• Lykilorð:
  • Nauðgun
  • Fangelsi

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2018 í máli nr. S-566/2018:

Ákæruvaldið

(Katrín Hilmarsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

X

(Arnar Kormákur Friðriksson lögmaður)

 

I

       Mál þetta, sem dómtekið var 28. nóvember síðastliðinn, var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 13. september síðastliðinn, á hendur X, kennitala 000000-0000, [...],[...], „fyrir nauðgun, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 20. maí 2017, í íbúð að [...]1 í [...], haft samræði við A, kt. 000000-0000, án hennar samþykkis, með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung.

 

       Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

       Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu B, kt. 000000-0000, er gerð krafa um að ákærði greiði ólögráða dóttur hennar, A, kt. 000000-0000, miskabætur að fjárhæð 2.500.000 kr. auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 19. maí 2017 en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Þá er jafnframt krafist málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“

 

       Ákærði neitar sök og hafnar bótakröfunni. Hann krefst aðallega þess að málinu verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður. Til þrautavara er krafist vægustu refsingar. Hann krefst þess aðallega að skaðabótakröfunni verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst ákærði þess að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

 

 

 

II

        Málavextir eru þeir að 12. júní 2017 kærði brotaþoli ákærða fyrir nauðgun. Hún skýrði svo frá hjá lögreglu að hún hefði farið með frænku sinni, kærasta hennar og ákærða í skemmtiferð austur í sveitir 19. maí 2017. Þegar komið var til baka hefði kærastinn farið heim til sín en hin þrjú farið heim til frænkunnar. Ákærði hefði beðið um að fá að gista og hefði það verið leyft. Þau hefðu legið þrjú í sama rúmi og hefði ákærði legið við vegg, þá brotaþoli og loks frænkan. Brotaþoli kvað þau hafa sofnað en hún hefði vaknað við að ákærði hefði verið að káfa á henni innanklæða. Hún kvað þau öll hafa verið klædd í boli og nærbuxur. Brotaþoli kvaðst hafa ýtt ákærða frá sér og hefði hann hætt og beðist afsökunar. Þau hefðu sofnað aftur en svo kvaðst brotaþoli hafa vaknað við að ákærði hefði verið búinn að draga nærbuxur hennar niður á læri og hefði verið að reyna að setja lim sinn inn í leggöng hennar þar sem hún hefði legið með bakið í hann. Hún kvaðst hafa sofnað aftur en vaknað á ný við það að ákærði var að setja liminn inn í leggöng hennar. Þá kvaðst hún hafa „frosið“ og þá hefði ákærða tekist að koma limnum inn og byrjað að hafa við hana samfarir. Hann hefði svo hætt þegar frænkan hefði vaknað. Í framhaldinu hefðu þau öll sofnað.

        Lögreglan yfirheyrði ákærða 17. júlí 2017. Hann neitaði sök og kvað ekkert kynferðislegt hafa gerst milli sín og brotaþola.

        Meðal gagna málsins er vottorð sálfræðings á Landspítalanum. Þar segir að viðmót brotaþola bendi „til þess að hún hafi upplifað mikla ógn, ofsa-ótta og bjargarleysi í meintu kynferðisbroti. Niðurstöður mats sýna að hún upplifði áfallastreitueinkenni eftir meint kynferðisbrot. Sálræn einkenni hennar í kjölfar áfallsins samsvara einkennum sem eru þekkt hjá fólki sem hefur upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, nauðgun, stórslys eða hamfarir. Niðurstöður sjálfsmatskvarða samsvöruðu frásögnum hennar í viðtölum. Hún virtist hreinskilin, trúverðug og samkvæm sjálfri sér.“ Í lok vottorðsins segir að ekki sé hægt segja með vissu hver áhrifin verði á brotaþola til lengri tíma en ljóst sé að atburðurinn hafi haft víðtæk áhrif á líðan hennar.

        Síðar var brotaþoli hjá sálfræðingi Barnahúss. Í vottorði sálfræðingsins frá 11. september síðastliðnum segir að brotaþoli hafi komið í mörg viðtöl og alltaf verið samkvæm sjálfri sér og trúverðug. Þá beri hún mörg einkenni sem þekkt séu meðal þolenda kynferðisofbeldis. Hún hafi sýnt alvarleg áfallastreitueinkenni í kjölfar atburðarins auk þunglyndis. Þá hafi hún sýnt kvíðaeinkenni. Hún hafi glímt við kvíða áður, en við atburðinn hafi hann aukist, eins og við hefði mátt búast. Þá hefði mikil vinna fyrir brotaþola farið í að takast á við skömm, sektarkennd og sjálfsásakanir sem hefðu haft slæm áhrif á líf hennar. Í lokin segir að ekki sé ólíklegt að brotaþoli muni þurfa á faglegri aðstoð að halda í framtíðinni til að takast á við afleiðingar brotsins.

