• Lykilorð:
  • Verksamningur
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 13. apríl 2018 í máli nr. E-3069/2017:

 

Íslenskir endurskoðendur ehf.

(Guðmundur Ágústsson lögmaður)

gegn

Endurskoðendaþjónustinni ehf.

(Hjalti Steinþórsson lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem var dómtekið 5. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Íslenskum endurskoðendum ehf., [...], á hendur Endurskoðendaþjónustunni ehf., [...], , með stefnu birtri 13. september 2017.

            Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 11.740.709 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, frá 17. mars 2016 til greiðsludags.

            Til vara er þess krafist að stefndi greiði stefnanda 4.861.280 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, frá 17. mars 2016 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda, sama hverjar lyktir málsins verða.

            Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

 

I

            Upphaf málsins er að rekja til þess að árið 2012 bauð stefndi í verk samkvæmt örútboði Ríkiskaupa um endurskoðun og reikningshald, nr. 15257, en útboðið tók til endurskoðunar nokkurra tilgreindra stofnana ríkisins.

            Í fundargerð Ríkiskaupa 14. nóvember 2012 er getið um skýringaviðræður vegna tilboðs stefnda í endurskoðun ársreikninga fyrir Ríkisendurskoðun. Á þeim fundi voru tveir aðilar frá Ríkisendurskoðun og tveir frá stefnda ásamt fulltrúa frá Ríkiskaupum. Á fundinum kváðust forsvarsmenn stefnda standa við tilboð sem þeir höfðu sent Ríkiskaupum. Þeir hefðu nægilegan mannafla til að klára verkefnin sem boðið hafði verið í. Þeir greindu frá því að þeir hefðu þrjá löggilta endurskoðendur en væru í samstarfi við stefnanda og myndi stefnandi taka að sér að manna þau verkefni sem stefndi gæti ekki sinnt. Þá greindi stefndi frá því að verkefnunum yrði skipt á 10 löggilta endurskoðendur og aðstoðarmenn þeirra.

            Með tölvuskeyti, dags. 23. nóvember 2012, óskuðu Ríkiskaup eftir frekari skýringum á tilboði stefnda. Í tölvuskeytinu er meðal annars óskað eftir upplýsingum um það hvort stefndi sé með samning við stefnanda. Í svari stefnda, dags. 26. nóvember 2012, greinir hann frá því að gerður hafi verið samstarfssamningur milli málsaðila um endurskoðun á tilgreindum ellefu ríkisstofnunum sem stefndi hafði verið lægstbjóðandi í og fylgdi samningurinn svarinu. Í 1. gr. samningsins er kveðið á um að stefnandi lofi að veita stefnda þá tæknilegu aðstoð sem með þurfi til endurskoðunar á grundvelli örútboðs Ríkiskaupa, m.a. með því að útvega hæft starfsfólk eins og þurfi á hverjum tíma. Samkvæmt 2. gr. lofar stefndi að greiða endurskoðendum og starfsmönnum stefnanda fyrir þá tæknilegu aðstoð og vinnu sem þeir muni inna af hendi við endurskoðunarverkefnin á grundvelli örútboðsins.

            Á hluthafafundi í stefnanda, sem fór fram 30. nóvember 2012, lýsti forsvarmaður stefnda fyrirkomulagi væntanlegs samstarfs, ef gerður yrði samningur við Ríkisendurskoðun, og sinni sýn á þessi verkefni. Þegar örútboðið fór fram hafði forsvarsmaður stefnda, Sævar Þór Sigurgeirsson, gerst hluthafi í stefnanda og fyrir lá að Kristinn Sigtryggsson, sem einnig starfaði hjá stefnda, yrði jafnframt hluthafi í stefnanda. Af því varð ekki. Það lá jafnframt fyrir að stefndi myndi koma í samstarf við stefnanda og hugsanlega gerast aðili að því félagi.

            Hinn 22. maí 2013 er gerður annar samstarfssamningur milli málsaðila. Í 1. gr. samningsins er kveðið á um samninginn. Þar segir að samningurinn sé um undirverktöku og samstarf um verkefni í örútboðinu og að málsaðilar hafi haft samstarf um þátttöku í útboðinu og sé samningurinn nánari útlistun á því samstarfi. Samkvæmt 2. gr. tekst stefnandi á hendur að vinna að endurskoðun verkefna sem falla undir örútboðið. Öll verk átti að vinna í samvinnu við stefnda og undir gæðakerfi hans. Stefnandi átti að tryggja nauðsynlegan mannskap og getu til verksins. Í 3. gr. samningsins er síðan mælt fyrir um þóknun til stefnda sem skyldi vera 6% af brúttó þóknun verkefnisins fyrir umsýslu með verkefnunum, þar af 1% til Ríkiskaupa. Þóknun til stefnanda fyrir vinnuframlag og útlagðan kostnað skyldi greiðast skv. tímaskýrslu að því marki að kostnaður yrði ekki umfram tekjur af verkefninu. Ef kostnaður yrði meiri en tekjur þá skyldu tekjurnar skiptast í hlutfalli við launakostnað eftir að útlagður kostnaður hefði verið greiddur. Um skiptingu hagnaðar var ákveðið að stefndi fengi 5% af brúttó þóknun eftir að allur kostnaður hefði verið greiddur og tap fyrri ára jafnað. Sá hagnaður sem væri umfram það skyldi skiptast í hlutfalli við launakostnað. Launakostnaður skyldi reiknast eftir verðskrá hvers starfsmanns og þeim tíma sem færi í verkin. Um skiptingu hagnaðar af aukaverkum segir að 10% af brúttó þóknun vegna aukaverka tengdra útboðsverkefnum skuli renna til stefnda, þar af 1% til Ríkiskaupa. Samkvæmt 4. gr. gilti samningurinn í fimm ár. Í 5.gr. samningsins er síðan ákvæði um riftun hans. Þar segir að málsaðilar skuli semja um riftun á samningnum ef forsendur fyrir samstarfi bresta.

            Þær ríkisstofnanir sem útboðið tók til voru RÚV, Orkubú Vestfjarða, Neyðarlínan, Öryggisfjarskipti, Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki, Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi, Happdrætti Háskóla Íslands, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Íbúðarlánasjóður, Byggðastofnun, Viðlagatrygging, Íslensk getspá og Íslenskar getraunir. Það varð að samkomulagi við Ríkisendurskoðun að falla frá tilboðum er vörðuðu Happdrætti Háskóla Íslands, Íbúðarlánasjóð og Íslenska getspá og Íslenskar getraunir. Þeir endurskoðendur sem komu að verkefnum voru því fimm á vegum stefnanda, og svo forsvarsmaður stefnda, sem sá um Heilbrigðisstofnanirnar á Sauðárkróki og Blönduósi auk Viðlagatryggingar.

            Á grundvelli samnings milli stefnanda og stefnda skiptu endurskoðendur stefnanda þannig með sér verkum.

