• Lykilorð:
  • Aðilaskýrsla
  • Gögn
  • Líkamstjón
  • Matsmenn
  • Matsgerð
  • Málskostnaður
  • Skaðabætur
  • Skjöl
  • Slysatrygging
  • Sönnun
  • Uppgjör
  • Vátryggingarsamningur
  • Vinnusamningur
  • Vitni
  • Örorka
  • Örorkubætur
  • Sýkna

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 21. janúar 2019 í máli nr. E-1413/2018:

[...]

(Guðbjörg Benjamínsdóttir lögmaður)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Einar Baldvin Axelsson lögmaður)

 

 

I.

Mál þetta var höfðað 26. apríl 2018 og dómtekið 7. janúar 2019. Stefn­andi er [...], [...],[...]. Stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi greiði honum 10.292.189 krónur, með 4,5% vöxtum frá 8. nóvember 2014 til 3. september 2016, en með dráttarvöxtum sam­kvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðslu­dags, allt að frádreginni innborgun stefnda þann 21. september 2016 að fjár­hæð 5.297.756 krónur. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi greiði honum 9.504.890 krónur, með 4,5% vöxtum frá 8. nóvember 2014 til 3. september 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðslu­­­­­­­dags, allt að frádreginni innborgun stefnda 21. september 2016 að fjár­hæð 5.297.756 krónur. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda sam­­kvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins ásamt virðis­auka­­skatti.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda, auk málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

 

II.

Málsatvik:

Stefnandi slasaðist í umferðarslysi 8. ágúst 2014, þá tvítugur að aldri, þegar hann var ökumaður bifreiðar sem lenti í árekstri við ökumann annarrar bifreiðar. Stefnandi slas­aðist af þessum ástæðum meðal annars á hálsi og baki. Stefndi, vátryggjandi tjón­valds, viðurkenndi bóta­­skyldu vegna slyss­­ins og var fallist á að afla sameigin­legrar mats­­gerðar til að meta af­­leiðingar slyss­ins fyrir stefn­­anda.

Í matsgerð Ragnars Jónssonar læknis og Ingvars Sveinbjörnssonar lögmanns 21. júlí 2016 greinir meðal annars að stefnandi hafi lokið grunnskóla og verið í fram­­­­­halds­skólum með hléum en átt eftir eina önn til að ljúka stúdentsprófi. Hann hafi einnig lokið námi frá Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum og sótt fjölda námskeiða, meðal annars í skyndihjálp. Því til viðbótar hafi stefn­andi lokið einka­flugmannsnámi og verið byrjaður á fyrstu önn í atvinnu­flug­manns­­námi og hann stefnt á að verða atvinnu­flugmaður. Stefn­andi hafi verið starfsmaður hjá lagna­fóðringa­­fyrirtæki, Oliner System Iceland ehf., á slysdegi. Hann hafi í beinu fram­haldi af slys­inu verið um tíu daga frá þeirri vinnu. Stefnandi hafi eftir það minnkað við sig vinnu. Eftir áramótin 2014/2015 hafi stefnandi ráðið sig til starfa sem af­leysingaháseti hjá Landhelgisgæslu Íslands þar sem hann hafi ekki lengur ráðið við sitt fyrra starf. Þessu til viðbótar hafi stefnandi frá haustinu 2014 verið í námi við Fjöl­brauta­skólann í Ár­múla og hafi hann hugsað sér að vinna meira með náminu en hann gerði. Námið hafi hins vegar gengið illa og stefn­andi kennt slysinu um það. Þá hafi stefnandi unnið með náminu í námsleyfum.

Í niðurstöðum mats­gerðarinnar kemur fram að stöðug­leika­punkti hafi verið náð 8. nóvember 2014. Tíma­bundið atvinnutjón (óvinnufærni) samkvæmt 2. gr. skaða­bóta­laga nr. 50/1993 hafi verið 100% á tíma­bilinu frá 8. til 18. ágúst 2014. Stefnandi hafi verið veikur í skiln­ingi 3. gr. sömu laga (þjáningabætur) vegna sama tíma­bils en ekki verið rúmfastur. Einnig greinir í niðurstöðunum að varanlegur miski stefnanda sam­kvæmt 4. gr. laganna hafi verið metinn 10 stig og varanleg örorka hans samkvæmt 5. gr. þeirra laga hafi verið metin 10%.

Með bréfi til stefnda 3. ágúst 2016 gerði stefnandi bótakröfur á grund­velli mats­gerðarinnar vegna afleiðinga slyssins þar sem gerð var krafa um að tekið yrði mið af meðal­­­tekjum verkafólks samkvæmt launatöflum Hag­stofu Íslands vegna ársins 2014. Var krafan reist á því að aðstæður stefnanda væru óvenjulegar í skilningi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 og voru færð fyrir því frekari rök. Stefndi féllst ekki á kröfu og rök­semdir stefnanda þess efnis og gaf út fullnaðaruppgjör sem tók mið af lágmarks­laun­um samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Var afstaða stefnda reist á því að stefn­andi væri námsmaður. Af hálfu stefnanda var tekið við bótum frá stefnda 21. sept­­ember 2016 í samræmi við uppgjörið en með nokkrum fyrirvörum, þar á meðal með fyrir­vara um árslaunaviðmið vegna bóta fyrir varanlega örorku. Með tölvuskeyti til stefnda 21. febrúar 2017 var óskað eftir endurskoðun á árslaunaviðmiði í bótauppgjöri vegna varanlegrar örorku. Þeirri beiðni var hafnað með tölvuskeyti stefnda 15. mars sama ár. Um ágreining aðila greinir nánar í málsástæðum og lagarökum. 