 

III

        Við aðalmeðferð bar ákærði að hann hefði farið í ferðalag með brotaþola, frænku hennar og kærasta frænkunnar. Þegar í bæinn var komið hefði kærastinn farið heim en ákærði hefði farið heim til frænkunnar ásamt brotaþola. Áður kvaðst hann hafa sótt bjór sem hann hefði drukkið með brotaþola. Ákærði kveðst hafa beðið frænkuna um að fá að gista og hefði hún leyft það. Hann, brotaþoli og frænkan hefðu lagst til svefns í rúmi frænkunnar og kvaðst ákærði hafa legið við vegginn, frænkan á rúmstokknum og brotaþoli á milli þeirra. Ákærði kvaðst hafa legið í rúminu og verið í símanum auk þess að veipa. Ákærði kvaðst hafa verið klæddur í síðbuxur, sokka, bol og brúna hettupeysu og í þessu hefði hann sofið. Þá kvaðst hann hafa haft teppi með sér og sofið undir því. Hann hefði síðan sofnað og vaknað við það að frænkan sendi honum smáskilaboð þar sem hún hefði ásakað hann um slæman hlut og beðið hann að fara. Ákærði kvaðst hafa gert það.

        Ákærði kvaðst hafa þekkt frænkuna frá 2015 en þetta hefði verið í fyrsta skipti sem hann sá brotaþola. Hann neitaði alfarið að hafa haft samræði eða önnur kynferðisleg afskipti af brotaþola. Hann kvaðst ekki hafa haft afskipti af þessum toga af brotaþola þessa nótt. Ákærði kannaðist við að hafa fengið og sent framangreind smáskilaboð.

        Brotaþoli bar að eftir að komið var heim til frænkunnar hefðu þau þrjú farið að sofa og öll sofið í sama rúmi í herbergi frænkunnar. Frænkan hefði legið við rúmstokkinn þar eð hún hefði þurft að mæta til vinnu morguninn eftir. Ákærði hefði legið við vegginn en sjálf kvaðst brotaþoli hafa legið á milli þeirra. Hún kvaðst hafa verið klædd í langermabol og nærbuxur. Frænkan hefði verið eins klædd og ákærði hefði verið í bol og nærbuxum. Brotaþoli kvaðst hafa sofnað en vaknað eftir stutta stund og fundið að ákærði hefði verið að káfa á henni. Hún kvaðst fyrst hafa látið sem hún svæfi en síðan farið að ýta honum frá og þá hefði hann hætt. Ákærði hefði hvíslað að henni „fyrirgefðu“ og kysst hana á kinnina. Brotaþoli kvaðst hafa sofnað aftur en samt orðið vör við að ákærði hefði staðið upp, verið að veipa og taka púst. Hún kvaðst hafa vaknað eftir nokkra stund við það að ákærði hefði verið að draga nærbuxurnar niður um hana og verið að reyna að koma lim sínum inn í leggöng hennar. Þegar þetta var kvaðst hún hafa legið á hlið og snúið baki í ákærða sem hefði verið alveg upp við hana. Hún kvaðst hafa ýtt honum frá sér en ákærði hefði haldið áfram að draga nærbuxurnar niður en hún hefði dregið þær upp. Eins hefði hann reynt að koma limnum inn í hana. Hún kvaðst hafa ýtt honum frá sér en hann hefði haldið henni. Brotaþoli kvað ákærða hafa tekið utan um kreppta hnefa hennar og haldið áfram að reyna að koma limnum inn í hana. Honum hefði tekist það og haft þannig við hana samræði í nokkrar mínútur. Hann hefði haldið utan um mjöðmina á henni á meðan. Hún kvaðst ekki hafa getað hreyft sig á meðan. Frænkan hefði vaknað við þetta og séð ákærða undir sæng brotaþola sem hefði verið grátandi. Frænkan hefði spurt sig hvort ákærði hefði gert eitthvað og hefði hún játað því. Frænkan hefði nú tekið utan um brotaþola sem hefði sofnað aftur í fanginu á henni. Þær hefðu síðan vaknað um sexleytið og þá hefðu þær farið. Brotaþoli kvaðst hafa sagt þáverandi kærasta sínum frá þessu morguninn eftir. Eftir þetta hefði hún sagt vinkonu sinni og systur frá þessu. Þá skýrði brotaþoli frá líðan sinni eftir þetta, en hún hefði verið greind með þunglyndi og áfallastreituröskun. Hún hefði áður verið greind með þunglyndi og kvíða en tekist að draga mikið úr þeim einkennum.

