• Lykilorð:
  • Staða kröfu í réttindaröð eða utan

 

Ú R S K U R Ð U R

Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, LBI ehf., Ármúla 21, Reykjavík, um kröfur sóknaraðila, Goldman Sachs International Ltd., Peterborough Court, Fleet Street 133, London, Stóra-Bretlandi, var beint til dómsins með bréfi slitastjórnar 4. júlí 2013 og var málið þingfest 22. nóvember þess árs. Um lagagrundvöll vísaði slitastjórn til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var tekið til úrskurðar að undangenginni aðalmeðferð 13. mars sl. Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áður en úrskurður var kveðinn upp.

            Endanleg dómkrafa sóknaraðila er að viðurkennd verði samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. krafa hans í slitabú varnaraðila með kröfunúmerið 2653 að fjárhæð 37.885.507,92 bandaríkjadalir. Hann krefst einnig málskostnaðar.

            Varnaraðili krefst þess aðallega að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað, en til vara að þær verði lækkaðar verulega. Hann krefst einnig málskostnaðar.

            Við aðalmeðferð málsins var því lýst yfir af hálfu beggja aðila að ágreiningslaust sé að varnaraðili hafi þegar viðurkennt kröfu sóknaraðila að fjárhæð 8.328.887 bandaríkjadalir og beri að taka tillit til þeirrar viðurkenningar ef fallist verður á kröfu sóknaraðila umfram þá fjárhæð.

           

Helstu ágreiningsefni og yfirlit málsatvika

            Málsaðilar undirrituðu svonefndan ISDA-rammasamning (e. International Swap Dealers Association Master Agreement) 12. febrúar 2007, þar sem kveðið var á um skilmála einstakra samninga sem aðilar kynnu að gera með sér um afleiðuviðskipti. Hinn 9. október 2008, þegar sóknaraðili sagði fyrirliggjandi samningum upp vegna vanefndar varnaraðila, með heimild í rammasamningnum, voru í gildi milli aðila þrjú svonefnd valréttapör (e. option straddles) sóknaraðila um kaup eða sölu íslenskra króna fyrir bandaríkjadali (hér eftir vísað til sem „gjaldeyrisvalrétta“) auk 13 vaxtaskiptasamninga og þriggja vaxtaskiptavalrétta í íslenskum krónum (hér eftir vísað til sameiginlega sem „vaxtaafleiða“). Ekki er um það deilt að við þessar aðstæður var sóknaraðila heimilt að krefjast greiðslu úr hendi varnaraðila sem nam tapi þess síðargreinda vegna vanefndarinnar samkvæmt nánari fyrirmælum rammasamningsins sem síðar greinir. Er í málinu deilt um ákvörðun á tapi sóknaraðila á þessum grundvelli, og þá einkum hvort hann hafi ákveðið tap sitt af sanngirni og í góðri trú, meðal annars við ákvörðun gengis íslenskrar krónu gagnvart evru.

            Málsatvik eru að meginstefnu ágreiningslaus. Þá er ekki um það deilt að ensk lög giltu um lögskipti aðila á grundvelli rammasamningsins samkvæmt grein 4(h) í svonefndri „áætlun“ samningsins.

A

Hinn 12. febrúar 2007 gerðu sóknaraðili og varnaraðili með sér svokallaðan 1992 ISDA-rammasamning. Rammasamningnum var breytt þrisvar sinnum, hinn 25. maí 2007, 26. júlí 2007 og 2. apríl 2008. Samningnum fylgdi „áætlun“ (e. Schedule) og viðauki sem fjallaði um skilmála veðtryggingar (e. Credit Support Annex). Rammasamningnum var ætlað að mynda lagalegan ramma um viðskipti aðila með ýmsar afleiður samkvæmt einstökum samningum sem þeir gerðu. Er ekki um það deilt að málsaðilar áttu á þessum grundvelli í reglulegum viðskiptum með afleiður eftir gerð rammasamningsins. Hinn 13. febrúar 2008 keypti sóknaraðili þrjú valréttarpör eða gjaldeyrisvalrétti, milli íslenskra króna og bandaríkjadala, af varnaraðila. Frá 14. janúar 2008 til 6. ágúst þess árs gerðu málsaðilar auk þess með sér 13 vaxtaskiptasamninga og þrjá samninga um vaxtaskiptavalrétti í íslenskum krónum.

            Hinn 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir starfsemi varnaraðila og var skilanefnd skipuð til þess að taka við stjórn hans. Þessi breyting á stjórn fyrirtækisins jafngilti vanefnd (e. event of default) samkvæmt rammasamningnum, sbr. grein 5(a)(vii). Næsta dag heimilaði breska ríkið fjármálastofnunum í Bretlandi að nýta réttindi til lokauppgjörs. Tilkynning sóknaraðila um uppsögn er árituð um móttöku hjá varnaraðila kl. 14:54 hinn 9. október 2008. Er ekki um það deilt í málinu að uppsögn sóknaraðila (e. early termination) samkvæmt 6. gr. rammasamningsins miðast við þann dag. Hinn 25. nóvember 2008 sendi sóknaraðili varnaraðila útreikning á tapi sínu í samræmi við grein 6(d)(i) í rammasamningnum.

            Hinn 29. apríl 2009 var varnaraðili tekinn til slita og honum skipuð slitastjórn. Degi síðar birti varnaraðili innköllun til kröfuhafa. Hinn 26. október 2009 sendi sóknaraðili kröfulýsingu til slitastjórnar varnaraðila. Í yfirlýsingunni kom fram að höfuðstóll heildarkröfu sóknaraðila næmi 41.532.428 bandaríkjadölum en af fylgigögnum með þeirri yfirlýsingu mátti ráða að við ákvörðunar þeirrar fjárhæðar hefði verið tekið til tryggingar að fjárhæð 11.588.728 bandaríkjadala sem sóknaraðili hafði leyst til sín. Er ekki ágreiningur með aðilum um að síðargreindu fjárhæðinni hafi verið lýst í bú varnaraðila sem veðkröfu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Slitastjórn varnaraðila skipti kröfunni upp í tvær kröfur sem merktar voru nr. 1253 og nr. 2653. Svaraði fyrri krafan til þess hluta kröfu sóknaraðila sem hann taldi hafa stöðu veðkröfu samkvæmt 111. gr. laganna, en síðari hlutinn til almennrar kröfu sóknaraðila samkvæmt 113. gr. þeirra. Báðum kröfum sóknaraðila var hafnað með vísan til þess að þær væru ósannaðar og ekki studdar viðeigandi gögnum samkvæmt 2. og 3. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991.

            Undir meðferð málsins féllst varnaraðili á þann hluta kröfu sóknaraðila sem lýst var sem veðkröfu samkvæmt 111. gr. laganna og var sá kröfuhluti endanlega metinn til 11.680.100 bandaríkjadala. Líkt og áður kom fram viðurkenndi varnaraðili einnig kröfu sóknaraðila samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 8.328.887 bandaríkjadalir. Þá er ekki ágreiningur um að sóknaraðili hafi skuldað varnaraðila 1.052.440 bandaríkjadali sem dragist frá kröfufjárhæðinni. Byggir varnaraðili því endanlegan málatilbúnað sinn á því að sóknaraðili eigi ekki frekari kröfu á hendur sér en þegar hafi verið viðurkennt. Sóknaraðili lækkaði kröfu sína um 4.285.806 bandaríkjadali undir meðferð málsins með vísan til breytts gengisviðmiðs vegna uppgjörs vaxtaafleiðusamninga, svo sem nánar greinir síðar. Telur hann tap sitt vegna gjaldeyrisvalrétta nema 20.771.795 bandaríkjadölum og vegna vaxtaafleiða 29.207.366 bandaríkjadölum eða samtals 49.979.161 bandaríkjadölum, svo sem nánar greinir í reifun málsástæðna og lagaraka sóknaraðila. Frá þessari fjárhæð beri að draga framangreinda tryggingu að fjárhæð 11.680.100 bandaríkjadalir og inneign varnaraðila hjá sóknaraðila að fjárhæð 1.052.440 bandaríkjadalir og nemi höfuðstóll kröfu sóknaraðila samkvæmt þessu 37.246.621 bandaríkjadal. Að viðbættri kröfu vegna samningsvaxta til upphafs slitameðferðar nemi endanleg fjárhæð kröfu sóknaraðila 37.885.507,92 bandaríkjadölum.

            Ekki er ástæða til að rekja sérstaklega samskipti aðila eða tilraunir þeirra til að jafna ágreining sinn á kröfuhafafundum eða eftir öðrum leiðum.

