• Lykilorð:
  • Vanreifun
  • Staða kröfu í réttindaröð eða utan

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2019 í máli nr. X-195/2015:

VBS eignasafn ehf.

(Hróbjartur Jónatansson lögmaður)

gegn LBI hf.

(Kristinn Bjarnason lögmaður)

 

I. Kröfur aðila

Mál þetta er rekið vegna ágreinings við slitameðferð varnaraðila en málinu var vísað til dómsins með bréfi slitastjórnar varnaraðila 11. nóvember 2015 og þingfest 4. mars 2016. Málið var tekið til dóms 23. janúar 2019 að lokinni aðalmeðferð.

Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafa hans að fjárhæð 305.950.798 kr. verði viðurkennd sem almenn krafa. Til vara krefst hann þess að krafa hans að fjárhæð 243.605.871 kr. verði viðurkennd sem almenn krafa en til þrautavara að viðurkennd verði almenn krafa hans að fjárhæð sem dómurinn meti að álitum. Þá krefst sóknaraðili þess að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi varnaraðila.

            Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

           

II. Málsatvik

Krafa sóknaraðila í máli þessu á rætur að rekja til viðskipta með hlutdeildarskírteini í fjárfestingarsjóðnum Peningabréf Landsbankans ISK sem Landsvaki hf. starfsrækti. Félagið hafði starfsleyfi sem rekstrarfélag verðbréfasjóða, en samkvæmt áðurgildandi lögum nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði var rekstrarfélögum einum heimilt að starfrækja fjárfestingarsjóð. Rekstur slíkra sjóða er undir stöðugu eftirliti Fjármálaeftirlitsins, sbr. m.a. 66. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga nr. 30/2003 var Landsvaka hf. heimilt sem rekstraraðila að útvista verkefni til þriðja aðila og nýtti Landsvaki hf. sér þá heimild til að fela Landsbanka Íslands hf. tiltekin verkefni.

Landsbanki Íslands hf. hafði einnig með höndum vörslu fjármálagerninga sjóðsins á grundvelli samnings við Landsvaka hf., sbr. 20. gr. laga nr. 30/2003. Ágreiningslaust er að þeir fjármunir sem mál þetta lýtur að voru varðveittir á vörslureikningi sóknaraðila hjá Landsbanka Íslands hf. í formi hlutdeildarskírteina.

Að öðru leyti var rekstur sjóðsins Peningabréf Landsbankans ISK fjárfestingarákvarðanir og framkvæmd þeirra var í höndum félagsins Landsvaka hf. í samræmi við ákvæði laga nr. 30/2003, samning um útvistun verkefna, reglur sjóðsins, útboðslýsingar og eftirlit Fjármálaeftirlitsins.

Fyrir liggur að sjóðurinn tók við fjármunum til sameiginlegrar fjárfestingar í fjármálagerningum og öðrum eignum á grundvelli áhættudreifingar í samræmi við fjárfestingarstefnu sjóðsins. Um fjárfestingarheimildir sjóðsins sagði í útboðslýsingu að markmiðið með útgáfu hans væri að ná góðri ávöxtun og dreifingu áhættu með því að fjárfesta í vel tryggðum skammtímaverðbréfum, einkum ríkis- og bankatryggðum víxlum og skuldabréfum, víxlum og skuldabréfum sveitarfélaga og öðrum vel tryggðum verðbréfum að mati stjórnar Landsvaka hf. Var tiltekið að markmið fjárfestingarstefnunnar væri að sjóðurinn hentaði öllum fjárfestum, einstaklingum og sjóðum sem vildu jafna ávöxtun hvort sem fjárfest væri til lengri eða skemmri tíma.

Í útboðslýsingu sjóðsins var tiltekið að fjárfesting í fjármálagerningum fæli ætíð í sér áhættu en að fjárfesting í hlutdeildarskírteinum sjóða væri að jafnaði öruggari en þegar keyptir væru einstakir fjármálagerningar því sjóðirnir dreifðu áhættu fjárfesta með kaupum í fleiri en einum flokki fjármálagerninga. Þá var undir liðnum „áhættuflokkun“ tekið fram að gengi sjóðsins gæti bæði hækkað og lækkað, að áhættuflokkun sjóðsins miðaðist við leiðbeinandi tilmæli Fjármáleftirlitsins nr. 3/2004 og að sjóðurinn væri í áhættuflokki 1 af 7, þ.e. í lægsta áhættuflokki. Hlutdeildarskírteini sjóðsins voru skráð í Kauphöll Íslands.

Eignum Peningabréfa Landsbankans ISK bar að halda aðskildum frá eignum Landsbanka Íslands hf. og rekstrarfélagsins og var virði sjóðsins reiknað út frá metnu innlausnarvirði eigna hans á hverjum degi. Grundvallarreglan var sú að innlausn sjóðfélaga var heimil daglega, en frá henni mátti þó víkja undir sérstökum kringumstæðum, sbr. 9. og 10. gr. reglna sjóðsins.

Af hreyfingaryfirliti yfir viðskipti sóknaraðila hjá varnaraðila á tímabilinu frá 1. janúar 2006 til 8. október 2008 verður ráðið að sóknaraðili fjárfesti í ýmsum verðbréfum á tilgreindu tímabili, þar á meðal innlendum og erlendum hlutabréfum, skuldabréfum og hlutdeildarskírteinum ýmissa fjárfestingarsjóða.

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að sóknaraðili hafi fyrst keypt hlutdeildarskírteini í sjóðnum Peningabréf Landsbankans ISK þann 30. maí 2008. Í kjölfarið átti sóknaraðili í reglulegum viðskiptum, þ.e. kaupum og innlausnum, með hlutdeildarskírteini í sjóðnum þangað til lokað var fyrir viðskipti með þau, en sóknaraðili leysti síðast inn hlut í sjóðnum 3. október 2008.

Þann 6. október 2008 lokaði Fjármálaeftirlitið fyrir viðskipti í Kauphöll Íslands með öll verðbréf útgefin af Landsbanka Íslands hf. og nokkrum aðilum til viðbótar. Af þeirri ástæðu og að teknu tilliti til óvissu á markaði var einnig lokað fyrir viðskipti með hlutdeildarskírteini í ýmsum sjóðum í rekstri Landsvaka hf., meðal annars Peningabréfum Landsbankans ISK, samkvæmt ákvörðun stjórnar félagsins.

Þann 7. október 2008 beitti Fjármálaeftirlitið heimild stjórnvalda samkvæmt 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., til að taka yfir starfsemi Landsbanka Íslands hf. Skipaði Fjármálaeftirlitið þá skilanefnd til að taka við stjórn bankans.

Þann 9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. (nú Landsbankinn hf.) þar sem eignarhald yfir Landsvaka hf. var meðal annars flutt yfir til hins síðarnefnda. Þann 17. október 2008 beindi Fjármálaeftirlitið þeim tilmælum til rekstrarfélaga verðbréfa- og fjárfestingarsjóða að grípa til aðgerða sem væru til þess fallnar að peningamarkaðssjóðum félaganna yrði slitið.

Þann 28. október 2008 tilkynnti stjórn Landsvaka hf. til Kauphallar Íslands og hlutdeildarskírteinishafa um þá ákvörðun sína að slíta Peningabréfum og óskaði eftir afskráningu þeirra. Í kjölfarið var greitt út til sjóðsfélaga, þar á meðal sóknaraðila, sem nam 68,8% af þeirri fjárhæð sem sjóðfélagar höfðu átt í sjóðnum á lokadegi viðskipta. Fékk sóknaraðili greiddar út alls 640.295.210 kr. þennan dag. Sjóðsfélögum var jafnframt tilkynnt að um fullnaðaruppgjör væri að ræða.

Þann 22. apríl 2009 tóku gildi lög nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Meðal þess sem lögin höfðu í för með sér var skipun slitastjórnar fyrir varnaraðila og upphaf slitameðferðar á greiðslustöðvunartíma. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði samkvæmt því slitastjórn fyrir varnaraðila þann 29. apríl 2009 sem sinnti öllum öðrum verkefnum en þeim sem skilanefnd voru sérstaklega falin samkvæmt lögum nr. 161/2002 fram til ársloka 2011, er verkefni skilanefndar færðust einnig á hendur slitastjórnar, sbr. lög nr. 78/2011. Þann 30. apríl 2009 gaf slitastjórn varnaraðila út innköllun til kröfuhafa sem var birt í Lögbirtingablaðinu sama dag. Var frestur til að lýsa kröfum sex mánuðir frá fyrstu birtingu og lauk kröfulýsingarfresti samkvæmt því á miðnætti þann 30. október 2009.

Sóknaraðili lýsti kröfu á hendur varnaraðila með kröfulýsingu dags. 29. október 2009 sem slitastjórn varnaraðila tók við 30. október 2009. Samkvæmt kröfulýsingunni tók krafa sóknaraðila til hlutdeildarskírteina „í peningamarkaðssjóðnum Peningabréf Landsbankans ISK, fjárfestingarsjóði starfræktum af Landsvaka hf., dótturfélagi Landsbanka Íslands að nafnvirði alls kr. 27.891.658“. Tilgreindi sóknaraðili höfuðstól kröfunnar sem 268.672.490 kr., en dráttarvexti frá 6. október 2008 til 29. október 2009 sem 66.015.070 kr. Alls nam lýst krafa sóknaraðila því 334.687.559 kr.

Í kröfulýsingunni kemur fram að krafan sé byggð á niðurstöðu héraðsdóms frá 7. október 2009 í máli Auðbjargar Guðnýjar Eggertsdóttur gegn Landsvaka hf. og Landsbanka Íslands hf. sem hafi verið auðkennt sem mál nr. E-29/2009. Í dóminum hafi verið fallist á það með stefnanda að hlutdeildarskírteinishöfum í peningamarkaðssjóðnum Peningabréf Landsbankans hefði verið mismunað í aðdraganda að lokun sjóðsins 6. október 2008 eftir því hvort þeir innleystu hlutdeild sína eða ekki. Þeir sem innleystu hlutdeild sína frá 10. september 2008 til lokunar 6. október sama ár hefðu fengið of hátt verð fyrir eignarhlut sinn og það hefði leitt til þess að eign þeirra sem eftir sátu rýrnaði að sama skapi. Með þessu hafi stefndu ekki gætt jafnræðis sjóðsfélaga og hlutdeildarskírteinishafa eins og þeim var skylt, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 30/2003, og bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnanda. Heildartjónið sem og hlutfallslegt tjón stefnanda sé unnt að meta út frá gögnum í bókhaldi sjóðsins.

Í kröfulýsingunni segir jafnframt að sóknaraðili hafi verið meðal þeirra hlutdeildarskírteinishafa sem sættu mismununinni. Eign sóknaraðila í sjóðnum hafi verið skráð á nafn og kennitölu sóknaraðila hjá Landsbanka Íslands hf. en sóknaraðili hafi hins vegar á grundvelli safnskráningar, sbr. 12. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, skráð eign hvers viðskiptavinar síns á nafn og kennitölu viðkomandi viðskiptavinar í kerfum sínum og sé krafan þannig gerð fyrir hönd þeirra. Síðan segir í kröfulýsingunni:

„Þar sem VBS fjárfestingarbanka hf. er ekki unnt að meta virði kröfunnar út frá gögnum í bókhaldi sjóðsins líkt og niðurstaða framangreinds héraðsdóms gerir ráð fyrir gerir VBS fjárfestingarbanki, fyrir hönd viðskiptavina sína, kröfu um mismun þeirrar fjárhæðar sem VBS fjárfestingarbanki hf. hefði fengið greidda hefðu VBS fjárfestingarbanki hf. haft kost á því að selja hlutdeildarskírteini sín í sjóðnum fyrir lokun sjóðsins 6. október 2008 og þeirrar fjárhæðar sem VBS fjárfestingarbanka hf. var úthlutað dags 29.10.2008 þegar úthlutun úr sjóðnum var framkvæmd. Lokagengi sjóðsins dags. 3.10.2008 var 31,477. Þann 29.10.2008 fékk VBS fjárfestingarbanki hf. úthlutað fjárhæð sem nemur 68,8% af framangreindu lokagengi sjóðsins eða m.v. gengi 21,641.

Sundurliðast krafa VBS fjárfestingarbanka hf. því á eftirfarandi hátt: Kr. 268.672.490 er munurinn á virði þeirra 27.891.658 nafnverðseininga sem um ræðir miðað við gengið 31,477 annars vegar og 21.641 hins vegar. Fjárhæðin 66.015.070 eru dráttarvextir af þeirri fjárhæð frá 3. október 2008 til 29. október 2009. Samtals nemur krafan því kr. 334.687.559.-

Meðfylgjandi er afrit innlausnarkvittunar frá Landsbanka Íslands dags. 28.10.2008. Mismunur milli nafnverðsupphæðar á kvittun og í kröfulýsingu skýrist af því að kröfu er ekki lýst fyrir hönd þeirra viðskiptavina VBS fjárfestingarbanka hf. sem hætt hafa í viðskiptum frá því viðskipti þessi áttu sér stað.“

 

Af málatilbúnaði sóknaraðila og fyrirliggjandi gögnum verður því ekki annað ráðið en að sóknaraðili hafi fjárfest fyrir hönd viðskiptavina sinna í þeim hlutdeildarskírteinum sem umþrætt eru í málinu, þ.e. sem vörsluaðili og á grundvelli eignastýringar fyrir viðskiptavini. 

Með dómi Hæstaréttar frá 25. október 2010 í máli nr. 729/2009 var máli Auðbjargar Guðnýjar Eggertsdóttur, sem sóknaraðili vísaði til í kröfulýsingu sinni, vísað frá héraðsdómi af sjálfsdáðum.

Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfunni með tölvubréfi til sóknaraðila þann 3. maí 2011 með vísan til þess að ekki hefði verið sýnt fram á að Landsbanki Íslands hf. hefði viðhaft saknæma og ólögmæta háttsemi við markaðssetningu og vörslu fjármálagerninga peningamarkaðssjóða Landsvaka hf. og með því bakað sér bótaábyrgð gagnvart hlutdeildarskírteinishöfum.

Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar með tölvubréfi sem var móttekið þann 18. maí 2011. Dagana 13. janúar og 20. ágúst 2015 voru haldnir fundir vegna ágreinings um afstöðu slitastjórnar varnaraðila til lýstra krafna sóknaraðila. Ekki tókst að jafna ágreining á þeim fundum og ákvað slitastjórn því í samræmi við 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að beina ágreiningsefninu til Héraðsdóms Reykjavíkur eftir ákvæðum 171. gr. laganna.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. desember 2015 í máli nr. N-10/2015 var frumvarpið staðfest sem nauðasamningur varnaraðila. Úrskurðurinn hlaut endanlegt gildi við lok kærufrests 25. desember 2015 og komst nauðasamningur varnaraðila þá á samkvæmt 1. mgr. 60. gr. laga nr. 21/1991. Með því lauk slitameðferð varnaraðila sem hann hafði verið í eftir ákvæðum B-hluta XII. kafla laga nr. 161/2002.

 

III. Málsástæður og kröfur aðila

 Málsástæður sóknaraðila            

Sóknaraðili kveðst byggja kröfur sínar á almennum reglum skaðabótaréttar um skaðabótaábyrgð utan samninga og þeim reglum sem gilda um fjárfestingarstarfsemi sem þessa. Telur sóknaraðili að varnaraðili hafi valdið honum skaðabótaskyldu tjóni með saknæmri og ólögmætri háttsemi sinni, sem eftirlitsaðili, vörslufélag, innri endurskoðandi og móðurfélag Landsvaka hf.