            Fyrirkomulagið mun hafa verið þannig, að sögn stefnda, að endurskoðendurnir önnuðust umrædd verkefni og gerðu síðan reikninga fyrir þóknun sinni á hendur stefnanda, Íslenskum endurskoðendum ehf., sem aftur gerði reikninga á hendur stefnda, Endurskoðendaþjónustunni ehf., fyrir greiðslunum. Var stefnandi þannig aðeins milliliður í þessum viðskiptum en annaðist ekki neina endurskoðun í eigin nafni. Fengu nefndir endurskoðendur greidda vinnu sína og starfsmanna sinna í samræmi við samning aðila á árunum 2013–2015.

            Vinnan við endurskoðunina á árunum 2013–2015 gekk eðlilega og engir hnökrar voru, hvorki á gæðum endurskoðunarinnar né framkvæmdinni.

            Í nóvember 2015 tilkynnti Ríkisendurskoðun stefnda að stofnunin þyrfti að taka til sín endurskoðunarverkefni fyrir tvær heilsugæslustöðvar sem til stæði að sameina, en þessi verkefni féllu undir samninga stefnda við Ríkisendurskoðun og hafði stefndi sjálfur annast þau.

            Hinn 25. janúar 2016 var Guðni Gunnarsson, framkvæmdastjóri stefnanda, boðaður til fundar hjá stefnda og tilkynnti Sævar Þ. Sigurgeirsson honum þá að gera yrði breytingar á verkefnum vegna ákvörðunar Ríkisendurskoðunar og að stefndi hygðist taka yfir endurskoðun á RÚV frá og með þeim sama degi, að sögn framkvæmdastjóra stefnanda. Guðni kvaðst á fundinum hafa gert Sævari grein fyrir því að endurskoðun RÚV fyrir árið 2015 væri hafin, og raunar nokkuð langt á veg komin, auk þess sem ákvörðun af þessu tagi væri ekki mál hans eins heldur mál sem stjórn stefnanda þyrfti að taka á og leiða til lykta. Stefndi hafnaði því alfarið og kvaðst geta tekið þessa ákvörðun allsendis óháð ákvörðun stjórnar stefnanda. Forsvarsmaður stefnda hefur haldið því fram að hann hafi strax í nóvember 2015 tilkynnt Guðna um að fyrirhugðar væru breytingar á endurskoðun RÚV. Því hefur Guðni neitað.

            Hinn 28. janúar 2016 var boðað til stjórnarfundar hjá stefnanda og var Sævar Þ. Sigurgeirsson boðaður til fundarins fyrir hönd stefnda, en mætti ekki. Sævar taldi að boða hefði átt sig á fundinn sem hluthafa í stefnanda og jafnframt að fundurinn hefði ekki verið boðaður á réttan hátt. Þá tók hann fram að engin uppsögn hefði átt sér stað á samningi aðila, en efni fundarins var í fundarboði tilgreint „uppsögn Endurskoðendaþjónustunnar á verksamningi ÍE vegna RÚV“. Fundurinn var haldinn 1. febrúar 2016. Á hann mættu Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Magnús Benediktsson og Guðni Gunnarsson. Í símasambandi á fundinum voru Bjarki Bjarnason og Gunnlaugur Kristinsson. Niðurstaða fundarins var sú að stjórnarformanni var falið að senda stefnda svofellt tölvuskeyti: „Stjórn Íslenskra endurskoðenda ehf. lítur á uppsögn á verkefni RÚV sem ósk um riftun á samstarfssamningi milli Íslenskra endurskoðenda og Endurskoðendaþjónustunnar og stjórn Íslenskra endurskoðenda eru tilbúnir til samninga um það og óskar því eftir fundi með Endurskoðendaþjónustunni.“

            Framkvæmdastjóri stefnanda sendi stefnda tölvuskeyti 1. febrúar sl., svohljóðandi: „Í framhaldi af fundi okkar og ósk ykkar um að fá vinnugögn afhent, þá óska ég eftir skriflegri staðfestingu á uppsögn samningsins um endurskoðun á RÚV.“ Svarskeyti barst frá stefnda sama dag og kom þar fram að samningi stefnda við stefnanda hefði ekki verið sagt upp og stefndi hefði einungis ákveðið að taka til sín vinnunna við endurskoðun á RÚV. Þá kemur þar fram að ástæða fyrir þessari ákvörðun hafi verið sú að Ríkisendurskoðun hafi tilkynnt stefnda að hún ætlaði að taka til sín endurskoðun á Heilbrigðisstofnunum á Blönduósi og Sauðárkróki. Einnig kemur fram sá skilningur stefnda að samstarfssamningurinn hafi gengið út á það að stefnandi tæki að sér að manna þau endurskoðendaverk sem stefndi gæti ekki mannað. Í lok tölvuskeytisins er greint frá því að frekara samstarf og möguleg sameining fyrirtækjanna hafi ekki gengið eftir þar sem stefnandi hafi ekki viljað stíga það skref.

            Hinn 3. febrúar 2016 var boðað til stjórnarfundar um samstarfssamning stefnanda og stefnda. Þar voru mættir Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Magnús Benediktsson, Bjarki Bjarnason, Sævar Þór Sigurgeirsson, Kristinn Sigtryggsson og Guðni Gunnarsson. Á fundinum var m.a. rætt um riftun á samningi aðila en forsvarsmaður stefnda mótmælti því að um riftun væri að ræða. Þá samþykkti meirihluti stjórnarmanna að tilkynna Ríkisendurskoðun um riftun á samningi stefnanda og stefnda. Á fundinum óskaði forsvarsmaður stefnda eftir svörum þann dag, 4. febrúar 2016, frá einstökum endurskoðendum sem sinntu verkefnum fyrir stefnda um það hvort þeir ætluðu að falla frá þeim verkefnum sem þeir væru með.

            Með tölvuskeyti, dags. 5. febrúar sl., til stefnda tilkynnti framkvæmdastjóri stefnanda að stefnandi myndi ekki starfa í samræmi við samninginn frá 22. maí 2013 eftir uppsögn stefnda á honum. Skilyrði fyrir frekari vinnu við verkefnin væru að öll vinna yrði greidd í samræmi við tímagjald skv. samningi við Ríkiskaup og að þóknun til stefnda félli niður. Þá var gerð krafa um að framvegis lægi fyrir með árs fyrirvara hvaða verkefnum stefnandi ætti að sinna svo hægt yrði að manna verkefnin. Áskilinn var allur réttur til bóta vegna tjóns af framferði stefnda.

            Í tölvuskeyti fyrirsvarsmanns stefnda 8. febrúar 2016 kom meðal annars fram að stefndi liti svo á að með aðgerðum sínum hefði stefnandi einhliða rift samstarfssamningi aðila.

            Hinn 15. febrúar 2016 sendi stefnandi stefnda reikninga þá sem stefnt er fyrir í málinu. Hafnaði stefndi reikningunum með tölvuskeytum 17. febrúar 2016 og benti m.a. á að í samstarfssamningi aðila hefði ekki verið gert ráð fyrir neinum greiðslum umfram það sem svaraði til þóknunar fyrir verkið. 

