• Lykilorð:
  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Samaðild
  • Vanreifun
  • Skaðabótamál

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta, sem höfðað var með stefnu birtri 8. nóvember sl., var tekið til úrskurðar um frávísun að loknum munnlegum málflutningi 28. janúar sl. Stefnandi er EC-Clear ehf., Borgabraut 15, Hólmavík. Stefndu eru Arion banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík, Borgun hf., Ármúla 30, Reykjavík, Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík, og Valitor hf., Dalshrauni 3, Hafnarfirði. Í þessum þætti málsins krefjast stefndu þess að málinu verði vísað frá dómi, en stefnandi krefst þess að kröfu stefndu verið hafnað. Af hálfu allra málsaðila er gerð krafa um málskostnað. Þá gera stefndu Arion banki hf. og Borgun hf. einnig kröfu um álag á málskostnað.

            Í efnisþætti málsins gerir stefnandi svofelldar dómkröfur: Aðallega að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð stefndu gagnvart Kortaþjónustunni ehf., vegna brota gegn 10. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 og nr. 44/2005 og 53. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, með verðsamráði sem fólst í einhliða ákvörðun stefndu Borgunar hf. og Valitors hf. um samræmd milligjöld fyrir greiðslukort; til vara að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð stefndu gagnvart Kortaþjónustunni ehf., vegna brota gegn 10. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 og nr. 44/2005 og 53. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, með verðsamráði sem fólst í einhliða ákvörðun stefndu Borgunar hf. og Valitors hf. um samræmd milligjöld fyrir greiðslukort, á tímabilinu 2003–2015; til þrautavara að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð stefndu gagnvart Kortaþjónustunni ehf., vegna brota gegn 10. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 og nr. 44/2005 og 53. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, með verðsamráði sem fólst í einhliða ákvörðun stefndu Borgunar hf. og Valitors hf. um samræmd milligjöld fyrir greiðslukort, á tímabili að mati dómsins. Í efnisþætti málsins gera stefndu kröfu um sýknu.

            Stefnandi lýsir málatilbúnaði sínum svo að málið sé sprottið af samkeppnisbrotum stefndu gagnvart Kortaþjónustunni ehf. á greiðslukortamarkaði. Brotin hafi átt sér stað á tímabilinu 2002 til 2015 og varði svonefnt milligjald. Með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins 30. apríl 2015 í máli nr. 8/2015 hafi stefndu viðurkennt brot og undirgengist sektir að samanlagðri fjárhæð 1.620.000.000 krónur. Þá hafi Samkeppniseftirlitið mælt fyrir um aðgerðir í því skyni að tryggja samkeppnislegt jafnræði á greiðslukortamarkaði. Áður hafi Samkeppniseftirlitið komist að frumniðurstöðu sama efnis, sbr. andmælaskjal eftirlitsins frá 8. mars 2013. Brot stefndu hafi valdið Kortaþjónustunni ehf. fjártjóni og sé í málinu gerð krafa um viðurkenningu á bótaábyrgð stefndu. Stefnandi hafi áður verið aðaleigandi Kortaþjónustunnar ehf. en fyrirtækið hafi 7. nóvember sl. framselt stefnanda til eignar og fullrar ráðstöfunar öll réttindi tengd sakarefninu ásamt þeim skyldum sem þeim kunna að fylgja. Stefnandi sé því réttur aðili málsins til sóknar.