B

Svo sem áður greinir er ekki um það deilt að yfirtaka Fjármálaeftirlitsins á starfsemi varnaraðila og skipun skilanefndar 7. október 2008 leiddi til vanefndar samkvæmt grein 5(a)(vii) í rammasamningnum sem fól í sér heimild sóknaraðila til þess að segja samningnum tafarlaust upp samkvæmt grein 6(a). Enn fremur er ágreiningslaust að uppsögn samningsins miðaðist við 9. sama mánaðar þegar varnaraðili móttók fyrrgreinda tilkynningu sóknaraðila, og veitti uppsögnin sóknaraðila heimild til að ákveða tap sitt, ef því var að skipta, samkvæmt grein 6(e), sbr. staflið c í sömu grein. Í grein 6(e) er að finna fjórar mismunandi aðferðir við ákvörðun taps og er þar gert ráð fyrir því að samningsaðilar tilgreini tiltekna aðferð í „áætlun“ samnings. Samkvæmt grein 1(f) í áætluninni skyldi nota aðferðirnar „tap“ og „önnur aðferð“ við útreikninginn. Samkvæmt grein 6(e)(4) fól sú aðferð í sér eftirfarandi reglu: „Ef notast er við aðra aðferð og tap, þá ber að greiða fjárhæð sem jafngildir tapi aðilans sem ekki gerðist sekur um vanefnd af samningi þessum. Ef sú tala er jákvæð skal vanefndaraðilinn greiða fjárhæðina til aðilans sem ekki gerðist sekur um vanefnd. Ef talan er neikvæð skal aðilinn sem ekki gerðist sekur um vanefnd greiða algildi þeirrar fjárhæðar til vanefndaraðilans.“

            Í 14. gr. rammasamningsins var „tap“ skilgreint með eftirfarandi hætti:„‘Tap’  merkir, að því er samning þennan varðar eða ein eða fleiri uppsagnarviðskipti [e. Terminated Transactions], eftir því sem við á, og tiltekinn samningsaðila, sú fjárhæð í uppsagnarmyntinni sem jafngildir fjárhæð sem samningsaðilinn ákvarðar af sanngirni og í góðri trú að sé heildartap hans og kostnaður (eða ávinningur, sem þá er settur fram sem neikvæð tala) í tengslum við samning þennan eða viðkomandi viðskipti sem sagt er upp, eftir því sem við á, að meðtöldum efndabótum, kostnaði við fjármögnun, eða, að vali samningsaðilans án þess að tvítalið sé, tapi og kostnaði sem hann verður fyrir og rekja má til þess að áhættuvörn eða áþekkri viðskiptastöðu sé lokað, hún gerð upp, tekin upp eða endurnýjuð (eða hvers konar ávinningi af framangreindu). Tap tekur til taps og kostnaðar (eða ávinnings) að því er varðar hvers konar greiðslu eða afhendingu, sem hefði átt að fara fram (að því gefnu að viðkomandi gildistökuskilyrði séu uppfyllt) á eða fyrir snemmbæran uppsagnardag, en hefur ekki gert það, nema, í því skyni að forðast tvítalningu, ef grein 6(e)(i)(1) eða (3) eða 6(e)(ii)(2)(A) á við. Tap tekur ekki til lögfræðikostnaðar samningsaðila og útlagðs kostnaðar sem vísað er til í 11. gr. Samningsaðili ákvarðar tap sitt miðað við viðkomandi snemmbæran uppsagnardag, eða, ef það er óraunhæft, eins fljótt og auðið er eftir þann dag. Samningsaðili getur (án þess að honum beri til þess skylda) ákvarðað tap sitt með vísan til viðeigandi verðtilboða í vexti eða verð frá einum eða fleiri helstu miðlurum á viðkomandi markaði.“ Líkt og nánar ræðir í reifun málsástæðna og lagaraka aðila deila þeir um hvort ákvörðun sóknaraðila á tapi hafi samræmst þessum nánari ákvæðum rammasamningsins, einkum hvort sóknaraðili hafi ákveðið heildartap á uppsagnardegi af sanngirni og í góðri trú.

            Samkvæmt grein 1(g) í áætlun rammasamningsins var uppsagnarmynt (e. termination currency) rammasamningsins bandaríkjadalir. Svo sem áður greinir voru vaxtaafleiðusamningar málsaðila í íslenskum krónum og er því ágreiningslaust að sóknaraðila hafi verið heimilt að reikna tap sitt í íslenskum krónum í jafnvirði bandaríkjadala. Í 14. gr. rammasamningsins var að finna skilgreiningu á „jafnvirði í uppsagnarmynt“. Þeirri skilgreiningu höfðu aðilar hins vegar breytt með grein 5(f)(i) í fyrrgreindri áætlun. Með breytingunni var skilgreiningin því svohljóðandi: „ ‘Jafnvirði í uppsagnarmynt’ merkir, með tilliti til fjárhæðar í uppsagnarmynt, sú uppsagnarmyntarfjárhæð og, með tilliti til fjárhæðar í annarri mynt en uppsagnarmynt (‘önnur mynt’), sú fjárhæð í uppsagnarmyntinni sem samningsaðilinn, sem ákvarðar viðeigandi fjárhæð á hvern þann hátt sem telst sanngjarn í viðskiptalegu tilliti, telur að þurfi til að kaupa slíka fjárhæð í slíkri annarri mynt á viðeigandi snemmbærum uppsagnardegi eða, ef viðeigandi fjárhæð sem ákvörðuð er í samræmi við grein 6(e) er ákvörðuð miðað við síðari dag, á þeim síðari degi með gildi á degi sem greiðslan eða uppgjörsgreiðslan er gjaldkræf.“ Líkt og nánar ræðir í reifun málsástæðna og lagaraka aðila deila þeir meðal annars um það hvort gengisviðmið sóknaraðila vegna vaxtaafleiðusamninganna hafi samræmst þessum nánari ákvæðum samkomulags aðila.

            Í málinu liggur fyrir álitsgerð Davids Williams Allison QC frá 19. júní 2015, sem aflað var að frumkvæði sóknaraðila, og álitsgerð Robins Marks Dicker QC frá 14. október þess árs, sem aflað var að frumkvæði varnaraðila. Þá liggur fyrir sameiginleg álitsgerð þessara tveggja sérfræðinga frá 14. júní 2016 sem aflað var sameiginlega af hálfu málsaðila. Við aðalmeðferð málsins var því lýst yfir að samkomulag væri með aðilum um að byggt yrði á síðastgreindu álitsgerðinni. Er nánar vikið að þessum gögnum, svo og öðrum gögnum málsins um enskan rétt eftir því sem við á, við reifun málsástæðna og lagaraka svo og í niðurstöðum dómsins.

C

Með úrskurði héraðsdóms 16. nóvember 2016 var Björgvin Skúli Sigurðsson hagfræðingur dómkvaddur til að svara eftirfarandi spurningu samkvæmt matsbeiðni varnaraðila: „Þess er óskað að matsmaður skoði og leggi mat á a) hvort gengi íslensku krónunnar sem sóknaraðili styðst við á móti evrunni, þ.e. 114,27 krónur fyrir evruna, í tengslum við uppgjör vaxtaskiptasamninga og b) hvort gengi íslensku krónunnar sem sóknaraðili styðst við á móti evrunni, þ.e. 420 krónur fyrir evruna, í tengslum við uppgjör gjaldeyrisskiptasamninganna, sé rétt gengisviðmiðun í tengslum við ákvörðun á heildaruppgjörsfjárhæð ISDA-rammasamnings á milli aðilanna miðað við verðmatsdaginn 9. október 2008.“

            Í matsgerð Björgvins 1. júlí 2017 kemur fram að ekki verði komist hjá því að taka tillit til þeirrar staðreyndar að gjaldeyrismarkaðurinn var orðinn tvöfaldur hinn 9. október 2008, þ.e. skiptist upp í aflands- og álandsmarkað, þar sem aðgengi aðila var mismunandi. Þegar um sé að ræða uppgjör á vaxtaskiptasamningum aðila verði því að taka afstöðu til þess hvort miða eigi við annan hvorn markaðinn eða báða. Í tilfelli gjaldeyrisvalréttanna skipti aðgengi að markaði hins vegar ekki máli þar sem uppgjörið hafi byggst á gengi í raunverulegum viðskiptum sóknaraðila.

            Að því er varðar a-lið matsspurningar er það álit matsmanns, með vísan til fyrirliggjandi gagna matsmálsins, meðal annars upplýsinga sem matsmaður aflaði sjálfur um viðskipti með íslenskar krónur, að ekki hafi verið raunhæft að miða við gengið 144,27 íslenskar krónur fyrir evru, líkt og sóknaraðili byggir kröfu sína á. Slíkt gengi verði að teljast utan vikmarka sem eðlilegt sé að gera ráð fyrir í ljósi gagna og aðstæðna á markaðnum. Að því er varðar b-lið matsspurningar er það álit matsmanns að gengisviðmiðun sóknaraðila, þ.e. 420 íslenskar krónur fyrir evru, hafi verið eðlileg og sanngjörn miðað við lýsingu hans á því ferli sem leiddi til téðrar gengisviðmiðunar.

            Dómkvaddur matsmaður kom fyrir dóminn, staðfesti matsgerð sína í vitnaskýrslu og útskýrði nánar niðurstöður sínar. Nánar er vikið að niðurstöðum matsmannsins í forsendum dómsins að því marki sem þýðingu hefur fyrir úrlausn sakarefnisins.

            Við aðalmeðferð málsins gaf skýrslu sem aðili, samkvæmt samkomulagi aðila, Babak Eftekhari, fyrrverandi starfsmaður sóknaraðila. Einnig liggur fyrir í málinu skrifleg yfirlýsing Babaks sem dómurinn telur, í ljósi stöðu hans sem fyrirsvarsmanns sóknaraðila, að líta beri á sem skriflega aðilaskýrslu samkvæmt lokaorðum 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Skýrsla umrædds manns svarar að meginstefnu til þeirra atvika sem sóknaraðili vísar til í reifun sinni á málsástæðum og lagarökum. Þykir því ekki ástæða til þess að gera sjálfstæða grein fyrir skýrslu téðs Babaks.

 

Helstu málsástæður og lagarök sóknaraðila

            Sóknaraðili byggir kröfu sína á því á því að útreikningar hans hafi verið í samræmi við samninga aðila eins og þeir verði skýrðir til samræmis við ensk lög. Hann vísar til þess að ISDA-rammasamningar séu með mikilvægustu stöðluðu markaðssamningum í fjármálaheiminum og verði við túlkun þeirra að hafa hliðsjón af markmiðum um skýrleika, áreiðanleika og hlutlægni, svo sem ráða megi af enskri dómaframkvæmd. Útreikningi á tapi samkvæmt rammasamningnum verði ekki jafnað við ákvörðun tjóns vegna brota á samningsskyldum í fjármunarétti. Hér sé frekar um að ræða samningsbundna aðferð við að reikna út uppgjör vegna loka viðskipta eða raðar viðskipta. Sá aðili sem vanefnt hafi samning og þoli tafarlausa uppsögn beri sönnunarbyrðina fyrir því að útreikningur á tapi hafi verið ósanngjarn. Samkvæmt enskri dómaframkvæmd snúist spurningin um það hvort ákvörðun hafi verið viðskiptalega sanngjörn, ekki um það hvort ákvörðun verði réttlætt heldur hvort viðskiptalega sanngjarn aðili í sömu stöðu hefði komist að sömu niðurstöðu. Við munnlegan flutning málsins lagði sóknaraðili áherslu á að sýna þyrfti að enginn viðskiptaaðili hefði komist að tiltekinni niðurstöðu til þess að sýnt væri fram á að hún væri ósanngjörn. Þá sé það ekki ólögmætt að uppsagnaraðili taki tillit til sinna eigin viðskiptalegu hagsmuna við útreikning.