Stefnandi gaf aðilaskýrslu við aðalmeðferð. Þá gaf skýrslu vitnið Arnar Hreins­son, framkvæmdastjóri Oliner System Iceland ehf.

 

III.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda:

Stefnandi byggir á því að í tilviki hans séu fyrir hendi óvenjulegar aðstæður í skiln­­­­­­ingi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, sbr. 6. gr. laga nr. 37/1999. Stefnandi vísar meðal annars til athugasemda með 6. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 37/1999. Þar komi meðal annars fram að við­­miðun við síðustu þrjú ár fyrir slys sé almennt ekki góður mælikvarði þegar um sé að ræða ungt fólk sem sé að hefja starfsferil sinn enda séu líkur fyrir hækkandi launum. Stefn­andi vísar til þess að við beitingu 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 beri að leggja hið sama til grundvallar, nánar tiltekið að ekki eigi að miða við lágmarks­laun þegar annað viðmið sé raunhæft og nothæft. Einnig eigi að líta til þess hvort tjónþoli hafi nýlega hafið störf á lágmarks­launum sem síðar hefðu hækk­að eða myndu örugglega hækka. Þá eigi enn fremur að líta til þess að skilyrði ákvæðis­­ins hafi verið rýmkuð verulega með 6. gr. laga nr. 37/1999, sbr. athuga­semdir í fyrr­greindu lagafrumvarpi.

Stefnandi vísar til þess að hafa verði í huga að meginmarkmið laga nr. 50/1993 sé að tryggja tjónþola fullar bætur fyrir raunverulegt tjón sem hann verði fyrir. Slíku mark­­­­miði verði ekki náð með því að styðjast við útreikning stefnda. Stefnandi byggir á því að bersýnilega hafi verið rangt að leggja til grundvallar lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993 en fyrir hendi séu óvenjulegar aðstæður enda hafi stefn­andi ekki verið náms­maður þegar hann slasaðist. Að því virtu hafi borið að leggja annan mælikvarða til grundvallar við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku.

Stefnandi vísar til fyrirliggjandi matsgerðar en þar komi meðal annars fram að vegna ungs aldurs verði tæplega byggt mikið á tekjusögu. Stefnandi hafi verið tvítugur þegar hann slasaðist. Hann hafi lokið grunnskóla og verið í framhaldsskóla með hlé­um. Þá hafi hann ekki lokið stúdentsprófi. Samkvæmt staðgreiðsluyfirlitum hafi tekjur hans á árinu 2012 verið 1.784.303 krónur en þá hafi hann verið átján ára og unnið með námi. Á ár­inu 2013 hafi stefnandi unnið með námi hjá Íslenska gáma­félag­inu ehf., auk þess sem hann hafi starfað hjá Sótthreinsun og þrif ehf. Laun hans fyrir það ár hafi numið 1.906.016 krónum. Á árinu 2014 hafi stefnandi verið í námi í þrjá mánuði en á því ári ráðið sig í fullt starf hjá Oliner System Iceland ehf. til eins árs frá 1. apríl 2014 að telja. Laun hans vegna þess árs hafi numið 1.787.559 krónum. Stefn­andi hafi hins vegar þurft að minnka við sig vinnu í kjölfar slyss­ins og hann loks sagt upp um ára­mótin 2014/2015 þar sem hann hafi ekki ráðið lengur við starfið. Stefnandi hafi um haustið 2014 byrjað í námi að nýju í Fjölbrautaskólanum í Ármúla. Það hafi verið vegna þess að hann hafi ekki getað stundað fyrri vinnu vegna afleiðinga slyss­ins en hann hafi verið metinn til 10 stiga varanlegs miska og 10% varanlegrar örorku.

Stefnandi byggir á því að af ráðningarsamningi hans við Oliner System Iceland ehf. megi ráða að hann hafi ekki verið námsmaður þegar hann slasaðist eins og lagt hafi verið til grundvallar við uppgjör bóta af hálfu stefnda. Ráðningarsamningurinn hafi gilt til eins árs og hann miðast við fullt starf. Að því virtu hafi ekki verið um að ræða sumar- eða hlutastarf. Enn fremur sé ljóst að stefnandi hafi einungis byrjað nám um haustið 2014 vegna afleiðinga umferðarslyssins enda komi fram í máls­gögnum að hann hafi verið tilneyddur að minnka við sig vinnu þar sem hann hafi ráðið illa við hana. Þá hafi hann að lokum hætt störfum hjá fyrirtækinu um áramótin 2014/2015 af fyrrgreindum ástæðum. Komi þetta fram í skriflegri staðfestingu Arnars Hreinssonar, fram­kvæmda­stjóra Oliner System Iceland ehf. Þá verði auk þess ráðið af staðgreiðslu­yfirliti vegna ársins 2014 að laun stefnanda hafi lækkað strax í kjölfar slyssins.