Sóknaraðili vísar til þess að náin tengsl hafi verið á milli Landsvaka, sem var rekstrarfélag sjóðsins í skilningi 3. tölul. 2. gr. laga nr. 30/2003 og varnaraðila sem var vörslufyrirtæki sjóðsins í skilningi 4. tölul. sömu greinar. Þannig hafi framkvæmdastjóri eignastýringarsviðs varnaraðila verið stjórnarformaður Landsvaka hf. og deildarstjóri áhættudeildar varnaraðila verið formaður fjárfestingarráðs sjóðsins.

Landsvaki hf. hafi enn fremur útvistað verkefnum sínum til varnaraðila, sbr. 18. gr. laga nr. 30/2003. Útvistun verkefna hafði samkvæmt lögunum engin áhrif „á ábyrgð rekstrarfélags gagnvart eigendum hlutdeildarskírteina“, sbr. 2. mgr. 18. gr. laganna. Sóknaraðili vísar auk þess til 15. gr. laganna þar sem kveðið var á um að rekstrarfélög og vörslufyrirtæki skyldu vera óháð í störfum sínum og ætíð hafa hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi. Í 19. gr. sömu laga hafi enn fremur komið fram að rekstrarfélag skyldi starfrækja verðbréfasjóð í samræmi við góða viðskiptahætti og venjur, með trúverðugleika markaðarins og hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi. Þá hafi sagt í 22. gr. laganna að vörslufyrirtæki bæri ábyrgð gagnvart rekstrarfélagi og eigendum hlutdeildarskírteina.

Af hálfu sóknaraðila er einnig byggt á því að varnaraðili hafi verið sérfræðingur í verðbréfaviðskiptum. Sem vörsluaðila sjóðsins hafi hvílt á varnaraðila sérstök trúnaðarskylda gagnvart sjóðnum og eigendum hans. Varnaraðila hafi því borið að gæta þess að allar fjárfestingarákvarðanir sjóðsins réðust af viðurkenndum sjónarmiðum um áhættudreifingu, áhættu- og eignamat verðbréfa, seljanleika verðbréfa og armslengd í viðskiptum.

Sóknaraðili telur að sjóðurinn og fjárfestingarráð hans hafi að minnsta kosti frá síðari hluta ársins 2007 vikið frá slíkum viðurkenndum sjónarmiðum og miðað ákvarðanir sínar um fjárfestingar í sjóðnum við hagsmuni varnaraðila, hluthafa hans, stærstu skuldunauta hans og tengdra aðila. Afleiðingin hafi orðið sú að eignasamsetning sjóðsins hafi orðið einsleit og verulega áhættusöm, með gríðarlegri tapsáshættu sem raungerðist í lok árs 2008.

Málatilbúnaður sóknaraðila byggist í fyrsta lagi á því að varnaraðili hafi með saknæmum og ólögmætum hætti vikið frá sjónarmiðum um óháða stýringu sjóðsins og rýrt eignir sjóðsins, með því að ráðstafa áhættulausum ríkiverðbréfum og fleiri slíkum verðbréfum og kaupa í staðinn skuldbindingar tengdar varnaraðila og aðilum í nánum viðskiptatengslum við varnaraðila. Þótt slíkar ráðstafanir kunni að hafa rúmast innan fjárfestingarstefnu sjóðsins hafi þær ekki helgast af faglegu mati á gæðum einstakra fjárfestinga undir formerkjum óhæði m.t.t. hagsmuna lánardrottna sjóðsins, heldur af sérstökum fjárhagslegum hagsmunum varnaraðila, helstu hluthafa hans og annarra tengdra aðila. 

Sóknaraðili vísar í þessu sambandi til þess að samkvæmt staðhæfingum slitastjórnarmanna varnaraðila sjálfra í ótal dómsmálum sem þeir hafa höfðað eða eru aðilar að, þá hafi eigið fé varnaraðila verið undir lögbundum mörkum 2007 og ársreikningur ársins 2007 og árshlutareikningar 2008 gefið ranga mynd af fjárhagsstöðu hans. Til dæmis hafi tengdir aðilar ekki verið rétt skráðir þar þannig að áhætta einstakra hópa hafi verið rangt metin. Þá hafi eigin hlutir, sem bankinn átti, ekki verið dregnir frá eigin fé bankans eins og bar að gera samkvæmt 84. gr. þágildandi laga um fjármálafyrirtæki. Hið sama hafi gilt um hluti bankans í öðrum fjármálafyrirtækjum. Stjórnendur bankans hafi einnig verið stjórnendur Landsvaka og þeim hafi verið ljóst að fjárhagsstaða varnaraðila var slæm og fyrirsjáanlegt væri að bankinn gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar vegna skorts á lausafé.

Í öðru lagi byggir sóknaraðili á því að Landsvaki hf., undir eftirliti og stjórn varnaraðila, hafi a.m.k. frá mars 2008 og áfram ranglega metið eignir sjóðsins með þeim afleiðingum að eignamatið endurspeglaði hærra virði undirliggjandi eigna en þær í raun hafi haft. Hafi þetta falið í sér ólögmæta og saknæma háttsemi sem hafi falist í því m.a. að varnaraðili og stjórnendur Landsvaka ofmátu virði verðbréfa útgefinna af varnaraðila og skyldum aðilum, seldu frá sjóðnum ríkistryggðar eignir og fjárfestu um of í fjármálagerningum tengdum varnaraðila og skuldunautum hans og tengdum aðilum, í því skyni að ívilna þessum sömu aðilum. Afleiðingin hafi orðið sú að þeir töpuðu sem keyptu sig inn í sjóðinn á of háu kaupgengi en áttu hlutdeildarskírteinin þegar sjóðnum var lokað í október 2008.

Í þriðja lagi byggir sóknaraðili á því að Landsvaki hf. hafi undir eftirliti varnaraðila greitt hlutfallslega of mikið til þeirra eigenda hlutdeildarskírteina sem innleystu skírteini frá mars 2008 til og með 8. október 2008, þar sem ofmat á undirliggjandi eignum sjóðsins leiddi til of hás gengis hlutdeildarskírteinanna. Sökum þessa hafi verið minna en ella til skiptanna fyrir þá sem áttu hlutdeildarskírteini er sjóðnum var lokað í október 2008 og sættu úthlutun á grundvelli rauneigna sjóðsins.

Í fjórða lagi telur sóknaraðili að brotið hafi verið á jafnræði og hagsmunum hlutdeildarskírteinishafa í aðdraganda þess að ákvörðun var tekin um að loka fyrir innlausnir úr peningamarkaðssjóðnum, 6. október 2008, slíta honum 28. sama mánaðar og í kjölfarið greiða sóknaraðila einungis hluta af því fé sem aðrir fengu fyrir slit hans. Hið ranglega skráða gengi og ákvarðanataka forsvarsmanna Landsvaka og varnaraðila í aðdraganda að lokum sjóðsins hafi leitt til skaðabótaskylds tjóns sóknaraðila. 

Sóknaraðili byggir jafnframt á því að varnaraðili hafi í þessu, sem og öðru, ekki haft hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi eins og skylda hafi verið til. Athafnir og athafnaleysi varnaraðila hafi verið þess valdandi að hagsmunum eigenda hlutdeildarskírteina, þ.á.m. sóknaraðila, hafi verið varpað fyrir róða í því skyni að vernda hagsmuni varnaraðila og tengdra aðila. Varnaraðili hafi búið yfir vitneskju um markaðsaðstæður sem hann hafi farið leynt með í því skyni að halda uppi gengi sjóðsins og virði annarra fjármálagerninga sem varnaraðili og félög tengd honum hafi gefið út. Hafi sóknaraðili mátt vera í góðri trú um að varnaraðili myndi gæta hagsmuna hans í hvívetna í samræmi við lög og reglur.

Sóknaraðili telur að hin saknæma og ólögmæta háttsemi varnaraðila felist að öðru leyti aðallega í þrenns konar athöfnun og athafnaleysi, með þeim hætti sem hér verður rakið nánar.

 

1) Rangt mat varnaraðila á eignum sjóðsins

Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili hafi í starfsemi sinni borið ábyrgð á því að markaðsvirði eigna peningamarkaðsbréfa Landsbankans ISK var ranglega skráð og jafnframt vanrækt þá eftirlitsskyldu sína gagnvart Landsvaka að sjá til þess að niðurfærslureikningur yrði myndaður vegna tiltekinna fjármálagerninga í samræmi við markaðsaðstæður. Afleiðing þess hafi verið sú að gengi sjóðsins var skráð of hátt miðað við raunverulegt virði undirliggjandi eigna. 

Sóknaraðili vísar til þess að samkvæmt útvistunarsamningi hafi varnaraðili skuldbundið sig til þess m.a. að annast mat á verðmæti eigna sjóða í rekstri Landsvaka hf., reikna út daglegt innlausnarvirði sjóðanna í samráði við Landsvaka hf. og annast innlausir og kaup á verðbréfum í eigu viðskiptavina, sbr. og nánar það sem greinir í útvistunarsamningnum. Varnaraðili hafi því borið ábyrgð á því að undirliggjandi eignir sjóðsins væru rétt metnar og daglegt kaup- og sölugengi hlutdeildarskírteina sjóðsins væri rétt skráð. Sóknaraðili telur að varnaraðili hafi ekki sinnt þessu með fullnægjandi hætti, þannig að tjón hlaust af fyrir sóknaraðila.

Sóknaraðili byggir á því að gengi sjóðsins þann 30. maí 2008 og til lokunar hans í október 2008 hafi ekki endurspeglað raunverulegt virði eigna sjóðsins, heldur verið allt of hátt er sóknaraðili hóf að kaupa í sjóðnum. Óumdeilanlegt sé að gengi sjóðsins lækkaði aldrei á þeim tíma er hann var starfræktur. Að mati sóknaraðila staðfestir það að raunverulegt mat á verðbréfum í eignum sjóðsins hafi ekki farið fram, a.m.k. frá og með 30. maí 2008, en þá hafði sjóðurinn selt frá sér öll verðbréf útgefin of opinberum aðilum og fjárfest eingöngu í skuldbindingum varnaraðila og tengdra aðila.

Sóknaraðili vísar einnig til 1. tl. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 30/2003, um að vörslufyrirtæki skuli tryggja að sala, endurkaup, innlausn og ógilding hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðs fari fram samkvæmt lögum og reglum hluteigandi aðila. Hið sama eigi við þegar tryggja eigi að kaup- og innlausnarvirði hlutdeildarskírteina sé reiknað í samræmi við lög og reglur hluteigandi aðila. Þá skuli mat á eignum verðbréfasjóðs á hverjum tíma endurspegla raunverulegt virði þeirra að teknu tilliti til markaðsaðstæðna, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 792/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Í reglugerðinni segi jafnframt að fjármálagerningar skráðir á skipulegum fjármálamarkaði skuli metnir samkvæmt dagslokagengi. Önnur verðbréf skuli meta sérstaklega. Þá skuli rekstrarfélag halda skrá yfir mat eigna á hverjum tíma og greina þar forsendur fyrir mati. Í 5. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um að mynda skuli niðurfærslureikning vegna fjármálagerninga samkvæmt 3. mgr. 4. gr. í því skyni að gengi hlutdeildarskírteina eða hluta endurspegli sem best verðmæti eigna hlutaðeigandi sjóðs eða deildar á hverjum tíma. Í 6. gr. reglugerðarinnar segir síðan að reikna skuli út innlausnarvirði og sölugengi hlutdeildarskírteina daglega á grundvelli daglegs eignamats, svo gengi sölu eða innlausnar endurspegli ávallt rétt verðmæti eigna sjóðsins.

Sóknaraðili telur að varnaraðili hafi hvorki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt 3. kafla útvistunarsamningsins né eftirlitsskyldur sínar og ábyrgð samkvæmt lögum nr. 30/2003 og reglugerð nr. 792/2003. Vísar sóknaraðili til atvika úr dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu E-350/2009 til stuðnings þessari málsástæðu.

Sóknaraðili byggir á því í þessu samhengi að markaðsaðstæður og vitneskja starfsmanna Landsvaka hafi átti að leiða til hærri stöðu á niðurfærslureikningi og þar með lægra gengis hlutdeildarskírteina. Í desember 2007 hafi legið fyrir að Baugur gæti ekki endurgreitt fyrri víxla og var það á almennri vitneskju starfsmanna varnaraðila og Landsvaka. Varnaraðili hafi verið einn helsti viðskiptabanki Baugs en þrátt fyrir þá vitneskju hafi verið ákveðið að framlengja víxlana með nýjum útgáfum, BAUG ISK 07 3 og BAUG ISK 07 4 og krefjast trygginga. Til tryggingar fékk Landsvaki allt hlutafé Baugs í BG Holding, dótturfélagi Baugs, að nafnvirði 1.273.374 GBP.

Þá telur sóknaraðili liggja fyrir samkvæmt Rannsóknarskýrslu Alþingis, sem út kom árið 2010, að FL Group (nú Stoðir) hafi ekki getað greitt af skuldabréfi í eigu sjóðsins. Varnaraðila hafi sem helsta viðskiptabanka FL Group og tengdra aðila verið ljóst að fjárhagsstaða FL Group var afar slæm undir árslok 2007. Engu að síður hafi sjóðurinn aukið við fjárfestingar sínar í félaginu. Sjóðurinn hafi endurfjármagnað skuldabréf tengd félaginu í lok árs 2007 með heildarkaupum á tveimur skuldabréfaútgáfum félagsins, FL 07 1 og FL 08 1. Flokkarnir hafi báðir verið óskráðir. Til marks um að Landsvaki mat fjárhagsstöðu FL Group ótrausta sé krafa hans um að FL Group setti tryggingar til greiðslu skuldabréfa sjóðsins á hendur félaginu. Hafi Landsvaki fengið öll hlutabréf í Tryggingamiðstöðinni, að nafnverði einn milljarður króna, og skuldabréfaútgáfuna Landic 08 5 sem átti að innihalda rétt til breytinga í hlutabréf í félaginu. Sóknaraðili telur að engin viðskiptaleg forsenda hafi getað verið fyrir viðskiptum af þessu tagi og sé vafalítið að stjórnendur varnaraðila, sem sjálfir settust í stjórn Landsvaka í ágúst 2008, hafi knúið fram þessi skuldabréfakaup, til ávinnings fyrir varnaraðila og tengda aðila. En ætla megi að andvirði skuldabréfanna hafi farið til þess að greiða skuldir við varnaraðila.

Sóknaraðili vísar einnig til þess að vorið 2008 hafði skuldatryggingarálag íslensku bankana hækkað verulega. Töluverður hluti eigna sjóðsins hafi verið skuldabréf fjármálafyrirtækja, þar með talin innlán og varnir og önnur skuldabréf. Í byrjun júlí 2008 hafi framangreint tryggingarálag á Kaupþing og Landsbankann verið komið yfir 1000 punkta, sem sýni að mat markaðarins var það að áhætta tengd bönkunum væri veruleg, enda hækkaði álagið töluvert á stuttum tíma. Því hafi ekki verið samræmi milli þess mats sem markaðsaðilar lögðu á félögin og þess hvernig Landsvaki, undir eftirliti og á ábyrgð varnaraðila, mat þau í eignasafni sínu.

