• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Miskabætur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 9. apríl 2019 í máli nr. S-816/2018:

Ákæruvaldið

(Arnfríður Gígja Arngrímsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 12. mars sl., var höfðað með ákæru útgefinni af héraðssaksóknara 29. nóvember 2018 „á hendur X, kennitala [...], [...], [...], fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 7. janúar 2018, á skemmtistaðnum M, [...], [...], slegið eða kastað glasi í andlit A, kt. [...], með þeim afleiðingum að framtennur hreyfðust úr stað, þrjár tennur brotnuðu og vör og tannhold marðist.

            Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

            Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að ákærðu verði gert að greiða henni skaða- og miskabætur samtals að fjárhæð kr. 3.000.000.- ásamt vöxtum, skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 7. janúar 2018, en síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga frá þeim degi er mánuður er liðinn frá því krafan var sannarlega birt ákærðu til greiðsludags. Þá er þess jafnframt krafist að ákærðu verði gert að greiða málskostnað, skv. síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins, að viðbættum 24% virðisaukaskatti.“

 

            Verjandi ákærðu krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa. Þá fellst hann á bótaskyldu ákærðu en mótmælir fjárhæð bótakröfu.

 

Málsatvik

            Aðfaranótt sunnudagsins 7. janúar 2018 var lögregla kölluð til á skemmtistaðinn M vegna konu sem hefði verið slegin með glerglasi. Lögreglan hitti þar fyrir ákærðu sem neitaði að tjá sig. Vitnið B sagðist hafa verið á dansgólfi skemmtistaðarins ásamt vini sínum og brotaþola. Hann hefði ekki séð atvikið en séð brotaþola fara á barinn og halda fyrir andlitið. Stelpur sem hefðu verið á dansgólfinu hefðu flýtt sér burt og verið flóttalegar. Hann hefði farið á eftir þeim og náð þeim þar sem þær hefðu verið að fara í leigubíl. Vinkona ákærðu hefði sagt honum að ákærða hefði lamið brotaþola í andlitið með glerglasi. C, vinkona ákærðu, kvaðst hafa verið með ákærðu á staðnum þegar einhver hefði hellt yfir þær úr vatnsglasi. Henni hefði brugðið og ákærða hefði æst sig mikið við stúlkuna sem hefði hellt yfir hana. Ákærða hefði skvett yfir hana úr glasinu hennar og síðan slegið hana í andlitið með glerglasi þannig að tvær tennur hennar hefðu brotnað. D sagði lögreglu að hún hefði séð skýrt og greinilega þegar ákærða hefði slegið brotaþola í andlitið með glerglasi þannig að tvær tennur hefðu brotnað. Samkvæmt skýrslunni mátti sjá að tvær tennur í efri gómi brotaþola voru brotnar. Hún kvaðst hafa sótt tvö vatnsglös á barinn en slest hefði úr öðru þeirra á stelpu sem hefði staðið við hlið hennar. Vinkona stelpunnar, ákærða, hefði kastað glerglasi í andlit hennar af stuttu færi og hún dottið í gólfið við það. Kærasti brotaþola, E, sagðist ekki hafa séð glasið fara í andlitið á brotaþola heldur haldið að ákærða hefði bara slett vatni. Hann hefði svo séð brotaþola í gólfinu og tvær tennur brotnar.

            Brotaþoli fór til lögreglu þremur dögum síðar og kærði líkamsárásina. Hún lýsti því að hún hefði sótt tvö vatnsglös á barinn og verið að ganga til baka þegar einhver hefði rekist utan í hana. Við það hefði hún misst glas í gólfið og vatn hefði skvest á aðra konu. Hún hefði beðist afsökunar. Ákærða og vinkona hennar hefðu farið og komið aftur til baka með vatn í bjórglösum. Vinkona ákærðu hefði hellt vatni yfir hana. Henni hefði brugðið og hún ósjálfrátt skvett til baka. Þá hefði ákærða skvett vatni framan í hana og hún hefði fengið mikið högg á andlitið. Hún hefði fengið glerglas á munninn, fallið niður á hnén og fundið að hún var mjög aum í tönnunum. Þegar hún hefði sett tunguna á þær hefði hún uppgötvað að a.m.k. tvær tennur voru brotnar og lausar. Vitnið D hefði komið til hennar og sagt að hún hefði séð allt. Þær hefðu farið á barinn og fengið klaka. Við skoðun á slysadeild hefði komið í ljós að þrjár tennur voru brotnar og ein þeirra laus.