            Hinn 29. febrúar 2016 var enn haldinn stjórnarfundur stefnanda þar sem fjallað var um samskipti aðila, aðkomu lögmanns stefnanda að málinu og um reikninga stefnanda á hendur stefnda.

            Hinn 2. mars 2016 ritaði lögmaður stefnanda svo innheimtubréf þar sem stefndi var krafinn um greiðslu á áður sendum reikningum stefnanda. Var kröfum stefnanda hafnað.

            Stefnandi höfðaði tvö dómsmál með stefnum 3. maí og 8. júní 2016 til heimtu reikninganna, en þeim var vísað frá dómi með úrskurði dags. 16. mars 2017. Í kjölfarið höfðaði stefnandi mál þetta með stefnu dagsettri 12. ágúst 2017.

 

II

            Helstu málsástæður stefnanda eru þær að samkvæmt samstarfssamningi á milli stefnanda og stefnda, dags. 26. nóvember 2012, hafi stefnandi skuldbundið sig til að taka að sér ákveðin verk svo stefndi gæti efnt skuldbindingar sínar við Ríkisendurskoðun er ná til endurskoðunar á nánar tilgreindum ríkisstofnunum. Stuðningurinn hafi ekki aðeins verið nauðsynlegur heldur forsenda þess að Ríkisendurskoðun tók tilboðum stefnda og gerði við stefnda samning á grundvelli þeirra. Stefnandi byggir á því að samningurinn feli í sér þá skuldbindingu af hálfu stefnda að stefnandi fái greitt fyrir þá vinnu sem stefnandi eða aðilar á hans vegum taki að sér að vinna á grundvelli hans. Samstarfssamningur aðila, dags. 22. maí 2013, hafi gengið út á það að aðilar tækju í sameiningu að sér þessi verkefni en stefndi myndi stýra þeim, enda hafi stefndi borið ábyrgð á því gagnvart Ríkisendurskoðun að verkin yrðu unnin. Fyrir þá ábyrgð hafi hann fengið sérstaka þóknun.

            Stefnandi byggir á því að um fimm ára verkefni hafi verið að ræða og að þeir aðilar sem stefnandi hafi fengið til að taka að sér einstök verk hefðu gengið að því sem vísu að um langtímaverkefni væri að ræða. Stefnandi taldi að endurskoðendurnir gætu tapað á fyrstu árum samningstímans en þeim yrði bættur upp tekjumissirinn á síðari hluta samningstímans, samanber kynningu á stjórnarfundi 30. nóvember 2012.

            Stefnandi byggir á því að samningurinn sem gerður var hinn 22. maí 2013 hafi fyrst og fremst verið um þóknun til þeirra sem tækju að sér einstök verk og hvernig skyldi greitt fyrir þjónustu þeirra, og þóknun til stefnda fyrir að hafa lagt til verkefnin og fyrir að stýra þeim. Við þá samningsgerð hafi aldrei verið rætt um, eða sá fyrirvari gerður, að stefndi gæti ákveðið án samráðs við stefnanda að ráðskast með eða taka til sín verk sem öðrum hefðu áður verið falin hvenær sem honum þóknaðist. Raunar hafi verið út frá því gengið að sá endurskoðandi sem tæki að sér verk á grundvelli útboðsins myndi annast endurskoðun á viðkomandi stofnun í fimm ár, eins og samningurinn við Ríkisendurskoðun mælti fyrir um.

            Stefnandi byggir á því að skýrt sé kveðið á um það í samningi um þóknun, dags. 22. maí 2013, að þeir endurskoðendur sem þurfi að leggja fram vinnu umfram umsamda þóknun geti bætt þeim tímum við á síðari stigum til að bæta sér upp tapið sem hafi orðið í upphafi.

Stefnandi byggir á því að án fyrirvara, einhliða og án samráðs hafi stefndi ákveðið að taka til sín endurskoðun á RÚV. Stefnandi telur að samningur aðila, m.a. í ljósi forsögunnar, hafi ekki heimilað stefnda slíkt og þessi einhliða ákvörðun jafngildi því að stefndi hafi ekki einungis brotið ákvæði samningsins hvað þetta tiltekna fyrirtæki varðar heldur rift samningnum. Léti stefnandi þetta yfir sig ganga gæti stefndi ákveðið, án nokkurs fyrirvara eða skýringa og hvenær sem honum sýndist, að taka til sín félög sem aðrir endurskoðendur hefðu tekið að sér að vinna fyrir. Því hafi stefnandi litið svo á að ákvörðun stefnda jafngilti því að hann hefði tekið ákvörðun um riftun samningsins. Stefnandi byggir á því að með ákvörðun sinni hafi stefndi virkjað 5. gr. samningsins frá 22. maí 2014, um riftun, og samstarfssamningurinn sé því í raun niður fallinn. Í ljósi þessa hafi stefnandi boðið stefnda upp á nýjan samning. Stefndi hafi hafnað því og snúið málinu á hvolf, að það hafi verið stefnandi sem hafi rift samningnum. Hafi stefndi vísað til þeirrar túlkunar sinnar á samningnum að stefnanda hefði borið að vinna þau verk sem stefndi hefði falið stefnanda. Hafi hann síðan tilkynnt þeim endurskoðendum öðrum sem tekið höfðu að sér verk á grundvelli samnings aðila að hann myndi taka þau líka til sín. Því var ekki andmælt en gerð grein fyrir því að þegar hefði farið fram ákveðin vinna við undirbúning og framkvæmd endurskoðunar ársreikninga félaganna fyrir árið 2015 og sú krafa gerð að sú vinna yrði greidd af stefnda áður en gögnin yrðu afhent. Stefndi hafnaði því alfarið.

            Stefnandi byggir á því, sama hvort litið verði þannig á að stefndi hafi haft heimild til, samkvæmt samningi aðila að taka til sín verkefnin eða ekki, að þá beri að túlka samninga aðila með þeim hætti að stefndi beri ábyrgð á því að greitt verði fyrir þau verk sem höfðu verið unnin þegar hann ákvað að taka þau yfir. Í málinu sé ekki verið að krefja stefnda um aðra þóknun en fyrir vinnu sem undirverktakar stefnda höfðu unnið þegar stefndi krafðist þess að verkefnum yrði skilað til sín. Stefnandi telur að engu máli skipti í þessu sambandi hvort stefndi eða þeir aðilar sem hann fól síðan verkin hafi getað nýtt sér þá vinnu eða ekki. Á meðan verkin voru unnin hafi samningurinn sannanlega verið í gildi og hafi stefnandi og undirverktakar hans haft réttmæta ástæðu til að vinna að þeim verkum og fá greitt fyrir á grundvelli samningsins. Engin vinna hafi verið unnin eftir að tilkynning stefnda barst til stefnanda eða undirverktaka stefnanda.

            Stefnandi byggir á því að í verktakarétti sé viðurkennd sú regla að verktaki, sama hvort það er aðalverktaki eða undirverktaki, eigi rétt á að fá greitt fyrir þá vinnu sem hann hafi innt af hendi og skipti þá ekki máli hvort verkkaupi rifti samningi eða hann falli niður af öðrum ástæðum.

