• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Ávana- og fíkniefni
  • Hegningarauki
  • Fangelsi
  • Umferðarlagabrot
  • Upptaka
  • Vopnalagabrot
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 16. janúar 2019 í máli nr. S-539/2018:

Ákæruvaldið

(Einar Laxness aðstoðarsaksóknari)

gegn

Helga Steini Gunnarssyni

                                                (Arnar Kormákur Friðriksson lögmaður)

            Mál þetta, sem dómtekið var 9. janúar sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 28. ágúst 2018, á hendur Helga Steini Gunnarssyni, kt. [...],[...], Akureyri, fyrir eftirtalin brot framin á höfuðborgarsvæðinu 2017, nema annað sé tekið fram:

 

I.

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa:

            1. Sunnudaginn 27. ágúst ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum ávana- og fíkniefna, óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega (í blóði mældist amfetamín 590 ng/ml) og sviptur ökurétti við Arnarbakka í Reykjavík, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

            Telst þetta varða við 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a, og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/ 2006.

            2. Þriðjudaginn 29. ágúst ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum ávana- og fíkniefna og slævandi lyfja, óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega (í blóði mældist amfetamín 125 ng/ml, 7-amínóklónzepam 50 ng/ml, klónazepam 25 ng/ml, metýlfenídat 210 ng/ml) og sviptur ökurétti við gatnamót Stórhöfða og Höfðabakka í Reykjavík, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

            Telst þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 44. gr., 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

            3. Föstudaginn 8. september ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum ávana- og fíkniefna, óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega, (í blóði mældist amfetamín 1300 ng/ml, MDMA 555 ng/ml, metýlfenídat 55 ng/ml, tetrahýdrókannabínól 0,5 ng/ml) og sviptur ökurétti á bifreiðastæði við Fjarðarkaup í Hafnarfirði, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

            Telst þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 44. gr., 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/ 2006.

 

II.

            4. Fyrir fíkniefna- og vopnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 6. september haft í vörslum sínum í strætisvagni við [...] í Reykjavík, 0,41 g af amfetamíni, 5,83 g maríjúana, 0,78 g tóbaksblönduðu maríjúana og 1 stykki ecstasy töflu, sem lögregla fann við leit, og jafnframt haft í vörslum sínum á almannafæri hníf sem lögregla fann í tösku ákærða.

            5. Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa laugardaginn 9. september haft í vörslum sínum í bifreiðinni [...] við [...] í Reykjavík, 127,71 g af maríjúana og 0,48 g af amfetamíni, sem lögregla fann eftir leit í bifreiðinni.

            Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og er varðar ákærulið II.4 einnig við 1. mgr. 30. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

 

III.

            Fyrir þjófnað, með því að hafa:

            6. Þriðjudaginn 29. ágúst í versluninni Hagkaup í Spönginni, Reykjavík, stolið hleðslutæki að verðmæti 2.999 krónur.

            7. Aðfaranótt mánudagsins 11. september brotist inn að [...] í Reykjavík, með því að spenna upp hurð og stolið ýmsum verkfærum að ótilteknu verðmæti.

            Telst þetta varða við 244. gr. almennar hegningarlaga nr. 19/1940.

 

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006. Einnig er krafist upptöku á hníf, samkvæmt 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

            Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærði er fæddur í [...]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hans, dagsettu 21. ágúst 2018, á ákærði nokkurn sakaferil að baki sem nær aftur til ársins 2005. Hefur hann t.a.m. hlotið átta fangelsisdóma vegna umferðarlagabrota, fíkniefnalagabrota og hegningarlagabrota. Nú síðast var ákærði dæmdur í sex mánaða fangelsi með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra hinn 25. maí 2018 fyrir þjófnaðarbrot og var fimm mánaða skilorðshluti dóms Héraðsdóms Reykjaness frá 20. maí 2016 dæmdur með. Þau brot er ákærði er sakfelldur fyrir í máli þessu voru öll framin fyrir uppkvaðningu áðurnefnds dóms Héraðsdóms Norðurlands eystra og verður ákærða því dæmdur hegningarauki í samræmi við 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Með hliðsjón af framangreindu, sakarefni þessa máls og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem og skýlausri játningu ákærða, þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Í ljósi sakaferils ákærða þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.

            Með vísan til lagaákvæða í ákæru er áréttuð ævilöng svipting ökuréttar ákærða frá birtingu dómsins að telja. Þá er gerður upptækur hnífur sem ákærði hafði í vörslum sínum á almannafæri hinn 6. september 2017 og lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

            Við fyrirtöku málsins hinn 9. janúar sl. féll ákæruvaldið frá kröfu um að fíkniefni þau er tiltekin eru í lið II. 5 í ákæru, yrðu gerð upptæk. Að öðru leyti var þess krafist að þau fíkniefni sem ákærði er sakfelldur fyrir vörslur á yrðu gerð upptæk, sbr. ákærulið II. 4. Það athugast hins vegar að í ákæru er þess hvergi krafist að téð fíkniefni verði gerði upptæk. Samkvæmt 1. mgr. 180. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 má hvorki dæma ákærða fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir né heldur dæma aðrar kröfur á hendur honum. Áðurnefnd fíkniefni verða því ekki gerð upptæk.

            Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Arnars Kormáks Friðrikssonar lögmanns, 368.900 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 313.719 krónur í annan sakarkostnað.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Einar Laxness aðstoðarsaksóknari.

            Þórhildur Líndal, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

                                                   D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Helgi Steinn Gunnarsson, sæti fangelsi í sex mánuði.

Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða frá birtingu dómsins að telja.

Upptækur er gerður hnífur sem ákærði hafði í vörslum sínum á almannafæri hinn 6. september 2017.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Arnars Kormáks Friðrikssonar lögmanns, 368.900 krónur og 313.719 krónur í annan sakarkostnað.

 

                                                               Þórhildur Líndal