• Lykilorð:
  • Kynferðisbrot
  • Sönnunarbyrði
  • Sönnunargögn
  • Sönnunarmat
  • Sýkna

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júlí 2018 í máli nr. S-115/2018:

Ákæruvaldið

(Katrín Hilmarsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

A

(Kristján Stefánsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 21. júní 2018, var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dags. 2. mars 2018, á hendur:

 

„A, kennitala 000000-000,

[...], Reykjavík,

 

fyrir kynferðisbrot gegn X, kt. 000000-0000, með því að hafa á heimili sínu að [...] í Reykjavík, í fjölda skipta, frá því stúlkan var fimm ára gömul þar til hún var tólf eða þrettán ára gömul, á tímabilinu frá árinu 2007 til ársins 2014 eða 2015, snert ber kynfæri stúlkunnar og látið hana snerta ber kynfæri hans og látið hana fróa honum, með því að nýta sér yfirburði sína gagnvart stúkunni og traust hennar og trúnað til hans sem afa hennar.

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu B, kt. 000000-0000, er þess krafist að ákærði greiði ólögráða dóttur hennar, X, kt. 000000-0000, miskabætur að fjárhæð 2.000.000 kr., auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. júlí 2007 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða þóknun vegna réttargæslu að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun.“

 

 

            Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og frávísunar einkaréttarkröfu. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa sem greiðist úr ríkissjóði.

 

I.

Málsatvik

Upphaf máls þessa má rekja til bréfs Barnaverndar Reykjavíkur þar sem óskað var eftir lögreglurannsókn á meintu kynferðisofbeldi ákærða gegn brotaþola, sem er barnabarn hans. Vísað var til tilkynningar frá skóla brotaþola sem barst [...] 2016 og frásagnar hennar í viðtali við hana og móður hennar [...] 2016. Mun brotaþoli þá hafa greint frá því að ákærði hefði snert hana og kynfæri hennar innanklæða og látið hana snerta hann og kynfæri hans innanklæða. Brotin hafi verið ítrekuð við nánar tilgreindar aðstæður á heimili föðurforeldra.

Brotaþoli, sem er ólögráða, lýtur forsjá móður sinnar. Foreldrar brotaþola voru ekki í sambúð en sambandi þeirra lauk skömmu fyrir fæðingu hennar. Var brotaþoli í umgengni við föður sinn og hitti föðurforeldra sína. Umgengnin varð stopulli eftir því sem hún varð eldri.

Tekin var skýrsla af móður brotaþola [...] 2017, þegar hún lagði fram kæru fyrir hönd hennar. Hún kvaðst fyrst hafa heyrt ásakanir brotaþola á fundi sem boðað hefði verið til í skólanum föstudaginn [...] 2016.

 

Tvær lögregluskýrslur voru teknar af ákærða, sú fyrri [...] 2017. Ákærði neitaði þá alfarið sök. Greindi hann frá því að brotaþoli hefði gist hjá honum og ömmu sinni af og til, hugsanlega fjórðu eða fimmtu hverja helgi og þá aðeins eina nótt. Hann hafi aldrei verið einn með brotaþola nema í mjög stutta stund. Umgengi við hana hafi verið með eðlilegum hætti. Seinni skýrsla af ákærða var tekin [...] 2017 og var þá m.a. borinn undir hann framburður brotaþola í Barnahúsi. Hélt hann sig við fyrri framburð. Ákærði kvaðst engar skýringar hafa á því hvers vegna brotaþoli ætti að bera á hann rangar sakir en vísaði til þess að hún hefði verið haldin sjálfseyðingarhvöt og þyrfti að taka lyf vegna ADHD.

Skýrsla var tekin af brotaþola í Barnahúsi [...] 2017 á grundvelli a-liðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008. Verða helstu atriði framburðar hennar rakin í kafla II.

Í tengslum við rannsókn málsins voru teknar lögregluskýrslur af ellefu vitnum á tímabilinu [...] 2017. Þá var [...] 2017 tekin skýrsla í Barnahúsi af C á grundvelli c-liðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008 og verður efni hennar einnig rakið í II. kafla.

 

Í málinu liggja fyrir gögn frá Barnavernd Reykjavíkur þar sem fram koma upplýsingar um tilkynningu frá [...] [...] 2016 vegna meintra kynferðisbrota skólabróður brotaþola gegn henni. Þá barst tilkynning [...] 2016 frá Hjálparsíma Rauða Krossins en brotaþoli hafði hringt og lýst vanlíðan og sjálfskaðandi hegðun sinni án þess að tilgreina ástæður þessa. Var þessu fylgt eftir af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur með viðtali við brotaþola og móður hennar [...] 2016 þar sem ræddar voru ástæður vanlíðunar hennar.

Önnur tilkynning barst Barnavernd Reykjavíkur frá lögreglu 22. maí 2016, þar sem talið var að brotaþoli hefði reynt að bera rangar sakir á pilt um óhapp sem hún varð fyrir á vespu sem hún var á. Samkvæmt bókun í dagbók lögreglu mun pilturinn hafa verið að aðstoða hana með hjólið en hjólið hrokkið af stað og inngjöfin verið inni.

Brotaþola var vísað í meðferð í Barnahúsi [...] 2016, en lagður hafði verið grunnur að því eftir viðtalið [...] 2016. Könnunarviðtal sem til stóð í [...] 2016 var afþakkað af móður, en hún kvað brotaþola byrjaða í meðferð hjá sálfræðingi á stofu. Í framhaldinu var máli brotaþola lokað.

 

Í vottorði D, sálfræðings á heilsugæslunni [...], dagsettu [...] 2017, kemur fram að brotaþoli hafi sótt fimm viðtöl hjá honum á tímabilinu [...] 2016 vegna depurðar og kvíða. Í fyrsta viðtalinu [...] 2016 voru tveir spurningalistar lagðir fyrir brotaþola, annars vegar vegna kvíða og hins vegar þunglyndis en þá kom hún í fylgd föður. Samkvæmt niðurstöðum þess fyrrnefnda hafi brotaþoli verið rétt ofan við klínísk viðmiðunarmörk en samkvæmt þeim seinni mikið yfir meðallagi og vísbending um mikla depurð hjá henni. Í viðtali [...] 2016 greindi brotaþoli sálfræðingnum frá einelti sem hún hefði orðið fyrir í skólanum en einnig frá tilviki er tengdist dreifingu á óviðeigandi skilaboðum af facebook-síðu hennar. Hefði hún farið í bráðaviðtal á Barna- og unglingageðdeild vegna þess. Skólayfirvöld í [...] hafi [...] 2016 greint sálfræðingnum frá meintu kynferðisofbeldi gegn henni sem hún hefði sagt frá í skólanum. Sama dag hafi brotaþoli komið með móður sinni í viðtal til hans en tilgangur viðtalsins hafi verið að leiðbeina þeim vegna þeirrar stöðu sem upp var komin. Brotaþoli hafi sótt viðtal aftur [...] 2016 eftir fund með skólayfirvöldum. Í viðtali [...] 2016 hafi verið lagður grunnur að framhaldinu. Brotaþoli hafi síðan ekki mætt í fleiri viðtöl hjá sálfræðingnum en vitað var að hún fengi sérhæfða meðferð í Barnahúsi. Í vottorðinu kemur fram að brotaþoli hafi ekki tjáð sig beint um meint kynferðisofbeldi í viðtölunum og ekki hafi verið þrýst á hana að gera það. Fram kemur að staða brotaþola hafi verið verulega slæm á því tímabili er hún var í viðtölum. Sú neikvæða reynsla sem hún hefði gengið í gegnum hefði valdið henni verulegum andlegum erfiðleikum, kvíða, mikilli depurð og neikvæðum hugsunum um stöðu sína, traust, lífið og framtíðina.

 

Í læknabréfi E barnataugalæknis, dagsettu [...] 2017, kemur fram að hún hafi fylgt brotaþola eftir frá árinu 2011 en þá hafi hún komið vegna hamlandi einkenna athyglisbrests með ofvirkni. Hafi hún verið á lyfjum síðan. Hún sé greind með sértæka lesröskun (lesblindu) og hafi þurft ákveðna aðlögun og stuðning við nám. Rakin er aðkoma læknisins að málum brotaþola í gegnum árin. Þá segir í vottorðinu að brotaþoli hafi að mati læknisins ákveðna áhættuþætti, sem nánar er lýst, sem geri hana viðkvæmari en jafnöldrur hennar fyrir því að lenda í misnotkun af einhverju tagi. Hafi hún farið í endurmat sálfræðings á þjónustumiðstöð í byrjun hausts 2016 og hafi þá meðal annars verið gert endurmat á vitsmunaþroska. Mældist greind á tornæmisstigi, rétt yfir mörkum þroskahömlunar á flestum þáttum. Félagsleg staða hennar er sögð slök, ekki afgerandi einkenni á einhverfurófi, vanlíðan mikil og borið hafi á sjálfskaða og sjálfsvígshugsunum. Eftir á að hyggja gætu einkenni hennar og erfiðleikar að hluta til skýrst af misnotkun en læknirinn hafi ekki fengið neinar vísbendingar frá brotaþola sjálfri um slíkt en tekið er fram að hún hafi alltaf verið í fylgd með fullorðnum í viðtölum.