            Ef stefndi hefði viljað véfengja tímaskráninguna hefði honum borið annaðhvort að greiða með fyrirvara eða að láta fara fram mat á vinnu stefnanda. Hann hafi hins vegar ákveðið að neita að greiða fyrir þá vinnu. Ábyrgðin á því að vinna hafi ekki komið stefnda að notum sé því alfarið hans. Stefnandi fullyrðir hins vegar að vinnan hafi komið stefnda að fullum notum, enda hafi þessi vinna verið unnin tvö síðustu ár með sama eða svipuðum hætti, og stefndi verið þátttakandi í því.

            Aðalkrafan í málinu, að fjárhæð 11.710.709 kr., er byggð á útgefnum reikningum stefnanda og sundurliðast svo:

  1. Reikningur nr. 234 vegna ársreiknings Byggðastofnunar 2015, að fjárhæð 1.797.664 kr.
  2. Reikningur nr. 242 vegna fyrri ársreikninga Byggðastofnunar, að fjárhæð 6.879.429 kr.
  3. Reikningur nr. 229 vegna RÚV, að fjárhæð 2.281.260 kr.
  4. Reikningur nr. 235 vegna Orkubús Vestfjarða, að fjárhæð 782.356 kr.

Varakrafan í málinu er byggð á sömu reikningum, að undaskildum reikningi nr. 242 að fjárhæð 6.879.429 kr. Varakrafan er því að fjárhæð 4.861.280 kr.

 

III

            Stefndi telur það rétt að af samningi aðila hafi leitt að stefnda bæri að greiða stefnanda reikninga sem hann gaf út vegna vinnu hlutaðeigandi endurskoðenda í samræmi við það fyrirkomulag sem lýst er og liggur fyrir í málinu. Sú sjálfsagða forsenda hafi þó verið fyrir greiðsluskyldu stefnda að vinna sú sem krafist væri greiðslu fyrir kæmi honum að notum. Svo hafi ekki verið um reikninga þá sem um sé krafið í málinu. Þeir hafi verið gefnir út í kjölfar þess að upp úr samningssambandi aðilanna slitnaði, af ástæðum sem stefndi telur alfarið hafa verið á ábyrgð stefnanda. Hafnar stefndi fullyrðingum stefnanda um að jafna megi til riftunar þeirri ákvörðun stefnda að taka til sín verkefni vegna RÚV, enda líti stefnandi þá alfarið fram hjá þeirri staðreynd að samkvæmt samningi aðila sé stefnandi undirverktaki hjá stefnda og hafi skuldbundið sig til þess að veita stefnda „þá tæknilegu aðstoð sem þarf til endurskoðunar á grundvelli örútboðs Ríkiskaupa nr. 15257 m.a. með því að útvega hæft starfsfólk eins og þarf á hverjum tíma“. Það sé auðvitað alveg ljóst að samkvæmt samningi aðila hafi stefndi sem verkkaupi haft forræði yfir þeim verkefnum sem hann hafi falið stefnanda á hverjum tíma, enda hafi skuldbinding stefnanda verið fólgin í því að útvega stefnda hæft starfsfólk eins og þyrfti á hverjum tíma. Það hafi því ekki falið í sér neina riftun þótt stefndi færði til verkefni innan samningsins til að bregðast við breyttum aðstæðum, en með því hafi stefndi aðeins viljað laga verkið að sínum þörfum á þeim tíma eins og hann hafi átt rétt á samkvæmt samningi aðila. 

            Stefndi telur eðlilegt að endurskoðendur stefnanda hefðu fengið greitt fyrir þá vinnu sem þeir kynnu að hafa verið búnir að inna af hendi vegna endurskoðunar ársreikninga 2015, áður en stefndi tók þá yfir. Hins vegar hafi stefnandi ekki látið í té nein vinnugögn og lokað aðgangi stefnda að Descartes-kerfinu og þannig komið í veg fyrir að stefndi gæti nýtt sér umrædda vinnu. Í hnotskurn sé staðan sú að stefnandi krefji stefnda um greiðslu fyrir verk en neiti jafnframt að afhenda það sem unnið var. Þá sé bent á að samkvæmt samningi aðila hafi stefnandi ekki átt rétt á neinum greiðslum fyrr en eftir að greiðsla hefði borist stefnda frá Ríkisendurskoðun fyrir viðkomandi verk, en svo hafi ekki verið í umræddum tilvikum.

            Stefndi áréttar að samningurinn 22. maí 2013 sé verksamningur þar sem stefnandi sé undirverktaki stefnda og komi það m.a. fram í 1. gr. samningsins. Við skýringu á samningi aðila verði að hafa í huga að um sé að ræða samning sem gerður hafi verið til nánari útlistunar á samstarfi aðila samkvæmt fyrri samningi þeirra frá 26. nóvember 2012. Samningi aðila frá maí sé hins vegar stórlega áfátt sem verksamningi þar sem ekki sé kveðið á um rétt og skyldur aðila í honum, ef frá eru talin ákvæði um greiðslu þóknunar. Séu þar þannig engin ákvæði um boðvald eða stjórnunarrétt stefnda gagnvart undirverktakanum, stefnanda, né um þau verkefni sem stefnanda séu falin, afmörkun þeirra, ábyrgð og skil o.s.frv. Það sé þó til fyllingar og skýringar á þessum samningi að í honum sé kveðið á um það að öll verk skuli unnin í samvinnu við stefnda og undir gæðakerfi hans, og leiði m.a. af því að endurskoðendur þeir sem að verkunum unnu hafi talist til starfsfólks stefnda þar sem við átti, að nota hafi átt Descartes- kerfið við vinnuna, að gera hafi átt verkefnaáætlun fyrir hvert verkefni í samráði við stefnda, að í endurskoðunarteymi hvers verks hafi verið aðalendurskoðandi, framkvæmdastjóri stefnda, og meðendurskoðandi, sem hafi verið sá endurskoðandi sem vann viðkomandi verk, og að halda hafi átt upphafsfund endurskoðunarteymis við upphaf verks.

            Rétt sé að samningurinn frá 22. maí 2013 hafi verið til fimm ára en það breyti engu um þá staðreynd að stefnandi, og endurskoðendur á hans vegum, hafi rift samstarfinu við stefnda og fallið þannig frá rétti til frekari starfa samkvæmt samningi aðila. Hafi þeir slitið samstarfinu endanlega með því að svara ekki fyrir lok dags 4. febrúar 2016 fyrirspurn stefnda um það hvort þeir ætluðu að falla frá þeim verkefnum sem þeir séu með.

