• Lykilorð:
  • Húsaleigusamningur
  • Húsbrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 12. október 2018 í máli nr. S-443/2018:

Ákæruvaldið

(Sigrún Inga Guðnadóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

X og

Y

(Arnar Þór Stefánsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 14. september sl., var höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 8. júní 2018 „á hendur X, kt. [...], M, [...], og Y, kt. [...], M, [...], fyrir húsbrot, með því að hafa í heimildarleysi föstudaginn 8. júlí 2016 ruðst inn í húsnæði að M, [...], með því að kalla eftir aðstoð Neyðarþjónustunnar sem boraði upp lás á dyrum fasteignarinnar. Í fasteigninni bjó systir ákærðu X, A, kt. [...], ásamt B, kt. [...], og börnum þeirra.

            Telst þetta varða við 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Einkaréttarkröfur:

            Þá gerir Kristrún Elsa Harðardóttir lögmaður, f.h. A, kt. [...], kröfu um að ákærðu verði gert að greiða henni skaða- og miskabætur, in solidum, að fjárhæð kr. 150.000.- Krafist er vaxta af fjárhæðinni skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 8. júlí 2016, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum reikningi auk virðisaukaskatts á málskostnað.

            Þá gerir Kristrún Elsa Harðardóttir lögmaður, f.h. B, kt. [...], kröfu um að ákærðu verði gert að greiða honum skaða- og miskabætur, in solidum, að fjárhæð kr. 200.000.- Krafist er vaxta af fjárhæðinni skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 8. júlí 2016, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum reikningi, auk virðisaukaskatts á málskostnað.

            Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

            Verjandi ákærðu krefst þess að þau verði sýknuð og hæfilegra málsvarnarlauna sem greiðist úr ríkissjóði. Þá krefst hann þess að bótakröfum verði vísað frá dómi, til vara sýknu af bótakröfum, en til þrautavara að bætur verði stórlega lækkaðar.

 

Málsatvik

            Samkvæmt gögnum málsins barst lögreglu þann 8. júlí 2016 tilkynning frá Securitas um óvelkominn mann við M. Um væri að ræða útburðarmál og þeir ættu að láta lögreglu vita. Lögregla fór á vettvang og hitti þar fyrir hóp manna. Þar voru m.a. ákærðu sem sögðust vera að flytja inn í húsið sitt. Framvísuðu þau vottorði um að ákærða X væri skráður eigandi hússins. Þau greindu frá því að systir ákærðu, A, og eiginmaður hennar, B, hefðu búið í húsinu á meðan þau hefðu búið í [...]. Ekki hefði verið gerður leigusamningur en þau hefðu borgað 170.000 krónur á mánuði fyrir afnot af eigninni. Ákærði Y kvaðst hafa, 2. febrúar það ár, tilkynnt heimkomu þeirra og þar með sagt upp afnotum þeirra. A og B komu á vettvang og varð þá mikill æsingur. Hópurinn á vettvangi var fólk úr fjölskyldu aðila eða tengt þeim. A og B vildu kæra húsbrot og kröfðust þess að fólki yrði vísað út. Lögregla reyndi að stilla til friðar en illa gekk. Haft var samband við löglærðan fulltrúa og útskýrt að lögreglan tæki ekki afstöðu eða úrskurðaði. Að lokum varð niðurstaðan sú að A og B fengu viku til að flytja út gegn því að ákærðu myndu ekki koma í húsið á meðan.

