• Lykilorð:
  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Kröfugerð
  • Vanreifun

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 17. apríl 2019 í máli nr. E-5/2019:

Patricia Mistretta Guðmundsson

(Ólafur Kristinsson lögmaður)

gegn

Landsbankanum hf.

(Hrannar Jónsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 3. apríl 2019, var höfðað 18. desember 2018 af hálfu Patriciu Mistrettu Guðmundsson, [..., ...], á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru orðrétt þannig fram settar:

„Aðalkrafa stefnanda er að viðurkennt verði með dómi að stefndi hafi ofreiknað stöðu áhvílandi veðlána sem hvíldu á fasteigninni Vesturhólar 1, fastanr. 205-0229, Reykjavík, og stefnanda beri endurkröfuréttur á ofreiknaðar veðkröfur, að fjárhæð kr. 21.584.227,- Með vöxtum og dráttarvöxtum frá 30. nóvember 2015 að telja.

Til vara er krafist endurkröfu á ofreiknuðum veðkröfum að fjárhæð kr.17.740.098,- Með vöxtum og dráttarvöxtum frá 30. nóvember 2015 að telja.

Þrautavarakrafa er að stefnda verði talin hafa bakað stefnanda skaðabótaskyldu með að samþykkja ekki sölu stefnanda á fasteign sinni að Vesturhólum 1., á kr. 60.000.000,-  samkvæmt samþykktu tilboði, dags. 1.febrúar 2016, sbr. dskj. nr. 7.

Þá er krafist vaxta og dráttarvaxta af því sem stefnandi hefur ofgreitt til stefnda.

Þá er gerð krafa um að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu skv. sundurliðuðum málskostnaðarreikningi, sem lagður verður fram við meðferð málsins, eða skv. mati dómsins og að stefnandi verði dæmdur til að greiða virðisaukaskatt á málskostnað.“

Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Verði ekki fallist á kröfu um frávísun krefst stefndi sýknu af kröfum stefnanda. Krafist er málskostnaðar, auk virðisaukaskatts, úr hendi stefnanda að skaðlausu að mati dómsins.

Greinargerð stefnda, sem lögð var fram innan fjögurra vikna frá þingfestingu málsins, tekur einungis til aðalkröfu hans um frávísun, sbr. 6. málsl. 2. mgr. 99. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 78/2015. Í þessum þætti málsins um þá kröfu er stefndi sóknaraðili og krefst hann þess að málinu verði vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins auk virðisaukaskatts. Stefnandi er varnaraðili í þessum þætti málsins og krefst hún þess að kröfu stefnda um frávísun verði hafnað.

Málavextir

Fasteign stefnanda að Vesturhólum 1, Reykjavík var seld á framhaldsuppboði þann 30. nóvember 2015 og var stefndi hæstbjóðandi með boð að fjárhæð 43 milljónir króna. Við söluna var samþykkisfrestur lengdur til 22. febrúar 2016 og samþykkt sú ósk stefnanda að fá að leigja eignina í 12 mánuði frá samþykki boðs í hana. Leiðrétt frumvarp til úthlutunar á söluverði eignarinnar var gefið út 15. mars 2016. Úthlutað var samkvæmt því eftir að sýslumaður hafði hafnað athugasemdum sem stefnandi gerði við frumvarpið innan frests sem til þess var veittur. Lutu athugasemdirnar einkum að því að engin skuld væri að baki tryggingarbréfi á fyrsta veðrétti og einnig því að kröfur stefnda væru ekki rétt reiknaðar.

Í kröfulýsingum stefnda kemur fram að tryggingarbréf á fyrsta veðrétti, upphaflega 5.400.000 krónur, var uppreiknað 12.068.234 krónur og tryggingarbréf á öðrum veðrétti, upphaflega 5.000.000 króna, var uppreiknað 11.170.481 króna. Kröfur að baki þeim væru vegna skuldabréfs nr. 2707, samtals 9.186.645 krónur. Í kröfulýsingu stefnda vegna tryggingarbréfs á þriðja veðrétti kemur fram að það var upphaflega að fjárhæð 5.000.000 króna, uppreiknað 10.520.604 krónur, og að krafan að baki því væri vegna skuldabréfs nr. 5555, samtals 387.060.830 krónur. Í kröfulýsingu vegna veðskuldabréfs í erlendri mynt nr. 8436, upphaflega að fjárhæð jafnvirði 25.000.000 króna á fjórða veðrétti, kemur fram að krafa stefnda eftir endurútreikning lánsins var samtals 46.037.837 krónur. Að frádregnum sölulaunum og greiðslu lögveða fékk stefndi úthlutað af uppboðsandvirðinu 42.168.059 krónum, þar af 9.186.645 krónur vegna tryggingarbréfa á fyrsta og öðrum veðrétti, 10.520.604 krónur vegna tryggingarbréfs á þriðja veðrétti og 22.460.810 krónur upp í kröfu samkvæmt veðskuldabréfi á fjórða veðrétti.