            Að því er varðar fyrrnefnda þrjá gjaldeyrisvalrétti vísar sóknaraðili til þess að á bilinu einn til fjórir mánuðir hafi verið til uppgjörsdags samninganna. Því hafi sóknaraðili þurft að verja eða baktryggja viðskiptin til þess að útrýma þeirri áhættu sem myndaðist við greiðsluþrot varnaraðila. Sóknaraðili hafi metið tjónið á grundvelli þriggja þátta, þ.e. í fyrsta lagi ríkjandi gengis eða stundargengis á milli íslensku krónunnar og bandaríkjadals; í öðru lagi framvirku gengi krónunnar; og í þriðja lagi valréttarflökti. Þessir þrír þættir séu staðlaðir þættir sem notaðir séu við mat á verðgildi gjaldeyrisvalrétta. Í málinu hafi ríkjandi hlutfall íslensku krónunnar og bandaríkjadals verið langmikilvægasti þátturinn við útreikning tapsins.

            Um fyrrnefnda gengisviðmiðun segir sóknaraðili að hún hafi verið áætluð í tveimur skrefum miðað við markaðsaðstæður 9. október 2008. Fyrst hafi íslenskum krónum verið breytt yfir í evrur á genginu 420, þar sem gjaldeyrismarkaður fyrir evrur á móti íslenskum krónum hafi verið mun dýpri en gagnvart bandaríkjadal. Evrum hafi síðan verið breytt í bandaríkjadali á genginu 1,355. Gengi íslensku krónunnar gagnvart bandaríkjadal hafi því verið 309,96 íslenskar krónur.

            Sóknaraðili byggir á því að virkur gjaldeyrismarkaður milli evra og íslenskra króna hafi vart verið fyrir hendi 9. október 2008 og markaðir almennt séð verið mjög viðkvæmir. Dreifing kaup- og sölutilboða hafi verið allt frá 145 krónum til 999,99 króna og kaup- og sölutilboð einungis skráð á milljónar evra bili hjá Reuters Dealer Service. Sóknaraðili vísar til fyrrgreinds framburðar Babaks Eftekhari um að deild hans, svonefnt gjaldmiðlaskiptaborð, hafi aflað tilboðs frá Credit Suisse Zurich þar sem sóknaraðila var boðið að selja íslenskar krónur fyrir evrur á genginu 500. Þessu gengi hafi verið hafnað af sóknaraðila sem of óhagstæðu. Í framhaldinu hafi verið hafnar viðræður við deild sóknaraðila um eigin viðskipti með alþjóðlega valrétti, en þessi deild hafi verið sjálfstæð og algerlega aðskilin frá umræddri deild Babaks. Hafi viðræðurnar jafnframt farið fram með því fororði að fyrir hendi væri ónafngreindur þriðji aðili sem gæti hugsanlega boðið hagstæðari kjör og þannig hlotið viðskiptin. Deildir sóknaraðila hafi að lokum gert með sér samning þess efnis að unnt væri að verja íslensku krónuna á genginu 420 krónur fyrir evru. Sóknaraðili vísar til þess að hér hafi verið notuð gengisviðmiðun úr raunverulegum viðskiptum enda hafi í reynd verið ómögulegt að miða við markaðsgengi. Samkvæmt þeim viðmiðum sem viðurkennd séu í enskri lagaframkvæmd hafi hér ótvírætt verið fullnægt kröfum um sanngirni og góða trú sóknaraðila.

            Að því er varðar framvirka gjaldeyrisferilinn vísar sóknaraðili til þess að vegna þess hve stuttir samningarnir voru hafi hann áætlað að ólíklegt væri að þeir væru viðkvæmir gagnvart hreyfingum á honum. Vegna þessa hafi framvirki gjaldeyrisferillinn engin áhrif á útreikning uppgjörsins vegna gjaldeyrisvalréttanna. Þá hafi sóknaraðili notað verðgildið núll vegna valréttarflökts. Sú ákvörðun hafi endurspeglað að það voru engar líkur á því að valréttirnir myndu breytast yfir í tap fyrir gjaldmiðlaskiptaborðið yfir þá einn til fjóra mánuði sem eftir voru samningstímans.

            Að því er varðar vaxtaafleiðusamninga aðila vísar sóknaraðili til þess að við vanefnd varnaraðila hafi þessir samningar átt að falla í gjalddaga á næstu þremur til tuttugu og átta mánuðum, þ.e. frá janúar 2009 til febrúar 2011, og hafi vegið meðaltal á tíma samninganna verið u.þ.b. 1,05 ár. Andstætt því sem gilti um gjaldeyrisvalréttina hafi útreikningur á tapi vegna þessara samninga byggst einungis á tilbúnum grundvelli en ekki raunverulegum viðskiptum. Slíkur grundvöllur sé algengur við útreikning á tapi og sé notuð stöðluð matstillaga (e. standard valuation inputs) að teknu tilliti til valréttarflökts.

            Nánar tiltekið segir sóknaraðili að unnt hafi verið að nota ríkjandi gengi íslensku krónunnar til þess að reikna út væntanlegt framtíðarsjóðstreymi frá tilteknum samningi. Sóknaraðili hafi reynt að fá tilboð fyrir vaxtaskiptasamning í íslenskum krónum frá 9. október 2008. Markaðurinn hafi hins vegar verið nánast óvirkur og eina tilboðið sem unnt hafi verið að fá fyrir eins árs vaxtaskiptasamning í íslenskum krónum hafi verið frá Citibank. Tilboðið hafi haft kaup- og sölutilboðsbil frá 5% til 25% og hafi það verið í samræmi við þá staðreynd að markaðurinn var aðþrengdur. Gengið sem sóknaraðili fékk frá Citibank hafi verið eina seljanlega gengið á markaðnum sem hægt var að fá. Þegar miðað sé við vegið meðaltal á lokadagsetningum samninganna hafi sóknaraðili talið að téð viðmið frá Citibank væri viðeigandi. Á þessum grundvelli hafi sóknaraðili reiknað feril vegna lokauppgjörs vaxtaafleiðusamninganna og notað hann til að ákveða kostnað við að skipta samningunum út. Gert hafi verið ráð fyrir því að ferillinn yrði fallandi eins og hann var fyrir vanefnd varnaraðila. Ferillinn hafi því endurspeglað þau markaðsskilyrði sem voru á markaðnum 9. október 2008. Verðbilið á milli kaup- og sölutilboða hafi endurspeglað muninn á því verði sem markaðurinn var tilbúinn að kaupa og selja tiltekin verðbréf á. Eingreiðsluvaxtaferillinn (e. yield curve) hafi endurspeglað þetta bil. Því hafi sóknaraðili þurft, til þess að meta gildi hvers vaxtaskiptasamnings, að ákveða hvort hann ætti að nota kaup- eða sölugengi tilboðsins.

            Sóknaraðili hafi fyrst þurft að ákveða hvort samningar væru „langir“, þar sem þurft hafi að greiða fljótandi vexti í staðinn fyrir fasta, eða „stuttir“, þar sem skyldi greiða fasta vexti í staðinn fyrir fljótandi vexti, og þannig vaxtaáhættu á grundvelli hverra viðskipta. Þar sem vaxtaáhætta sóknaraðila hafi verið „löng“ hafi sóknaraðili reiknað það gengi sem hefði verið á markaðnum ef aðilar hefðu átt viðskipti með samsvarandi „stutt“ viðskipti. Þetta hafi verið reiknað með tilvísun í framkomið kauptilboð. Þar sem sóknaraðili hafi verið með „stutta“ vaxtaáhættu hafi hann reiknað það gengi sem markaðurinn hefði notað fyrir samsvarandi „löng“ vaxtaviðskipti. Þetta hafi verið reiknað með tilvísun í sölutilboðs-hlið eingreiðsluvaxtaferilsins. Ferillinn hafi því næst verið notaður fyrir alla vaxtaskiptasamningana, hvern um sig þar sem hver og ein viðskipti höfðu mismunandi gjalddaga og því hafi áhættumat vaxtaskiptasamninganna verið breytilegt frá janúar 2009 til febrúar 2011. Þá hafi áhættan verið enn meiri í þessu sambandi vegna þess hve aðþrengdur markaðurinn var á þeim tíma.

            Í öðru lagi hafi valréttarflökt skipt máli vegna þriggja vaxtaskiptavalrétta aðila. Sóknaraðili hafi þó talið að valréttirnir væru ekki mjög viðkvæmir fyrir vaxtaflökti vegna þess hve stuttur tími var eftir af samningunum og þess litla munar sem var á milli áætlaðrar ávöxtunar og samningsverðs þeirra. Upphæðin sem þannig hafi verið reiknuð út í íslenskum krónum, sem skuld við sóknaraðila, hafi því næst verið umreiknuð í bandaríkjadali í samræmi við samning aðila með því að nota fyrrnefnt tveggja þrepa kerfi. Íslenskum krónum hafi þannig verið breytt í evrur með því að nota gengið 144,27 sem birt hafi verið á heimasíðu Seðlabanka Íslands 9. október 2008. Sú upphæð hafi verið umreiknuð í bandaríkjadali með því að nota innra skiptigengi sóknaraðila á milli evru og bandaríkjadals sem var 1,355 dollarar fyrir hverja evru. Sóknaraðili vísar til þess að upphaflegur útreikningur hans hafi miðast við fastgengi Seðlabanka Íslands sem hafi verið 131 króna fyrir evru. Frá þessu hafi verið fallið undir meðferð málsins og sé nú byggt á birtu gengi Seðlabanka Íslands gagnvart evru á viðkomandi degi eða 144,27 krónur á hverja evru. Á þessum grundvelli hafi sóknaraðili lækkað kröfu sína um 4.285.806 bandaríkjadali.