        Frænka brotaþola bar að þau þrjú hefðu sofið í sama rúmi eins og lýst var hér að framan. Hún kvaðst hafa sofið í bol og stuttbuxum og hefði brotaþoli verið eins klædd. Ákærði hefði sofið í bol og nærbuxum. Hún kvaðst hafa vaknað við það að rúmið hreyfðist fram og aftur og eins hefði hún heyrt stunur. Fyrst kvaðst hún ekki hafa skilið hvað hefði verið í gangi en síðan hefði hún snúið sér við og þá séð brotaþola liggja þar stjarfa og tár hefðu lekið úr augum hennar. Frænkan kvað ákærða hafa verið að hafa samfarir við brotaþola og hefði hann legið ofan á henni. Hún kvaðst hafa spurt ákærða hvað hann væri að gera og sagt honum að fara. Þá hefðu stunurnar hætt sem og hreyfingin. Ákærði hefði þóst vera sofandi en spurt hvað hann væri að gera undir sæng brotaþola. Frænkan kvaðst hafa haldið utan um brotaþola á meðan þær biðu eftir því að ákærði sofnaði. Þegar hann var sofnaður hefði brotaþoli byrjað að titra og skjálfa. Hún hefði haldið fast í frænkuna og byrjað að svitna og grátið og grátið. Í hvert sinn sem eitthvað heyrðist í ákærða kvað frænkan brotaþola hafa gripið fastar í sig. Þær hefðu síðan ákveðið að fara. Brotaþoli hefði tekið saman föggur sínar og þær hefðu farið til kærasta hennar. Ákærði hefði orðið eftir heima hjá frænkunni. Þá kannaðist hún við að hafa sent ákærða framangreind smáskilaboð og fengið boð frá honum.

        Móðir brotaþola kvað eldri systur brotaþola hafa sagt sér í byrjun júní að brotaþoli hefði slæmar fréttir að færa. Móðirin kvað sig og föður brotaþola hafa farið að hitta hana þar sem hún var í vinnu í annarri sveit. Þar hefði hún sagt þeim að hún hefði orðið fyrir nauðgun. Hún hefði farið heim til frænkunnar ásamt ákærða og þar hefðu þau þrjú lagst til svefns. Brotaþoli hefði svo vaknað við það að ákærði hefði legið ofan á henni og verið að hafa við hana samfarir án hennar leyfis. Hún hefði ekki lýst þessu nánar og móðirin kvaðst ekki hafa gengið á hana með nánari lýsingu. Brotaþoli hefði sagt að hún skildi ekki af hverju hún hefði ekki barist á móti enda væri hún sterk. Hún hefði eins og misst máttinn í þessum aðstæðum. Þá lýsti móðirin hvernig brotaþola hefði verið brugðið þegar hún kom heim til sín eftir þennan atburð en á því hefðu ekki fengist skýringar fyrr en systir hennar sagði frá því hvað hefði gerst. Þá kvað hún brotaþola hafa náð sér nokkuð en sumarið 2017 hefði verið eins og hún hefði horfið fjölskyldunni. Nú væri hún að koma aftur, eins og hún orðaði það.  

        Faðir brotaþola kvað systur brotaþola hafa sagt þeim foreldrunum frá því að brotaþola hefði verið nauðgað. Hann kvað foreldrana hafa farið til brotaþola sem hefði sagt þeim að henni hefði verið nauðgað en ekki hefði hún lýst því nánar fyrir sér. Brotaþoli hefði lýst aðdragandanum eins og rakið hefur verið hér að framan en nánari lýsingar hefði hann ekki heyrt frá henni. Þá kvað hann brotaþola ekki hafa verið sjálfri sér líka sumarið eftir þennan atburð en hún væri nú óðum að ná sér.

        Systir brotaþola bar að um viku eftir atburðinn hefði brotaþoli sagt sér að eitthvað hefði gerst. Þegar gengið var á hana hefði hún sagt að hún héldi að sér hefði verið nauðgað. Nánar hefði brotaþoli lýst þessu þannig að hún hefði sofnað og vaknað við að ákærði hefði verið að fikta í henni og káfa á henni. Brotaþoli hefði beðið ákærða að hætta en hann hefði ekki viljað það. Síðar hefði brotaþoli lýst þessu nánar þannig að ákærði hefði legið við hlið hennar að aftan og dregið niður um hana nærbuxurnar og haft við hana samfarir eða nauðgað henni, eins og brotaþoli hefði orðað það. Brotaþoli hefði frosið en ákærði hefði haldið áfram. Brotaþola hefði liðið mjög illa meðan hún sagði frá þessu og verið mjög óörugg. Systirin kvaðst hafa sagt foreldrum þeirra frá þessu. Þá kvað hún brotaþola hafa breyst mikið við þetta. Hún hefði verið mjög langt niðri og ekki talað eins mikið og áður. Hún hefði ekki getað mætt í vinnu sem hún hefði þó hlakkað mikið til að takast á við.

        Besta vinkona brotaþola bar að brotaþoli hefði sagt sér frá því að þau þrjú hefðu gist heima hjá frænkunni, eins og að framan var rakið. Hún kvað brotaþola hafa sagt sér að hún hefði vaknað við að ákærði var að káfa á henni og hefði hún sagt honum að hætta. Hann hefði gert það og hefði brotaþoli sofnað aftur. Síðan hefði brotaþoli vaknað við að ákærði hefði verið að draga niður um hana nærbuxurnar og verið að setja lim sinn inn í leggöng hennar. Ákærði hefði haldið hendi hennar fyrir aftan bak en brotaþoli hefði ekkert getað gert enda stjörf, auk þess sem ákærði hefði haldið henni. Frænkan hefði vaknað og sagt ákærða að hætta. Vinkonan kvað brotaþola hafa sagt sér þetta á mánudeginum eftir að þetta gerðist. Hún kvað brotaþola hafa skolfið og grátið þegar hún sagði frá þessu. Eftir þetta hefði verið eins og brotaþoli hefði horfið, eins og hún orðaði það, miðað við hvernig hún hafði verið áður. Núna væri brotaþoli hins vegar óðum að ná sér.

        Fyrrum kærasti brotaþola bar að þau hefðu verið par á þessum tíma. Hann hefði fyrst fengið að vita af þessu máli um morguninn eftir þetta er brotaþoli hefði komið til hans og lagst til svefns með honum. Þegar þau hefðu vaknað hefði hún verið í miklu uppnámi og hefði sagt honum að hún hefði orðið fyrir nauðgun. Þau hefðu ekki mikið rætt um nauðgunina en þó sagt að ákærði hefði verið þar að verki. Síðar hefði brotaþoli sagt sér frá deginum eins og að framan er rakið. Þau þrjú hefðu svo farið heim til frænkunnar og sofið þar í sama rúmi. Um nóttina hefði brotaþoli vaknað við að ákærði hefði verið að snerta kynfæri hennar. Hún hefði ýtt honum frá sér og sagst ekki vilja þetta. Þá hefði ákærði sagt fyrirgefðu. Brotaþoli hefði sofnað en vaknað við það að ákærði hefði verið að reyna að setja lim sinn inn í leggöng hennar. Hún hefði ýtt honum frá sér og sagt að hún vildi þetta ekki. Þá hefði ákærði tekið um hendur hennar, haldið henni fastri og haldið áfram að nauðga henni, eins og hann orðaði það. Nánar spurður kvað hann brotaþola hafa sagt sér að ákærði hefði haft samfarir við hana. Svo hefði frænkan vaknað og sagt ákærða að hætta. Brotaþoli hefði svo sofnað í fangi frænkunnar. Þær hefðu sofið til morguns en þá vaknað og hefði brotaþoli komið til sín. Eftir þetta hefði brotaþoli orðið miklu þunglyndari en áður. Hún hefði grátið í hvert skipti sem þau voru saman og eins hefði hún orðið kvíðnari en áður. Hann kvað þau hafa hætt saman í árslok 2017 en það hefði ekki tengst þessum atburði.

        Faðir frænkunnar og móðurbróðir brotaþola kvað dóttur sína hafa beðið um að brotaþoli fengi að gista umrædda nótt. Hún hefði ekki rætt um að einhver annar myndi gista. Hann kvaðst hafa vaknað umræddan morgun en ekki orðið var við neitt um nóttina. Um morguninn hefði maður komið fram á skóm og hefði hann sagt að það ætti ekki að vera á skóm inni. Við þetta hefði maðurinn hlaupið út.