Enn fremur hafi í Vegvísi Landsbankans, dags. 20. júní 2008, verið að finna frétt um slæmt uppgjör Eimskips hf. á öðrum ársfjórðungi 2008, sem var kunngjört 18. júlí 2008. Í frétt frá Kauphöll Íslands frá 10. september 2008 kom fram að verulegar líkur væru á því að ábyrgð að fjárhæð 26 milljarðar myndi falla á Eimskip frá 11. september 2008. Samkvæmt stöðulistum átti sjóðurinn skuldabréf útgefin af Eimskip hinn 30. júní 2008 að matsvirði samtals 4.022,5 milljónir króna, hinn 31. júlí sama ár að matsvirði 4.080,5 milljónir króna, hinn 31. ágúst sama ár að matsvirði 4.139,4 milljónir króna og hinn 30. september sama ár að matsvirði 4.196,8 milljónir króna. Þar hafi allan tímann verið um sömu skuldabréfin að ræða, úr flokkunum EIM 04 1 og HFEIM 07 2.

Áður hafði Samson eignarhaldsfélag gefið út yfirlýsingu hinn 10. ágúst 2008 um að félagið myndi ábyrgjast framangreint lán, sem félli væntanlega á Eimskip hf. Samson óskaði hins vegar eftir greiðslustöðvun þann 7. október 2008 vegna falls varnaraðila. Þá liggi fyrir að félögin Exista hf., Atorka Group hf. og Straumur-Burðarás fjárfestingabanki hf. lækkuðu í verði á bilinu 50% til 85% frá 1. janúar til 3. október 2008 og miklir fjárhagsörðuleikar hrjáðu félögin á því ári.

Sóknaraðili ítrekar að gengi hlutdeildarskírteina sjóðsins hafi hækkað allan tímann frá stofnun og þar til sjóðnum var slitið. Af sölu- og innlausnargengi sjóðsins og kynningargögnum til fjárfesta hafi engan veginn mátt álykta sem svo að skuldarar sjóðsins væru í vanda. Þrátt fyrir alvarlegar vísbendingar um aukna skuldaráhættu, hafi skráð virði bréfa í sjóðnum ekki verið fært niður í samræmi við líklegt markaðsverð í ljósi framkominna upplýsinga. Megi sjá af stöðulistum sjóðsins að slíkt hafi ekki komið fram í mati á fjármálagerningum sem útgefnir voru af ofangreindum félögum. Þá verði heldur ekki séð að tilgreind vitneskja hafi haft áhrif á niðurfærslureikninginn, þrátt fyrir lagaskyldu til þess við aðstæður sem þessar.

Með hliðsjón af þessu telur sóknaraðili ljóst að starfsmenn varnaraðila og Landsvaka hafi með saknæmum og ólögmætum hætti vanrækt að meta eignir sjóðsins og með þeim afleiðingum að sölu- og innlausnargengi sjóðsins hafi verið allt of hátt. Þá hafi þeir einnig vanrækt að haga niðurfærslu vegna tapsáhættu þannig að hún endurspeglaðist í sölu - og innlausnargengi hlutdeildarskírteinanna.

Sóknaraðili telur að forsvarsmönnum Landsvaka hafi, undir eftirliti og á ábyrgð varnaraðila, borið að loka fyrir innlausnir eða fresta þeim þegar ljóst var að verulegar innlausnir voru í sjóðnum. Samkvæmt upplýsingum frá varnaraðila í opnu bréfi til hlutdeildarskírteinishafa, dags. 10. desember 2008, hafi innlausnir úr sjóðnum verið samtals 57 milljarðar króna í vikunni 29. september til 3. október 2008. Heildarfjármunir sjóðsins hafi farið úr 160 milljörðum króna í 103 milljarða króna á þessu tímabili.

Með tilliti til markaðsaðstæðna á þessum tíma og verulegra innlausna úr sjóðnum telur sóknaraðili að tilefni hafi verið til að loka fyrir viðskipti með hlutdeildarskírteini í sjóðnum ekki síðar en um miðjan ágúst 2008 til að tryggja jafnræði og hagsmuni hlutdeildarskírteinishafa í heild sinni. Hafi áhlaup á sjóðinn í raun hafist um miðjan ágúst 2008 og þá orðið tilefni til aðgerða. Um heimildir til þess vísar sóknaraðili til 10. gr. reglna um sjóðinn, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 30/2003. Með því að heimila innlausnir með jafn ótakmörkuðum hætti og raun bar vitni hafi hagsmunir allra hlutdeildarskírteinishafa ekki verið hafðir að leiðarljósi eða jafnræðis gætt, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 30/2003.

Forsvarsmönnum sjóðsins hafi mátt vera ljóst að innlausnirnar myndu skaða eigendur hlutdeildarskírteina, þar með talið sóknaraðila. Umrædda vitneskju verði einnig að skoða í því ljósi að undirliggjandi eignir sjóðsins voru of hátt skráðar vegna saknæmrar vanrækslu varnaraðila og hafi þar af leiðandi verið enn meiri hætta á tjóni hlutdeildarskírteinishafa við miklar innlausnir úr sjóðnum.

Sóknaraðili telur að þegar ljóst hafi orðið að verulegar innlausnir væru í sjóðnum á áðurnefndu tímabili hafi forsvarsmönnum sjóðsins í öllu falli borið að hlutast til um að selja undirliggjandi eignir hans í réttum hlutföllum. Auðseljanlegar eignir hafi verið seldar á kostnað annarra eigna, eins og t.d. skuldabréfa sem útgefin voru af félögum sem skilgreind voru í útboðslýsingu sjóðsins sem „önnur skuldabréf“. Hlutfall þessara eigna hafði hækkað um rúm 10% í eignasafni sjóðsins vegna áðurnefndra innlausna vikuna fyrir lokun sjóðsins. Þetta hafi leitt til þess að verðminni eignir hafi verið til skiptanna milli þeirra sem áttu hlutdeildarskírteini í sjóðnum eftir lokun innlausna. Ofan á það bættist svo niðurfærsla á virði hlutdeildarskírteina þar sem gengi hafði verið of hátt skráð.

Með hliðsjón af umfjöllun um brot varnaraðila á óhæði megi þar að auki leiða að því sterkar líkur að hagsmunir skuldara sjóðsins hafi vegið þyngra en hagsmunir hlutdeildarskírteinishafa vegna þeirra eignartengsla sem voru á milli varnaraðila og stærstu skuldara sjóðsins. Í ljósi brota á óhæði og verulegs saknæmis varnaraðila beri varnaraðili alla sönnunarbyrði um um hið gagnstæða.

 

2) Landsvaki hf. var ekki óháður gagnvart varnaraðila

Sóknaraðili byggir enn fremur á því að Landsvaki hf. hafi sem rekstrarfélag hvorki verið óháð móðurfélagi sínu né vörslufélagi, en varnaraðili hafi verið hvoru tveggja. Í ákvæði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 20/2003 felist að rekstrarfélag sé óháð í störfum sínum og hafi ætíð hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi. Brestur á þessu hafi verið saknæm háttsemi og stór orsök fyrir tjóni sóknaraðila.

Sóknaraðili vísar til þess að markmiðið með aðskilnaði á milli daglegs reksturs verðbréfasjóða og umsjár með þeim eignum sem sjóðurinn hefur fjárfest í sé að vernda eigendur hlutdeildarskírteina. Því markmiði verði einfaldlega ekki náð ef óhæðis er ekki gætt. Samkvæmt 20. gr. laga nr. 30/2003 beri vörslufyrirtæki eins og varnaraðila að stuðla að því að fjárfest sé í samræmi við ákvæði laga og reglna verðbréfasjóða og virt séu fyrirmæli rekstrarfélags um ráðstöfun eignanna nema þau séu andstæð lögum og samþykktum. Þá skuli vörslufyrirtæki fylgjast með því að sala hlutdeildarskírteina, innlausn þeirra og útreikningur á innlausnarverði fari fram í samræmi við bæði ákvæði laga og reglna viðkomandi sjóðs.

Sóknaraðili telur að sjálfstæði Landsvaka gagnvart varnaraðila hafi verið lítið sem ekkert. Þetta hafi skýrast komið fram þegar bankastjórar varnaraðila tóku sæti í stjórn Landsvaka 28. ágúst 2008. Áður höfðu yfirmenn í varnaraðila stjórnað sjóðnum. Telur sóknaraðili augljóst að afleiðing þessa skorts á óhæði hafi verið sú að fjárfestingar peningamarkaðssjóðsins hafi verið að meginstefnu í verðbréfum og innlánum hjá varnaraðila sem og félögum sem tengdust honum eða eigendum hans. Þar að auki hafi öllu eftirliti verið verulega ábótavant, og það hafi leitt til tjóns sóknaraðila.

Að mati sóknaraðila birtist skorturinn á sjálfstæði hvað skýrast þegar stjórn Landsvaka er skoðuð. Árin 2005–2008 sátu í stjórn Landsvaka Stefán H. Stefánsson, formaður stjórnar, en meðstjórnendur voru Erla H. Aðalgeirsdóttir, eiginkona hans og yfirmaður bókhaldssviðs Landsbankans, og Þórir Örn Ingólfsson, yfirmaður áhættustýringar Landsbankans. Varamenn voru Gunnar Viðar, Hermann Jónasson og Tryggvi Tryggvason, allir starfsmenn Landsbankans.

Frá 20. ágúst 2008 og fram að falli varnaraðila hafi stjórn Landsvaka verið skipuð svo: Stefán H. Stefánsson formaður og bankastjórar varnaraðila, Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson. Varamenn voru þeir Þórir Örn Ingólfsson, Gunnar Viðar og Gunnar Thoroddsen, allir starfsmenn varnaraðila. Sóknaraðili byggir á því að allir framangreindir stjórnarmenn hafi verið fyrirsvarsmenn varnaraðila í skilningi 1. tl. 2. mgr. 55. gr. laga nr. 161/2002. Óhæðið hafi því verið lítið sem ekkert.

Sóknaraðili telur að með því að gæta ekki að óhæði milli sín og Landsvaka hafi varnaraðili ekki stuðlað að eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum í skilningi 19. gr. laga nr. 30/2003. Slíkt hafi óneitanlega haft áhrif á ákvarðanir Landsvaka varðandi varnaraðila, tengda aðila eða samkeppnisaðila, eins og nefnt sé hér að ofan. Ekki verði séð í ljósi stöðu framangreindra stjórnarmanna að þeir hafi getað talist hlutlausir þegar ákvarðanir varðandi varnaraðila, tengda aðila eða samkeppnisaðila voru teknar. Bendir sóknaraðili á að eignir sjóðsins hafi aukist til muna í skuldabréfum útgefnum af varnaraðila og tengdum félögum á árinu.

Sóknaraðili vísar einnig til þess að varnaraðili hafi verið einn helsti viðskiptabanki Baugs, FL Group og Eimskips hf. Eign sjóðsins í fyrrgreindu félögunum tveimur hafi aukist verulega frá miðju ári 2007, eða á sama tíma og lausafjárþurrð gerði vart við sig á erlendum mörkuðum. Eignir sjóðsins tengdar Baugi hafi aukist frá ársbyrjun 2007 úr rúmum 6 milljörðum króna í rúma 11 milljarða króna á árinu 2007. Fjárfestingin hafi verið í þremur bréfum sem svo komu á gjalddaga í árslok 2008. Fjárfestingar sjóðsins í Baugi hafi svo enn aukist með áðurnefndum kaupum á BAUG ISK 07 2, 3 og 4, sem voru skuldabréf útgefin af Baugi til varnaraðila. Þetta hafi allt verið gert þrátt fyrir áðurnefnda vitneskju Landsvaka og varnaraðila um greiðsluvanda Baugs.

Sóknaraðili kveður sömu þróun hafa átt sér stað varðandi eignir í FL Group. Sjóðurinn hafi endurfjármagnað skuldabréf tengd félaginu í lok árs 2007 með heildarkaupum á tveimur skuldabréfaútgáfum. Skráningarlýsing hafi kveðið á um að flokkarnir skyldu skráðir í kauphöll en þrátt fyrir það voru þeir óskráðir. Ljóst sé að Landsvaki mat stöðu FL Group ekki trausta á þessu tímabili þar sem sjóðurinn óskaði eftir tryggingum í lok árs 2007. Félögin hafi því haft greiðan aðgang að endurfjármögnun hjá sjóðnum. Einnig sé ljóst að þegar herti að fjármögnun Landsbankans jókst fjárfesting sjóðsins í bréfum bankans sem og innlánum. Hafi það verið gert á kostnað eignadreifingar þar sem ríkisbréf viku fyrir fjárfestingum í bankanum.

Sóknaraðili vísar einnig til þess að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis komi fram að á fundi lánanefndar varnaraðila 9. janúar 2008 hafi m.a. verið lagt fram erindi um tvær stórar lánveitingar sem samþykktar voru milli funda. Annars vegar var um að ræða 28 milljarða króna kúlulán til BG Holding ehf. Viðkomandi lán hafi verið veitt með veði í ýmsum hlutabréfum félagsins. Í greinargerð með lánveitingunni, dags. 19. desember 2007, sem m.a. var undirrituð af Sigurjóni Þ. Árnasyni, bankastjóra Landsbankans, kemur fram að lántakandi óski eftir láninu til endurfjármögnunar á útistandandi lánum Baugs auk þess sem óskað sé eftir því að „Landsbankinn taki þátt í 12 ma. kr. skuldabréfaútboði og sjóðir bankans taki þátt sem fjárhæðinni nemur“.

            Í greinargerðinni komi jafnframt fram að varnaraðili taki veð í eignum BG Holding og að sjóðirnir fari á annan veðrétt á eftir varnaraðila. BG Holding hafi því verið lánaðir 40 milljarðar króna. Í öðru fylgiskjali með lánveitingunni, svokölluðu Terms sheet, dags. 6. desember 2007, kemur fram að varnaraðili fallist á að fjármagna umrædd lán og að 12 milljarðar króna muni koma frá sjóðunum, og er þá átt við sjóði Landsvaka. Samkvæmt þessu hafi starfsmenn varnaraðila stýrt sjóðnum eins og hann væri útlánastofnun undir regnhlíf bankans en ekki sjálfstæður sjóður í eigu eigenda hlutdeildarskírteina, en það sé augljóst brot á regluverki og skyldum Landsvaka sem rekstrarfélags og varnaraðila sem vörsluaðila sjóðsins.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar sé einnig fjallað um 18 milljarða króna kúlulán varnaraðila til FL/Stoða. Í bókun fundargerðar lánanefndarinnar, dags. 9. janúar 2008, komi fram að til tryggingar verði 99,05% hlutafjár í Tryggingamiðstöðinni, eins og áður hefur verið nefnt. Þar komi einnig fram „skilyrði um skuldafjárútboð“ eins og það er kallað í fundargerðinni. Skuldabréfið FL 07 1 hafi verið í eignasafni sjóðsins í lok desember 2007. Bréfin hafi verið skráð að andvirði 12 milljarðar króna með handveði í öðrum veðrétti í framangreindum eignarhlut í Tryggingamiðstöðinni. Í handveðsyfirlýsingunni komi fram að um sé að ræða veð fyrir „skuldabréfum upphaflega útgefnum til Landsbanka Íslands hf. en sem síðar hafa verið framseld til verðbréfa- og fjárfestingasjóða Landsvaka hf“. Einnig hafi verið kveðið á um að ef Landsvaki framseldi bréfin til þriðja aðila félli veðréttur niður. Varnaraðili hafi annast útgáfu skuldabréfanna.

Með hliðsjón af framangreindu telur sóknaraðili ótvírætt að varnaraðili hafi handstýrt fjárfestingum sjóðsins með eigin hagsmuni í huga án þess að skeyta um hagsmuni sóknaraðila eða annarra hlutdeildarskírteinishafa. Ákvörðun um kaup sjóðsins á verðbréfum útgefnum af varnaraðila Baugi, FL Group, Eimskip, Samson og fleiri tengdum aðilum hafi bersýnilega verið tekin innan varnaraðila, með hagsmuni hans í huga. Fundargerðir sem vitnað er til sýni svart á hvítu alvarlega bresti í óhæði Landsvaka við rekstur sjóðsins og inngrip og afskipti stjórnenda varnaraðila af rekstri og ákvörðunum um málefni sjóðsins staðfesti að varnaraðili hafi notað sjóðinn til að takmarka stórar áhættuskuldbindingar gagnvart einstökum skuldurum bankans.