Stefnandi kveðst hafa óskað eftir því við stefnda að fá að selja húsið á 60 milljónir króna og greiða upp áhvílandi veðlán. Stefndi hafi synjað því og haldið nauðungarsöluferli á eigninni til streitu. Með því hafi hann valdið stefnanda verulegu tjóni. Stefndi hafi svo selt fasteignina 28. apríl 2017 fyrir 63 milljónir króna.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda fyrir dómkröfum sínum

Stefnandi byggi á því að kröfulýsing stefnda í úthlutun á nauðungarsöluandvirði fasteignarinnar Vesturhólar 1 hafi verið röng að verulegu leyti. Stefnandi hafi gert athugasemdir við kröfulýsingu hjá sýslumanni. Við nánari skoðun á skuldum á bak við veðréttina komi fram að um ofreikning sé að ræða af hálfu stefnda.

Miðað við mismunandi vaxtaprósentur hafi stefndi fengið ofgreiddar stefnukröfur máls þessa. Þetta byggi á útreikningi stefnanda. Skuld samkvæmt fyrsta og öðrum veðrétti sé samkvæmt þeim útreikningi 6.437.595 krónur. Stefnandi geri ekki grein fyrir útreikningi á þriðja veðrétti þar sem hún telji að engin skuld sé á bak við þann veðrétt. Samkvæmt útreikningi stefnanda hafi nýr höfuðstóll auk vaxta af láni á fjórða veðrétti, upphaflega 25.000.000 króna, átt að vera 17.134.729 krónur 30. nóvember 2015.

Stefndi hafi gert kröfu um 9.186.645 krónur vegna tryggingarbréfa sem hvíldu á fyrsta og öðrum veðrétti á fasteigninni. Um rangan útreikning sé að ræða þar sem tryggingarbréfi nr. 192302 á fyrsta veðrétti hefði átt að aflýsa þar sem engin skuld hafi lengur staðið að baki því. Um hafi verið að ræða lán sem tengt hafi verið Evru og USD og sem gert hafi verið upp í júlí 2007. Ef bankinn hefði aflýst tryggingarbréfinu á fyrsta veðrétti eins og honum hefði borið hefði tryggingabréf nr. 197001 uppfærst upp í fyrsta veðrétt, en ekki hvílt á öðrum veðrétti. Þar hafi verið um að ræða myntkörfulán sem átt hafi að endurgreiðast í JPY eða í ISK og hafi fjárhæð lánsins verið 4.500.000 krónur. Það hafi átt að greiðast 1. mars 2010 með einni greiðslu og hefði stefnandi haft val um að greiða það í JPY eða ISK á gjalddaga eða ekki. Vextir hafi ávallt verið greiddir. Samkvæmt bréfinu hafi vextir verið tilteknir 2,5% vaxtaálag ofan á LIBOR eins og þeir séu ákvarðaðir á hverjum tíma. Með dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum 92/2010 og 153/2010, hafi gengistrygging vaxta verið dæmd ólögmæt, og því hafi ekki átt að greiða vexti af þessu bréfi frá og með þeim tíma. Samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 geti lánveitandi ekki krafist viðbótargreiðslu fyrir liðinn tíma á grundvelli seðlabankavaxta.

Stefnanda hafi verið tilkynnt að lánið hefði verið afskrifað að fullu, sem verið hafi eðlileg aðgerð þar sem hún byggi m.a. á áliti EFTA dómstólsins í máli Hæstaréttar nr. 471/2010, þar sem ekki hafi mátt hlutast til um að breyta vöxtum í samningi milli aðila þar sem skilmálar séu skýrir og á skiljanlegu máli. Stefndi hafi aldrei tilkynnt stefnanda bréflega um breytingu á vöxtum eða kjörum skuldar hans. Leiði það til þess að samningsvextir eigi að gilda um þetta skuldabréf, eða 0% þar sem vaxtafótur hafi verið dæmdur ólöglegur af Hæstarétti.

Tryggingarbréf að fjárhæð 5.000.000 króna sé löngu uppgreitt og engin skuld standi á bak við þessa fjárhæð. Tilurð bréfsins sé sú að ABH byggir ehf. hafi fengið fyrirgreiðslu hjá stefnda til að kaupa fasteignina Burknavelli 15 í Hafnarfirði og hafi félagið gefið út tryggingarbréf að fjárhæð 26.000.000 króna 17. janúar 2005. Óskað hafi verið aukatryggingar að fjárhæð 5.000.000 króna í annarri fasteign og hafi verið falast eftir tryggingunni hjá stefnanda, án þess að hún væri eigandi að fyrirtækinu. Þetta hafi verið gert án þess að framkvæmt væri greiðslumat eða staða félagsins kynnt fyrir stefnanda. Fasteignin Burknavellir 15 hafi verið seld í september 2005 og tryggingarbréfið þar með gert upp. Stefndi hafi þá aflýst áhvílandi tryggingarbréfi án þess að aflýsa aukatryggingu upp á 5.000.000 króna sem hvíldi á fasteign stefnanda.

