafi tekið ákvörðun til bráðabirgða nr. 1/2010, en þó ekki fyrr en hótað hafi verið beitingu dagsekta. Stefndi hafi hins vegar sett nýtt skilyrði fyrir viðskiptunum, þess efnis að stefnandi undirritaði 70 milljóna króna tryggingarbréf. Aðrir stórnotendur hefðu ekki sætt sambærilegum skilmálum og hafi því verið um ólögmæta mismunun að ræða samkvæmt c-lið 11. gr. samkeppnislaga. Stefnandi hafi ekki séð annan kost en að undirrita tryggingarbréfið enda hafi stefnt í enn frekari tafir á því að hann gæti hafið starfsemi. 

Háttsemi stefnda sé ólögmæt sölusynjun í skilningi 11. gr. samkeppnislaga. Sölusynjunin hafi staðið yfir allt frá því í október 2008 og uns samningar hafi tekist með undirritun samnings 24. febrúar 2010 og tryggingarbréfs 1. mars 2010. Þá fyrst hafi stefnandi getað hafið starfsemi. Framangreind skilyrði stefnda fyrir viðskiptum við stefnanda hafi brotið gegn a-, c- og d-lið 11. gr. samkeppnislaga.

Þá hafi stefndi gripið til sértækrar verðlagningar í tilefni af viðleitni stefnanda að komast inn á póstmarkaðinn. Slík sértæk verðlagning hafi verið sjálfstætt brot gegn 11. gr. samkeppnislaga, auk þess sem hún hafi falið í sér mismunun gagnvart stefnanda í skilningi c-liðar ákvæðisins. Um þetta vísist til tilboða stefnda til viðskiptavina um endurnýjun samninga, þar sem afslættir sem hafi áður verið 30% yrðu hækkaðir í 32%. Á sama tíma hafi stefndi upplýst Samkeppniseftirlitið og stefnanda um að afslættir samkvæmt gjaldskrá, og þar með mögulegir afslættir til stefnanda fyrir sambærileg viðskipti, væru 30% að hámarki. Þessi háttsemi stefnda hafi verið sérstaklega alvarleg og byggi stefnandi á því að til þeirra hafi verið gripið  í tilefni af samningum sem stefnandi taldi sig hafa náð við allnokkra stórnotendur bréfapósts.

Þessi háttsemi stefnda hafi verið sérstaklega alvarleg með hliðsjón af því að stefndi sé opinbert hlutafélag sem fari með einkarétt íslenska ríkisins. Á stefnda hafi hvílt ríkar skyldur á grundvelli laga um póstþjónustu og samkeppnislaga. Stefndi hafi vanrækt að birta gjaldskrá til stórnotenda opinberlega og auk þess veitt stefnanda og Samkeppniseftirliti upplýsingar seint, þrátt fyrir fram komna beiðni stefnanda þar að lútandi. Brot stefnda hafi verið margþætt og samfelld yfir langt tímabil og hafi stefndi með þeim misnotað markaðsráðandi stöðu sína í andstöðu við bannákvæði 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005.      

Stefnandi hafi verið í stakk búinn að hefja starfsemi haustið 2008, enda hafi hann þá búið yfir þeirri þekkingu og aðstöðu sem til hafi þurft til söfnunar og miðlunar bréfapósts. Þá hafi stefnandi haft vilyrði frá allnokkrum stórnotendum bréfapósts um viðskipti um leið og stefnandi hæfi starfsemi. Með framangreindri háttsemi stefnda hafi stefnanda hins vegar verið haldið út af markaði frá hausti 2008 og fram í byrjun mars 2010. Stefnandi hafi hafið starfsemi um leið og samningar við stefnda hafi tekist. Hagnaður af starfsemi stefnanda hafi fljótt orðið umtalsverður og því ljóst að tafir á því að starfsemi gæti hafist hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda vegna missis hagnaðar.

Starfsemi stefnanda sé í eðli sínu einföld. Stefnandi njóti afslátta hjá stefnda á grundvelli umfangs viðskipta og hagræðis stefnda af þeim viðskiptum, enda sé stefnda skylt samkvæmt lögum um póstþjónustu og 11. gr. samkeppnislaga að verðleggja þjónustu í samræmi við það hagræði sem hljótist af viðskiptunum. Á því tímabili sem hér um ræði hafi afslættir farið stigvaxandi eftir umfangi viðskiptanna. Með því að safna saman pósti frá mörgum póstnotendum hafi stefnandi getað fengið betri kjör hjá stefnda en einstakir póstnotendur. Með þessu hafi skapast svigrúm til miðlunar, þ.e. stefnandi hafi þá getað boðið einstökum póstnotendum betri kjör en þeir hafi notið í beinum viðskiptum við stefnda.

Krafa stefnanda um skaðabætur taki mið af þeim hagnaði sem hefði hlotist af starfsemi stefnanda á 16 mánaða tímabili, eða frá nóvember 2008 til og með febrúar 2010, hefði stefndi ekki synjað stefnanda um viðskipti. Undir rekstri málsins aflaði stefnandi matsgerðar dómkvadds matsmanns, Sigurðar Jónssonar, endurskoðanda, dags. 22. október 2015. Niðurstaða matsgerðarinnar er sú að hagnaður stefnanda, að frádregnum tekjuskatti, á 16 mánaða tímabili, frá mars 2010 til júlí 2011, hafi verið 106.973.000 krónur. Stefnandi byggir á því að niðurstaða matsgerðarinnar endurspegli tjón hans vegna missis hagnaðar af rekstri á tímabilinu nóvember 2008 til og með febrúar 2010. Fjárhæð dómkröfu hans, 96.565.927 krónur, rúmist innan þeirrar fjárhæðar.