Endurfjárfesting í bréfum félaga í greiðsluvanda sýni enn fremur að Landsvaki undir stjórn og eftirliti varnaraðila hafi leynt greiðsluvanda í stað þess að senda skýr skilaboð til markaðarins, t.d. í formi lækkunar á gengi sjóðsins. Telur sóknaraðili að slíkt hafi falið í sér svik gagnvart þáverandi og væntanlegum hlutdeildarskírteinishöfum. Einnig sé ljóst að sjóðurinn hafi verið notaður til að endurfjármagna lán stórra viðskiptavina varnaraðila á þeim tíma er augljós vitneskja hafi verið til staðar um greiðsluvanda þeirra.

Í þessu samhengi bendir sóknaraðili jafnframt á að ekki hafi legið fyrir samþykki Fjármálaeftirlitsins fyrir því að Landsvaki útvistaði áhættustýringu sína til starfsmanna varnaraðila, eins og skylt sé samkvæmt 18. gr. laga nr. 30/2003. Umrætt fyrirkomulag milli varnaraðila og Landsvaka hafi verið í andstöðu við 1. mgr. 8. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, þar sem mælt er fyrir um að fjármálafyrirtæki skuli gera allar tiltækar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að hagsmunaárekstrar skaði hagsmuni viðskiptavina þess, sbr. og 19. gr. reglugerðar nr. 995/2007, um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja.

 

3) Markaðsmisnotkun varnaraðila og stjórnenda hans sem hafi með óeðlilegum hætti haft áhrif á virði undirliggjandi eigna sjóðsins sem tengdust varnaraðila

Sóknaraðili vísar til þess að bankastjóri, stjórnendur og lykilstarfsmenn varnaraðila hafi verið dæmdir fyrir stórfellda markaðsmisnotkun, sbr. dóm Hæstaréttar frá 4. febrúar 2016 í málinu nr. 842/2014. Misnotkunin hafi lýst sér í því að þeir hafi með tilboðum og viðskiptum fyrir eigin reikning varnaraðila með hlutabréf útgefin af bankanum sjálfum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í viðskiptakerfi kauphallarinnar, á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 3. október 2008, tryggt óeðlilegt verð og búið til verð á hlutabréfum sem gáfu og/eða voru líkleg til að ranga og misvísandi mynd af eftirspurn og verði hlutabréfanna.

Sóknaraðili telur að markaðsmisnotkunin hafi haft áhrif á verð fjármálagerninga varnaraðila á skipulegum og óskipulegum verðbréfamarkaði. Samkvæmt opinberum gögnum um sjóðinn hafi töluverður hluti eigna verið hlutabréf og kröfuréttindi á hendur varnaraðila sjálfum. Augljóst sé að verð á hlutabréfum og verðbréfum útgefnum af varnaraðila sem sjóðurinn átti þann 30. maí 2008 hafi verið allt of hátt. Það sama hafi gilt um kröfur sjóðsins á hendur aðilum sem töldust vera tengdir varnaraðila í skilningi laga um fjármálafyrirtæki.

 

4) Ábyrgð varnaraðila á því að Landsvaki hf. fylgdi í raun ekki eiginlegri fjárfestingarstefnu sem hafi aukið áhættu sjóðsins til muna á kostnað öruggari fjárfestingarkosta.

 

Sóknaraðili byggir á því að Landsvaki hafi ekki fylgt neinni eiginlegri fjárfestingarstefnu í samræmi við lög nr. 30/2003. Ekki sé hægt að tala um eiginlega fjárfestingarstefnu þegar heimildir eru jafn rúmar og raun hafi borið vitni í tilviki Landsvaka, undir eftirliti varnaraðila. Í töflu í útboðslýsingu sjóðsins sé tilgreint hve stórt hlutfall framangreindir bréfaflokkar megi vera af heildarfjárfestingum sjóðsins. Hlutföllin eru á bilinu 0–100% fyrir alla flokka nema Skuldabréf fjármálafyrirtækja, þar sem bilið er 0–80%, og önnur skuldabréf, þar sem bilið má vera 0–50%.

Þótt talið verði að fjárfestingar sjóðsins hafi verið innan þessa víða ramma telur sóknaraðili að umrædd fjárfestingarstefna geti í raun aldrei talist vera eiginleg fjárfestingarstefna í skilningi laga nr. 30/2003. Þá telur sóknaraðili að fjárfestingarstefnan, eða réttara sagt stefnuleysi, hafi verið andstæð góðum viðskiptaháttum og hagsmunum hlutdeildarskírteinishafa og eins út frá áhættu, sérstaklega seljanleikaáhættu, og virkri verðmyndun

Sóknaraðili telur að sú staðreynd að sjóðurinn keypti skuldabréf og jafnvel heildarútgáfur skuldunauta varnaraðila í heilu lagi inn í sjóðinn, og sem vafi lék á um greiðslugetu þannig að teknar voru tryggingar, geti á engan hátt samrýmst heilbrigðri og eðlilegri fjárfestingarstarfsemi sjóðsins. Um verulega áhættusamar fjárfestingar hafi verið að ræða, sem hafi verið í andstöðu við markmið sjóðsins og lýsingu hans.

 

Töluleg kröfugerð

Sóknaraðili byggir fjárkröfu sína aðallega á því að varnaraðili greiði honum þá fjárhæð sem sjóðurinn hafði lofað í auglýstu innlausnargengi á þeim degi er sjóðnum var lokað 3. október 2008, sem var 31,477. Það gengi hafi verið ákveðið á grunni mats varnaraðila á eignum sjóðsins og jafngilt ábyrgðaryfirlýsingu hans til sóknaraðila og annarra skírteiniseigenda um greiðslu við innlausn.

Sóknaraðili vísar til þess að 3. október 2008 hafi hann átt 27.376.613 einingar í sjóðnum og innlausnarvirði þeirra þá numið 861.733.647 kr. Sóknaraðili hafi hins vegar aðeins fengið greiddar 592.457.282 krónur þann 29. október 2008, eða sem svaraði innlausnargengi 21,641. Hafi því vantað 269.276.365 krónur upp á að sóknaraðili fengi hlutdeildargreiðslu í samræmi við yfirlýsingu sjóðsins sem grundvallaðist á mati varnaraðila á eignum sjóðsins.

Aðalkrafan sundurliðast því með þeim hætti að mismunur á innlausnarverði 3. október 2008 og innlausnargreiðslu 29.október 2008 nemi 269.276.365 krónum en dráttarvextir frá 6. október 2008 til 22. apríl 2009 samsvari 37.448.115 krónum. Samtals nemi aðalkrafan því 306.724.480 krónum.

Til vara byggir sóknaraðili kröfu sína tölulega á því að fjártjón hans nemi þess hluta kaupverðs hlutdeildarskírteina sem hann fékk ekki til baka við innlausn skírteina sinna í kjölfar lokunar sjóðsins. Hann eigi að vera eins settur og kaup á umræddum hlutdeildarskírteinum hefðu aldrei átt sér stað. Umfang tjónsins sé því mismunur á samanlögðu kaupverði allra hlutdeildarskírteina sem sóknaraðili keypti í sjóðnum frá 30. maí 2008 og þeim innlausnargreiðslum sem sóknaraðili fékk úr sjóðnum.

Varakrafan sundurliðast með þeim hætti að kaupverð hlutdeildarskírteina hafi verið 1.825.910.239 kr., og innlausnarverð hlutdeildarskírteina 1.612.046.792 kr. Mismunurinn á þessu nemi 213.863.447 kr. Þegar við bætist dráttarvextir frá 6. október 2008 til 22. apríl 2009 að fjárhæð 29.741.871 kr. nemi varakrafan samtals 243.605.318 kr.

 

Aðild

Sóknaraðili vísar um aðild sína til þess að hann hafi verið meðal hlutdeildarskírteinishafa í peningamarkaðssjóðnum sem Landsvaki hf. starfrækti. Eign sóknaraðila hafi því verið skráð hjá varnaraðila á nafn og kennitölu sóknaraðila.

Um aðild og ábyrgð varnaraðila vísar sóknaraðili m.a. til 1. mgr. 22. gr., sbr. 20. gr., laga nr. 20/2003. Samkvæmt 22. gr. laganna beri vörslufyrirtæki, þ.e. varnaraðili í þessu tilviki, ábyrgð gagnvart eigendum hlutdeildarskírteina vegna tjóns sem þeir kunna að verða fyrir og rekja má til ásetnings eða gáleysis starfsmanna vörslufyrirtækisins við framkvæmd verkefna þess samkvæmt 20. gr. sömu laga. Sóknaraðili vísar einnig til 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 792/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Þar kemur fram að vörslufélag skuli hafa eftirlit með því að virði fjármálagerninga fjárfestingarsjóðs, sem er ekki á skipulögðum verðbréfamarkaði, skuli endurspegla raunverulegt virði.

Um frekari ábyrgð og aðild varnaraðila vísar sóknaraðili til þess að varnaraðili hafi haft með höndum sölu og markaðssetningu vegna peningamarkaðssjóðsins á grundvelli útvistunarsamnings við Landsvaka. Þá hafi varnaraðili annast eftirlit með starfrækslu sjóðsins, auk þess að sjá um innri endurskoðun Landsvaka.

Þá byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi í raun haft svo mikil ítök og yfirráð yfir dótturfélagi sínu Landsvaka að sjálfstæði hins síðarnefnda félags hafi í raun ekkert verið og megi því líta svo á að um eitt félag hafi verið að ræða. Varnaraðili verði samsamaður dótturfélagi sínu og gerður ábyrgur fyrir athöfnum dótturfélagsins og þeim saknæmu ákvörðunum sem dótturfélagið hafi tekið, en aðeins fyrir tilstilli og vilja varnaraðila í krafti þeirra eigna- og stjórnunarlegu yfirburða sem hann hafi haft yfir því. Um slíka ábyrgð hluthafa á félagi megi að hluta til vísa til Hæstaréttardóms frá 1993, bls. 1653.

 

Málsástæður varnaraðila

Varnaraðili mótmælir öllum málsástæðum sóknaraðila til stuðnings kröfum hans sem röngum, ósönnuðum og/eða vanreifuðum og krefst þess að kröfum sóknaraðila í málinu verði hafnað, sbr. nánar eftirfarandi málsástæður varnaraðila sem eiga við um málatilbúnað sóknaraðila í heild sinni, eftir því sem við getur átt.

 

Um aðild að málinu.

Varnaraðili byggir á því að aðild til sóknar og varnar í málinu sé með öllu vanreifuð í málatilbúnaði sóknaraðila og beri að hafna kröfum sóknaraðila þegar af þeirri ástæðu og/eða með vísan til aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Varnaraðili bendir á að sóknaraðili vísi í greinargerð sinni til þess að hann hafi verið á meðal hlutdeildarskírteinishafa í Peningabréfum Landsbankans ISK sem Landsvaki hf. starfrækti. Eign sóknaraðila hafi verið skráð hjá varnaraðila á nafn og kennitölu sóknaraðila. Í greinargerð sóknaraðila sé hins vegar hvergi vikið að því sem greinir í kröfulýsingu, að sóknaraðili hafi skráð hinn umþrætta eignarhlut, á grundvelli safnskráningar samkvæmt 12. gr. laga nr. 108/2007, á nafn, kennitölu og sem eign hvers og eins viðskiptavinar sóknaraðila í kerfum aðilans. Á þeim grundvelli hafi því verið lýst í kröfulýsingu sóknaraðila að hin umþrætta krafa í málinu væri gerð fyrir hönd þeirra viðskiptavina, þ.e. eiginlegra eigenda hlutdeildarskírteina.

Varnaraðili vísar til þess að af tilgreindum málatilbúnaði í kröfulýsingu sóknaraðila og framlögðum gögnum aðilans, sbr. „yfirlit yfir hlutdeildarskírteinishafa“ og „viðskiptanótur hlutdeildarskírteinishafa“ verði að leggja til grundvallar að sóknaraðili hafi fjárfest fyrir hönd eigin viðskiptavina í hinum umþrættu hlutdeildarskírteinum, þ.e. sem vörsluaðili og á grundvelli eignastýringar fyrir viðskiptavini. Varnaraðili leggur áherslu á að hann átti enga aðkomu að þeirri eignastýringu sóknaraðila og geti eðli málsins samkvæmt ekki borið ábyrgð á henni gagnvart viðskiptavinum aðilans. Þá beri að leggja til grundvallar að um safnskráningu fjármálagerninga hafi verið að ræða og að þeir hafi verið skráðir á safnreikning hjá sóknaraðila.

Varnaraðili byggir á því að samkvæmt 12. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og reglugerð nr. 706/2008, um safnskráningu og varðveislu fjármálagerninga á safnreikningi, hafi viðskiptavinir sóknaraðila verið eigendur hinna umþrættu hlutdeildarskírteina þar sem þeir hafi notið efnahagslegs ávinnings og borið fjárhagslega áhættu af fjármálagerningunum þótt þeir kunni að hafa veitt sóknaraðila, sem vörsluaðila, heimild til að koma fram í eigin nafni og vera skráður fyrir þeim að forminu til. Þessir fjármálagerningar hafi verið skráðir á nafn viðskiptavina á safnreikning í vörslu sóknaraðila. Það sé eðli safnskráningar að vörsluaðili fjármálagerninga er ekki eigandi þeirra heldur eru þeir aðeins varðveittir á safnreikningi vörsluaðilans.

Varnaraðili vísar til þess að það sé með öllu óljóst hvort sóknaraðili hafi lýst hinni umþrættu kröfu á hendur varnaraðila í eigin nafni sem kröfuhafi eða hvort hann hafi lýst kröfunni í þágu fyrrum hlutdeildarskírteinishafa sem áttu slíka fjármálagerninga á safnreikningi hjá sóknaraðila. Þannig sé raunar ekkert tilgreint í greinargerð sóknaraðila til héraðsdóms um aðild sóknaraðila að málinu eða heimild hans til að standa að málarekstrinum, þ.e hvort hann komi fram í eigin nafni sem kröfuhafi eða hvort hann komi einungis fram í umboði þeirra sem áður hafi átt hlutdeildarskírteini. Telur varnaraðili sóknaraðila verða að bera hallann af þessum óskýrleika í málatilbúnaði sínum. Sóknaraðili verði að sýna fram á með hvaða hætti krafan stofnaðist og á hvaða grundvelli hún hvíli, en að mati varnaraðila hafi sóknaraðila ekki lánast sú sönnunarfærsla.

Varnaraðili telur að engin heimild sé fyrir því í lögum nr. 21/1991 eða lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að meintur kröfuhafi geti veitt þriðja aðila umboð til að lýsa kröfu í eigin nafni við gjaldþrotaskipti eða slit fjármálafyrirtækis og halda uppi hagsmunum hins eiginlega kröfuhafa í eigin nafni fyrir dómstólum. Vísar varnaraðili til þess að slík heimild verði hvorki leidd af 12. gr. laga nr. 108/2007 né reglugerð nr. 706/2008. Þá vísar varnaraðili til þess að á engan hátt megi ráða af greinargerð sóknaraðila til héraðsdóms hvernig aðild að kröfunni sé háttað, þ.e. hver sé hinn eiginlegi kröfuhafi og samkvæmt því meintur tjónþoli. Í samræmi við það telur varnaraðili aðild sóknaraðila að málinu með öllu vanreifaða og beri þegar af þeirri ástæðu að hafna öllum kröfum sóknaraðila.

