• Lykilorð:
  • Bifreiðir
  • Lögreglurannsókn
  • Skaðabætur
  • Sönnunarbyrði
  • Sönnunarfærsla

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2018 í máli nr. E-3897/2017:

Elín Björk Magnúsdóttir

(Halldór Hrannar Halldórsson lögmaður)

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Ásdís Kjerúlf lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 31. maí 2018, var höfðað 30. nóvember 2017 af hálfu Elínar Bjarkar Magnúsdóttur, Hraunbæ 136, Reykjavík, á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, til viðurkenningar á bótaskyldu vegna brunatjóns á bifreiðinni LH-844 þann 28. desember 2016.

Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar UT-744 vegna tjóns sem varð á bifreiðinni LH-844 í bruna þann 28. desember 2016. Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða henni málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts, í samræmi við vinnuskýrslu lögmanns, allt eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá er þess krafist að stefnandi verði dæmd til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi var eigandi bifreiðarinnar LH-844, sem er ónýt eftir eldsvoða aðfaranótt 28. desember 2016. Stefnandi kveðst hafa lagt bifreið sinni fyrir utan heimili sitt í Reykjavík og farið inn í íbúð sína að kvöldi dags 27. desember 2016. Um klukkan sex næstu nótt hafi hún fengið tilkynningu frá lögreglu um að eldur logaði í bifreiðinni. Þá hafði eldur logað í bifreiðinni UT-744, sem lagt var í bifreiðastæði gegnt bifreið stefnanda og borist yfir í bifreið stefnanda. Bifreiðin UT-744 var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækis hjá stefnda og höfðar stefnandi málið til viðurkenningar á bótaskyldu stefnda á grundvelli ábyrgðartryggingarinnar, en stefndi hafnar bótaskyldu.

Í skýrslu lögreglu á vettvangi brunanóttina segir að samkvæmt framburði eiganda bifreiðarinnar UT-744 hafi henni verið lagt í stæði um klukkan 13:15 daginn áður. Samkvæmt skýrslunni hófst verkefni lögreglu klukkan 05:57 þessa nótt þegar tilkynnt var frá fjarskiptamiðstöð að verið væri að senda slökkvilið að heimili stefnanda þar sem eldur væri í bifreið. Á vettvangi hafi lögregla rætt við tilkynnanda, sem kvaðst hafa séð út um glugga að eldur logaði framan á bifreiðinni UT-744. Hann hafi tilkynnt um eldinn sem hafi fljótlega borist yfir í bifreiðina LH-844. Þegar lögregla kom á staðinn logaði eldur í báðum bifreiðunum og segir í skýrslunni að tilkynnandinn hafi aðspurður ekki hafa sagst hafa séð neinar grunsamlegar mannaferðir við bifreiðarnar.

Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglu gáfu brunaferlar til kynna að eldsupptök væru við vinstra frambretti bifreiðarinnar UT-744, í eða við vinstra framljós hennar. Eldurinn hafi svo breiðst yfir í bifreiðina LH-844. Þar segir um eldsupptök að enginn grunur sé um íkveikju af mannavöldum. Að líkindum hafi kviknað í út frá rafmagni. Eldsupptök séu ókunn.

Stefnandi krafði stefnda 6. janúar 2017 um greiðslu bóta úr ábyrgðartryggingu UT-744 vegna brunans, en stefndi hafnaði kröfunni 9. janúar s.á. Stefnandi skaut málinu til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, sem hafnaði kröfum hennar með úrskurði 7. mars 2017. Höfnun á bótaskyldu stefnda byggir á því að tjónið á bifreið stefnanda verði ekki rakið til notkunar ökutækisins UT-744 og heyri því ekki undir lögboðna ábyrgðartryggingu þess. Stefnandi telur tjón sitt verða rakið til notkunar ökutækisins í skilningi umferðarlaga og leiði það til bótaskyldu stefnda vegna tjónsins. Um þetta snýst ágreiningur aðila málsins. Stefnandi gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggi málatilbúnað sinn á því að tjón hennar sé bótaskylt úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar UT-744 á grundvelli 88. gr., sbr. 91. gr., umferðarlaga nr. 50/1987. Óumdeilt sé að bifreið tjónvalds hafi við brunann verið tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda. Mælt sé fyrir um hlutlæga ábyrgð ábyrgðarmanns skráningarskylds ökutækis á hverju því tjóni sem hljótist af notkun þess í svohljóðandi 1. mgr. 88. gr. laganna:

 88. gr. Sá sem ábyrgð ber á skráningarskyldu vélknúnu ökutæki skal bæta það tjón sem hlýst af notkun þess enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á tækinu eða ógætni ökumanns. Ábyrgðarmaður dráttartækis er skaðabótaskyldur ef tjón hlýst af þegar skráningarskylt vélknúið ökutæki dregur annað ökutæki. 