            Svo sem nánar greinir í úrskurði Landsréttar 9. maí 2018 í máli nr. 289/2018 höfðaði Kortaþjónustan ehf. mál á hendur stefndu með stefnu 13. janúar 2015 til greiðslu skaðabóta á svipuðum grundvelli. Með dómi Hæstaréttar 1. júní 2017 í máli nr. 239/2017 var úrskurður héraðsdóms um frávísun málsins staðfestur, einkum með þeim rökum að ekkert lægi fyrir um það hvort Kortaþjónustan ehf. eða danskt móðurfélag fyrirtækisins hefði greitt þau milligjöld sem væru grundvöllur þess tjóns sem Kortaþjónustan ehf. hefði freistað að fá staðfest með matsgerð og krefðist bóta fyrir í málinu. Var málatilbúnaður Kortaþjónustunnar að þessu leyti talinn svo óljós og vanreifaður að óhjákvæmilegt væri að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi. Stefnandi höfðaði að nýju mál 28. september 2017. Með fyrrgreindum úrskurði Landsréttar 9. maí 2018 var staðfestur úrskurður héraðsdóms 2. mars það ár um frávísun þess máls einnig frá héraðsdómi. Er nánar vikið að úrskurði Landsréttar, svo og öðrum atvikum málsins, í niðurstöðum dómsins eftir því sem þýðingu hefur fyrir úrlausn þess.

 

Málsástæður og lagarök stefndu um frávísun málsins

            Málsástæður og lagarök stefndu fyrir frávísun málsins fara saman. Stefndu byggja í fyrsta lagi á því að aðild til sóknar og varnar sé vanreifuð. Annars vegar sé kröfugerð stefnanda mun víðtækari en framsalssamningur stefnanda og Kortaþjónustunnar ehf. heimili. Þannig vísi framsalssamningurinn til krafna vegna þeirra samkeppnisbrota sem lýst sé í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2015, þar sem fjallað hafi verið um brot á tímabilinu 1. janúar 2007 til 31. desember 2009, en kröfugerð stefnanda taki til skaðabótaábyrgðar vegna brota yfir mun lengra tímabil. Hins vegar sé aðild til varnar vanreifuð að því leyti að engin grein sé gerð fyrir því hvort krafist sé viðurkenningar á skiptri eða óskiptri skaðabótaábyrgð stefndu. Í því sambandi leggja stefndu áherslu á að samkvæmt umræddri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins hafi verið um að ræða ólögmætt samráð á vettvangi stefnda Borgunar hf. annars vegar og Valitors hf. hins vegar. Það fái ekki staðist að líta á þetta tvenns konar samráð sem eitt brot sem leiða eigi til óskiptrar ábyrgðar.

            Stefndu benda á að niðurstaða Samkeppnisstofnunar hafi verið sú að samráð hinna stefndu viðskiptabanka hafi leitt til þess að téð milligjald hefði verið hærra en vænta hefði mátt við virka samkeppni og aðgerðir. Stefnandi virðist hins vegar byggja málatilbúnað sinn á því að milligjöldin hafi verið of lág og samráð stefndu haft það að markmiði að hindra Kortaþjónustuna ehf. í að komast inn á þann markað sem hér var um að ræða. Slík niðurstaða fái hins vegar ekki stoð í umræddri ákvörðun Samkeppnisstofnunar. Hefðu brot stefndu ekki komið til hefði, samkvæmt ákvörðun Samkeppnisstofnunar, mátt vænta þess að téð milligjald hefði orðið enn lægra, en við þær aðstæður hefðu möguleikar Kortaþjónustunnar ehf. til að vinna sér markaðshlutdeild verið enn lakari. Brot stefndu samkvæmt umræddri ákvörðun Samkeppnisstofnunar hafi því ekki verið til þess fallin að valda Kortaþjónustunni ehf. tjóni. Telja stefndu að grundvöllur málatilbúnaðar stefnanda sé með þessum hætti í mótsögn við kröfugerð hans um viðurkenningu tjóns vegna umræddra brota. Stefndu benda einnig á að um hindranir gagnvart Kortaþjónustunni ehf. í að komast inn á markaðinn með því að synja fyrirtækinu um aðgang að innlendu greiðslumiðlunarkerfi hafi verið fjallað í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2008 og hafi stefnandi þegar fengið tjón af þessum sökum bætt.