Komi sóknaraðili fram í eigin nafni sem kröfuhafi vegna skaðabótakröfunnar sem deilt er um í málinu vísar varnaraðili til þess að ekkert liggi fyrir um það hvort einstakir hlutdeildarskírteinishafar hafi framselt meintar kröfur sínar á hendur varnaraðila til sóknaraðila eða með hvaða hætti sóknaraðili leiði á annan hátt meintan rétt sinn á hendur varnaraðila frá þeim aðilum. Samkvæmt safnskráningu hafi það verið viðskiptavinir sóknaraðila sem nutu efnahagslegs ávinnings og báru fjárhagslega áhættu á undirliggjandi fjármálagerningum.

Í ljósi þessa telur varnaraðili að sóknaraðili hafi ekki getað orðið fyrir tjóni vegna þess sakarefnis sem mál þetta tekur til. Þá verði ekki annað ráðið af framlögðum gögnum en að fullnaðaruppgjör hafi farið fram á milli sóknaraðila og viðkomandi viðskiptavina hans með því hafi réttarsambandi þeirra aðila verið lokið að þessu leyti. Beri því að hafna öllum kröfum sóknaraðila með vísan til aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Varnaraðili mótmælir málatilbúnaði sóknaraðila um að hann eigi aðild til varnar með vísan til 1. mgr. 22. gr., sbr. 20. gr., laga nr. 30/2003, 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 792/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, útvistunarsamnings varnaraðila við Landsvaka hf. sem og til þess að samsama hafi átt Landsbanka Íslands hf. og Landsvaka hf. Telur varnaraðili að í málatilbúnaði sóknaraðila sé lítill sem enginn greinarmunur gerður á fjármálafyrirtækjunum Landsvaka hf. sem var samningsaðili sóknaraðila, og viðskiptavinum sóknaraðila, vegna þeirra viðskipta sem deilt er um í málinu.

Í samræmi við það gerir sóknaraðili engan reka að því að útlista hvaða háttsemi hann telji falla undir ábyrgðarsvið Landsvaka hf. annars vegar og Landsbanka Íslands hf. hins vegar. Virðist sem sóknaraðili telji engu skipta þó um hafi verið að ræða tvö sjálfstæð fjármálafyrirtæki. Að hans mati eigi varnaraðili að bera ábyrgð á meintu tjóni sóknaraðila hvort sem því hafi verið valdið í starfsemi Landsvaka hf. eða Landsbanka Íslands hf., svo sem greina megi af því sem segir í greinargerð sóknaraðila þess efnis að gera verði varnaraðila ábyrgan fyrir athöfnum Landsvaka hf. og þeim meintu saknæmu ákvörðunum sem dótturfélagið hafi tekið, án þess að gerð sé frekari grein fyrir því á hverju slík ábyrgð sé byggð. Er þessu alfarið mótmælt enda telur varnaraðili að slíkt eigi ekki við rök að styðjast.

Varnaraðili bendir á að engu skipti í þessu sambandi þótt Landsvaki hf. hafi verið dótturfélag Landsbanka Íslands hf. og vísar til þess að hlutafélög og einkahlutafélög teljist ekki vera sami aðilinn í skilningi reglna skaðabótaréttarins þótt þau tilheyri sömu samstæðu, þannig að eitt sé dótturfélag annars eða móðurfélag. Byggir varnaraðili á því að takist sóknaraðila sönnun þess að hann hafi orðið fyrir bótaskyldu tjóni sem rakið verði til starfsemi Landsvaka hf. verði slíkt tjón ekki fellt undir bótaskyldu varnaraðila. Beri að hafna kröfum sóknaraðila á grundvelli vanreifunar og/eða aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Af þessu tilefni bendir varnaraðili á að ekki verði séð að sóknaraðili hafi lýst kröfu við slit Landsvaka ehf., sem eðlilegt hefði verið í ljósi málatilbúnaðar aðilans, m.a. til þess að takmarka meint tjón hans og til þess að koma að kröfu gagnvart viðsemjanda sóknaraðila vegna viðskipta með peningabréf

 

Almennt um bótagrundvöll krafna sóknaraðila, meint ólögmæti rekstrarfyrirkomulags og óhæði.

Varnaraðili mótmælir málatilbúnaði sóknaraðila um að hann hafi með saknæmum og ólögmætum hætti vikið frá sjónarmiðum um óháða stýringu sjóðsins Peningabréf Landsbankans ISK og rýrt eignir hans með nánar tilgreindum fjárfestingum. Telur varnaraðili að ekki verði séð hvernig málsástæður sóknaraðila sem snúi að rekstri og fjárfestingarákvörðunum Landsvaka hf. geti átt við um varnaraðila og á hvaða grundvelli þær séu hafðar uppi gagnvart varnaraðila.

Þannig hafi það verið fjármálafyrirtækið Landsvaki hf. sem rak fjárfestingarsjóðinn sem ágreiningur málsins lýtur að en félagið hafi haft starfsleyfi sem rekstrarfélag í samræmi við lög nr. 30/2003. Réttarsamband sóknaraðila, og/eða viðskiptavina sóknaraðila, hafi að þessu leyti alfarið verið við Landsvaka hf., en ekki við Landsbanka Íslands hf. Landsbanki Íslands hf. hafi haft afmörkuð verkefni með höndum vegna sjóðsins á grundvelli útvistunarsamnings við Landsvaka hf. í samræmi við heimildir 18. gr. laga nr. 30/2003, og sem vörsluaðili samkvæmt 20. gr. laganna. Þau verkefni séu tæmandi talin í útvistunarsamningnum og í 20. gr. laga nr. 30/2003.

Varnaraðili bendir á að samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 30/2003 hafi útvistun verkefna frá rekstrarfélagi til annarra aðila engin áhrif á ábyrgð rekstraraðila gagnvart eigendum hlutdeildarskírteina. Þá komi fram í 1. mgr. 22. gr. laganna að vörslufyrirtæki beri ábyrgð gagnvart rekstrarfélagi og eigendum hlutdeildarskírteina vegna tjóns sem þeir kunni að verða fyrir ef slíkt tjón má rekja til ásetnings eða gáleysis starfsmanna vörslufyrirtækis við framkvæmd verkefna þess samkvæmt 20. gr. laganna.

Varnaraðili telur sóknaraðila ekki hafa sýnt fram á að slík staða sé uppi í þessu máli og mótmælir því að sóknaraðili hafi sýnt fram á að brotið hafi verið gegn ákvæðum 20. gr. nefndra laga og því síður að sýnt hafi verið fram á saknæma háttsemi starfsmanna Landsbanka Íslands hf. við framkvæmd á verkefnum vörsluaðila eða samkvæmt útvistunarsamningi. Bendir varnaraðili á að gerð sé grein fyrir verkaskiptingu Landsvaka hf. og Landsbanka Íslands hf. í samningi um útvistun, á bls. 1 í reglum um Peningabréf Landsbankans ISK, og á bls. 4–5 í útboðslýsingu. Framangreind gögn hafi verið aðgengileg eigendum hlutdeildarskírteina í samræmi við reglur sjóðsins.

Samkvæmt 3. gr. reglna um Peningabréf Landsbankans ISK hafi daglegur rekstur og framkvæmdastjórn sjóðsins verið í höndum Landsvaka hf. Í samræmi við það var tekið fram á bls. 5 í útboðslýsingu að Landsvaki hf. tæki ákvarðanir um fjárfestingar sjóðsins og annaðist framkvæmd hans. Samkvæmt því var það Landsvaki hf. sem tók ákvarðanir um fjárfestingar sjóðsins án nokkurrar aðkomu Landsbanka Íslands hf. Varnaraðili ítrekar að slíkum málsástæðum, þ.e. sem lúta að fjárfestingarákvörðunum og rekstri sjóðsins, verði ekki með réttu beint að honum enda beri hann ekki ábyrgð á ákvörðunum stjórnar og starfsfólks Landsvaka hf. Í því samhengi er jafnframt á það bent að sóknaraðili hefur á engan hátt gert grein fyrir því á hvaða lagastoð málsástæður þessar hvíla gagnvart varnaraðila auk þess sem þær eru að öðru leyti með öllu ósannaðar og vanreifaðar. Mótmælir varnaraðili því að ekki hafi verið farið að lögum í rekstri peningamarkaðssjóða og að það hafi orsakað meint tjón sóknaraðila. Þá byggir varnaraðili á því að allar fjárfestingar sjóðsins hafi rúmast innan fjárfestingarstefnu hans og laga nr. 30/2003.

Í samræmi við framangreint er því mótmælt sem greinir í málatilbúnaði sóknaraðila að varnaraðila hafi borið að gæta þess að allar fjárfestingarákvarðanir sjóðsins réðust af viðurkenndum sjónarmiðum um áhættudreifingu, áhættu- og eignamat verðbréfa, seljanleika verðbréfa og armslengd í viðskiptum. Þá er því mótmælt að varnaraðili hafi með saknæmum og ólögmætum hætti vikið frá sjónarmiðum um óháða stýringu sjóðsins og rýrt eignir hans, eins og haldið sé fram í málatilbúnaði sóknaraðila. Ítrekar varnaraðili að atriði sem lutu að fjárfestingarákvörðunum og rekstri sjóðsins voru á forræði og undir ákvörðunarvaldi Landsvaka hf. en ekki Landsbanka Íslands hf.

Um þetta efni vísar varnaraðili jafnframt til þess að í málatilbúnaði sóknaraðila sé vísað til meintra atvika og þátta í rekstri sjóðsins á árunum 2005–2008, einkum meintra fjárfestinga sjóðsins, og þess að breytingar hafi orðið á áherslum í fjárfestingum á tímabilinu, og af því dregnar ályktanir og settar fram staðhæfingar án þess þó að nokkur sönnunargögn séu lögð fram af hálfu sóknaraðila um það efni. Varnaraðili mótmælir málatilbúnaði sóknaraðila að þessu leyti í heild sinni sem ósönnuðum og byggir á því að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis hafi ekki sönnunargildi í málinu og því verði efni hennar ekki lagt til grundvallar við úrlausn þess.

Varnaraðili bendir á að upplýsingar um eignasamsetningu sjóða Landsvaka hf. hafi meðal annars verið aðgengilegar á heimasíðu Landsbanka Íslands hf. Varnaraðili leggur í dæmaskyni fram upplýsingar um eignasamsetningu Peningabréfa Landsbankans ISK þann 26. júlí 2008. Byggir varnaraðili á því að sóknaraðili verði að bera ábyrgð á því hafi hann ekki fylgst með eignasamsetningu sjóðsins og kynnt sér þær reglur sem um hann giltu og þau kynningargögn sem lágu fyrir, m.a. um áhættustig. Þá byggir varnaraðili á því að hverjum sem kynnt hafi sér markaðsefni, útboðslýsingu, reglur og önnur gögn um sjóðinn hafi ekki getað dulist að áhætta var fyrir hendi. Engin tilraun hafi verið gerð til þess að draga úr eða dylja áhættu tengda sjóðnum og skilmerkileg grein hafi verið gerð fyrir áhættuþáttum sjóðsins í samræmi við kröfur Fjármálaeftirlitsins í leiðbeinandi tilmælum nr. 3/2004. Er sérstaklega á það bent að sóknaraðili var fjármálafyrirtæki og sérfræðingur á sviði verðbréfaviðskipta og hafði þar að auki lýst því sérstaklega yfir með undirritun sinni undir almenna skilmála að honum væri ljóst að þau viðskipti sem hann kynni að eiga gætu verið sérstaklega áhættusöm. Þar sem sóknaraðili hafi fjárfest fyrir hönd eigin viðskiptavina, eins og áður er lýst, hafi enn ríkari skyldur hvílt á honum til að kynna sér eignasamsetningu sjóðsins og helstu áhættuþætti hans.

Varnaraðili ítrekar að hann hafi hvorki komið að þeirri eignastýringu sem sóknaraðili sinnti gagnvart eigin viðskiptavinum né nokkurri fjárfestingarráðgjöf til sóknaraðila vegna hinna umþrættu viðskipta með fjármálagerninga. Bent er á að í viðskiptanótum sóknaraðila til hlutdeildarskírteinishafa sé sérstaklega tilgreint að „þessi viðskipti teljist ekki viðeigandi samkvæmt MiFID flokkun viðskiptavinar“. Verði sóknaraðili sjálfur að bera ábyrgð á því að hafa ráðlagt viðskiptavinum sínum um viðskipti með hlutdeildarskírteini sem sóknaraðili sjálfur taldi ekki viðeigandi samkvæmt flokkun tilgreindra viðskiptavina.

Jafnframt er mótmælt þeim aðdróttunum sóknaraðila að meint háttsemi við rekstur sjóða Landsvaka hf. hafi verið viðhöfð með hagsmuni annarra en hlutdeildarskírteinishafa að leiðarljósi og að ráðstafanir í rekstri sjóðsins hafi helgast af sérstökum fjárhagslegum hagsmunum Landsbanka Íslands hf., hluthafa bankans og annarra tengdra aðila. Enn sé um að ræða vanreifaðar og ósannaðar málsástæður sóknaraðila.

Varnaraðili byggir á því að aðgerðir við rekstur sjóða Landsvaka hf. hafi á allan hátt verið eðlilegar og í samræmi við þær skyldur sem fjárfestingarstefna, lög og reglur mæltu fyrir um enda hafi starfsmenn Landsvaka hf. og Landsbanka Íslands hf. ekki með nokkru móti getað séð fyrir þá fjölmörgu samverkandi orsakaþætti sem leiddu til falls íslensku viðskiptabankanna í október 2008 og þær afleiðingar sem þeir atburðir höfðu fyrir eignir sjóða Landsvaka hf. Þá skal ítrekað að samkvæmt 1. mgr. 66. gr. laga nr. 30/2003 hafði Fjármálaeftirlitið eftirlit með að starfsemi verðbréfasjóða, fjárfestingarsjóða, rekstrarfélaga og vörslufyrirtækja væri í samræmi við tilgreind lög og reglugerðir settar samkvæmt þeim.

Varnaraðili bendir á að ekki hafi verið sýnt fram á í málinu að eigið fé hans hafi verið undir lögbundnum mörkum 2007 og að ársreikningur ársins 2007 og árshlutareikningur 2008 hafi gefið ranga mynd af fjárhagsstöðu Landsbanka Íslands hf., eins og haldið sé fram í málatilbúnaði sóknaraðila. Sé því ekki unnt að leggja slíkt til grundvallar í málinu.

Þá mótmælir varnaraðili öllum málsástæðum sóknaraðila um meint brot á reglum laga nr. 30/2003 um óhæði sem ósönnuðum. Er því sérstaklega mótmælt að sóknaraðili hafi sýnt fram á að meintur skortur á óhæði hafi valdið aðilanum tjóni.

Varnaraðili byggir á því að Landsvaki hf., sem rekstrarfélag, og Landsbanki Íslands hf., sem vörslufyrirtæki, hafi verið óháð í störfum sínum og hafi ætíð haft hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 30/2003. Um óhæði Landsvaka hf. og Landsbanka Íslands hf. vísar varnaraðili sérstaklega til þess sem greinir að framan í kafla um aðild að málinu.