            Í vottorði F, sérfræðilæknis á bráðamóttöku, frá 1. febrúar 2018, kemur fram að við skoðun á brotaþola hafi mátt sjá að brotnað hefði neðan af báðum framtönnum, þar sem væru áberandi skörð, og sömuleiðis af tönn nr. 2 til vinstri í efri góm. Þá hafi hún verið aum í efri vörinni og hafi líklega fengið högg þar um leið. Bólga á vör var talin jafna sig án aðgerða en brotaþola var vísað til tannlæknis vegna áverka á tönnum.

            Í vottorði G tannlæknis á tannlæknavaktinni, frá 18. janúar 2018, kemur fram að brotaþoli hafi verið með mar á vör og tannholdi og los á þremur framtönnum. Þessar tennur hafi allar færst úr stað og verið brotnar. Tennurnar hafi verið lagaðar til með composit-plasti sem fyrsta hjálp. Um varanlegan skaða sé að ræða sem ekki verði lagaður nema með postulínskrónum á þrjár tennur. Fylgjast þurfi með tönnum til að sjá hvort þurfi að rótfylla þær. Ekki sé hægt að útiloka að gera þurfi rótfyllingu í framtíðinni. Um alvarlegan tannáverka sé að ræða sem hafi nánast örugglega áhrif á framtíð þessara tanna. Tennurnar hafi verið algerlega óviðgerðar fyrir brotið.

            Samkvæmt vottorði H, sérfræðings í tannholslækningum, frá 15. nóvember 2018, kom brotaþoli fyrst til hans 28. febrúar 2018. Þá hafi verið ummerki um sprungur í glerung í fjórum tönnum og þær hafi svarað kuldaáreiti. Tvær þeirra hafi verið aumar viðkomu. Við næstu heimsókn, 26. apríl sama ár, hafi kul aukist og þurft hafi að rótfylla eina tönnina. Hann teldi nauðsynlegt að fylgjast áfram með tveimur tönnum. Samkvæmt vottorði hans, frá 22. febrúar 2019, var rótfyllingarmeðferð á tönninni lokið en framtíðarhorfur hennar óljósar. Áfram þurfi að fylgjast með tönninni þar sem vandamál, svo sem sprungur í rót, getið komið fram síðar. Önnur tönn svari illa kuldaáreiti, en það sé vísbending um að drep sé hafið í kviku tannar. Meiri líkur en minni séu á því að rótfyllingarmeðferðar á henni verði þörf og áfram þurfi að fylgjast með fleiri tönnum.

 

Framburður ákærðu og vitna fyrir dómi

            Ákærða kvaðst hafa farið með C vinkonu sinni út að skemmta sér. Hún hefði drukkið þrjá bjóra. Þær vinkonurnar hefðu farið af dansgólfinu á skemmtistaðnum M og fengið sér vatn. Á leið þeirra til baka hefði vatni verið sullað á C. Hún vissi ekki hvort þetta hefði verið viljandi eða óvart en hún hefði orðið pirruð yfir þessu og hellt til baka á brotaþola. Brotaþoli hefði þá skvett úr heilu bjórglasi yfir hana. Hún hefði orðið hrædd þar sem henni hefði fundist brotaþoli ógna henni. Henni hefði fundist eins og brotaþoli ætlaði að ýta henni eða hrinda. Hún hefði haldið á glasinu og ósjálfrátt sett hendurnar fram og upp til að verja sig. Glasið hefði þá skollið í andlit brotaþola sem hefði dottið í gólfið. Það hefði ekki verið ásetningur hennar að reka glasið í brotaþola. Henni hefði brugðið mikið við þetta og orðið hrædd þegar hún fór að hugsa um eftirmálin. Hún hefði því beðið vinkonu sína að koma með sér og forðað sér. Dyraverðir hefðu stöðvað þær og svo hefði lögreglan komið. Ákærða taldi að glasið sem hún hefði verið með hefði verið einhvers konar plastglas, en kvaðst þó ekki viss, það gæti hafa verið glerglas. Þá vissi hún ekki hvort glasið hefði brotnað.

