• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Játningarmál
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot
  • Ökuréttarsvipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júní 2018 í máli nr. S-311/2018:

Ákæruvaldið

(Kristmundur Stefán Einarsson saksóknarfulltrúi)

gegn

Haraldi Páli Jónssyni

 

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 29. maí 2018, á hendur Haraldi Páli Jónssyni, kt. 000000-0000, Vesturbergi 69, 111 Reykjavík, fyrir umferðarlagabrot með því að hafa, að kvöldi föstudagsins 11. ágúst 2017, ekið bifreiðinni [---], sviptur ökuréttindum og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist 410 ng/ml af amfetamíni og 20 ng/ml af metamfetamíni, einnig mældist amfetamín og metamfetamín í þvagi) norður Austurberg í Reykjavík, beygt inn í Hraunberg til austurs og loks lagt bifreiðinni í bifreiðastæði við söluturn í Hraunbergi, þar sem lögregla hafði afskipti af ákærða.

 

Teljast brot þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.

 

Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög leyfa.

 

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og  ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Ákærði hefur skýlaust játað brot sín.  Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur í janúar 1982.  Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 24. maí 2018, gekkst hann undir sektarrefsingu með lögreglustjórasáttum vegna umferðarlagabrota, meðal annars vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna, 24. júní 2014 og 27. september 2016. Þá var ákærði fundinn sekur um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og akstur sviptur ökurétti og dæmdur til að sæta fangelsi í 30 daga með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 21. júní 2017.

Með hliðsjón af framangreindu og dómvenju þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga.

 Með vísan til lagaákvæða í ákæru ber að árétta ævilanga sviptingu ökuréttar ákærða frá birtingu dóms þessa að telja.

Ákærði greiði 76.971krónu í sakarkostnað.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Jóhann Svanur Hauksson aðstoðarsaksóknari.

Lilja Rún Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

 

                                                   D Ó M S O R Ð:       

Ákærði, Haraldur Páll Jónsson, sæti fangelsi í 60 daga

Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði 76.971 krónu í sakarkostnað.

 

Lilja Rún Sigurðardóttir