• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Miskabætur
  • Refsiákvörðun

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júlí 2018 í máli nr. S-44/2018:

Ákæruvaldið

(Dagmar Ösp Vésteinsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Kolbrúnu Gígju Björnsdóttur

(Jóhannes Rúnar Jóhannsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 5. júní 2018, var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dags. 23. janúar 2018, á hendur:

 

„Kolbrúnu Gígju Björnsdóttur, kt. 000000-0000,

[...], Reykjavík,

 

fyrir stórfellda líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins [...] 2015, inni á skemmtistaðnum [...] við [...] í Reykjavík, ráðist á A með því að rífa í hár hennar og draga hana þannig niður í gólfið þar sem ákærða veittist m.a. að henni með því að slá og sparka í höfuð hennar og háls allt með þeim afleiðingum að hún missti meðvitund og hlaut mar á vinstra heilahveli, brot á málbeini, einkenni heilahristings, dreifða yfirborðsáverka í andliti og hrufl á hné.

 

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A, er þess krafist að ákærðu verði gert að greiða miska- og þjáningabætur samtals að fjárhæð kr. 681.900, auk lögmannsþóknunar að fjárhæð kr. 250.000 með virðisaukaskatti, auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 28. mars 2015 til þess dags er mánuður verður liðinn frá birtingu bótakröfunnar, en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá því tímamarki til greiðsludags.

 

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

            Verjandi ákærðu krefst sýknu en til vara vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst hann hæfilegrar þóknunar sér til handa.

 

 

 

I.

Málsatvik

            Aðfaranótt [...] 2015, kl. 2:10, leitaði brotaþoli ásjár hjá lögreglumönnum sem voru í Austurstræti en hún sat á bekk á móts við skemmtistaðinn [...]. Kvaðst hún hafa verið lamin á skemmtistaðnum. Segir í skýrslu lögreglu að brotaþoli hafi verið með áverka í andliti, tvo skurði sem blæddi úr og stóra kúlu á enninu. Kvartaði hún undan höfuðverk. Aðspurð kvaðst hún lítið muna eftir atvikum en hún og vinur hennar hefðu verið stödd í reykherbergi skemmtistaðarins. Dökkhærð stelpa hafi komið og lamið hana en við það hafi brotaþoli fallið í gólfið og fengið höfuðhögg. Kvaðst brotaþoli ekki geta lýst árásaraðilanum. Rætt var við þrjú vitni á staðnum en tvö þeirra könnuðust við gerandann.

            Brotaþoli var flutt með sjúkrabíl á slysadeild. Í fyrirliggjandi læknisvottorði B er haft eftir brotaþola að kona hefði ráðist á hana, slegið hana og sparkað í hana með þeim afleiðingum að hún missti meðvitund. Hún hafi kvartað undan ógleði og höfuðverk. Í vottorðinu segir að brotaþoli hafi verið undir áhrifum áfengis en þó skýr. Við skoðun kom í ljós margúll á enni og bólga og eymsli yfir nefrót, bólga og eymsli yfir vinstra kinnbeini og skeina á hægra hné. Brotaþoli var útskrifuð með ráðleggingar um verkjalyf. Hún var kölluð aftur inn samdægurs þar sem endurúrlestur á tölvusneiðmyndum leiddi í ljós heilamar á yfirborði vinstra heilahvels framanverðs. Var haft eftir brotaþola að hún hefði kastað talsvert upp, verið með höfuðverk, dofa vinstra megin í andliti og eymsli vinstra megin á hálsi. Gerðar voru ítarlegri rannsóknir á brotaþola sem sýndu áfram heilamar, heldur minna áberandi en við fyrri rannsókn, og einnig þverbrot í málbeininu. Ekki þótti ástæða til frekara inngrips og fékk brotaþoli ráðleggingar um hvíld og verkjalyf eftir þörfum. Var brotaþoli greind með mar á vinstra heilahveli, brot á málbeini, einkenni heilahristings og með dreifða yfirborðsáverka á andliti og hrufl á hné.

 

            Brotaþoli lagði fram kæru vegna árásarinnar 31. mars 2015 og lýsti aðdraganda hennar. Nafngreindi hún árásaraðilann sem hefði komið aftan að henni, rifið í hár hennar og keyrt hana niður í jörðina. Hún hafi fundið fyrir höggum í höfuð og háls og sennilega „dottið út“.

