• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Umferðarlagabrot
  • Útivist
  • Ökuréttarsvipting

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2018 í máli nr. S-567/2018:

Ákæruvaldið

(Guðmundur Þórir Steinþórsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Emil Erni Emilssyni

 

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 14. september 2018, á hendur Emil Erni Emilssyni, kt. [...], [...] Reykjavík, fyrir eftirtalin umferðar- og fíkniefnalagabrot:

 

1.      Umferðarlagabrot með því að hafa, laugardaginn 8. október 2016, ekið bifreiðinni [...] án ökuréttar norður Suðurlandsveg og austur Vesturlandsveg í Reykjavík, ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 290 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 2,3 ng/ml).

Telst þessi háttsemi varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 100. gr. sömu laga.

2.      Umferðar- og fíkniefnalagabrot með því að hafa, föstudaginn 24. mars 2017, ekið bifreiðinni [...] án ökuréttar norður Vesturberg og að bifreiðastæði við Vesturberg nr. 124, ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 465 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 2,8 ng/ml) og á sama tíma haft í vörslum sínum 0,55 g af amfetamíni sem lögregla fann við leit á ákærða í kjölfar afskipta.

Telst þessi háttsemi varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 100. gr. sömu laga og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

3.      Umferðarlagabrot með því að hafa, föstudaginn 13. apríl 2018 ekið bifreiðinni [...] án ökuréttar um Vesturlandsveg við Ártúnsbrekku.

Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 100. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til sviptingar ökuréttar, samkvæmt 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006 og að gerð verði upptæk framangreind 0,55 g af amfetamíni samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins og hafði ekki boðað forföll en hafði verið birt ákæra og fyrirkall. Verður málið dæmt samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála enda var þess getið í fyrirkallinu að þannig gæti farið um meðferð málsins.

Með vísan til framanritaðs og til rannsóknargagna málsins telst framangreind háttsemi sönnuð og er hún rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur í apríl 1987. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 12. september 2018, hefur ákærði tvívegis verið fundinn sekur um að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna, annars vegar með sektardómi Héraðsdóms Suðurlands, dagsettum 7. september 2009, og hins vegar með sektargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 19. júní 2012.

Með hliðsjón af framangreindu, dómvenju og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 45 daga.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru er ákærði sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru gerð upptæk til ríkissjóðs 0,55 gr. af amfetamíni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði 268.710 krónur í sakarkostnað.

Þórhildur Líndal, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

 

                                                   D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Emil Örn Emilsson, sæti fangelsi í 45 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.

Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 0,55 gr. af amfetamíni.

Ákærði greiði 268.710 krónur sakarkostnað.

 

                                                   Þórhildur Líndal

 

---------------------            ---------------------          ---------------------

Rétt endurrit staðfestir,

Héraðsdómi Reykjavíkur, 17. október 2018