Til vara krefst stefnandi bóta að álitum dómsins, yrði stefnandi ekki talinn hafa staðreynt nákvæmlega hvert tjón hans sé svo sem dómvenja sé fyrir. Þær tafir sem hafi orðið á því að hann gæti hafið starfsemi hafi leitt til verulegs tjóns sem yrði rakið beint til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda.

Stefnandi reisi vaxtakröfu sína á 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Hin bótaskylda háttsemi hafi hafist í lok október 2008 og staðið fram í lok febrúar 2010, þótt stefnanda hafi verið ómögulegt að afla upplýsinga um fjártjónið fyrr en síðar. Stefna í málinu hafi verið birt 10. apríl 2014 og krafist sé vaxta í fjögur ár fram til þess dags. Stefnandi byggi kröfu sína um dráttarvexti á III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 9. gr. laganna. Upphafsdagur dráttarvaxta miðist við þann dag er mánuður hafi verið liðinn frá kröfubréfi stefnanda til stefnda um skaðabætur. Um málskostnað vísi stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi krefjist í fyrsta lagi sýknu á þeim grundvelli að krafan sé niður fallin fyrir fyrningu, en ella tómlæti. Krafa stefnanda um skaðabætur lúti að tímabilinu frá nóvember 2008 til og með byrjun mars 2010. Fyrningarfrestur þeirrar kröfu hafi byrjað að líða 24. febrúar 2010, er samningar hafi verið undirritaðir milli stefnanda og stefnda, en í síðasta lagi 5. mars 2010, en þá hafi stefnandi haft nauðsynlegar upplýsingar um meint tjón og tjónvald, eða átt þess kost að afla sér slíkra upplýsinga. Kröfur stefnanda hafi því verið fyrndar við málshöfðun 10. apríl 2014, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Jafnframt hafi stefnandi með tómlæti sínu glatað rétti til að hafa uppi kröfur á hendur stefnda. Stefnanda hafi borið að hafa uppi kröfur sínar svo fljótt sem verða mætti gagnvart stefnda og hefði getað gert það fyrr. Tæp fjögur ár hafi liðið frá samningsgerð aðila þar til stefnandi hafi höfðað málið. Með því hafi stefnandi sýnt af sér tómlæti um gæslu réttar síns og þar með glatað rétti til að hafa kröfur uppi í málinu.

Yrði ekki fallist á framangreint byggi stefndi sýknukröfu sína á því að skilyrðum sakarreglunnar sé ekki fullnægt í málinu. Stefndi hafni því að af hans hálfu, eða einstakra starfsmanna hans, hafi verið gripið til aðgerða gegn stefnanda sem hafi miðað að því að koma í veg fyrir innkomu stefnanda á póstmarkað. Öll samskipti stefnda hafi miðað að því að koma á eðlilegu viðskiptasambandi við nýjan viðskiptavin. Þau úrræði sem gripið hafi verið til í því skyni hafi ekki falið í sér brot á 11. gr. laga nr. 44/2005 eða öðrum skráðum eða óskráðum reglum, þ.m.t. reglum skaðabótaréttar.

Stefndi geti ekki talist vera keppinautur stefnanda sem söfnunaraðili á markaði fyrir póstmiðlun/póstsöfnun á þeim grundvelli að stefndi sinni einnig þeim þjónustuþætti að safna og forflokka póst til afhendingar, m.a. til stefnda sjálfs. Gagnvart stefnda feli starfsemi póstmiðlunarfyrirtækja það eingöngu í sér að póstmagn færist frá einum viðskiptavini hans yfir til annars. Tilfærslan hafi lítil áhrif á stefnda þar sem slík póstmiðlunarfyrirtæki njóti afslátta hjá stefnda í samræmi við það hagræði sem starfsemi þeirra skapi í rekstri stefnda. Væru póstmiðlunarfyrirtæki ekki fyrir hendi þyrfti stefndi sjálfur að sinna þessari þjónustu með þeim viðbótarkostnaði sem því fylgi. Það skapi því engan fjárhagslegan ávinning fyrir stefnda að keppa á markaði fyrir póstmiðlun/póstsöfnun. Engu breyti þó að stefnandi hafi á þeim tíma sem hér skipti máli ekki uppfyllt skilyrði til að teljast söfnunaraðili í skilningi 5. mgr. 16. gr. laga nr. 19/2002 og ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 16/2012.