Á meðal gagna málsins er læknisvottorð C, læknanema á heilbrigðisstofnun Suðurnesja, vegna komu brotaþola á slysadeild [...] 2015 og vegna skoðunar á heilsugæslu [...] 2017. Í þeirri skoðun er rakin frásögn brotaþola um fylgikvilla árásarinnar. Þar kemur fram að hún hafi fengið áfallahjálp. Þá kom fram hjá brotaþola að skammtímaminni hennar hefði farið úr skorðum. Verkir hefðu ágerst og þyrfti hún á verkjalyfjum að halda. Fram kemur að ummerki séu um bólgu ofarlega í hálsi og herðum. Var brotaþoli greind með króníska vöðvabólgu og skerðingu á langtímaminni en í vottorðinu segir að þetta séu taldir helstu þættir líkamsárásarinnar sem brotaþoli tengi við líðan sína á þessum tíma. Batahorfur væru óljósar en brotaþoli hefði nýlega byrjað að sækja sjúkraþjálfun sem gengi vel.

            Þá liggur fyrir staðfesting D, sálfræðings hjá Landspítala-háskólasjúkrahúsi, á því að brotaþoli hafi fengið tvö áfallahjálparviðtöl, annars vegar [...] 2015 og hins vegar [...]2015, vegna atviksins [...] 2015.

 

            Í þinghaldi þann 16. mars 2018 óskaði lögmaður brotaþola eftir því að hann yrði skipaður réttargæslumaður hennar. Þeirri beiðni var hafnað með úrskurði réttarins 6. apríl 2018. Með úrskurði Landsréttar 11. apríl 2018 var sú ákvörðun staðfest.

 

II.

Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærðu, brotaþola og annarra vitna við aðalmeðferð málsins, að því marki sem nauðsynlegt þykir til úrlausnar þess.

            Ákærða kvaðst ekki hafa verið á skemmtistaðnum [...] þegar árásin átti sér stað. Hafi hún verið heima hjá sér með kærasta sínum en hugsanlega hafi hún verið þar á föstudeginum. Þegar henni var kynnt að meint brot hefði átt sér stað aðfaranótt laugardags kvaðst hún hafa verið á staðnum á fimmtudagskvöldið, a.m.k. ekki sama kvöld og árásin var heldur kvöldið áður. Hefði hún sagt lögreglu það þó að það kæmi ekki fram í lögregluskýrslu. Þá kannaðist ákærða ekki við að hafa sagt við lögreglu að hún hefði verið heima eða að vinna á [...], eins og fram komi í skýrslunni, og að hún hefði ekki djammað á þessum tíma af persónulegum ástæðum. Þegar borinn var undir ákærðu framburður hennar úr lögregluskýrslu tók hún fram að langt væri liðið frá því að skýrsla lögreglu var tekin og kynni það að hafa áhrif á minnið. Ákærða kvaðst hafa starfað sem vaktstjóri á [...] og [...] á þeim tíma sem um ræðir, með einu hléi þó, og starfa þar enn. Þekkti hún því E, vitni í málinu. Hún kvaðst ekki þekkja brotaþola.

            Brotaþoli kvaðst muna lítið eftir atvikinu í dag og verr en þegar hún gaf lögregluskýrsluna. Þá kvaðst hún ekki muna hver aðdragandi hefði verið að árásinni. Hún myndi eftir því að einhver hefði komið aftan að henni, rifið hana niður og hún fundið fyrir höggum í höfuðið. Kvaðst hún hafa verið á leið út af staðnum með F og fleirum þegar ráðist hefði verið á hana. Brotaþoli kvaðst ekki muna eftir uppákomu inni á staðnum áður en árásin varð en fannst þó eins og hún hefði setið við borð og að einhver hefði rekið þau út. Þá minnti brotaþola að F eða samferðarmenn hennar hefðu nafngreint ákærðu sem árásaraðilann. Brotaþoli lýsti áverkum sínum, afleiðingum árásarinnar og ástandi sínu í dag. Kvaðst hún sérstaklega finna fyrir því að skammtímaminni hennar hefði versnað. Aðspurð kvaðst hún hafa drukkið áfengi þetta kvöld en þó ekki hafa verið mjög ölvuð.