            Brotaþoli greindi frá því að hún hefði farið á barinn á M og sótt tvö vatnsglös. Á leiðinni til baka hefði stór maður rekist utan í hana og hún hefði misst annað glasið í gólfið. Við það hefði vatn skvest á stúlku. Hún hefði beðist afsökunar og látið vita að þetta væri bara vatn. Stúlkan hefði farið af dansgólfinu með vinkonu sinni, ákærðu. Stuttu síðar hefðu þær komið til baka, búnar að sækja sér vatn í bjórglös. Stúlkan hefði verið með stæla við hana og hellt yfir hana heilu vatnsglasi. Hún hefði brugðist við með því að skvetta til baka. Þá hefði ákærða skvett vatni í andlit hennar en hún hefði staðið um armslengd frá henni. Við það hefði hún lokað augunum og þá fengið högg í andlitið frá glasi ákærðu. Höggið hefði verið það mikið að hún hefði misst jafnvægið og fallið á hnén. Hún hefði fundið til sársauka og áttað sig á að tennur í henni hefðu brotnað. Glerbrot hefðu legið á gólfinu. Henni hefði verið kippt upp af gólfinu af stúlku sem hefði sagst hafa séð atvikið. Sú hefði sett ís við munn hennar og beðið um að kallað yrði á lögregluna og að ákærða og vinkona hennar yrðu sóttar. Vinur hennar hefði farið á eftir þeim og fundið þær í leigubíl en dyravörður hefði haldið þeim þar til lögreglan hefði komið. Glasið sem hún hefði fengið framan í sig hefði verið stórt bjórglas úr gleri. Ákærða og vinkona hennar hefðu greinilega sótt vatn í þau í þeim tilgangi að áreita brotaþola. Glösin sem hún sjálf hefði fengið undir vatn hefðu hins vegar verið úr plasti og mjög létt. Þetta hefði ekki verið slíkt glas, enda hefði höggið verið mikið. Hún hefði hlotið talsverðan skaða á tönnum við þetta sem hefði líklega orðið meiri ef hún hefði ekki haft stoðboga eftir tannréttingar. Búið væri að setja krónur á þrjár tennur og þyrfti líklega að setja á eina í viðbót. Hún væri búin að vera í rótfyllingarmeðferð þar sem hún fyndi fyrir sársauka og það þurfi líklega að gera það við fleiri tennur. Þá finni hún fyrir kuli í tönnum og sé viðkvæm fyrir hita. Langt ferli sé framundan í tannviðgerðum hjá henni.

            Vitnið C kvaðst hafa verið með ákærðu á skemmtistaðnum M. Hún hefði fengið vatn yfir sig og snúið sér við og farið að rífast við brotaþola. Hún mundi ekki til þess að brotaþoli hefði verið ógnandi og ekki eftir því að þær ákærðu hefðu farið að sækja vatn, en þær hefðu áður verið að drekka bjór. Þær hefðu staðið hlið við hlið fyrir framan brotaþola. Þetta hefði endað með því að ákærða hefði kastað bjórglasi úr gleri í brotaþola, líklega í reiði. Hún hefði séð hana kasta en ekki séð glasið lenda. Hana minnti að glasið hefði legið brotið á gólfinu eftir þetta. Hún kannaðist ekki við að ákærða hefði sett hendurnar upp. Hún hefði sjálf orðið hissa á ákærðu og fundist viðbrögð hennar harkaleg. Ákærða hefði orðið skelkuð og sagt að glasið hefði lent í andliti brotaþola. Þær hefðu farið út og upp í leigubíl en strákar sem hefðu verið með brotaþola hefðu komið á eftir þeim og stöðvað þær. Ákærða hefði þá neitað því að hafa gert þetta. Hún vissi að ákærða hefði ekki ætlað sér að meiða brotaþola.

            Vitnið E, kærasti brotaþola, kvaðst hafa verið með henni á M. Hún hefði farið að sækja vatn og þegar hún hefði komið til baka hefði hún sagt honum að hún hefði misst glas. Nokkrum mínútum síðar hefði hann séð stelpu skvetta á hana þar sem þau hefðu verið á dansgólfinu og hún hefði skvett smá vatni á móti. Ákærða hefði líka skvett vatni. Stúlkurnar hefðu verið með stór bjórglös. Hann hefði svo séð brotaþola detta í gólfið og ákærðu og vinkonu hennar hlaupa í burtu. Brotaþoli hefði sagt að ákærða hefði kastað glasi í sig og tennur hefðu verið brotnar. Of langt bil hefði verið á milli ákærðu og brotaþola til að hún hefði getað slegið hana með glasinu. Hann hefði farið ásamt vini sínum að sækja ákærðu og vinkonu hennar. Þær hefðu verið stöðvaðar í leigubíl.