            Stefndi hafnar því að lagt hafi verið upp með það og „skýrt kveðið á um í samningum um þóknun dags. 22.05.2013“ að þeir endurskoðendur sem þyrftu að leggja fram vinnu umfram umsamda þóknun gætu bætt þeim tímum við á síðari stigum til að bæta sér upp tapið sem verið hefði í upphafi. Þvert á móti sé skýrt kveðið á um það í 3. gr. 2. tl. samnings aðila frá maí 2013 að þóknun greiðist að því marki að kostnaður fari ekki umfram tekjur af verkinu. 

            Stefndi mótmælir því alfarið að samningur aðila hafi ekki heimilað stefnda að taka til sín verkefni við endurskoðun RÚV og að það hafi jafngilt riftun samnings aðila. Stefndi áréttar að skuldbinding stefnanda hafi falist í því að veita stefnda tæknilega aðstoð, m.a. með því að útvega hæft starfsfólk eins og þurfti á hverjum tíma. Í þessu hafi falist að stefndi gæti fallið frá hluta þjónustu stefnanda ef aðstæður breyttust, eins og í umræddu tilviki, þannig að stefndi hefði ekki lengur þörf fyrir hana. Tilfærsla á verkefnum hafi því aldrei getað orðið riftunarástæða og sé raunar viðurkennt í málinu að stefndi hafi, sem aðalverktaki, getað tekið verk frá undirverktaka eða breytt umfangi þess í krafti stjórnunarstöðu sinnar.

            Stefnandi byggir á því að stefndi hafi með ákvörðun sinni virkjað 5. gr. samnings aðila frá 22. maí 2013. Segir í henni að stefndi og stefnandi skuli semja um riftun á samningi ef forsendur fyrir samstarfi bresta. Stefndi telji að ákvæði þetta sé markleysa og virðist helst lýsa misskilningi á lögfræðilegum hugtökum. Ekki hafi verið um neina riftun af hálfu stefnda að ræða, heldur ólögmæt samningsrof af hálfu stefnanda.

            Þá byggir stefndi á því að stefnandi vísi til meginreglna í verktakarétti. Með því viðurkenni hann rétt aðalverktaka til að stöðva verk undirverktaka. Réttur undirverktakans til greiðslu hljóti hins vegar að ráðast ef efndum hans á skyldum sínum, hafi hann vanrækt þær eigi hann ekki rétt á greiðslu.

 

IV

            Í málinu krefst stefnandi aðallega greiðslu fjögurra reikninga vegna vinnu endurskoðenda hjá stefnanda við endurskoðun RÚV, Orkubús Vestfjarða og Byggðastofnunar (tveir reikningar). Stefnandi byggir á því að gilt hafi samstarfssamningur á milli stefnanda og stefnda frá 26. nóvember 2012, þar sem stefnandi hafi skuldbundið sig til að taka að sér nánar tilgreind endurskoðunarverkefni, svo stefndi gæti efnt skuldbindingar sínar við Ríkisendurskoðun. Stuðningur stefnanda hafi verið forsenda þess að tilboði stefnda í örútboði nr. 15257 var tekið og samningur gerður við stefnda. Stefnandi byggir á því að samningurinn feli í sér þá skuldbindingu af hálfu stefnda að stefnandi fái greitt fyrir þá vinnu sem stefnandi eða aðilar á hans vegum hafi tekið að sér að vinna á grundvelli hans.

            Stefndi byggir á því að krafa stefnanda eigi sér hvorki stoð í samningi aðila né verði hún reist á öðrum lögmætum grundvelli. Auk þess hafi stefnandi glatað öllum hugsanlegum rétti með því að rifta án lögmætrar ástæðu samningi aðila um samstarf, en stefnandi hafi sjálfur borið ábyrgð á þeim samningsrofum sem hafi leitt til þess að hann hafi talið sig þurfa að gefa út umrædda reikninga. Enn fremur hafi vinna sú sem krafið er um á hinum umstefndu reikningum ekki komið stefnanda að notum þar sem hann hafi ekki fengið nauðsynlegan aðgang að vinnugögnum og að rafrænu kerfi, „Descartes“, sem stefndi hefði þurft að hafa til að geta nýtt sér umrædda vinnu. Vinnan hafi að auki að mestu leyti verið óumbeðin og unnin án samráðs við stefnda, þó að stefnandi og þeir sem verkin unnu hafi haft stöðu undirverktaka gagnvart stefnda og þrátt fyrir ákvæði í samningi aðila frá 22. maí 2013 um að öll verk skyldu unnin í samvinnu við stefnda og undir gæðakerfi hans. Eru í gæðahandbók stefnda nánari ákvæði um samráð, sem ekki verður litið fram hjá þegar meta skal réttmæti reikninga stefnda.

            Báðir aðilar málsins eru félög á sviði endurskoðunar. Stefnandi er einkahlutafélag í eigu tíu sjálfstæðra löggiltra endurskoðenda sem stofnað var í janúar 2011. Um er að ræða einyrkja í endurskoðun og minni endurskoðunarskrifstofur. Tilgangurinn með stofnun stefnanda var meðal annars sá að endurskoðendurnir gætu komið fram sameiginlega sem stærri heild og tekið að sér stór verkefni og veitt stórum endurskoðunarskrifstofum samkeppni. Stefndi rekur endurskoðendastofu með þremur löggiltum endurskoðendum. Upplýst er í málinu að til hafi staðið að stefndi myndi sameinast stefnanda og var fyrirsvarsmaður stefnda, Sævar Þór Sigurgeirsson, orðinn hluthafi í stefnanda.

            Samkvæmt gögnum málsins stóðu Ríkiskaup á árinu 2012 fyrir örútboði nr. 15257 varðandi endurskoðun tilgreindra ríkisstofnana fyrir Ríkisendurskoðun. Um mjög stórt verkefni var að ræða. Stefndi hafði heimild til þátttöku í slíku örútboði, en það hafði stefnandi ekki. Hins vegar hafði stefndi ekki burði til að standa að verkefninu einn vegna smæðar sinnar. Þótt tilboðið hefði verið gert í nafni fyrirsvarsmanns stefnda, Sævars Þórs Sigurgeirssonar, þá stóðu báðir málsaðilar að tilboðinu. Meðal annars er óumdeilt að fyrirsvarsmaður stefnanda, Guðni Gunnarsson, sá um útreikninga vegna tilboðsins. Þá kemur það berlega fram í skriflegri kynningu Sævars Þórs Sigurgeirssonar, er hann las upp á hluthafafundi hjá stefnanda 30. nóvember 2012, að um samstarfsverkefni væri að ræða og að útbúinn hefði verið samstarfssamningur þess efnis. Hann tilgreindi að með verkefninu væru þeir búnir að tryggja stefnanda góð verkefni til fimm ára og það myndi styrkja grunninn að verkefnastöðu Íslenskra endurskoðenda og gera stefnanda samkeppnishæfari.