Í ákvæðinu komi fram að allt tjón sem hljótist af notkun ökutækisins sé bótaskylt. Stefndi hafi hafnað bótaskyldu í málinu á grundvelli þess að bifreiðin hafi ekki verið í notkun þegar eldurinn hafi kviknað og því sé ekki hægt að rekja tjónið til notkunar hennar. Þessu andmæli stefnandi harðlega, og telji ljóst að fyrir liggi gögn sem sýni fram á að orsök brunans megi rekja til bilunar í rafbúnaði bifreiðarinnar UT-744, sem tengist óhjákvæmilega notkun bifreiðarinnar og hættueiginleikum hennar.

Í dómaframkvæmd Hæstaréttar við túlkun á því hvað teljist til notkunar ökutækis sé það ekki gert að skilyrði að ökutæki hafi verið í beinni notkun þegar tjón verður. Við mat á því hvort tjónið hafi orðið við notkun ökutækis, sbr. 88. gr. umferðarlaga, verði að leggja mat á það hvort orsakasamband sé milli notkunar ökutækisins og þess tjóns sem orðið hafi. Líta verði heildstætt á atburðarásina sem leitt hafi til tjónsins og ekki sé hægt að horfa fram hjá því að sú atburðarás hafi átt rót sína að rekja til bilunar sem, eðli máls samkvæmt, hafi orðið vegna eðlilegrar notkunar bifreiðarinnar samkvæmt 88. gr. umferðarlaga.

Samkvæmt viðurkenndum skýringum á notkunarhugtaki 88. gr. umferðarlaga taki hugakið til afleiðinga hættueiginleika bifreiða sem séu einkennandi fyrir þær, t.d. vegna hraða, vélarafls, þyngdar og sprengihættu. Fyrir liggi að þrátt fyrir að bifreiðin UT-744 hafi verið kyrrstæð sé ljóst að eldurinn hafi kviknað vegna vélbúnaðar sem nauðsynlegur hafi verið vegna notkunar bifreiðarinnar sem ökutækis. Þá sé einnig ljóst að í bifreiðinni hafi verið eldsneyti og olía sem einnig sé órjúfanlegur þáttur í notkun bifreiðarinnar og hafi verulega hættueiginleika í för með sér eigi rafmagnsbilun og neistaflug sér stað. Tjón stefnanda sé því beinlínis tilkomið vegna hættueiginleika sem fylgi búnaði og notkun bifreiðarinnar UT-744. Tjón hennar sé bótaskylt úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar af þeim sökum.

Fram komi í lögregluskýrslu að bifreiðinni UT-744 hafi verið lagt í stæði um klukkan 13:15 þann 27. desember 2016, en eldurinn hafi að öllum líkindum kviknað snemma aðfaranótt 28. desember s.á. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarskýrslu lögreglu á orsökum brunans hafi brunaferlar gefið til kynna að eldsupptök hafi verið við vinstra frambretti bifreiðarinnar, í eða við vinstra framljós hennar. Í skýrslunni komi einnig fram að enginn grunur hafi verið um íkveikju af mannavöldum og talið að eldurinn hafi kviknað út frá rafmagni. Því sé ljóst að bilun í vél- og rafbúnaði bifreiðarinnar sé orsök tjónsins og ennfremur sé ljóst að bifreiðin hafi verið í notkun innan við sólarhring áður en eldurinn kviknaði. Þess vegna séu yfirgnæfandi líkur á því að sú bilun sem leitt hafi til brunans hafi komið fram þegar bifreiðin var í notkun eða fljótlega í kjölfar notkunar hennar. Engar aðrar skýringar hafi fengist á eldsvoðanum en þær að eldurinn hafi kviknað út frá rafkerfi bílsins og ekki hafi verið sýnt fram á að eldurinn hafi mögulega getað kviknað af öðrum orsökum. Ekki sé hægt að horfa fram hjá því að upptök eldsins hljóti að eiga sér beina orsök í notkun bifreiðarinnar, enda liggi fyrir bein orsakatengsl milli notkunar bifreiðarinnar og upptaka eldsins.

Regla 88. gr. umferðarlaga feli í sér víðtæka hlutlæga ábyrgð, sem ætlað sé að ná utan um þá hættu sem geti myndast við notkun ökutækja, og að tryggja, sbr. 91. gr. laganna, að sá sem verði fyrir tjóni vegna notkunar ökutækja fái tjón sitt bætt úr hendi ábyrgðarmanns eða tryggingafélags hans. Í ákvæðinu sé sérstaklega tekið fram að ábyrgðarmaður skuli bæta tjón vegna notkunar bifreiðarinnar, enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla ökutækisins. Gagnálykta megi út frá ákvæðinu að það geri sérstaklega ráð fyrir því að bótaskylda ábyrgðarmanns nái til tjóns sem verði vegna bilunar ökutækisins. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarskýrslu lögreglu á orsökum brunans hafi hann orðið vegna bilunar í rafbúnaði bifreiðarinnar UT-744. Engin merki hafi verið talin vera um íkveikju. Því sé ljóst að vél- og rafbúnaður bifreiðarinnar sé orsök tjónsins og að tjón stefnanda hafi orðið vegna notkunar bifreiðarinnar UT-744 og hættueiginleika hennar. Tjónið eigi því að bætast samkvæmt 91. gr. umferðarlaga úr ábyrgðartryggingu ökutækisins hjá stefnda.

Stefnandi styðji kröfur sínar fyrst og fremst við umferðarlög nr. 50/1987, einkum 88. gr. og 91. gr., og við meginreglur skaðabótaréttar. Um aðild vísist til III. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, um varnarþing til 33. gr. laganna og um málskostnað til 129. gr. og 130. gr. sömu laga. Um virðisaukaskatt sé vísað til laga nr. 50/1988.

Málsástæður og lagarök stefnda

Krafa stefnda um sýknu byggi annars vegar á því að það sé ósannað að eldur í bifreiðinni UT-744 hafi kviknað út frá rafmagni bifreiðarinnar. Fyrir liggi skýrsla um brunarannsókn, unnin af Rut Jónsdóttur rannsóknarlögreglumanni. Í skýrslunni komi fram að brunaferlar gefi til kynna að eldsupptök hafi verið við vinstra frambretti í eða við vinstra framljós. Jafnvel þó að ekki hafi verið uppi grunur um íkveikju af mannavöldum og rannsóknarlögreglumaðurinn hafi talið líkur á því að kviknað hafi í út frá rafmagni þá hafi það verið niðurstaðan að eldsupptök væru ókunn. Þeirri niðurstöðu hafi ekki verið hnekkt af stefnanda sem beri sönnunarbyrðina fyrir því hver eldsupptökin hafi verið og þar af leiðandi hallann af sönnunarskorti þar á.

Hins vegar byggi sýknukrafan á því að eldsupptök og tjón stefnanda verði ekki rakið til notkunar bifreiðarinnar UT-744 í skilningi 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1997 og að tjónið falli utan gildissviðs lögboðinnar ábyrgðartryggingar ökutækisins hjá stefnda.

Í 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 segi m.a: „Sá sem ábyrgð ber á skráningarskyldu vélknúnu ökutæki skal bæta það tjón sem hlýst af notkun þess enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á tækinu eða ógætni ökumanns.“ Í 1. mgr. 91. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 segi að greiðsla bótakröfu vegna tjóns, sem hljótist af notkun skráningarskylds vélknúins ökutækis, skuli vera tryggð með ábyrgðartryggingu. Eigandi bifreiðarinnar UT-744 hafi ábyrgðartryggt ökutækið hjá stefnda en í skilmálum nr. 500 um lögboðnar ökutækjatryggingar segi um bótasvið: Vátryggingin nær til sérhverrar skaðabótakröfu sem vátryggingartaka er skylt að vátryggja gegn samkvæmt núgildandi íslenskum umferðarlögum, sem eigandi hins vátryggða ökutækis, vegna tjóns er hlýst af notkun þess. Um ákvörðun bóta fer eftir almennum skaðabótareglum.“

Jafnvel þótt það teldist sannað að eldsupptök mætti rekja til bilunar í rafmagnsbúnaði bifreiðarinnar UT-744 sé það niðurstaða stefnda að tjónið verði ekki rakið til notkunar í skilningi 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. einnig skilmála lögboðinnar ökutækjatryggingar stefnda. Þegar eldur hafi komið upp í bifreiðinni hafi hún sannanlega ekki verið í notkun. Bifreiðin hafi verið kyrrstæð og liðinn hafi verið tæpur sólarhringur frá því að bifreiðinni hafi verið lagt á bílastæði, drepið á henni og hún yfirgefin. Af lögskýringargögnum og dómaframkvæmd megi ráða að hin hlutlæga ábyrgðarregla 1. mgr. 88. gr. nái ekki yfir alla notkun bifreiða heldur einungis til notkunar þar sem sérstakir hættueiginleikar bifreiðar, svo sem hraði, þyngd og vélarafl, hafi leitt til tjóns. Hér sé ekki um slíkt að ræða og sé það niðurstaða stefnda að tjón stefnanda bætist ekki úr ábyrgðartryggingu ökutækisins UT-744. Málskostnaðarkrafa stefnda byggi m.a. á því að um þarflausa málshöfðun sé að ræða þar sem réttarframkvæmd í málum sem þessu sé skýr.

Um lagarök sé einkum vísað til umferðarlaga nr. 50/1987, til skilmála nr. 500 um lögboðna ábyrgðartryggingu hjá Sjóvá og til laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Vísað sé til meginreglna skaðabótaréttar og reglna um sönnun í einkamálum. Málskostnaðarkrafa byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Í máli þessu deila aðilar um það hvort brunatjón á bifreið stefnanda sé bótaskylt úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar UT-744, sem tryggð var hjá stefnda. Málsatvikum er lýst í sérstökum kafla hér að framan og vísast til þess sem þar kemur fram.

Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að ósannað sé hvernig eldurinn hafi kviknað, sönnunarbyrði fyrir því þurfi stefnandi að axla en það hafi hún ekki gert.

Um eldsupptök er fjallað í skýrslu tæknideildar lögreglu um rannsókn á brunanum. Dregur hvorugur málsaðila sannleiksgildi skýrslunnar í efa um það sem í henni greinir og hefur hún sönnunargildi svo langt sem efni hennar nær. Niðurstaða tæknideildar lögreglu var sú að enginn grunur væri um íkveikju af mannavöldum. Engu er slegið föstu í skýrslunni um eldsupptök og þau sögð ókunn. Upphafsstaður eldsins er sagður vera í vélarrými bifreiðarinnar UT-744 og að brunaferlar hafi gefið til kynna að eldsupptök hafi verið við vinstra frambretti eða við vinstra framljós. Fram kemur að líkindi séu á að kviknað hafi í út frá rafmagni. Ekki er greint frá því í skýrslunni af hverju sú ályktun er dregin eða því nánar lýst hvernig það hafi getað gerst eða hvenær. Engin vitni voru kvödd fyrir dóm til skýrslugjafar í þessu efni, hvorki lögreglumenn sem að málinu komu né sérfræðingar á sviði bifreiða- eða brunamála. Öðrum gögnum um upptök eldsins en skýrslu tæknideildar lögreglu er ekki til að dreifa í málinu.

Í öðru lagi byggir stefndi sýknukröfu sína á því að eldsupptök og tjón stefnanda verði ekki rakið til notkunar bifreiðarinnar UT-744 í skilningi 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1997 og falli því utan gildissviðs lögboðinnar ábyrgðartryggingar ökutækisins hjá stefnda.

Um hugtakið notkun í merkingu 88. gr. umferðarlaga hafa fræðimenn ritað að tjón af notkun bifreiðar falli ekki fyrirvaralaust undir hina hlutlægu ábyrgðarreglu ef það tengist ekkert því sem ætla má að séu hættueiginleikar hennar. Því eigi reglurnar ekki við um alla notkun bifreiða. Þær eigi við um notkun þar sem sérstaða bifreiðar geti að einhverju leyti komið til greina og tjónið sé í nokkuð nánu og fyrirsjáanlegu sambandi við slíka notkun. Réttarþróun á þessu sviði samhliða tækniþróun leiði til þess að dómsúrlausnir Hæstaréttar séu mikilvægasta heimildin um inntak hugtaksins notkun í skilningi 88. gr. umferðarlaga. Af dómaframkvæmd verður ráðið að fyrir kemur að tjón verði rakið til notkunar bifreiðar jafnvel þótt hún sé kyrrstæð þegar tjón verður. Stefnandi telur að líta verði heildstætt á atburðarásina sem leitt hafi til tjónsins og vísaði lögmaður hennar við málflutning m.a. til dóms Hæstaréttar í máli nr. 331/2014, sem dæmis um það að ekki skipti máli þó að nokkur tími líði frá akstri bifreiðar þar til tjón kemur fram. Í þessu sambandi verður að mati dómsins að telja það lykilatriði að sýnt sé fram á orsakatengsl tjónsins og notkunar bifreiðar eða hættueiginleika hennar.

Samkvæmt lögregluskýrslu var tilkynnt um eldinn um klukkan sex að morgni. Þá logaði samkvæmt upplýsingum tilkynnanda á vettvangi eldur framan á bifreiðinni UT-744, en eldurinn hafi fljótlega borist í bifreið stefnanda. Þegar eldurinn barst í bifreið stefnanda og hún varð fyrir tjóni var bifreiðin UT-744 mannlaus og kyrrstæð. Ekki liggur annað fyrir en að hún hafi síðast verið í notkun, henni lagt í stæði og drepið á henni, um klukkan 13:15 daginn áður, en það er í lögregluskýrslu haft eftir eiganda hennar á vettvangi brunanóttina. Aðspurð hafi hún sagt ekkert hafa verið að bifreiðinni undanfarið og að hún hefði ekki verið á verkstæði nýlega. Eigandi bifreiðarinnar UT-744 var ekki kvödd fyrir dóm til skýrslugjafar. Stefnandi bar fyrir dómi að hún hefði lagt bifreið sinni við heimili sitt að kvöldi sama dags og að hún myndi ekki hvort bifreiðin UT-744 hefði þá verið þar fyrir eða ekki.

Við úrlausn málsins verður ekki fram hjá því litið að upptök eldsins eru enn ókunn. Stefnandi telur ljóst að tjónið sé að rekja til hættueiginleika bifreiðarinnar UT-744. Ekki verður fallist á að það hafi verið upplýst með óyggjandi hætti. Hver sem orsök eldsins var hefur stefnandi ekki sýnt fram á hvernig notkun bifreiðarinnar UT-744 eða hættueiginleikar hennar standi í svo nánu eða fyrirsjáanlegu sambandi við það að eldur barst í bifreið stefnanda tæpum sextán klukkustundum eftir að bifreiðinni UT-744 var, eftir því sem næst verður komist, lagt í stæði og drepið á henni, að tjón stefnanda verði rakið til notkunar bifreiðarinnar UT-744.

Eins og málið liggur fyrir dóminum hefur stefnandi samkvæmt framansögðu ekki axlað þá sönnunarbyrði sem á bótakrefjanda hvílir til að upplýsa um orsök þess tjóns sem bóta er krafist fyrir. Hið sama á við um orsakatengsl milli tjónsins og notkunar bifreiðarinnar UT-744 sem leitt geti til bótaskyldu á grundvelli 88. gr. umferðarlaga, sbr. 91. gr. sömu laga. Verður því fallist á sýknukröfu stefnda.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður milli aðila.

Stefnandi hefur gjafsókn í málinu og greiðist gjafsóknarkostnaður hennar samkvæmt því úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Halldórs Hrannars Halldórssonar, sem ákveðin er 990.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dóminn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., er í máli þessu sýkn af kröfum stefnanda, Elínar Bjarkar Magnúsdóttur.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun Halldórs Hrannars Halldórssonar lögmanns, 990.000 krónur.

                                                                        Kristrún Kristinsdóttir