• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi
  • Skilorðsrof
  • Umferðarlagabrot
  • Vopnalagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 2018 í máli nr. S-609/2017:

Ákæruvaldið

(Sigrún Inga Guðnadóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Hrannari Fossberg Viðarssyni

(Þorgils Þorgilsson lögmaður)

Pálma Snæ Rúnarssyni og  

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)

Heimi Erni Johnson

(Páll Kristjánsson lögmaður)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 25. janúar síðastliðinn, var höfðað með tveimur ákærum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Fyrri ákæran var gefin út 24. október síðastliðinn, á hendur Hrannari Fossberg Viðarssyni, kt. 000000-0000, [...], Reykjavík, „fyrir eftirtalin brot framin á árinu 2017:

 

1.      Umferðarlagabrot, með því að hafa laugardaginn 1. júlí ekið bifreiðinni [...] um Bústaðaveg án þess að hafa öðlast ökuréttindi.

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðalaga nr. 50/1987.

 

2.      Vopnalagabrot og hótanir, með því að hafa miðvikudaginn 4. júlí á Heiðarvegi í Heiðmörk í Reykjavík  haft í vörslum sínum ásamt A, kt. 000000-0000, byssu af gerðinni Remington 870 borið hana á almannafæri og skotið af byssunni nokkrum skotum án þess að hafa fengið til þess skotvopnaleyfi og ákærði Hrannar Fossberg hótað B, kt. 000000-0000, og C, kt. 000000-0000, með því að miða byssunni á þau og hótað C að skjóta hann, sem var til þess fallið að vekja upp hjá þeim ótta um líf sitt, heilbrigði og velferð.

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 12. gr. og 1. og 4. mgr. 21. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998 og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

3.      Fíkniefnalagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 8. ágúst í bifreiðinni [...] sem lögregla hafði afskipti af á Sæbraut í Reykjavík, haft í vörslum sínum 6,55 g af amfetamín sem lögregla fann við leit.

 

Telst þetta varða við 2. gr. sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

 

4.      Vopnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 6. september á bifreiðastæði við [...], haft í vörslum sínum hníf, sem lögregla fann við leit og lagt var hald á.

 

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 30. gr. sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

 

5.      Hótun, með því að hafa þriðjudaginn 26. september 2017 að [...] í Reykjavík, otað hníf að D, kt. 000000-0000 sem var til þess fallið að vekja hjá henni ótta um líf sitt, heilbrigði og velferð.

 

Telst þetta varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og jafnframt að gerð verði upptæk 6,55 g af amfetamíni samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“

 

            Síðari ákæran var gefin út 29. nóvember síðastliðinn á hendur Hrannari Fossberg Viðarssyni, kt. 000000-0000, [...], Reykjavík, Pálma Snæ Rúnarssyni, kt. 000000-0000, [...], Reykjavík, og Heimi Erni Johnson, kt. 000000-0000, [...], Reykjavík,

I.        

 

„Fyrir fjárkúgun með því að hafa í félagi, þann 31. maí 2017, farið að heimili E, [...] í Reykjavík, Hrannar Fossberg vopnaður byssu og Heimir Örn vopnaður kylfu, og  krafist þess að E greiddi þeim kr. 150.000 og hótað honum líkamlegu ofbeldi yrði hann ekki við kröfum þeirra. Í kjölfarið lagði brotaþoli kr. 150.000 inn á bankareikning ákærða Pálma Snæs Rúnarssonar. Var háttsemin til þess fallin að vekja hjá E ótta um líf sitt, heilbrigði og velferð.

 

Telst þetta varða við 251. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

II.

 

Á hendur Hrannari Fossberg:

 

Fyrir hótun með því að hafa, í maí 2017, sent F skilaboð sem í fólust hótanir sem voru til þess fallnar að vekja hjá E ótta um líf, heilbrigði eða velferð sína, en í skilaboðunum stóð: „Can u get in touch with E for me and tell him im coming to his home and im going to brake his legs“.

 

Telst þetta varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940

 

III.

Á hendur Pálma Snæ Rúnarssyni:

 

Fyrir tilraun til fjárkúgunar með því að hafa, sunnudaginn 2. júlí og aðfararnótt mánudagsins 3. júlí með skilaboðum, sendum í gegnum samskiptamiðilinn Snapchat, reynt að hafa fé af E, með hótunum um líkamlegt ofbeldi, en í skilaboðunum stóð m.a.: ,,Fokking ræfill, eins gott að þú kunnir að hlaupa þegar ég sé þig!“ og sent mynd af byssu og ritað undir myndina: „þessi er æst í það að hitta þig“. Var háttsemin til þess fallin að vekja hjá E ótta um líf sitt, heilbrigði og velferð.

 

Telst þetta varða við 251 gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

            Ákærði Hrannar játar sök í 1. lið fyrri ákærunnar en að öðru leyti neita ákærðu sök og krefjast sýknu en til vara vægustu refsingar. Þess er krafist að málsvarnarlaun, og annar sakarkostnaður, verði greidd úr ríkissjóði.

 

II

            Málavextir verða nú raktir samkvæmt rannsóknargögnum nema hvað varðar þann ákærulið þar sem ákærði Hrannar játar sök. Um málsatvik varðandi hann er vísað til ákæru, sbr. 4. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008.