Þá er meðal gagna málsins ítarlegt vottorð sálfræðings Barnahúss frá [...] 2018 eftir meðferðarviðtöl við brotaþola vegna meints kynferðisofbeldis. Viðtöl hafi farið fram frá [...] 2017, alls 18 viðtöl, og þeim sé enn ólokið. Í vottorðinu er gerð grein fyrir áherslum í viðtölunum og tilgangi þeirra. Haft er eftir brotaþola að meint brot gagnvart henni hafi átt sér stað frá fimm ára aldri til 13 ára aldurs. Þau hafi átt sér stað í nánast hvert skipti sem hún gisti á heimili ákærða og ömmu sinnar. Fram kom að hana hefði fljótlega grunað að eitthvað væri rangt við það sem þá gerðist en hún hefði ekki mátt segja neinum frá og seinna hefði hún ekki þorað það. Þá lýsti hún mikilli vanlíðan í gegnum árin og sjálfskaðandi hegðun. Einnig hafi hún lýst slæmu einelti í skólanum. Brotaþoli tengdi sjálf líðan sína við meint kynferðisofbeldi en ekki eineltið, og gerði greinarmun á.

Niðurstöður tveggja spurningalista/sjálfsmatskvarða sem lagðir voru fyrir brotaþola sýndu mjög lágt sjálfsmat, kvíða yfir viðmiðunarmörkum/ „mjög alvarleg“ kvíðaeinkenni, þunglyndi langt yfir viðmiðunarmörkum/ „mjög alvarleg“ þunglyndiseinikenni, reiði yfir viðmiðunarmörkum og truflandi hegðun sömuleiðis.

Einnig var lagt fyrir brotaþola próf sem að hluta til er sjálfsmatspróf sem metur áfallastreitueinkenni. Samkvæmt niðurstöðu prófsins uppfylli brotaþoli greiningarviðmið um áfallastreituröskun og skori töluvert hærra en sett greiningarviðmið séu.

Í niðurlagi vottorðsins segir m.a. að meint kynferðisbrot hafi haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir brotaþola og séu einkennin dæmigerð fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Hún tengi sjálf vanlíðan sína, vondar hugsanir og martraðir við meint kynferðisbrot. Líðan brotaþola hafi lítið lagast, þrátt fyrir mörg viðtöl, og ljóst sé að það muni taka langan tíma fyrir hana að byggja sig upp og ná bata. 

 

II.

Skýrsla var tekin af brotaþola í Barnahúsi [...] 2017. Greindi hún frá því að ákærði hefði brotið gegn henni kynferðislega frá fimm ára aldri og þangað til að hún var 12–13 ára eða komin í 7. bekk. Brotin hafi átt sér stað á heimili ákærða að [...]. Kvaðst hún ekki gera sér grein fyrir því hversu oft en þá hefðu hún og systkini hennar gist þar. Brotin hafi átt sér stað að nóttu til í hjónarúmi ákærða og ömmu hennar. Þá hafi amma hennar verið í rúminu. Einnig hafi brotin átt sér stað á morgnanna þegar amma hennar fór út að hlaupa eða labba. Hafi hún verið lengi í burtu í þau skipti. Ákærði hafi snert kynfæri hennar innanklæða án þess að setja fingur í leggöng en einnig látið hana fróa sér og haldið hendi hennar. Þá myndi hún eftir því að hann hefði fengið fullnægingu og farið inn á baðherbergi á eftir. Taldi brotaþoli brotin hafa hætt því hún hafi hætt að fara til þeirra eða verið minna hjá þeim og hætt í 7. bekk. Nefndi hún tvö tilvik þegar hún hefði neitað að koma með ákærða upp í rúm. Í annað skiptið hafi hún verið í stofunni að horfa á eitthvað með bróður sínum en í hitt skiptið í sínu eigin rúmi. Brotaþoli kvaðst hafa sagt C fyrstri allra frá en hún hafi séð að henni leið illa og brotaþola fundist tími til kominn að segja einhverjum sem hún treysti frá þessu. Brotaþoli kvaðst ekki hafa þorað að segja frá en ákærði hafi ekki beðið hana um að þegja.

            Í skýrslu C í Barnahúsi þann  2017 kom fram að hún væri bekkjarsystir og vinkona brotaþola. Þær hafi þó ekki verið nánar og hist sjaldan. Hafi hún veitt því eftirtekt að brotaþoli hefði verið eitthvað leið í skólanum, „eins og eitthvað virkilega mikið væri að“ og því hafi hún spurt hvað angraði hana. Hafi hún sagt við hana að brotaþoli gæti treyst henni. Brotaþoli hafi þá spurt hvort hún mætti segja henni nokkuð, „ég hef aldrei sagt neinum þetta áður“. Hafi vitnið kvatt hana til þess enda gert sér grein fyrir nauðsyn þess að fá hjálpina sem maður þyrfti. Kvað brotaþoli afa sinn hafa misnotað sig síðan hún var lítil stelpa og að brotin hefðu staðið í einhvern tíma. Hann hefði komið við hana og látið hana koma við sig en vitnið kvaðst ekki muna nákvæmlega hvað hún hefði sagt. Hún muni þó að það hafi verið „bara virkilega ólöglegt og ógeðslegt“ sem átti sér stað. Fram kom að brotaþoli héldi að amma hennar vissi af þessu. Brotaþoli hafi verið „mjög stressuð“ og „ótrúlega leið“ og grátið á meðan á frásögninni stóð. Hafi verið mjög erfitt fyrir hana að segja frá þessu. Eftir að málið kom upp hafi hún sagt að föðurfjölskylda hennar hefði í kjölfarið alveg lokað á hana.

 

Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða, brotaþola og annarra vitna við aðalmeðferð málsins, að því marki sem nauðsynlegt þykir til úrlausnar þess.

Ákærði kvað brotaþola hafa komið af og til heim til þeirra hjóna að [...] á pabbahelgum. Það hafi ekki verið nein regla á því. Ákærði staðfesti að F sonur hans hefði búið á heimilinu á tímabili en mundi ekki hvenær. Kvað hann þau hjónin ekki hafa leitað eftir því að fá brotaþola inn á heimilið heldur hafi þá komið ósk um það. Eiginkona hans hefði sinnt brotaþola mest þegar hún kom en hún hefði líka unnið starf sitt á heimili sínu og því alltaf verið á staðnum. Hann hafi verið útivinnandi og mikið að heiman. Ákærði kvað það hafa komið fyrir að brotaþoli hefði komið upp í hjónarúm þegar lesið var fyrir hana fyrir svefninn en síðan hefði hún farið inn í sitt herbergi. Ákærði kvaðst hafa verið með börnin þegar eiginkona hans þurfti að skreppa út í búð. Þá kannaðist hann við að hafa verið með börnin þegar eiginkona hans fór í göngutúra en þó ekki meira en hálftíma í senn. Ákærði kvað brotaþola einnig hafa komið á heimilið til ömmu sinnar á daginn til að læra.

Ákærði taldi brotaþola hafa komið síðast á heimilið haustið 2016. Kvaðst hann ekki muna hvenær hún gisti síðast. Þá kvaðst hann ekki vita hvers vegna hún hefði hætt að koma en ekkert hefði gerst sem orðið hefði til þess. Staðfesti hann að heimsóknum hefði farið fækkandi eftir því sem hún varð eldri. Kvaðst hann ekki hafa hugmynd um hvort það hefði staðið til að brotþoli kæmi og gisti dagana í kringum [...] 2016. Ákærði kvað sér og brotaþola hafa komið vel saman en hann kæmi eins fram við öll barnabörn sín. Hún hafi fyrst verið opinn og skemmtilegur krakki en síðan farið að vera aðeins „inni í sér“. Þá hafi orðið breyting á hegðun og kannaðist ákærði við vanlíðan brotaþola. Hugsanlega mætti rekja það til „tætings“ á barninu þar sem umgengni hefði verið skipt milli foreldra. Einnig hefði móðuramman komið inn á heimilið en við það hefði brotaþoli gjörbreyst.

Ákærði kvaðst aðspurður vera mjög sorgmæddur og sár yfir öllu þessu. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa neinar skýringar á ásökunum brotaþola.