Umrætt tryggingarbréf hafi verið gefið út 17. janúar 2005, og hafi bréfið verið fyrnt 17. janúar 2015, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007, en fara eigi um fyrningu á kröfu stefnanda eftir eldri lögum nr. 14/1905, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í máli nr. 242/2010. Til vara sé ljóst að krafa að baki þessu tryggingarbréfi fyrnist á fjórum árum frá lokum gjaldþrotaskipta ABH byggis ehf. 2008, enda séu meira en 4 ár liðin í máli þessu. Krafa stefnanda á grundvelli tryggingarbréfsins byggi á lánssamningi ABH byggis ehf. og stefnda. Tryggingarbréfið að fjárhæð 5.000.000 króna sé gefið út til tryggingar til ABH byggis ehf. Áður en stefnandi hafi veitt tryggingu í fasteign sinni að Vesturhólum 1 fyrir umræddu tryggingarbréfi þá hafi ekki verið framkvæmt greiðslumat á skuldaranum ABH byggi ehf. né henni kynnt efni lánssamnings milli félagsins og stefnda, sem hefði átt að vera til staðar á grundvelli samkomulags sem Neytendasamtökin, Samtök banka og verðbréfafyrirtækja og Samband íslenskra sparisjóða, auk viðskiptaráðherra fyrir hönd ríkisins, hafi gert og tekið gildi á árinu 1998. Stefnda hefði á grundvelli þess borið að framkvæma greiðslumat á skuldaranum ABH byggi ehf., og bera það undir stefnanda, sem stefndi hafi ekki gert. Ljóst sé m.a. af úrskurði úrskurðarnefnda um viðskipti við fjármálafyrirtæki að veðsetning stefnanda fyrir hönd fyrirtækis sem hún hafi enga aðkomu haft að hafi verið óheimil þegar hún hafi veitt veð í eign sinni fyrir hönd félagsins. Þegar af þeirri ástæðu sé ljóst að við úthlutun uppboðsandvirðis á fasteigninni hafi stefndi ranglega haft af stefnanda 10.520.604 krónur sem stefndi eigi að endurgreiða stefnanda með vöxtum og dráttarvöxtum.

Lánssamningur stefnda við ABH byggi ehf. frá árinu 2006 sé fyrndur þar sem skuldin að baki tryggingarbréfinu sé fyrnd. Umrætt lán hafi verið tekið í gildistíð laga nr. 14/1905, þar sem kveðið sé á um með skýrum hætti að skuldir vegna ábyrgða fyrnist á fjórum árum. Skuldin á grundvelli umrædds tryggingarbréfs sé því sannanlega fyrnd og því hafi stefndi í máli þessu ofrukkað skuld við stefnanda (svo) í máli þessu sem þeirri kröfu nemi með þeim hætti að stefnda (svo) beri endurgreiðsluréttur á því sem ofgreitt hafi verið. Félagið ABH byggir hafi verið úrskurðað gjaldþrota 17. nóvember 2008 og búskiptum lokið 12. mars 2009. Samkvæmt 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 142/2010, sé fyrningartími krafna eftir gjaldþrot tvö ár frá lokum skipta. Ljóst sé því að kröfur stefnda á hendur félaginu séu endanlega fyrndar í síðasta lagi á árinu 2014, í samræmi við lagaskilareglu gjaldþrotaskiptalaga. Því hafi ekki verið réttmætt af hálfu stefnda að krefjast greiðslu á þessari skuld af uppboðsandvirði fasteignarinnar Vesturhólar 1, Reykjavík. Engin gögn beri með sér að stefndi hafi rofið þennan fyrningarfrest í samræmi við ákvæði laga nr. 21/1991, með síðari breytingum.

Miðað við innágreiðslur og almenna fyrningu vaxta þá ætti skuldin sem stefndi lýsti í uppboðsandvirði á fasteigninni að standa í dag í 25.259.902 krónum, miðað við 2,5% Seðlabankavexti, og til vara í 21.415.773 krónum, sé tekið mið af því að vextir séu fyrndir og myndi því ekki nýjan höfuðstól, en ekki í 46.037.837 krónum eins og kröfulýsing stefnda geri ráð fyrir.