            Sóknaraðili leggur á það áherslu að við gengisviðmiðun vaxtaafleiðusamninga hafi verið sanngjarnt að nota gengið 144,27 krónur fyrir evru vegna þess að, ólíkt gjaldeyrisvalréttunum, hafi þessir samningar ekki verið endurfjármagnaðir með öðrum samningum. Þetta þýddi að það hefði ekki verið rétt að nota gengið 420 vegna þessara samninga þar sem umrætt gengi hafi orðið til vegna tiltekinna viðskipta við neyðaraðstæður og hafi ekki getað svarað til raunverulegs taps sóknaraðila vegna þessara samninga. Sú heimild sem sóknaraðili hafi notað við útreikninginn sé það gengi sem Seðlabanki Íslands birti á heimasíðu sinni 9. október 2008, miðgengi evru og íslenskrar krónu. Sóknaraðili heldur því þannig fram að það sé sanngjörn nálgun. Sóknaraðili vísar til þess að það sé einmitt tilgangur Seðlabanka Íslands þegar hann skráir gengi að slíkt gengi skuli nota til viðmiðunar í samningum milli aðila þegar önnur gengisviðmiðun er ekki sérstaklega tiltekin, sbr. 19. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands. Eigi þetta við um sambærileg tilvik og hér um ræðir.

            Að því er varðar gengisviðmiðun við ákvörðun taps vegna gjaldeyrisvalrétta leggur sóknaraðili áherslu á að tvær sjálfstæðar og aðskildar deildir innan sóknaraðila hafi notað gengið í mismunandi eignaflokkum og með mismunandi tilgang. Þessar deildir eða „borð“ séu aðskildar viðskiptaeiningar, hafi aðskilda fjárfesta, tilkynningarlínur og bókhald vegna hagnaðar og taps. Hvor deild hafi þurft að lúka skuldbindingum á grundvelli þeirra aðstæðna sem þær voru í. Sóknaraðili heldur því fram að hvor deild hafi verið sanngjörn í sínum útreikningum og starfað í góðri trú. Sú staðreynd að þær notuðu mismunandi gengi sýni að aðilar sem hagi sér á sanngjarnan hátt, hver fyrir sig, geti komist að mismunandi niðurstöðu. Þetta eigi sérstaklega við þar sem deildirnar tvær voru í mismunandi aðstæðum á umræddum tíma, þ.e. önnur þurfti raunverulega að baktryggja viðskiptin, en hin ekki.

            Sóknaraðili vísar til þess að umrædd tvö gengi evrunnar gagnvart íslensku krónunni, sem lögð hafi verið til grundvallar, endurspegli að tveir markaðir með íslensku krónuna hafi verið virkir á sama tíma 9. október 2008, þ.e. álandskrónumarkaður, sem byggði á því gengi sem Seðlabankinn birti og aflandskrónumarkaður, sem byggði á því hvað aðilar á markaði gátu á sanngjarnan hátt keypt og selt íslenskar krónur fyrir.

            Sóknaraðili telur tap sitt vegna gjaldeyrisvalrétta nema 20.771.795 bandaríkjadölum og vegna vaxtaafleiðusamninga 29.207.366 bandaríkjadölum eða samtals 49.979.161 bandaríkjadölum. Frá þessari upphæð sé dregin áðurlýst trygging að fjárhæð 11.680.100 bandaríkjadalir og 1.052.440 bandaríkjadalir sem hafi verið sú fjárhæð sem sóknaraðili skuldaði varnaraðila við uppsögn. Heildarfjárhæð vegna höfuðstóls sé því 37.246.621 bandaríkjadalur að teknu tilliti til áðurgreindrar lækkunar um 4.285.806 bandaríkjadali vegna breyttrar gengisviðmiðunar varnaraðila við ákvörðun taps vegna vaxtaafleiðusamninga. Að viðbættri kröfu sóknaraðila vegna samningsvaxta fram að upphafi slitameðferðar varnaraðila nemi endanleg fjárhæð kröfu hans 37.885.507,92 bandaríkjadölum.

 

Helstu málsástæður og lagarök varnaraðila

            Varnaraðili hafnar því að hann beri fortakslaust sönnunarbyrðina fyrir því að sóknaraðili hafi komið fram með ósanngirni. Sóknaraðila hafi borið að ákveða „tap“ af sanngirni og í góðri trú. Í þessu felist að sóknaraðili fari hér með samningsbundið ákvörðunarvald, en mati hans séu þó þau takmörk sett að honum sé ekki leyfilegt að misnota heimild sína. Varnaraðili vísar til enskrar dómaframkvæmdar á þá leið að heimild, á borð við þá sem sóknaraðili hafi notið, sé óhjákvæmilega háð takmörkunum sem leiði af hugmyndum manna um heiðarleika, bestu vitund og heilindi, og þeirri kröfu að ákvörðun sé ekki reist á geðþótta, duttlungum, siðleysi eða rökleysu. Það sem skipti meginmáli í þessu sambandi sé að heimildin sé ekki misnotuð.

            Þegar metið sé hvort skort hafi á að ákvörðun uppgjörsfjárhæðar hafi verið tekin í góðri trú þurfi að meta með hlutlægum hætti heiðarleika, einlægni eða heilindi. Ákvörðunaraðili uppgjörsfjárhæðar þurfi að leggja mat á tap sitt með heiðarlegum hætti og af heilindum. Slíkt þurfi að gera með hlutlægum hætti og megi með engu móti láta það hafa áhrif að ákvörðunaraðilinn kunni að hafa fjárhagslega hagsmuni af niðurstöðu þess. Hlutverk ákvörðunaraðila sé í reynd sambærilegt hlutverki skipaðs og óháðs þriðja aðila sem falið sé að ákvarða tap, eða hagnað, þess aðila sem ekki vanefndi samninginn. Í breskri dómaframkvæmd hafi þannig fram komið að samsæri þriðja aðila og ákvörðunaraðila sé réttmæt ástæða til þess að horfa algjörlega fram hjá verðmati ákvörðunaraðilans. Hið sama eigi við þegar hlutdrægni þriðja aðila sé sönnuð. Af þeirri dómaframkvæmd megi ráða að hlutdrægni ákvörðunaraðila, sem ber að sinna sínu hlutverki í góðri trú, eigi að vera næg ástæða til þess að virða ákvörðun ákvörðunaraðilans að vettugi.

            Að því er varðar ákvörðun taps vegna gjaldeyrisvalrétta telur varnaraðili að mikið skorti á útlistun á þeirri aðferðafræði sem sóknaraðili lagði til grundvallar. Því er mótmælt sem ósönnuðu að útreikningur sóknaraðila vegna gjaldeyrisvalrétta byggist á raunverulegum kostnaði við baktryggð viðskipti, enda hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á nein raunveruleg viðskipti á markaði. Jafnvel þótt viðskipti milli deilda sóknaraðila teldust sönnuð telur varnaraðili að ekki komi til greina að leggja þau til grundvallar. Sé hér ekki um að ræða tíðkanlega endurnýjun á sjóðstreymi gjaldfallinna afleiðusamninga. Varnaraðili mótmælir því einnig sem ósönnuðu að sóknaraðili hafi fengið tilboð frá Credit Suisse um sölu á evrum fyrir íslenskar krónur á genginu 500. Þá telur hann þýðingarlausa tilvísun varnaraðila til þess að gengi síðasta viðskiptadags hafi verið 340 íslenskar krónur fyrir evru enda hafi það gengi ekki verið notað í viðskiptum. Varnaraðili telur einnig að viðmiðun sóknaraðila um skiptigengi evru og bandaríkjadals sé órökstutt.

            Að því er varðar ákvörðun taps vegna vaxtaafleiðusamninga bendir varnaraðili á að sóknaraðili safni saman framtíðargreiðslum til þess að finna út við hvaða lengd vaxtatímabils sé réttast að miða, og þá út frá meðallengd samninga. Sóknaraðili verðleggi síðan hvern og einn samning án tillits til þess að á móti hverjum og einum samningi hafi verið mótlægar stöður sem nettuðu hver aðra út. Sú aðferðafræði sem sóknaraðili beiti sé til þess fallin að blása upp tapið á undirliggjandi samningum og sé ekki í samræmi við þær skyldur sem á sóknaraðila hvíldu samkvæmt undirliggjandi ISDA-samningi. Þá telur varnaraðili að sóknaraðili hafi ekki útskýrt hvers vegna nauðsynlegt var að beita allt annarri aðferðafræði við verðmat á vaxtaafleiðum en gert var við mat á verðmæti gjaldeyrisvalrétta. Hvað sem þessu líði sé sú aðferð sóknaraðila að byggja á tilbúnum viðskiptum mótmælt sem óskiljanlegri og vanreifaðri.

            Varnaraðili mótmælir gengisviðmiði sóknaraðila við ákvörðun taps vegna vaxtaafleiðusamninga. Þannig sé óljóst hvað sóknaraðili eigi við með „ríkjandi gengi íslensku krónunnar“ á þeim tíma sem hér um ræði. Auk þess sé óljóst hvað átt er við með „gengi“ þegar rætt er um samninga sem séu í einni mynt líkt og eigi við um umræddar vaxtaafleiður. Ekki sé stutt með neinum gögnum það „gengi“ sem sóknaraðili hafi fengið frá Citibank og þá að hvaða leyti það var ríkjandi eða í samræmi við slíkt „gengi“. Það sé með öllu óútskýrt hvað sóknaraðili eigi við þegar hann ræði um „gengið“ 5%–25% „sem eina seljanlega gengið á markaðnum sem hægt var að fá“. Sóknaraðili virðist afvaxta greiðslur sem honum bar að greiða til varnaraðila miðað við 5% afvöxtunarfót en varðandi þær greiðslur sem sóknaraðila bar aftur á móti að greiða varnaraðila virðist vera beitt 25% afvöxtunarfæti. Varnaraðili telur slíka aðferðafræði ekki vera í samræmi við skyldur sóknaraðila samkvæmt þeim ISDA-rammasamningi sem viðskiptin byggjast á og vera afar óhagstæða og ósanngjarna uppgjörsaðferð fyrir varnaraðila.