            Vitnið B, vinur brotaþola, kvaðst ekki hafa séð árásina sjálfa. Hann hefði séð brotaþola í gólfinu og tvær stúlkur fara í burtu. E hefði sagt honum að brotaþoli hefði fengið glas í andlitið. Hann hefði farið út á eftir stúlkunum og náð þeim þar sem þær hefðu verið að fara í leigubíl. Ákærða hefði neitað því að hafa gert þetta og viljað fara. Vinkona ákærðu hefði sagt honum, meðan ákærða hefði rætt við lögregluna, að hún vissi að vinkona hennar hefði kastað glasi í brotaþola en hún hefði ekki ætlað að meiða hana. Þær ákærða hefðu síðan rifist og vinkona hennar farið á undan.

            Vitnið D kvaðst ekki þekkja ákærðu eða brotaþola. Hún hefði verið að skemmta sér með vinum sínum á M þegar hún hefði séð glerglasi kastað á dansgólfinu. Brotaþoli hefði dottið og tekið fyrir andlitið. Ákærða hefði staðið í nokkurri fjarlægð frá henni þegar glasinu hefði verið kastað og hefði síðan farið með vinkonu sinni. Hún kvaðst ekki hafa séð ákærðu kasta, bara glasið fljúga. Glasið hefði legið á gólfinu á eftir. Vitnið kvaðst hafa farið til dyravarða og borið kennsl á ákærðu. Ákærða hefði þá verið reið og neitað því að hafa kastað glasinu. Vinkona hennar hefði hins vegar greint frá því að hún yrði árásargjörn þegar hún færi út að skemmta sér og hefði beðið ákærðu að segja rétt frá. Ákærða hefði reiðst vinkonu sinni fyrir að segja frá.

            Vitnið I lögreglumaður kvaðst hafa farið á M og hitt þar brotaþola. Hann hefði reynt að ræða við ákærðu en hún hefði ekki viljað tjá sig. Hann hefði ekki séð glasið og ekki vitað nákvæmlega hvað hefði gerst.

            Vitnið J lögreglumaður kvaðst hafa rætt við vinkonu ákærðu á vettvangi og hún hefði lýst því að ákærða hefði staðið um 1½ metra frá brotaþola þegar hún hefði kastað glerglasi í hana. Annað vitni að árásinni hefði talið vegalengdina vera um fjóra metra. Hann hefði leitað eftir myndbandsupptökum af atvikinu en þær hefðu ekki verið til.

            Vitnið F, sérfræðilæknir á bráðamóttöku, greindi frá því að kvarnast hefði neðan af framtönnum og hliðarframtönn brotaþola vegna höggs á munninn. Hún hefði einnig verið bólgin eftir höggið. Henni hefði verið vísað til tannlæknis vegna áverkanna. Nokkurt afl þurfi til að veita slíka áverka en erfitt sé að segja til um hve mikið. Áverkarnir samræmist því að hún hafi fengið glas í andlitið. Mjúk plastglös geti ekki valdið slíkum áverkum og hann viti ekki hvort til séu svo hörð plastglös að þau geti valdið þessu, en harðan hlut þurfi til að kvarna tennur.

            Vitnið G tannlæknir kvað brotaþola hafa verið með þrjár brotnar tennur og ein hefði verið áberandi laus. Hún hefði haft boga á tönnum eftir tannréttingar sem hefði hjálpað við að halda við þær. Brotaþoli þurfi að vera undir eftirliti þar sem það geti tekið mörg ár að koma í ljós hve mikill skaðinn sé. Áverkarnir hafi verið mjög alvarlegir og tennurnar verði aldrei jafngóðar. Um algerlega heilar tennur hafi verið að ræða. Mæla þurfi líf í tönnunum og setja postulín á einhverjar fleiri og hugsanlega rótfylla. Það þurfi afl til að brjóta tennur og glerung. Hugsanlega hafi glas valdið þessu, það geti varla hafa verið úr plasti en þó sé hert plast hugsanlegt. Hann þekki þó ekki nægilega styrkleika slíkra glasa. Þetta fari einnig eftir því hvernig glasið lendi. Erfitt sé að segja til um endanlegan kostnað vegna viðgerða, en hann verði talsverður.