            Í annan stað telja stefndu að málatilbúnaður stefnanda sé í heild sinni slíkum annmörkum háður að ekki verði úr bætt undir rekstri málsins og beri því að vísa málinu enn á ný frá dómi með vísan til 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndu vísa til þess að ekki verði skýrlega ráðið af málatilbúnaði stefnanda hvort hann reki málið á þeim grundvelli að niðurstaða samkeppnisyfirvalda hafi falið í sér lögfulla sönnun um ólögmæta háttsemi eða hvort stefnandi hyggist færa sönnur á brot stefndu með sjálfstæðri sönnunarfærslu í málinu. Stefnandi byggi þannig málatilbúnað sinn ekki eingöngu á ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2015 heldur einnig andmælaskjali sömu stofnunar 8. mars 2013. Í þessu sambandi vísa stefndu til þess að endanleg niðurstaða Samkeppniseftirlitsins hafi verið sú að stefndu hefðu með samráði brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins. Í málinu reyni stefnandi hins vegar enn á ný að byggja málatilbúnað sinn á 11. gr. samkeppnislaga, sem varði misnotkun á markaðsráðandi stöðu, með því að halda því fram að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins hafi falið í sér sönnun fyrir því að Kortaþjónustan ehf. hafi orðið fyrir tjóni vegna aðgangshindrana. Þannig vísi stefnandi til þess að Kortaþjónustan ehf. hafi ekki haft aðgang að innlendu greiðslumiðlunarkerfi á þeim tíma sem hér um ræðir, gagnstætt stefndu Borgun hf. og Valitor hf., og hafi síðarnefnda félagið nýtt sér markaðsráðandi stöðu sína sem færsluhirðir til þess að bjóða söluaðilum sérstök kjör í því skyni að hindra að þeir færðu viðskipti sín til Kortaþjónustunnar ehf.

            Til stuðnings málsástæðu sinni um vanreifun benda stefndu á það að málinu hafi áður verið vísað frá dómi með vísan til þess að ekki hefði verið sýnt fram á orsakasamhengi milli þeirra samkeppnisbrota sem stefnandi grundvalli málssókn sína á og þess tjóns sem hann krefjist að verði viðurkennt. Stefnandi hafi ekki bætt úr þessum annmörkum á málatilbúnaði sínum. Stefndu vísa einnig til þess að matsgerðin sem stefnandi byggi á um sönnun tjóns síns sé ekki studd viðhlítandi gögnum um það þóknanahlutfall sem stefnandi telur sig hafa átt tilkall til. Þá skorti enn gögn um samningssamband Kortaþjónustunnar ehf. og hins danska móðurfélags fyrirtækisins, en upplýsingar um það atriði séu í raun forsenda fyrir því að stefnandi geti átt nokkra kröfu í málinu. Af þessu leiði að ekki liggi fyrir að stefnandi eigi lögvarða hagsmuni samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 til þess að fá úrlausn um viðurkenningarkröfu sína um skaðabótaábyrgð. Hafi stefnandi þannig ekki leitt nægilegar líkur að því að tjón hafi orðið, í hverju tjónið felist og hver tengsl þess séu við brot stefndu.

            Í þriðja lagi vísa stefnendur til þess að kröfugerð stefnanda sé óskýr. Þannig sé vísað til „samræmdra milligjalda fyrir greiðslukort“ í kröfugerð stefnanda en ljóst sé að stefnandi byggi þó einungis á því að samræming milligjalda fyrir debetkort hafi valdið honum tjóni. Þá sé aðalkrafa stefnanda ekki afmörkuð við ákveðið tímabil.

            Að lokum vísa stefndu til þess að málssókn stefnanda brjóti gegn meginreglunni um hraða og skilvirka málsmeðferð, en málarekstri stefnanda hafi alls fimm sinnum verið vísað frá dómi án þess að hann hafi gert nauðsynlegar lagfæringar á málatilbúnaði sínum. Hér hafi því verið brotið gegn 70. gr. stjórnarskrár og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. samnefnd lög nr. 62/1994.

