• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Upptaka
  • Vörslur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2018  í máli nr. S-67/2018:

Ákæruvaldið

(Sigurður Pétur Ólafsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Kristleifi Tr Guðbjörnssyni

(Erlendur Þór Gunnarsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 7. febrúar sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 17. október 2017, á hendur Kristleifi Tr. Guðbjörnssyni, kt. 000000-0000, Grýtubakka 10, Reykjavík og Birgi Erni Karlssyni, kt. 000000-0000, Marteinslaug 16, Reykjavík fyrir fíkniefnabrot í Garðabæ á árinu 2017:

I.

Gegn ákærða Kristleifi með því að hafa þriðjudaginn 21. mars, í sölu- og dreifingarskyni, haft í vörslum sínum 1.973,20 g af kannabisplöntum, og 54 kannabisplöntur, sem ákærði hafði ræktað um nokkurt skeið til þess dags, er lögregla fann við leit í iðnaðarbili nr. 106 að Lyngási 10 og lagði hald á.

 

II.

Gegn ákærða Birgi Erni fyrir hlutdeild í broti ákærða Kristleifs, eins og greinir í I. ákærulið, með því að hafa á sama stað og tíma aðstoðað Kristleif við ræktunina og hjálpað honum við að færa kannabisplöntur á milli blómapotta.

 

Teljast brot ákærðu varða við 2. gr., sbr. 4., 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002, auk þess sem brot Birgis Ernis telst varða við 5. mgr. 5. gr. nefndra laga nr. 65/1974 og 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

            Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og að framangreind fíkniefni, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 23/2001.

 

 

 

       Mál meðákærða Birgis Arnar Karlssonar var skilið frá máli ákærða í þinghaldi 7. febrúar sl. og verður það dæmt sérstaklega.

       Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

 

       Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

       Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

       Ákærði er fæddur í október 1980. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess sem og greiðrar játningar ákærða á rannsóknarstigi og fyrir dómi. Á hinn bóginn verður einnig að líta til eðlis og umfangs brotsins við ákvörðun refsingar. Ákærði er nú sakfelldur fyrir vörslur á umtalsverðu magni kannabisplantna, ætluðu til sölu- og dreifingar. Brotið var vel skipulagt og kom ákærði Kristleifur sér upp sérútbúnu húsnæði fyrir ræktunina og þurfti að leggja vinnu við ræktun plantnanna.

       Með hliðsjón af framangreindu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Að öllu virtu þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsingu hans.

       Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru gerð upptæk til ríkissjóðs 1.973,20 g af kannabisplöntum og 54 kannabisplöntur, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

       Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Erlendar Þórs Gunnarssonar lögmanns, 147.560 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

       Engan annan sakarkostnað leiddi af rekstri málsins.

       Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Einar Laxness aðstoðarsaksóknari.

       Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

                                                D Ó M S O R Ð:       

       Ákærði, Kristleifur Tr. Guðbjörnsson , sæti fangelsi í sex mánuði.

       Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 1.973,20 g af kannabisplöntum og 54 kannabisplöntur.

       Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Erlendar Þórs Gunnarssonar lögmanns, 147.560 krónur.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir