• Lykilorð:
  • Fésekt
  • Líkamsárás
  • Fangelsi
  • Skilorðsbundið fangelsi og sekt
  • Skilorð
  • Þjófnaður

Árið 2018, mánudaginn 15. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er af Sigurði G. Gíslasyni héraðsdómara að Austurvegi 4, Selfossi, kveðinn upp í máli nr. S-320/2016:

 

Ákæruvaldið

(Elimar Hauksson fulltrúi )

gegn

Hreggviði Hermannssyni

(sjálfur)

 

svofelldur

d ó m u r :

Mál þetta er höfðað með ákæru Lögreglustjórans á Suðurlandi 12. desember 2016, á hendur Hreggviði Hermannssyni, Langholti 1b, Flóahreppi

 

„I.

fyrir þjófnað

með því að hafa, laugardaginn 4. október 2014 á landi í vegkanti austan Hallandavegar við bæinn Langholt 2 í Flóahreppi, stolið tíu bráðabirgðagirðingarstaurum og þar til gerðum rafmagnsgirðingarþræði að óþekktu verðmæti sem ákærði hafði á brott með sér.

 

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

033-2014-5485

 

II.

fyrir þjófnað

með því að hafa einhvern tímann [sic.] á tímabilinu frá því á vormánuðum 2014 og fram til 10. október 2014 stolið úr sumarhúsi að Langholti 1 í Flóahreppi (fastanúmer 222-9287) einum þriggja sæta sófa, einum tveggja sæta sófa og tveimur stólum, allt að óþekktu verðmæti sem ákærði kom fyrir í veiðihúsi á bökkum Hvítár.

 

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

033-2014-5587

 

III.

fyrir líkamsárás

með því að hafa, að kvöldi mánudagsins 19. september 2016 á Hallandavegi móts við Langholt 1 í Flóahreppi, veist að A, tekið í hægri hönd hennar og snúið upp á hana.

 

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 217. gr.  almennra hegningarlaga nr. 19,1940.

 

318-2016-10793

 

IV.

fyrir brot á vegalögum

með því að hafa á tímabilinu frá kvöldi þriðjudagsins 11. október fram undir hádegi miðvikudaginn 12. október 2016 komið fyrir stórgrýti á vegi er liggur frá Hallandavegi heim að Langholti 2 í Flóahreppi þannig að vegurinn lokaðist og öryggi umferðar um veginn var raskað.

 

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 47. gr. vegalaga nr. 80, 2007 sbr. 1. mgr. 59. gr. nefndra vegalaga.

 

318-2016-11602

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Í ákæru var getið einkaréttarkrafna, en þeim hefur öllum verið vísað frá dómi með úrskurðum dómsins og eru úr sögunni.

 

            Málið var þingfest 2. febrúar 2017.

            Ákærði neitar sök og ver sig sjálfur skv. eigin ósk.

            Aðalmeðferð málsins fór fram 21. nóvember 2017.

            Af hálfu ákæruvalds eru þær kröfur gerðar sem að ofan greinir.

            Af hálfu ákærða er þess krafist að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds.

            Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.

 

Málavextir

            Ákæruliður I.

            Samkvæmt frumskýrslu lögreglu 6. október 2014 var hringt og óskað eftir aðstoð lögreglu vegna þjófnaðar á bráðabirgðagirðingu að Langholti í Flóahreppi. Fór lögregla á vettvang og hitti þar kæranda B, sem lýsti því að upp hefði verið sett girðing ásamt 12-15 staurum sem hefði verið tekin niður og fjarlægð. Hefði ákærði verið þar að verki. Í lögregluskýrslu lýsti B þessu frekar og kvað hafa verið um að tefla 10-14 staura og rafmagnsþráð.

            Við rannsókn málsins tók lögregla skýrslu af nágranna ákærða og B, C og kvaðst hann hafa verið við Langholt 2 og séð þegar ákærði hafi farið á traktorsgröfu sinni og tekið upp línuna og staurana. Hafi vitnið ekki séð hvað ákærði hafi gert við þetta.

            Við skýrslugjöf sína hjá lögreglu vegna þessa kvaðst ákærði ekkert kannast við þetta og myndi ekki eftir neinni girðingu þarna, en kannaðist við að hafa tekið upp þarna girðingu ári áður, en hann hafi þegar verið ákærður fyrir það.

 

            Ákæruliður II.

            Samkvæmt frumskýrslu hafði D samband við lögreglu 10. október 2014 til að tilkynna þjófnað og eignaspjöll í sumarhúsi sínu. Fór lögregla að sumarhúsinu og hitti D þar, en engin húsgögn voru í húsinu. Kvaðst D hafa fengið upplýsingar um að ákærði hefði komið og tekið húsgögnin og farið með þau í veiðihús á landareign sinni. Er haft eftir D í frumskýrslunni að hann hafi keypt húsið til flutnings og samið við ákærða um að fá að hafa húsið um kyrrt þar til hann fyndi nýja lóð. Lögregla ræddi við ákærða sem kvaðst vera með lykla að sumarhúsinu og hefði hann verið beðinn fyrir þá þremur árum áður af þinglýstum eigendum hússins. Er haft eftir ákærða að D væri ekki þinglesinn eigandi hússins heldur kona að nafni E og væri hún eigandinn. Er jafnframt haft eftir ákærða að hann hafi gert um það munnlegt samkomulag við D að gera húsið klárt til flutnings, en það hafi D svikið. Lögregla fór að veiðihúsi ákærða og mátti sjá þar inni húsgögn og búnað sem ákærði átti að hafa tekið úr húsi D. Samkvæmt frumskýrslunni kvaðst ákærði kannast við að hafa fært húsgögnin þangað úr sumarhúsinu til geymslu, en til stæði að flytja sumarhúsið. Það væri nokkuð síðan hann hefði gert það og hann væri sá eini sem hefði lykla að húsinu.

            Fór lögregla ásamt D í ólæst veiðihús við Hvítá og tók þar húsgögn sem D benti á og kvað sína eign. Voru húsgögnin flutt að sumarhúsi D og komið fyrir þar inni.

            Í gögnum málsins liggur fyrir afrit af afsali þar sem D er afsalað téð sumarhús ásamt innbúi þann 4. október 2013. Er afsalsgjafinn F ehf., sem hafði fengið húsið afsalað frá G og E á árinu 2011. Þá liggur fyrir afrit leigusamnings þar sem ákærði sem leigusali leigir G og E lóð undir téðan bústað á árinu 1992 til 30 ára.

            Við rannsókn málsins ræddi lögregla við ákærða og er haft eftir honum í skýrslu að hann hafi tekið húsmuni úr sumarhúsinu og farið með í veiðihús sitt, vegna þess að það hafi verið að rýma sumarhúsið fyrir flutning. Enginn hafi beðið hann um þetta.

 

            Ákæruliður III.

            Þann 19. september 2016 var lögregla kvödd að Langholti 2 þar sem brotaþoli hafði hringt og sagt ákærða hafa ekið á bifreið sína á traktorsgröfu og sett skófluna undir bifreiðina. Tók brotaþoli á móti lögreglu og kvaðst hafa komið akandi að heimili sínu. Þá hafi hún séð eiginmann sinn, B, akandi á dráttarvél og hafi ákærði ekið á eftir honum á traktorsgröfu. Hafi hún stöðvað bifreið sína og hafi ákærði komið akandi alveg upp að bifreið hennar og sett skóflu traktorsgröfunnar undir bifreiðina. Sýndi brotaþoli lögreglu ljósmynd sem hún hafði tekið á síma sinn af atvikinu. Hafi hún orðið mjög hrædd. Svo hafi ákærði bakkað traktorsgröfunni og ekið henni á bifreiðastæði við heimili sitt. Þá hafi B komið að og hann og ákærði átt í orðaskaki. Hún hafi gengið á milli svo ekki yrðu slagsmál, en þá hafi ákærði tekið í vinstri handlegg hennar og snúið upp á hann. Hafi svo ákærði hætt og gengið heim til sín. Lögregla ræddi við B á vettvangi og er í frumskýrslu haft eftir honum það sama og eftir brotaþola. Lögregla tók framburðarskýrslur af brotaþola og B við rannsókn málsins og báru þau þar með sama hætti.

            Við rannsókn málsins var tekin skýrsla af ákærða og neitaði hann því að hafa tekið í vinstri handlegg brotaþola og snúið upp á hann, en kvað að hún hafi tekið í föt hans þar sem gleraugu hafi verið í brjóstvasa og til að hún myndi ekki brjóta gleraugun þá hafi hann tekið í hægri handlegg hennar og losað tak hennar.

            Samkvæmt gögnum málsins leitaði brotaþoli á bráðamóttöku á Selfossi daginn eftir atvikið og kemur fram í vottorði H læknis, dags. 3. nóvember 2016, að I læknakandídat hafi tekið á móti henni og segir í vottorðinu að í bráðamóttökuskrá komi fram um hægri öxl brotaþola að engin áverkamerki séu sjáanleg, hvorki bólga né mar. Væg þreifieymsli séu yfir vöðvum á framanverðri öxl/efst á upphandlegg. Hreyfigeta sé eðlileg um öxl en brotaþoli finni aðeins til við hreyfingar. Á hægri handlegg séu 3 ljósir marblettir á upphandlegg en ekki bólga. Væg þreifieymsli séu yfir vöðvafestum á innanverðum og utanverðum olnboga þ.e.a.s. yfir „epicondylum“. Hreyfigeta sé eðlileg í handlegg. Brotaþoli fái aðeins verki í „tricep“ þegar tekið sé á móti í þeirri hreyfingu og finnist hún finna aðeins dofa í handlegg. Þá segir að algengt sé fyrir verki sem tengist stoðkerfis- eða mjúkvefjaáverkum að koma fram 1-2 dögum eftir áverka. Segir að lýsing skoðunar samrýmist best tognunum eða ofreynslu á vöðva og aðra hluta stoðkerfis.

 

            Ákæruliður IV.

            Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var tilkynnt þann 12. október 2016 að búið væri að færa steina inn á veg milli Langholts 2 og að Hallandavegi á móts við innkeyrslu að Langholti 1. Fór lögregla á staðinn og mátti sjá þar stóran stein við brún vegarins. Segir að steinninn hafi staðið inn á veginn og verið 120 sm á hæð og 130 sm breiður. Á veginum hafi svo verið 4 minni steinar og sá stærsti mælst 65 sm hár og 60 sm breiður. Steinarnir hafi verið þannig staðsettir að ekki hafi verið hægt að aka um veginn. Ræddi lögregla við A og B og töldu þau að ákærði hafi verið að verki. Ræddi lögregla við svo búið við ákærða sem kvaðst hafa fært steinana en þeir væru þarna aðeins tímabundið. Eru ljósmyndir í frumskýrslu af téðu grjóti.

 

            Framburður ákærða og vitna við aðalmeðferð

            Ákæruliður I

Ákærði skýrði frá því við aðalmeðferð að hann kannaðist ekki við þetta. Kvaðst ákærði fara þarna um 6-8 sinnum á dag að minnsta kosti. Um það að vitni hafi séð til hans taka girðinguna kvað ákærði það ekki fá staðist. Vitnið hefði ekki getað séð þetta miðað við hvar vitnið segist hafa staðið. Aðspurður kvaðst ákærði ekki endilega hafa séð svona staura á þessu tiltekna ári, en einhvern tíma hafi verið beitt þarna skepnum.

Vitnið C gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð og skýrði frá því að hann hafi séð til ákærða umrætt sinn. Hafi vitnið verið að setja út hesta og horft bak við hús og séð ákærða á gröfunni þar sem hann hafi tekið girðingarstaura og rúllað saman girðingunni. Hafi vitninu þótt þetta skrýtið þar sem vitnið hafi ekki verið viss hver ætti girðinguna. Hafi vitnið hringt í B og spurt hvort þetta væri hans girðing eða ákærða. Hafi B svarað því til að þetta væri sín girðing. Hafi B beðið sig að bíða og sagt sér svo að tilkynna þetta. Hafi vitnið gert það. Vitnið kvaðst ekki hafa séð hvað ákærði hafi gert við girðinguna, en aðeins séð ákærða taka efnið saman. Þetta hafi verið mjóir staurar, sennilega hvítir, til að stinga niður. Ekki hafi vitnið tekið eftir því hvort ákærði hafi orðið hans var. Aðspurður kvaðst vitnið hafa séð þetta og ekkert hafi skyggt á sjónlínuna.

Vitnið B gaf skýrslu fyrir dóminum við aðalmeðferð og skýrði frá því að hafa ekki verið viðstaddur þetta, en C hafi hringt í sig þar sem vitnið hafi verið staddur á Selfossi, þegar C hafi horft á ákærða fjarlægja girðingarstaurana og vírinn. Hafi vitnið komið heim nokkru síðar og þá hafi girðingin verið á bak og burt og vitnið þá haft samband við lögreglu. Þetta hafi eiginlega verið bráðabirgðagirðing með sentimetersbreiðum rafmagnsborða. Flestir stauranna hafi verið gulir, mögulega 1 eða 2 hvítir. Vitnið kvaðst hafa átt téða girðingu og hún hafi ekki sést eftir þetta þrátt fyrir leit.

Vitnið J lögreglumaður kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og lýsti því að hafa komið á vettvang og rætt við B, sem hafi sagt að ákærði hafi tekið girðinguna. Hafi B sagt að vitni hafi verið að þessu. Hvorki mundi vitnið hvort rætt hafi verið við vitnið sem hafi átt að sjá þetta, né heldur við ákærða.

 

Ákæruliður II.

Ákærði kannaðist við að hafa fært dót, sem hafi átt að fara á haugana, úr sumarhúsinu og komið því í geymslu. Allir hafi vitað hvar geymslan hafi verið. Hafi þetta verið sótt aftur í geymsluna og sett aftur í sumarhúsið án þess að rætt væri við ákærða. Kannaðist þannig við að hafa „hreyft við“ mununum, en því fari fjarri að um þjófnað hafi verið að ræða. Kvaðst ákærði hafa tekið að sér að losa og rýma húsið fyrir flutning. Hafi D beðið sig um þetta. Umræddir munir hafi verið þeir sem getið er í ákæru og gott betur. Geymslan hafi verið veiðihús ákærða við Hvítá, sem sé notað sem kaffiskúr veiðimanna yfir blásumarið. Ekki kvaðst ákærði muna hvernig hann hafi þar gengið frá munum þessum. Veiðimenn hafi getað notað stólana þó ekki hafi verið sérstaklega til þess ætlast. Aðspurður um hvort hann hafi vitað um eignarhald á þessum munum kvaðst ákærði ekki hafa vitað annað en að þetta tilheyrði sumarhúsinu og hafi ákærði vel vitað hver hafi átt sumarhúsið skv. þinglýsingu. Svo hafi D haft pappíra en ákærði ekki skipt sér af því vegna þess að aðalatriðið hafi verið að fjarlægja húsið. D hafi beðið sig um að fjarlægja húsið. D hafi beðið um að þessu yrði fleygt. Þegar ákærði hafi sótt munina hafi hann haft lykla að sumarhúsinu.

Vitnið D gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð og skýrði frá því að hafa fengið um það vitneskju að húsgögn í eigu vitnisins, sem hafi verið í sumarhúsi vitnisins, hafi verið tekin og færð í annað hús, nánar tiltekið veiðihús við ána. Hafi vitnið farið og kíkt á þetta og þetta passað. Hafi þá vitnið hringt á lögreglu, sem hafi komið og hafi svo verið farið og húsgögn vitnisins sótt í veiðihúsið og farið með þau í sumarhús vitnisins, sem hafi þá raunar verið búið að skipta um skrá á. Þetta hafi vitnið gert með lögreglu. Ekki kannaðist vitnið við að hafa beðið ákærða um að taka neina húsmuni úr sumarhúsinu. Það hafi aldrei gerst og hafi ákærði aldrei unnið neitt fyrir sig. Engin venja hafi verið til þess að ákærði gengi um sumarhús vitnisins og hafi ákærði aldrei verið beðinn um neina þjónustu. Látlaust vesen hafi verið með ákærða sem hafi meinað fólki aðgöngu, þrátt fyrir leigusamning. Um hafi verið að ræða þá muni sem lýst sé í ákæru. Mununum hafi verið raðað upp í veiðihúsinu eins og þeir hafi verið í notkun.

Vitnið K rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að D hafi komið á lögreglustöð og óskað liðsinnis við að fara í téð veiðihús og sækja þar húsbúnað sinn sem þangað hafi verið færður úr sumarhúsi sínu. Hafi vitnið farið ásamt L lögreglumanni og D á lögreglusendibíl að veiðihúsinu, farið þar inn um opnar dyr og tekið húsmunina skv. ábendingu D og flutt þá að sumarhúsi D, í Langholti sennilega. Þeir hafi þó ekki komist þar inn þar sem skipt hafi verið um sylinder og hafi því verið spennt upp hurð á húsinu. Hafi svo munirnir verið tíndir inn í húsið. Í veiðihúsinu hafi munirnir ekki verið uppstilltir eins og þeir væru í geymslu, heldur í notkun í stofurými.

Vitnið L rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hafa verið beðinn um að fara að veiðihúsinu með eiganda húsbúnaðarins D og K. Þeir hafi farið þarna á stórum lögreglubíl og sótt húsbúnaðinn og farið með hann í sumarhús D. Húsmunirnir í veiðihúsinu hafi ekki verið eins og þeir væru í geymslu heldur frekar raðað upp eins og fyrir notkun.

 

Ákæruliður III.   

Ákærði skýrði svo frá að hann hafi verið inni við og horft á sjónvarp, en heyrt þá miklar inngjafir á vinnuvél. Hafi ákærði farið út og sett í gang sína vinnuvél og ekið henni að hliði og þá hafi hinni dráttarvélinni verið ekið burt. Hafi ákærði ekið á eftir vélinni, uns hin vélin hafi beygt og þá hafi ákærði ætlað aftur að heimili sínu. Þá hafi birst Benz bifreið og henni verið ekið beint framan á vél ákærða. Svo hafi ákærði bakkað frá bílnum og ekið að sínu heimili. Þá hafi A brotaþoli komið gangandi að garðhliði ákærða og verið reið. Hún hafi rifið framan í föt ákærða og hrist hann myndarlega til, en B hafi á staðið bak við hana með grjót á lofti. Þarna hafi brotaþoli verið að brjóta gleraugu ákærða sem hafi verið í brjóstvasa hans. Hún hafi haldið í þau með hægri hendi. Með vinstri hendi sinni hafi ákærði tekið um hægri hönd brotaþola og ýtt henni frá sér. Hún hafi þá sleppt gleraugum ákærða. Hafi ákærði ekki snúið neitt upp á handlegg hennar.

Vitnið B skýrði frá því fyrir dómi við aðalmeðferð að brotaþoli hafi gengið á undan vitninu umrætt sinn upp þennan tiltekna veg. Hafi ákærði komið á móti henni og tekið í hönd hennar og snúið upp á hana. Hafi ákærði líka tekið undir handlegginn með hinni höndinni og lyft brotaþola til að spenna handlegginn. Olnbogabót brotaþola hafi snúið upp. Ákærði hafi tekið í hægri hönd brotaþola. Þá lýsti vitnið aðdraganda þessa. Ekki kannaðist vitnið við að brotaþoli hafi tekið í ákærða eða föt hans í aðdragandanum. Hún hafi verið í uppnámi fyrst á eftir, en svo hafi hún fljótlega farið að finna til í handleggnum.

Vitnið A, brotaþoli, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hún hafi verið að koma frá Selfossi að kvöldlagi. Hafi hún séð B á traktornum aka undan ákærða á gröfunni. Henni hafi orðið um og stoppað bílinn. Hafi B farið fram hjá en ákærði ekið framan á bílinn hjá henni og sett skófluna alveg niður og undir stuðarann á bílnum. Hafi hún beðið þess sem verða vildi, fálmað eftir símanum og smellt af þessu mynd. Hafi svo ákærði bakkað og ekið fram hjá henni. Hún hafi farið út úr bílnum en ákærði ekið heimreiðina til sín. Hún hafi farið í humátt á eftir honum Hallandaveginn sem liggi bæði til hennar og ákærða. Hafi svo ákærði gengið að henni ákveðnum skrefum og hún óttast hann og sett út höndina. Þá hafi hann tekið í höndina á henni og kreist sitt hvoru megin við olnbogann og lyft upp til að ná enn meiri spennu. Hún hafi kveinkað sér við þetta og B hafi orðið þreifandi reiður en hann hafi verið skammt undan og séð þetta. Svo hafi ákærði sleppt og gengið burt. Þetta hafi verið hægri höndin. Hafi hún fundið þegar ákærði hafi snúið en svo einhvern vegin dofnað upp. Hún hafi fyrst ekki ætlað til læknis en svo um kvöldið hafi hún fundið sársauka í handleggnum, auk doða. Svo hafi þetta rjátlast af á 2 vikum eða svo. Hún hafi rætt við lögreglu á vettvangi, sennilega karlmann, en auk þess hafi verið lögreglukona. Brotaþoli lýsti því að vera með dyslexiu og eiga til að ruglast á vinstri og hægri þess vegna. Hún hafi verið aðeins ruglingsleg á vettvangi hvort þetta hafi verið hægri eða vinstri, enda hafi hún verið í panik vegna þessa alls. Hún hafi sagt hægri, nei vinstri hægri. Ekki kannaðist brotaþoli aðspurð við að hafa gripið í ákærða og eða föt hans og gripið um gleraugu hans í brjóstvasa. Kvað brotaþoli þetta ekki hafa verið svo. Hún hafi staðið kyrr og ákærði gengið að henni. Áverkar sem lýst sé í vottorði séu eftir þetta atvik.

Vitnið M, dóttir ákærða, gaf skýrslu við aðalmeðferð. Kvaðst vitnið ekki hafa séð það sem lýst er í ákæru, en hafa þó verið viðstödd umrætt sinn. Það hafi verið einhver læti úti á vegi og hávaði. Hún hafi farið út og ákærði hafi verið ausinn skömmum. Hún hafi gengið að og svo hafi hún og ákærði gengið til baka. Skömmu síðar hafi verið búið að kalla til lögreglu. Þau hafi ekki rætt þetta sérstaklega í kjölfarið hún og ákærði, enda þetta aðeins verið ein uppákoma af fjölmörgum. Aldrei hafi komið til tals líkamsárás í þessu samhengi fyrr en eftir að ákærði hafi verið kærður.

Vitnið H læknir gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð og staðfesti að hafa gert áverkavottorð um brotaþola, dags. 3. nóvember 2016, sem unnið hafi verið upp úr gögnum frá I læknakandídats sem hafi skoðað brotaþola. Vitnið hafi ekki sjálfur skoðað brotaþola umrætt sinn.

Vitnið N lögreglumaður kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og kvaðst muna eftir að hafa komið á vettvang umrætt sinn. Hún hafi ekki rætt mest við brotaþola eða skrifað niður. Kvaðst muna þetta óljóst og myndi t.d. ekki hvernig brotaþoli hafi lýst þessu. Ekki hafi gengið vel að ræða við ákærða. Hún hafi verið með lögreglumanninum O, en lögreglumaðurinn P hafi svo komið á vettvang. 

Vitnið O lögreglumaður kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og kannaðist við að hafa komið á vettvang umrætt sinn. Vitnið hafi rætt við brotaþola og hafi hún lýst því að ákærði hafi komið á eftir henni á traktornum og sett skófluna undir bílinn og hafi hún þá orðið mjög hrædd. Hafi B komið út og hann og ákærði talað saman og hafi brotaþoli lýst því að ákærði hafi tekið í hönd hennar og snúið upp á hana. Ekki mundi vitnið um hvora höndina hafi verið talað í því sambandi. Þarna hafi verið hiti í fólki.   

Vitnið P lögreglumaður kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og kvaðst hafa komið á vettvang umrætt sinn. Vitnið kannaðist við sjálfan sig á mynd sem ákærði tók af honum. Vitnið kvaðst hafa rætt við brotaþola og B.

 

 

Ákæruliður IV.

Ákærði kannaðist ekki við að hafa komið þessu stórgrýti fyrir á umræddum vegi. B hafi velt stóra hnullungnum á veginn. Ákærði hafi verið að gera við hleðslu og velt hnullungnum á annan stað, en það hafi þó ekki lokað veginum eins og sjá megi á öðrum myndum. Við vinnuna við hleðsluna hafi ákærði haft minni hnullungana á þeim stað sem sjáist á myndum. B hafi sett stóra grjótið þar sem það var, en ákærði minni steinana. Það hafi verið B sem hafi rutt þessu öllu niður og mokað því í innkeyrslu ákærða.

Vitnið R lögreglumaður kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og kvaðst hafa farið á vettvang umrætt sinn og rætt við A. Hafi vitnið tekið myndir af téðu grjóti. Þarna hafi verið 4 steinar um 55-60 sentimetra háir á miðjum veginum og svo hafi verið stórt grjót um 120 – 130 sentimetra hátt sem hafi staðið inn á miðjan veginn. Hafi vitnið rætt við ákærða og rætt við hann og borið þetta undir hann. Hafi ákærði lítt verið til viðræðu, en viðurkennt að hafa sett þetta grjót á staðinn, en jafnframt hafi hann sagt að þetta hafi verið tímabundin ráðstöfun meðan hann væri að vinna við hleðslu sem sé þarna. Ekki hafi verið hægt að aka veginn þannig að lögregla hafi ekið að steinunum. Ekki hafi verið unnt að aka veginn framhjá steinunum og ekki heldur að sneiða fram hjá þeim með því að aka út fyrir veginn. Mögulegt hafi þó verið að aka aðra leið. Ekki hafi ákærði getið þess neitt að B hefði sett steinana þarna.

Vitnið B skýrði frá því fyrir dómi við aðalmeðferð að rangt væri að hann hafi hreyft við stóra steininum á götunni og komið honum fyrir. Aldrei hafi það gerst. Útilokað væri að vinnuvél sín gæti bifað umræddum steini.

 

            Forsendur og niðurstaða

            Sú rafmagnsgirðing sem fjallað er um í ákærulið I hefur ekki sést frá 4. október 2014 og er ekki vitað um afdrif hennar. Ákærði hefur þverneitað að hafa tekið girðinguna og staurana líka.

            Vitnið C lýsti því að hafa séð ákærða á gröfunni þar sem hann hafi tekið girðingarstaura og rúllað saman girðingunni. Vitnið kvaðst ekki hafa séð hvað ákærði hafi gert við girðinguna, en aðeins séð ákærða taka efnið saman. Ekki er öðrum vitnum til að dreifa um háttsemi ákærða skv. þessum ákærulið, en vitnið B sá ekki til ákærða þá er hann á að hafa tekið umrædda muni. Þá gat vitnið J lögreglumaður lítt um þetta borið. Er því ekki hafi yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærulið I og ber að sýkna hann af þeim sakargiftum.