            Svo fór að stefndi átti lægsta tilboðið. Þar sem um umfangsmikið verkefni var að ræða og starfsmenn stefnda einungis sjö, þar af þrír löggiltir endurskoðendur, spurðust Ríkiskaup fyrir um það hvort stefndi hefði yfir nægjanlegum mannafla að ráða til að ljúka verkefninu með þeim hætti sem boðið var. Í bókun vegna fundar sem haldinn var hjá Ríkiskaupum 14. nóvember 2012 kom fram að stefndi hefði upplýst að hann hefði verið í samstarfi við endurskoðendur hjá stefnanda. Gert væri ráð fyrir því að endurskoðendur stefnanda yrðu ráðnir inn til stefnda sem launþegar og yrðu þar tímabundið. Í öðru svari fyrirsvarsmanns stefnda til Ríkiskaupa, dags. 26. nóvember 2012, kemur fram að sama dag hafi verið gerður samstarfssamningur milli málsaðila. Síðan segir: „Með umræddum samningi taka samningsaðilar sameiginlega ábyrgð á vinnuframlagi til efnda tilboðs í örútboði Ríkiskaupa nr. 15257, sbr. 2. mgr. 46. gr.“ Sama dag, það er 26. nóvember 2012, undirrita málsaðilar samstarfssamning. Í 1. gr. segir: „Íslenskir endurskoðendur ehf. lofa að veita Endurskoðunarþjónustunni ehf. þá tæknilegu aðstoð sem þarf til endurskoðunar á grundvelli örútboðs Ríkiskaupa nr. 15257 m.a. með að útvega hæft starfsfólk eins og þarf á hverjum tíma.“ Í 2. gr. segir: „Endurskoðendaþjónustan ehf. lofar að greiða endurskoðendum og starfsmönnum Íslenskrar endurskoðenda ehf. fyrir þá tæknilegu aðstoð og vinnu sem þeir munu inna af hendi við endurskoðunarverkefnin á grundvelli örútboðs ríkiskaupa nr. 15257.“ Þessi samningur var kynntur Ríkiskaupum. Tilboði stefnda var tekið og hafist handa við að skipta verkefnum milli endurskoðenda. Niðurstaðan mun hafa verið sú að í hlut stefnanda komu fimm stofnanir og í hlut stefnda þrjár stofnanir.

            Um hálfu ári síðar, eða 22. maí 2013, gera málsaðilar með sér samning sem ber heitið Samstarfssamningur. Aðaltilgangur með samningnum virðist hafi verið sá að kveða á um skiptingu þóknunarinnar. Í málinu byggir stefndi á því að á grundvelli þessa samnings séu endurskoðendur hjá stefnanda undirverktakar hjá honum, það er að fyrirsvarsmaður stefnda sé aðalverktaki þessa endurskoðunarverkefnis. Því til stuðnings vísar stefndi til 1. gr. samningsins, en þar segir: „Samningur um undirverktöku og samstarf um verkefni í örútboði nr. 15257 í lok árs 2012. Ísend og EÞ höfðu samstarf um þátttöku í útboðinu og er samningur þessi nánari útlistun á því samstarfi.“ Einnig vísar stefndi til 2. gr. samningsins, en þar segir: „Ísend tekst á hendur að vinna að endurskoðun verkefna sem eru vegna örútboðs nr. 15257. Öll verk munu verða unnin í samvinnu við EÞ og undir gæðakerfi EÞ. Ísend mun tryggja nauðsynlegan mannskap og getu til verksins.“ Að mati dómsins er hér um kúvendingu að ræða. Fram að gerð þessa samningsins var allt ferlið unnið í samvinnu og gögn málsins verða ekki skilin á annan hátt en að ætlunin hafi verið að vinna að endurskoðuninni í samstarfi. Hvergi er að sjá í gögnum málsins að ætlunin hafi verið sú að endurskoðendur hjá stefnanda yrðu undirverktakar hjá fyrirsvarsmanni stefnda. Það er að mati dómsins munur á því hvort verkefna sé aflað og þeim deilt á endurskoðendur á grundvelli samstarfs þeirra eða hvort þeir séu undirverktakar hjá öðrum endurskoðanda og eigi það til dæmis undir hans ákvörðun hvort/hvenær þeir fá verkefni. Úr því að fyrirsvarsmaður stefnda telur sig hafa verið aðalverktaka og endurskoðendur stefnanda undirverktaka, þá bar honum að sjá svo um að samningurinn bæri það skýrt með sér. Um slíka breytingu var að ræða á samstarfssamningi málsaðila að það dugar ekki, að mati dómsins, að vísa til þess að verkin hafi átt að vinna undir gæðakerfi EÞ. Samningurinn hefði þurft að bera með sér réttindi og skyldur aðalverktaka og undirverktaka þannig að ekki færi milli mála að um verktakasamning væri að ræða.

            Fyrirsvarsmaður stefnda, Sævar Þór Sigurgeirsson, byggir einnig á því að það að hann hafi ritað undir ársreikninga sem aðalendurskoðandi sýni einnig að hann hafi verið aðalverktaki. Í framburði Guðna Gunnarssonar, fyrirsvarsmanns stefnanda, kom fram að hann hefði einn séð um alla vinnuna við endurskoðun RÚV. Hið sama kom fram í skýrslu Sveinbjörns Sveinbjörnssonar, en hann endurskoðaði Byggðastofnun. Báðir skrifuðu upp á ársreikningana, og þótt Sævar Þór hafi líka gert það, þá telur dómurinn að það helgist af því að hann skilaði tilboðinu um endurskoðunina til Ríkiskaupa í sínu nafni og beri ábyrgð gagnvart Ríkisendurskoðun, fremur en að hann sé aðalvertaki.

            Þegar litið er til tilgangs samninga málsaðila frá 26. nóvember 2012 og 22. maí 2013, forsögu þeirra og efnis, telur dómurinn að það verkefni að endurskoða nokkrar ríkisstofnanir á grundvelli örútboðsins hafi verið samstarfsverkefni málsaðila. Verkefnisins var aflað í nafni fyrirsvarsmanns stefnda en honum hefði ekki tekist að fá verkefnið nema vegna þess að stefnandi lagði honum lið við það. Kemur það einnig fram í greinargerð þeirri sem lesin var á hluthafafundi í stefnanda 30. nóvember 2012 af fyrirsvarsmanni stefnda að hann hefði ekki haft burði til þess að bjóða í verkið nema með atbeina stefnanda. Þá liggur fyrir að ábyrgð á því að vinnan yrði innt af hendi hvíldi á báðum samningsaðilum samningsins. Þótt stefndi hafi fengið 5% af brúttó þóknuninni til sín, þá ber að líta til þess að stefndi, Sævar Þór Sigurgeirsson, aflaði verkefnisins og bar ábyrgð á því gagnvart Ríkisendurskoðun og annaðist alla umsýslu, það er sá um að taka við reikningum frá stefnanda og innheimta þá hjá viðskiptavini og greiða aftur til stefnanda.

            Samstarf málsaðila mun hafa gengið áfallalaust í á þriðja ár. Hver endurskoðandi hafði sína stofnun og kynntist eðli hennar og uppbyggingu og varð endurskoðunin því, eðli máls samkvæmt, léttari með hverju árinu sem leið.

