• Lykilorð:
  • Aðild

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2018 í máli nr. E-3810/2016:

LP-Verktak ehf.

(Auður Björg Jónsdóttir hrl.)

gegn

Kristni L Brynjólfssyni

(Sjálfur ólöglærður)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 13. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af LP verktaka ehf., Kleppsvegi 48, Reykjavík á hendur Kristni Brynjólfssyni, Lágabergi 1, Reykjavík, með stefnu birtri 30. nóvember 2016.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 2.271.817 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af 1.888.735 kr. frá 23.9.2016 til 6.10.2016 og af 2.271.817 kr. frá 6.10.2016 til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Einnig er krafist málskostnaðar.

            Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og til vara lækkunar á stefnukröfum. Þá er krafist málskostnaðar í báðum tilfellum. 

            Í greinargerð stefnda var gerð krafa um frávísun málsins en fallið frá þeirri kröfu 27. febrúar 2017. Þá var gerð krafa um málskostnaðartryggingu að mati dómsins verði málinu ekki vísað frá dómi án kröfu. Stefndi féll frá þeirri kröfu 27. mars 2017.

            Við fyrirtöku málsins 20. október 2017 var ákveðið, með vísan til 1. mgr. 31. gr. laga um meðferð einkamála, að skipta sakarefninu. Þannig er málið einungis flutt um aðild.

I

            Mál þetta er tilkomið vegna tveggja reikninga fyrir vinnu stefnanda við múrviðgerðir á fasteign að Rafstöðvarvegi 1a. Annars vegar er það reikningur nr. 100300 að fjárhæð 1.888.735 kr., með gjalddaga 13. september 2016 og eindaga 23. september 2016, og hins vegar reikningur nr.100301 að fjárhæð 383.082 kr., með gjalddaga 6. október 2016 og eindaga 16. október 2016. Samtals eru þetta 2.271.817 kr. Báðir reikningarnir eru stílaðir á stefnda.

            Áður hafði stefnandi gefið út reikning nr. 100291 og er sá reikningur samhljóða reikningi nr. 100300 nema stílaður á Desform ehf. Fyrir dómi kvað stefnandi að sá reikningur hefði verið bakfærður. Stefndi kannast ekki við þá bakfærslu.

            Sama dag og stefna málsins var birt, þ.e. 30. nóvember 2016, lét stefndi, fyrir hönd Desforms ehf., birta fyrir stefnanda bréf, dags. 18. október 2016, þar sem alvarlegar athugasemdir eru gerðar við múrverk og reikninga nr. 100291, 100300 og 100301.

 

II

Stefnandi krefst þess að nefndir tveir reikningar nr. 100300 og 100301 verði greiddir og vísar til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga og til laga um þjónustukaup. Stefndi hafi hvorki sinnt innheimtuviðvörunum stefnanda né innheimtubréfi lögmanns hans og sé því mál þetta höfðað til greiðslu skuldarinnar.

            Stefndi byggir fyrst og fremst á því að stefnandi og stefndi hafi ekki átt í neinum viðskiptum og því beinist stefnan að röngum aðila. Stefnandi hafi áður gefið út reikning 100291, en greiðandi hans sé Desform ehf., kt. 000000-0000. Það félag sé sá virðisaukaskattsskildi aðili sem sjái um allar framkvæmdir við byggingarnar að Rafstöðvarvegi 1a. Reikningurinn sé nákvæmlega samhljóða reikningi 100300, sem mál þetta lúti að.

 

III

            Í skýrslu fyrirsvarsmanns stefnanda kom fram að stefndi, Kristinn Brynjólfsson, hefði hringt í hann og beðið hann að taka að sér tiltekið múrverk vegna endurbóta gömlu kartöflugeymslunnar að Rafstöðvarvegi 1A. Þegar liðið var á verkið hafi hann spurt Kristin á hvern hann ætti að stíla reikninginn. Skilja verður framburð fyrirsvarsmannsins þannig að Kristinn hafi sagt að það væri Desform ehf. Fyrsta reikninginn hafi hann því stílað á Desform ehf. Síðan hafi hann komist að því að Desform ehf. ætti ekki eignina, heldur Kristinn sjálfur. Hafi hann því bakfært reikninginn og sent reikninginn á hann sem eiganda fasteignarinnar.

            Fyrir dómi kvaðst stefndi vera eigandi byggingarinnar, en allar framkvæmdir væru á vegum Desforms ehf. Persónulega væri hann ekki virðisaukaskattsskyldur. Hann kvað alla reikninga vegna endurbótanna vera senda á Desform ehf. sem framkvæmdaraðila og hefði það félag staðið í skilum með alla reikninga. Hann kvaðst hafa tilkynnt fyrirsvarsmanni stefnanda að reikningur ætti að fara á Desform ehf. Hann hafi ekki greitt fyrsta reikninginn þar sem hann hafi verið óánægður með verkið, samanber bréf hans 18. október 2016. Stefndi tók fram að hann hafi aldrei samið við LP verk ehf. heldur við Loga Pétursson um verkið.

 

IV

            Ágreiningslaust er í málinu að stefndi, Kristinn Brynjólfsson, óskaði eftir því við Loga Pétursson að hann tæki að sér múrviðgerðir á fasteign að Rafstöðvarvegi 1a. Ágreiningurinn lýtur að því hvort hann hafi gert það í eigin nafni eða fyrir hönd Desforms ehf.

Fyrir liggur að stefndi er eigandi fasteignarinnar að Rafstöðvarvegi 1a. Þar hafa verið gerðar umfangsmiklar endurbætur sem tekið hafa um tvö ár. Leggja verður til grundvallar þann framburð stefnda að Desform ehf. sé framkvæmdaraðili vegna þeirra endurbóta og allir reikningar þeirra vegna hafi verið sendir því félagi og hafi þeir verið greiddir. Stefndi kveðst hafa tjáð fyrirsvarsmanni stefnanda að reikninginn ætti að stíla á Desform ehf. Sú fullyrðing stefnda fær stoð í þeirri staðreynd að stefnandi sendi fyrsta reikninginn, þ.e. reikning nr. 100291 á það félag. Jafnframt verður framburður fyrirsvarsmanns stefnanda fyrir dómi skilinn þannig að stefndi hafi tjáð honum að reikninginn ætti að stíla á Desform ehf.

Með vísan til þessa er litið svo á að stefndi hafi komið fram fyrir hönd Desforms ehf. og stefndi sé því ekki aðili að máli þessu. Því ber að sýkna stefnda vegna aðildarskorts, samanber 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

            Með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað svo sem greinir í dómsorði.

            Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ

Stefndi, Kristinn Brynjólfsson, er sýknaður af kröfum stefnanda, LP verks ehf.

Stefnandi greiði stefnda, Kristni Brynjólfssyni, 467.840 kr. í málskostnað.  

 

Sigrún Guðmundsdóttir.