Stefndi mótmæli öllum málsástæðum stefnanda sem lúti að meintri saknæmri og ólögmætri háttsemi stefnda, m.a. byggðum á 11. gr. samkeppnislaga. Stefndi hafi ekki beitt stefnanda sölusynjun frá því í október 2008 og uns samningur hafi verið undirritaður í febrúar 2010. Stefndi hafi frá upphafi verið reiðubúinn að semja við stefnanda á sömu forsendum og aðra sambærilega notendur póstþjónustu, á grundvelli gildandi gjaldskráa og viðskiptaskilmála, sem samningar við þáverandi póstnotendur hafi byggt á. Stefnanda hafi ekki tekist sönnun þess, eða gert líklegt, að hann hefði  með samningi á þeim grundvelli sem honum hafi staðið til boða samkvæmt bréfi stefnda 15. desember 2008, verið verr settur en aðrir viðskiptavinir, sambærilegir stefnanda, sem leitað hefðu til stefnda á sama tímamarki, eða að stefndi hafi brotið gegn stefnanda með saknæmum eða ólögmætum hætti með þeim kjörum sem stefnanda hafi þá verið boðin.

Stefndi hafni því að honum hafi borið að veita stefnanda sérkjör í formi afslátta sem svokölluðum stórnotanda. Eins hafi það ekki falið í sér ólögmæta sölusynjun af hálfu stefnda að synja stefnanda um slík kjör fyrirfram. Þegar stefnandi hafi leitað til stefnda og krafist þess að fá sambærileg viðskiptakjör og aðrir stórnotendur fengju hafi ekkert legið fyrir um það að stefnandi væri eða yrði stórnotandi. Því hafi ekki verið fyrir hendi forsendur til að réttlæta samningaviðræður um umkrafin afsláttarkjör til stefnanda, m.a. af ástæðum sem rekja megi til stefnanda. Með ítrekuðum kvörtunum og athugasemdum hafi stefnandi hins vegar fengið því framgengt að Samkeppniseftirlitið hafi gert stefnda skylt, með bráðabirgðaákvörðun, að semja við stefnanda „miðað við áætlað magn [stefnanda] í samræmi við gjaldskrá [stefnda] fyrir stórnotendur og skilmála hennar“. Þeirri bráðabirgðaákvörðun hafi stefndi farið eftir.

Stefnandi hafi, í upphafi viðræðna við stefnda, ekki verið í sambærilegri stöðu og „stórnotendur“, sem um árabil hefðu póstlagt slíkt magn hjá stefnda að félli undir skilmála stórnotendaafsláttar, og hafi því á hlutlægum grundvelli átt rétt á viðbótarafslættinum. Stefndi hafi hins vegar, án þess að hafa borið til þess skyldu, óskað eftir því að stefnandi léti honum í té upplýsingar um það, við upphaf viðskipta, að stefnandi væri líklegur til að póstleggja mikið magn á ársgrundvelli. Þetta hafi stefndi álitið nauðsynlegt í því skyni að geta réttlætt það að koma til móts við kröfur stefnanda um að samið yrði fyrirfram við hann um stórnotendaafslátt, eða fullan magnafslátt. Stefnda hafi ekki verið fært að vita á öðrum grundvelli hvert líklegt viðskiptamagn stefnanda yrði á ársgrundvelli. Stefndi hafi hins vegar hvergi synjað stefnanda um viðskipti þrátt fyrir þessa viðleitni, svo sem stefnandi byggi málatilbúnað sinn á. Stefnandi hafi hins vegar með öllu hunsað tilmæli stefnda varðandi upplýsingar um meint viðskipti. Óumdeilt sé að hvort tveggja stefnandi og samkeppnisyfirvöld hafi synjað stefnda um lágmarksupplýsingar að þessu leyti. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi verið með viðskiptasamninga á umræddu tímamarki sem hefðu leitt til umræddra afsláttarkjara á ársgrundvelli. Það sé stefnanda  að sanna slíkt í skaðabótamáli þessu, en um ætluð viðskipti njóti engra gagna í málinu. Eigi stefnandi því ekki rétt til skaðabóta úr hendi stefnda.

Þær kröfur sem stefndi hafi gert gagnvart stefnanda, vegna umleitana hans, hafi verið málefnalegar, helgast af eðli póstþjónustu og gilt hafi jafnt gagnvart öllum þeim sem sambærilegrar þjónustu hafi notið. Ítrekað hafi komið fram í samskiptum við stefnanda að ekki hafi tíðkast að veita afslátt á grundvelli hugsanlegra magnviðskipta. Hafi það gilt gagnvart öllum viðskiptavinum stefnda. Þeir aðilar sem hafi notið stórnotendaafsláttar á umræddum tíma hafi allir uppfyllt það að hafa um árabil reglulega póstlagt tilskilið magn samkvæmt afsláttarkjörum stefnda og því legið fyrir að þeir hafi uppfyllt viðmiðanir um tilskilið magn. Því sé ekki hægt að bera saman þeirra viðskipti við viðskipti nýs viðskiptavinar sem óski eftir hámarksafslætti fyrirfram, án þess að nokkuð liggi fyrir um raunverulegt magn viðskipta hans á ársgrundvelli. Þessir aðilar hafi ekki verið í sambærilegri stöðu að þessu leyti og því sé ekki unnt að líta svo á að stefndi hafi beitt stefnanda mismunun.