            Árið 2015 ákvað Ríkisendurskoðun að taka yfir til sín endurskoðun Heilbrigðisstofnananna á Blönduósi og á Sauðaárkróki. Fyrirsvarsmaður stefnda hafði sinnt því verkefni. Af þessu leiddi að verkefnum stefnda fækkaði. Í töluskeyti fyrirsvarsmanns stefnda frá 1. febrúar 2016 kveðst hann hafa tilkynnt forsvarsmönnum stefnanda frá þessu, þ.e. Bjarka Bjarnasyni og Guðna Gunnarssyni, í lok nóvember og jafnframt að stefndi hefði sjálfur í hyggju að taka yfir endurskoðun RÚV. Engin samtímagögn liggja fyrir í málinu þessu til staðfestingar og Guðni Gunnarsson bar fyrir dómi að honum hefði ekki verið tilkynnt um þetta fyrr en 25. janúar 2016. Þessi fullyrðing fyrirsvarsmanns stefnda er því ósönnuð.

            Stefndi byggir á því að fyrirsvarsmanni hans hafi verið heimilt að taka endurskoðun RÚV af endurskoðanda stefnanda á þeirri forsendu að hann hafi verið aðalverktaki og stjórnað verkinu og það hafi verið á hans nafni og endurskoðandi stefnanda verið undirverktaki. Þá vísaði stefndi einnig til samstarfssamningsins frá 26. nóvember 2012, en þar segir í 1. gr. að stefnandi lofi stefnda því að veita honum þá tæknilegu aðstoð sem þurfi til endurskoðunar á grundvelli örútboðsins, m.a. með því útvega hæft starfsfólk “eins og þarf á hverjum tíma“.

            Á þetta fellst dómurinn ekki. Áður hefur því verið hafnað að stefnandi hafi verið undirverktaki hjá stefnda. Dómurinn telur að um samstarf hafi verið að ræða og verkefnum hafi verið úthlutað eftir að tilboðinu hafði verið tekið. Endurskoðendur stefnanda hafi mátt treysta því að þeir væru að fá verkefni til fimm ára. Það var í samræmi við forsöguna sem rakin hefur verið, yfirlýsingu fyrirsvarsmanns stefnda á hluthafafundi hjá stefnda 30. nóvember 2012, sem og 4. gr. samstarfssamningsins frá 22. maí 2013, sem kveður á um að samningurinn gildi í fimm ár, sem sé gildistími þeirra verkefna sem útboðið taki til. Draga má í efa að eitthvað hefði orðið af samstarfi málsaðila hefði það legið fyrir í byrjun að fyrirsvarsmaður stefnda gæti að eigin frumkvæði tekið af stefnanda verkefni að vild. Telja verður að fyrirsvarsmaður stefnda hafi vitað að með þessari framkomu sinni væri hann á hálfum ís, en í 3. tl. í tölvupósti hans frá 1. febrúar 2016 segir hann. „Þar við bætist að um það leiti sem verkefnum var ráðstafað í upphafi breyttust aðstæður hjá Kristni þannig að hann hefði getað og gjarnan viljað taka að sér meiri verkefni. En vegna fyrirhugaðs frekara samstarfs og sameiningar, þá vildi ég á þeim tímapunkti ekki rugga bátnum.“ Niðurstaða dómsins er því sú að með þeirri framgöngu sinni að taka endurskoðunarverkefni RÚV einhliða og án nokkurs samráðs af fyrirsvarsmanni stefnanda hafi hann brotið gegn samstarfssamningum þeim sem gerðir voru 26. nóvember 2012 og 22. maí 2013. Þá hafði þessi framganga í för með sér trúnaðarbrest sem réttlætir þær aðgerðir annarra endurskoðenda hjá stefnanda að segja sig frá verkinu.

            Með vísan til þess sem að framan greinir ber stefnda að greiða stefnanda fyrir þá vinnu sem hann gerir kröfur um í málinu, samanber neðangreint. Einhliða og án samráðs ákvað fyrirsvarsmaður stefnda að taka verkefni af stefnanda. Stefnda ber að greiða stefnanda fyrir þá vinnu, samanber 2. gr. samstarfssamnings frá 26. nóvember 2012, sem innt var af hendi af hálfu stefnanda fram til þess tíma er stefndi tók verkefnin af stefnanda, svo sem stefnandi gerir kröfu um. Eins og mál þetta liggur fyrir verður að telja að stefndi hafi ekki átt rétt til að fá afrakstur þeirrar vinnu er stefnandi hafði innt að hendi afhentan fyrr en búið væri að greiða fyrir verkið og efna þar með skyldu sem á stefnda hvíldi samkvæmt nefndri 2. gr. samstarfssamningsins.

            Verður þá vikið að þeim reikningum sem stefnandi krefst greiðslu á:

            Í fyrsta lagi er reikningur nr. 234 vegna ársreiknings Byggðastofnunar fyrir árið 2015, að fjárhæð 1.797.664 kr. Er reikningur þessi vegna tímabilsins 10.9.2015–9.2.2016, fyrir vinnu Sveinbjörns Sveinbjörnssonar, löggilts endurskoðanda, Jóns Arnars Gunnlaugssonar viðskiptafræðings og Sigurjóns Oddsonar viðskiptafræðings. Í greinargerð stefnda er reikningum ekki mótmælt í heild en stefndi telur að stefnandi hafi rift þeim samningi sem hann hafði gert við stefnda hinn 28. janúar 2016. Því ætti stefndi ekki að greiða fyrir þá vinnu sem unnin var eftir það. Við aðalmeðferð málsins féllst stefnandi á það og telur að staða reiknings miðað við þetta tímamark eigi að vera 539.444 kr. og ber stefnda að greiða stefnanda þá fjárhæð vegna þessa reiknings.

            Í öðru lagi er reikningur nr. 242 fyrir útskuldaða tíma vegna fyrri ársreikninga, gefinn út 17.2.2016, að fjárhæð 6.879.429 kr. og einnig vegna Byggðastofnunar. Á því er byggt að hálfu stefnanda að með því að stefndi hafi tekið einhliða ákvörðun um riftun samningsins og tekið til sín endurskoðun á Byggðastofnun hafi stofnast krafa á hendur stefnda um greiðslu reikningsins.

            Stefndi heldur því fram að reikningur þessi geti aldrei orðið raunverulegur. Í 2. gr. samstarfssamnings aðila frá 22. maí 2013 komi fram að kostnaður yrði aldrei meiri en tekjur af verkefninu. Í skýrslu Sveinbjörns Sveinbjörnssonar fyrir dómi kom fram að vissulega hefði mikil vinna farið af stað í upphafi, en ef hann hefði fengið að halda áfram vinnu að verkefninu þá hefðu þessir umræddu tímar borgað sig, þar sem mikil vinna færi í að kynna sér verkefnið í upphafi sem aftur yrði til þess að minni vinna færi í verkið þegar fram liðu stundir.