            Þann 17. júlí 2016 kærðu A og B ákærðu og fleiri til lögreglu fyrir húsbrot. Í kæru þeirra kemur fram að þau hafi leigt húsnæðið að M frá því fyrri hluta árs 2012 og búið þar ásamt börnum sínum, en þinglýstur eigandi húsnæðisins sé ákærða X. Ekki hafi verið gerður skriflegur húsaleigusamningur en húsaleiga millifærð inn á reikning ákærðu í upphafi hvers mánaðar. Þá hafi A greitt rafmagn og hita frá fyrri hluta árs 2012. Í febrúar 2016 hafi ákærði Y hringt í B og tilkynnt að hann og fjölskyldan ætluðu að flytja frá [...] til Íslands. Ekki hafi legið fyrir tímasetning en B hafi upplýst að uppsagnarfresturinn væri til 1. september 2016. Ákærði Y hafi aftur hringt í maí, tilkynnt komu fjölskyldunnar í júlí og viljað fá fasteignina afhenta 14. þess mánaðar. Á þeim tíma hafi dóttir kærenda, sem hafi fæðst [...] fyrir tímann, verið nýkomin heim af spítala. B hafi lýst því að þau gætu ekki afhent fasteignina í júlí, en myndu reyna að gera það sem fyrst. Uppsagnarfrestur væri til 1. september. Ákærði Y hafi brugðist illa við, tilkynnt að hann myndi láta loka fyrir rafmagn og hita, bora upp lásinn á eigninni og fara inn með valdi ásamt hópi manna. Einnig hafi legið fyrir aðrar óljósar hótanir um afleiðingar þess að eignin yrði ekki afhent. B hafi gert honum grein fyrir því að tekið yrði fast á slíku og málið kært til lögreglu.

            Þann 1. júní 2016 hafi ákærði Y aftur haft samband við B og minnt á greiðslu húsaleigu. Kærendur hafi talið að þau væru aftur orðin örugg í eigninni. Degi síðar hafi ákærði hins vegar haft samband aftur og tilkynnt að þau ætluðu að flytja inn í eignina 4. júlí 2016. B hafi þá ítrekað að um lögbrot væri að ræða sem yrði kært til lögreglu. Sama dag hafi borist tölvuskeyti frá ákærðu X um að hótun B hefði gert útslagið, en hún hafi borið til baka að ákærði Y hefði sagt þau ætla að flytja inn með valdi. Þann 29. júní 2016 hafi borist annað tölvuskeyti frá ákærðu þar sem hún hafi sagst ætla að leita réttar síns. Kærendur væru ekki leigjendur heldur hefðu einungis afnot af eigninni. Hún ætlaði að leita til sýslumanns og fá útburðarheimild.

            Vegna þess sem á undan hefði gengið hefðu kærendur sett upp öryggiskerfi og eftirlitsmyndavélar að M. Þá hafi þess verið óskað við öryggisfyrirtækið að lögregla yrði strax látin vita ef kerfið færi í gang.

            Þann 4. júlí hafi enn borist tölvuskeyti frá ákærðu X þar sem hún hafi óskað eftir upplýsingum um stöðuna og spurt hvenær væri best að afhenda lykilinn að húsnæðinu og leysa málið. Þann 7. júlí hafi komið maður að lesa af mælum. A hafi þá haft samband við Orkuveituna og hafi komið í ljós að notendaskipti hefðu verið pöntuð í nafni hennar og ákærði Y gerður að nýjum greiðanda.

            Næsta dag hafi A verið stödd á fasteignasölu þegar haft hafi verið samband við hana frá Securitas og tilkynnt að búið væri að brjótast inn hjá henni. Hún hafi þegar farið að fasteigninni að M. Þar hafi hún séð gám fyrir utan húsið og um 15 manns sem hefðu farið inn á heimilið. Lögreglan hafi verið komin á staðinn, en þrátt fyrir það hafi fólk haldið áfram að flytja muni inn og út úr bílskúr og taka ljósmyndir. Heimilið hafi verið í rúst og ekkert á sínum stað. Þar sem lögreglan hafi ekki viljað henda fólki út úr fasteigninni hafi kærendur verið nauðbeygð til þess að gangast undir samkomulag um afhendingu eignarinnar 16. júlí 2016 gegn endurgreiðslu helmings húsaleigu júlímánaðar.