        Sálfræðingarnir, sem höfðu brotaþola til meðferðar og rita framangreind vottorð, staðfestu þau. Þeir útskýrðu vottorðin frekar og báru um líðan brotaþola, eins og rakið var.

 

IV

        Ákærða er gefin að sök nauðgun og brot hans talið varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Brotið á að hafa verið framið 20. maí 2017. Þá var nefnd lagagrein svohljóðandi: Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun, eins og nánar greinir. Í núgildandi 1. mgr. 194. gr. segir að hver sem hafi samræði við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun. Samþykki teljist liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst ekki liggja fyrir ef beitt er ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung. Í ákærunni er ákærða gefið að sök að hafa haft samræði við brotaþola án samþykkis hennar, með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung. Orðalag ákærunnar er skýrt og getur ákærða ekki dulist fyrir hvað hann er ákærður. Þá leikur enginn vafi á því að nauðgun var refsiverð í tíð eldri laga og var því ekki breytt með gildistöku laga nr. 16/2018 sem breyttu 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Frávísunarkrafa ákærða á því ekki við rök að styðjast og er henni hafnað.

        Ákærði neitar sök. Hann hefur allt frá upphafi neitað að hafa haft samræði eða önnur kynferðisleg afskipti af brotaþola umrædda nótt. Eftir að brotaþoli og frænka hennar voru farnar úr húsinu sendi frænkan ákærða smáskilaboð í síma. Í þeim ber frænkan á ákærða að hafa brotið gegn brotaþola kynferðislega en hann neitar allri vitneskju um það.

        Brotaþoli ber á annan veg, eins og rakið var. Hér að framan var gerð grein fyrir framburði hennar en hún ber að ákærði hefði ítrekað reynt að hafa samræði við hana og hafi honum tekist það á endanum. Þessi framburður brotaþola fær stuðning af framburði frænku hennar sem svaf í sama rúmi og ákærði og brotaþoli. Frænkan lýsti því hvernig brotaþoli hefði legið stjörf meðan ákærði hafði við hana samfarir. Þegar hann hætti hefði brotaþoli byrjað að titra og skjálfa og gráta eins og rakið var. Þær hefðu síðan farið og hefði brotaþoli farið til þáverandi kærasta síns. Hann bar um ástand hennar og hvað hún sagði honum en það er í samræmi við framburð brotaþola og frænkunnar. Þá hefur verið gerð grein fyrir framburði foreldra brotaþola og systur sem og vinkonu hennar. Allt þetta fólk ber að hún hafi sagt því frá atburðum á sama hátt og brotaþoli lýsti fyrir dómi. Loks er að geta vottorða sálfræðinga sem rakin voru. Athuganir sálfræðinganna benda til þess að brotaþoli hafi upplifað mikið áfall eins og algengt er með þá sem verða fyrir kynferðisbroti.

        Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að byggja á trúverðugum framburði brotaþola sem hefur verið stöðugur allt frá upphafi. Framburður hennar styðst við þau sönnunargögn sem hafa verið rakin. Gegn neitun ákærða verður hann því sakfelldur fyrir nauðgun eins og honum er gefið að sök. Brot hans er rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.

        Ákærða hefur ekki áður verið refsað. Hann var 17 ára þegar hann framdi brotið. Rétt er að taka nokkurt tillit til þess og telst refsing hans hæfilega ákveðin 18 mánaða fangelsi sem ekki eru skilyrði til að skilorðsbinda.

        Miskabætur til brotaþola eru hæfilega ákveðnar 1.200.000 krónur og skulu þær bera vexti eins og greinir í dómsorði. Það athugast að ákærða var birt bótakrafan 17. júlí 2017 og skulu dráttarvextir reiknast frá þeim degi er liðnir voru 30 dagar frá birtingunni.

        Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað, málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola en laun og þóknun eru ákveðin með virðisaukaskatti í dómsorði.

 

        Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

        Ákærði, X, sæti fangelsi í 18 mánuði.

        Ákærði greiði A 1.200.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga 38/2001 frá 20. maí 2017 til 17. ágúst sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

        Ákærði greiði 90.000 krónur í sakarkostnað, málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnars Kormáks Friðrikssonar lögmanns, 1.328.040 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur lögmanns, 697.996 krónur.

                                                                                   

Arngrímur Ísberg