            Varnaraðili telur málatilbúnað sóknaraðila vera mótsagnarkenndan að því leyti að hann haldi því ýmist fram að markaður fyrir íslenskar krónur hafi verið til staðar eða ekki. Málatilbúnaður sóknaraðila sé óljós um fleiri atriði, svo sem um áhrif vaxta á framtíðargreiðslur af gjaldeyrisskiptasamningum. Þá byggi sóknaraðili á því að stuttur tími milli gjalddaga gjaldeyrisvalrétta hafi leitt til þess að þeir væru ekki viðkvæmir fyrir breytingum á framvirkum gjaldeyrisferli. Sóknaraðili kúvendi því mati sínu í tengslum við vaxtaafleiðusamninga þó að þeir samningar hafi verið svipaðir að lengd.

            Að því er varðar gengisviðmiðun vaxtaafleiðusamninga mótmælir varnaraðili tilvísun sóknaraðila til 19. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands. Undirliggjandi samningur lúti enskum lögum og þar sé kveðið á um uppgjörsaðferðina. Að auki styðjist sóknaraðili við birt gengi á tilteknum markaði sem honum hafi ekki verið aðgengilegur á þeim tíma sem máli skipti fyrir ákvörðun uppgjörsfjárhæðar og sé honum raunar enn óaðgengilegur.

            Þá nálgun að byggja á tvenns konar mismunandi gengi íslensku krónunnar á móti bandaríkjadal við ákvörðun uppgjörsfjárhæðar undirliggjandi ISDA-samnings telur varnaraðili ekki í samræmi við þær skyldur sem á sóknaraðila hvíli. Slík aðferðafræði eigi hvorki stoð í samningi aðila né í lögum sem um samningssambandið gildi. Slík valkvæð nálgun við val á gengisviðmiði endurspegli ekki góða trú og sanngirni við mat á tapi, eða hagnaði, samkvæmt ISDA-samningnum. Að því leyti sé um samningsbrot að ræða af hálfu sóknaraðila.

            Hafa beri í huga þá staðreynd að í reynd hafi verið tveir starfandi markaðir með íslensku krónuna, þ.e. álandsmarkaður (e. on-shore market) og aflandsmarkaður (e. off-shore market). Einu mögulegu þátttakendur á álandsmarkaði hafi verið Seðlabanki Íslands og innlend fjármálafyrirtæki með þátttöku sinni á millibankamarkaði, sem hafi verið hinn eiginlegi álandsmarkaður. Sú staða sé óbreytt. Einu möguleikar erlendra aðila til þess að eiga viðskipti með íslensku krónuna hafi verið á aflandsmarkaði, eða þá með beinum viðskiptum við þátttakendur á hinum íslenska millibankamarkaði. Þannig hafi aflandsmarkaðurinn verið hinn eini raunverulegi vettvangur til þess að eiga í gjaldeyrisviðskiptum með íslensku krónuna í kringum og í kjölfar falls varnaraðila 7. október 2008. Birting Seðlabankans á skráðu gengi íslensku krónunnar breyti hér engu enda hafi það gengi ekki verið raunverulegt markaðsgengi. Eina sanngjarna viðmiðunin til að ákvarða uppgjörsfjárhæð undirliggjandi ISDA-samninga sé sú að miða við gengi eins og það birtist í raunverulegum viðskiptum á aflandsmarkaði.

            Í greinargerð varnaraðila er gerð nánari grein fyrir því hvernig hann telur rétt að reikna tap sóknaraðila, en líkt og áður greinir telur hann sig að fullu hafa viðurkennt kröfu hans með viðurkenningu á almennri kröfu að fjárhæð 8.328.887 bandaríkjadalir auk viðurkenningar áðurgreindrar veðkröfu. Varnaraðili lýsir þeim útreikningi sem liggi til grundvallar þessari afstöðu hans þannig að hann hafi tekið allar stöður í tiltekinni mynt saman í eina heildarstöðu áður en þeirri stöðu var snúið yfir í uppgjörsmynt viðkomandi samnings. Að lokum hafi varnaraðili reiknað allar stöður miðað við miðju markaðsbreyta, t.d. miðgengi, miðju vaxtaferils o.s.frv. Kostnaður vegna munar á kaup- og sölugengi hafi verið reiknaður byggt á nettó stöðu í viðkomandi mynt þar sem framtíðargreiðslum hafi verið safnað saman eftir framtíðartímabilum. Varnaraðili segist byggja á stundargengi íslenskrar krónu á móti bandaríkjadal sem fundið hafi verið með hliðsjón af aflandsmarkaði eins og hann birtist í Reuters Dealing 3000. Stundargengið hafi verið ákvarðað sem meðaltal hæsta og lægsta gengis 8. október 2008 í ljósi þess að engin viðskipti áttu sér stað á fyrrgreindum markaði 9. sama mánaðar. Meðaltalsgengið sem varnaraðili byggi á hafi verið 292,5 krónur fyrir evru. Fjárhæð í bandaríkjadölum hafi verið reiknuð út miðað við gengi evru gagnvart bandaríkjadal í dagslok. Því fái varnaraðili út gengið 1,3629 fyrir evru gagnvart bandaríkjadal.

            Varnaraðili vísar til þess að hann hafi reiknað markaðsvirði vaxtaafleiðusamninga miðað við miðju vaxtaferils fyrir krónur sem hafi verið ákvörðuð út frá dagslokaskráningu vaxta á heimamarkaði, sem hafi verið í samræmi við miðferilinn, eins og hann hafi verið tilgreindur af hálfu erlendra miðlara. Gjaldeyrisvalréttir hafi verið reiknaðir miðað við framangreint stundargengi og framvirka punkta sem reiknaðir hafi verið miðað við miðju vaxtaferils í íslenskum krónum og bandaríkjadal. Valréttir á bandaríkjadal á móti íslensku krónunni hafi verið reiknaðir eins og framvirkir samningar. Á verðlagningardegi hafi stundargengi bandaríkjadals á móti íslensku krónunni verið víðs fjarri samningsgengi þannig að óvissan um hvort valréttir yrðu nýttir eða ekki hafi ekki verið fyrir hendi. Við útreikning á valréttum á vaxtaskiptasamninga hafi verið miðað við miðju vaxtaferils og viðurkennt valréttarlíkan Bloombergs. Þar sem stundarvextir hafi verið fjarri samningsvöxtum á verðlagningardegi hafi verið afar lítil óvissa um nýtingu þeirra. Af þeim sökum séu áhrif flökts lítil sem engin.

            Varnaraðili telur sig taka mið af vaxtaálagi eins og það hafi verið tilgreint af erlendum miðlurum við útreikning á kostnaði vegna mismunar á kaup- og söluhlið vaxta. Kostnaður hafi verið reiknaður vegna nettó stöðu í íslenskum krónum eftir framtíðartímabilum. Tekið hafi verið tillit til allra samninga með undirliggjandi íslenskum krónum.

 

Niðurstaða

            Svo sem áður greinir undirrituðu málsaðilar svonefndan 1992 ISDA-rammasamning (e. International Swap Dealers Association Master Agreement) 12. febrúar 2007 og mun samningnum hafa verið breytt þrívegis fram að atvikum málsins. Var í rammasamningnum, sem fylgdi svonefnd áætlun (e. Schedule) og viðauki (e. Credit Support Annex), kveðið á um skilmála einstakra samninga sem aðilar gerðu með sér um afleiðuviðskipti. Ekki er um það deilt að 9. október 2008 voru í gildi milli aðila þrjú valréttapör (e. option straddles) sóknaraðila um kaup eða sölu íslenskra króna fyrir bandaríkjadali (hér eftir vísað til sem „gjaldeyrisvalrétta“) auk 13 vaxtaskiptasamninga og þriggja vaxtaskiptavalrétta í íslenskum krónum (hér eftir vísað sameiginlega til sem „vaxtaafleiðusamninga“). Þótt hvorki frumgögn um gerð þessara samninga né eftirfarandi staðfestingar hafi verið lagðar fram í málinu lítur dómurinn svo á að ekki sé ágreiningur með aðilum um tilurð samninganna, efni þeirra eða uppgjörsdaga.

            Í málinu er enn fremur ágreiningslaust að skipun skilanefndar varnaraðila samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 7. október 2008 fól í sér vanefnd hans í skilningi greinar 5(a)(vii) í rammasamningnum. Var sóknaraðila því heimilt að segja samningunum umsvifalaust upp með tilkynningu sem sannanlega var móttekin af varnaraðila 9. sama mánaðar, sbr. grein 6(a) í rammasamningnum. Af hálfu varnaraðila er því ekki mótmælt að við uppsögnina hafi sóknaraðila verið heimilt að krefjast greiðslu úr hendi hans sem nam tapi sóknaraðila af þessum sökum, ef því var að skipta, og ákvarða bar samkvæmt nánari ákvæðum greinar 6(e) í rammasamningnum. Þá liggur fyrir að samkvæmt lið 1(f) í áætlun rammasamningsins höfðu aðilar samið um að samningsaðili ákvarðaði tap sitt samkvæmt 4. undirlið greinar 6(e) í rammasamningnum sem bar heitið „önnur aðferð og tap“. Var í því ákvæði efnislega kveðið á um að þeim aðila sem vanefndi samning bæri að greiða gagnaðila sínum fjárhæð sem svaraði til taps hans, ef því væri að skipta, en hugtakið tap var nánar skilgreint í 14. grein rammasamningsins. Kom í þeirri grein fram sú grunnregla að tap samningsaðila jafngilti þeirri fjárhæð í uppsagnarmynt rammasamnings sem hann ákvarðaði af sanngirni og í góðri trú að væri heildartap hans og kostnaður í tengslum við samninginn eða viðkomandi viðskipti sem sagt væri upp. Ekki er um það deilt að uppgjörsmynt samkvæmt rammasamningnum var bandaríkjadalur, sbr. grein 14 í rammasamningnum og grein 1(g) í áætlun hans.