            Í 3.tl. 3. gr. samstarfsamnings aðila frá 22. maí 2013 er kveðið á um skiptingu hagnaðar, en þar kemur fram að tap fyrra árs verði jafnað ef hagnaður verður á verkinu. Má því álykta að fyrirsvarsmanni stefnda hafi borið að halda utan um tap fyrra árs, þ.m.t. þá umframtíma sem hlutust af vinnu við verkið sem ekki var gefinn út reikningur fyrir það árið, sem og hann gerir, samanber tölvuskeyti frá 18. apríl 2014, en þar kemur fram að frestun á tímum til næsta árs skiptist þannig: Sveinbjörn 120 tímar. Kemur þá einnig fram í tölvuskeyti frá fyrirsvarsmanni stefnda til fyrirsvarsmanns stefnanda frá 5. september 2015 að ákveðin upphæð gangi upp í eldri skuld. Ber það tölvuskeyti heitið „Byggðastofnun – reikningar og tímayfirlit“. Tiltekur stefndi þá tímaskuld vegna ársins 2014, en sá tímafjöldi sem þar er gefinn upp samræmist reikningi sem stefnandi gaf út og er nr. 242.

            Með vísan til þess sem að framan greinir er krafa stefnanda tekin til greina og ber stefnda að greiða stefnanda hinn umkrafða reikning.

            Í þriðja lagi er reikningur nr. 229 vegna RÚV, að fjárhæð 2.281.260 kr. Stefnandi byggir á því að Guðni Gunnarsson, sem annaðist endurskoðun RÚV, hafi talið sig vera í góðri trú þegar hann hófst handa við vinnu við endurskoðun fyrir RÚV, en samkvæmt tímaskráningu fór sú vinna fram á tímabilinu 4. janúar til 27. janúar 2016. Heldur hann því fram að hann hafi ekki vitað fyrr en á fundi 25. janúar það ár að stefndi ætlaði að taka til sín endurskoðun á RÚV. Kom fram í skýrslu Guðna Gunnarssonar fyrir dómi að hann hefði haft tvo mánuði til þess að vinna umrætt verk og hefði hann því strax eftir áramót hafist handa við umrædda vinnu. Hann kvaðst hafa alfarið séð um endurskoðun RÚV.

            Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi rift verksamningi þeirra á milli. Við það hafi stefnandi gefið út reikning fyrir þeirri vinnu sem þegar hefði verið unnin við endurskoðun á RÚV, en stefndi hafi hins vegar krafist tafarlausrar afhendingar á gögnum vegna endurskoðunar á RÚV hinn 10. febrúar 2016. Hafi stefnandi boðað til fundar þar sem krafist hafi verið afhendingar á gögnum, en stefnandi hafi krafist greiðslu reikninga samhliða afhendingu gagna.

            Stefndi hélt uppi þeim vörnum að sér bæri ekki að greiða umdeilda reikninga, þar sem stefndi hefði ekki óskað eftir því að þessi vinna væri unnin. Það hefði stefnandi vitað. Þá hafi stefndi ekki getað nýtt sér vinnu stefnanda sem og neitað að afhenda gögnin. 

            Af gögnum málsins má sjá að stefnandi hætti að vinna við endurskoðun á RÚV er honum varð ljóst að stefndi ætlaði að taka þann samning til sín. Þar sem stefndi tók verkið af stefnanda, þvert á samninga þeirra, ber stefnda að greiða stefnanda fyrir þá vinnu er hann innti af hendi, samanber 2. gr. samstarfssamnings frá 22. nóvember 2012, enda ósannað að hann hafi vitað að stefndi hygðist taka af honum verkið. Ekki er fallist á að stefnanda hefði borið að afhenda honum vinnu sína fyrr en hann hefði fengið greitt fyrir hana. Það er því niðurstaða dómsins, með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og þess verks sem liggur að baki kröfunni, að dæma stefnda til að greiða reikninginn vegna RÚV að fjárhæð 2.281.260 kr.

            Í fjórða lagi er reikningur nr. 235 vegna Orkubús Vestfjarða, að fjárhæð 782.356 kr. Er reikningurinn vegna vinnu Ómars Kristjánssonar, Guðna Gunnarssonar og Bjarka Bjarnasonar við endurskoðun á Orkubúi Vestfjarða á tímabilinu 8. desember 2015 til 28. janúar 2016. Var reikningi þessum hafnað af stefnda.

            Taldi stefndi að Ómar hefði sagt sig frá verkefninu með því að taka ekki þátt í gæðaeftirliti á vegum Endurskoðendaráðs ásamt því að taka Guðna með sér í óþökk stefnda í vinnu við endurskoðun Orkubús Vestfjarða. Hvorki Ómar né Guðni hefðu heimild til að ráðstafa verkefnum sem stefndi væri með löglega samninga um. Með þessu hefði Ómar brotið samkomulag sitt við stefnda og rift þannig einhliða samstarfi þeirra á milli. Þá heldur stefndi því einnig fram að reikningurinn sé rangur þar sem greitt hafi verið fyrir hluta þeirra tíma sem unnir voru, en gefinn hafi verið út reikningur nr. 1700 hinn 20. mars 2016, að fjárhæð 80.731 kr. Hefur því ekki verið mótmælt af stefnanda.

            Með vísan til eðlis samstarfssamnings málsaðila er ekki fallist á að fyrirsvarsmaður stefnda eigi að ráða því hver innir af hendi endurskoðun af hálfu stefnanda eða hvort þeir endurskoðendur er þar starfa aðstoði hver annan. Því ber stefnda að greiða framlagðan reikning vegna Orkubús Vestfjarða að frádregnum 80.731 kr., það er 701.625 kr.

            Í greinargerð gerir stefndi þær athugasemdir við taxta sem notaðir séu við einstaka liði reikninga að það eigi eftir að draga 6% þóknun frá þeim töxtum sem stefnandi fer eftir í reikningum. Stefnandi hreyfði ekki andmælum við þessu. Með vísan til 1. tl. 3. gr. samstarfssamningsins frá 22. maí 2013 er fallist á að lækka tildæmdar fjárhæðir um 6%. Samkvæmt því ber stefnda að greiða stefnanda 9.777.653 kr. (539.444 +6.879.429+2.281.260+701.625=10.401.759-6%=9.777.653 kr.)

            Dráttarvaxtakröfu stefnanda er þannig háttað að einungis er vísað til III. kafla laga nr. 38/2001 án þess að tilgreina lagaákvæði það sem krafan byggist á. Samkvæmt d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal í stefnu greina svo glöggt sem verða má dómkröfur þar á meðal um vexti. Þegar svona háttar til og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í málinu nr. 207/2007 verður ekki hjá því komist að vísa kröfunni um dráttarvexti frá dómi, án kröfu.

            Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað svo sem greinir í dómsorði.

            Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

            Stefndi, Endurskoðendaþjónustan ehf., greiði stefnanda, Íslenskum endurskoðendum ehf., 9.777.653 krónur.

            Kröfu stefnanda um dráttarvexti er vísað frá dómi, án kröfu.

            Stefndi greiði stefnanda 700.000 kr. í málskostnað.

 

Sigrún Guðmundsdóttir.