Við útreikning á kröfu stefnda í uppboðsandvirði eignarinnar hafi hann hvorki tekið tillit til endurútreikninga né til fyrninga vaxta samkvæmt vaxtalögum. Draga skuli frá allar greiðslur sem greiddar hafi verið á tímabilinu, s.s. afborganir og hvers kyns vanskilaálögur og mynda nýjan höfuðstól. Stefndi dragi eingöngu 1.006.150 krónur og 112.172 krónur frá nýreiknuðum höfuðstól miðað við 4. nóvember 2013, þegar stefnandi sannanlega hafi greitt 2.802.310 krónur með álögum fyrir 8. október 2008. Stefndi gefi síðan út kvittun fyrir greiðslu að fjárhæð 9.647.125 krónur 14. apríl 2011. EFTA dómstólinn hafi m.a. á grundvelli 2. mgr. 4. gr. tilskipunar 93/13/EBE ekki fallist á rökstuðning Hæstaréttar í máli nr. 471/2010, um að seðlabankavextir eigi að koma í stað samningsvaxta á áður gengistryggðum lánum, þar sem vaxtakjör gengistryggðra lána hefðu ekki staðið til boða nema vegna gengistryggingarinnar og miðað við önnur þau vaxtakjör sem voru í boði. Stefndi hafi ekki tekið tillit til fyrningarákvæða fyrningarlaga við útreikning stefnda á kröfum sínum, en vextir fyrnist á 4 ára fresti samkvæmt 3. gr. eldri fyrningalaga nr. 14/1905, sem gildi um kröfur stefnda í tilviki stefnanda að verulegu leyti, sbr. dóm Hæstaréttar 2. desember 2010 í máli nr. 242/2010. Byggi málsóknin á því að höfuðstólsfjárhæð sé oftalin auk þess sem dráttarvextir séu reiknaðir á vaxtastofn sem sé fyrndur samkvæmt lögum um fyrningu.

Varakrafa stefnanda byggist á því að Hæstiréttur Íslands hafi ekki heimild til að hlutast í samninga á milli einkaaðila. Byggi þetta m.a. á áliti EFTA dómstólsins í máli Hæstaréttar nr. 471/2010. Ekki hafi mátt samkvæmt tilskipun 3/13/EBE, sbr. 2. mgr. 4. gr., hlutast til um að breyta vöxtum (samningi milli aðila) þar sem skilmálar séu skýrir og á skiljanlegu máli. Með því hafi réttur stefnanda verið rýrður samkvæmt lögum nr. 121/1994, sbr. lög nr. 7/1936. Hæstiréttur hafi dæmt vaxtafót þeirra lána sem hvílt hafi á fasteigninni að Vesturhólum 1 ólögleg með dómi sínum nr. 471/2010. Þar sem vaxtafótur hafi verið dæmdur ólöglegur af Hæstarétti ætti neytandinn að njóta alls vafa, sbr. lög nr. 33/2013, og vaxtafótur því að vera 0% eða 2,5% til að gæta sanngirni, samanber m.a. forsendur í dómi Hæstaréttar í máli nr. 623/2016. Vísað sé til sanngirni af hálfu stefnanda vegna þess að stefndi hafi vitað þetta allan tímann, eða frá setningu laga nr. 38/2001, þar sem bankarnir hafi skilað löggjafanum greinargerð um ólögmæti gengistryggingar.                                                  

Þrautavarakröfu byggi stefndandi á því að stefndi hafi valdið henni tjóni með því að neita að samþykkja kauptilboð í Vesturhóla 1, Reykjavík þar sem stefnanda hafi verið boðið að kaupa (svo) eignina á 60.000.000 króna áður en uppboðsferli eignarinnar hafi verið lokið. Starfsmenn stefnda hafi sem veðhafar ekki samþykkt sölu á eigninni á grundvelli þess kauptilboðs. Með því hafi stefndi bakað sér skaðabótaskyldu, sem stefnda beri að bæta stefnanda.

Krafa um málskostnað byggi á 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á lögum um virðisaukaskatt og á því að stefnandi hafi ekki með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi. Krafa um viðurkenningu á að stefndi hafi valdið stefnanda tjóni byggi á almennum reglum skaðabótaréttar um tjón innan samninga. Kröfur um endurgreiðslu ofgreiddra fjárhæða styðjist við reglur kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreiddra skulda. Byggt sé á vaxtalögum nr. 38/2001, með síðari breytingum, fyrningarlögum nr. 14/1905, sbr. fyrningarlög nr. 150/2007, með síðari breytingum, lögum um neytendalán nr. 33/2013, einkum II. og IV. kafla laganna, lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, með síðari breytingum, einkum 165. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 142/2010 og á lögum nr. 121/1994, einkum 2. mgr. 6. gr. laganna, sbr. 9. gr. laganna.