           

Málsástæður og lagarök stefnanda um frávísun málsins

            Stefnandi mótmælir öllum málsástæðum og lagarökum stefndu. Hann leggur áherslu á að með málsókn stefnanda nú hafi verið brugðist við þeim annmörkum sem vísað hafi verið til í fyrrnefndum úrskurði Landsréttar. Nú sé aðeins gerð krafa um viðurkenningu á bótaábyrgð stefndu, aðallega án tímabils, til vara með vísan til ákveðins tímabils en til þrautavara að mati dómsins. Stefnandi telur það engu skipta um það að Kortaþjónustan ehf. hafi orðið fyrir tjóni þótt fyrirtækið hafi ekki haft leyfi til færsluhirðingar heldur danskt móðurfélag þess. Ekki skipti máli fyrir málatilbúnað stefnanda nú þótt þóknanahlutfall Kortaþjónustunnar ehf. gagnvart hinu danska móðurfélagi liggi ekki fyrir enda sé ekki gerð fjárkrafa nú svo sem gert var í fyrra máli. Það nægi að Kortaþjónustan ehf. hafi fengið einhverja og aðskilda þóknun, en það sé óumdeilt í málinu.

            Stefnandi vísar til þess að grundvöllur kröfugerðar hans sé ólögmæt framkvæmd við ákvörðun milligjalda, eins og ítarlega sé rökstutt í stefnu. Þannig sé einungis byggt á þeirri háttsemi sem ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2015 hafi beinst að. Ekki sé vísað til tjóns vegna aðgangshindrana, eins og haldið sé fram af stefndu. Í þessu sambandi skipti þóknunartekjur hins danska móðurfélags Kortaþjónustunnar ehf. engu máli en það liggi nægilega fyrir að síðargreinda félagið geti átt sjálfstæða kröfu.

            Stefnandi telur að hann geti með málatilbúnaði sínum nú greint með skýrum hætti á milli afleiðinga þeirra samkeppnisbrota sem þegar hafi verið bætt með dómsátt aðila og brota vegna ólögmætrar framkvæmdar við ákvörðun milligjalda. Téð dómsátt hafi ekki falið í sér bætur vegna síðargreindra brota og skýrlega hafi verið tekið fram í 3. gr. sáttarinnar að Kortaþjónustan ehf. áskildi sér rétt til að sækja um frekari bætur af þeim sökum. Þá sé ágreiningslaust með aðilum að tjón vegna samræmingar milligjalda sem rakið sé í andmælaskjali Samkeppniseftirlitsins 8. mars 2013 hafi ekki fallið undir sáttina.

            Stefnandi mótmælir því hann hafi ekki leitt nægilegar líkur að tjóni Kortaþjónustunnar ehf. þannig að hann skorti lögvarða hagsmuni til að hafa uppi viðurkenningarkröfu um bótaábyrgð, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Úr annmörkum á málatilbúnaði hans hafi nú verið bætt með því að í stefnu sé ítarlega fjallað um hina bótaskyldu háttsemi og hvernig hún leiddi til til tjóns. Ljóst sé að samráð stefndu hafi leitt til verri samkeppnisstöðu Kortaþjónustunnar ehf. og valdið fyrirtækinu tjóni. Þá vísar stefnandi til niðurstöðu dómkvaddra matsmanna um að minni velta sökum minni markaðshlutdeildar hafi leitt til tjóns fyrir fyrirtækið, auk þess sem samráðið hafi einnig hamlað vexti þess.

            Stefnandi mótmælir sem haldlausum málsástæðum stefndu um að stefnandi sé ekki réttur aðili að málinu til sóknar, að ekki sé nægileg grein gerð fyrir aðild málsins til varnar og að brotið hafi verið gegn meginreglu réttarfars um hraða og skilvirka málsmeðferð undir rekstri málsins þannig að varði frávísun þess.