Stefndi hafni því að hann hafi, á síðari stigum viðræðna aðila um gerð viðskiptasamnings, gert kröfu um móttöku- og afhendingarskilmála póstsendinga, sem hafi falið í sér mismunun gagnvart stefnanda. Á þessu byggi stefnandi kröfugerð sína og skilgreini sig í þeirri umfjöllun sem stórnotanda og að um hafi verið að ræða skilmála sem ekki hafi gilt gagnvart öðrum slíkum viðskiptavinum stefnda. Stefndi vísi þvert á móti til þess að umræddir móttöku- og afhendingarskilmálar magnpósts hafi byggt á skilmálum stefnda og umsömdu fyrirkomulagi og verið forsenda þess að stórnotendum hafi verið veittur allt að 41% afsláttur. Þeir móttöku- og afhendingarskilmálar stefnda hafi verið grundvallarástæða fyrir því að kostnaðarhagræði hafi skapast hjá stefnda svo sem gögn málsins beri með sér. Umrætt fyrirkomulag hafi verið í samræmi við 5. mgr. 16. gr. laga nr. 19/2002 og sjónarmið að baki því ákvæði. Líta verði svo á að með forsendum afsláttarkjaranna hafi verið gefnar forsendur fyrir afslætti stefnda, jafnvel þótt óskráðar hafi verið. Ekki hefði komið til álita að veita umrædda afslætti til stórnotenda hefði þetta verklag ekki verið fyrir hendi, enda hefði þá ekkert kostnaðarhagræði verið fyrir stefnda af viðskiptum við stórnotendur og þar af leiðandi ekki svigrúm til veitingu afsláttanna. Allur meginþorri magnpósts frá stórnotendum hafi verið flokkaður og afhentur í samræmi við umsamda skilmála við stórnotendur. Umrætt fyrirkomulag hafi hins vegar ekki hentað stefnanda sem ekki hafi sinnt söfnunarhlutverki í starfsemi sinni á umræddum tíma. Magnsendingar stefnanda hafi þannig verið lítt eða ekki flokkaðar og ekki uppfyllt skilyrði umrædds afsláttarfyrirkomulags fyrir stórnotendur stefnda. Stefndi líti svo á að þeir stórnotendur sem hafi verið í viðskiptum við stefnda á umræddu tímamarki hafi með samkomulagi eða í samskiptum við stefnda gengist undir framangreind afhendingarskilyrði, þótt þau hafi ekki öll verið tiltekin berum orðum í birtum skilmálum stefnda. Ennfremur, þrátt fyrir að það sem slíkt hafi sætt athugasemdum af hálfu samkeppnisyfirvalda, sé ekki um mismunum að ræða gagnvart stefnanda, sem kynni að hafa valdið honum tjóni.

Stefnanda hafi, með bráðabirgðaákvörðun samkeppniseftirlitsins, verið sköpuð yfirburðarstaða í skjóli afsláttarkjara stefnda. Hafi hann náð til sín umtalsverðum hluta af veittum afsláttum sem milliliður milli fyrirtækja sem póstleggi mikið magn af pósti, en án eiginlegrar starfsemi á sviði söfnunar. Þetta fyrirkomulag hafi leitt til þess að svo til allur póstur frá stefnanda færi í hæsta afsláttarflokk, að hluta til án tengsla við raunverulegan sparnað stefnda af móttöku póstsendinga í miklu magni. Réttur og eðlilegur skilningur á eðli inntaks 5. mgr. 16. gr. laga um póstþjónustu væri sá að milliliður, á borð við stefnanda, ætti ekki að vera í þeirri aðstöðu að geta tekið til sín prósentur af afslættinum, án þess að leggja neitt annað af mörkum en að stofna til reikningssambands við viðskiptavini annars vegar og stefnda hins vegar. Þessi afstaða birtist meðal annars í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar í máli nr. 16/2012. Staðfesti hún að stefnandi hafi ranglega krafist samningsskilmála við stefnda, sem farið hafi hvort tveggja gegn ákvæði laga um póstþjónustu nr. 19/2002 og þeim viðurkenndu skilmálum sem í gildi hafi verið gagnvart stórnotendum í viðskiptum við stefnda á umræddum tíma. Megi því vera ljóst að ekki verði litið á eðlilegar kröfur stefnda til stefnanda um afhendingarfyrirkomulag magnsendinga á pósti sem viðskiptahindrun. Þá yrði umrætt tímabil ekki heldur lagt til grundvallar við útreikning á meintu tjóni stefnanda, enda hafi hann þá raunar notið, í ljósi skyndilegrar markaðsráðandi stöðu sinnar, samkeppnisforskots sem hann hafi ekki átt rétt á.

Um skilmála í tryggingarbréfi, með veði í viðskiptakröfum stefnanda, vísi stefndi til þess að umrætt tryggingarbréf hafi að lokum ekki varðað tryggingu vegna hámarksafslátta, sem veittir hafi verið fyrirfram, þ.e. tryggingu fyrir forsendubresti ef magn uppfyllti ekki áætlað magn á ársgrundvelli. Þar hafi heldur verið um að ræða tryggingu vegna lánveitinga stefnda til stefnanda vegna kaupa stefnanda á þjónustu stefnda almennt. Hafi því verið um að ræða tryggingu fyrir greiðslu á þjónustu og hafi tryggingarbréfinu verið ætlað að tryggja skaðlausa greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum stefnanda við stefnda vegna reikningslána. Umrædd trygging hafi verið bæði málefnaleg og eðlileg í ljósi aðstæðna, auk þess sem gætt hafi verið meðalhófs og jafnræðis við ákvarðanatöku um að krefjast hennar. Að mati stefnda hafi beiðnin því ekki geta talist misnotkun á markaðsráðandi stöðu í skilningi 11. gr. laga nr. 44/2005, enda hafi ekki verið um að ræða viðskipti sambærileg viðskiptum stórnotenda við stefnda, sem hefðu verið í viðskiptum við stefnda um árabil, án greiðslufalls. Sé því ekki hægt að líta til annarra viðskiptavina stefnda að þessu leyti.