Brotaþoli kvað ákærða hafa brotið gegn sér á heimili hans og ömmu hennar að [...]. Brotin hafi alltaf átt sér stað í svefnherbergi ákærða og ömmu hennar. Þau hafi byrjað þegar hún var fimm ára og staðið allt þar til hún var hálfnuð með 8. bekk eða var 13 ára. Hafi ákærði farið með henni í „kúra leik“. Kvaðst brotaþoli muna eftir honum í nærbuxunum einum. Hann hafi snert ber kynfæri hennar og látið hana snerta bert typpið á sér. Um snertingar á kynfæri hennar kvaðst hún ekki muna hvort hönd ákærða hefði verið kyrr eða ekki. Um snertingar á typpi ákærða kvaðst hún hafa reynt að taka hönd hans frá en hann hefði sett hana aftur á typpið. Hafi typpið verið hart. Ákærði hafi látið hana nudda typpið og „runka“ sér. Kvaðst hún muna eftir einu skipti er hún taldi hann hafa fengið sáðlát en þá hefði hann farið beint inn á baðherbergið á eftir. Brotin hefðu átt sér stað á næturnar þegar hún fór upp í hjónarúm ákærða eða á daginn þegar amma hennar var fjarverandi. Brotaþoli kvað ömmu sína hafa verið í hjónarúminu þegar hún fór upp í á næturnar og taldi að hún hlyti að hafa vitað af því sem fram fór. Nánar spurð kvaðst hún draga þá ályktun vegna þess að hún hefði sagt við ákærða „ekkert svona“ en það hafi verið eitt sinn þegar ákærði hefði verið „inná henni“ þegar þau voru í útilegu. Í hin skiptin hafi ákærði kallað á hana þegar hún var í stofunni og hafi hún farið með honum. Þá hafi amma hennar verið úti að skokka. Hún kvaðst muna eftir litla bróður sínum á heimilinu líka.

Brotaþoli kvað ákærða hafa brotið gegn sér þegar hún fór í gistingu til ákærða. Hún kvaðst þó muna eftir tveimur skiptum þegar hún „hafnaði“. Það hafi gerst þegar ákærði hefði beðið hana að koma með sér í svefnherbergið en í bæði skiptin hefði hún neitað. Nefndi hún tilvik er ákærði hefði vakið hana í herberginu þar sem hún svaf og tilvik er hún var inni í stofu. Hún kvaðst ekki geta sagt til um hvenær þetta gerðist á tímabilinu.

Brotaþoli kvaðst hafa áttað sig í kringum 5. bekk á því að það sem ákærði gerði væri rangt. Hún hefði viljað segja frá þegar hún var fimm ára en haldið að mamma hennar yrði reið og að þetta væri hennar sök. Hafi hún haft hugsanir um þetta og vaknað á næturnar við martraðir. Aðspurð kvað brotaþoli sig minna að ákærði hefði sagt við hana að hún mætti ekki segja frá. Þegar borinn var undir hana framburður hennar í Barnahúsi þar sem fram haft er eftir henni að ákærði hafi ekki beðið hana um að þegja yfir þessu, kvaðst hún ekki muna þetta. Hún kvaðst ekki muna hvenær hún hætti alveg að fara til ákærða en það hefði verið áður en hún sagði frá. Taldi hún að hún hefði verið 13 ára. Á því tímabili hefði hún einnig farið til að læra hjá ömmu sinni en þá hefði ákærði ekki verið heima.

Brotaþoli kvaðst hafa sagt skólasystur sinni C frá því sem gerðist. C hefði alltaf verið góð við hana og hún ákveðið að treysta henni. C hefði séð á henni að eitthvað amaði að og gengið á hana. Hafi brotaþoli viljað hitta foreldra sína og segja þeim frá þessu. Á fundi í skólanum hefði pabbi hennar ekki trúað henni og rokið út. Hann hafi sagt að ákærði „væri ekki svona maður“ og að hún væri að ljúga. Nánar spurð kvað hún engan fullorðinn einstakling hafa brotið gegn henni annan en ákærða. Aðspurð kvað brotaþoli ekki hafa staðið til að fara til ákærða þegar hún sagði frá í skólanum. Hún hefði ekki ætlað að láta „svona gerast fyrir sig“. Aðspurð kvað brotaþoli hugsanlegt að hún hefði sagt G og H „eitthvað aðeins“ áður en hún sagði C „alla söguna“ en væri þó ekki viss.

Brotaþoli kvaðst hafa búið hjá mömmu sinni og um tíma hjá ömmu sinni en móðir hennar hefði verið úti í [...] í eitt og hálft ár. Á tímabili hafi hún verið viku og viku í senn hjá föður sínum og stundum hafi hún viljað vera lengur hjá honum. Einnig hafi komið fyrir að hún hafi ekki viljað fara heim til mömmu sinnar. Þegar hún varð eldri hefði hún fengið að ráða hjá hvoru foreldri hún væri og hefði þá verið í sambandi við pabba sinn beint. Hann hafi ákveðið hvort hún færi til ákærða og hún hafi engu fengið að ráða um það. Aðspurð kvaðst hún stundum hafa átt frumkvæðið að því að fara til ákærða og ömmu sinnar. Hvað varðaði tengsl við fjölskylduna kvaðst brotaþoli hafa verið nánust I. Aðspurð kvað brotaþoli samband sitt við mömmu sína hafa verið fínt undanfarið en áður hefði það verið mjög lítið.

Eftir að mál þetta kom upp hefði hún hitt pabba sinn. Kvað hún hann hafa reynt að „koma því inn í hausinn á mér“ að gerandinn væri einhver annar. Hún viti hins vegar hvað gerðist. Pabbi hennar héldi hins vegar að ákærði væri saklaus. Þau ættu því ekki samskipti núna. Líði brotaþola eins og pabbi hennar vilji ekki tala við hana því hann hringi ekki í hana. Hann hefði ekki einu sinni hringt í hana á afmælisdaginn hennar. Aðspurð kvaðst brotaþoli vera reið ákærða og ömmu sinni. Kvaðst hún vera reið ömmu sinni af því að hún hefði ekki „stoppað þetta“.

Brotaþoli kvað sér hafa liðið illa en síðan hefði líðanin sífellt versnað þar til hún hefði byrjað að skera sig. Það hefði gerst fyrst þegar hún var í 6. bekk. Hún hafi hætt í smátíma en byrjað aftur og hafi hún þá lent á spítala. Það hafi komið upp hlutir inni á milli líka. Kannaðist brotaþoli við mál sem hefði komið upp og tengdist eldri pilti. Þetta mál, sem hér er til umfjöllunar, hefði hins vegar valdið henni mestri vanlíðan. Henni hefði gengið „upp og niður“ í meðferð. Aðspurð kannaðist vitnið við að hafa fengið martraðir bæði áður en hún sagði frá og eftir. Hún kvaðst hins vegar ekki muna hvað sig hefði dreymt.

B, móðir brotaþola, kvaðst hafa verið boðuð til neyðarfundar í skólanum. Á þeim fundi hafi brotaþoli sagt frá því að hún hefði verið misnotuð frá 5 ára aldri og til 13 ára aldurs. Hafi vitninu brugðið „rosalega“. Brotaþoli hefði aldrei sagt vitninu frá því sem gerðist í smáatriðum en brotin hefðu átt sér stað þegar ákærði hefði verið með brotaþola uppi í rúmi hjá sér. Vitnið staðfesti það sem eftir henni er haft í lögregluskýrslu um að brotaþoli hefði sagt henni að brotin hefðu staðið frá fimm ára aldri hennar.

Vitnið kvaðst hafa búið á heimili móður sinnar um tíma með brotaþola en flutt þaðan út 19 ára gömul. Hún hafi komið aftur inn á heimili móður sinnar með brotaþola 21 árs en síðan hafi þær flutt í [...]. Kvaðst vitnið hafa búið í [...] í eitt og hálft ár en komið heim 2013. Á þeim tíma hafi brotaþoli búið hjá ömmu sinni. Vitnið kvað föður brotaþola hafa verið í reglulegri umgengi við hana aðra hverja helgi. Yfirleitt hafi hún verið hjá föðurforeldrum annan daginn. Síðar hafi hún fengið að ráða umgengninni og stundum verið viku og viku. Hafi brotaþoli haft samráð við föður sinn um það. Í dag væri umgengni engin og hefði brotaþoli tekið ákvörðun um það sjálf.

Aðspurð kvað vitnið brotaþola oft hafa mótmælt því að fara til föður síns og hún hefði yfirleitt verið óánægð þegar hún kom til baka. Hún hefði þó aldrei talað við vitnið um kynferðisbrot ákærða gegn sér.

Vitnið kvað brotaþola hafa byrjað á lyfjum fimm ára vegna ADHD. Hún hafi þá verið á síðasta leikskólaári og farið á greiningarmiðstöðina. Hún hafi fengið martraðir og höfuðverki strax um sex ára aldur. Þá hafi hún lent í einelti alla sína skólagöngu og ítrekað skaðað sig. Eftir að mál þetta kom upp hafi líðan brotaþola versnað og hún dottið í þunglyndi og sagt að hún vildi deyja. Hún hefði farið í viðtöl í Barnahúsi og liðið betur á tímabili en dottið aftur niður.

J, eiginkona ákærða, kvað það vera alrangt sem brotaþoli segði. Hún tryði henni ekki enda hefði hún verið gift ákærða í 40 ár og þekkti hann vel. Þá ættu þau fleiri barnabörn. Þá hefði sonur hennar sagt henni að brotaþoli segði ekki alltaf satt. Aðspurð kvaðst hún þó ekki sjálf hafa staðið brotaþola að lygi. Henni væri kunnugt um vandamál brotaþola, svo sem einelti, en hefði ekki rætt þau við hana.

Vitnið kvað föður brotaþola hafa búið á heimili þeirra um tíma m.a. frá 2007. Brotaþoli hafi verið í umgengni við föður sinn og hafi komið til þeirra nótt og nótt en ekki þó oft í mánuði. Hafi brotaþoli ævinlega verið glöð þegar hún kom. Engin regla hafi verið á þessum gistingum en sonur hennar hefði spurt hvort hún mætti koma. Aðspurð staðfesti vitnið að brotaþoli hefði hugsanlega gist aðra nóttina þegar hún var hjá föður sínum en þó hefði það ekki verið algilt. Einnig hefði brotaþoli komið til að læra hjá vitninu. Þegar brotaþoli gisti hefði hún gjarnan komið upp í hjónarúm snemma morguns. Hafi vitnið alltaf vaknað við það en hún svæfi laust. Hafi smám saman dregið úr gistingu og heimsóknum fækkað. Taldi hún brotaþola hafa komið síðast á árinu 2016. Þá kannaðist vitnið við að hafa farið í gönguferðir á morgnana og hafa verið í um hálftíma. Aðspurð kvað vitnið brotaþola hafa verið tengdari I, stjúpmóður sinni, en föður sínum.

F, faðir brotaþola, kvaðst fyrst hafa heyrt af máli þessu á fundi í skólanum. Brotaþoli hafi verið skömmustuleg í byrjun fundar og hafi þurft að draga upp úr henni frásögnina. Hann hefði orðið mjög æstur og reiður þegar hún bar sakir á ákærða. Móðir brotaþola hefði farið að gráta og það hefði orðið til þess að æsa brotaþola upp og hún hefði einnig farið að gráta. Vitnið kannaðist ekki við að það hefði staðið til að brotaþoli gisti hjá honum eða föðurforeldrum þessa helgi. Hún hefði hætt að fara til þeirra sennilega um það leyti sem mál þetta kom upp.

Vitnið kvaðst frá upphafi hafa verið í reglulegri umgengni við brotaþola þó það hefðu komið tímabil sem hún hefði fallið niður af ástæðum er vörðuðu móður brotaþola. Þá hefðu líka komið tímabil þar sem brotaþoli var viku og viku í umgengi. Hann hefði búið hjá foreldrum sínum að [...] tiltekin tímabil. Brotaþoli hafi þá verið í herbergi hans eða sérherbergi sem hún hefði fengið til afnota. Hann kvað brotaþola ekki hafa farið upp í rúm til foreldra hans. Hann hefði fengið að heyra af því ef svo væri.

Vitnið kvað brotaþola þekkta fyrir að ljúga að honum og öllum í kringum sig. Teldi hann að hún bæri þessar sakir á ákærða til þess að fá athygli, en hún fengi hana vegna málsins. Nánar spurður kvað vitnið brotaþola hafa farið á bak við hann. Þá hafi lygarnar verið „útplanaðar“ allt frá unga aldri og meira en gengi og gerist hjá börnum. Nefndi hann sem dæmi að hún lygi að honum til þess að komast út og einnig hefði hún kennt strák um að skemma vespuna sína. Vitnið kvaðst ekki geta nefnt dæmi um sögur sem brotaþoli hefði skáldað. Hann hefði lítið rætt þetta mál við brotaþola en hún hefði komið til hans eftir að málið kom upp. Hann hefði spurt hana út í málið og hvort þetta hefði gerst. Hún hafi sagt við hann að hún væri ekki viss og hefði hann þá sýnt henni mynd af manni sem væri dæmdur barnaníðingur og í samskiptum við ömmu hennar. Hann væri svipaður ákærða og því hugsanlegt að brotaþoli væri að rugla þeim saman. Hefði brotaþoli farið að gráta og hlaupið frá honum. Spurður um vanlíðan brotaþola kvað vitnið að ástæðurnar mætti rekja til móður brotaþola. Hann kvað sér vera kunnugt um þroskaskerðingar brotaþola.

I, eiginkona föður brotaþola, kvað brotaþola hafa komið inn í líf sitt 2007. Faðir brotaþola hafi þá búið hjá foreldrum sínum en flutt til vitnisins árið 2009. Brotaþoli hafi verið kát og glöð og venjulegt barn. Hún hafi alltaf verið fús að fara í gistingu til hans og ömmu sinnar og verið mjög hænd að þeim. Hafi samband hennar og ákærða verið fallegt. Hafi hún stundum gist hjá þeim eina nótt. Kvaðst vitnið ekki hafa verið á staðnum þá.

Þegar nálgaðist fermingaraldurinn hefði brotaþola farið að líða illa og hún orðið þunglynd. Hún hefði sótt í óæskilegan félagsskap og átt erfitt félagslega og námslega. Brotaþoli hafi rætt mikið við vitnið því hún hafi ekki getað rætt við móður sína. Hún hefði sagt henni frá strákamálum og leitað ráða. Hún hafi verið mjög upptekin af strákum og hafi byrjað að stunda kynlíf ung. Vitnið kvaðst hafa uppgötvað að brotaþoli væri farin að skera sig en það hefði verið þegar hún var á unglingsaldri. Hafi hún sagt að það væri vegna vanlíðunar og hefði talað um eineltið í skólanum. Hún hefði hins vegar aldrei rætt um kynferðisofbeldi ákærða gegn sér. Brotaþoli hefði logið til að fá athygli. Aðspurð kvaðst vitnið ekki geta sagt hvort það væri meira en gangi og gerist. Hún hefði þó logið ýmsu að vitninu, t.d. um samskipti sín við strák í 10. bekk, og lýsti vitnið því frekar.

Kvaðst vitnið hafa starfað í leikskóla og hefði auk þess verið dagmóðir í [...] ár. Hún hefði sótt námskeið hjá Blátt áfram og teldi sig vel læsa á einkenni sem gætu verið vísbending um að barn hefði verið beitt kynferðisofbeldi. Kvaðst vitnið ekki hafa séð nein slík merki hjá brotaþola en viðurkenndi þó, nánar spurð,að sumt í fari brotaþola gæti talist til slíkra einkenna. Hún kannaðist við að brotaþoli hefði fengið magaverki en kvað það hafa verið af líkamlegum orsökum og hefði hún fengið ráð við því á læknavakt.

Eftir að málið kom upp kvaðst vitnið hafa reynt að ræða við brotaþola og m.a. trúað henni fyrir sambærilegri reynslu sinni. Þá hefði faðir brotaþola sýnt henni mynd af manni sem hugsanlegum geranda og hefði brotaþola brugðið mjög og komið grátandi í fangið á henni. Hún hefði hins vegar ekki verið vitni að samskiptum þeirra á milli í tengslum við þetta. Aðspurð kvaðst vitnið halda að brotaþoli hefði átt að koma til pabba síns eftir fundinn í skólanum. Í dag banni móðir brotaþola henni að koma til föður síns.

K, aðstoðarskólastjóri [...], áður deildarstjóri stoðþjónustu, lýsti aðkomu sinni að málinu og aðgerðum í framhaldinu. Brotaþoli hefði sagt frá því að ákærði hefði frá fimm ára aldri hennar káfað á henni og látið hana káfa á sér. Hún kvað skólann hafa látið brotaþola njóta vafans og fyrst og fremst hugsað um að hlúa að henni en láta aðra um rannsókn málsins. Hafi foreldrar brotaþola komið á fund í skólann að beiðni brotaþola en fram hefði komið að hún ætti að fara til ákærða og ömmu sinnar þessa helgi og hún gæti það ekki. Brotaþoli hafi sagt sjálf frá og faðir hennar hefði hlustað á hana en frásögnin orðið honum um megn, hann orðið reiður og rokið út. Móðirin hefði grátið og ljóst hefði verið að frásögnin kæmi henni í opna skjöldu. Brotaþoli hefði líka grátið og hún hefði huggað móður sína. Hafi þetta verið í fyrsta skipti sem vitnið hefði séð brotaþola gráta. Alla jafna hefði hún verið með sterka grímu.