            Með bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 4. maí 2017 var ákærðu tilkynnt að rannsókn málsins hefði verið hætt. Kærendur kærðu ákvörðun lögreglustjóra til ríkissaksóknara 30. maí 2017. Með bréfi ríkissaksóknara 23. ágúst 2017 var ákvörðun lögreglustjóra felld úr gildi og lagt fyrir lögreglustjóra að taka málið aftur til rannsóknar.

 

Framburður ákærðu og vitna fyrir dómi

            Ákærði Y kvaðst hafa rætt við B í desember 2015 og látið hann vita af því að fjölskyldan væri að öllum líkindum að flytja heim til Íslands. B hefði svarað því að þau væru að huga að húsnæðiskaupum. Hann hefði svo hringt aftur til B 1. febrúar 2016 og staðfest að þau kæmu heim 15. júlí. B hefði þá greint frá því að þau hefðu augastað á ákveðnu húsi. Þetta hefði verið rætt aftur um miðjan maí en þá hefði B neitað því að fara úr fasteigninni og vísað til þess að þau væru leigjendur. Hann hefði sjálfur brugðist illa við og fundist þetta ósanngjarnt og tilkynnt B að þau myndu fara þarna inn. Þegar reiðin hefði runnið af honum hefði hann boðið B að þau yrðu saman í húsinu en því hefði verið hafnað. Samskiptin í fjölskyldunni hefðu verið erfið áður, eða allt frá því árið 2014. Þegar þau hefðu komið að húsinu hefði verið búið að skipta um læsingar og hann hefði því kallað til lásasmið. Þau hefðu komið með gám með sér og hóp af fólki þar sem þau hefði grunað að þetta gæti farið í hart. Þau hefðu ekki verið búin að láta B og A vita að þau væru að koma þennan dag. Öryggiskerfi hefði farið í gang. Þau hefðu talið sig vera í fullum rétti til þess að fara inn í húsnæðið, en það hefði verið samkomulag þeirra að þetta væri sameiginlegt heimili hans, B og A. Þegar lögreglan hefði komið á vettvang hefði hún talið þetta vera einkaréttarlegan ágreining og það hefði verið staðfest með símtali við lögfræðing lögreglunnar.

            Aldrei hefði verið talað um leigusamning og engar tryggingar hefðu verið greiddar. Þetta hefði verið fjölskyldugreiði til þess að hjálpa B og A sem hefðu búið þarna í þrjú til fjögur ár og greitt þeim 170.000 krónur á mánuði. Á þeim tíma hefði markaðsleiga verið tvisvar sinnum hærri, en hægt hefði verið að fá þrisvar sinnum meira fyrir þessa eign. Þegar hann hefði komið til landsins á þessu tímabili hefði hann hins vegar verið hjá tengdafjölskyldunni. Spurður um skilaboð hans til B þar sem hann hefði óskað eftir greiðslu leigu kvað hann það hafa snúið að annarri íbúð sem þau hefðu átt en lánað B og A. Þar hefði þó verið um sama fyrirkomulag að ræða, munnlegt samkomulag og aldrei talað um leigusamning.