Ekki hafi verið gripið til sértækrar verðlagningar í tilefni af viðleitni stefnanda til að komast inn á póstmarkaðinn. Þeim staðhæfingum stefnanda, að fyrirtækjum hafi verið boðin ný og betri kjör og að ráðist hafi verið í endurskoðun samninga við stórnotendur í tilefni af innkomu stefnanda á markað, sé mótmælt sem órökstuddum og ósönnum. Stefndi hafi engan hag af því að keppa á póstmiðlunarmarkaði og því engan hag af því að koma í veg fyrir innkomu stefnanda á markað fyrir póstmiðlun/póstsöfnun. Unnið hafi verið að nýrri magnverðskrá á umræddum tíma, þar sem athugasemdir hefðu verið gerðar við að í samningum við viðskiptavini hafi gjarnan verið fastur afsláttur. Í hinni nýju magngjaldskrá hafi magnafslættir breyst almennt þannig að þeir hafi orðið sveigjanlegri, frá 22,5% og upp í 32% eftir póstlögðu magni í hvert sinn. Raunar hafi afsláttarkjör stórra notenda við þetta allt eins getað lækkað vegna umræddra breytinga á magngjaldskrá. Breytingin hafi í raun verið hagstæð fyrir söfnunaraðila, sem þá hafi getað tekið að sér meðferð allra sendinga frá ýmsum viðskiptavinum, sem áður hafi notið frekari afsláttar hjá stefnda.

Skilyrði almennu skaðabótareglunnar um saknæmi séu ekki uppfyllt í málinu. Stefndi hafi ekki hagað sér með ólögmætum hætti í skilningi almennu skaðabótareglunnar gagnvart stefnanda. Þá séu meint brot gegn ákvæðum laga nr. 44/2005 ekki sjálfkrafa saknæm, enda sé í lögunum ekki kveðið á um að saknæmi sé skilyrði brots. Þá sé það ekki hugtaksskilyrði samkvæmt 11. gr. laga nr. 44/2005 að brot hafi verið framið með saknæmum hætti, auk þess sem ekki sé gerð krafa um að háttsemin hafi sem slík haft samkeppnishamlandi áhrif á markað, þ.á m. að hún hafi valdið tjóni. Tilvísun stefnanda til ákvæða laga nr. 44/2005 hafi því takmarkaða þýðingu ein og sér.

Stefnandi hafi í reynd ekki orðið fyrir bótaskyldu fjártjóni. Í öllu falli sé tjón stefnanda með öllu ósannað og órökstutt og því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Varakrafa stefnda um lækkun á kröfugerð stefnanda byggi á því að meint töf stefnda á svörum eða samningsgerð geti ekki sem slík hafa haft í för með sér fjártjón fyrir stefnanda, enda hafi stefnandi ekki enn hafið starfsemi þegar hann hafi leitað til stefnda um slíkt.

Stefnanda hafi borið að takmarka tjón sitt með því að gera samning við stefnda á þeim grundvelli sem honum hafi staðið til boða í síðasta lagi 11. nóvember 2008. Skortur á samningum við stefnda hafi ekki getað valdið því að starfsemi stefnanda hafi ekki getað hafist fyrr, enda hefði stefnandi þá þegar getað fengið magnafslátt í viðskiptum við stefnda og safnað upp rétti til afsláttar á ársgrundvelli eftirá, þegar reynsla hefði verið komin á viðskiptin við stefnda. 

Stefnandi geti ekki krafist skaðabóta á grundvelli almennra skaðabótareglna með tilliti til atvika og aðstæðna í málinu. Stefndi mótmæli viðmiðunartímabilinu sem stefnandi leggi til grundvallar kröfu sinni og þeim tekjum sem stefnandi miði meint tjón sitt við, sem ómarktækum viðmiðum um meint fjártjón stefnanda. Stefnandi hafi, á grundvelli afskipta samkeppnisyfirvalda, skapað sér markaðsráðandi stöðu þegar í upphafi, án þess að hafa þurft að uppfylla lögbundnar kröfur, sem mælt sé fyrir um í 5. mgr. 16. gr. laga nr. 19/2002.

Stefndi mótmæli fjárhæðum í kröfugerð stefnanda sem röngum og ósönnuðum. Krafa stefnanda um skaðabætur byggi samkvæmt stefnu á þeim meinta hagnaði sem hefði hlotist af starfsemi stefnanda á 16 mánaða tímabili eða frá nóvember 2008 til og með febrúar 2010. Stefnandi vísi til stuðnings kröfu sinni til framlegðarmissis, þ.e. þjónustutekna að frádregnum rekstrarkostnaði. Útreikningar stefnanda endurspegli ekki framlegðarmissi, eða missi hagnaðar, enda sé ekkert tillit tekið þar til rekstrarkostnaðar, afskrifta og annarra liða. Fjárhæð skaðabóta hljóti hins vegar að hafa það að markmiði að gera þann, sem brotið hafi verið á, eins settan fjárhagslega og ef bótaskyldur atburður hefði ekki átt sér stað. Kröfugerð stefnanda miði hins vegar að því að gera stefnanda betur settan en ella hefði verið og sé hún því vanreifuð.