            Að kvöldi þess dags sem tilgreindur er í 2. lið fyrri ákærunnar var lögreglu tilkynnt um skothvelli í Heiðmörk. Lögreglumenn, sem fóru á vettvang, stöðvuðu bíl og voru þrír piltar í honum og ein stúlka. Einn piltanna var ákærði Hrannar. Eftir nokkra eftirgrennslan fannst afsöguð haglabyssa í bílnum. Ákærði og annar piltur voru undir áhrifum fíkniefna og voru þeir því handteknir og færðir á lögreglustöð. Þriðji pilturinn og stúlkan voru boðuð þangað til yfirheyrslu.

            Við yfirheyrslu hjá lögreglu kvaðst stúlkan hafa verið akandi í bíl með vini sínum. Þau hefðu verið beðin að aka ákærða og félaga hans upp í Heiðmörk og hefði félaginn verið með byssu innanklæða. Hann hefði tekið hana fram er þau komu í Heiðmörk. Ákærði hefði tekið byssuna og miðað henni á hana og vin hennar. Þá hefðu ákærði og félagi hans skotið af byssunni nokkrum sinnum á mismunandi stöðum. Í eitt skipti hefði ákærði miðað byssunni á vin hennar og hótað að skjóta hann en þá hefðu hún og þau hin beðið hann að miða ekki byssunni á fólk. Vinur stúlkunnar kvaðst þekkja ákærða. Hann kvaðst hafa ekið honum og félaga hans upp í Heiðmörk. Hann hefði stansað á nokkrum stöðum og þá hefðu ákærði og félagi hans farið út til að skjóta af haglabyssu. Þá kvað hann ákærða hafa miðað byssunni á sig en hann hefði tekið því sem gríni enda vitað að byssan væri óhlaðin. Félagi ákærða kvaðst hvorki muna eftir að hafa verið með byssu né að hafa skotið af byssu, hann hefði verið mjög dópaður þetta kvöld. Ákærði kannaðist við að hafa skotið af byssunni með félaga sínum en neitaði alfarið að hafa miðað henni á fólk eða hótað að skjóta mann.

            Málavextir varðandi 3. lið fyrri ákærunnar eru þeir að lögreglan stöðvaði nefndan bíl á þeim stað er í ákæruliðnum greinir. Í aftursætinu svaf ákærði og reyndist ekki unnt að vekja hann. Í vasa hans fundust fíkniefni þau sem í ákæruliðnum greinir. Við yfirheyrslu kvaðst ákærði ekkert vita um þessi efni. Hann kvaðst hafa verið sofandi í bílnum en hafa vaknað þegar lögreglumenn höfðu afskipti af honum en sofnað aftur og vaknað í fangaklefa. Hann kvaðst ekki kannast við efnin en hann hefði verið að neyta fíkniefna undanfarna daga.

            Málavextir varðandi 4. lið fyrri ákærunnar eru þeir að lögreglu var tilkynnt um tvo menn í annarlegu ástandi á þeim stað er í ákæruliðnum greinir. Annar mannanna var ákærði. Þeir viðurkenndu báðir að vera með hníf á sér og framvísuðu þeim. Í gögnum málsins er engin lýsing á hníf ákærða en hann var afhentur dóminum við aðalmeðferð og verður honum lýst í IV. kafla.

            Málavextir varðandi 5. lið fyrri ákærunnar eru þeir að óskað var eftir lögreglu að heimili því er í ákæruliðnum greinir og á þeim tíma er þar segir. Tilkynnandinn var D, er í ákæru greinir, og sagði hún hann hafa gengið berserksgang og ógnað sér með hníf áður en hann hefði gengið út af heimilinu. Í lögregluskýrslu er haft eftir D og H að hann hafi vaknað eftir hádegi og verið mjög viðskotaillur og óviðræðuhæfur. D hefði verið kölluð til enda gæti hún oft tjónkað við hann þegar þessi gállinn væri á honum. Þegar D kom hefði ákærði brugðist illa við, farið inn í eldhús, náð í hníf og otað honum að andliti D og hótað að beita honum gegn henni. H kvaðst hafa gengið á milli og eftir öskur og læti hefði ákærði sleppt hnífnum og farið út. Ákærði kom svo aftur og var handtekinn. Á vettvangi voru einnig I og Í.

            Teknar voru lögregluskýrslur af H, D og I. Í skoraðist undan því að gefa skýrslu. Við aðalmeðferð skoruðust D, I og H undan því að bera vitni og af þeim sökum verða skýrslur þeirra hjá lögreglu ekki reifaðar.

            Við yfirheyrslu hjá lögreglu viðurkenndi ákærði að hafa tekið upp hníf en hann hefði ekki hótað H eða ráðist gegn D. Hann kvaðst hafa tekið upp hnífinn vegna þess að þær hefðu verið þrjár á móti honum, eins og haft er eftir honum. Hann kvaðst hafa verið með hnífinn falinn þannig að enginn hefði átt að geta séð hann. Ákærða var kynnt það sem lögreglan hafði eftir H og D og I. Ákærði kvað H vera geðveika og hefðu hún og D verið undir áhrifum lyfja. Hann ítrekaði að hann hefði ekki ógnað með hnífnum en hann hefði verið með hann í annarri hendi.

            Málavextir varðandi 1. lið síðari ákærunnar eru þeir að lögreglumaður tók skýrslu af brotaþola og H 3. júlí síðastliðinn vegna atviks þess sem ákæruliðurinn fjallar um auk annarra atvika. Í skýrslunni er haft eftir brotaþola að hann hafi fengið skilaboð frá ákærða Hrannari sem hafi viljað að þeir hittust til að ræða málin. Brotaþoli kvaðst hafa farið út og hitt ákærðu alla. Þeir hefðu verið vopnaðir kylfum og byssu sem ákærði Hrannar hefði haldið á. Ákærðu hefðu krafið brotaþola um 150.000 krónur og hótað honum líkamsmeiðingum. Þá hefði ákærði Hrannar beint að honum byssu. Brotaþoli kvaðst hafa orðið hræddur og millifært nefnda fjárhæð inn á reikning ákærða Pálma.