            Í málinu er óumdeilt að ensk lög giltu um lögskipti aðila á grundvelli rammasamningsins samkvæmt grein 4(h) í áætlun samningsins. Er sú afstaða aðilanna enn fremur í samræmi við 3. gr. laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar, sbr. 16. gr. sömu laga. Er af hálfu beggja aðila fyrst og fremst vísað til sameiginlegs álits Davids Williams Allison QC og Robins Marks Dicker QC um efni enskra laga, eins og þau horfa við lögskiptum aðila á grundvelli rammasamningsins. Þótt það leiði ekki af 3. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að efni erlendra laga sé á forræði aðila telur dómurinn engu að síður óhætt að leggja téð álit til grundvallar um efni enskra laga að því marki sem það samræmist öðrum gögnum málsins að þessu leyti. Hins vegar leiðir af 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 að það er á forræði dómsins að heimfæra þær erlendu lagareglur sem hér um ræðir til atvika málsins.

A

Svo sem áður greinir gilti sú grunnregla um ákvörðun taps samkvæmt rammasamningi aðila að sóknaraðila bar við áðurlýstar aðstæður að ákveða tap sitt af sanngirni og í góðri trú. Þótt í þessu fælist ekki að sóknaraðila væri veitt fullt sjálfdæmi um ákvörðun á tapi sínu fól samningurinn samkvæmt þessu engu að síður í sér að honum, sem viðsemjanda samningsaðila sem vanefnt hafði skyldur sínar, var veitt heimild til ákvörðunar á tapi innan marka sem eðli málsins samkvæmt hlutu að vera háð ákveðnu mati. Leiðir af þessu að það er ekki dómsins að leggja til grundvallar úrlausn málsins eigið mat á tjóni sóknaraðila heldur að endurskoða hvort sóknaraðili hafi við ákvörðun taps síns farið út fyrir þau mörk sem samningur aðila, eins og hann verður skýrður samkvæmt enskum lögum, settu mati hans. Í þessu ljósi hafa eigin útreikningar varnaraðila á tapi sóknaraðila takmarkaða þýðingu.

            Samningur aðila ber með sér það markmið að tryggja hagsmuni samningsaðila við þær aðstæður að gagnaðili hans vanefni skuldbindingar sínar, þó þannig að eðlilegt og sanngjarnt tillit sé tekið til hagsmuna vanefndaraðila sem gagnaðila í afleiðuviðskiptum á alþjóðlegum bankamarkaði. Er af þessu ljóst að sönnunarbyrðin fyrir því hvort sóknaraðili hafi farið út fyrir þau mörk sem samningur aðila setti honum hvílir að meginstefnu á varnaraðila. Sönnunarbyrði að þessu leyti getur þó horft mismunandi við eftir nánari atvikum málsins hverju sinni, meðal annars með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum um þær aðferðir sem notaðar voru til ákvörðunar taps.

            Heimildum um enskan rétt ber saman um að kjarni framangreindra skilyrða felist í því að samningsaðila, sem fengin er heimild til þess að leggja mat á tap sitt, er óheimilt að beita heimild sinni að geðþótta eða misbeita henni með öðrum hætti. Í reynd verður reglu rammasamningsins því jafnað til kröfu um að samningsaðili reisi mat sitt á málefnalegum sjónarmiðum og gæti meðalhófs, sem eru alþekktar grunnreglur stjórnsýsluréttar. Í þessu felst svo aftur, svo sem rakið er í fyrrnefndri álitsgerð Allisons og Dickers, ekki aðeins krafa til þeirra sjónarmiða sem samningsaðili leggur til grundvallar, svo og efnislegrar niðurstöðu hans, heldur einnig þeirra aðferða sem hann beitir við mat sitt, þ.á m. rannsóknar eða athugunar á þeim upplýsingum sem kunna að hafa þýðingu í hvert skipti. Birtist þessi síðargreinda skylda samningsaðila meðal annars í skyldu hans til þess að senda gagnaðila sínum rökstuddan útreikning um tjón sitt, sbr. 1. undirlið greinar 6(d) í rammasamningnum. Andstætt því sem við á um töku ákvarðana stjórnvalda, sem ber að gæta ítarlegra reglna um málsmeðferð með þeim afleiðingum að ákvörðun getur við vissar aðstæður verið felld úr gildi eingöngu vegna annmarka á málsmeðferð, hljóta tengsl þessara þátta að vera nánari þegar um er að ræða ákvarðanir samningsaðila á grundvelli ISDA-rammasamningsins. Að mati dómsins þyrfti því jafnan að sýna fram á að annmarkar á málsmeðferð samningsaðila hefðu leitt til þess að niðurstaða um útreikning taps hefði í reynd orðið ósanngjörn samkvæmt hlutlægum mælikvarða svo að hnekkt yrði mati hans einungis á þeim grundvelli. Má þá horfa til þess hvort enginn sanngjarn markaðsaðili hefði komist að sömu niðurstöðu, sbr. 12. mgr. fyrrgreindrar álitsgerðar Allisons og Dickers. Reynir þannig sérstaklega á kröfur til meðferðar máls hjá samningsaðila þegar gert hefur verið líklegt að niðurstaða hans hafi með einhverjum hætti orðið óvenjuleg eða sérlega íþyngjandi fyrir gagnaðila hans og má við slíkar aðstæður líta svo á að sönnunarbyrðin hvíli á hinum fyrrnefnda.

            Heimildum málsins um enskan rétt ber saman um að við mat á því hvað teljist málefnaleg sjónarmið við ákvörðun taps beri að horfa til þess hvað telst sanngjarnt „í viðskiptalegu tilliti“. Í sumum þeim heimildum um enskan rétt sem vísað hefur verið til af málsaðilum er lagt til grundvallar að mat geti aðeins talist ósanngjarnt ef enginn sanngjarn aðili hefði getað komist að sömu niðurstöðu, en um þetta atriði eru Allison og Dicker ekki fyllilega sammála í áðurnefndri álitsgerð. Með þessu orðalagi er í reynd skerpt á kröfu til ósanngirni með þeim afleiðingum að svigrúm til mats er rýmkað enn frekar. Hvað sem líður hugsanlegum ágreiningi um þetta atriði telur dómurinn að horfa verði til þess að eitt af almennum markmiðum ISDA-rammasamningsins er að tryggja öryggi í viðskiptum, sem mælir gegn því að samningsaðila séu settar of þröngar skorður við mat á tapi sínu. Þá telur dómurinn að einnig verði að líta til þess að það telst ekki ósanngjarnt í viðskiptum að aðili reyni í hvert sinn að gera viðskipti á bestu mögulegu kjörum sem í boði eru á markaði. Leiðir trúnaðarskylda samningsaðila við gagnaðila sinn, við þær aðstæður að sá síðarnefndi hefur vanefnt samning og heimild er til tafarlausrar uppsagnar, því ekki til þess að samningsaðila beri að miða tap sitt við kjör sem eru gagnaðila hans til hagsbóta á kostnað hans sjálfs.

B

Því er áður lýst að sóknaraðili hafði meðal annars keypt af varnaraðila þrjú valréttapör sem veittu sóknaraðila heimild til, hvort heldur sem var, kaupa eða sölu á íslenskum krónum fyrir bandaríkjadali á fyrirfram ákveðnu verði. Er ekki um það deilt að fyrsta valréttaparið var með gjalddaga 13. nóvember 2008, en hin tvö 13. febrúar 2009. Með vanefnd varnaraðila gat sóknaraðili ekki treyst á umrædda valrétti til þess að verja stöðu sína í íslenskum krónum. Varð þessari stöðu því jafnað til þess að sóknaraðili væri með gnóttstöðu í íslenskum krónum sem honum var heimilt að losna við til þess að fría sig tjóni. Var sóknaraðila af þessum ástæðum heimilt að selja íslenskar krónur að þeirri fjárhæð sem svaraði til skyldu varnaraðila til kaupa á krónum samkvæmt valréttunum eða grípa til jafngildra ráðstafana til að verja sig þeirri áhættu sem skapast hafði vegna vanefndar varnaraðila.

            Því er áður lýst að starfsmaður sóknaraðila greip til slíkrar ráðstöfunar með því að gera framvirkan samning við aðra deild innan sóknaraðila um sölu á 2.118.200.000 íslenskra króna fyrir 7 milljónir bandaríkjadala. Byggir sóknaraðili á því að þessi viðskipti hafi svarað til gengisins 420 króna fyrir evru eða 309,96 króna fyrir bandaríkjadal samkvæmt endanlegum útreikningi. Til grundvallar ákvörðun um tap sitt lagði sóknaraðili meðal annars þessi viðskipti og þar með áðurgreinda gengisviðmiðun íslensku krónunnar gagnvart evru. Verður að skilja endanlegan málatilbúnað varnaraðila á þá leið að ágreiningur aðila í þessum þætti málsins lúti að meginstefnu að þessari viðmiðun, enda hafi aðrir þættir við mat á tapi sóknaraðila, þ.e. flökt krónunnar gagnvart bandaríkjadal og viðeigandi framvirkur gjaldeyrisferill, haft annaðhvort engin eða mjög takmörkuð áhrif á útreikning taps.