Þá sé ósannað að stefnandi hafi, á tímabilinu frá hausti 2008 og fram til byrjunar marsmánaðar 2010, tryggt sér viðskiptasambönd sem hann vísi til málatilbúnaði sínum til stuðnings, eða að öðru leyti náð þeirri veltu sem hann byggi ætlað tjón sitt á. Því sé einnig ósannað að stefnandi hafi átt kröfu til „stórnotendaafsláttar“ á umræddu tímabili.

Stefnandi hafi hvorki sýnt fram á að orsakatengsl séu á milli meintra brota stefnda og tjóns stefnanda né að meint tjón stefnanda, í heild eða að hluta til, sé sennileg afleiðing af háttsemi stefnda, en sönnunarbyrðin um það hvíli alfarið á stefnanda.

Stefndi mótmæli vaxtakröfum stefnanda í málinu. Dráttarvaxtakröfu stefnanda sé sérstaklega mótmælt, enda hafi verið ótækt fyrir stefnda að gera sér grein fyrir því hvort stefnandi hafi orðið fyrir tjóni, miðað við forsendur í kröfubréfi 26. febrúar 2014. Í bréfinu hafi stefnandi krafið stefnda um skaðabætur að fjárhæð 111.986.207 krónur, auk vaxta og kostnaðar. Fjárhæðin hafi verið reiknuð út miðað við framlegðarmissi og því ótækt fyrir stefnda að gera sér grein fyrir meintu tjóni stefnanda. Af framangreindu sé ljóst að stefnandi hafi ekki lagt fram þær upplýsingar sem þörf hafi verið á til að gera stefnda kleift að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Dráttarvextir geti því í fyrsta lagi reiknast frá dómsuppsögu.

Stefndi vísi til almennra reglna skaðabótaréttar og réttarreglna á sviði samninga- og kröfuréttar, einkum sakarreglunnar. Þá vísi stefndi til ákvæða samkeppnislaga nr. 44/2005, einkum 11. gr. þeirra, laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, einkum 9. gr. laganna, og 5. mgr. 16. gr. laga nr. 19/2002, um póstþjónustu. Þá sé vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 9. gr. þeirra laga. Jafnframt vísi stefndi til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, um málskostnaðar­kröfu sérstaklega sé vísað til XXI. kafla laganna, einkum 129. og 130. gr.

 

Niðurstaða

Ágreiningur málsins er um skaðabótakröfu sem stefnandi gerir vegna aðgerða og aðgerðarleysis stefnda í aðdraganda viðskiptasambands sem komst á 24. febrúar 2010 milli stefnanda og stefnda. Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að stefndi hafi beitt stefnanda ólögmætri sölusynjun, í skilningi 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, sem hafi varað á tímabilinu frá október 2008 til og með febrúar 2010, þá er rekstur stefnanda hófst í kjölfar samkomulags við stefnda. Með því hafi stefndi, með saknæmum hætti, valdið stefnanda fjárhagslegu tjóni sem samsvari aðalkröfu hans í máli þessu. Stefnda hafi verið kunnugt um að forsenda þess, að stefnandi gæti hafið rekstur sinn á markaði fyrir söfnun og dreifingu pósts hérlendis, væri að samningur næðist við stefnda um afsláttarkjör stefnanda á sviði einkaréttar stefnda til dreifingar á pósti undir 50 grömmum að þyngd á umræddum markaði.

Sýknukrafa stefnda byggir í fyrsta lagi á því að skaðabótakrafa stefnanda hafi verið fyrnd við höfðun máls þessa 10. apríl 2014 eða niður fallin á sama tíma vegna tómlætis stefnanda. Í öðru lagi á því að skilyrði skaðabótaréttar séu ekki uppfyllt hvað varðar kröfu stefnanda. Honum hafi ekki tekist að sýna fram á saknæma háttsemi stefnda eða að orsakasamhengi sé fyrir hendi á milli slíkrar háttsemi og meints tjóns, auk þess sem stefnanda hafi ekki tekist að færa sönnur á tjón sitt eftir viðurkenndum reglum.