            Við yfirheyrslu hjá lögreglu neitaði ákærði Hrannar sök. Ákærði Pálmi kvaðst hafa farið í hverfið þar sem heimili brotaþola er ásamt meðákærðu og hefði tilgangurinn verið að rukka brotaþola sem skuldaði honum peninga. Þeir hefðu ekki verið með kylfur en ákærði Hrannar hefði verið með skammbyssu sem þó hefði ekki verið raunveruleg byssa en litið út sem slík. Ákærði Pálmi kvað brotaþola nú hafa greitt honum skuldina. Ákærði Heimir neitaði fyrst sök við yfirheyrslu hjá lögreglu og kvaðst ekki hafa verið á vettvangi. Síðar í yfirheyrslunni viðurkenndi hann að hafa verið á staðnum og haldið á hafnaboltakylfu en hvorki beint henni að neinum né hótað að nota hana. Hann kvaðst hafa verið undir áhrifum fíkniefna og mest lítið vita um málið. Hann hefði farið með meðákærða Hrannari.

            Málavextir varðandi 2. lið síðari ákærunnar eru þeir að skilaboðin, sem í ákæruliðnum greinir, voru send úr aðgangi ákærða Hrannars á Messenger. Ákærði kannaðist við það hjá lögreglu að þau hefðu verið send úr aðgangi hans en hann hefði ekki gert það og vissi ekki hver hefði gert það.

            Málavextir varðandi 3. lið síðari ákærunnar eru þeir að brotaþola bárust skilaboðin sem í ákæruliðnum greinir á þann hátt er þar segir. Við lögregluyfirheyrslu kannaðist ákærði Pálmi við að hafa sent þau en gat ekki útskýrt af hverju. Hann kvað byssuna á myndinni ekki vera raunverulega byssu. Ákærði kvað brotaþola hafa skuldað sér peninga og hefðu samskiptin verið liður í því að innheimta þá. Þá kvaðst hann hafa verið undir áhrifum fíkniefna og þess vegna verið svona vitlaus í hausnum, eins og hann orðaði það.

            Lögreglustjóri lagði nálgunarbann á ákærðu Hrannar og Pálma í júlí síðastliðnum. Var þeim bannað að koma í námunda við heimili brotaþola og móður hans í sex mánuði. Héraðsdómur staðfesti bannið og undu ákærðu þeim úrskurði.

 

III

            Við aðalmeðferð játaði ákærði Hrannar sök samkvæmt 1. lið fyrri ákærunnar. Hann kvað félaga sinn hafa sýnt sér skírteini sem hefði sýnt að hann hefði leyfi fyrir byssunni sem í ákærulið 2 í fyrri ákærunni greinir. Félaginn hefði boðið sér að koma og skjóta úr byssunni, en sjálfur hefur ákærði ekki skotvopnaleyfi. Ákærði kvað félagann hafa komið með byssuna og kvaðst hann hafa skotið einu sinni úr henni. Þetta hefði gerst í Heiðmörk og hefðu piltur og stúlka verið með sér og félaganum. Ákærði neitaði að hafa miðað byssunni á piltinn og stúlkuna. Eins neitaði hann að hafa hótað piltinum.

            Varðandi 3. ákærulið kvaðst ákærði hafa verið farþegi í nefndum bíl og hafa sofnað. Það næsta sem hann hafi vitað hafi verið það að hann var kominn á lögreglustöðina. Annað kvaðst hann ekki vita um málið og ekki vita hvernig fíkniefnin hefðu komust í vasa hans. Hann benti á að fleiri hefðu verið í bílnum og gætu þeir hafa sett efnin í vasa hans.

            Varðandi 4. ákærulið kannaðist ákærði við að hafa verið með venjulegan vasahníf í vasa sínum í umrætt sinn. Kvaðst hann ekki telja það vera ólöglegt.

            Varðandi 5. ákærulið kvaðst ákærði ekki hafa otað hníf að D. Hann kvaðst hafa verið í eldhúsinu að fá sér að borða er D hefði komið ásamt tveimur vinum hans. Þarna hafi allt verið í klessu, eins og hann orðaði það, og hafi hann trompast og öskrað á D og vinina og sagt þeim að koma sér út. Hann skýrði þetta þannig að þarna hefðu allir verið að rífast en hann gæti ekki verið mikið innanum svoleiðis lagað. Þá yrði hann reiður og það gæti endað í brjálæðiskasti og þá vissi hann ekki hvað hann gerði. Það hefði hins vegar ekki gerst heldur hefði hann klætt sig í úlpu og farið út. Þegar hann öskraði hefði hann verið með smjörhníf í hendinni enda verið að smyrja sér brauð. Honum var sýnd mynd af hníf, sem er meðal gagna málsins, og kvað hann þetta ekki vera hnífinn sem hann hefði verið með. Ákærða var sagt að vitni á vettvangi hefðu sagt að þetta væri hnífurinn sem hann hefði verið með. Hann svaraði því til að það væri fullt af hnífum í skúffum á heimili hans. Ákærði neitaði að hafa otað hníf að D eða ógnað henni með hníf. Framburður ákærða hjá lögreglu var borinn undir hann og kvaðst hann hafa verið með ranghugsanir á þessum tíma og þess vegna borið eins og rakið var. Hann kvaðst hafa haldið á hnífnum en ekki ógnað neinum og ekki otað honum að D.