            Svo sem nánar er rakið í matsgerð dómkvadds matsmanns 1. júlí 2017 og greinargerðum beggja málsaðila voru þær aðstæður sem uppi voru á markaði með íslensku krónuna 9. október 2008 fordæmalausar vegna falls þriggja stærstu banka landsins. Einkenndist markaðurinn af því að viðskipti voru fá og mikill munur var á kaup- og sölutilboðum. Endurspeglaði þetta þá miklu óvissu sem ríkti á markaðnum um þróun íslensks efnahags og gengis krónunnar. Í matsgerðinni, svo og öðrum gögnum málsins, er einnig rakið hvernig viðskipti með íslenskar krónur tóku á þessum tíma að lúta öðrum lögmálum milli íslenskra aðila en í viðskiptum þar sem erlendir aðilar áttu í hlut. Mátti þannig, þegar á þessum tíma, ræða um sérstakan álandsmarkað með íslenskar krónur sem viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands tók mið af. Liggur einnig fyrir að þetta viðmiðunargengi krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum var verulega hærra en það gengi sem almennt var lagt til grundvallar í gjaldeyrisviðskiptum á aflandsmarkaði. Kemur þannig fram í gögnum málsins að gengisviðmiðun Seðlabankans hafi 9. október verið 144,27 krónur gagnvart evru. Samkvæmt matsgerð dómkvadds matsmanns námu hagstæðustu kauptilboð í íslenskar krónur á aflandsmarkaði þann dag hins vegar 350 krónum að frátöldum örfáum tilboðum sem matsmaðurinn taldi ekki marktæk.

            Alkunna er að eftir fall stærstu íslensku fjármálastofnananna, þ.á m. varnaraðila, 7. október 2008, og gengisfall íslensku krónunnar leitaðist Seðlabanki Íslands við að tryggja gjaldeyrisviðskipti fyrir innlenda aðila, einstaklinga og fyrirtæki, í þeim tilgangi að tryggja að íslenskt efnahagslíf yrði fyrir sem minnstum skakkaföllum. Hinn 9. október 2008 hafði þremur stærstu bönkum landsins verið skipuð skilanefnd af Fjármálaeftirlitinu og þeir þannig í reynd komnir undir stjórn hins opinbera. Stjórnvöld Stóra-Bretlands fengu því framgengt 8. október 2008 að íslenska ríkið var fært á lista yfir hryðjuverkasamtök með þeim afleiðingum að fjármagnsflutningar til og frá landinu voru stórlega takmarkaðir. Leiddu þessir atburðir síðar til þess að lagaleg höft voru sett á hvers konar fjármagnshreyfingar í íslenskum krónum milli landa og varð þá til formlegur aflandsmarkaður með íslenskar krónur, sbr. nú til hliðsjónar lög nr. 37/2016 um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

            Að mati dómsins er ljóst að sá innlendi gjaldeyrismarkaður sem skapaðist með framangreindum hætti gat aldrei orðið raunhæfur grundvöllur að meiri háttar viðskiptum með gjaldeyri, svo sem samningar málsaðila gáfu tilefni til. Er og ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að á þeim tíma sem hér um ræðir hafi einhverjir aðilar á markaði verið tilbúnir að eiga viðskipti með krónur í stórum stíl á gengi sem Seðlabanki Íslands birti. Þá var sóknaraðili ekki aðili að íslenskum millibankamarkaði, en raunar liggur ekkert fyrir um að viðskipti með verulegar fjárhæðir í íslenskum krónum, svo sem hér um ræðir, hafi átt sér stað á þeim markaði, líkt og áður greinir.

            Samkvæmt öllu framangreindu verður að líta svo á að framangreint viðmiðunargengi íslensku krónunnar, eins og það var birt af Seðlabanka Íslands, hafi verið utan vikmarka á raunhæfum markaði fyrir sóknaraðila 9. október 2008. Er því ekki á það fallist með varnaraðila að sóknaraðili hafi farið út fyrir það svigrúm sem hann hafði til mats á tapi sínu með því að ekki var miðað við þetta gengi við ákvörðun taps vegna gjaldeyrisvalrétta. Líkt og áður greinir er ágreiningslaust að um samningssamband aðila giltu ensk lög. Þegar af þeirri ástæðu er 19. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands án þýðingar fyrir þessa niðurstöðu málsins.

C

Samkvæmt matsgerð dómkvadds matsmanns námu hagstæðustu kauptilboð í íslenskar krónur 9. október 2008, að frátöldum örfáum tilboðum sem matsmaðurinn taldi ekki marktæk, 350 krónum fyrir evru en þau óhagstæðustu 800 krónum. Að mati dómsins getur það verð sem sóknaraðili miðaði við, þ.e. 420 krónur fyrir hverja evru, því ekki talist fjarstæðukennt eða bersýnilega ósanngjarnt séð á hlutlægan mælikvarða. Er þá horft til þess að eðlilegt var fyrir sóknaraðila, sem þann aðila sem var með gnóttstöðu í krónum, að horfa til kauptilboða í íslenskar krónur en ekki sölutilboða.

            Í gögnum málsins er að finna ítarlega lýsingu á aðdraganda áðurgreinds framvirks samnings sóknaraðila um sölu á íslenskum krónum sem starfsmaður sóknaraðila gerði við aðra sjálfstæða deild innan sóknaraðila í því skyni að koma í veg fyrir tap vegna uppsagnar þeirra gjaldeyrisvalrétta sem áður er lýst. Í þeirri lýsingu er meðal annars vísað til þess að tiltekinn annar erlendur banki hafi verið tilbúinn að kaupa íslenskar krónur en þá á genginu 500 krónur fyrir evru. Sú fjárhæð, svo og fjárhæðin sem sóknaraðili lagði að endingu til grundvallar viðskiptunum, þ.e. 420 krónur, er innan vikmarka með viðskipti með íslenskar krónur á alþjóðlegum markaði 9. október 2008 samkvæmt matsgerð dómkvadds matsmanns. Í þessu ljósi er ekki fram komið að sú aðferð sóknaraðila, þ.e. að gera samning við aðra deild sama banka, hafi leitt til niðurstöðu sem hafi verið verulega óhagstæðari varnaraðila en ef sóknaraðili hefði gert slíkan samning við alls ótengdan aðila. Leiðir einnig af þessu að dómurinn telur ekki fram komið annað en að sóknaraðili hafi ákveðið umrædda gengisviðmiðun í góðri trú í skilningi rammasamnings aðila.

            Samkvæmt framangreindu verður að leggja til grundvallar að gengisviðmiðun sóknaraðila hinn 9. október 2008 við ákvörðun taps vegna umræddra gjaldeyrisvalrétta hafi verið innan vikmarka á raunhæfum markaði fyrir íslenskar krónur á þeim tíma. Voru það því aðstæður á gjaldeyrismarkaði sem urðu þess valdandi að gengisviðmiðun, sem var óhagstæð varnaraðila, var lögð til grundvallar uppgjöri samningsins en ekki geðþótti sóknaraðila eða misbeiting hans á heimild sinni til að leggja mat á tap sitt. Leiðir af þessu að sóknaraðili telst að þessu leyti ekki hafa farið út fyrir svigrúm sitt til mats samkvæmt grein 6(e) í rammasamningnum. Verður því fallist á kröfu hans að þessu leyti.

D

Að framan er gerð grein fyrir þrettán vaxtaskiptasamningum aðila og þremur vaxtaskiptavalréttum sem allir voru í íslenskum krónum. Líkt og áður greinir gerði sóknaraðili upp samningana og lagði til grundvallar því uppgjöri tilbúin viðskipti sem miðuðust við verðtilboð frá öðrum nafngreindum banka. Leggja verður til grundvallar að sóknaraðili hafi orðið fyrir tapi vegna tafarlausrar uppsagnar samninganna sem í grófum dráttum fólst í því að sóknaraðili varð fyrirsjáanlega af tekjustreymi á gjalddögum einstakra samninga vegna vanefndar gagnaðila síns. Með hliðsjón af fyrirliggjandi heimildum um enskan rétt telur dómurinn enn fremur hafið yfir vafa að sóknaraðila hafi verið heimilt að miða við tilbúin viðskipti við ákvörðun taps síns. Stendur þá eftir ágreiningur aðila um ýmsar nánari forsendur útreiknings sóknaraðila.

            Í fyrsta lagi er um það deilt hvort sóknaraðila hafi verið heimilt að ákveða tap af hverjum og einum samningi án þess að láta greiðslur af mismunandi samningum, með mótlægar stöður, jafna hverja aðra út. Að mati dómsins var þessi aðferð sóknaraðila almennt séð til þess fallin að auka tap hans. Við þær aðstæður sem uppi voru í málinu er enn fremur ljóst að sú aukning var veruleg. Dómurinn telur ljóst að þegar aðilar hafa gert með sér tvo vaxtaskiptasamninga um jafn háan höfuðstól og til jafn langs tíma, þar sem annar samningsaðilinn fær fasta vexti samkvæmt öðrum samningnum og greiðir fasta vexti með hinum, er um að ræða fyllilega mótstæða samninga og greiðslur af öðrum samningnum jafna algerlega út greiðslur af hinum. Verður að leggja til grundvallar að við slíkar aðstæður sé bersýnilega ósanngjarnt að ákveða tap á hvorum samningi fyrir sig í stað þess að láta þá mætast. Svo sem áður greinir gilti sú grunnregla við ákvörðun taps sóknaraðila að honum var óheimilt að misbeita því svigrúmi til mats sem honum var fengið eða beita því að geðþótta. Leiddi af þessu að sóknaraðila bar að gæta meðalhófs við mat á tapi sínu að þessu leyti. Telur dómurinn samkvæmt þessu ekki unnt að fallast á það með sóknaraðila að honum hafi verið heimilt að líta algerlega framhjá mótstæðum stöðum við þær aðstæður að samningar voru ekki fyllilega mótstæðir þótt þeir væru nálægir í tíma.