Í framburði Reynis Árnasonar, fyrirsvarsmanns stefnanda, kom fram að hann hefði fyrst hugað að möguleika á innkomu stefnanda inn á markað fyrir söfnun og dreifingu pósts í upphafi árs 2008, en þá hefði umræðu um afnám einkaréttar stefnda til dreifingar á bréfum undir 50 grömmum að þyngd borið á góma. Fyrirsvarsmaður stefnanda, sem starfaði hjá stefnda á árunum 1998-2005 og hjá samkeppnisaðila hans, Pósthúsinu ehf., á árunum 2005-2007, kvaðst hafa þekkt póstmarkaðinn hérlendis og séð tækifæri í því að bjóða stærstu viðskiptavinum stefnda, sem hefðu þá verið fjármálafyrirtækin, viðskipti á betri kjörum en þeim stæði til boða hjá stefnda. Fyrirsvarsmaðurinn kvaðst hafa verið í samskiptum við umrædda aðila um miðbik árs 2008 og fengið jákvæð viðbrögð við umræddri viðskiptahugmynd sinni. Forsenda fyrir því hins vegar að hann gæti boðið þeim betri kjör en stefndi byði væri að stefnandi gæti safnað og dreift pósti, með milligöngu stefnda í skjóli einkaréttar hans, í slíku magni að félli undir skilmála stefnda um afslátt fyrir stórnotendur á póstmarkaði. Stefnandi hefði því þurft samning um kjör við stefnda til að hefja rekstur, eða hið minnsta staðfestingu á kjörum stórnotenda hjá stefnda fyrir viðskiptavini með meira en 15 milljónir sendinga innan einkaréttar stefnda á árlegum grundvelli. Sú umleitan hefði hafist í október 2008, en stefnanda hafi ekki tekist að fá réttar upplýsingar um kjör stefnda fyrir stórnotendur. Auk þess hafi stefndi leitast við að hindra innkomu félagsins inn á póstmarkað með aðgerðum sínum í kjölfarið, svo sem með kröfum um forflokkun bréfa í magnsendingum, sem fyrirsvarsmanninum hafi verið kunnugt um að ekki hafi verið ætlast til af stórnotendum fram að því, og með kröfum um framlagningu tryggingar sem forsendu fyrir samstarfssamningi. Ekki hafi tekist að ná samkomulagi við stefnda fyrr en í mars 2010, og ekki nema fyrir afskipti Samkeppniseftirlitsins. Þegar í kjölfarið hefði stefnandi hafið rekstur og þau markmið sem félagið hefði sett sér, um magn póstsendinga innan einkaréttar stefnda með viðskiptavini á borð við fjármálafyrirtæki hér á landi, hafi gengið fyllilega eftir og rúmlega það. Sýni það sig meðal annars í afkomutölum úr rekstri stefnanda.

Aðspurður um meint tjón stefnanda af aðgerðum stefnda svaraði fyrirsvarsmaður stefnanda því til að félagið hafi ekki getað metið tjónið þegar í kjölfar þess að samkomulag hafi náðst við stefnda og rekstur stefnanda hófst í mars 2010. Þeir hafi ekki getað metið tjónið fyrr en eftir fyrsta rekstrarárið. Þá hafi afkoma stefnanda verið misjöfn á milli mánaða, nokkur tími hafi því þurft að líða áður en stefnandi hafi haft nauðsynlegar upplýsingar um tjón sitt. Krafa stefnda um framlagningu tryggingar fyrir samningi um afsláttarkjör stefnanda beri vott um óvissuna sem hafi verið fyrir hendi um afkomu stefnanda í upphafi reksturs hans.

Um fyrningu skaðabótakröfu stefnanda fer eftir 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda. Enginn ágreiningur er um það í málinu að ákvæðið eigi við um skaðabótakröfu stefnanda og óumdeilt er að fyrningu var slitið við málshöfðun, enda byggir vaxtakrafa stefnanda á því. Aðilar eru á hinn bóginn ósammála um upphaf fyrningarfrests skaðabótakröfunnar.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 fyrnast skaðabótakröfur utan samninga á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð ber á því eða honum bar að afla sér slíkra upplýsinga. Áskilnaður lagaákvæðisins um vitneskju kröfuhafa er tvíþætt, annars vegar vitneskju um tjónið sjálft og hins vegar vitneskju um þann sem ber ábyrgð á tjóninu. Þegar þessi tvö skilyrði eru uppfyllt byrjar fyrningarfrestur skaðabótakröfu utan samninga að líða.

Stefndi vísar til þess að samkomulag um afsláttarkjör stefnanda hjá stefnda hafi náðst 24. febrúar 2010 og að tryggingarbréf því tengt hafi verið gefið út 1. mars 2010, en þá í síðasta lagi hafi fyrningarfrestur stefnukröfunnar í framangreindum skilningi hafist. Stefnandi kveður fyrningarfrest kröfu sinnar ekki hafa byrjað að líða fyrr en hann fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjón sitt. Tjónið hafi ekki verið þekkt við upphaf starfseminnar sem, með hliðsjón af málatilbúnaði stefnanda, var 5. mars 2010. Ástæða þess sé sú að engin reynsla hafi þá verið fyrir hendi í rekstri stefnanda, hvorki um tekjur né útlagðan kostnað, og hafi fyrningarfrestur kröfu hans ekki byrjað að líða fyrr en í fyrsta lagi að loknu fyrsta rekstrarári stefnanda.