            Ákærða X kvað þau meðákærða hafa búið erlendis frá árinu 2005. Þau hefðu keypt fasteign árið 2011 sem þau hefðu leyft A og B að búa í til þess að aðstoða þau. Þau hefðu svo keypt stærri eign og systir hennar og mágur hefðu farið þangað. Þegar þau hefðu komið til landsins í heimsóknir hefðu þau yfirleitt dvalið hjá foreldrum hennar. Árið 2014 hefði komið upp ósætti milli þeirra systra sem hefði haft mikil áhrif á fjölskylduna. Í desember 2015 hefði meðákærði haft samband við B og látið hann vita að þau myndu sennilega flytja heim sumarið eftir. Hann hefði svo staðfest það við hann í byrjun febrúar. Þau hefðu verið búin að koma eigum sínum í gám þegar B hefði sagt við þau að það væri leigusamningur á milli þeirra. Þau hefðu reynt að leysa málið með því að bjóða þeim að dvelja með þeim í húsinu en þau hefðu ekki viljað það. Þau hefðu svo farið í húsnæðið þegar þau hefðu komið heim í júlí og tekið u.þ.b. átta manns með sér. Þau hefðu leitað til lásasmiðs til þess að komast inn. Þau hefðu ekki hringt í A eða B enda hefði blasað við að þau myndu ekki hleypa þeim inn. Ekki hefði verið um leigu að ræða heldur hefðu þau haft afnot af fasteigninni á grundvelli fjölskyldutengsla. Leigusamningur hefði aldrei verið nefndur. Lögreglan hefði líka talað um að þetta væri fjölskyldumál og fulltrúinn sem hringt hefði verið í hefði staðfest það og sagt að ekkert væri hægt að gera. Þetta hefði endað með munnlegu samkomulagi um að A og B fengju frest til að fara úr eigninni.

            Vitnið A, systir ákærðu X, kvaðst hafa flutt í fasteign í eigu systur sinnar og ákærða Y árið 2011. Þau hefðu verið þar í þrjá mánuði en þá hefði íbúðin verið sett upp í stærri fasteign og þau hefðu flutt þangað árið 2012. Á árinu 2014 hefði slitnað upp úr samskiptum í fjölskyldunni. Þegar þau hefðu frétt að ákærðu ætluðu að flytja heim hefði það hentað þeim vel þar sem sonur þeirra var að hefja skólagöngu og þau ætluðu að kaupa sér fasteign áður en að því kæmi. Hún hefði svo fætt barn nokkru fyrir tímann þetta vor sem hefði glímt við veikindi. Þau hefðu verið búin að festa kaup á fasteign en ekki getað flutt inn í hana þegar ákærðu vildu fá fasteign sína. Ákærðu hefðu hins vegar tilkynnt að þau myndu fara inn í fasteignina hvort sem þau vildu eða ekki. Hún hefði verið óttaslegin vegna þessa og sett öryggiskerfi á hátt viðvörunarstig. Hún hefði verið stödd á fasteignasölu þegar hún hefði fengið tilkynningu um að brotist hefði verið inn í fasteignina. Henni hefði verið sagt að margt fólk væri á staðnum, og talið að um 20 manns hefðu verið þar þegar hún kom. Húsgögn hefðu verið úti og henni hefði verið sagt að búið væri að taka myndir af eigum hennar. Allt hefði verið gert til þess að niðurlægja hana. Lögreglan hefði sagt að hún hefði ekki heimild til þess að vísa fólki út og kallað þetta einkaréttarlega deilu. Þessu hefði lokið þegar ákærði Y hefði lagt til að fara gegn því að þau flyttu út innan viku. Þau hefðu svo fengið aðstoð til þess að flytja út en engu að síður hefðu þau þurft að sæta mikilli áreitni.

            Ekki hefði verið neinn vafi á því að þau hefðu gert með sér samning um leigu þótt hann hefði ekki verið skriflegur. Þau hefðu ekki talið sig mundu fá húsaleigubætur og hefðu því ekki talið þörf á skriflegum samningi. Það hefði alltaf verið rætt um leigu og ákærðu hefðu ekki haft aðgang að eigninni. Þau B hefðu ætlað að fara úr eigninni fyrir 1. september í samræmi við uppsagnarfrest en ekki hefði gengið að semja við ákærðu. Ákærði Y hefði tilkynnt B að þau ætluðu að flytja heim í febrúar eða mars. Hún hefði óttast að ekki yrði af því og þau sætu þá uppi með tvær fasteignir. Þau hefðu greitt 170.000 krónur á mánuði í leigu. Í upphafi hefði það verið nálægt því sem greitt hefði verið fyrir hús í þessu hverfi, en árið 2015 hefði þetta verið orðið lág leiga.