Með hliðsjón af aldri og atvinnusögu stefnanda er af hans hálfu aðallega byggt á því að miða eigi uppgjör bóta vegna varanlegrar örorku við meðaltekjur verkafólks á ár­­inu 2014 samkvæmt launatöflum Hagstofu Íslands enda sé það raunhæft og sann­gjarnt við­­­­­­­mið með hliðsjón af aðstæðum stefnanda og starfs­reynslu hans. Að því virtu sundur­­­­­­­­­­­­liðist dómkröfur stefnanda með eftirgreindum hætti:

 

1.      Bætur samkvæmt 5.-7. gr. laga nr. 50/1993:

2014: (5.364.000 x 1,08) x (494,7/483,5) = 5.927.314

5.927.314 x 17,364 x 10%                              10.292.189 krónur

2.      Greiðsla stefnda 21. september 2016:             -5.297.756 krónur

Samtals:                                                           4.994.433 krónur

 

Stefnandi vísar til þess að útreikningur bóta fyrir varanlega örorku taki mið af fyrr­greindri matsgerð. Samkvæmt henni hafi stöðugleikatímapunktur stefnanda verið 8. nóv­ember 2014. Varanleg örorka stefnanda hafi verið metin 10% og aldursstuðull hans samkvæmt 6. gr. laga nr. 50/1993 sé 17,364. Þá sé við útreikning á árslauna­viðmiði tekið tillit til 8% framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð og árslaunin svo upp­reiknuð miðað við launavísitölu fram til stöðugleikapunkts, sbr. 15. gr. laga nr. 50/1993. Þessu til viðbótar sé krafist 4,5% vaxta samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 vegna varanlegrar örorku frá 8. nóvember 2014 (stöðugleikatímapunkti) til 3. sept­ember 2016 (mánuði eftir dagsetningu kröfubréfs), en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá komi til frádráttar bótakröfu stefn­anda greiðsla frá stefnda vegna varanlegrar örorku, sem innt var af hendi 21. sept­­ember 2016, að fjárhæð 5.297.756 krónur.

Stefnandi tekur fram að varakrafa hans taki til þess að miðað verði við þau laun sem voru umsamin samkvæmt ráðningarsamningi hans við Oliner System Iceland ehf. Slík viðmið séu bæði raunhæf og sanngjörn og miðist við aðstæður eins og þær horfðu við stefnanda á slysdegi. Varakrafa hans sundurliðist því með eftirgreindum hætti:

 

1.        Bætur samkvæmt 5.-7. gr. laga nr. 50/1993:

(4.800.000 x 1,08) x (494,7/468,5) =                     5.473.906

5.473.906 x 17,364 x 10%                                                 9.504.890 krónur

2.        Greiðsla stefnda 21. september 2016:             -5.297.756 krónur

Samtals:                                                                  4.207.134 krónur.

 

Stefnandi tekur fram í þessu sambandi að hann miði við sömu forsendur við útreikn­inga og áður greinir varðandi aðalkröfu að því undanskildu að árslaun vara­kröfu (400.000 krónur x 12) séu uppreiknuð miðað við launavísitölu frá janúar 2014, sem sé það tímamark þegar ritað var undir ráðningarsamning, og fram að stöðugleikapunkti.

Um lagarök að öðru leyti vísar stefnandi til laga nr. 50/1993 með síðari breyting­um, einkum 2. mgr. 7. gr. þeirra laga. Varðandi kröfu um vexti vísar stefnandi sérstak­lega til 16. gr. laga nr. 50/1993 og um kröfu um dráttarvexti vísar hann til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Þá vísar stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einka­­­­­­­mála varðandi kröfu um málskostnað, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra laga. Í því sambandi tekur stefn­­andi fram að við ákvörðun málskostnaðar verði að taka tillit til þess að hann sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili samkvæmt lögum nr. 50/1988 um virðis­­aukaskatt.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnda:

Stefndi byggir kröfu um sýknu á því að með þegar greiddum bótum hafi stefnandi fengið tjón sitt bætt að fullu. Hann eigi því ekki lögvarinn rétt á frekari greiðslum frá stefnda. Stefndi vísar til meginreglu í skaðabótarétti um útreikning á bótum fyrir varan­­lega örorku. Þá reglu sé að finna í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Samkvæmt reglunni eigi að miða við meðalatvinnutekjur tjónþola síðustu þrjú almanaksár fyrir tjóns­­dag. Undantekningu frá þeirri reglu sé hins vegar að finna í 2. mgr. 7. gr. laganna en þar sé kveðið á um að árslaun megi meta sérstaklega þegar óvenjulegar að­stæður séu fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðar­tekjur tjónþola. Undantekningarregluna eigi hins vegar að skýra þröngt. Stefndi vísar til þess að bæði skilyrðin þurfi að vera uppfyllt svo heimilt sé að beita undantekningarreglunni og stefnandi beri sönnunarbyrðina varðandi þau skilyrði. Hann verði þannig að sanna að óvenjulegar aðstæður hafi verið fyrir hendi og að annar mæli­kvarði en sá sem kveðið sé á um í 1. mgr. 7. gr. laganna sé réttari fyrir líklegar fram­tíðartekjur. Þá verði stefnandi jafn­framt að sýna fram á hvaða annan mælikvarða eigi að leggja til grund­vallar. Ágreiningslaust sé hins vegar að aðstæður stefnanda hafi verið óvenjulegar. Ágreiningurinn snúist um það hvort stefnanda hafi tekist að sýna nægi­lega fram á rétta tekjuviðmiðun fyrir kröfum sínum. Stefndi byggir á því að ekki fái staðist, eins og stefn­andi byggir aðallega á, að leggja eigi meðallaun verkamanna á árinu 2014 til grund­vallar sem árslaunaviðmið, í stað þess að miða við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, sbr. bótauppgjör aðila. 