            Vitnið H, sérfræðingur í tannholslækningum, greindi frá því að brotaþoli hefði komið til hans rúmum mánuði eftir atvikið. Hún hefði fengið verulega áverka á tennur og verið mjög viðkvæm í þeim. Meðal annars hefði tönn færst til, en högg eins og hún hefði fengið geti leitt til ýmissa vandræða. Þurft hefði að rótfylla tönn hjá henni vegna skaða og hugsanlega þurfi að rótfylla fleiri, en það sé ekki komið í ljós. Það sé ekki víst hvernig fari með þær og óvíst hvenær það komi í ljós. Varanlegur skaði hafi orðið og það þurfi að fylgjast með tönnunum í langan tíma. Þessar tennur hefðu allar verið heilbrigðar áður. Töluvert afl þurfi til að tönn færist úr stað. Áverkar brotaþola hefðu samræmst einhvers konar höggi, en erfitt væri að segja hvað hefði valdið því. Plastglas eitt og sér geti ekki valdið slíkum áverka.

 

Niðurstaða

            Ákærðu er gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás með því að hafa slegið eða kastað glasi í andlit brotaþola. Ákærða neitar sök. Hún hefur viðurkennt að hafa valdið áverkum á brotaþola en telur að þar hafi verið um gáleysisverknað að ræða. Brot hennar eigi því ekki undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga heldur 217. eða 219. gr. laganna.

            Ákærða lýsti því að hún hefði orðið skelkuð og upplifað ógn frá brotaþola. Hún hefði þá sett hendurnar fram til að verja sig og glasið sem hún hefði haldið á hefði óvart skollið í andlit brotaþola. Þessi lýsing ákærðu á atburðum fær ekki stoð í framburði vitna fyrir dóminum. Þvert á móti lýsir brotaþoli, og þau vitni sem voru að atvikinu, því að ákærða hafi staðið nokkuð frá brotaþola og kastað glasi í hana. Með framburði vitna, sem rakinn hefur verið hér að framan, um atvik og afstöðu ákærðu og brotaþola á dansgólfinu er sannað að ákærða kastaði glasinu í andlit brotaþola og olli henni þeim áverkum sem í ákæru greinir.

            Brotaþoli lýsti því að glasið sem hún hefði fengið framan í sig frá ákærðu hefði verið glerglas. Vinkona ákærðu og hlutlaust vitni lýstu því einnig að um glerglas hefði verið að ræða. Læknir og tannlæknar greindu frá því að langlíklegast væri að áverkarnir væru af völdum glerglass. Þá kvaðst ákærða sjálf ekki vera alveg viss, hún héldi að þetta hefði verið plastglas en það gæti hafa verið glerglas. Með hliðsjón af framangreindu er sannað að glasið sem ákærða kastaði var úr gleri.

            Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að brotaþoli hafi á einhvern hátt verið ógnandi eða ákærða hafi mátt búast við árás af hennar hálfu. Háttsemi ákærðu var sérstaklega hættuleg og möguleiki á talsverðum áverkum. Var árásin því langt umfram tilefni. Samkvæmt því og með hliðsjón af lýsingum vitna á háttseminni verður að hafna þeirri málsvörn ákærðu að ásetningur hennar hafi ekki staðið til þess að kasta glasinu í brotaþola heldur hafi verið um ósjálfráð viðbrögð að ræða. Samkvæmt framangreindu verður ákærða sakfelld og varðar brot hennar við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

            Ákærða er fædd í [...] [...]. Hún hefur hefur einu sinni gengist undir lögreglustjórasátt vegna umferðarlagabrota. Við ákvörðun refsingar verður litið til 1., 2. og 3. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði en fullnustu refsingarinnar er frestað og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Af hálfu A er krafist skaðabóta. Við aðalmeðferð málsins var kröfunni breytt þannig að krafist er miskabóta, skv. 26. gr. skaðabótalaga, að fjárhæð 1.500.000 krónur. Ákærða hefur fallist á bótaskyldu en mótmælir fjárhæð kröfunnar. Brotaþoli hlaut verulega og varanlega áverka af árás ákærðu sem geta verið að koma fram á löngum tíma. Framtíðarhorfur eru óljósar en ljóst er að hún þarf að vera undir eftirliti og hugsanlega gangast undir fleiri aðgerðir en þegar hafa verið gerðar. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 900.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir. Þá verður ákærðu gert að greiða brotaþola málskostnað að fjárhæð 350.000 krónur.

            Ákærða greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 509.640 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 43.630 krónur í annan sakarkostnað.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Arnfríður Gígja Arngrímsdóttir aðstoðarsaksóknari.

            Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

 

                                                              D Ó M S O R Ð :

            Ákærða, X, sæti fangelsi í sex mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærða greiði A 900.000 krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. janúar 2018 til 10. febrúar 2019, en þá með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, auk 350.000 króna í málskostnað.

            Ákærða greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 509.640 krónur, og 43.630 krónur í annan sakarkostnað.