            Vitnið B kvaðst hafa komið á vettvang þann 8. júlí 2016 rétt á eftir A. Um 15 manns hefðu verið inni í fasteigninni og búið hefði verið að róta og færa til húsgögn. Hluti af búslóð þeirra hefði verið inni í bílskúr. Þau hefðu flutt í eignina í mars 2012 og lagt leigugreiðslur inn á bankareikning mánaðarlega. Ekki hefði verið gerður skriflegur leigusamningur en enginn annar hefði haft aðgang að eigninni. Leigan hefði verið lág, en það hefði verið þannig í þessu hverfi þegar þau hefðu flutt inn, enda hverfið nýtt og ófrágengið. Ákærðu hefðu aldrei gert athugasemd við leigufjárhæðina. Ákærði Y hefði síðar flutt lögheimili sitt í fasteignina í óþökk þeirra. Í febrúar eða mars 2016 hefði ákærði Y sagt honum að þau ákærðu væru að hugsa um að flytja heim og í lok maí hefði hann tilkynnt þeim að hann ætlaði að flytja inn í byrjun júlí. Vitnið hefði svarað því að þau ættu tiltekin réttindi sem leigjendur. Hann hefði sagt honum að þau væru að líta í kringum sig eftir húsnæði, en hann hefði gert ráð fyrir því að fá formlega uppsögn. Þau hefðu ekki getað farið úr eigninni með svo stuttum fyrirvara. Þau hefðu keypt hús sem hefði verið tilbúið til innréttinga og ekki getað flutt í það strax. Ákærðu hefðu ekki verið búin að nefna hvaða dag þau kæmu þegar þau hefðu svo farið inn í eignina. Það hefði verið erfitt fyrir þau hjónin að sjá heimili sitt í þessu ástandi, ekki síst þar sem um fjölskylduna var að ræða.

            Vitnin C og D lýstu því hvernig umhorfs var á vettvangi eftir að ákærðu og félagar þeirra voru farin.

            Vitnið E lögreglumaður kvaðst hafa komið á vettvang vegna tilkynningar um ágreining. Nokkuð margt fólk hefði verið á staðnum, en allt úr fjölskyldu aðila. Ágreiningur hefði verið um það hvort um leigu væri að ræða eða annars konar afnot. Ákærðu hefðu ætlað að flytja inn í eignina og ætlast til þess að kærendur flyttu út, en kærendur hefðu sagt að þau væru þarna í leyfisleysi. Hann hefði vonast til þess að hægt væri að leysa málið með samkomulagi. Hann hefði haft samband við fulltrúa lögreglustjóra og sett hann inn í málið. Hann hefði talið að málið væri einkaréttarlegs eðlis þar sem ekki hefði verið um að ræða skemmdir eða ofbeldi. Hugsanlega væri þó angi af þessu sakamál. Hann hefði reynt að sætta aðila og útskýrt muninn á einkamáli og sakamáli.

 

Niðurstaða

            Ákærðu er gefið að sök húsbrot með því að hafa í heimildarleysi ruðst inn í húsnæðið að M í [...]. Ekki er ágreiningur um háttsemi ákærðu en þau hafa lýst því hvernig þau fóru inn í fasteignina 8. júlí 2016 með aðstoð Neyðarþjónustunnar eins og greint er í ákæru. Ákærðu halda því hins vegar fram að þeim hafi verið heimilt að fara inn í eignina og því hafi ekki verið um refsiverðan verknað að ræða.

            Samkvæmt 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 varðar það að ryðjast heimildarlaust inn í hús eða niður í skip annars manns, eða annan honum óheimilan stað, eða að synja að fara þaðan, þegar skorað er á mann að gera það, sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum. Þó má beita fangelsi allt að einu ári ef miklar sakir eru, svo sem ef sá sem brot framdi var vopnaður eða beitti ofbeldi eða hótun um ofbeldi eða brot er framið af fleirum saman.