Sem fyrr segir voru hinir umdeildu samningar ekki lagðir fram undir rekstri málsins en varnaraðili lagði fram yfirlit yfir vaxtaákvörðunardaga samninganna. Af því yfirliti verður ráðið að fimmtán mismunandi vaxtaákvörðunardagar hafi verið á hverju þriggja mánaða tímabili. Þar sem alls var um sextán samninga milli aðila að ræða og í hverjum þeirra voru þrír mánuðir á milli vaxtaákvörðunardaga má álykta að tveir samninganna hafi verið með sama vaxtaákvörðunardag. Ekki liggur hins vegar fyrir hvort greiðslur af þeim hafi verið mótstæðar og verður varnaraðili að bera hallann af því. Einnig má ráða af yfirlitinu að vaxtaákvörðunardagar fjögurra vaxtaskiptasamninga hafi fallið á tveggja vikna tímabil innan hvers þriggja mánaða vaxtatímabils. Samkvæmt tveimur þeirra skyldi sóknaraðili greiða fasta vexti af fjögurra milljarða króna höfuðstól og í hinum tveimur skyldi hann fá fasta vexti af sama höfuðstól. Samningarnir fjórir voru allir á lokagjalddaga á tímabilinu 3. til 12. febrúar 2010. Allar greiðslur af þessum fjórum samningum jöfnuðust því út á tveggja vikna tímabilum.

Það er mat dómsins að allir sanngjarnir viðskiptaaðilar hefðu litið til þess að greiðslur af a.m.k. fyrrgreindum fjórum samningum jöfnuðust út yfir tiltölulega stutt tímabil og tekið tillit til þess við ákvörðun á tapi. Í samræmi við framangreinda kröfu um meðalhóf er það þar af leiðandi niðurstaða dómsins að a.m.k. í tilviki umræddra fjögurra samninga hafi sóknaraðili, með því að taka ekkert tillit til þess að greiðslur af þeim voru nánast að fullu mótstæðar, misnotað það ákvörðunarvald sem honum var falið með samningi aðila og ekki ákveðið tap sitt af sanngirni og í góðri trú í skilningi rammasamnings aðila.

Við ákvörðun tapsins byggði sóknaraðili á tilboðum þriðja aðila í vaxtaskiptasamninga þar sem mismunur á kaup- og sölutilboði var 20%. Umræddir samningar voru á gjalddaga eftir um sextán mánuði frá uppsagnardegi og því sex vaxtagjalddagar eftir af hverjum þeirra. Verður því lagt til grundvallar, eins og málið liggur fyrir, að sóknaraðili hafi ofmetið tap sitt af þessum samningum um 30% af höfuðstól samninganna eða 1.200 milljónir króna. Jafnvirði þeirrar fjárhæðar, 11.270.534 bandaríkjadalir miðað við gengið 144,27 krónur fyrir evru, sem hér þykir rétt að leggja til grundvallar, kemur samkvæmt þessu til lækkunar kröfu sóknaraðila.

E

Að því er varðar fyrrgreinda vaxtaafleiðusamninga deila aðilar, í annan stað, um þá vaxtaskiptavexti sem sóknaraðili lagði til grundvallar, en ekki er uppi sérstakur ágreiningur um þýðingu valréttarflökts. Í fyrrgreindri aðilaskýrslu Babaks Eftekhari er því lýst að athuganir hans hafi ekki leitt í ljós að fyrir hendi væru á markaði bindandi tilboð í vaxtaskiptasamninga í íslenskum krónum. Í framhaldinu hafi hann rætt við miðlara hjá nafngreindum alþjóðlegum banka sem hafi tjáð honum að bankinn byði slíka samninga með vaxtaskiptavexti á bilinu 5–25%. Hann hafi leitað að tilboðinu í rafrænum viðskiptakerfum og tekist að finna það. Hann hafi því næst óskað eftir því að yfirmaður vaxtaskiptasamninga hjá sóknaraðila staðfesti þetta með rafpósti. Liggur sá rafpóstur fyrir í málinu.

            Af hálfu varnaraðila hafa engin gögn verið lögð fram í málinu sem hnekkja þeirri staðhæfingu sóknaraðila að engin bindandi tilboð í vaxtaskiptasamninga í íslenskum krónum hafi verið á markaði 9. október 2008. Þá hefur varnaraðili ekki aflað sérfræðilegra gagna sem gætu gefið vísbendingu um að það verðbil sem sóknaraðili miðaði við hafi verið óeðlilegt við þær óvenjulegu aðstæður sem uppi voru á mörkuðum 9. október 2008 og áður er lýst eða fært rök fyrir því hvaða verðbil hefði verið raunhæft. Dómurinn telur ekkert fram komið í málinu sem gefi tilefni til þess að ætla að fyrrgreind frásögn Babaks Eftekhari sé ótrúverðug enda liggur fyrir að á umræddum tíma var áhugi á gerð vaxtaskiptasamninga í íslenskum krónum mjög takmarkaður. Eins og málið liggur fyrir samkvæmt þessu er því ekki fram komið að umrætt viðmið sóknaraðila hafi verið úr slíku hófi að jafna beri til þess að hann hafi misnotað heimild sína til ákvörðunar taps eða beitt henni af geðþótta. Verður því ekki fallist á málsástæður varnaraðila að þessu leyti.

F

Að því er varðar uppgjör fyrrgreindra vaxtaafleiðna deila aðilar, í þriðja lagi, um það gengi íslensku krónunnar sem notað var til þess að breyta fjárhæðum í krónum í uppsagnarmynt samningsins, bandaríkjadali. Ekki er um það deilt að uppsagnarmynt rammasamningsins var bandaríkjadalur, sbr. 14. grein samningsins og grein 1(g) í áætlun hans. Með grein 5(f) í áætluninni var skilgreiningu greinar 14 í rammasamningnum breytt og skyldi „jafnvirði í uppsagnarmynt“ miðast við þá fjárhæð sem samningsaðili ákvæði með viðskiptalega sanngjörnum hætti að þyrfti til að kaupa slíka fjárhæð í slíkri annarri mynt á uppsagnardegi.

            Svo sem áður ræðir lagði sóknaraðili mat á tap sitt vegna vanefndar varnaraðila á umræddum samningum í íslenskum krónum. Bar sóknaraðila að ákveða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í bandaríkjadölum sem þá fjárhæð sem þyrfti til kaupa á íslenskum krónum á uppsagnardegi, þ.e. 9. október 2008, með viðskiptalega sanngjörnum hætti. Samkvæmt þessu er ljóst að ákvörðun sóknaraðila hlaut að miðast við raunhæf tilboð um sölu á íslenskum krónum. Samkvæmt matsgerð dómkvadds matsmanns var viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands 9. október 2008, þ.e. 144,27 krónur fyrir evru, utan raunhæfra vikmarka og telur matsmaður að umsamið gengi hefði orðið hærra en 145 krónur og líklega nær 300. Þótt viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands verði ekki sem slíkt lagt til grundvallar við mat á því á hvaða kjörum sóknaraðili gat með viðskiptalega sanngjörnum hætti keypt krónur fyrir evrur er samkvæmt þessu ljóst að munurinn á neðri mörkum sölugengis krónunnar gagnvart evru sem matsmaður miðar við og því gengi sem sóknaraðili leggur til grundvallar endanlegri dómkröfu sinni er óverulegur. Er því ekki fram komið að þetta gengisviðmið sóknaraðila hafi verið svo óraunhæft að sóknaraðili teljist hafa farið út fyrir svigrúm til mats á tapi sínu samkvæmt þeim viðmiðum sem áður greinir.

            Dómurinn telur ekkert fram komið um að sóknaraðili hafi farið út fyrir svigrúm sitt til mats við ákvörðun gengis evru gagnvart bandaríkjadal, svo sem hreyft er í greinargerð varnaraðila. Á sú niðurstaða einnig við um ákvörðun sóknaraðila á tapi vegna fyrrgreindra gjaldeyrisvalrétta.

G

Í málinu er ekki uppi sérstakur ágreiningur um þann hluta kröfu sóknaraðila sem lýtur að samningsvöxtum fram til 22. apríl 2009. Samkvæmt kröfulýsingu sóknaraðila reiknaði hann þessa vexti af 41.532.428 bandaríkjadölum og námu þeir samkvæmt því 638.886,92 bandaríkjadölum. Verður þessi hluti kröfu sóknaraðila lækkaður til samræmis við þá lækkun höfuðstóls kröfu hans sem áður greinir eða um 173.372,88 bandaríkjadali.

            Samkvæmt framangreindu verður krafa sóknaraðila samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. viðurkennd,  að teknu tilliti til þeirrar lækkunar sem áður greinir eða samtals að fjárhæð 26.441.601,04 bandaríkjadalir. Við aðalmeðferð málsins var því lýst yfir af hálfu beggja aðila að ágreiningslaust sé að varnaraðili hafi þegar viðurkennt og greitt kröfu sóknaraðila að fjárhæð 8.328.887 bandaríkjadalir og beri að taka tillit til þeirrar viðurkenningar verði fallist á kröfu sóknaraðila umfram þá fjárhæð. Í ljósi kröfugerðar málsaðila er ekki tekið tillit til þessarar viðurkenningar varnaraðila til lækkunar á kröfu sóknaraðila samkvæmt úrskurðarorði. Hins vegar liggur fyrir að kröfugerð sóknaraðila tekur mið af því að hann hafi þegar fengið greidda 11.680.100 bandaríkjadali upp í kröfu sína auk þess sem skuldajafnað hafi verið við kröfu hans 1.052.440 bandaríkjadölum.

            Í ljósi niðurstöðu og vafaatriða málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður, sbr. 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

            Af hálfu sóknaraðila flutti málið Heiðar Ásberg Atlason lögmaður.

            Af hálfu varnaraðila flutti málið Pétur Örn Sverrisson lögmaður.     

            Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan ásamt Arngrími Ísberg héraðsdómara og Hersi Sigurgeirssyni dósent.

ÚRSKURÐARORÐ

Krafa sóknaraðila, Goldman Sachs International Ltd., með kröfunúmerið 2653, sem lýst var í bú varnaraðila, LBI ehf., 26. október 2009, er viðurkennd að fjárhæð 26.441.601,04 bandaríkjadalir.

            Málskostnaður fellur niður.

 

 

Skúli Magnússon

 

Arngrímur Ísberg

 

Hersir Sigurgeirsson

 

Rétt endurrit staðfestir,

Héraðsdómi Reykjavíkur, 18. apríl 2018.

 

 

 

Gjald kr. 2,750.-          Greitt.