 

Niðurstaða

            Svo sem áður greinir höfðaði Kortaþjónustan ehf. mál gegn stefndu 28. september 2017 vegna sömu atvika og um ræðir í máli þessu, en stefnandi byggir aðild sína til sóknar nú á kröfuframsali frá því félagi. Lyktaði því máli með fyrrgreindum úrskurði Landsréttar 9. maí 2018, þar sem staðfest var sjálfkrafa frávísun málsins frá héraðsdómi. Með fyrsta lið varakröfu sinnar í því máli, sem var þrískipt, krafðist stefnandi þess að viðurkennd yrði skaðabótaábyrgð stefndu, Borgunar hf. og Valitors hf., gagnvart stefnanda vegna brota á 12. gr., sbr. 10. gr., samkeppnislaga nr. 8/1993, lög nr. 44/2005 og 53. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, með verð­samráði sem fólst í ein­hliða ákvörðun stefndu Borgunar hf. og Valitors hf. um samræmd milli­gjöld fyrir greiðslukort á tímabilinu 2003–2015, eða skemmra tímabili að mati dóms­ins. Með öðrum liðum varakröfunnar var gerð sambærilega krafa gegn öðrum stefndu með vísan til 10. gr. laga nr. 8/1993.

            Um fyrrgreinda kröfugerð stefnanda sagði eftirfarandi í úrskurði Landsréttar: „Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að höfða mál til að leita viðurkenningardóms um kröfu, enda hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur í fjölda dóma Hæstaréttar verið skýrður svo, að sá er höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við ætlað skaðaverk. Með vísan til þeirra vankanta á málatilbúnaði sóknaraðila sem áður hefur verið lýst hefur hann ekki leitt að því nægar líkur að hann hafi orðið fyrir tjóni og ekki gert nægilega skýra grein fyrir því hver séu tengsl þess við ætlað skaðaverk. Ber þegar af þeirri ástæðu að vísa öllum kröfuliðum þriðju varakröfu sóknaraðila frá héraðsdómi.“

            Að mati dómsins eru vara- og þrautavarakrafa stefnanda í máli þessu efnislega sambærilegar þeim kröfum sem vísað var frá héraðsdómi með umræddum úrskurði Landsréttar, og áður greinir. Aðalkrafa stefnanda felur þó í sér kröfu um viðurkenningu á bótaskyldu vegna ótilgreinds tímabils, en þar er að öðru leyti vísað til sömu atriða og í öðrum kröfum hans. Athugast að þessi síðastgreinda krafa stefnanda er svo óákveðin að varðar frávísun hennar þegar af þeirri ástæðu. Hvað sem líður þessum annmarka liggur fyrir að stefnandi hefur ekki aflað neinna nýrra gagna, svo sem matsgerðar, til sönnunar á tjóni Kortaþjónustunnar ehf. en vísar til þess að bætt hafi verið úr annmörkum málsins að þessu leyti með ítarlegri reifun tjóns í stefnu auk þess sem hann hafi uppi áskilnað um öflun nýrrar matsgerðar undir meðferð málsins.

            Áður er vikið að dómsátt Kortaþjónustunnar ehf. 3. mars 2015 við stefndu Valitor hf., Borgun hf., og Greiðsluveituna hf. vegna samkeppnisbrota sem rakin voru í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2008, en af sáttinni verður ráðið að eftir standi ágreiningur um hvort stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna þess samráðs um milligjöld sem talið var fela í sér brot gegn samkeppnislögum með andmælaskjali Samkeppniseftirlitsins 8. mars 2013 og ákvörðun stofnunarinnar nr. 8/2018 um sátt við stefndu. Í fyrrgreindum úrskurði Landsréttar var meðal annars vísað til þess að svo virtist sem bótakrafa Kortaþjónustunnar ehf. væri að hluta til byggð á því að stefndu hefðu hindrað aðgengi fyrirtækisins að færsluhirðingarmarkaði á árunum 2002 til 2015, sem að meginstefnu voru þau brot sem fjallað var um í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2008 og fyrrgreindri dómsátt. Í forsendum Landsréttar var einnig áréttað að Kortaþjónustan ehf. gæti aðeins átt rétt til bóta fyrir tjón umfram það sem leiddi af þeirri háttsemi sem lýst var í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2008 og taldist uppgert með sáttinni. Taldi Landsréttur því „afar mikilvægt að í stefnu í máli þessu og matsgerð dómkvaddra matsmanna sem kröfugerð í málinu grundvallast á væri greint með skýrum hætti á milli afleiðinga þeirra samkeppnislagabrota sem bætt voru með fyrrnefndri dómsátt og afleiðinga ólögmætrar framkvæmdar á ákvörðun milligjalda á markaðshlutdeild og framlegð.“ Slíka greiningu væri hins vegar ekki að finna í málatilbúnaði sóknaraðila og yrði því ekki ráðið af honum hvort og þá að hvaða leyti Kortaþjónustan ehf. hefði þegar fengið bætt það framlegðartap sem félagið krefðist að yrði bætt í málinu. Af framangreindu leiddi jafnframt, að mati Landsréttar, að Kortaþjónustan ehf. hefði ekki með fullnægjandi hætti sýnt fram á orsakasamhengi milli þeirra samkeppnislagabrota sem félagið reisti málatilbúnað sinn á og þess tjóns sem það krefði stefndu um bætur fyrir.