Málsástæður og lagarök stefnda fyrir kröfu um frávísun

Stefndi byggi kröfu sína um frávísun á því að málatilbúnaður stefnanda sé í heild sinni haldinn annmörkum sem leiða eigi til frávísunar málsins frá dómi. Málatilbúnaðurinn standist ekki kröfur d-, e- og f-liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, um skýran og glöggan málatilbúnað. Málsatvikum sem búi að baki kröfu stefnanda sé ekki nægjanlega lýst og ekki gerð grein fyrir málsástæðum sem stefnandi byggi málssókn sína á. Verulega skorti á að gerð sé grein fyrir öllum þeim málsatvikum sem nauðsynlegt sé að fjalla um til að samhengi málsástæðna sé ljóst. Krafa stefnanda sé ódómtæk þar sem málatilbúnaðurinn gangi þvert gegn meginreglu íslensks réttarfars um ákveðna og ljósa kröfugerð. Um vanreifun sé að ræða og því óhjákvæmilegt að vísa málinu frá dómi. 

Aðalkrafa stefnanda sé viðurkenningarkrafa um að stefndi hafi ofreiknað stöðu áhvílandi veðlána og að stefnanda beri endurkröfuréttur á ofreiknaðar veðkröfur að fjárhæð 21.584.227 krónur. Þessi krafa sé óskýr og ódómtæk og verði að vísa henni frá dómi. Í dómkröfunni sé þess ekki getið um hvaða veðlán sé að ræða. Ekki sé gerð grein fyrir því hver meint ofgreiðsla stefnanda sé af hverju láni og hvenær sú ofgreiðsla hafi átt sér stað. Áhvílandi hafi verið þrjú tryggingarbréf frá stefnda og eitt veðskuldabréf. Af málatilbúnaði stefnanda sé ljóst að hún sé ekki að gera athugasemd við útreikninga stefnda á fjárhæð áhvílandi tryggingarbréfa heldur útreikning á undirliggjandi lánum sem tryggingarbréfin tryggja. Um sé að ræða lán sem stefndi hafi endurreiknað þar sem lánin hafi innihaldið ólögmæta gengistryggingu. Því sé ljóst að ekki sé byggt á því að áhvílandi lán hafi verið ofreiknuð, tryggingarbréfin, heldur skuldabréfalánin að baki þeim, sem ekki hafi hvílt á eigninni. Þetta ósamræmi í dómkröfum og málatilbúnaði stefnanda sé ekki útskýrt í stefnu og því geti stefndi ekki tekið til varna um þetta efni.

Stefnandi geri enga kröfu í málinu um staðfestingu á því að stefndi hafi ofreiknað lán sín, en ekki sé hægt að fallast á dómkröfu hennar nema dómurinn komist fyrst að þeirri niðurstöðu. Héraðsdómur geti því ekki tekið afstöðu til þessarar dómkröfu. Stefnandi hafi gert athugasemdir við frumvarp Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um úthlutun söluandvirðis eignarinnar. Hún hafi tekið þá ákvörðun að skjóta ekki höfnun á athugasemdunum til héraðsdóms, eins og heimilt sé samkvæmt 52. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, en ágreiningurinn fari eftir XIII. kafla laganna. Samkvæmt 80. gr. laganna geti hver sá sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta leitað úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölunnar innan fjögurra vikna frá því að uppboði hefur verið lokið samkvæmt V. kafla laganna, tilboði hefur verið tekið í eign samkvæmt VI. kafla eða andvirði réttinda hefur verið greitt sýslumanni. Að liðnum þeim fresti verði því aðeins leitað úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölu að það sé samþykkt af hendi allra aðila að henni sem hafa haft uppi kröfur fyrir sýslumanni og úrlausnin gæti varðað, svo og kaupanda að eigninni. Fjögurra vikna fresturinn hafi verið liðinn við höfðun málsins og stefndi hafi ekki fallist á málshöfðun. Verði því að vísa málinu frá dómi.

Stefnandi leggi fram eigin útreikninga á þeim lánum sem stefndi hafði talið innihalda ólögmæta gengistryggingu og telji hún að samningsvextir hafi verið ákveðnir 2,5% og noti þá vexti í endurútreikningum á lánunum. Þessum útreikningum sé mótmælt sem röngum og vísað til ákvæða skuldabréfs nr. 2707 þar sem vextirnir séu tilgreindir sem breytilegir vextir jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 2,5% vaxtaálags. Á láni nr. 8436 hafi vextir verið tilgreindir sem LIBOR-vextir. Því sé ljóst að samningsvextir lánanna hafi ekki verið 2,5% eins og stefnandi haldi fram og séu útreikningar því rangir. Ekki sé gerð grein fyrir því af hverju útreikningurinn eigi ekki að fara eftir ákvæðum 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, um að miða eigi við vexti samkvæmt 1. málsl. 4. gr. við endurútreikning gengistryggðra lána. Þessi lán hafi verið endurreiknuð í samræmi við vaxtalög og stefnandi hafi ekki mótmælt þeim útreikningum. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði XIV í lögum nr. 38/2001 hafi fyrningarfrestur uppgjörskrafna vegna ólögmætrar gengistryggingar runnið út 16. júní 2018. Krafa stefnanda um breytingu á endurútreikningi lánanna sé því fyrnd, en ekkert sé vikið að þessum lagaákvæðum í málatilbúnaði stefnanda. Því sé um vanreifun að ræða.