Stefndi vísar til aldurs stefnanda á slysdegi og að hann hafi lokið grunnskóla en námi í framhaldsskóla hafi hins vegar ekki verið lokið. Þá hafi stefnandi upplýst að til hafi staðið af hans hálfu að ljúka því námi og að hann hafi verið búinn að skrá sig í dag­­skóla haustið 2014 við Fjölbrautaskólann í Ármúla. Jafnframt liggi fyrir að stefn­andi hafi stefnt á frekara nám, nánar tiltekið atvinnuflugnám. Ekkert liggi hins vegar fyrir um að stefnandi hafi starfað sem flugmaður enda hafi hann byrjað í atvinnu­flug­manns­námi eftir slysið. Að mati stefnda virðist þannig ekkert benda til þess að stefn­andi hafi ætlað sér að starfa við verka­mannastörf til frambúðar. Slík störf hafi aðeins verið tilfallandi með námi. Stefnandi hafi ætlað sér að vera í flugnámi og virðist nú leggja stund á það. Þegar af þessum ástæðum geti árslaun á grundvelli meðaltekna verkafólks hér á landi á árinu 2014 ekki endurspeglað líklegar fram­tíðartekjur stefnanda á starfs­ævinni hefði slysið ekki átt sér stað. Að mati stefnda bendi því ekkert til þess að stefn­andi hafi ætlað sér að starfa á þeim vettvangi. Árslaun á grundvelli meðaltekna verka­fólks séu því að mati stefnda óhæf til viðmiðunar við útreikning bóta fyrir varan­lega örorku stefnanda.

Stefndi byggir jafnframt á því að fullyrðingar stefnanda um að hann hafi verið í fullu starfi hjá Oliner System Iceland ehf., sbr. ráðningarsamning hans við það fyrir­tæki, og þar með ekki verið námsmaður á slysdegi, standist ekki skoðun.

Í tengslum við varakröfu stefnanda þá hafnar stefndi því að unnt sé að miða við störf stefnanda hjá Oliner System Iceland ehf. Í því sambandi telur stefndi að stefnandi hafi ranglega miðað útreikninga við það sem kveðið sé á um í samningi aðila varðandi mánaðarlaun en hann hafi virt að vettugi hvernig tekjur hans hjá umræddu fyrirtæki hafi í raun verið. Ráðningarsamningurinn kveði á um mánaðarlaun á bilinu 350.000 krónur til 400.000 krónur. Aðrar launatölur komi hins vegar í ljós þegar litið sé til yfir­lits úr stað­­greiðsluskrá:

 

Maí                              297.371 króna

Júní                              289.637 krónur

Júlí                               318.138 krónur

Ágúst                           213.873 krónur

September                   143.265 krónur

Október                       121.925 krónur

Nóvember                    163.829 krónur

 

Stefndi byggir á því að framangreind samantekt beri glögglega með sér að stefnandi hafi ekki verið í fullu starfi í þeim skilningi að hann hafi verið í 100% vinnu. Ef svo hefði verið þá hefðu laun hans verið hærri. Að mati stefnda virðist starf stefnanda hins vegar hafa verið með þeim hætti að hann hafi fengið greitt tímagjald eða hann hafi á annan hátt getað unnið hlutfall af fullri vinnu og fengið greitt í samræmi við það. Samn­ingurinn hafi þannig aðeins rammað inn viðmið fyrir fulla vinnu og svo hafi verið gert upp í samræmi við það. Telur stefndi þetta renna enn frekari stoðum undir stöðu stefnanda sem námsmanns, auk þess sem ráðningarsamningurinn hafi verið til skamms tíma. Að mati stefnda verði enda ekki annað séð en að um samkomulag hafi verið að ræða sem hafi hentað nokkuð vel samhliða námi.

Stefndi byggir einnig á því að ekki verði litið fram hjá því að um sé að ræða afar stutta tekjusögu hjá stefnanda og að hún sé ekki til þess fallin að gefa góða vís­bendingu um fram­tíðartekjur hans né heldur að vera á einhvern hátt réttari mælikvarði en lág­marks­­laun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Vinnutekjur í svo skamman tíma í tíma­­­­­bundnu starfi, sem ekki sé hugsað sem framtíðarstarf heldur sem bráða­­birgða­starf til öflunar fjár til frekara náms, geti ekki talist vera marktækur mæli­kvarði á fram­­tíðar vinnu­­tekjur tjónþola. Þá byggir stefndi einnig á því að almennt séð sé svo stuttur tími í hvaða starfi sem er líka allt of skammur tími til að byggja á sem við­­miðun um fram­tíðartekjur, í öllu falli þegar ekki liggi sannanlega fyrir að um fram­tíðar­starf sé að ræða. Stefndi telur að svo standi ekki á í tilviki stefnanda. Þvert á móti bendi ekkert til þess að hann hafi ætlað sér að starfa hjá Oliner System Iceland ehf. til frambúðar. Aðeins liggi fyrir að hann hafi ætlað sér að starfa tímabundið hjá fyrir­tækinu áður en hann héldi í frekara nám. 

Stefndi byggir enn fremur á því, til viðbótar við allt framangreint, að ósannað sé og það standist ekki skoðun, að unnt sé að miða við tekjuviðmið stefnanda. Þá mót­­mælir stefndi sérstaklega tekju­viðmiði stefnanda varðandi varakröfu, 400.000 krónur á mán­uði, enda sé þar miðað við hæstu launatölu úr gögnum án frek­­ari rökstuðnings. Líkt og að framan greinir þá telur stefndi að það liggi fyrir að stefn­andi hafi aldrei aflað sér slíkra mánaðarlauna þrátt fyrir að ráðningarsamningur hans og Oliner System Iceland ehf. hafi kveðið á um það og þrátt fyrir að hann hafi haft líkamlega burði til þeirra starfa. Að mati stefnda verði því í raun ekki séð að annar mælikvarði en mæli­kvarði lágmarks­launa gefi rétta mynd af líklegum fram­tíðar­­tekjum stefnanda. Að framan­­­­greindu virtu eigi þannig að vera ljóst að við útreikn­ing á bótum til stefnanda fyrir varanlega örorku eigi að miða við lágmarks­árslaun í skiln­­ingi 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Sá mælikvarði hafi verið lagður til grundvallar í bóta­uppgjöri aðila og ekki séu efni til annarrar við­mið­unar.

