• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Ávana- og fíkniefni
  • Ítrekun
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Umferðarlagabrot
  • Lyfjaakstur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 17. apríl 2019 í máli nr. S-40/2019:

Ákæruvaldið

(Einar Laxness aðstoðarsaksóknari)

gegn

Maciej Zbigniew Jablonski

(Jón Stefán Hjaltalín lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 10. apríl sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 22. janúar 2019, á hendur Maciej Zbigniew Jablonski, kt. 000000-0000, [...], Akureyri, fyrir eftirtalin umferðarlagabrot framin á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2018, með því að hafa:

1.    Að kvöldi föstudagsins 27. apríl ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og  óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna og slævandi lyfja (í blóði mældist  morfín 70 ng/ml og  tetrahýdrókannabínól 0,8 ng/ml) við Jafnasel í Reykjavík móts við Moes‘bar, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 44. gr., 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

2.    Að kvöldi miðvikudagsins 27. júní  ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og  óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist morfín 70 ng/ml og í þvagi var  tetrahýdrókannabínólsýra, morfín og búprenorfín) við bifreiðastæði á móts við Holtagarða í Reykjavík, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 44. gr., 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

3.    Að kvöldi sunnudagsins 26. ágúst  ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og  óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna og slævandi lyfja (í þvagi var tetrahýdrókannabínólsýra, morfin og búprenorfin) vestur Ánanaust í Reykjavík að Hringbraut nr. 119, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 44. gr., 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

4.    Aðfaranótt fimmtudagsins 13. september ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist kókaín 310 ng/ml og metýlfenídat 15 ng/ml) við bensínstöðina N1 Ártúnshöfða í Reykjavík, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

Telst þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr a, og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

5.    Aðfaranótt sunnudagsins 16. september ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna og slævandi lyfja (í blóði mældist morfín 40 ng/ml og metýlfenídat 55 ng/ml) við Fjarðarhraun í Hafnarfirði, inn Flatahraun, og að bifreiðastæði við verslun Krónunnar, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 44. gr., 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og  1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

6.    Að morgni sunnudagsins 11. nóvember ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna og slævandi lyfja (í blóði mældist MDMA 155 ng/ml og oxýkódon 55 ng/ml) vestur Stórhöfða í Reykjavík og að bifreiðastæði við meðferðarheimilið Vog, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

            Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 44. gr., 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.

            Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærði er fæddur í [...]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 18. janúar 2019, á ákærði nokkurn sakaferil að baki sem nær allt aftur til ársins 2008, en ákærði hefur hlotið dóma fyrir meðal annars vörslur fíkniefna, þjófnað og gripdeild. Þá hefur ákærði jafnframt verið fundinn sekur um að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna og einnig margoft fyrir að aka sviptur ökurétti. Við ákvörðun refsingar hér verður þannig við það miðað að ákærði gerist nú í áttunda sinn sekur um að aka sviptur ökurétti og í fyrsta sinn undir áhrifum ávana- og fíkniefna, en ítrekunaráhrif vegna fyrri brota ákærða gegn 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987 eru nú niður fallin, sbr. og 3. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Ákærði hefur gengist greiðlega við brotum sínum og verður það virt honum til refsimildunar. Þá kom einnig fram fyrir dómi að ákærði hefði sótt meðferð fyrir sl. jól við fíkniefnavanda sínum og stundi nú nám. Með hliðsjón af framangreindu, sakarefni þessa máls, sem og dómvenju og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 16 mánuði. Að sakaferli ákærða virtum þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.

            Með vísan til lagaákvæða í ákæru er áréttuð ævilög svipting ökuréttar ákærða.

            Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Jóns Stefáns Hjaltalín lögmanns, 263.170 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 1.081.667 krónur í annan sakarkostnað. Þinghöld urðu fleiri en efni stóðu til af ástæðum sem ákærða verður ekki um kennt, sbr. síðari málslið 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Að því gættu verða 66.075 krónur af þóknun skipaðs verjanda ákærða felldar á ríkissjóð.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Elín Hrafnsdóttir aðstoðarsaksóknari fyrir hönd Einars Laxness aðstoðarsaksóknara.

            Þórhildur Líndal, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

 

                                                   D Ó M S O R Ð:       

            Ákærði, Maciej Zbigniew Jablonski, sæti fangelsi í 16 mánuði.

            Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða frá birtingu dómsins að telja.

            Ákærði greiði 197.095 krónur af málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Jóns Stefáns Hjaltalín lögmanns, sem í heild ákvarðast 263.170 krónur, og 1.081.667 krónur í annan sakarkostnað.

 

                                                   Þórhildur Líndal