• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Kynferðisbrot
  • Miskabætur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 23. apríl 2019 í máli nr. S-123/2019:

Ákæruvaldið

(Anna Barbara Andradóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Erlendur Þór Gunnarsson lögmaður)

 

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 23. apríl 2019, var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dags. 14. febrúar 2019 á hendur:

 

„X, kennitala [...],
[...]

 

fyrir kynferðisbrot, með því að hafa [...] 2017, brotið gegn blygðunarsemi A, kennitala [...], með því að hafa viðhaft kynferðislegt og klámfengið tal við hana í skilaboðum í farsíma hennar og jafnframt sent henni ljósmynd af fólki í kynferðislegum athöfnum.

 

Telst brot þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu Sverris Sigurjónssonar, lögmanns, fyrir hönd umbjóðanda síns, A, kt. [...], sem lýtur forráðum B, kt. [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.000.000, auk vaxta, skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá [...] 2017, til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er birt og dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi og til greiðsludags. Þá er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða lögmannskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.“

 

            Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Við þingfestingu málsins [...] sl. neitaði ákærði sök á þeim forsendum að hann hefði ekki viðhaft kynferðislegt og klámfengið tal við brotaþola. Ákærði endurskoðaði afstöðu sína og játaði brot sinn skýlaust í þinghaldi í dag. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.

           

            Við ákvörðun refsingar er litið til þess að ákærði hefur játað brot sitt og á ekki að baki sakarferil svo kunnugt sé. Þá kvaðst hann iðrast háttseminnar og fyrir liggur að hann hafi beðist afsökunar á henni. Til refsiþyngingar horfir að um afar gróft brot gegn ungri stúlku var að ræða og að um einbeittan ásetning var að ræða. Vísast í þessu sambandi til 1., 5., 6. og 8. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn brotaþola. Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi hans á grundvelli 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en háttsemi ákærða er til þess fallin að valda brotaþola miska en um afar grófa myndsendingu og orðbragð var að ræða. Við ákvörðun bóta er til þess að líta að ekki liggja fyrir sérfræðileg gögn um afleiðingar brotsins fyrir brotaþola. Þá er litið til framburðar brotaþola hjá lögreglu. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 200.000 krónur. Krafan ber vexti eins og í dómsorði greinir. Upphafsdagur dráttarvaxta er [...] 2019 þegar mánuður er liðinn frá  þingfestingu málsins.

 

            Með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal ákærði greiða allan sakarkostnað málsins, sem er málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns Erlends Þórs Gunnarssonar lögmanns, 210.800 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Sverris Sigurjónssonar lögmanns, m.a. vegna vinnu hans á rannsóknarstigi, 295.120 krónur og 23.633 krónur í annan sakarkostnað. Við ákvörðun þóknunar er litið til eðlis og umfangs málsins.

           

Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                            D ó m s o r ð :

            Ákærði, X, sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði A 200.000 krónur auk vaxta, skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá [...] 2017, til [...] 2019 en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 1. mgr. 6. gr. til greiðsludags.

            Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns Erlends Þórs Gunnarssonar lögmanns, 210.800 krónur, 295.120 króna þóknun réttargæslumanns brotaþola, Sverris Sigurjónssonar lögmanns og 23.633 krónur í annan sakarkostnað.

 

                                                            Sigríður Hjaltested (sign.)