            Ákærði ítrekaði neitun sína á því sem hann er sakaður um í 1. lið seinni ákærunnar. Hann kvaðst ekki hafa farið að heimili brotaþola eins og þar er lýst. Þá kvaðst hann ekkert vita um peninga er brotaþoli á að hafa lagt inn á reikning meðákærða Pálma. Borið var undir ákærða það sem hann bar hjá lögreglu og kvað hann þann framburð eiga við annan atburð. Hann kvað brotaþola hafa skuldað sér peninga og hefði upphæðin verið komin yfir eitt hundrað þúsund krónur. Ákærði kvað framburð meðákærðu um þátt hans ekki vera réttan.

            Varðandi 2. lið seinni ákærunnar kvaðst ákærði ekkert kannast við þetta, skilaboðin hefðu verið send í gegnum hans aðgang en fleiri en hann gætu hafa notað símann hans. Um væri að ræða allmarga.

            Ákærði Pálmi Snær bar varðandi 1. lið seinni ákærunnar að hann hefði farið í [...] til að hitta brotaþola og innheimta hjá honum skuld. Með sér í för hafi verið meðákærðu Hrannar og Heimir. Ákærði kvaðst hafa rætt við brotaþola og hefði hann lagt peninga inn á sig mánuði seinna. Ákærði kvað kylfu hafa verið í bílnum en hún hefði ekki verið notuð, hvorki ógnað með henni né slegið. Þá hafi verið loftbyssa undir sæti í bílnum en ekki gat hann sagt hver hefði verið með hana. Hann neitaði að brotaþola hefði verið hótað ofbeldi og sagði að byssu hefði ekki verið beint að honum. Þá kvað ákærði ákærðu ekki hafa verið heima hjá brotaþola heldur í götu sem hann vissi ekki heitið á. Brotaþoli hefði greitt sér 150.000 krónur sem hann hefði lánað honum í apríl eða maí 2017. Þá hefði hann lánað brotaþola alls 250.000 krónur. Ákærði ítrekaði að meðákærðu hefðu verið með sér og hann hefði ekki beðið brotaþola að segja að meðákærði Hrannar hefði verið á vettvangi. Hann kvað meðákærða Hrannar hafa ekið bílnum. Þá ítrekaði ákærði að engum hótunum hefði verið beitt á fundinum.

            Varðandi þriðja ákærulið bar ákærði að hann hefði sent umrædd skilaboð. Hann hefði verið í rugli og vantað peninga og það væri ástæða þess að hann hefði sent skilaboðin. Á þeim tíma hefði brotaþoli skuldað honum 100.000 krónur og hann skuldi honum þær enn í dag. 

            Ákærði Heimir Örn ítrekaði neitun sína en kannaðist við að hafa verið á vettvangi. Hann kvað sig og meðákærðu hafa verið akandi í bíl og endað í [...]. Þar hefðu meðákærðu rætt við einhvern mann en ekkert hefði gerst. Þetta hefði verið voða venjulegt eins og ákærði orðaði það og hann kvaðst engar hótanir hafa heyrt. Hann kvaðst engin vopn hafa séð og ekkert heyrt talað um peninga eða skuld. Ákærði kvaðst ekki þekkja brotaþola en kannast við hann frá því í [...]. Undir ákærða var borið það sem hann hafði borið hjá lögreglu um kylfuna og kvaðst hann hafa verið undir áhrifum fíkniefna og ekkert vita hvað hann hefði sagt.

            Félagi ákærða Hrannars, sem var með honum og fjallað er um í 2. lið fyrri ákærunnar, kvað sig eitthvað ráma í málið en hann myndi ekki eftir því. Hann kvaðst hafa játað skotvopnalagabrot vegna þess sem gerðist.

            Pilturinn, sem ók ákærða Hrannari og fleirum og um er fjallað í 2. lið fyrri ákærunnar, bar að hann hafi verið að aka með ákærða og félaga hans. Meðferðis hefði verið haglabyssa sem félagi ákærða hefði skotið af en ekki var hann viss um hvort ákærði hefði skotið af henni. Ákærði hefði miðað byssunni á hann og hefði ákærði gert það að gamni sínu enda hefði hún verið óhlaðin. Ákærði hefði ekki hótað að skjóta hann.

            Stúlka, sem var með í förinni í Heiðmörk, bar að hafa farið í bíl í Heiðmörk ásamt vini sínum, ákærða Hrannari og félaga hans. Hún kvað ákærða og félaga hans hafa farið út úr bílnum og skotið úr byssu sem félaginn hefði verið með. Þeir hefðu báðir skotið og það oftar en einu sinni. Hún kvaðst ekki muna hvort ákærði hefði beint byssu að sér og vini sínum en þetta atriði hefði hún munað betur við yfirheyrslu hjá lögreglu. Hún kvað ákærða ekki hafa hótað sér og ekki mundi hún hvort byssunni hefði verið beint að einhverjum.

