• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fjársvik
  • Fangelsi
  • Skilorðsbundnir dómar
  • Svipting ökuréttar
  • Skaðabætur
  • Umferðarlagabrot
  • Útivist
  • Þjófnaður
  • Ökuréttarsvipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2018 í máli nr. S-312/2018:

Ákæruvaldið

(Kristmundur Stefán Einarsson saksóknarfulltrúi)

gegn

Ingibergi F. Gunnlaugssyni

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var 27. júní sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 29. maí 2018, á hendur Ingibergi F. Gunnlaugssyni, kt. 000000-0000, Klapparstíg 37, Reykjavík, fyrir eftirtalin hegningar- og umferðarlagabrot:

I.

Umferðarlagabrot með því að hafa, miðvikudaginn 5. júlí 2017, ekið bifreiðinni [---] óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist 55 ng/ml af amfetamíni, 120 ng/ml af MDMA og 0,5 ng/ml af tetrahýdrókannbínóli, einnig mældist amfetamín, MDMA og tetrahýdró-kannabínólsýra í þvagi) og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa deyfandi efna (í blóði mældist 10 ng/ml af klónazepam, 80 ng/ml af o-desmetýltramadól og 1100 ng/ml af tramadól) um Stararima í Reykjavík, við hús nr. 37, uns lögregla hafði afskipti af ákærða.

 

Teljast brot þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 44. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., allt sbr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

 

II.

1. Þjófnað með því að hafa, sunnudaginn 4. september 2017, stolið farsíma af gerðinni Huawei P9 að áætluðu verðmæti 69.990 kr. og veski sem innihélt greiðslukort og ökuskírteini úr jakka, á ólæstri starfsmannaaðstöðu, á veitingastaðnum Noodle station að Laugavegi 103 í Reykjavík.

 

Telst brot þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

2. Fjársvik með því að hafa, að kvöldi sunnudagsins 4. september 2017, í kjölfar þjófnaðar sem greinir í lið II-1, greitt fjórum sinnum fyrir vörur með stolnu greiðslukorti, samtals að fjárhæð 12.580 kr., í fyrsta skipti kl. 22:11 á veitingastaðnum Chuk Norris að fjárhæð 2.090 kr., í annað skipti einnig kl. 22:11 á veitingastaðnum Chuk Norris að fjárhæð 2.090 kr., í þriðja skipti kl. 22:23 að fjárhæð 4.000 kr. á veitingastaðnum Boston og í fjórða skiptið kl. 22:25 að fjárhæð 4.400 kr. á veitingastaðnum Boston.

 

Teljast brot þessi varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

III.

 

Þjófnaði, með því að hafa:

 

1. Mánudaginn 20. nóvember stolið úr verslun Elko, að Skógarlind 2 í Kópavogi, Garmin vivosmart snjallúri að verðmæti kr. 15.995, Philips hljómtækjum að verðmæti kr. 33.495, Marshall kilburn hátalara að verðmæti kr. 33.995 og Marshall monitor heyrnartólum að verðmæti kr. 24.995, samtals að verðmæti 108.480 kr.

 

2. Miðvikudaginn 22. nóvember 2017 stolið, úr verslun ÁTVR í Skeifunni 5 í Reykjavík, tveimur flöskum af Jameson, samtals að verðmæti kr. 9.198.

 

3. Föstudaginn 24. nóvember 2017 stolið, úr verslun ÁTVR í Skeifunni 5 í Reykjavík, tveimur flöskum af Chivas Regal 12 ára, samtals að verðmæti 10.798 kr.

 

4. Mánudaginn 27. nóvember 2017 stolið, úr verslun ÁTVR í Skeifunni 5 í Reykjavík, flösku af Ballantine‘s 12 ára að verðmæti 4.999 kr.

 

5. Laugardaginn 29. desember 2017 stolið, úr verslun ÁTVR í Stekkjarbakka 6 í Reykjavík, flösku af Smirnoff að verðmæti 3.990 kr.

 

6. Föstudaginn 5. janúar 2018 stolið, úr verslun Hagkaups í Skeifunni 15 í Reykjavík, Melissa rakvél og JBL heyrnartólum, samtals að verðmæti 8.990 kr.

 

Teljast brot þessi varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Þess er einnig krafist að ákærði verði dæmdur til sviptingar ökuréttar, skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.

 

Einkaréttarkröfur:

 

Þá gerir Erla Skúladóttir hdl., fyrir hönd ÁTVR, kt. 000000-0000, vegna ákæruliðar II-2, kröfu um að ákærði verði dæmdur til að greiða kröfuhafa skaðabætur að fjárhæð 9.198 kr. auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð, frá 22. nóvember 2017 til 1. janúar 2018. Eftir það er krafist dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. laganna til greiðsludags. Vegna ákæruliðar II-3 er gerð krafa um að ákærði verði dæmdur til að greiða kröfuhafa skaðabætur að fjárhæð 10.798 kr. auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð, frá 24. nóvember 2017 til 1. janúar 2018. Eftir það er krafist dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. laganna til greiðsludags. Vegna ákæruliðar II-4 er gerð krafa um að ákærði verði dæmdur til að greiða kröfuhafa skaðabætur að fjárhæð 4.999 kr. auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð, frá 27. nóvember 2017 til 1. janúar 2018. Eftir það er krafist dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. laganna til greiðsludags. Vegna ákæruliðar II-5 er gerð krafa um að ákærði verði dæmdur til að greiða kröfuhafa skaðabætur að fjárhæð 3.990 kr. auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð, frá 29. desember 2017 til 9. febrúar 2018. Eftir það er krafist dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. laganna til greiðsludags. Að auki er krafist lögmannskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi vegna alls ofangreinds.

 

Þá gerir [A], kt. 000000-0000, kröfu um bætur á hendur ákærða að upphæð 32.900 kr. auk vaxta, samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá tjónsdegi 3. september 2017 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

 

Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins og hafði ekki boðað forföll en hafði verið birt ákæra og fyrirkall. Verður málið dæmt samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála enda var þess getið í fyrirkallinu að þannig gæti farið um meðferð málsins.

Með vísan til framanritaðs og til rannsóknargagna málsins telst framangreind háttsemi sönnuð og er hún rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

Ákærði er fæddur í október 1953. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 24. maí 2018, hefur hann ekki áður gerst sekur um refsivert brot.

Með hliðsjón af sakarefni þessa máls þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa að haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru er ákærði sviptur ökurétti í fjóra mánuði frá birtingu dóms þessa að telja.

Skaðabótakröfur eru nægjanlega rökstuddar og verða teknar til greina, ásamt vöxtum sem í dómsorði greinir. Bótakrefjendur hafa ekki sótt þing og verða því ekki dæmdur málskostnaður úr hendi ákærðu.

Ákærði greiði 252.508 krónur í sakarkostnað.

Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

 

                                                   D Ó M S O R Ð:       

Ákærði, Ingibergur F. Gunnlaugsson, sæti fangelsi í 60 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði er sviptur ökurétti í fjóra mánuði frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins 28.985 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. desember 2017 til 13. júlí 2018 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði [A] 32.900 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. september 2017 til 13. júlí 2018 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.  

Ákærði greiði 252.508 krónur í sakarkostnað.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir