• Lykilorð:
  • Fjársvik
  • Umferðarlagabrot
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 16. október 2018 í máli nr. S-563/2018:

Ákæruvaldið

(Einar Laxness aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hólmar Einarsson lögmaður)

 

            Mál þetta sem dómtekið er í dag var höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 11. september „á hendur X, kt. [...], [...], dvst. [...], [...], fyrir eftirtalin brot framin á höfuðborgarsvæðinu á árinu, 2016,  2017 og 2018:

I.

Umferðarlagabrot framin árið 2017,  með því að hafa:

            1. Sunnudaginn 1. október, ekið bifreiðinni [...], sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (tetrahýdrókannabínól í blóði 2,0 ng/ml) norður Reykjanesbraut við Lækjargötu í Hafnarfirði, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

            2. Föstudaginn 24. nóvember, ekið bifreiðinni [...], sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (tetrahýdrókannabínól í blóði 20 ng/ml og metaamfetamín 40 ng/ml) suður Reykjanesbraut við Vífilstaðaveg í Garðabæ, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

            Telst brot þetta varða við 1. mgr. 48. gr., og 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66, 2006 og 3. gr. laga nr. 24, 2007.

II.

Fyrir auðgunarbrot:

            3. Fjársvik, með því hafa  í tvígang mánudaginn og þriðjudaginn 25. og 26. júlí 2016 blekkt starfsmann Arion banka og látið millifæra í tveimur færslum kr. 500.000, af reikningi nr. [...], á nafni A, [...], yfir á eigin reikning nr. [...] á nafni ákærða, og reikningsnúmer, [...], á nafni B, kt. [...], og þannig svikið út samtals kr. 1.000.000,-.

            Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

            4. Þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 12. júlí 2018 í versluninni  Útilíf í Smáralind, Kópavogi, stolið Nike bol og peysu, samtals að fjárhæð kr. 16.980,-.

            Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44, 1993 og 18. gr. laga nr. 66, 2006.“

            Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærði er fæddur í [...] [...]. Hann á að baki nokkurn sakaferil, einkum vegna umferðar- og fíkniefnalagabrota, og hlaut nú síðast dóm í Héraðsdómi Reykjavíkur 26. október 2017. Brot ákærða samkvæmt ákæruliðum 1. og 3. voru framin fyrir gerð framangreindrar viðurlagaákvörðunar og verður ákærða því dæmdur hegningarauki hvað þau brot varðar, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með hliðsjón framangreindu og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem og að öllu framangreindu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði.

            Ævilöng ökuréttarsvipting ákærða er áréttuð.

            Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Bjarna Hólmars Einarssonar lögmanns, 189.720 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 250.326 krónur í annan sakarkostnað.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Einar Laxness aðstoðarsaksóknari

            Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                              D Ó M S O R Ð :

            Ákærði, X, sæti fangelsi í 12 mánuði.

            Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

            Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Bjarna Hólmars Einarssonar lögmanns, 189.720 krónur, og 250.326 krónur í annan sakarkostnað.