            Lögregluvarðstjóri, sem ritar skýrslu um það sem ákært er fyrir í framangreindum ákærulið, staðfesti hana. Hann kvað tilkynningu hafa borist um að verið væri að skjóta í Heiðmörk. Á vettvangi hefðu ákærði Hrannar og félagi hans setið í aftursæti bíls. Þeir hefðu verið handteknir. Í bílnum hefði fundist haglabyssa. Ökumaður bílsins og stúlka, sem einnig var í bílnum, sögðust hafa sótt ákærða og félagann og hefði hann haft með sér haglabyssu. Í Heiðmörk hefðu ákærði og félaginn skotið af haglabyssunni á tveimur stöðum. Þá hefði ákærði Hrannar miðað byssunni á þau.

            Lögreglumenn, sem handtóku ákærða 8. ágúst 2017 og leituðu á honum, báru að ákærði hefði verið sofandi og ekki hefði verið hægt að ræða við hann. Á ákærða hefðu fundist þau fíkniefni sem í 3. ákærulið fyrri ákærunnar greinir.

            Lögreglumenn, sem handtóku ákærða 6. september 2017, báru að hann hefði verið undir áhrifum fíkniefna og hefði því verið handtekinn enda á fíkniefnaskilorði. Á ákærða hefði fundist hnífur en ekki gátu þeir lýst honum.

            Rannsóknarlögreglumaður, sem rannsakaði atvik máls þess sem ákært er fyrir í 5. lið fyrri ákærunnar, staðfesti skýrslu sína. Hann bar að hafa komið á vettvang og hefði ákærði þá verið farinn en hann hefði rætt við D sem nefnd er í ákæruliðnum. Hann kvaðst hafa rætt við hana og H. D hafi verið mjög æst og erfitt að ræða við hana. Ákærði hafi nú komið og kvaðst rannsóknalögreglumaðurinn hafa beðið D að hafa sig hæga og ekki ræða við ákærða. D hafi átt mjög erfitt með að hafa hemil á sér. Rannsóknarlögreglumaðurinn kvaðst hafa komist að því á vettvangi að ákærði hefði undanfarið verið í mikilli neyslu og þegar D kom hefði I beðið hana að koma ekki inn, til að valda ekki frekari vandræðum. Hún hefði því verið fyrir framan útidyr íbúðarinnar og þar hefði það gerst sem ákæruliðurinn fjallar um. Ákærði hefði farið inn í eldhús og sótt sér hníf. Hann hafi sagt í yfirheyrslu að hann hefði falið hnífinn en H hafi sagt að hann hefði veifað hnífnum og verið ógnandi. H kvaðst hafa gengið á milli þannig að ákærði hefði ekki komist í snertingu við D. Ákærði hefði borið í skýrslu að hann hefði haft hnífinn til að vernda sig ef á hann yrði ráðist. Rannsóknarlögreglumaðurinn kvaðst ekki hafa séð hnífinn.

            Lögreglumaður, sem kom á vettvang, staðfesti skýrslu sína. Hann kvað ákærða hafa verið farinn þegar lögreglumenn komu á vettvang. [...] hefði sagt að ákærði hefði ógnað D með hníf og hótað að nota hann. Ákærða hafi verið leitað en hann hafi svo komið aftur á vettvang og verið handtekinn. Lögreglumaðurinn kvað [...] hafa sagt sér að ákærði hefði vaknað um morguninn og verið viðskotaillur. H hefði hringt í D, sem nefnd er í ákærunni, og hefði hún komið. Ákærði hefði brugðist illa við komu hennar, farið inn í eldhús og tekið upp hníf. Hann hefði ógnað D með hnífnum og H gengið á milli. Í framhaldinu hefði ákærði farið af heimilinu og hringt hefði verið á lögreglu. Lögreglumaðurinn kvað mynd af hnífnum vera í gögnum málsins. Hann kvað bæði D og H hafa sagt á vettvangi að þetta væri hnífurinn sem hann hefði notað. Hann hefði fundist á eldhúsborði íbúðarinnar.

            Annar lögreglumaður sem kom á vettvang kvað tilkynningu hafa borist um að ákærði hefði meðal annars hótað D með hníf. Þegar lögreglumenn hefðu komið á vettvang hefði ákærði verið farinn. Hann kvaðst ekki muna til að greina frá því sem honum var sagt á vettvangi enda hefði annar lögreglumaður tekið niður framburð vitna. Hann kvað lögreglumönnum hafa verið bent á hnífinn og staðfesti hann að það væri hnífurinn sem mynd er af í gögnum málsins.

            H, D og I skoruðust undan því að bera vitni.

            Brotaþoli sá sem um getur í seinni ákærunni bar að hann þekkti ákærðu Hrannar og Pálma. Hann kvaðst hafa fengið boð frá ákærða Pálma um að hitta hann úti. Hann hefði farið út og þá hefði ákærði verið þar á bíl á miðri götu. Ákærði hefði opnað afturdyr og þar hefði verið silfurlituð skammbyssa. Með ákærða í bílnum hefði verið ákærði Heimir. Hann hefði ekkert gert og ekkert sagt, hann hefði bara verið þarna, eins og brotaþoli orðaði það. Kylfa hefði legið við fætur ákærða Heimis í bílnum. Brotaþoli kvað ákærða Pálma hafa krafið sig um 150.000 krónur og sagt að hann ætti að segja að ákærði Hrannar hefði verið að krefja sig um þessa fjárhæð og að hann hefði verið með ákærða Pálma. Ákærði Hrannar hefði hins vegar ekki verið þarna. Brotaþoli kvað ákærða Pálma hafa miðað á sig byssu og krafið sig um peningana en ákærði Heimir hefði ekkert gert og ekkert sagt. Brotaþoli kvaðst hafa borið rangt um þetta hjá lögreglu og hefði það verið að undirlagi ákærða Pálma. Hann kvað ástæðuna hafa verið þá að hann og ákærði Hrannar hefðu átt í viðskiptum en þau hefðu verið uppgerð á þessum tíma. Þá kvað hann sér hafa staðið ógn af ákærða Hrannari áður en hann fékk sett nálgunarbann á hann. Brotaþoli kvaðst hafa lagt inn á ákærða Pálma án þess að hafa skuldað honum peninga.