Varnaraðili bendir á að í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 30/2003 hafi sérstaklega verið tekið fram að heimilt væri samkvæmt 17. gr. frumvarpsins að útvista verkefnum til móðurfélags rekstrarfélagsins og að móðurfélagið gæti jafnframt tekið að sér hlutverk vörslufyrirtækis. Slíkir aðildar teldust eftir sem áður óháðir í skilningi frumvarpsins enda lagalegur aðskilnaður fyrir hendi þar sem um tvo sjálfstæða lögaðila væri að ræða.

Skal jafnframt á það bent að útvistun verkefna Landsvaka hf. til Landsbanka Íslands hf. annars vegar og aðkoma Landsbanka Íslands hf. að sjóðum Landsvaka hf. sem vörslufyrirtækis hins vegar var háð samþykki og eftirliti Fjármálaeftirlitsins sem gerði engar athugasemdir við fyrirkomulagið enda hafi það átt sér lagastoð að öllu leyti.

Í málatilbúnaði sóknaraðila er vísað til þess að meintur skortur á óhæði Landsvaka hf. og Landsbanka Íslands hf. komi hvað skýrast í ljós þegar skoðað sé hvernig stjórn Landsvaka hf. hafi verið skipuð á árunum 2005–2008.

Varnaraðili mótmælir þessum málatilbúnaði sóknaraðila og vísar til 1. mgr. 15. gr. laga nr. 30/2003 þar sem tekið hafi verið fram að rekstrarfélag mætti ekki jafnframt vera vörslufyrirtæki og að stjórnarmaður í rekstrarfélagi mætti ekki vera í stjórn vörslufyrirtækis. Bendir varnaraðili á að enginn stjórnarmanna Landsvaka hf. á tilgreindu tímabili hafi átt sæti í stjórn Landsbanka Íslands hf. og hafi því verið um að ræða skýran aðskilnað reksturs og vörslu annars vegar og óhæði aðila hins vegar í skilningi 15. gr. laga nr. 30/2003. Breyti þar engu um þótt stjórnarmenn Landsvaka hf. hafi starfað hjá Landsbanka Íslands hf. á tímabilinu, enda hafi þeir ekki verið fyrirsvarsmenn bankans í skilningi 1. tl. 2. mgr. 55. gr. laga nr. 161/2002, eins og ranglega er byggt á í málatilbúnaði sóknaraðila. Er því sérstaklega mótmælt að stjórnarmenn Landsvaka hf. hafi ekki getað talist hlutlausir þegar teknar hafi verið ákvarðanir varðandi varnaraðila, tengda aðila eða samkeppnisaðila, auk þess sem á það skal bent að það var á forræði sjóðstjóra að taka ákvarðanir um einstakar fjárfestingar sjóðsins en ekki stjórnar Landsvaka hf. Þá sé ítrekað að Fjármálaeftirlitið gerði hvorki athugasemdir við hæfi stjórnarmanna Landsvaka hf. né við meintan skort á óhæði Landsvaka hf. og Landsbanka Íslands hf.

Öllum málsástæðum sóknaraðila í þá veru að Landsbanki Íslands hf. og/eða tengdir aðilar hafi haft óeðlilega greiðan aðgang að fjármögnun í gegnum sjóði Landsvaka hf. er mótmælt sem ósönnuðum og vanreifuðum. Skal það ítrekað að sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á að farið hafi verið á svig við reglur sjóðsins eða lög í því sambandi og að tilvísun sóknaraðila til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 geti engu breytt í þessum efnum, enda hafi hún ekki sönnunargildi í málinu. Er öllum aðdróttunum sóknaraðila, þ. á m. um að varnaraðili hafi handstýrt fjárfestingum sjóðsins með eigin hagsmuni í huga án þess að skeyta um hagsmuni sóknaraðila eða annarra hlutdeildarskírteinishafa, mótmælt sem haldlausum og ósönnuðum.

Jafnframt mótmælir varnaraðili staðhæfingum sóknaraðila um meint ófullnægjandi fyrirkomulag áhættustýringar Landsvaka hf. og að fyrirkomulag Landsbanka Íslands hf. og Landsvaka hf., sem átti sér bæði stoð í lögum og samningum aðila og öllum mátti vera kunnugt um, hafi falið í sér hagsmunaárekstra og verið í andstöðu við 1. mgr. 8. gr. laga nr. 108/2007.

Um meinta ranga skráningu á gengi hlutdeildarskírteina

Í málatilbúnaði sóknaraðila er á því byggt að Landsvaki hf., undir eftirliti og stjórn varnaraðila, hafi að minnsta kosti frá mars 2008 og áfram ranglega metið eignir sjóðsins með þeim afleiðingum að eignamatið endurspeglaði hærra virði undirliggjandi eigna en þær í raun voru. Hafi þetta falið í sér ólögmæta og saknæma háttsemi þar sem sóknaraðili hafi á tímabilinu frá mars 2008 og áfram greitt of hátt kaupverð fyrir hlutdeildarskírteini í sjóðnum, umfram raunverulegt eignavirði sjóðsins.

Varnaraðili mótmælir málatilbúnaði sóknaraðila um þetta efni í heild sinni sem ósönnuðum og vísar sem fyrr til þess að sóknaraðili hafi ekki lagt fram nein sönnunargögn til stuðnings tilgreindri málsástæðu. Þá skal á það bent að sóknaraðili hefur ekki leitast við að sýna eða færa sönnur á það í málatilbúnaði sínum hvert hafi verið meint rétt gengi hlutdeildarskírteina á hverjum tíma að teknu tilliti til markaðsaðstæðna, heldur hefur hann látið við það sitja að staðhæfa, án nokkurra sýnilegra sönnunargagna, að gengi sjóðsins hafi verið ranglega skráð. Þá hafi sóknaraðili með engu móti skýrt hvernig málsástæðan geti leitt til þess að kröfur hans yrðu teknar til greina.

Auk framangreinds skal á það bent að samkvæmt 9. gr. reglna um peningabréfin skyldi innlausnarvirði hlutdeildarskírteina reiknað út daglega af Landsvaka hf. Samkvæmt 3. gr. útvistunarsamnings Landsvaka hf. og Landsbanka Íslands hf. skyldi bakvinnsla Landsbanka Íslands hf. annast daglegt innlausnarvirði sjóða í samráði við Landsvaka hf. Samkvæmt 20. gr. laga nr. 30/2003 var hlutverk Landsbanka Íslands hf. sem vörsluaðila að tryggja að innlausnarvirðið væri reiknað í samræmi við lög og þær reglur sem Landsvaki hf. hafði sett í þeim efnum. Byggir varnaraðili á því að með tilliti til 2. mgr. 18. gr. laga nr. 30/2003 beri Landsvaki hf. ábyrgð á því gagnvart hlutdeildaskírteinishöfum ef sýnt er fram á bótaskylt tjón vegna rangrar skráningar á gengi eða útreikningi á innlausnarvirði. Mótmælir varnaraðili því að sýnt hafi verið fram á að innlausnarvirði hlutdeildarskírteina hafi ekki verið reiknað á réttan hátt og jafnframt að sýnt hafi verið fram á saknæma háttsemi starfsmanna Landsbanka Íslands hf. í þeim efnum, hvort sem er með vísan til þeirra verkefna sem þeim voru falin á grundvelli útvistunarsamnings eða á grundvelli 20. gr. laga nr. 30/2003.

Varnaraðili bendir á að sóknaraðili beri sönnunarbyrði fyrir því að gengi hlutdeildarskírteina í Peningabréfum Landsbankans ISK hefði með réttu átt að lækka á þeim tíma sem viðskipti sóknaraðila stóðu yfir. Sóknaraðili hafi því ekki sýnt fram á eða leitt líkum að framangreindu í málatilbúnaði sínum en athyglisvert sé að sóknaraðili hafi ekki tekið tillit til þessa í bótakröfu sinni.

Að því er snertir tilvísun sóknaraðila til forsendna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-350/2009 bendir varnaraðili á að því máli hafi verið vísað frá héraðsdómi með dómi Hæstaréttar frá 25. nóvember 2010 í máli nr. 726/2009. Samkvæmt því sé ekki unnt að leggja forsendur héraðsdómsins til grundvallar við sönnunarmat um einstök atriði í því máli sem hér er til úrlausnar.

Varnaraðili bendir enn fremur á að í greinargerð sóknaraðila sé vísað til meintra atvika og þátta í rekstri hins umþrætta sjóðs á árunum 2007 og 2008 og á því byggt að markaðsaðstæður og vitneskja starfsmanna Landsvaka hf. hafi átt að leiða til hærri stöðu á niðurfærslureikningi og lægra gengis hlutdeildarskírteina. Varnaraðili mótmælir málatilbúnaði þessum, sem virðist að öllu leyti vera byggður á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, í heild sinni sem ósönnuðum og ítrekar að rekstur sjóðsins og og ákvörðunarvald um fjárfestingar hafi verið á höndum Landsvaka hf. en ekki Landsbanka Íslands hf. Þá byggir varnaraðili á því að ekki hafi verið sýnt fram á að gengi sjóðsins hafi verið ranglega skráð að teknu tilliti til eignasamsetningar sjóðsins.

Sóknaraðili byggir jafnframt á því að Landsvaki hf. hafi undir eftirliti varnaraðila greitt hlutfallslega of mikið til þeirra eigenda hlutdeildarskírteina sem innleystu skírteini frá mars 2008 til og með 8. október 2008, þar sem ofmat á undirliggjandi eignum sjóðsins hafi leitt til of hás gengis hlutdeildarskírteina. Af þeim sökum hafi verið minna en ella til skiptanna fyrir þá sem áttu hlutdeildarskírteini þegar sjóðnum var lokað í október 2008 og sættu úthlutun á grundvelli rauneigna sjóðsins. Hafi því verið brotið á jafnræði og hagsmunum hlutdeildarskírteinishafa í aðdraganda þess að ákveðið var að loka fyrir innlausnir úr sjóðnum þann 6. október 208 og slíta honum þann 28. sama mánaðar og í kjölfarið greiða sóknaraðila einungis hluta af því fé sem aðrir fengu fyrir slit hans. Hafi hið ranglega skráða gengi og ákvarðanir forsvarsmanna Landsvaka hf. og Landsbanka Íslands hf. í aðdraganda að lokun sjóðsins leitt til skaðabótaskylds tjóns sóknaraðila.

Varnaraðili mótmælir þessum málatilbúnaði sóknaraðila sem ósönnuðum og vísar auk þess til þess sem að framan greinir um meinta ranga gengisskráningu hlutdeildarskírteina og ábyrgðarsvið Landsbanka Íslands hf. Þá sé sérstaklega á það bent að meint mismunun eigenda hlutdeildarskírteina í aðdraganda þess að lokað var fyrir innlausn þeirra gæti aldrei staðið til þess að sóknaraðili teldist eiga tilkall til að fá greidda sömu fjárhæð og aðrir kynnu ranglega að hafa fengið, heldur bæri honum lægri fjárhæð í hlutfalli við það sem allir hefðu fengið, að gættu jafnræði. Mótmælir varnaraðili málatilbúnaði og kröfugerð sóknaraðila að þessu leyti enda hafi hann á engan hátt leitast við að afmarka meint tjón sitt á grundvelli málsástæðna um brot á jafnræði og mismunun hlutdeildarskírteinishafa. 

Í samræmi við allt framangreint er því mótmælt sem greinir í málatilbúnaði sóknaraðila, að Landsbanki Íslands hf. hafi búið yfir vitneskju um markaðsaðstæður sem hann hafi farið leynt með í því skyni að halda uppi gengi sjóðsins og virði annarra fjármálagerninga sem útgefnir voru af bankanum og félögum tengdum honum. Þá mótmælir varnaraðili því að hann hafi vanrækt meinta eftirlitsskyldu gagnvart Landsvaka hf. til að sjá til þess að niðurfærslureikningur yrði myndaður vegna tiltekinna fjármálagerninga í samræmi við markaðsaðstæður, eins og haldið er fram í málatilbúnaði sóknaraðila. Byggir varnaraðili í öllum tilvikum á því að hann hafi starfað í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði í aðkomu sinni að sjóðum í rekstri Landsvaka hf., sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, og tryggt bestu framkvæmd samkvæmt 18. gr. laga. nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

 

Um lokun/frestun innlausna og sölu undirliggjandi eigna

Í greinargerð sóknaraðila er byggt á því að forsvarsmönnum Landsvaka hf. hafi borið, undir eftirliti og á ábyrgð Landsbanka Íslands hf., að loka fyrir innlausnir eða fresta þeim vegna verulegra innlausna í sjóðnum. Vísar sóknaraðili til þess að á grundvelli markaðsaðstæðna og verulegra innlausna hafi verið tilefni til að loka fyrir viðskipti með hlutdeildarskírteini í sjóðnum ekki síðar en um miðjan ágúst 2008 til að tryggja jafnræði og hagsmuni hlutdeildarskírteinishafa í heild sinni.

Af þessu tilefni bendir varnaraðili á að ákvörðun um lokun var tekin af stjórn Landsvaka hf. þann 6. október 2008, á grundvelli 2. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003 og reglna um peningabréfin. Samkvæmt 10. gr. reglnanna var Landsvaka hf. heimilt að fresta innlausn hlutdeildarskírteina undir sérstökum kringumstæðum. Þegar af þeirri ástæðu megi ljóst vera að Landsbanki Íslands hf. hafði engar heimildir til þess að taka ákvarðanir um slíka lokun og/eða frestun innlausna og geti varnaraðili því ekki borið ábyrgð á meintu athafnaleysi við ákvarðanatöku um það efni.

Jafnframt er því mótmælt að sóknaraðili hafi sýnt fram á að tilefni hafi verið til að loka fyrir innlausnir með hlutdeildarskírteini eða fresta þeim fyrr en gert var og jafnvel þó fallist yrði á það fái varnaraðili ekki séð að það geti leitt til þess að fallist yrði á aðal- eða varakröfu sóknaraðila í málinu. Þá mótmælir varnaraðili því sérstaklega sem ósönnuðu sem greinir í málatilbúnaði sóknaraðila, að forsvarsmönnum sjóðsins, undir ábyrgð og eftirliti Landsbanka Íslands hf., hafi mátt vera það ljóst að tilgreindar innlausnir myndu skaða eigendur hlutdeildarskírteina.

Í greinargerð sóknaraðila er jafnframt á því byggt að forsvarsmönnum sjóðsins hafi borið að hlutast til um að selja undirliggjandi eignir í „réttum hlutföllum“ í kjölfar innlausna úr sjóðnum á tilgreindu tímabili. Varnaraðili mótmælir málatilbúnaði sóknaraðila um þetta efni og ítrekar sérstaklega það sem áður er lýst, að á grundvelli laga nr. 30/2003, reglna og útboðlýsingar sjóðsins hafi Landsvaki hf. tekið allar ákvarðanir um fjárfestingar sjóðsins, þ.e. bæði um kaup og sölu fjármálagerninga hans. Samkvæmt því hafi varnaraðila verið með öllu óheimilt að hlutast til um viðskipti með fjármálagerninga sjóðsins enda allar fjárfestingarákvarðanir á forræði rekstraraðilans, Landsvaka hf. Hafi því hvorki hvílt lögbundin né samningsbundin skylda á varnaraðila til að hlutast til um sölu undirliggjandi eigna á tilgreindu tímabili, eins og byggt sé á í málatilbúnaði sóknaraðila. Þá er því sérstaklega mótmælt sem ósönnuðu að eignir sjóðsins hafi ekki verið seldar í „réttum hlutföllum“.