            G kvaðst ekki muna atvik vel í dag. Hann kvaðst aðeins hafa drukkið 1–2 bjóra þetta kvöld. Hefði hann verið staddur á reyksvæði skemmtistaðarins og séð brotaþola og aðra konu rífast en ekki séð meira en það. Þá hafi hann séð skeggjaðan mann eiga í átökum við aðra konu sem þarna var. Vitnið var spurður um það hvaða konu brotaþoli hefði rifist við og kvaðst hann hafa heyrt að það væri ákærða Kolbrún. Þegar lögregla hringdi í hann vegna málsins hefði honum verið sagt að það væri vegna máls ákærðu. Þá hefðu F og vinir hans sem hefðu verið með honum spurt hann hvort hann vissi hver þetta væri og hefði hann því farið að grennslast fyrir um það. Hafi hann kannað hvaða Kolbrúnu væri verið að tala um og reyndist það vera sú sem starfaði á [...] en honum hafi verið sýnd mynd af henni. Hefði hann þekkt hana sem konuna sem hann hefði séð rífast við brotaþola. Kvaðst hann ekki muna hvenær hann sagði F þetta. Vitnið kvaðst ekki þekkja ákærðu neitt fyrir og lýsti henni sem dökkhærðri og um 172–173 cm á hæð. Borinn var undir vitnið framburður hans hjá lögreglu um að hann hefði séð ákærðu ráðast á brotaþola. Kvaðst hann ráma í þetta í dag og líka að kærasti ákærðu hefði ráðist á aðra stelpu sem þarna var. Hafi ákærða verið sú eina sem kom til greina sem gerandinn. Einnig kvaðst vitnið muna eftir öðrum átökum við inngang skemmtistaðarins en þau hafi verið milli annarra aðila og tengst því sem gerðist á reyksvæðinu. Aðspurður kvaðst vitnið ekki muna eftir að hafa rætt við lögreglu á vettvangi en hann hefði nefnt ákærðu og kærasta hennar á nafn. Nánar spurður kvaðst hann aðeins hafa talað um ákærðu sem „dökkhærðu stelpuna“ og hefði bara vitað að hún héti Kolbrún en ekki vitað fullt nafn hennar fyrr en síðar. Hann hefði ekki sagt neitt við lögreglu á vettvangi varðandi árásina því hann hefði ekki séð neitt.

            F kvaðst hafa verið með brotaþola umrætt sinn en myndi ekki eftir öðrum. Hún væri [...]. Hann kvaðst hafa verið að koma af reyksvæði sem væri baka til á skemmtistaðnum og gengið fram. Einhver orðaskipti hefðu orðið á milli ákærðu og brotaþola og hefði ákærða rifið í hárið á brotaþola og tekið hana niður í gólfið. Dyraverðir hefðu komið og haldið honum en ákærða hefði sparkað í höfuðið á brotaþola oftar en einu sinni. Hann kvaðst þó ekki muna eftir að hafa séð áverka. Vitnið kvað ákærðu hafa verið að verki. Hann þekkti hana ekkert og kvaðst ekki muna í dag hvernig hann hefði fengið vitneskju um nafn hennar. Aðspurður kvaðst vitnið ekki muna eftir neinni uppákomu inni á staðnum en karlmaður sem hann vissi ekki hver var hefði kýlt hann fyrir utan staðinn. Aðspurður kvaðst vitnið hafa verið mjög ölvaður en engu að síður myndi hann eftir árásinni. Vitnið mundi ekki eftir því að formleg lögregluskýrsla hefði verið tekin af honum. Kvaðst hann þó mun eftir að hafa rætt við lögreglumann á vettvangi og taldi sig hafa greint honum frá árásinni á brotaþola þó þess væri ekki getið í frumskýrslu.