            Brotaþoli kannaðist við að hafa fengið skilaboðin sem um getur í 2. lið seinni ákærunnar. Þau hefðu verið send áður en hann hefði greitt ákærða Hrannari skuld. Eftir að hann hafði greitt skuld sína við ákærða hefðu ekki fleiri skilaboð verið send. Brotaþoli kvað sér hafa brugðið við að fá skilaboðin.

            Brotaþoli kvaðst hafa fengið skilaboðin sem um getur í 3. lið seinni ákærunnar. Þau hafi verið send eftir að brotaþoli hefði kært ákærða Pálma til lögreglu. Ákærði hafi ekki verið að innheimta hjá honum. Brotaþoli kvaðst hafa orðið mjög hræddur við að fá þessi skilaboð.

            Móðir framangreinds brotaþola bar að ákærðu Pálmi og Hrannar, aðallega þó ákærði Hrannar, hefðu hótað þeim mæðginum síðastliðið sumar og auk þess unnið skemmdarverk og valdið þeim ónæði. Hún kvaðst ekki hafa orðið vitni að því sem gerðist 31. maí 2017 og um er fjallað í 1. ákærulið síðari ákærunnar. Brotaþoli hafi komið heim og verið svo hræddur að hann hefði lagt 150.000 krónur inn á ákærða Pálma. Ákærði Hrannar hefði einnig verið þarna. Hún kvað ákærða Heimi hafa verið þarna en hann hefði ekkert gert.

            Rannsóknarlögreglumaður, sem rannsakaði atvik þau sem ákært er fyrir í 1. lið seinni ákærunnar, staðfesti skýrslur sínar. Hún kvað brotaþola og móður hans hafa komið á lögreglustöð og kært skemmdarverk á bíl móðurinnar og að þeim væru að berast hótanir í sambandi við peningakröfur. Móðirin kvaðst hafa verið búin að greiða 85.000 krónur en ákærði Hrannar og félagar hefðu ekki verið sáttir og viljað meira. Síðar hafi þeim borist fleiri hótanir og þá hafi þau mæðginin verið svo hrædd að þau hefðu ekki þorað að koma á lögreglustöð heldur hefði hún farið heim til þeirra. Í þessum hótunum hafi verið mynd af byssu og texti þar sem sagt var að hún væri æst í að hitta brotaþola. Eins hefði ákærði Hrannar sent mynd af sér þar sem hann hefði setið fyrir utan hús þeirra. Þá hefði komið fram hjá mæðginunum að brotaþoli hefði hitt ákærðu neðar í götunni. Þar hefðu þeir verið vopnaðir kylfu og byssu sem ákærði Hrannar hefði miðað á brotaþola. Í framhaldinu hefði brotaþoli millifært 150.000 krónur inn á ákærða Pálma.

 

IV

            Með játningu ákærða Hrannars, sem styðst við önnur gögn málsins, er sannað að hann hafi gerst sekur um það sem honum er gefið að sök í 1. lið fyrri ákærunnar. Hann verður því sakfelldur fyrir það og er brot hans rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.

            Í 2. ákærulið fyrri ákærunnar er ákærða í fyrsta lagi gefið að sök brot á vopnalögum. Hann hefur viðurkennt að hafa skotið úr byssu í Heiðmörk án þess að hafa haft til þess leyfi. Heiðmörk er, eins og alkunna er, fjölfarið útivistarsvæði og telst því almannafæri. Samkvæmt þessu hefur ákærði brotið gegn þeim ákvæðum vopnalaga sem tilgreind eru í ákæruliðnum. Honum er jafnframt gefið að sök að hafa brotið gegn 233. gr. almennra hegningarlaga með því að miða byssunni á fólk og hóta að skjóta mann eins og í ákæru greinir. Þessu hefur ákærði neitað. Maður þessi bar fyrir dómi að ákærði hefði ekki hótað að skjóta hann og stúlka, sem var á vettvangi, mundi ekki fyrir dómi hvort ákærði hefði hótað að skjóta manninn en hún hafði sagt það við lögreglu. Maður þessi bar hins vegar að ákærði hefði miðað byssunni að sér en það hefði verið í gamni eins og rakið var. Stúlkan kvaðst fyrir dómi ekki muna hvort ákærði hefði miðað byssu að sér en það hefði hún munað betur hjá lögreglu. Þar hafði hún sagt að ákærði hefði miðað byssu að sér og manninum. Samkvæmt þessu er sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi miðað byssunni á stúlkuna og manninn en hann verður sýknaður af því að hafa hótað að skjóta manninn. Með því að miða byssunni á fólkið hótaði ákærði því eins og hann er ákærður fyrir og verður hann því sakfelldur fyrir brot á nefndri grein almennra hegningarlaga.

            Með framburði tveggja vitna, sem rakinn var í kaflanum hér að framan, er sannað að á ákærða fundust þau fíkniefni sem í 3. ákærulið greinir. Með því að hafa þau í vörslu sinni hefur hann brotið gegn þeim ákvæðum sem í ákæruliðnum greinir og verður hann því sakfelldur samkvæmt ákærunni.