Varnaraðili byggir á því að Landsvaki hf., sem rekstrarfélag, og Landsbanki Íslands hf., sem vörslufyrirtæki, hafi verið óháð í störfum sínum og að félögin hafi ætíð haft hagsmuni hlutdeildarskírteinishafa að leiðarljósi. Í samræmi við það er aðdróttun sóknaraðila um að hagsmunir skuldara sjóðsins hafi vegið þyngra en hagsmunir hlutdeildarskírteinishafa vegna meintra eignatengsla Landsbanka Íslands hf. og stærstu skuldara sjóðsins mótmælt sem ósannaðri. Þá er því sérstaklega mótmælt að á grundvelli meints brots á óhæði og verulegs saknæmis varnaraðila sé stoð fyrir því að snúa sönnunarbyrði í málinu við, þannig að varnaraðila verði gert að hrinda ósönnuðum staðhæfingum sóknaraðila, eins og haldið sé fram í málatilbúnaði sóknaraðila. Málatilbúnaður sóknaraðila um það efni sé með öllu haldlaus og án lagastoðar.

 

Um fjárfestingarstefnu Peningabréfa Landsbankans ISK

Í málatilbúnaði sóknaraðila er á því byggt að Landsvaki hf. hafi ekki fylgt neinni eiginlegri fjárfestingarstefnu í samræmi við lög nr. 30/2003. Þá er á því byggt að fjárfestingarstefnan hafi verið andstæð góðum viðskiptaháttum og hagsmunum hlutdeildarskírteinishafa.

Varnaraðili mótmælir þessum málatilbúnaði og bendir á að sjóðurinn hafi haft sérstaka og fyrirfram ákveðna fjárfestingarstefnu sem öllum fjárfestum hafi verið í lófa lagið að kynna sér áður en til viðskipta með hlutdeildarskírteini sjóðsins var gengið. Vísar varnaraðili um það efni meðal annars til fyrirliggjandi útboðslýsingar og III. kafla reglna sjóðsins þar sem fjárfestingarheimildum var lýst með ítarlegum hætti og fjárfestingarstefna útlistuð, allt í samræmi við efni III. kafla laga nr. 30/2003.

Í samræmi við framangreint er því mótmælt að Landsvaki hf. hafi ekki fylgt neinni eiginlegri fjárfestingarstefnu. Ekki hafi verið sýnt fram á annað en að Landsvaki hf. hafi hagað fjárfestingum sjóðsins í samræmi við hina samþykktu og opinberu fjárfestingarstefnu. Ítrekað sé að sjóðurinn laut eftirliti Fjármálaeftirlitsins án nokkurra athugasemda vegna fjárfestingarstefnunnar. Auk þess hafi verið gerð ítarleg grein fyrir áhættuflokkun og einstökum áhættuþáttum í útboðslýsingu sjóðsins eins, og áður er lýst, jafnframt því sem sóknaraðili hafði sérstaklega lýst því yfir að honum væri ljóst að viðskipti með fjármálagerninga kynnu að vera áhættusöm.

Varnaraðili bendir einnig á að fjárfestingarstefnan sem deilt er um hafi verið á forræði Landsvaka hf. að öllu leyti en ekki varnaraðila, eins og áður er lýst. Sé því vandséð hvernig meint kröfuréttindi sóknaraðila á hendur varnaraðila geti leitt af tilgreindri fjárfestingarstefnu.

 

Um málsástæður sóknaraðila er varða markaðsmisnotkun

 

Í málatilbúnaði sóknaraðila er vísað til dóms Hæstaréttar frá 4. febrúar 2016 í máli nr. 842/2014, þar sem nánar tilgreindir starfsmenn Landsbanka Íslands hf. voru sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun. Varnaraðili mótmælir málatilbúnaði sóknaraðila um þetta efni sem ósönnuðum. Skal á það bent að sóknaraðili hefur hvorki sýnt fram á með hvaða hætti sú markaðsmisnotkun sem var til úrlausnar í Hæstaréttarmálinu nr. 842/2014 eigi að hafa haft áhrif á rekstur, gengi og fjármálagerninga sjóðsins Peningabréf Landsbankans ISK né nokkra aðkomu varnaraðila að þessu efni. Enn síður hafi sóknaraðili sýnt fram á meint tjón sitt vegna markaðsmisnotkunarinnar. Vísar varnaraðili til þess að enn sé um að ræða staðhæfingar sóknaraðila sem settar séu fram án nokkurra sýnilegra sönnunargagna. Með vísan til þess mótmælir varnaraðili sérstaklega tilvísun sóknaraðila til þess að samkvæmt „opinberum gögnum“ um sjóðinn hafi töluverður hluti eigna verið hlutabréf og kröfuréttindi á hendur Landsbanka Íslands hf. Byggir varnaraðili á því að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. hafi verið hluti af eignasafni sjóðsins.

Að öðru leyti byggir varnaraðili á því að úrlausnarefni í dómi Hæstaréttar í máli nr. 824/2014 geti ekki haft áhrif á sakarefni málsins, þ.e. hvort viðurkenna beri kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila vegna meints tjóns hans við slit á hinum umþrætta sjóði í rekstri Landsvaka hf.

Um meint tjón sóknaraðila og kröfugerð hans

 

Varnaraðili mótmælir aðalkröfu sóknaraðila og byggir á því að bótakrafan sé með öllu vanreifuð auk þess sem sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á tjón sitt. Í fyrsta lagi er ítrekað það sem kemur fram í kafla um aðild, að viðskiptavinir sóknaraðila hafi á grundvelli safnskráningar notið efnahagslegs ávinnings og borið fjárhagslega áhættu af undirliggjandi hlutdeildarskírteinum en ekki sóknaraðili sjálfur. Samkvæmt því geti sóknaraðili ekki hafa orðið fyrir nokkru tjóni vegna hinna umþrættu viðskipta, enda hafi hann verið vörsluaðili fjármálagerninga fyrir hönd eigin viðskiptavina en ekki eigandi fjármálagerninganna.

Í öðru lagi er á það bent að aðalkrafa sóknaraðila miði að því að gera hann eins settan við slit Peningabréfa Landsbankans ISK og ef greitt hefði verið úr þeim eftir dagsgengi hlutdeildarskírteina sem síðast gilti, áður en lokað var fyrir innlausn þeirra 6. október 2008.

Varnaraðili kveður sóknaraðili hvorki hafa sýnt fram á að hann hafi óskað eftir því að eign hans, eða viðskiptavina hans, í sjóðnum yrði seld þann 3. október 2008, eins og dómkrafa hans miði við, né skýrt með viðhlítandi hætti hvernig innlausnarverðið hefði átt að haldast óbreytt eftir fyrrgreint tímamark. Í því sambandi telur varnaraðili að líta verði til tegunda þeirra krafna sem sjóðnum var heimilt að eignast samkvæmt fjárfestingarstefnu sinni, svo sem sóknaraðili miðar útreikning kröfu sinnar við. Af hálfu varnaraðila er því alfarið mótmælt að sú aðferðafræði endurspegli á einhvern hátt meint tjón sóknaraðila.

Í þriðja lagi er á það bent að sóknaraðili hefur sjálfur byggt á því í málinu að gengi hlutdeildarskírteina í Peningabréfum Landsbankans ISK hefði með réttu átt að lækka á þeim tíma sem viðskiptin stóðu yfir, án þess að hann hafi tekið tillit til þess við framsetningu meints tjóns.

Í fjórða lagi er bent á að samkvæmt innlausnarnótu, dags. 28. október 2008, sem sóknaraðili lagði fram sem fylgiskjal með kröfulýsingu sinni, fékk sóknaraðili greiðslu að fjárhæð 640.295.210 krónur við slit sjóðsins en ekki 592.457.282 krónur, eins og lagt er til grundvallar í kröfugerð hans. Er misræmi þetta í fjárhæðum með öllu óútskýrt í málatilbúnaði sóknaraðila.

Með vísan til alls framangreinds byggir varnaraðili á því að sóknaraðili hafi hvorki gert viðhlítandi grein fyrir bótakröfu sinni né heldur sýnt fram á orsakasamband á milli meints tjóns og meints saknæms og ólögmæts atferlis á ábyrgð varnaraðila. Vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili hafi ekki afmarkað tjón sitt vegna þeirra atvika sem hver málsástæða hans fyrir sig tekur til. Því beri að hafna aðalkröfu sóknaraðila í málinu.

Varnaraðili mótmælir einnig varakröfu sóknaraðila og byggir á því að hún sé vanreifuð auk þess sem sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á tjón sitt. Vísar varnaraðili til sömu sjónarmiða og málsástæðna og að framan greinir um aðalkröfu sóknaraðila.

Varnaraðili bendir einnig á að sóknaraðili hafi ekki lagt fram nein gögn um viðskipti sín með hlutdeildarskírteini á tímabilinu frá 30. maí 2008 til 29. október 2008, þ.e. um kaup og sölur hlutdeildarskírteina, til stuðnings tölulegri framsetningu kröfugerðarinnar. Mótmælir varnaraðili varakröfu sóknaraðila sérstaklega sem vanreifaðri að þessu leyti.

Þá vísar varnaraðili til þess að í varakröfu sóknaraðila sé farið fram á svokallaðar vangildisbætur, þ.e. bætur sem eiga að gera sóknaraðila eins settan og ef kaup á hlutdeildarskírteinum hefðu aldrei átt sér stað. Varnaraðili telur að ekki séu skilyrði til að fallast á varakröfuna á þeim grundvelli sem hún er sett fram, enda sé hvorki á því byggt í málatilbúnaði sóknaraðila að undirliggjandi viðskipti með peningabréf hafi verið ógild frá öndverðu né að sóknaraðili hafi rift þeim viðskiptum gagnvart varnaraðila og/eða Landsvaka hf.

Verði fallist á kröfur sóknaraðila að einhverju leyti gerir varnaraðili fyrirvara við og mótmælir fjárhæðum í dómkröfum sóknaraðila sem hann telur vanreifaðar. Áskilur varnaraðili sér rétt til að leggja fram gögn vegna þessa. Þá mótmælir varnaraðili kröfugerð sóknaraðila um dráttarvexti sem vanreifaðri enda sé engar málsástæður að finna fyrir kröfunni í málatilbúnaði sóknaraðila. Auk þess vísar varnaraðili til þess að enginn gjalddagi sé á meintum kröfum sóknaraðila og með hliðsjón af öllum atvikum megi efast um að skilyrði séu uppi til að verða við slíkri kröfu þar sem almenna viðmiðið sé að greiða einungis vexti af peningakröfu ef það leiði af samningi, venju eða lögum. Engu slíku sé fyrir að fara í máli þessu.

Þá er á það bent að sóknaraðili krafði varnaraðila fyrst um greiðslu kröfunnar með kröfulýsingu sem barst varnaraðila þann 30. október 2009. Varnaraðili telur því að upphafsdagur dráttarvaxta geti aldrei miðast við fyrra tímamark en 30. nóvember 2009, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Er á það bent að kröfur á hendur varnaraðila um vexti eftir 22. apríl 2009 teljist til eftirstæðra krafna samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991 og að ekki hafi verið tekin afstaða til eftirstæðra krafna við slit varnaraðila á grundvelli heimildar í 1. mgr. 119. gr. sömu laga.

Varðandi sjónarmið sem fram koma í greinargerð sóknaraðila um að heimilt sé að dæma bætur að álitum dómsins og þrautavarakröfu að þessu leyti sem sett var fram við upphaf aðalmeðferðar þá er þeim mótmælt af hálfu varnaraðila. Sóknaraðili hafi ekki gert grein fyrir því á hvaða lagastoð krafa um bætur að álitum sé byggð og varnaraðili mótmælir því sérstaklega að skilyrði til ákvörðunar slíkra bóta séu fyrir hendi í málinu. Jafnframt er bent á að sóknaraðili hefur ekki gert sérstaka kröfu um bætur að álitum í málinu heldur þvert á móti sett fram fjárkröfur á grundvelli nánar tilgreindra málsástæðna sem sóknaraðili er bundinn við. Þar sem sóknaraðili hafi hvorki sýnt fram á né afmarkað meint tjón sitt telur varnaraðili kröfur sóknaraðila svo óskýrar að hafna verði þeim allt að einu.

Að endingu vísar varnaraðili til þess að sönnunarbyrði um meint tjón sóknaraðila hvíli á sóknaraðila sjálfum. Mótmælir varnaraðili því sérstaklega sem greinir í málatilbúnaði sóknaraðila, að varnaraðili verði að bera hallann af því að sóknaraðila hafi ekki lánast sönnunarfærsla um meint tjón aðilans og að unnt sé að snúa sönnunarbyrði í málinu við með þeim hætti sem á er byggt í málatilbúnaði sóknaraðila. Fyrir þeim málatilbúnaði sóknaraðila sé engin lagastoð

 

 

Áskorun sóknaraðila

Um áskorun í greinargerð sóknaraðila um að varnaraðili leggi fram nánar tilgreind gögn vísar varnaraðili í fyrsta lagi til þess að þar sé um að ræða gögn sem varði sjóðinn Peningabréf Landsbankans ISK, sbr. 1.–4. lið í áskorun sóknaraðila. Varnaraðili vísar til þess að hann sé hvorki eigandi þeirra gagna sem áskorunin tekur til, og varða öll rekstur og starfsemi Peningabréfa Landsbankans ISK, né hafi varnaraðili þau gögn í sínum vörslum.

Af hálfu varnaraðila er bent á að Landsvaki hf. sé sjálfstæður lögaðili og hljóti samkvæmt því að vera eigandi þeirra gagna sem áskorun sóknaraðila tekur til. Þá er vísað til ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008 þar sem eignarhaldi varnaraðila yfir Landsvaka hf. var ráðstafað til Nýja Landsbanka Íslands hf. (nú Landsbankinn hf.), auk þess sem hinn síðarnefndi tók yfir allar óefnislegar eignir og réttindi varnaraðila, þ. á m. öll gagnasöfn.

Samkvæmt því hafa engin eignatengsl verið á milli varnaraðila og Landsvaka hf. frá 9. október 2008 auk þess sem Landsbankinn hf. yfirtók þann dag öll gögn sem varnaraðili kann að hafa haft í sínum vörslum um dótturfélagið Landsvaka hf. Á grundvelli alls framangreinds sé varnaraðila ókleift að verða við áskorun sóknaraðila um þetta efni.

Varðandi áskorun um að varnaraðili leggi fram samning á milli Landsvaka hf. og Landsbanka Íslands hf. um eignastýringu, dags. 20. ágúst 2005, þá kveður varnaraðili sér vera með öllu ókunnugt um tilvist samningsins og hefur hann ekki fundist í gagnasafni varnaraðila. Geti varnaraðili því eðli málsins samkvæmt ekki orðið við áskorun sóknaraðila um framlagningu hans.

Að því er snertir áskorun um að varnaraðili leggi fram greinargerð með lánsbeiðni BG Holding, dags. 19. desember 2007, og fundargerð lánanefndar Landsbanka Íslands hf., dags. 9. janúar 2008, vísar varnaraðili til þess að tilgreind gögn kunni að varða viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna sem háð séu þagnarskyldu, sbr. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002. Á þeim grundvelli geti varnaraðili ekki orðið við áskorun sóknaraðila um framlagningu gagnanna auk þess sem ekki verði séð að sóknaraðili hafi lögvarða hagsmuni af framlagningu þeirra að teknu tilliti til sakarefnis málsins.

Í tengslum við áskorun sóknaraðila um að varnaraðili leggi fram allar útgáfur af útboðslýsingu og reglum hins umþrætta sjóðs frá stofnun hans til slita leggur varnaraðili fram þær reglur og þá útboðslýsingu sem síðast giltu fyrir júlímánuð 2008, sbr. reglur og útboðslýsingu, dags. 7. maí 2007.