            H kvaðst ekki muna atvik vel en hann hefði verið töluvert drukkinn. Hann hafi verið með F og brotaþola og hafi komið til átaka við innganginn. Hann hafi séð stelpur í slagsmálum sem hann hefði reynt að stoppa með því að ganga á milli. Hefði brotaþoli verið önnur þeirra. Nánar spurður kvað hann hina stelpuna, árásaraðilann, hafa togað í hárið á brotaþola, eiginlega verið að ná henni niður. Sú hafi verið dökkhærð. Kvaðst vitnið hafa séð brotaþola detta, að því er hann minnti fram fyrir sig. Hann hafi ekki séð nein högg eða spörk. Þarna hafi verið einhver hópur í kring sem hefði verið með gerandanum. Nánar spurður minnti vitnið að hann hefði reynt að skakka leikinn. Hafi árásaraðilinn þá verið að toga í hár brotaþola og hún enn verið standandi en síðan hafi þetta haldið eitthvað áfram eftir það. Hann minnti ekki að neinn annar sem þarna var hefði veist að brotaþola. Vitnið kvaðst síðan muna eftir brotaþola fyrir utan á bekk en myndi ekki eftir að hafa séð áverka. Hann kvað vinahóp sinn ekki hafa þekkt árásaraðilann. Hafi það ekki verið rætt sérstaklega á eftir. Aðspurður kvaðst vitnið muna eftir einhverju veseni innan þeirra hóps á reykingasvæðinu fyrir árásina, einhverju rifrildi um sæti sem árásaraðilinn og samferðafólk hennar hefði farið að skipta sér af. Hann kvaðst ekki muna hvort átökin við innganginn hefðu verið í kjölfar þessarar uppákomu.

            E dyravörður kvaðst ekki muna eftir atvikum í dag og treysti sér ekki til þess að tjá sig um það sem gerðist. Borinn var undir hann framburður hans í frumskýrslu lögreglu og í símaskýrslu síðar, þar sem hann kvaðst hafa séð ákærðu og I, unnusta hennar, yfirgefa staðinn. Vitnið kvaðst ekki telja að hann hefði í raun sagt frá því sem hann hefði séð sjálfur heldur einhverju sem hann hefði heyrt. Þá væri hann ekki íslenskur og kynni að hafa misskilið eitthvað. Hann hefði viðhaft hefðbundið verklag sem væri notað í aðstæðum sem þessum. Vitnið kvaðst vera samstarfsmaður ákærðu en hann hefði starfað á skemmtistaðnum í sjö ár.

            I, [...], kvaðst hafa verið heima það kvöld sem atvik áttu sér stað en verið að skemmta sér kvöldið áður. Kvað hann ákærðu hafa verið hjá honum og því væri ekki rétt að til þeirra hefði sést á skemmtistaðnum aðfaranótt laugardagsins. Borinn var undir ákærða framburður hans hjá lögreglu þar sem hann kvaðst ekki hafa hugmynd um hvort ákærða hefði verið á [...] þegar árásin átti sér stað. Svaraði vitnið því til að ákærða hefði verið með honum um kvöldið og í rúmi hans næsta morgun þegar hann vaknaði. Hann kannaðist við að hafa verið í neyslu á umræddum tíma.

            J lögreglumaður kom á vettvang og ritaði síðar frumskýrslu málsins. Reifaði hún helstu atriði hennar. Kvaðst vitnið hafa rætt við brotaþola á vettvangi en samstarfsfélagar hennar við önnur vitni. Hafi sér orðið kunnugt um að brotaþoli hefði orðið fyrir árás á skemmtistaðnum þegar þeir ræddu við vitnin. Ekki hafi komið fram hjá brotaþola að hún hefði misst meðvitund eftir árásina.

            K læknir fór yfir helstu atriði er fram koma í vottorði hans og svaraði spurningum varðandi efni þess. Kvað hann áverka brotaþola geta samræmst þeirri lýsingu sem hún gaf á árásinni. Áverkarnir hafi verið þess eðlis að ætla megi að högg hafi hæft brotaþola að framanverðu. Vitnið staðfesti að heilamar brotaþola hefði farið minnkandi og það benti til minni háttar mars og blæðingar. Brotþolar gætu engu að síður verið lengi að jafna sig og minniserfiðleikar verið eitt af hugsanlegum einkennum. Vitnið kvaðst hins vegar ekki hafa fylgt brotaþola eftir og gæti ekki staðfest slíkar afleiðingar í tilviki brotaþola.

Þá gaf C læknanemi símaskýrslu. Hann fór yfir helstu atriði er fram koma í vottorði hans og svaraði spurningum varðandi efni þess. Einnig kom fyrir dóminn L lögreglukona en ekki þykir ástæða til að rekja framburð hennar.

 

III.

Niðurstaða

            Ákærðu er gefin að sök stórfelld líkamsárás á skemmtistaðnum [...] [...] 2015. Ákærða hefur frá upphafi neitað sök og rekur ekki minni til þess að hafa verið á skemmtistaðnum umrætt sinn.