            Fasteignin að M var á þessum tíma í eigu ákærðu X en kærendur höfðu búið í henni í u.þ.b. fjögur ár. Ekki var gerður skriflegur samningur um eignina en kærendur greiddu ákærðu 170.000 krónur á mánuði. Þá greiddu þau fyrir rafmagn og hita. Kærendur vísa til þess að samkvæmt húsaleigulögum teljist leigusamningur vera í gildi þótt hann hafi ekki verið gerður skriflega. Ákærðu telja hins vegar að um annars konar afnot hafi verið að ræða, en þau hafi leyft systur ákærðu X og fjölskyldu hennar að vera í eigninni og greiða lágt gjald fyrir. Því hafi verið um einhvers konar fjölskyldugreiða að ræða.

            Í málinu liggja fyrir gögn sem staðfesta að kærendur greiddu mánaðarlega fyrir notkun sína á húsnæðinu að M um árabil og bjuggu þar ásamt fjölskyldu sinni. Er óhjákvæmilegt að líta svo á að þau hafi haft fasteignina á leigu og skiptir þá ekki máli þótt leiguverðið hafi hugsanlega verið heldur lágt. Samkvæmt húsaleigulögum nr. 36/1994 skal leigusamningur um húsnæði vera skriflegur. Ef aðilar hafa vanrækt að gera skriflegan leigusamning teljast þeir hafa gert ótímabundinn leigusamning og gilda öll ákvæði laganna um réttarsamband þeirra, sbr. 10. gr. laganna. Þegar leigusamningur er ótímabundinn er uppsagnarfrestur hans sex mánuðir, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 56. gr. laganna, og hefst hann fyrsta dag næsta mánaðar eftir að uppsögn var send, sbr. 57. gr. Aðilar eru sammála um að líta svo á að leigusamningnum hafi verið sagt upp í byrjun febrúarmánaðar 2016, en þá lá fyrir að ákærðu myndu flytja til landsins í júlímánuði það ár, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 55. gr. húsaleigulaga um að uppsögn skuli vera skrifleg og send með sannanlegum hætti. Hafi leigusamningi aðila verið sagt upp í febrúar 2016 tók uppsögnin gildi 1. september 2016.

            Fjallað er um rétt leigusala til aðgangs að hinu leigða húsnæði í 41. gr. húsaleigulaga. Samkvæmt ákvæðinu á leigusali rétt á aðgangi, með hæfilegum fyrirvara og í samráði við leigjanda þannig að hvorki fari í bága við hagsmuni hans né leigjanda, til að láta framkvæma úrbætur á hinu leigða og til eftirlits með ástandi þess og meðferð. Leigusala er þó aldrei heimill aðgangur að hinu leigða húsnæði þegar leigjandi eða umboðsmaður hans er ekki viðstaddur, nema að fengnu samþykki leigjanda. Á sex síðustu mánuðum leigutímabils er leigusala heimilt að sýna hið leigða ákveðinn tíma á dag, þó ekki meira en tvær stundir hverju sinni, væntanlegum kaupendum eða leigjendum, en jafnan skal tilkynna slíka heimsókn með minnst eins sólarhrings fyrirvara. Við slíka sýningu húsnæðisins skal leigjandi eða umboðsmaður hans jafnan vera viðstaddur. Aðilum er þó heimilt að semja sín á milli um aðra tilhögun. Af ákvæðinu verður það ráðið að leigusali hefur ekki rétt til aðgangs að hinu leigða húsnæði fyrirvaralaust og án samráðs við leigjendur. Þá er útburður í höndum sýslumanna, en ákærðu höfðu ekki heimild til slíkrar framkvæmdar, sbr. 72. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