Stefndi hafnar því að fallist verði á dráttarvaxtakröfu stefnanda vegna tímabils fyrir dómsuppsögu enda liggi ekki fyrir fyrr en við það tímamark hvort stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda og hvort vanefndir verði á greiðslu af hans hálfu sem heimili stefnanda að leggja á dráttarvexti.

Um lagarök að öðru leyti vísar stefndi einkum til almennra reglna vátrygginga- og skaðabótaréttar, einkum meginreglna um sönnun og sönnunarbyrði. Einnig vísar stefndi til laga nr. 50/1993 með síðari breytingum, auk laga nr. 91/1991 eftir því sem við á. Þá byggir stefndi kröfu um málskostnað á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

 

 

 

IV.

Niðurstöður:

Ágreiningur í máli þessu tekur til þess hvaða launaviðmiðun skuli beita við út­reikn­ing bóta vegna varanlegrar örorku stefnanda. Markmið laga nr. 50/1993 er meðal annars að tryggja tjónþola fullar bætur vegna varanlegrar örorku eftir því sem unnt er. Í 1. mgr. 7. gr. laganna er kveðið á um að árslaun til ákvörðunar bóta skuli teljast vera meðal­­atvinnutekjur tjónþola þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð. Í 2. mgr. 7. gr. laganna er kveðið á um að árslaun skuli þó metin sérstaklega þegar óvenju­legar aðstæður séu fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar fram­­­­­tíðartekjur tjónþola. Þá greinir í 3. mgr. sömu lagagreinar að þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. skuli ekki miða við lægri árslaun en tilgreind eru í töflu sem þar er birt. Til þess að vikið verði frá meginreglu 1. mgr. 7. gr. laganna með heimild samkvæmt 2. mgr. sömu greinar verður tjónþoli að sýna fram á að fyrir hendi séu óvenjulegar að­stæður og að annar mælikvarði sé réttari til að meta hverjar framtíðartekjur hans hefðu orðið. Óvenjulegar aðstæður í skilningi laganna taka nánar mið af einstaklings­bundnu mati á aðstæðum tjónþola hverju sinni. Fyrir liggur að bótauppgjör aðila 8. september 2016, sem var með fyrirvara af hálfu stefnanda, tók mið af lágmarkslaunum sam­kvæmt 3. mgr. 7. gr. fyrrgreindra laga með vísan til þess að stefnandi væri náms­maður.

Upplýsingar í matsgerð um atvinnu- og námssögu stefnanda o.fl., fyrir og eftir um­­rætt slys, sem virðast fyrst og fremst reistar á viðtali við stefnanda á matsfundi 24. febrúar 2016, eru ekki nægjanlega ná­kvæmar að mati dómsins. Af þeim ástæðum er nauð­synlegt að gera nánar grein fyrir öðrum málsgögnum og því sem fram kom við skýrslu­tökur fyrir dómi. Sam­kvæmt staðgreiðsluyfirliti frá ríkis­skatt­stjóra starfaði stefn­­­­andi frá sept­ember 2013 til des­­ember sama ár hjá Íslenska Gáma­félag­inu ehf. Í yfirliti frá Fjöl­brauta­­­skól­anum í Ár­múla greinir að stefnandi hafi á sama tíma verið skráður í tvo áfanga í fjar­námi á haust­önn 2013 við skólann en þeim lauk með falli. Stefnandi bar um það fyrir dómi að hann hafi á þess­­­um tíma verið búsettur á Austur­landi og starfað við sorphirðu frá starf­­­­stöðvum fyrir­tækisins á Egilsstöðum og Reyðar­firði. Af stað­greiðslu­yfirliti ríkis­­­­­­­skatt­stjóra verður ráðið að starfið hafi verið fullt starf. Af sama yfir­liti verður ráðið að önnur störf stefnanda hjá öðrum vinnu­veitendum á ár­inu 2012 og fram undir mitt ár 2013 hafi verið hlutastörf. Sam­rýmist það því sem fram kom við skýrslugjöf stefn­anda fyrir dómi um að hann hafi áður verið í hluta­störf­um sam­­hliða námi við Menntaskólann í Kópavogi.

Stefnandi bar um það fyrir dómi að hann hafi hætt í starfi hjá Íslenska Gáma­félag­inu ehf. um ára­mótin 2013/2014. Hann hafi á þeim tíma verið búinn að fá boð frá Arn­ari Hreinssyni, framkvæmdastjóra Oliner System Iceland ehf., um að koma til starfa hjá fyrirtækinu. Á sama tíma hafi slitnað upp úr sam­bandi stefnanda og þá­ver­andi unn­­­­­­­­­­­ustu og hann flutt frá Austurlandi til höfuð­borgar­svæðisins. Stefn­­andi bar um það að hann hafi ekki verið í laun­aðri vinnu fyrstu mánuði árs­ins 2014 vegna bú­­ferla­flutn­inga o.fl. Samrýmist það staðgreiðsluyfirliti ríkis­skatt­stjóra. Þá bar stefn­­­­andi um það að hann hafi byrjað hjá Oliner System Iceland ehf. í apríl það ár. Hann hafi talið hið nýja starf áhuga­verð­ara en starfið sem hann gegndi hjá fyrri vinnu­­­veit­­anda. Það hafi verið ástæða þess að hann ákvað að ráða sig til fyrir­tækis­ins. Í því starfi hafi reynt á notkun tækja og búnaðar og það meðal annars vakið áhuga hans á starf­inu. Einnig hafi verið gert ráð fyrir því að hann myndi að loknu þjálf­­­­­­unar­­­­tíma­bili gegna starfi verk­­stjóra. Því til við­­bótar hafi honum verið gefin von um að hann gæti síðar átt mögu­­­­leika á því að verða hlut­hafi í fyrir­­­tæk­inu. Að því virtu hafi stefn­andi á þeim tíma litið á starfið sem fram­­­­­tíðar­starf og hann verið hættur í námi á þeim tíma.