 

IV. Niðurstaða

Efnislegur ágreiningur málsins lýtur aðallega að kröfu sem sóknaraðili lýsti við slitameðferð LBI ehf. 29. október 2009 og varnaraðili hafnaði en krafan nemur alls 305.950.798 kr. Byggist krafan í meginatriðum á því að sóknaraðila hafi, sem handhafa hlutdeildarskírteina í peningamarkaðssjóðnum Peningabréf Landsbankans ISK, sem Landsvaki ehf., dótturfélag Landsbanka Íslands, starfrækti, verið mismunað í aðdraganda að lokun sjóðsins 6. október 2008. Vísar sóknaraðili þá til þess að þeir sem innleystu hlutdeild sína frá 10. september 2008 til lokunar 6. október 2008 hafi fengið of hátt verð fyrir eignarhlut sinn í sjóðnum og það hafi leitt til þess að eign þeirra sem eftir sátu rýrnaði að sama skapi. Með þessu hafi LBI ehf. ekki gætt jafnræðis hlutdeildarskírteinishafa eins og honum hafi verið skylt, sbr. m.a. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 30/2003, og þar með hafi hann bakað sér bótaskyldu gagnvart sóknaraðila.

   Í greinargerð sinni til dómsins lýsir sóknaraðili því að tjón hans vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi varnaraðila felist aðallega í ferns konar athöfnum og athafnaleysi. Í fyrsta lagi hafi varnaraðili í starfsemi sinni borið ábyrgð á því að markaðsvirði eigna peningamarkaðsbréfa Landsbankans hafi verið ranglega skráð og jafnframt vanrækt þá eftirlitsskyldu sína gagnvart Landsvaka ehf. að sjá til þess að niðurfærsla færi fram vegna tiltekinna fjármálagerninga miðað við markaðsaðstæður. Í öðru lagi hafi varnaraðili og stjórnendur hans gerst sekir um alvarlega markaðsmisnotkun sem hafi með óeðlilegum hætti haft áhrif á virði undirliggjandi eigna sjóðsins sem tengdust varnaraðila. Í þriðja lagi hafi varnaraðili borið ábyrgð á því að Landsvaki ehf. fylgdi í raun ekki eiginlegri fjárfestingarstefnu, en það hafi aukið áhættu sjóðsins til muna á kostnað öruggari fjárfestingarkosta. Þá telur sóknaraðili í fjórða lagi að varnaraðili hafi ekki starfað í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði.

   Mál þetta, sem er rekið eftir ákvæðum 5. þáttar laga nr. 21/1991, snýr að því einu að fá leyst úr ágreiningi um það hvort, og þá eftir atvikum hvernig, viðurkenna eigi kröfuna, sem sóknaraðili lýsti samkvæmt framansögðu við slit varnaraðila. Fyrir dómi verða því ekki hafðar uppi auknar kröfur frá þeim sem gerðar voru í kröfulýsingu, sbr. einnig 118. gr. laga nr. 21/1991, en úr kröfum geta aðilarnir á hinn bóginn dregið fyrir dómi og bætt úr annmörkum á þeim á sama hátt og gera mætti undir rekstri einkamáls eftir almennum reglum.

Um málatilbúnað aðila í málum af því tagi sem hér er til meðferðar gilda að öðru leyti ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, þegar sérreglum síðarnefndu laganna sleppir. Í þessum ákvæðum felst m.a. að kröfugerð í greinargerð skal vera skýr, sem og röksemdir fyrir henni. Af þeim leiðir jafnframt að málsástæður ber að hafa uppi í kröfulýsingu og til fullnaðar í greinargerð sem málsaðila er gefið færi á að skila undir rekstri máls. Verði misbrestur á því að málatilbúnaður sé reifaður með fullnægjandi hætti verður ekki úr bætt við munnlegan flutning málsins án samþykkis gagnaðila.

Í kröfulýsingunni lýsir sóknaraðili forsendum kröfu sinnar þannig að hann hafi verið meðal þeirra hlutdeildarskírteinishafa sem sættu mismununinni. Eign sóknaraðila í sjóðnum hafi hins vegar verið skráð á nafn og kennitölu sóknaraðila hjá Landsbanka Íslands hf. en sóknaraðili hafi á grundvelli safnskráningar, sbr. 12. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, skráð eign hvers viðskiptavinar síns á nafn og kennitölu viðkomandi viðskiptavinar í kerfum sínum og sé krafan þannig gerð fyrir hönd þeirra.

Af kröfulýsingunni, sem og þeim gögnum sem sóknaraðili hefur lagt fram í málinu, m.a. yfirliti yfir hlutdeildarskírteinishafa, sem auðkennt hefur verið sem dómskjal 9, og viðskiptanótum hlutdeildarskírteinishafa, sem auðkennt er sem dómskjal 10, verður ekki annað ráðið en að sóknaraðili hafi fjárfest fyrir hönd viðskiptavina sinna í hinum umþrættu hlutdeildarskírteinum, þ.e. sem vörsluaðili og á grundvelli eignastýringar samkvæmt því sem mælt er fyrir um í 12. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, sem í gildi var þegar atvik málsins áttu sér stað.

Samkvæmt fyrrnefndu ákvæði 12. gr. getur fjármálafyrirtæki sem heimilt er að varðveita fjármálagerninga í eigu viðskiptavina sinna sótt um heimild Fjármálaeftirlitsins til að mega varðveita þá á sérstökum reikningi (safnreikningi) og taka við greiðslum fyrir hönd viðskiptavina sinna frá einstökum útgefendum fjármálagerninga, enda hafi fjármálafyrirtækið gert viðskiptavini grein fyrir réttaráhrifum þess og hann veitt samþykki sitt. Fjármálafyrirtæki ber að halda skrá yfir hlut hvers viðskiptavinar fyrir sig samkvæmt þessari grein.

Í ljósi þessa verður að telja ljóst að þótt sóknaraðili hafi verið handhafi þeirra hlutdeildarskírteina sem krafa hans í þessu máli byggist á hafi hann hins vegar ekki verið eigandi þeirra. Þess í stað hafi hann varðveitt hlutdeildarskírteinin, sem voru í eigu viðskiptavina hans, á sérstökum safnreikningi. Ljóst er að hlutdeildarskírteini falla samkvæmt skilgreiningu c-liðar 2. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007 undir fjármálgerninga í skilningi laganna.

Í lögum nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, voru hlutdeildarskírteini enn fremur skilgreind sem fjármálagerningur sem væri staðfesting á tilkalli allra þeirra sem ættu hlutdeild í sjóði um sameiginlega fjárfestingu, eða einstakri deild hans, til verðbréfaeignar sjóðsins. Þá sagði þar að eigendur hlutdeildarskírteina ættu sama rétt til tekna og eigna sjóðsins, eða viðkomandi deildar, í hlutfalli við hlutdeild sína. 

Enda þótt sóknaraðili hafi samkvæmt framangreindu haft heimild til að annast vörslur hlutdeildarskírteina í peningamarkaðssjóðnum Peningabréf Landsbankans ISK, þá verður að mati dómsins ekki séð að varðveisla hans á fjármálagerningum í eigu viðskiptavina og samsvarandi heimild til að taka við greiðslum fyrir hönd viðskiptavina frá einstökum útgefendum fjármálagerninga, sbr. 12. gr. laga nr. 108/2007, veiti sóknaraðila heimild eða umboð til að lýsa skaðabótakröfu á hendur varnaraðila með þeim hætti sem gert er í þessu máli. Af þessum sökum verður að fallast á sjónarmið varnaraðila um að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á það með viðunandi hætti á hvaða grundvelli krafa hans í málinu hafi stofnast. Eru sjónarmið um aðild sóknaraðila því vanreifuð að þessu leyti.

Að því er snertir málatilbúnað sóknaraðila að öðru leyti, þá nemur aðalkrafa hans mismun þeirrar fjárhæðar sem sóknaraðili telur sig mundu hafa fengið greidda ef hann hefði átt kost á því að selja hlutdeildarskírteini sín í sjóðnum fyrir lokun sjóðsins 6. október 2008 og þeirrar fjárhæðar sem honum var úthlutað 29. október 2008, þegar úthlutun úr sjóðnum fór fram. Lokagengi sjóðsins 3. október 2008 hafi verið 31,477 en sóknaraðili hafi 29. október 2008 fengið úthlutað fjárhæð á lokagenginu 21,641 sem hafi verið 68,8% af gengi hans.

Ljóst er að skaðabótakröfur á sams konar grundvelli og sóknaraðili hefur vísað til í þessu máli hafa margoft áður komið til kasta dómstóla án þess þó að þeir sem staðið hafa að slíkri kröfugerð hafi haft erindi sem erfiði.

Í dómum Hæstaréttar sem kveðnir voru upp 25. nóvember 2010 í nítján málum sem höfðuð voru á hendur Landsvaka hf. og Landsbanka Íslands hf. fjallaði Hæstiréttur um skaðabótakröfur gagnáfrýjenda vegna þess tjóns sem þeir töldu sig hafa orðið fyrir þegar ákveðið var að loka fyrir innlausnir úr sjóðnum Peningamarkaðsbréf Landsbankans 6. október 2008, slíta honum 28. sama mánaðar og í kjölfarið greiða gagnáfrýjendum 68,8% af andvirði eignarhlutar hans í sjóðnum. Þar höfðu gagnáfrýjendur rökstutt aðalkröfur sínar þannig að þær næmu mismun á fjárhæð eignarhlutar þeirra fyrir skerðingu og fjárhæð hlutarins eftir skerðingu, en gagnáfrýjendur reistu kröfu sína á því að Landsvaki hf. og Landsbankinn hf. hefðu valdið sér tjóni sem mætti rekja að öllu leyti til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi þeirra.

Í málatilbúnaði gagnáfrýjenda í málunum nítján var í fyrsta lagi á því byggt að fjárfestingar sjóðsins og eignasamsetning hefðu verið í ósamræmi við fyrir fram kunngerða fjárfestingarstefnu en í öðru lagi á því að markaðssetning sjóðsins hefði verið í ósamræmi við raunverulega markaðsáhættu hans og fjárfestingarstefnu. Þá vísuðu gagnáfrýjendur til þess að hlutdeildarskírteinishöfum hefði verið mismunað í aðdraganda þess að lokað var fyrir innlausnir úr sjóðnum 6. október 2008. Þá byggðu gagnáfrýjendur í fjórða lagi á því að forsvarsmönnum sjóðsins hefði borið að hlutast til um að takmarka frekari útgáfu hlutdeildarskírteina þegar þeim mátti vera ljóst að stækkun sjóðsins mundi auka verulega skuldaraáhættuna og hugsanlegt greiðslufall. 

            Í dómum Hæstaréttar var kröfum gagnáfrýjenda sem reistar voru á þessum málsástæðum alfarið hafnað. Í því sambandi benti dómurinn á að krafa gagnáfrýjenda um skaðabætur miðaði að því að gera þá eins setta við slit sjóðsins og ef greitt hefði verið úr honum eftir dagsgengi hlutdeildarskírteina, sem síðast gilti áður en lokað var fyrir innlausn þeirra 6. október 2008. Þá vísaði dómurinn til þess að af hendi gagnáfrýjenda hefðu engar viðhlítandi skýringar komið fram á því hvernig þetta innlausnarverð hefði átt að geta haldist óbreytt eftir 6. október 2008 þegar litið væri til þeirra tegunda krafna, sem sjóðnum var heimilt að eignast samkvæmt fjárfestingarstefnu sinni, eða hvernig markaðssetning sjóðsins gæti með réttu hafa vakið væntingar um að engin atvik af þeim toga, sem gerðust frá og með þeim degi í íslensku efnahagslífi, gætu orðið til þess að þetta innlausnarverð kynni að lækka.

Hæstiréttur komst jafnframt að þeirri niðurstöðu að hugsanleg mismunun eigenda hlutdeildarskírteina í aðdraganda þess að lokað var fyrir innlausn þeirra gæti aldrei staðið til þess að gagnáfrýjendur teldust eiga tilkall til að fá greidda sömu fjárhæð og aðrir kynnu ranglega að hafa fengið, heldur bæri þeim lægri fjárhæð í hlutfalli við það, sem allir hefðu fengið að gættu jafnræði. Loks væri síðastgreind málsástæða gagnáfrýjenda ekki skýrð út frá því hvernig hún gæti leitt til þess að aðalkrafa þeirra yrði tekin til greina. Hæstiréttur taldi enn fremur að í málatilbúnaði gagnáfrýjenda væri ekki leitast við að afmarka hvert tjón þeirra gæti talist vera vegna þeirra atvika sem hver málsástæða þeirra fyrir sig tæki til. Væri því ekki fært að finna þar stoð fyrir skaðabótum sem næmu lægri fjárhæð en um ræddi í aðalkröfu þeirra. Að þessu virtu taldi Hæstiréttur málið svo vanreifað af hendi gagnáfrýjenda að ekki væri fært að fella efnisdóm á þá kröfu.

            Málatilbúnaður stefnenda í þessu máli á margt sammerkt með málatilbúnaði gagnáfrýjenda í framangreindum málum Hæstaréttar enda er þar einnig byggt á þeim málsástæðum að eigendum hlutdeildarskírteina hafi verið mismunað með ólögmætum hætti, svo og að fjárfestingar sjóðsins og eignasamsetning hans hefðu verið í ósamræmi við yfirlýsta fjárfestingarstefnu, og í öðru lagi á því að markaðssetning sjóðsins hefði verið í ósamræmi við raunverulega fjárfestingarstefnu. Stefnendur þessa máls hafa þó til viðbótar fært fram þær málsástæður að tjón þeirra verði einnig rakið til frávika frá sjónarmiðum um óháða stýringu sjóðsins og rangs mats Landsvaka hf., undir eftirliti og stjórn varnaraðila, á eignum sjóðsins.

            Þótt sóknaraðili þessa máls hafi að þessu leyti dregið fleiri málsástæður undir kröfugerð sína en gagnáfrýjendur gerðu í framangreindum málum er málatilbúnaður sóknaraðila sama marki brenndur að því leyti að ekki er þar afmarkað með neinum hætti hvaða tjón verði rakið til þeirra atvika sem málsástæður hans taka til. Eiga þessir annmarkar við um allar kröfur sóknaraðila í málinu. Þá verður að telja ljóst að umræddir annmarkar hafa torveldað varnaraðila að grípa til efnislegra varna gagnvart málatilbúnaði sóknaraðila að þessu leyti, hvort sem er um aðal-, vara- eða þrautavarakröfu sóknaraðila.

Að öllu þessu virtu verður að telja málið svo vanreifað af hendi sóknaraðila að ekki sé fært að kveða upp efnislegan úrskurð um neina af kröfum hans. Verður því að hafna öllum kröfum sóknaraðila í málinu, sbr. dóm Hæstaréttar frá 8. maí 2013 í máli nr. 261/2013.

Með vísan til þessara málsúrslita verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila allan kostnað af rekstri málsins, sem með tilliti til umfangs þess telst hæfilega ákveðinn 2.300.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti.

Arnar Vilhjálmur Arnarson lögmaður flutti málið fyrir hönd sóknaraðila en Sölvi Davíðsson lögmaður fyrir hönd varnaraðila.

Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð. Meðferð málsins hefur dregist vegna leyfis dómara á grundvelli laga nr. 168/2011, um rannsóknarnefndir.

 

Úrskurðarorð:

Kröfum sóknaraðila, VBS eignasafns ehf., á hendur varnaraðila, LBI ehf., er hafnað. Sóknaraðili greiði varnaraðila 2.300.000 kr. í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Héraðsdómi Reykjavíkur, 6. febrúar 2019.

 

Gjald kr. 5.250.-          Greitt.