Í aðalkröfu stefnanda geri hún ekki kröfu um að stefndi endurgreiði það sem stefnandi telji sig hafa ofgreitt af lánunum heldur sé þess krafist að stefnanda beri endurkröfuréttur. Stefnda sé ekki ljóst hvað felist í þessu orðalagi, en þó sé ljóst að stefnandi sé ekki að krefja stefnda um greiðslu. Í málatilbúnaðinum sé ekki vikið að því á hvaða grundvelli viðurkenningarkrafa stefnanda sé byggð né reynt að sýna fram á að skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, um lögvarða hagsmuni, sé uppfyllt. Því sé um vanreifun að ræða sem leiði til þess að vísa verði málinu frá dómi.   

Í aðalkröfu stefnanda sé krafist vaxta og dráttarvaxta frá 30. nóvember 2015 að telja. Ekki komi fram í kröfugerð eða í málatilbúnaði stefnanda um hvaða vexti sé að ræða, af hvaða fjárhæð þeir eigi að reiknast og til hvaða dags. Ekki sé vísað til lagaákvæða eða samnings aðila um það á hvaða forsendum vaxtakrafan sé byggð. Það sama eigi við um dráttarvaxtakröfuna, ekki komi fram af hvaða fjárhæð þeir skulu reiknaðir og til hvaða dags. Ekki sé vísað til ákvæða vaxtalaga til stuðnings dráttarvaxtakröfunni og sé því ekki ljóst á hvaða forsendum hún sé byggð. Engin útskýring sé á því hvers vegna upphafstími vaxta- og dráttarvaxtakröfunnar miðist við 30. nóvember 2015, er framhaldsuppboð eignarinnar hafi farið fram. Því sé vaxta- og dráttarvaxtakrafa stefnanda vanreifuð. Stefnandi geri auk þess sérstaka kröfu um vexti og dráttarvexti af því sem hún hafi ofgreitt og verði einnig að vísa þeirri kröfu frá dómi. Ekki sé unnt að orða dómsorð í samræmi við aðalkröfu stefnanda og því verði að vísa henni frá dómi.

Stefnandi krefjist til vara endurkröfu á ofreiknuðum veðkröfum að fjárhæð 17.740.098 krónur. Vaxta- og dráttarvaxtakrafan sé eins og í aðalkröfu. Sömu rök og um aðalkröfu eigi við um að vísa verði varakröfu stefnanda frá dómi. Stefnandi geri endurkröfu á ofreiknuðum veðkröfum án þess að tiltaka á hvaða eign umrædd veðlán hafi hvílt og ekki sé gerð grein fyrir því um hvaða lán sé að ræða og hver sé ofgreiðsla hvers láns. Krafan sé óskýr og ódómtæk þar sem hún sé hvorki viðurkenningarkrafa um ákveðin réttindi né heldur krafa um að stefndi greiði tilgreinda fjárhæð. 

Nái krafan fram að ganga leysi það ekki úr réttarágreiningi aðila. Efnislegt inntak dómkröfu verði að koma fram í stefnu þannig að ljóst sé að krafist sé dóms sem myndi ráða tilteknu sakarefni til fullnaðarlykta. Kröfugerð stefnanda leiði ekki til málaloka um sakarefnið. Stefnandi hafi því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfunni eins og hún sé sett fram í stefnu.

Þrautavarakrafa stefnanda sé óskiljanleg og ódómtæk en hún feli í sér að höfnun stefnda á að samþykkja kauptilboð í fasteign stefnanda hafi leitt til þess að stefnandi sé skaðabótaskyld. Fjallað sé um þessa kröfu í fjórum línum í stefnu en kröfugerðin ekki útskýrð frekar í málatilbúnaði stefnanda. Ekki sé útskýrt hvers vegna stefnda hafi borið að samþykkja kauptilboð sem stefnandi hafi fengið í fasteign sína, en meginreglan sé sú að veðhafar þurfi ekki að samþykkja breytingar á eignarhaldi þeirra fasteigna sem lán þeirra hvíli á. Ekkert sé getið um fyrirvara sem verið hafi í kauptilboðinu, um að samkomulag náist um að áhvílandi veðskuldir verði lækkaðar í 38 milljónir króna og að kaupandi fái heimild til þess að yfirtaka þá fjárhæð. Málsatvik varðandi kauptilboðið og skaðabótaskyldu séu vanreifuð.