Eins og rakið hefur verið ræddi brotaþoli við lögregluna í miðbæ Reykjavíkur og lýsti líkamsárás sem hún varð fyrir af hendi óþekktrar dökkhærðrar konu. Augljósir áverkar voru á andliti hennar sem blæddi úr og var hún í kjölfarið flutt á slysadeild. Einnig var rætt við vitnin G og F, samferðamenn brotaþola. G lýsti uppákomu í reykherbergi staðarins og hefðu strákur að nafni I og stelpa að nafni Kolbrún verið með leiðindi. Hefðu brotist út slagsmál sem parið hefði átt upptökin að. Væri Kolbrún að vinna á [...] og [...]. F lýsti einnig uppákomu í reykherberginu, en par hefði komið upp að honum og úr orðið ágreiningur. Hafi maðurinn kýlt hann tvisvar sinnum. Þá var rætt við dyravörðinn E sem kvaðst ekki hafa orðið vitni að slagsmálunum en séð parið Kolbrúnu og I yfirgefa staðinn. Hafi öllu fólkinu sem átti aðild að slagsmálunum verið vísað út af staðnum. E kvaðst þekkja Kolbrúnu en hún hefði verið rekstrarstjóri [...].

Ekki verður séð af frumskýrslu málsins að gripið hafi verið til frekari ráðstafana á vettvangi, og það þó tilteknir aðilar hefðu verið nefndir á nafn. Virðist hafa verið gengið út frá því að til slagsmála hefði komið en engin lýsing vitna lá fyrir á þeim aðila sem veitti brotaþola þá áverka sem hún greinilega hlaut. Lýstu lögreglukonurnar J og L verkaskiptingu við skýrslutöku á vettvangi og verklagi en það hafi legið fyrir að fá framburð vitna um árásina á brotaþola. Nokkrum dögum eftir árásina, eða [...] 2015, lagði brotaþoli fram kæru og vísaði þá til upplýsinga sem hún hafði fengið um að árásaraðilinn héti Kolbrún og starfaði á [...].

Á tímabilinu 1.–4. desember 2015, eða rúmum níu mánuðum síðar, voru teknar skýrslur af vitnunum F, E og H. Skýrsla var tekin af unnusta ákærðu 11. desember 2015 en hann hafði þá réttarstöðu sakbornings. Þá var skýrsla tekin af ákærðu nokkrum dögum síðar, eða 15. desember 2015, og hafði hún þá einnig réttarstöðu sakbornings. Skýrsla af G var tekin 31. maí 2016. Viðbótarskýrslur voru teknar af tveimur vitnanna 9. mars 2017.

 

Eins og áður greinir neitar ákærða sök. Framburður hennar hefur ekki verið stöðugur um athafnir hennar fyrir árásardaginn eða um það hvar hún hafi verið á verknaðarstundu. Rýrir það trúverðugleika hennar. Þá virtust ákærða og I, unnusti hennar, hafa samræmt frásögn sína um það hvar þau hefðu verið á verknaðarstundu og hún tekið nokkrum breytingum frá því er þau gáfu skýrslu hjá lögreglu. Báru þau um að hafa verið bæði heima hjá sér umrætt sinn. Telur dómurinn þau bæði vera ótrúverðug hvað þetta varðar enda í ósamræmi við framburð vitnisins E hjá lögreglu, en hann bar um að hafa séð þau á [...] er hann var spurður út í slagsmálin. Skýringar E á fráhvarfi sínu frá þeim framburði nú eru ótrúverðugar og verður því ekki á honum byggt. Í þessu sambandi er litið til tengsla hans við ákærðu, sem er samstarfsmaður hans.

Dómurinn telur sannað með framburði vitnanna F, G og E hjá lögreglu að ákærða hafi verið á skemmtistaðnum ásamt I, [...], og að til átaka hafi komið á milli hennar og brotaþola. Hjá því verður ekki litið að vitnin F og G lýstu ekki árásinni á brotaþola á vettvangi. Þegar formlegar lögregluskýrslur voru teknar þó nokkru síðar lýsti F árásinni á brotaþola og var sú lýsing í helstu atriðum í samræmi við skýrslu brotaþola. Vitnið G kvaðst hafa séð ákærðu ráðast á brotaþola en gat ekki lýst þeirri atburðarás. Vitnið H mundi eftir því að árásaraðilinn hefði haldið í hár brotaþola sem hefði lent í gólfinu. Allir lýstu ákveðnu atviki í reykherberginu og að fleiri aðilar hefðu komið við sögu.