            Ákærði hefur viðurkennt að hafa haft í vörslu sinni hníf eins og hann er ákærður fyrir í 4. ákærulið. Hann byggir sýknukröfu sína á því að þetta sé vasahnífur og ekki sé óleyfilegt að vera með slíkan hníf í vasanum. Brot ákærða er talið varða við 1. mgr. 30. gr. vopnalaga. Í henni segir að vopnaburður á almannafæri sé bannaður en heimilt sé þó að bera á sér bitvopn þar sem eðlilegt og sjálfsagt geti talist, svo sem við vinnu eða veiðar eða í öðrum tilvikum þegar engin hætta er því samfara. Blað umrædds hnífs fellur inn í skaftið og er blaðið 6 cm að lengd. Hér er því um að ræða venjulegan vasahníf sem lengi hefur tíðkast að menn beri á sér og fellst dómurinn ekki á að varsla ákærða á hnífnum sé vopnaburður á almannafæri. Verður hann því sýknaður af því sem honum er gefið að sök í þessum ákærulið.

            Í kaflanum hér að framan var rakinn framburður lögreglumanna um það sem þeir urðu áskynja á heimili ákærða og er sakarefni 5. ákæruliðar fyrri ákærunnar. Ákærði hefur viðurkennt að hafa tekið hníf sér í hönd en falið hann og ekki ógnað með honum. Fyrir dómi bar hann að um smjörhníf hefði verið að ræða enda hefði hann verið að fá sér að borða. Meðal gagna málsins er mynd af hníf sem tveir lögreglumenn hafa borið að þeim hafi verið sagt á vettvangi að væri hnífurinn sem ákærði á að hafa otað að D og er um að ræða eldhúshníf sem er fjarri því að vera smjörhnífur eins og ákærði heldur fram. Af gögnum málsins er ljóst að lögreglumenn voru kvaddir á vettvang vegna alvarlegs atviks. Á vettvangi var þeim skýrt frá því að ákærði hefði otað hníf að D og hafa þeir ritað um það skýrslur og borið um það fyrir dómi eins og rakið hefur verið. Það er niðurstaða dómsins að með framburði lögreglumannanna sé sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi otað hníf að D, eins og honum er gefið að sök í ákæruliðnum. Þetta var til þess fallið að vekja ótta hjá henni um líf sitt eða heilbrigði og verður ákærði því sakfelldur samkvæmt ákæruliðnum. Brot hans er þar rétt fært til refsiákvæðis.

            Í fyrsta lið síðari ákærunnar er ákærðu öllum gefin að sök fjárkúgun eins og þar greinir. Hér að framan var rakið upphaf þessa máls sem var kæra brotaþola og móður hans sem voru svo hrædd við ákærðu að þau treystu sér ekki til að koma á lögreglustöð. Þá má ráða af gögnum málsins að ýmislegt í samskiptum brotaþola og ákærðu Hrannars og Pálma hafi valdið honum og móður hans ótta en ekki er ákært fyrir þau atvik. Hjá lögreglu neitaði ákærði Hrannar sök en meðákærðu könnuðust við að hafa farið og hitt brotaþola og hefði ákærði Hrannar einnig verið með í för. Ákærði Heimir kvaðst hafa verið undir áhrifum fíkniefna og vita mest lítið um málið en ákærði Pálmi kvaðst hafa verið að innheimta skuld hjá brotaþola sem hann hefði nú greitt. Fyrir dómi ítrekaði ákærði Hrannar neitun sína og kvaðst ekki hafa verið með meðákærðu. Þeir báru báðir að hann hefði verið með í för. Þegar brotaþoli kom fyrir dóm bar hann á annan hátt en hjá lögreglu eins og rakið var. Hann hélt því fram að ákærði Hrannar hefði ekki verið með hinum heldur hefði hann borið á hann sakir hjá lögreglu að undirlagi ákærða Pálma. Þá kvað hann ákærða Heimi ekkert hafa gert. Brotaþoli kvaðst hafa lagt peninga inn á reikning ákærða Pálma án þess að hafa skuldað honum. Móðir brotaþola bar einnig að ákærðu allir hefðu verið á vettvangi og hefði brotaþoli sagt sér það en hún var ekki vitni að viðskiptum þeirra.

            Framburður brotaþola fyrir dómi var annar en hjá lögreglu varðandi þátt ákærða Hrannars og stangast á við framburð meðákærðu. Þá verður ekki betur séð en hann hafi sagt móður sinni það sama og hann skýrði lögreglunni frá. Loks má nefna að lagt var nálgunarbann á ákærða Hrannar að undirlagi brotaþola, meðal annars vegna þess sem er ákæruefnið. Þegar allt þetta er virt er það niðurstaða dómsins að framburður brotaþola sé ótrúverðugur og verður ekki á honum byggt við úrlausn málsins. Ekki er heldur hægt að byggja á framburði ákærða Hrannars, sem kvaðst ekki hafa verið á vettvangi, eða á framburði ákærða Heimis sem ekki kvaðst hafa fylgst með því sem gerðist. Er þá ekki eftir nema framburður ákærða Pálma sem bar að hann hefði verið að innheimta skuld hjá brotaþola eins og rakið var. Samkvæmt öllu þessu er ósannað að ákærðu hafi í félagi kúgað brotaþola til að leggja peninga inn á reikning ákærða Pálma eins og þeir eru ákærðir fyrir og verða þeir því sýknaðir af þessum lið ákærunnar.