Kröfugerðin sé um að stefndi verði talinn hafa o.s.frv. Ljóst sé að þetta orðalag verði ekki tekið upp í dómsorð og verði því að vísa kröfunni frá dómi. Hvorki sé um viðurkenningarkröfu að ræða né gerð krafa um að stefndi greiði skaðabætur. Stefnandi hafi hvorki gert viðhlítandi grein fyrir fjárhæð bótakröfunnar né sýnt fram á hver saknæm háttsemi stefnda hafi verið og að orsakatengsl séu á milli þeirrar háttsemi og þess meinta tjóns sem stefnandi telji sig hafa orðið fyrir. Þá hafi stefnandi kosið að leggja ekki fram nein gögn til stuðnings kröfunni. Þessi vanreifun leiði til þess að vísa verði kröfunni frá dómi. Eigi skaðabótakrafan að beinast gegn stefnda komi ekki fram hvort byggt sé á skaðabótakröfu innan eða utan samninga.

Málatilbúnaður stefnanda sé allur óskýr og vanreifaður. Fram komi í kröfugerð um að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, að þar sé þess krafist að stefnandi, en ekki stefndi, verði dæmdur til að greiða virðisaukaskatt af dæmdum málskostnaði.

Í 1. mgr. 46. gr. einkamálalaga nr. 91/1991 komi fram sú meginregla að sá aðili sem fari með forræði á sakarefni, í þessu máli stefnandi, skuli afla sönnunargagna. Stefnandi hafi ekki uppfyllt þá skyldu með málatilbúnaði sínum og hafi sjálf ekki lagt fram afrit af öllum kröfulýsingum stefnda í uppboðsandvirði fasteignarinnar. Ekki sé lagt fram endurrit úr gerðabók sýslumanns frá 17. febrúar 2017, þar sem endanleg niðurstaða sýslumanns hafi legið fyrir um mótmæli stefnanda við frumvarp að úthlutunargerð. Engin gögn séu heldur lögð fram um meint tjón stefnanda vegna skaðabótakröfu hans. Þau gögn sem stefnandi leggi fram um endurútreikning sinn á gengistryggðum lánum séu óskiljanleg og ekki gerð grein fyrir því á hvaða forsendum útreikningurinn sé byggður. Endurútreikningur stefnda á lánunum sé ekki lagður fram. Þar sem stefnandi hafi brotið þá meginreglu einkamálalaga að leggja fram grunngögn málsins til sönnunar málsatvika og dómkrafna verði að vísa málinu frá dómi. 

Samkvæmt 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, beri stefnanda að leggja grunn að málsókn sinni með stefnu svo stefndi geti áttað sig á málatilbúnaði hans, haldið uppi vörnum í greinargerð og byggt varnir sínar á þeim grundvelli sem markaður sé í stefnu. Ljóst sé að umfjöllun um fyrrgreind atriði geti skipt verulegu máli um varnir stefnda. Með því að málatilbúnaði stefnanda sé jafn ábótavant og raun ber vitni sé stefnda gert mjög erfitt um vik að halda uppi vörnum. Stefnandi geti ekki í samræmi við meginreglur einkamálaréttarfars bætt úr þessum annmörkum undir rekstri málsins. Að öllu framangreindu virtu eigi að vísa máli þessu frá dómi í heild sinni.

Kröfur stefnda styðjist við lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sérstaklega 1. mgr. 46. gr., 80. gr. og 2. mgr. 99. gr. Jafnframt sé vísað til almennra reglna skaðabótaréttar um sönnun sakar, orsakasamband, fyrirsjáanleika og sönnun tjóns. Einnig sé vísað til laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, einkum 52. gr. og 80. gr., og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 18. gr. og bráðabirgðaákvæði XIV. Krafa um málskostnað byggi á 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnanda.

Niðurstaða

Samkvæmt d- og e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, ber að greina í stefnu svo glöggt sem verða má dómkröfur og málsástæður sem málsókn er byggð á, svo og önnur atvik sem þarf að geta til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Í þessum áskilnaði hefur verið talið felast að ljóst verði að vera hvaða samhengi sé milli kröfugerðar, lýsingar á málsástæðum og málatilbúnaðar að öðru leyti.