Vitnið kvað brotaþola hafa verið í skólanum frá því í 7. bekk. Hún hefði áður fengið stuðning vegna námsörðugleika og áfram eftir að í [...] kom. Hafi þá verið reglulegir teymisfundir vegna brotaþola en einnig hefði brotaþoli leitað til námsráðgjafa og hjúkrunarfræðings. Hún hefði þörf fyrir að segja frá ýmsu, alvarlegar sögur en ekki skáldaðar, og kæmi fyrir að það yrði mikið „drama“ í kringum það þegar samnemendur hennar fengju að heyra. Hefði brotaþoli því verið hvött til að leita til fagaðila í skólanum fremur en að segja frá með þessum hætti. Vitnið lýsti erfiðleikum brotaþola í námi, einelti gagnvart brotaþola í skólanum og áhættuhegðun hennar í tengslum við stráka. Einnig greindi hún frá tveimur málum sem tengdust strákum í skólanum, en annað hefði komið upp fyrir þetta mál en hitt eftir. Þá lýsti vitnið samskiptum við foreldra brotaþola.

L, umsjónarkennari brotaþola, lýsti aðkomu sinni að málinu eftir að brotaþoli leitaði til C vegna meints kynferðisofbeldis ákærða. Hefði brotaþoli verið fremur „flöt“, virkað stressuð og ekki sýnt miklar tilfinningar fyrir fundinn. Hún hafi viljað fá foreldra sína á staðinn en til hefði staðið að hún færi til ákærða og ömmu sinnar. Þá hafi hún að þeim viðstöddum greint frá því að ákærði hefði snert hana og hún snert hann. Hefði hún brotnað niður eftir frásögnina en viðbrögð föður hennar á fundinum hefðu einnig haft áhrif á hana. Virtist faðir hennar fyrst vera að átta sig á því sem hefði verið sagt og síðan brugðist við eins og hann gerði. Aðspurð kvað vitnið að sér hefði fundist brotaþoli trúverðug.

Vitnið kvaðst ekki hafa vitað hvað hefði verið að angra brotaþola. Henni hafi verið kunnugt um eineltið og að henni hefði gengið illa félagslega. Stuttu fyrir þetta hefði C, bekkjarsystir brotaþola, opnað sig fyrir bekknum og tjáð sig um vandamál sín, sem þó voru annars eðlis en brotaþola, og hafi brotaþoli einnig viljað tjá sig en verið beðin um að ræða við félagsráðgjafa. Vitnið kvaðst hafa verið kennari brotaþola áfram í tvö ár eftir atvikið. Það hefði komið fyrir að hún hefði staðið brotaþola að ósannsögli en það hefði þá aðallega verið vegna einhvers sem tengdist náminu.

M kennari kvaðst hafa verið kennari brotaþola í tileknum fögum en síðar í 8. og 9. bekk [...]. Lýsti vitnið því er C kom með brotaþola og kvað hana þurfa að segja frá nokkru. Hún hafi svo hvatt brotaþola til að segja vitninu frá. Brotaþoli hafi verið vandræðaleg og lítið sagt en fram hefði komið að hún hefði verið misnotuð af ákærða í tiltekinn tíma eða frá tilteknum aldri. Hún hafi átt að fara til hans um kvöldið en ekki viljað það. Aðspurð kvaðst vitnið hafa lagt trúnað á það sem brotaþoli sagði á þessum tíma. Málið hafi síðan verið sett í tiltekinn farveg og hafi vitnið ekki verið á fundinum síðar um daginn. Vitnið kvað brotaþola hafa átt erfitt uppdráttar í nemendahópnum en hún hefði reynt að kalla á athygli með neikvæðum árangri. Hefði ítrekað komið upp ágreiningur í nemendahópnum um það hvort hún væri að segja satt. Vitnið kvað brotaþola oft hafa talað við hana um það þegar hún hefði talið gert á sinn hlut. Almennt væri hún frekar „mónótónísk“ þegar hún segði frá en væri yfirleitt nákvæm í frásögnum og ítarleg.

N kvaðst hafa verið sérkennari í teymi fyrir brotaþola í unglingadeild [...]. Hún lýsti aðkomu sinni eftir að hún var kölluð á fund þar sem brotaþoli sagði frá meintum kynferðisbrotum ákærða gegn sér. Hefði hún talað um snertingar og annað óviðeigandi. Hefði vitnið lagt trúnað á það sem hún sagði. Brotaþoli hefði verið niðurlút og „tilfinningaflöt“ og öðruvísi en venjulega. Hún hefði sagt að hún ætti að fara til ákærða um helgina. Vitnið lýsti brotaþola sem mislyndri og stundum væri hún ör þegar hún segði frá og talaði um vanlíðan sína. Þá ætti hún frekar auðvelt með að tala um hluti. Vitninu væri kunnugt um sjálfskaðandi hegðun brotaþola og hefði brotaþoli m.a. leitað til námsráðgjafa. Vitnið kvaðst vita til þess að einelti hefði komið upp í gamla skólanum hennar og þar hefði hún fengið stuðning sem fólst m.a. í því að fá námsefni við hæfi. Þegar hún hefði komið í [...] hefði því legið fyrir að hún þyrfti aðstoð enda með greiningar. Lýsti vitnið vinnu í aðstoðarteymum og aðkomu foreldra. Kvað hún ljóst að fjölskyldumál brotaþola væru flókin og samskipti brotaþola við móður sína hefðu verið „skrykkjótt“. Þá staðfesti vitnið að skólanum hefði verið kunnugt um áhættuhegðun brotaþola, m.a. varðandi stráka, og reynt hefði verið að fylgjast með því. Vitnið kvaðst hafa komið úr fæðingarorlofi í [...] 2017. Þá hafi brotaþoli verið búin að „kúpla sig út“. Hún hefði mætt illa í skólann og hefði verið „rosa týnd“.

G, vinkona brotaþola, kvað þær hafa kynnst á árinu 2014. Brotaþoli hefði greint sér frá því að föðurafi hennar hefði snert einkastaði hennar eða kynfærin. Kvaðst vitnið ekki muna hvort hún sagði henni að hann hefði látið hana snerta sig. Þá hefði brotaþoli talið að amma sín vissi af því sem ákærði gerði. Brotaþoli hafi sagt að það væri rifrildi í fjölskyldunni og að faðir hennar tryði henni ekki. Vitnið kvað brotaþola vera þunglyndari eftir að hún sagði frá. Hún kvaðst ekki muna hvenær brotaþoli sagði henni frá þessu.

H, vinur brotaþola, kvaðst ekki muna atvik vel í dag en brotaþoli hefði sagt honum frá því á sínum tíma að afi hennar hefði brotið gegn henni. Henni hefði liði illa þegar hún sagði honum frá því og skolfið. Hann kvaðst ekki muna hvenær hún sagði honum frá þessu.

O, vinkona brotaþola, kvað hana hafa sagt sér frá því að hún hefði verið misnotuð af afa sínum þar til í 6. eða 7. bekk. Borin var undir hana lögregluskýrsla þar sem vitnið hefur eftir brotaþola að brotin hafi staðið frá fimm ára aldri og fram í miðjan 8. bekk og einnig að hann hefði látið hana fikta í typpinu og „gera fullt af hlutum“. Taldi hún sig hafa munað þetta betur þegar skýrslan var gefin. Vitnið kvað brotaþola líða illa í dag og vera reiða.

P félagsráðgjafi kom fyrir dóminn og lýsti aðkomu sinni að málinu og fór yfir helstu atriði í skriflegri kæru sinni til lögreglu. Kvaðst hún hafa átt viðtal við brotaþola og móður hennar [...] 2016 vegna tilkynningar frá [...]. Vitnið kvaðst áður hafa haft aðkomu að máli er tengdist brotaþola [...] 2016. Hefði hún haft miklar áhyggjur af henni og einnig hefði skólinn haft áhyggjur af henni. Vitnið staðfesti að annað mál hefði komið upp eftir þetta en henni væri ekki kunnugt um afdrif þess.

Q, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar [...], kvað brotaþola hafa komið reglulega þangað. Hún hafi í [...] 2017 spurt hvort hún mætti tala við vitnið. Hafi hún verið niðurlút og átt erfitt með að horfa í augu vitnisins. Hefði hún fyrst sagt henni frá vanlíðan sinni og að hún hefði skorið sig en síðan að afi hennar hefði beitt sig kynferðislegu ofbeldi. Hún hefði einnig talað um að faðir hennar tryði henni ekki, nánast afneitaði henni, og hefði hún tekið því illa. Vitnið kvaðst hafa þekkt brotaþola ágætlega enda hefði hún rætt ýmsa hluti við hana. Hefði hún átt erfiðara með að ræða þetta mál en annað og dregið sig nokkuð til baka.

D, sálfræðingur á heilsugæslu [...], lýsti aðkomu sinni að málum brotaþola, en upphaflega hefði hún komið til hans vegna depurðar og kvíða. Í kjölfar fundar í skólanum [...] 2016 hefði skólinn óskað eftir því að hann ræddi við brotaþola og móður hennar. Báðar hefðu þær verið verið í uppnámi og þurft ráðgjöf. Þá hefði hann hitt brotaþola í framhaldinu en meint kynferðisbrot hefðu ekki verið rædd. Vitnið fór yfir helstu atriði vottorðs síns.