            Samkvæmt öllu framangreindu var ákærðu ekki heimilt að fara inn í eignina án heimildar kærenda fyrir 1. september 2016. Ákærðu var ljóst að þau höfðu ekki samþykki fyrir því að fara inn í eignina, en þau lýstu því sjálf að þau hefðu ekki boðað komu sína þennan dag og hefðu tekið með sér hóp ættingja þar sem augljóst hefði verið að þeim yrði ekki heimiluð innganga. Ákærðu kölluðu til lásasmið til þess að komast inn og öryggiskerfi fasteignarinnar fór í gang. Ákærðu hafa borið því við að þau séu ekki löglærð og hafi ekki gert sér grein fyrir því að leigusamningur gæti talist í gildi milli aðila. Þau gerðu hins vegar enga tilraun til þess að kynna sér það, þó að B hefði greint þeim frá þeirri skoðun sinni að slíkur samningur væri í gildi. Þá kemur fram í tölvuskeyti frá ákærðu X 29. júní 2016 að þau meðákærði hefðu leitað réttar síns. Þau muni leita til sýslumanns og fá útburðarheimild. Það stoðar því ekki fyrir ákærðu að bera fyrir sig vanþekkingu á lögunum.

            Samkvæmt öllu framangreindu er sannað að ákærðu fóru án heimildar inn í fasteignina að M eins og þeim er gefið að sök í ákæru og varðar háttsemi þeirra við 231. gr. almennra hegningarlaga. Það hefur ekki áhrif á framangreinda niðurstöðu að lögregla taldi um fjölskylduágreining að ræða þegar hún kom á vettvang.

            Ákærða X er fædd í [...] [...] og ákærði Y í [...][...]. Samkvæmt sakavottorðum þeirra hafa þau ekki áður gerst sek um refsivert brot. Við ákvörðun refsingar verður litið til einbeitts ásetnings ákærðu, en brotið var skipulagt, framið í sameiningu og hópur manna kom með þeim til aðstoðar. Þegar kærendur komu að heimili sínu þennan dag var hópur fólks kominn inn á heimili þeirra og ungra barna þeirra án þeirra samþykkis og höfðu hafist handa við að færa húsbúnað þeirra í bílskúrinn og koma eigum ákærðu fyrir. Brutu ákærðu því freklega gegn friðhelgi einkalífs og heimilis kærenda. Þá þykir rétt að líta til fjölskyldutengsla ákærðu og kærenda, sbr. 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærðu beggja hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga en fullnustu refsingarinnar er frestað og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Brotaþolar krefjast hvort um sig miskabóta óskipt úr hendi ákærðu. A krefst bóta að fjárhæð 150.000 krónur, en B krefst 200.000 króna bóta. Brotaþolar þykja eiga rétt til miskabóta með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Brot ákærðu var gróft og til þess fallið að valda brotaþolum óöryggi á heimili sínu og liggur fyrir vottorð læknis sem staðfestir áhrif þess á brotaþola. Bótakröfurnar lúta hins vegar að fleiri þáttum en því sem ákært var fyrir og er óhjákvæmilegt að líta til þess við ákvörðun fjárhæðar miskabóta. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 100.000 krónur til hvors um sig ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir. Þá eiga brotaþolar rétt til greiðslu málskostnaðar sem ákveðinn verður 600.000 krónur til þeirra sameiginlega.

            Ákærðu greiði óskipt málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnars Þórs Stefánssonar lögmanns, 779.960 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigrún Inga Guðnadóttir aðstoðarsaksóknari.

            Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                              D Ó M S O R Ð :

            Ákærðu, X og Y, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærðu greiði óskipt A 100.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 8. júlí 2016 til 19. júlí 2018, en þá með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga til greiðsludags.

            Ákærðu greiði óskipt B 100.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 8. júlí 2016 til 19. júlí 2018, en þá með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga til greiðsludags.

            Ákærðu greiði óskipt A og B sameiginlega 600.000 krónur í málskostnað.

            Ákærðu greiði óskipt málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnars Þórs Stefánssonar lögmanns, 779.960 krónur.