Af lögskýringargögnum að baki 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 má ráða að sá fyrningarfrestur, sem ákvæðið mælir fyrir um, ráðist af því hvenær tjónþoli bjó yfir þeirri vitneskju að honum hafi verið fært að leita fullnustu kröfu sinnar. Tjónþoli hefur þá fyrst tilefni til að höfða mál til greiðslu skaðabóta eftir að hann fékk, eða honum bar að afla sér, vitneskju um tjónið og tjónvald. Tjónþoli getur þó ekki haldið að sér höndum uns hann telur sig öruggan um að niðurstaða málssóknar verði honum hagfelld, heldur verður hann að láta við það sitja að hafa nægilegt tilefni til málssóknar. Ráða má af dómaframkvæmd að upphaf fyrningarfrests skuli miða við tímamarkið þegar tjónþoli má gera ráð fyrir því að hann verði fyrir fjártjóni og að sá fyrningarfrestur geti hafist áður en umfang þess liggur endanlega fyrir. Tjónþola verður þó að vera kunnugt um helstu afleiðingar tjónsins og felst í skilyrði 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 um vitneskju um tjón að tjónþoli þekki til nánar tilgreindra fjárhagslegra afleiðinga tjónsins.

Framangreind lögskýring samræmist því meginsjónarmiði sem býr að baki fyrningarreglum kröfuréttar, að vernda hagsmuni bæði kröfuhafa og skuldara með réttaröryggi að leiðarljósi. Þá þannig að kröfuhafi hafi sanngjarnt svigrúm til að leita réttar síns, en skuldarar séu á móti verndaðir fyrir málssókn í tilefni af löngu liðnum atburðum.

Yrði fallist á að stefnandi eigi skaðabótakröfu á þeim grundvelli sem hann byggir á verður að líta svo á að hún hafi stofnast er stefnanda varð ljóst að tjón hefði hlotist af þeirri saknæmu háttsemi sem hann telur stefnda hafa sýnt. Þeirri háttsemi er áður lýst og stefnandi byggir á því að hún hafi falið í sér ólögmæta sölusynjun í skilningi 11. gr. samkeppnislaga, á tímabilinu október 2008 til og með febrúar 2010.

Málatilbúnaður stefnanda byggir á því að stefnandi hafi haft jákvæð fyrirheit um umtalsverð viðskipti þegar um miðbik árs 2008. Þá kom fram í skýrslu fyrirsvarsmanns stefnanda fyrir dómi að þeir aðilar sem hafi gefið þau fyrirheit árið 2008, fjármálafyrirtæki einkum, hafi öll hafið viðskipti við stefnanda við upphaf reksturs félagsins í mars 2010. Eins hafi stefnandi frá þeim tíma árlega safnað yfir 15 milljónum bréfa sem falli innan einkaréttar stefnda og hafi því uppfyllt skilyrði stefnda um hámarksafslætti fyrir stórnotendur, sem hann hafi frá upphafi notið til fulls. Allt framangreint hafi aftur skilað sér í þeim hagnaðartölum sem matsgerð dómkvadds matsmanns frá 22. október 2015 staðfesti.

Stefnandi styður fjárkröfu sína í málinu við matsgerðina sem hann aflaði við meðferð málsins og staðfestir hagnað stefnanda fyrstu 16 mánuði í rekstri félagsins. Kröfuna rökstyður stefnandi með þeim hætti að hann hefði, að óbreyttu, haft sömu tekjur á þeim tíma sem hin meinta skaðabótaskylda háttsemi stefnda átti sér stað, sem fyrr segir allt frá upphafi viðræðna við stefnda í október 2008 uns samningur náðist við stefnda og rekstur stefnanda hófst. Byggir stefnandi á því að hann hafi orðið fyrir altjóni á þessu tímabili vegna saknæmrar háttsemi stefnda. Gat honum ekki dulist sú staðreynd að hann fór á þeim tíma alfarið á mis við tekjur af fyrirhugaðri starfsemi. Bera umkvartanir stefnanda og samskipti við Samkeppniseftirlit á því tímabili þess glöggt vitni að hann taldi sig þá bíða tjón af völdum háttsemi stefnda og hafa a.m.k. nægilega vitneskju um umfang þess til þess að gera afsláttarkröfur í samræmi við þau viðskipti sem hann kvaðst þá þegar hafa tryggt sér og reyndist hafa við upphaf reksturs síns.

Að framangreindu virtu er óhjákvæmilegt annað en að líta svo á að stefnandi hafi haft vitneskju um hið ætlaða tjón og þann sem ábyrgð beri á því, í skilningi 1. mgr. 9. laga nr. 150/2007, í síðasta lagi þegar hann hóf rekstur sinn. Verður því ekki annað lagt til grundvallar en að fjögurra ára fyrningarfrestur skaðabótakröfu stefnanda hafi byrjað að líða eigi síðar en 5. mars 2010. Var krafa stefnanda samkvæmt þessu fyrnd þegar mál þetta var höfðað 10. apríl 2014 og verður stefndi þegar af þeirri ástæðu sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu. Þarf því ekki að fjalla frekar um það hvort stefnanda hafi tekist að færa viðhlítandi rök fyrir því að háttsemi stefnda hafi verið saknæm og leitt til tjóns fyrir stefnanda eða að orsakasamhengi sé á milli þess ætlaða tjóns og háttsemi stefnda.

Með hliðsjón af þessum úrslitum og fyrirmælum 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, sem ákveðinn er 3.200.000 krónur.

Dóminn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Íslandspóstur ohf., er sýkn af kröfum stefnanda, Póstmarkaðarins ehf.

Stefnandi greiði stefnda 3.200.000 krónur í málskostnað.

Kristrún Kristinsdóttir