            Ákærði Hrannar hefur kannast við að skilaboðin sem ákært er fyrir í 2. lið síðari ákærunnar hafi verið send í gegnum aðgang hans en hann kvaðst ekki kannast við þau. Brotaþoli bar að hafa fengið skilaboðin áður en hann hefði greitt ákærða skuld. Eftir að hann hefði greitt skuldina hefði hann ekki fengið fleiri skilaboð. Hann kvað sér hafa verið brugðið við að fá þau. Maðurinn, sem nefndur er í ákæruliðnum, kom ekki fyrir dóm. Hann er búsettur erlendis og tókst ekki að hafa uppi á honum til að boða hann fyrir dóm. Ekki verður séð af gögnum málsins að lögregla hafi tekið skýrslu af honum. Þegar litið er til þess að skilaboðin voru send úr tæki ákærða og ætluð brotaþola á þeim tíma þegar honum stóð ógn af ákærða samkvæmt gögnum málsins, og áður en brotaþoli greiddi ákærða skuld, er ekki óvarlegt að telja sannað að ákærði hafi sent þau eins og hann er ákærður fyrir. Hann verður því sakfelldur samkvæmt þessum lið ákærunnar og er brot hans rétt fært til refsiákvæða í ákærunni.

            Ákærði Pálmi hefur viðurkennt að hafa sent skilaboðin sem tilgreind eru í 3. lið seinni ákærunnar. Hann kvað sig hafa vantað peninga og brotaþoli hefði skuldað sér peninga. Brotaþoli kvað skilaboðin ekki tengjast innheimtu heldur hefðu þau verið send í tengslum við það að hann kærði ákærða til lögreglu. Með játningu ákærða er sannað að hann hafi sent skilaboðin í þeim tilgangi að fá brotaþola til að greiða sér peninga og hefur hann með því brotið gegn því ákvæði sem hann er ákærður fyrir að hafa brotið.

            Ákærði Hrannar var dæmdur í fimm ára fangelsi 30. apríl 2015 fyrir þjófnað, meiri háttar líkamsárás, tilraun til manndráps og vopnalagabrot. Refsingin var skilorðsbundin til fimm ára. Ákærði hefur nú rofið skilorðið og verður dómurinn tekinn upp og dæmdur með þessu máli, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði var 15 ára þegar hann framdi brotin sem hann var dæmdur fyrir og 16 ára þegar dómur gekk. Hann er núna að verða 19 ára. Refsing ákærða verður ákveðin samkvæmt 77. gr. nefndra laga. Að þessu athuguðu verður ekki bætt við refsingu hans heldur er hún ákveðin fangelsi í fimm ár. Ekki eru skilyrði til að skilorðsbinda hana. Til frádráttar refsingunni skal koma gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 27. september 2017. Þá skal einnig draga frá refsingunni 144 daga vist ákærða á viðeigandi stofnun sem hann sætti í aðdraganda fyrra dóms. Þá verða gerð upptæk fíkniefni eins og í dómsorði greinir.

            Ákærði Pálmi var sektaður fyrir umferðarlagabrot á árinu 2016. Refsing hans nú er hæfilega ákveðin 60 daga fangelsi sem bundin skal skilorði eins og í dómsorði segir.

            Ákærði Hrannar skal greiða málsvarnarlaun verjanda síns eins og í dómsorði segir. Með hliðsjón af málsúrslitum verður ákærða Pálma gert að greiða málsvarnarlaun verjanda síns að einum þriðja en að tveimur þriðju skulu þau greidd úr ríkissjóði. Málsvarnarlaun verjanda ákærða Heimis skulu greidd úr ríkissjóði. Málsvarnarlaunin eru ákveðin með virðisaukaskatti í dómsorði.

            Það athugast að meðal gagna málsins er yfirlit yfir sakarkostnað sem varðar ákæruliði 3 og 4 í fyrri ákærunni. Kostnaðurinn er vegna rannsókna á blóð- og þvagsýnum úr ákærða Hrannari og, að því er virðist, úr manni sem ekki er ákærður í málinu. Ákærði er ekki ákærður fyrir að hafa ekið undir áhrifum vímuefna og ekki verður séð að rannsakað hafi verið efnið sem 3. liður fyrri ákærunnar fjallar um. Kostnaður þessi verður því ekki felldur á ákærða. Er þá ekki eftir annar sakarkostnaður en málsvarnarlaun verjenda ákærðu sem ákvörðuð eru í dómsorði.

 

            Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D ó m s o r ð :

            Ákærði, Hrannar Fossberg Viðarsson, sæti fangelsi í fimm ár en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hans frá 27. september 2017 og 144 daga vist ákærða á viðeigandi stofnun.

        Ákærði, Pálmi Snær Rúnarsson, sæti fangelsi í 60 daga en fresta skal fullnustu  refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveim árum frá deginum í dag að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

        Ákærði, Heimir Örn Johnson, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

        Upptæk skulu vera 6,55 g af amfetamíni.

        Ákærði Hrannar greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Þorgils Þorgilssonar lögmanns, 2.603.380 krónur.

        Ákærði Pálmi greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar lögmanns, 632.400 krónur að einum þriðja en að tveimur þriðju skulu þau greidd úr ríkissjóði.

        Málsvarnarlaun verjanda ákærða Heimis, Páls Kristjánssonar lögmanns, 421.600 krónur skulu greidd úr ríkissjóði.

 

Arngrímur Ísberg