Í máli þessu liggur fyrir skriflegur ráðningarsamningur stefnanda við Oliner Syst­em Iceland ehf., dagsettur 1. apríl 2014, um fullt starf hjá fyrirtækinu sem tækni­maður. Sam­kvæmt efni samningsins fólst starfið í heilfóðrun og myndun lagna á dag­vinnu­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­tíma frá kl. 08:30 til 18:00. Miðað var við að laun væru samkvæmt samkomulagi en tímagjald í dagvinnu væri 1.300 krónur og vegna yfir­vinnu 2.340 krónur. Þá var tekið fram í samningnum að mánaðarlaun myndu vera á bilinu frá 350.000 krónur til 400.000 krónur. Þar var einnig kveðið á um að ráðningin væri til eins árs, nánar tilekið frá 1. apríl 2014 til 31. mars 2015, og samkvæmt efni samningsins átti ráðn­­­­­­­­ing­unni að ljúka án upp­sagnar. Í skýrslu af stefnanda og vitninu Arnari Hreinssyni fyrir dómi kom fram að stefnandi hafi hins vegar í raun ekki hafið störf hjá fyrirtækinu fyrr en síðar í aprílmánuði það ár. Þá bar Arnar um það að þrátt fyrir að ráðningar­samn­ingur­inn hafi samkvæmt efni sínu verið tíma­­­­­­­­­­­­­­­­­­bundinn þá hafi í raun verið gert ráð fyrir því af hálfu fyrirtækisins að um væri að ræða ráðningu til lengri tíma. Af fram­burði vitnis­ins Arnars verður ráðið að gert hafi verið ráð fyrir áfram­hald­­­­andi ráðn­ingar­sambandi við stefn­anda ef vel myndi takast til við ráðn­ing­una fyrsta árið. Að því er varðar laun stefn­­­­­­­anda samkvæmt ráðningarsamningnum þá bar Arnar um það að mán­aðar­laun, sem þar væri kveðið á um, væru viðmiðunarlaun. Tímavinna væri greidd þegar lítið væri að gera hjá fyrirtækinu en fast kaup og föst yfirvinna væri greidd þegar starf­semin væri meiri. Einnig bar Arnar um það að sumar­mánuðir hjá fyrir­­­­tækinu væru almennt rólegur tími í starfseminni en meira væri hins vegar að gera á öðrum tímum ársins. Lág laun stefn­anda í aprílmánuði 2014 skýrðust af því að hann hafi aðeins unnið nokkra daga í þeim mánuði og verður ráðið af framburði Arnars að það hafi verið undir lok mánaðarins. Arnar gerði nánar grein fyrir launum stefn­anda hjá fyrir­tækinu á árinu 2014, sem samkvæmt staðgreiðsluyfirliti Ríkisskattstjóra voru undir fyrr­­greind­um við­miðunarlaunum. Kom fram að verk­efnastaðan um sumarið hafi á þeim tíma verið róleg og stefn­andi verið starfs­maður í þjálfun. Þá hafi laun stefn­anda, að því er varðar tíma­bilið frá ágúst til nóv­ember, skýrst af því að stefn­andi hafi verið með skerta starfsgetu eftir að hann slasaðist og fengið greiddan veik­­indarétt sam­kvæmt kjara­­samn­ingi. Þessu til við­bótar liggur fyrir að stefnandi var launalaus í desember 2014 samkvæmt staðgreiðslu­yfirliti Ríkisskattstjóra.

Stefnandi bar um það fyrir dómi að áform hans um starfið hjá Oliner System Ice­land ehf. hafi ekki gengið eftir vegna fyrr­greinds um­­ferðarslyss. Slysið hafi gert það að verkum að hann gat ekki gegnt því áfram sem skyldi. Stefnandi hafi af þeirri ástæðu og vegna óvissu um áfram­haldandi starfs­­getu hjá Oliner System Iceland ehf. skráð sig í dag­­­skóla á haustönn 2014 við Fjöl­­­­­­brauta­­­­skólann í Ármúla. Nánar til­tekið hafi hann skráð sig til námsins einhverjum dög­­­um eftir slysið en áður en önnin byrjaði í skól­anum. Samkvæmt staðfestingu frá fyrrgreindum skóla stóð önnin yfir á tímabili frá 20. ágúst 2014 til 22. desember sama ár og var stefnandi skráður í fimm áfanga. Stefn­­andi bar um að hann hafi reynt að sinna starf­inu áfram hjá Oliner System Iceland ehf. samhliða því að vera skráður í fyrr­­greint dag­skóla­­­­­nám. Hvorugt hafi hins vegar gengið upp. Hann hafi fallið í öllum áföng­um náms­­­ins vegna ófull­nægjandi mæt­ingar. Hugur hans hafi í raun ekki staðið til náms á þessum tíma og afleiðingar slyssins hafi gert honum erfitt fyrir. Hann hafi meira verið með hugann við starfið hjá Oliner System Ice­land ehf. Starfið hafi hins vegar, eins og áður greinir, reynst vera líkam­lega of erfitt fyrir hann til að hann gæti gegnt því eftir slysið og það gert að verkum að hann gat ekki sinnt því sem skyldi. Það hafi því orðið að sam­­komu­lagi milli hans og Arnars að hann léti af störfum hjá fyrirtækinu undir árslok 2014.