            Að mati dómsins er málatilbúnaður stefnanda, sem byggir aðild sína á kröfuframsali frá Kortaþjónustunni ehf., enn á reiki um það hvort hann rekur tjón sitt til samráðs stefndu um umrædd milligjöld eða þess einnig að stefndu hafi með öðrum ólögmætum aðgerðum hindrað aðgengi hans að færsluhirðingarmarkaði. Þá telur dómurinn jafnframt að reifun stefnanda á samaðild stefndu samkvæmt 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sé ófullnægjandi og stefnandi hafi engin haldbær rök fært fyrir því í málinu hvers vegna allir stefndu beri sameiginlega ábyrgð á tjóni sem hlaust, annars vegar, af ólögmætu samráði á vettvangi stefnda Valitors hf. og, hins vegar, á vettvangi stefnda Borgunar hf. Án tillits til þessara annmarka telur dómurinn einnig að brýnt hafi verið fyrir stefnanda, í ljósi fyrrgreindra forsendna Landsréttar og efnis umræddrar dómsáttar, að afla sér viðhlítandi sönnunar fyrir tjóni Kortaþjónustunnar ehf. vegna samráðs stefndu um milligjöld. Var enn fremur ljóst í ljósi forsendna Landsréttar að sú matsgerð sem Kortaþjónustan ehf. byggði á sönnun sína um tjón var ekki fullnægjandi sönnunargagn í því sambandi. Svo sem áður greinir hefur stefnandi hins vegar ekki aflað neinna frekari gagna til sönnunar á tjóni sínu og vísar í því sambandi til sömu matsgerðar og í fyrra máli. Að mati dómsins eru því í öllum meginatriðum enn fyrir hendi þeir annmarkar á málatilbúnaði stefnanda sem leiddu til sjálfkrafa frávísunar máls Kortaþjónustunnar ehf. frá héraðsdómi samkvæmt fyrrgreindum úrskurði Landsréttar. Hefur stefnandi því hvorki leitt nægilegar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni né gert viðhlítandi grein fyrir tengslum slíks ætlaðs tjóns við þau samkeppnisbrot stefndu sem hann vísar til.

            Framangreindir annmarkar á málatilbúnaði stefnanda eru verulegir og ljóst að ekki verður úr þeim bætt undir meðferð málsins svo að ekki komi niður á möguleikum stefndu til að halda uppi vörnum. Samkvæmt öllu framangreindu er óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.

            Eftir 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefndu, hverju um sig, 500.000 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ekki þykja efni til álags á málskostnað samkvæmt 2. eða 3. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991.

            Skúli Magnússon kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er vísað frá dómi.

            Stefnandi, EC-Clear ehf., greiði stefndu, Arion banka hf., Borgun hf., Íslandsbanka hf., Landsbankanum hf. og Valitor hf., hverju um sig 500.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                                    Skúli Magnússon