U, sálfræðingur hjá þjónustumiðstöð [...] og [...], kvaðst hafa fengið tilvísun frá [...] á árinu 2015 en brotaþoli hefði sýnt sjálfskaðandi hegðun og átti í verulegum námserfiðleikum. Lögð hafi verið fyrir hana próf og hefðu niðurstöður m.a. verið þær að brotaþoli reyndist vera á tornæmisstigi. Brotaþola hafi ekki verið vísað á BUGL heldur til barnataugalæknis.

E barnataugalæknir fór yfir helstu atriði læknabréfs síns frá [...] 2017. Hún kvað brotaþola hafa komið til sín fyrst 2011 og hefði hún þá verið greind með athyglisbrest og ofvirkni en einnig lesblindu. Kvað vitnið sér ekki vera kunnugt um fyrri greiningar. Vitnið hefði sett hana á lyf sem hjálpuðu henni með einbeitingu. Þá hafi hún hitt hana reglulega. Hafi verið ljóst að hún hefði ýmsa áhættuþætti sem gerðu það að verkum að hún væri auðvelt skotmark. Frávik væru í taugaþroska hennar og vísaði vitnið í niðurstöður endurmats á vitsmunaþroska. Vitnið kvaðst hafa sent brotaþola til barnageðlæknis fyrir um ári þar sem henni hefði fundist hún vera verr stödd, „eins og slæða yfir henni“ og með skurðsár. Hafi það m.a. verið gert svo endurmeta mætti lyfjameðferð hennar.

Þ, sálfræðingur í Barnahúsi, fór yfir helstu atriði ítarlegs vottorð síns frá [...]2018. Hún kvað vanlíðan brotaþola vera mjög áberandi, niðurstöður prófa sýndu þunglyndi og kvíða auk þess sem hún hefði verið greind með áfallastreituröskun. Sjálf hefði hún sagt að einelti sem hún lenti í væri léttvægt miðað við umrædd brot ákærða. Var þar meðtalið atvik tengt skólabróður hennar. Lýsti vitnið þeirri aðferð sem notuð væri við greiningu á áfallastreituröskun, en langur tími þurfi að líða frá áfalli og þar til unnt sé að staðfesta að hún sé fyrir hendi. Hafi verið tengsl á milli áfallastreituröskunar og hinna meintu brota.

Vitnið kvað brotaþola hafa sýnt sjálfskaðandi hegðun og í eitt skiptið hefðu skurðsár verið veruleg. Sjálfsmat hennar væri lágt og í raun hefði hún öll dæmigerð einkenni þolanda kynferðisofbeldis, en markalaus hegðun við hitt kynið væri eitt þeirra. Aðspurð kvað hún þó ekki unnt að staðhæfa að einkennin mætti rekja til kynferðisbrota ákærða. Þá hefði það haft verulega þýðingu fyrir hana að föðurfjölskyldan tryði henni ekki. Hún upplifði mikla sjálfsásökun og sektarkennd yfir því hvernig komið væri, til að mynda að hún hefði farið til ákærða og að hafa ekki sagt fyrr frá því sem gerðist. Einnig upplifi brotaþoli reiði í garð ákærða. Hún væri enn í meðferð hjá vitninu. Brotaþoli hefði staðið föst á sínu og hefðu engin merki verið um að hún segði ósatt.

 

III.

Niðurstaða

Ákærða eru gefin að sök ítrekuð kynferðisbrot gegn sonardóttur sinni frá því að hún var 5 ára gömul til 12–13 ára aldurs og hafi brotin átt sér stað stað á heimili hans og eiginkonu hans að [...].

            Ágreiningslaust er að á tímabilinu var brotaþoli talsvert á heimili ákærða. Faðir hennar, F, var í reglulegri umgengni við hana en hann bjó á heimili ákærða á tímabilinu. Eftir að hann flutti þaðan kom brotaþoli oft í næturgistingu þangað og þá gjarnan eina nótt þær helgar sem faðir hennar var í umgengni við hana. Einnig kom brotaþoli af og til í heimsókn á heimilið og á tímabili á virkum dögum til þess að læra með ömmu sinni. Meint brot áttu sér stað þau skipti er brotaþoli gisti á heimili ákærða að [...]. Óumdeilt er að úr gistingum brotaþola dró eftir því sem hún varð eldri og er mál þetta kom upp var nokkuð liðið frá því að hún gisti þar síðast. Brotaþoli var þá enn í umgengi við föður sinn.

Gögn málsins bera með sér að brotaþoli hefur átt við margþættan vanda að stríða, eins og fram hefur komið. Hún var greind með athyglisbrest og ofvirkni en auk þess er hún lesblind og greind hennar talin á tornæmisstigi, rétt yfir mörkum þroskahömlunar á flestum þáttum. Félagslega hefur brotaþoli átt erfitt uppdráttar og ítrekað lent í einelti. Þá varð áhættuhegðun tengd hinu kyninu æ meira áberandi og olli áhyggjum skólayfirvalda í [...], eins og fram kemur í gögnum. Í skólanum hafði brotaþoli margsinnis frumkvæði að því að leita til kennara og bera sig eftir annarri fagaðstoð. Hafði hún mikla þörf fyrir að tjá sig þegar hún taldi gert á sinn hlut, eins og fram kom hjá vitnum í málinu.

 

            Ákærði neitar staðfastlega sök og kveður brotaþola fara með rangt mál. Framburður hans var á sama veg hjá lögreglu og fyrir dómi hvað þetta og meginatriði málsins varðar. Brotaþoli bar einnig í öllum meginatriðum á sama veg í skýrslutöku í Barnahúsi og fyrir dómi.

            Framburður ákærða hefur borið sterkan keim af því að hann hefur reynt að gera sem minnst úr möguleikum sínum á að brjóta gegn brotaþola. Í fyrri skýrslu sinni hjá lögreglu frá [...] 2017 var hann spurður að því hvort hann hefði einhvern tímann verið einn með brotaþola. Svaraði hann því með „nei“. Var þá spurt „aldrei?“ og svaraði ákærði: „Af hverju ætti ég að vera það?“ Enn var spurt, „Kom það aldrei upp að konan þín færi út og þú værir einn með barninu?“ Ákærði svaraði þá, „Það hefur í mesta lagi verið yfir hábjartan dag sem hún hefur þurft að skreppa í Bónus eða, já, ekkert annað“. Kvað ákærði þetta þá aðeins hafa verið í „örfáar mínútur“. Þá tók ákærði fram að hann hefði ekki verið einn með henni því bræður hennar hefðu þá líka verið á staðnum en þeir voru þá [...] og [...] ára. Einnig nefndi hann sérstaklega að hann væri á bakvakt í vinnu sinni og gæti því fyrirvaralaust þurft að sinna því. Nánar spurður kvaðst hann vera á bakvakt fimmtu hverja viku. Þá svaraði ákærði því neitandi þegar hann var spurður út í það hvort sonur þeirra hefði búið á heimilinu eftir að brotaþoli fæddist.

 Í seinni skýrslu ákærða hjá lögreglu [...] 2017 var m.a. borinn undir hann framburður brotaþola og eiginkonu hans um að hann hefði verið einn með brotaþola þegar sú síðarnefnda fór í gönguferðir um helgar með vinkonum sínum. Svaraði ákærði; „Nei, það getur kannski verið einhverjar örfáar mínútur, en ég kannast ekki við það.“ Nánar spurður staðfesti ákærði að eiginkona hans færi í um 3–6 km gönguferðir í [...] . Þegar honum var bent á að slík gönguferð tæki meira en örfáar mínútur svaraði hann, „Já, það getur tekið alveg, þrír kílómetrar eru ekki nema svona kannski hálftími.“ Staðfesti hann að þá hefði hann væntanlega verið einn með börnin. „Ja, eins og ég segi, kannski í tvö skipti eða eitthvað svoleiðis, tvö, þrjú skipti sem þau hafa þá verið öll með mér.“ Fyrir dómi bar ákærði á sama veg og hjá lögreglu, þar á meðal um að kona hans hefði e.t.v. farið út að ganga að morgni í 2-3 skipti þegar brotaþoli gisti.

            Að mati dómsins þykir framangreint rýra trúverðugleika framburðar ákærða. Hafa skýringar hans verið ósannfærandi og svör hans á köflum óeðlilega afdráttarlaus eða langsótt. Þá kom fram hjá ákærða að hann hefði ekki sóst eftir því að fá brotaþola í gistingu og að hann hefði mestmegnis eftirlátið eiginkonu sinni að annast hana. Þetta er í ósamræmi við framburð eiginkonunnar um að þau hafi verið samstíga í umönnuninni auk þess sem blæbrigðamunur virðist á framburði þeirra varðandi það hve algengt það væri að hún færi í göngutúr að morgni.