Framburður stefn­anda um störf hans hjá Oliner System Iceland ehf. er að mestu leyti í samræmi við fram­burð vitnisins Arnars, þar með talið um ráðningu til fyrir­­­­­­tækis­ins, þjálfunartíma til að byrja með og að gert hafi verið ráð fyrir því að hann myndi gegna stöðu verk­stjóra um haustið en af því hafi hins vegar ekki orðið vegna hinna breyttu forsendna í kjölfar slyssins. Auk þess var samræmi í framburði hans og fram­burði stefnanda um aðdraganda og ástæður fyrrgreindra starfsloka. Af fram­burði Arnars fyrir dómi verður hins vegar ráðið að stefn­andi hafi tak­markað verið við eigin­leg störf hjá fyrir­­tækinu eftir umferðarslysið en hann notið veikindaréttar. Hið sama verður ráðið af ódagsettri skriflegri staðfestingu Arnars sem er meðal máls­gagna. Einnig liggur fyrir að Arnar kannaðist við það fyrir dómi að til greina hafi komið að taka stefnanda inn í eig­­enda­hóp fyrir­tækisins og verður ráðið af framburði hans að það hafi haldist í hendur við að vel tækist til með ráðn­inguna og að stefnandi myndi starfa áfram hjá fyrir­tæk­inu. Af því hafi hins vegar ekki orðið af fyrr­greind­um ástæðum. Arnar kann­aðist hins vegar ekki við það fyrir dómi hvort stefnandi hefði skráð sig í nám í dagskóla haustið 2014 en tók fram að almennt stæði hann ekki í vegi fyrir því að starfs­menn hans færu í nám kysu þeir að afla sér menntunar í stað þess að vera áfram við störf hjá fyrir­­tækinu. Það gengi hins vegar ekki upp að vera í hlutastarfi hjá fyrir­tækinu samhliða námi.

Stefn­andi bar um það fyrir dómi að hann hafi í byrjun jan­úar 2015 ráðið sig til starfa hjá Land­­­­­­­­­helgisgæslu Íslands sem háseti í af­leys­ing­­um á varð­­­skipum. Það starf hafi hentað honum betur vegna skertrar starfsgetu. Samkvæmt stað­greiðslu­­­­­yfirliti frá Ríkis­skattstjóra verður ráðið að stefnandi hafi þegið laun vegna fyrr­­­greinds af­leysinga­­starfs á tímabilinu frá janúar til júlí 2015 og vegna nóv­ember sama ár. Sam­kvæmt yfirlitinu var stefnandi ekki í annarri launaðri vinnu á því ári. Þá verður ráðið af yfirlitinu að um hafi verið að ræða afleysingu af sama toga vegna febrúar 2016. Þessu til viðbótar verður ráðið af framburði stefnanda fyrir dómi að hann hafi sam­hliða fyrr­greind­­um afleysingum á árinu 2015 tekið aftur upp þráðinn, þar sem frá var horfið, við að leggja stund á einkaflugmannsnám sem hann hafi áður verið byrjaður í með hléum. Flug hafi verið áhugamál hans. Þá hafi hann í janúar 2016 byrjað í atvinnu­­­­­­­­­flug­manns­­námi og um svipað leyti lokið því sem eftir var af einka­flug­manns­­nám­inu. Í stað­greiðslu­yfirliti Ríkis­skatt­stjóra kemur fram að stefn­andi hafi tímabilið frá júní til ágúst 2016 fengið greidd laun að nýju frá Oliner System Iceland ehf. en stefn­andi bar um fyrir dómi að þau laun hefðu verið vegna sumarstarfs hjá fyrir­tækinu á milli anna í námi. Hið sama kom fram í framburði vitnis­ins Arnars fyrir dómi. Þá eru engin laun skráð á stefn­­­anda sam­kvæmt stað­greiðslu­­­yfirliti Ríkis­­skatt­stjóra, dagsettu 29. mars 2017, vegna ársins 2017 fram að fyrr­greindri dag­setn­­ingu. Af framburði stefn­­­­­anda fyrir dómi verður ráðið að hann hafi að einhverju leyti lokið fyrr­greindu atvinnu­­­­­­­flug­manns­námi og þá kom fram hjá honum að hann hafi frá 13. mars 2017 verið fast­ráð­inn í starf aðstoðarmanns flug­virkja hjá flug­deild Land­helgis­gæslu Íslands og það væri vinnan hans í dag.  