 

Hér fyrir dómi kváðust vitnin bæði muna atvik illa eða ekki hafa séð alla atburðarásina. Óljóst var hjá vitnunum þegar borinn var undir þau framburður þeirra hjá lögreglu hvort atvik í reykherbergi hefði verið aðdragandi þess er síðar gerðist. Þá var ekki ljóst hve margir voru viðstaddir. Allir hlutaðeigandi kváðust hafa verið undir áhrifum áfengis umrætt sinn og sumir verulegum. Þá var misræmi í atvikalýsingu F hér fyrir dómi og hjá lögreglu, en hann bar einnig fyrir sig minnisleysi um annað en árásina sjálfa. Að mati dómsins er framburður vitnisins á heildina litið ekki sannfærandi og er sönnunargildi framburðar hans því takmarkaðra en ella.

Fyrir liggur að brotaþoli gat ekki lýst árásaraðila nema háralit hans og byggir tilgátu sína um að ákærða hafi verið að verki á upplýsingum annars staðar frá. Brotaþoli er trúverðug svo langt sem framburður hennar nær en ákærða á hinn bóginn ekki eins trúverðug af þeim ástæðum sem áður greinir. Þá fær framburður ákærðu ekki stoð af vitnisburði I.

Framburður brotaþola um að ákærða hafi rifið í hár hennar og dregið hana niður í gólfið fær stoð af vitnisburði F og H. Á hinn bóginn fær framburður brotaþola ekki þá stoð af gögnum málsins og framburði vitna sem áskilja verður til þess að unnt sé að leggja hann til grundvallar niðurstöðu um að ákærða hafi í kjölfarið veist að brotaþola með því að slá og sparka í höfuð hennar og háls með þeim afleiðingum er í ákæru greinir. Liggur fyrir að fleirum var til að dreifa þegar brotaþoli varð fyrir árásinni. Ber ákæruvaldið hallann af sönnunarskorti í þessum efnum, og þá sérstaklega að hafa ekki fylgt rannsókninni eftir á vettvangi og síðar, með þeim hætti sem æskilegt var til að tryggja sönnun. Ber að skýra vafa um þetta atriði ákærðu í hag og verður hún því sýknuð af þessu ákæruatriði, sbr. 108. gr. og 109. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Samkvæmt framansögðu er ákærða sakfelld fyrir líkamsárás gagnvart brotaþola sem ber að heimfæra undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærða hefur ekki áður gerst sek um ofbeldisbrot. Litið er til þess að verulegur óútskýrður dráttur varð á rannsókn málsins, sem er hvorki flókið né umfangsmikið. Þykir því rétt að fresta ákvörðun refsingar og falli hún niður að tveimur árum liðnum haldi ákærða almennt skilorð samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærða hefur verið sakfelld fyrir brot sem er til þess fallið að valda brotaþola miska. Verður hún dæmd til að greiða henni miskabætur samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og reiknast vextir eins og nánar greinir í dómsorði. Þykir fjárhæð miskabóta hæfilega ákveðin 150.000 krónur. Krafa um þjáningarbætur er órökstudd og er henni vísað frá dómi. Þá ber ákærðu að greiða brotaþola 295.120 krónur í málskostnað.

            Með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal ákærða greiða allan sakarkostnað málsins. Þegar litið er til umfangs máls þykja málsvarnarlaun skipaðs verjanda hennar, Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar lögmanns, hæfileg 569.160 krónur  Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Þá ber ákærðu að greiða annan sakarkostnað málsins samkvæmt framlögðu yfirliti, sem er 40.000 krónur.

 

           

            Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                            D ó m s o r ð:

            Ákvörðun refsingar ákærðu, Kolbrúnar Gígju Björnsdóttur, er frestað og fellur niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Ákærða greiði brotaþola, A, 150.000 krónur auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 28. mars 2015 til 12. mars 2018 og 295.120 krónur í málskostnað.

Ákærða greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar lögmanns, 569.160 krónur, og 40.000 krónur í annan sakarkostnað.

 

                                                            Sigríður Hjaltested (sign.)