Við mat á sönnunargildi framburðar J, F og I er litið til náinna tengsla þeirra við ákærða, sem almennt eru til þess fallin að draga úr sönnunargildi framburðar þeirra. Afstaða vitnanna var mjög eindregin gegn brotaþola, á köflum yfirdrifin, og þá sérstaklega vitnisburður föður brotaþola og I sem gáfu brotaþola engin grið. Bætti I um betur frá því að hún gaf símaskýrslu hjá lögreglu, en þá staðhæfði hún ekki með sama hætti og nú fyrir dómi að brotaþoli væri lygin. Þykir þetta benda til þess að F og I hafi samræmt framburð sinn hvað þetta varðar. Þykja framangreind atriði ótvírætt rýra trúverðugleika þeirra. Engu að síður fær framburður brotaþola vissa stoð í framburði þessara vitna, t.d. framburði eiginkonu ákærða um að hafa stundað gönguferðir snemma á morgnana og framburði I um brotaþoli hafi ung sýnt áhuga á kynlífi, sem er ekki óalgengt meðal ungra þolenda kynferðisbrota.

Við mat á trúverðugleika framburðar brotaþola ber að líta til þess að bersýnilegt var að atvik þau sem hún lýsti fyrir dóminum voru henni afar þungbær. Ásakaði hún ömmu sína fyrir að hafa „ekki stoppað þetta“ og kvaðst vera henni og ákærða mjög reið. Þá var augljóst hversu mjög hún tók nærri sér viðbrögð föðurfjölskyldu sinnar í kjölfar þess að hún sagði frá. Sérstaklega sárnuðu henni fyrstu viðbrögð föður hennar og að hann skyldi í framhaldinu reyna að telja henni trú um að gerandinn væri einhver annar.

Dómurinn telur framangreind viðbrögð brotaþola í engu rýra trúverðugleika hennar eða benda til þess að frásögn hennar sé tilkomin af því að hún beri illan hug til föðurfjölskyldu sinnar. Eru þetta eðlileg viðbrögð barns sem hefur upplifað gríðarlega höfnun þeirra sem stóðu henni næst. Þá upplifði hún þrýsting af þeirra hálfu sem olli henni vanlíðan.

            Fjölskyldu brotaþola og öðrum vitnum sem höfðu aðkomu að málum hennar ber saman um að vanlíðan hennar hafi orðið æ meira áberandi eftir að nálgaðist unglingsaldur. Samræmist það framburði brotaþola um að í 5. bekk hafi hún áttað sig á því að það sem ákærði gerði var rangt. Fór fljótlega eftir það að bera á sjálfskaðandi hegðun, á tíðum alvarlegum sjálfsskaða. Brotaþoli greindi bekkjarsystur sinni, C, frá brotum ákærða en það var eins og áður greinir í [...] þann [...] 2016. Af gögnum málsins og framburði vitna verður ráðið að hún hafi verið fyrst allra til að heyra frásögn brotaþola. Fyrir liggur að brotaþoli var frá árinu 2011 í viðtölum hjá E eftir athugun á Þroska- og hegðunarstöð. Þá hafði Barnavernd Reykjavíkur aðkomu að málum hennar á árinu 2016, eins og áður er lýst. Jafnframt fór hún í tvö viðtöl hjá D sálfræðingi. Í þessi skipti var í hún í fylgd fullorðinna eða annað foreldri með henni í viðtölum. Tjáði hún sig þá ekki um ætluð kynferðisbrot ákærða.

Að mati dómsins rýrir það ekki trúverðugleika brotaþola að hún hafi ekki greint frá ætluðum brotum ákærða fyrr en raun bar vitni. Í þessu sambandi verður ekki fram hjá því litið hversu mikið var í húfi fyrir brotaþola, sem hafði alist upp við lítinn stöðugleika. Eins og fram kom hjá henni sjálfri átti hún skjól hjá föður sínum og vildi vera í umgengni við hann. Þá var hún í nánari tengslum við I en móður sína og leitaði til hennar í auknum mæli eftir því sem hún eltist og líf hennar varð flóknara.

Dómurinn telur það styrkja trúverðugleika framburðar brotaþola að C hafði frumkvæði að áðurgreindum samskiptum við brotaþola sem leiddu til þess að hún greindi frá ætluðum brotum ákærða. Hafði C ekki löngu áður greint bekknum frá eigin vanlíðan og var því vakandi fyrir líðan brotaþola. Í kjölfarið reyndi brotaþoli ekki að komast hjá því að hitta kennara sína og foreldra heldur beinlínis óskaði eftir því að fá aðstoð starfsmanna skólans til að segja foreldrum sínum frá, eins og vitnin C, K, L og N báru um fyrir dómi. Brotaþoli sagði þessum vitnum, og að auki P, M, G, H, O og Q, hver hefði brotið gegn henni, og að um kynferðisbrot hefði verið að ræða sem hefðu staðið í langan tíma. Þó að brotaþoli hafi ekki lýst athöfnum ákærða nákvæmlega, eða aðstæðum er brotin áttu sér stað, er samræmi í frásögnunum. Að auki er til þess að líta að starfsmenn skólans tóku meðvitaða ákvörðun um að þrýsta ekki á brotaþola og gengu því ekki eftir ítarlegri lýsingu. Síðast en ekki síst verður ekki fram hjá því litið að brotaþoli er eftirbátur jafnaldra sinna í þroska, eins og nánar verður vikið að síðar, og verða því ekki gerðar sömu kröfur til hennar um nákvæmni í atvikalýsingum.

Því er haldið fram í málinu að brotaþoli sé ósannsögul og verði því ekki lagður trúnaður á framburð hennar nú. Í framburði sínum fyrir dómi nefndu faðir brotaþola og I tiltekin atriði máli sínu til stuðnings. Dómurinn telur þessi atriði af þeim toga að þau séu ekki til þess fallin að rýra trúverðugleika brotaþola enda ósambærileg. Hið sama á við um tilvik sem tengjast áhættuhegðun brotaþola gagnvart hinu kyninu þar sem mat hlutaðeigandi á aðstæðum skiptir verulegu máli. Hjá vitninu L kom fram að borið hefði á ósannsögli hjá brotaþola, og þá helst í tengslum við heimanám. Telur dómurinn ósannsögli af þeim toga ekki draga úr trúverðugleika hennar. Þá hefur ekkert komið fram í málinu um að brotaþoli hafi sótt eftir athygli með því að búa til sögur frá grunni, og kom fram hjá eiginkonu ákærða að hún hefði sjálf aldrei staðið brotaþola að ósannsögli.

 

Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2009 um meðferð sakamála hvílir á ákæruvaldinu sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem telja má honum í óhag. Þá metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði er varðar sekt og ákvörðun viðurlaga, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur hafi, vitnisburðir, mats- og skoðunargerðir og önnur sýnileg sönnunargögn, sbr. 1. mgr. 109. gr. laganna.

Í málinu standa orð brotaþola á móti orðum ákærða. Dómurinn telur framburð brotaþola á heildina litið mjög trúverðugan og ekkert fram komið í málinu sem rýri hann. Þannig er ekkert fram komið varðandi aðstæður sem útilokar að ákærði geti hafa brotið gegn brotaþola eins og hún lýsir og fær framburður hennar raunar vissa stoð í framburði eiginkonu ákærða eins og áður segir.  Þá er ekkert sérstakt fram komið í málinu sem bendir til þess að annar fullorðinn einstaklingur kunni að hafa brotið gegn brotaþola með þeim hætti sem hún lýsir, en sjálf bar hún með mjög ákveðnum hætti fyrir dómi um að enginn annar fullorðinn en ákærði hefði brotið gegn henni. Framburður ákærða er hins vegar síður trúverðugur af þeim ástæðum sem raktar hafa verið og fátt fram komið í málinu sem er til þess fallið að styrkja sönnunargildi framburðar hans.

Til þess að unnt sé að leggja framburð brotaþola til grundvallar niðurstöðu málsins nægir ekki það eitt að hann sé metinn trúverðugri, jafnvel mun trúverðugri, heldur en framburður ákærða. Til þess verður framburðurinn að hafa þá stoð í skýrslum annarra vitna eða hlutrænum sönnunargögnum, að virtum þeim kröfum sem gerðar eru til sönnunar í sakamáli, að það nægi til sakfellis.

Í málinu liggja aðeins fyrir óbein sönnunargögn og vægi þeirra ber því að meta. Vitnin C, K, L, N og M báru um frásögn brotaþola [...] 2016 og lýstu atvikum og viðbrögðum brotaþola í kjölfar fundarins í skólanum. Þá báru vitnin P, G, H, O og Q um frásögn brotaþola ekki löngu síðar. Þar af var framburður Q einna skýrastur.