Að öllu framangreindu virtu þá liggur fyrir að stefnandi var í hlutastörfum sam­hliða námi að minnsta kosti fram undir mitt ár 2013 og allt fram til áramóta 2013/2014 ef tekið er tillit til þess að hann var skráður í fjarnám í tveimur áföngum í framhalds­skóla á haustönn 2013 á meðan hann bjó og starfaði á Austurlandi. Á tíma­­­­bili frá jan­úar 2014 til og með mars sama ár var stefnandi hvorki í námi í framhaldsskóla né heldur á vinnu­markaði. Undir lok aprílmán­aðar 2014 og fram til þess tíma sem hann slasaðist, 8. ágúst sama ár, var stefnandi á vinnu­mark­aði á grundvelli tímabundins ráðn­ingarsamnings við Oliner System Iceland ehf. en laun hans voru undir við­mið­unar­­­­launum samkvæmt fyrrgreind­um samningi. Þá verður jafnframt ráðið af fram­burði Arnars að stefnandi hafi enn verið í starfs­þjálfun þegar hann slasaðist og það hefði fyrst um haustið komið til greina að hann fengi stöðu verkstjóra hjá fyrirtækinu hefði hann ekki slasast og for­sendur ekki breyst eins og áður greinir. Hið sama á við um hugsanlega aðkomu stefnanda síðar sem hluthafi í fyrirtækinu. Mjög stuttu eftir slysið var stefn­andi hins vegar skráður í talsvert mikið fram­halds­skólanám í dagskóla á haustönn 2014 við Fjölbrautaskólanum í Ármúla, nánar tiltekið í sama skóla og hann hafði áður verið skráður í fjarnám árið á undan, sam­­hliða því að hann var með stöðu starfsmanns hjá Oliner System Iceland ehf., að því er virðist með skertu starfs­hlut­falli og/eða með því að njóta veik­indaréttar samkvæmt kjara­samningi með takmörkuðum launa­greiðslum til og með nóv­ember 2014. Að mati dóms­ins var starf stefnanda hjá fyrr­greindu fyrir­tæki í raun ekki komið í þá mynd sem að var stefnt þegar hann slas­aðist og hann skráði sig í framhaldsskólanám. Þá var ekki fullt sam­ræmi í framburði stefnanda og vitnisins Arnars um hvort stefn­andi hefði í raun verið við störf hjá fyrir­tæk­inu eftir að hann slasaðist eða hvort hann hefði notið greiðslna á grundvelli veik­indaréttar og á meðan hann var skráður í fyrrgreint nám. Framburður þeirra beggja um þetta var óskýr. Í matsgerð er vikið að þessu tímabili og tekið fram að ekki liggi fyrir ná­kvæmar upplýsingar um óvinnufærni eftir slysið og tímabundið atvinnutjón hafi því verið metið að álit­um. Að mati dómsins er allt mjög óljóst um þetta tímabil og ber stefn­andi hallann af því. Hið sama á við um árið 2015 en þá var stefn­andi ekki með fulla að­komu að vinnu­markaði en gegndi hins vegar tíma­bundnu starfi hluta ársins við afleys­ingar á varð­­skipum Land­helgis­gæslu Íslands sam­hliða því að hann lagði stund á einka­flug­manns­­nám. Alkunna er að slíkt nám helst í hendur við atvinnu­­­­­­­flug­manns­nám en stefnandi hóf hið síðar­nefnda nám í janúar 2016 og lýkur því almennt með starfs­­­rétt­indum af ýmsum toga, sbr. meðal annars I. og II. kafla reglu­gerðar nr. 400/2008 um skírteini útgefin af Flug­­mála­stjórn Íslands með áorðnum breyt­ingum. Þá verður ráðið að flug­námið hafi þýð­ingu fyrir núverandi fast starf stefnanda hjá flugdeild Land­­­­­­helgis­­­gæslu Íslands.

Með vísan til þess sem áður er rakið var stefnandi því í raun aðeins búinn að vera stuttan tíma í starfi hjá Oliner System Iceland ehf., sem ekki var að fullu komið í þá mynd sem að var stefnt. Þá virðist hann á árinu 2014, strax eftir slysið, hafa horfið frá áformum sínum um að starfa áfram hjá fyrirtækinu og tekið upp fyrra nám, og síðan í fram­­hald­inu haldið áfram í flugnámi sem hann var byrjaður í áður og farið lengra með það nám á hærra stig og með því að einhverju leyti lagt grunn að nú­verandi starfs­vett­vangi. Heild­stætt litið er það því mat dóms­ins að stefn­andi hafi fyrst og fremst haft stöðu náms­manns á því tímabili sem hér um ræðir en samhliða námi hafi hann sinnt vinnu að hluta. Að því virtu er ósannað að stefn­­­­­andi hafi á árinu 2014 ætlað sér að starfa við verka­­manna­störf til frambúðar. Verður því ekki fallist á með stefn­anda að við út­reikn­ing bóta fyrir varan­lega örorku hans sé unnt að leggja til grund­vallar meðal­­­­­tekjur verka­­­­fólks hér á landi á árinu 2014 samkvæmt launa­­­töflum Hag­­­­stofu Íslands, sbr. aðal­kröfu hans.

Að því er varðar varakröfu stefnanda þá er það mat dómsins, eins og lagt hefur verið til grundvallar varðandi aðalkröfu, að ósannað sé að stefnandi hafi ætlað sér að starfa hjá Oliner System Iceland ehf. til frambúðar en hann hafi fyrst og fremst haft stöðu námsmanns á því tímabili sem um ræðir. Þá er um að ræða vinnutekjur í afar skamman tíma í tímabundnu starfi hjá fyrrgreindu fyrirtæki, auk þess sem þær við­miðunartekjur sem stefnandi leggur til grundvallar eru mun hærri en þær tekjur sem hann í raun aflaði sér í starfi hjá fyrirtækinu, þar með talið fyrir slysið. Að því virtu verður ekki fallist á með stefn­anda að þau viðmið séu raunhæf og sanngjörn til að gefa nægjanlega góða vís­bend­ingu um framtíðartekjur stefnanda.

Að öllu framangreindu virtu verður fallist á með stefnda að rétt hafi verið við út­reikn­ing á bótum til stefnanda fyrir varanlega örorku að miða við lágmarkslaun sam­kvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993. Stefnandi á því ekki lögvarinn rétt á frekari greiðslum úr hendi stefnda og verður hann sýknaður af aðal­- og vara­kröfu stefn­anda.

Að teknu tilliti til atvika máls og aðstæðna aðila, og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri máls­ins.

Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Guðbjörg Benjamínsdóttir lögmaður. Af hálfu stefnda flutti málið Ágúst Bragi Björnsson lögmaður í umboði Einars Baldvins Axels­sonar lögmanns.

Daði Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

       Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af öllum kröfum stefnanda, [...].

       Málskostnaður fellur niður.

 

 

                                                                        Daði Kristjánsson