Aðalkrafa stefnanda er viðurkenningarkrafa. Heimilt er að leita viðurkenningardóms ef aðili hefur lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála. Í stefnu er ekki vísað til þessa ákvæðis og enga umfjöllun er þar að finna um að áskilnaði þess um lögvarða hagsmuni sé fullnægt. Nauðsynlegt er að greina nákvæmlega í slíkri kröfugerð þau réttindi sem krafist er viðurkenningar á. Að öðrum kosti getur dómsniðurstaða ekki orðið skýr og afgerandi um hvernig réttindum er háttað ef fallist er á slíka kröfu. Í dómkröfunni er þess ekki getið hvaða áhvílandi veðlán það séu sem krafist er viðurkenningar á að stefndi hafi ofreiknað stöðu á. Ómarkviss umfjöllun í stefnu, m.a. um kröfur sem ekki voru veðkröfur á eigninni, en stóðu að baki tryggingarbréfum sem á henni hvíldu, er þar síst til skýringar. Þá er ekki skýrt hvort í því orðalagi, að stefnanda beri endurkröfuréttur á ofreiknaðar veðkröfur, felist krafa um viðurkenningu á rétti til kröfugerðar vegna nauðungarsölumálsins eða á rétti til greiðslu. Höfuðstóll er tiltekinn en tilgreining vaxta og dráttarvaxta í kröfunni er svo óljós að fjárhæð kröfu um slíka greiðslu er óviss. Aðalkrafa stefnanda er samkvæmt framangreindu óskýr og óákveðin og í andstöðu við meginreglu réttarfars um skýran málatilbúnað. Fallist er á það með stefnda að krafan sé ódómtæk og óhjákvæmilegt að vísa henni frá dómi.

Í varakröfu er krafist endurkröfu á ofreiknuðum veðkröfum, eins og þar segir, að tiltekinni fjárhæð með óljósri vaxtakröfu, eins og í aðalkröfu. Krafan virðist hvorki vera viðurkenningarkrafa um ákveðin réttindi né krafa um að stefndi greiði tilgreinda fjárhæð. Í umfjöllun um kröfuna í stefnu kemur ekkert fram sem varpað geti ljósi á það hvað nánar felist í því að krefjast endurkröfu á ofreiknuðum veðkröfum. Krafan er svo óskýr að dómur verður ekki á hana lagður og verður henni vísað frá dómi.

Til þrautavara krefst stefnandi þess, m.a. með vísun til dómskjals, að stefndi verði talinn hafa bakað stefnanda skaðabótaskyldu með því að samþykkja ekki sölu á fasteigninni. Orðalag kröfunnar, um að á stefnanda hafi fallið skaðabótaskylda af völdum stefnda, er óskiljanlegt og ekki í neinu samræmi við þann fátæklega rökstuðning sem fyrir kröfunni er í stefnu. Þar virðist á því byggt að stefndi hafi valdið stefnanda tjóni sem stefnda beri að bæta henni, en engin grein er gerð fyrir tjóninu. Hafi það verið ætlan stefnanda að krefjast viðurkenningar á bótaskyldu stefnda vegna þeirra atvika sem vísað er til í þrautavarakröfunni fer því fjarri að fullnægt sé áskilnaði 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála til slíkrar kröfugerðar. Kröfunni verður vísað frá dómi sökum óskýrleika

Fyrirmæli 1. mgr. 80. gr. og 95. gr. laga um meðferð einkamála, miða að því að tryggja að ljóst sé á frumstigi dómsmáls með hvaða röksemdum og í meginatriðum á hvaða gögnum stefnandi hyggst styðja kröfur sínar. Ákvæði 80. gr. laganna um efni stefnu eiga sér ekki síst þann tilgang að tryggja stefnda rétt til að kynna sér málatilbúnað stefnanda í því skyni að eiga þess sanngjarnan kost að verjast kröfum hans að því er alla þætti þeirra varðar. Stefndi telur málatilbúnað stefnanda vera svo óskýran og vanreifaðan að ógerlegt sé fyrir stefnda að taka til varna. Tekið er undir það með stefnda að mjög skortir á skýrleika í málatilbúnaði stefnanda um atvik og samhengi dómkrafna og málsástæðna fyrir þeim, þannig að í bága fer við e-lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála.

Að framan er gerð grein fyrir annmörkum á kröfugerð í aðal- vara- og þrautavarakröfu stefnanda. Sérstök krafa um vexti og dráttarvexti af ótilgreindri fjárhæð bætir í engu úr vanköntum á vaxta- og dráttarvaxtakröfum í aðal- og varakröfu. Með kröfu um að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað er sett fram sú marklausa krafa að stefnanda sjálfri verði gert að greiða virðisaukaskatt á málskostnað. Framsetning kröfugerðar stefnanda í heild sinni er með þeim hætti að áskilnaði d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála er ekki fullnægt og eru kröfurnar ekki dómtækar. Verður þegar af þeirri ástæðu fallist á aðalkröfu stefnda og máli þessu vísað frá dómi. Í samræmi við þá niðurstöðu, og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem ákveðinn er 375.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Varnaraðili, Patricia Mistretta Guðmundsson, greiði sóknaraðila, Landsbankanum hf., 375.000 krónur í málskostnað.

                                                                        Kristrún Kristinsdóttir