Enn fremur liggja fyrir gögn í málinu sem staðfesta andlega vanlíðan brotaþola og skal sérstaklega getið vottorðs sálfræðings Barnahúss sem hefur brotaþola til meðferðar. Í vottorði sálfræðingsins, svo og í vitnisburði hennar fyrir dómi, kom m.a. fram að niðurstöður prófa sýndu að brotaþoli glímdi við verulegt þunglyndi, kvíða og streitu. Kom fram að brotaþoli bæri dæmigerð einkenni þolanda kynferðisofbeldis. Þá uppfyllti hún greiningarviðmið fyrir áfallastreituröskun vegna ætlaðra kynferðisbrota sem mældust töluvert yfir mörkum. Þekkt er að vanlíðan og áhættuhegðun barns eða ungmennis getur verið merki um að það hafi orðið fyrir kynferðisbroti

            Að undanskildum vottorðum og framburði vitna um versnandi líðan brotaþola þegar unglingsárin nálguðust stafa þau óbeinu sönnunargögn sem við er að styðjast í málinu nánast einvörðungu frá þeim tíma er brotaþoli sagði fyrst frá ætluðum brotum ákærða eða síðari tímum. Hvað gögn um versnandi líðan hennar varðar, allt frá því er unglingsárin nálguðust, þá verður ekki hjá því litið að fleiri kringumstæðum er til að dreifa í lífi brotaþola en ætluðum kynferðisbrotum ákærða sem gætu hafa haft áhrif á versnandi líðan hennar. Þá eru gögn um andlega líðan, jafnvel þótt sterk þyki, almennt ekki til þess fallin að ráða úrslitum um sakfellingu af ákæru, nema fleira komi til.

            Að öllu framangreindu virtu er það mat dómsins að framburður brotaþola, þótt trúverðugur sé, hafi ekki þá stoð í gögnum málsins að nægi til þess að sakfella ákærða. Hefur ákæruvaldið því ekki axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvílir og ber að sýkna ákærða af kröfu ákæruvaldsins. Samkvæmt þeim úrslitum málsins ber að vísa einkaréttarkröfu brotaþola frá dómi, sbr. 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.

 

 

 

Athugasemdir Kjartans Bjarna Björgvinssonar héraðsdómara við sönnunarmat 

 

Ég er sammála meirihluta dómenda um það sem greinir í köflum I og II og niðurstöðu þeirra í kafla III um trúverðugleika brotaþola og því mati þeirra að framburður ákærða sé síður trúverðugur en framburður brotaþola. Ég tek hins vegar ekki undir þá ályktun meirihluta dómsins að ákæruvaldið hafi ekki axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvílir.

Eins og meirihluti dómsins bendir á í forsendum sínum þá hvílir á ákæruvaldinu sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem telja má honum í óhag, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Í 1. mgr. 109. gr. sömu laga er enn fremur kveðið á um að dómari meti hverju sinni hvort nægileg sönnun sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða og vitnisburður annarra hafi.

Samkvæmt 115. gr. sömu laga metur dómari sönnunargildi framburðar ákærða, þar á meðal trúverðugleika hans, við úrlausn máls. Í því sambandi skal meðal annars hugað að ástandi og hegðun ákærða við skýrslugjöf og stöðugleika í frásögn hans. Sambærilegt ákvæði er að finna um mat dómara á sönnunargildi framburðar vitna í 126. gr. laganna. Kemur þar fram að við slíkt mat skuli meðal annars hugað að afstöðu vitnis til ákærða og eftir atvikum brotaþola, hagsmunum þess af málsúrslitum, þroska þess, áreiðanleika skynjunar þess á atvikum, minni, ástandi og hegðun þess við skýrslugjöf, öryggi þess og skýrleika í svörum og samræmi í frásögn. 

Með vísan til þeirra atvika sem rakin eru í I.–III. kafla dómsins og þeirra sjónarmiða sem leidd verða af tilvitnuðum lagaákvæðum tel ég það vera sannað þannig að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að brotaþoli hafi um langt skeið átt við mikla vanlíðan að stríða og að hún hafi sýnt af sér sjálfskaðandi hegðun sem ummerki eru um á höndum hennar. Í gögnum málsins kemur til að mynda fram að brotaþoli hafði samband við hjálparsíma Rauða krossins 12. maí 2016, áður en hún greindi fyrst frá brotum ákærða, þar sem hún lýsti vanlíðan og að hún væri að skaða sig. Þá lýsti hún því að foreldrar hennar hefðu vitað af þessu, án þess þó að hún greindi frá ástæðum vanlíðunar og sjálfskaðandi hegðunar.

Framburði móður og föður brotaþola ber einnig saman um að hún hafi verið farin að stunda sjálfskaðandi hegðun áður en mál þetta kom upp og í framburði móður fyrir dómi og hjá lögreglu að hún hafi byrjað að skera sig í 6. bekk. Þá mun brotaþoli hafa verið 11 til 12 ára gömul.

Brotaþoli hefur tvívegis gefið skýrslu fyrir dómi, fyrst í Barnahúsi 30. janúar 2017 en síðan við aðalmeðferð málsins 21. júní sl. og hefur framburður hennar verið metinn trúverðugur sem fyrr greinir. Framburður hennar er ekki ítarlegur um þau brot sem ákærða eru gefin að sök. Að sama skapi verður þó að taka tillit til þess að brotaþoli var afar ung að árum þegar brotin áttu sér stað, auk þess sem greind hennar hefur mælst á tornæmisstigi rétt yfir mörkum þroskahömlunar á flestum þáttum. Þá verður ekki annað séð en að brotaþoli hafi sætt talsverðum þrýstingi af hendi föðurfjölskyldu sinnar um að hverfa frá framburði sínum um brot ákærða. Þannig tóku föðuramma og faðir brotaþola, sem og sambýliskona föðurins, afdráttarlausa afstöðu gegn henni í vitnisburði sínum. Eins og vikið er að í niðurstöðu meirihluta bendir ýmislegt til að faðir brotaþola og sambýliskona hans hafi samræmt framburð sinn um ákveðin atriði. Þá gætir ósamræmis í framburði meðlima föðurfjölskyldu um atriði sem eiga að styðja framburð ákærða. Þannig er því haldið fram af föður brotaþola að hún hafi aldrei komið upp í á nóttunni til ömmu sinnar og afa. Framburður ömmu brotaþola var hins vegar á annan veg. Í framburði föður brotaþola kom enn fremur fram að hann hefði sýnt henni mynd af öðrum hugsanlegum geranda. Brotaþoli var hins vegar einörð í framburði sínum fyrir dómi um að engir aðrir en ákærði hefðu brotið gegn henni.

Að mínu mati verður að hafa hliðsjón af þessum atriðum við mat á framburði brotaþola og sönnunargildi hans. Verður þá jafnframt að hafa í huga að félagslegar aðstæður hennar hafa verið erfiðar og stuðningur frá móður hefur á tíðum ekki verið fyrir hendi, en móðir hennar fluttist til útlanda af ótilgreindum ástæðum þegar brotaþoli var í 4.-5. bekk og bjó þar í hálft annað ár. Þrátt fyrir allt framangreint og afdráttarlausa afstöðu föðurfjölskyldunnar gegn henni með þeim hætti sem að framan er lýst hefur brotaþoli verið samkvæm sjálfri sér í framburði sínum fyrir dómi um það hvernig ákærði snerti kynfæri hennar innan klæða og lét hana snerta kynfæri sín. Frásagnir vitna um það sem brotaþoli greindi þeim frá bera að sama brunni og ekki verður séð að ósamræmis hafi gætt í því hvernig brotaþoli lýsti brotum ákærða gegn henni fyrir öðrum. Þá verður enn fremur að horfa til aðdraganda þess hvernig brotaþoli greindi C bekkjarsystur sinni frá brotum ákærða og rakið er í forsendum meirihluta dómsins.

 Þegar þetta allt er virt og þegar horft til er til framburðar Þ sálfræðings fyrir dómi um að brotaþoli beri öll merki áfallastreituröskunar er það niðurstaða mín að sakfella beri ákærða fyrir þá háttsemi sem greind er í ákæru. Þar sem meiri hluti dómenda vill sýkna ákærða tel ég ekki þörf á að taka afstöðu til refsingar ákærða eða skaðabóta.

 

 

Með vísan til 2. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 skal allur sakarkostnaður málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Kristjáns Stefánssonar lögmanns, 1.370.200 krónur, og þóknun Gunnhildar Pétursdóttur, réttargæslumanns brotaþola, 675.837 krónur, greiddur úr ríkissjóði.

           

            Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Sigríður Hjaltested, Kjartan Bjarni Björgvinsson og Hildur Briem.

 

                                                            D ó m s o r ð:

            Ákærði, A, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

            Einkaréttarkröfu brotaþola er vísað frá dómi.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Kristjáns Stefánssonar lögmanns, 1.370.200 krónur, og þóknun Gunnhildar Pétursdóttur, réttargæslumanns brotaþola, 675.837 krónur.

 

                                                            Sigríður Hjaltested (sign.)

                                                            Hildur Briem (sign.)

                                                            Kjartan Bjarni Björgvinsson (sign.)