• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Ávana- og fíkniefni
  • Ítrekun
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Umferðarlagabrot
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2018 í máli nr. S-663/2018:

Ákæruvaldið

(Auðbjörg Lísa Gústafsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Þóri Bergmann Daníelssyni

(Snorri Sturluson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 5. desember sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 6. nóvember 2018, á hendur Þóri Bergmann Daníelssyni, [...],[...], Reykjavík fyrir eftirtalin brot:

 

I.

Umferðarlagabrot með því að hafa:

1.      Aðfaranótt mánudagsins 17. júlí 2017, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 245 ng/ml og kókaín 30 ng/ml), vestur Breiðholtsbraut og að Arnarbakka í Reykjavík, þar sem lögregla hafði afskipti af honum á móts við Kóngsbakka.

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a, 1. mgr. 48. gr.,  sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

 

2.      Aðfaranótt laugardagsins 16. desember 2017 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna og slævandi lyfja (í blóði mældist amfetamín 360 ng/ml, kókaín 210 ng/ml, metamfetamín 780 ng/ml, alprazólam 5,0 ng/ml, díazepam 230 ng/ml, klónazepam 20 ng/ml, nítrazepam 80 ng/ml og nordíazepam 185 ng/ml), vestur Hverfisgötu í Reykjavík og niður Klapparstíg í norður, þar sem lögregla stöðvaði akstur hennar við bifreiðastæði Aktu Taktu, Skúlagötu 15.

Telst brot þetta varða við 2. mgr. 44. gr., 2 mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðalaga nr. 50/1987.

 

3.      Aðfaranótt mánudagsins 12. febrúar 2018 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna og slævandi lyfja (í blóði mældist amfetamín 110 ng/ml, kókaín 225 ng/ml, díazepam 110 ng/ml, gabapentín 2,5 ng/ml, klónazepam 19 ng/ml og nordíazepam 115 ng/ml), um Vesturhóla í Reykjavík, þar sem lögregla hafði afskipti af honum framan við hús nr. 13.

Telst brot þetta varða við 2. mgr. 44. gr., 2 mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðalaga nr. 50/1987.

 

4.      Miðvikudaginn 7. mars 2018, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 185 ng/ml), norður Hafnarfjarðarveg, þar sem lögregla hafði afskipti af honum við Lækjarfit í Garðabæ.

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a, 1. mgr. 48. gr.,  sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

 

5.      Að kvöldi laugardagsins 14. apríl 2018 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti, óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna og slævandi lyfja (í blóði mældist amfetamín 985 ng/ml, kókaín 65 ng/ml, MDMA 115 ng/ml og klónazepam 15 ng/ml) og án þess að hafa öryggisbelti spennt við aksturinn, norður Höfðabakka í Reykjavík og yfir Vesturlandsveg, þar sem lögregla stöðvaði akstur hennar á bifreiðastæði við Höfðabakka 1.

Telst brot þetta varða við 2. mgr. 44. gr., 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr., 1. mgr. 71. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðalaga nr. 50/1987.

 

6.      Þriðjudaginn 24. apríl 2018 ekið bifreiðinni [...], sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 450 ng/ml og MDMA 90 ng/ml) norður Snorrabraut í Reykjavík um Eiríksgötu og Egilsgötu, þar sem lögreglan gaf honum merki um að stöðva bifreiðina á gatnamótum Snorrabrautar og Egilsgötu, sem hann sinnti ekki heldur hélt hann áfram ökuferðinni að bifreiðastæði austan við Domus Medica við Egilsgötu, þar sem lögregla hugðist hafa afskipti af honum en á leið sinni inn í lögreglubifreiðina tók ákærði á sprett og hljóp í átt að Sundhöllinni á Barónsstíg, þar sem hann hvarf lögreglu sjónum en var handtekinn skömmu síðar á Egilsgötu.

Telst brot þetta varða við 1. og 3. mgr. 5. gr., 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

 

II.

Þjófnaðarbrot með því að hafa:

 

7.      Þriðjudaginn 28. nóvember 2017, í verslun Byko, Breiddinni, Kópavogi, stolið vinnubuxum, að verðmæti 24.995 krónur.

Telst brot þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

8.      Aðfaranótt 10. apríl 2018, í bílageymslu sem tilheyrir Lindargötu 35-39 í Reykjavík, stolið Cintamani dúnúlpu úr skotti ótilgreindrar bifreiðar sem þar stóð í bifreiðastæði.

Telst brot þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

          Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

          Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur í [...]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 1. nóvember 2018, á ákærði allnokkurn sakaferil að baki sem nær allt aftur til ársins 2004. Hefur hann margoft gerst sekur um umferðar- og fíkniefnalagabrot og ýmis hegningarlagabrot, meðal annars auðgunarbrot. Ákærði er hér sakfelldur fyrir að aka ítrekað undir áhrifum ávana- og fíkniefna, sem og þjófnað. Við ákvörðun refsingar verður við það miðað hér að ákærði sé nú í sjötta skipti fundinn sekur um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og í fimmta sinn sviptur ökurétti. Þá verður einnig höfð hliðsjón af ákvæðum 255. gr. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn þykir jafnframt rétt að líta til þess að ákærði hefur skýlaust játað sök í málinu og verður það virt honum til málsbóta.

Með hliðsjón af framangreindu og fjölda brota ákærða, sem og dómvenju og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 16 mánuði. Í ljósi sakaferils ákærða þykir ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru er áréttuð ævilöng svipting ökuréttar ákærða frá birtingu dóms þessa að telja.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Snorra Sturlusonar lögmanns, 168.640 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 1.295.578 krónur í annan sakarkostnað.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Einar Laxness aðstoðarsaksóknari.

Þórhildur Líndal, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð:

          Ákærði, Þórir Bergmann Daníelsson, sæti fangelsi í 16 mánuði.

          Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttinda frá birtingu dómsins að telja.

          Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Snorra Sturlusonar lögmanns, 168.640 krónur og 1.295.578 krónur í annan sakarkostnað.

 

Þórhildur Líndal