            Um þá muni sem lýst er í ákærulið II hefur ákærði sjálfur borið að hafa tekið þá úr téðu sumarhúsi og farið með þá í veiðihús sitt. Þá hefur það komið fram í framburði vitnanna D, K og L að munir þessir hafi verið sóttir í veiðuhús ákærða og farið með þá aftur í sumarhús D. Um þetta hefur ákærði borið að hann hafi ekki ætlað að slá eign sinni á umrædda muni, heldur hafi hann gert þetta þar sem til hafi staðið að flytja húsið burt og hann hafi átt að rýma húsið fyrir þann flutning og hafi jafnvel verið beðinn um það. Ekki liggur hins vegar neitt fyrir um það í málinu að ákærði hafi verið um þetta beðinn eða haft nokkra heimild til þess að fjarlægja téða muni og fara með þá á annan stað. Munirnir fundust í veiðihúsi ákærða og kom fram í framburði vitnanna D, L og K að munirnir hafi verið uppstilltir eins og til notkunar, en ekki virst vera þarna í einhverskonar geymslu. Er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið og er háttsemin rétt færð til refsiákvæða.

            Varðandi þá háttsemi sem ákærða er gefin að sök í ákærulið III hefur ákærði neitað henni. Hann kannast hins vegar við atvikið og að honum og brotaþola hafi lent saman eins og nánar greinir að ofan, en hann kveðst hafa tekið í hægri hönd brotaþola umrætt sinn og ýtt henni frá sér. Fyrir liggur læknisvottorð, sem stutt er framburði vitnisins H læknis, um áverka sem brotaþoli bar á hægri handlegg og þykir mega líta til þess þó vitnið hafi ekki sjálfur séð áverkana. Brotaþoli og vitnið B hafi bæði borið á sama hátt um það að ákærði hafi tekið í hægri hönd hennar og snúið upp á og lyft undir handlegg hennar. Önnur vitni sáu ekki það sem gerðist á milli ákærða og brotaþola umrætt sinn. Með samhljóða framburði brotaþola og vitnisins B, sem studdur er læknisvottorði og framburði læknis, þykir vera hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í þessum lið ákærunnar og er þar réttilega heimfærð til refsiákvæða. Tekið er fram að ekki þykir rýra sönnunargildi framburðar brotaþola þó að hún hafi verið óklár á hægri og vinstri, en á því hafa komið fram fullnægjandi skýringar að mati dómsins.

            Vegna þeirrar háttsemi sem lýst er í ákærulið IV hefur ákærði borið að hann hafi komið fyrir hinum minni steinum, en hinn stærsta hafi hann skilið eftir á öðrum stað. Steinarnir hafi aðeins átt að vera þarna tímabundið. Hefur ákærði lýst því að hann telji B hafa komið stærsta steininum fyrir þar sem hann sést á myndum, en þessu hefur B alfarið neitað og kveður hann vinnuvél sína ekki myndu ráða við stóra steininn. Gegn neitun ákærða þykir ekki vera hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi komið stóra steininum fyrir þar sem hann sést á mynd, en með framburði ákærða sjálfs, ljósmyndum og framburði vinisins R lögreglumanns þykir vera hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi komið öllu hinu grjótinu fyrir á veginum þar sem það sést á ljósmyndum eins og lýst er í ákæru.

            Í 1. mgr. 47. gr. vegalaga nr. 80/2007 segir að „[ó]heimilt er að aðhafast nokkuð það sem getur raskað öryggi umferðar, svo sem að valda skemmdum á vegi og mannvirkjum hans eða skilja eftir muni á eða við vegsvæði sem valdið geta hættu á slysum.“ Að mati dómsins er augljóst að með því að koma téðu grjóti fyrir á veginum, þó litið sé fram hjá stærsta steininum, var raskað öryggi umferðar og valdið hættu á slysum á viðkomandi vegi og hefur ákærði með þessu gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 47. gr., sbr. 1. mgr. 59. gr. vegalaga nr. 80/2007.

            Hefur ákærði skv. ofansögðu unnið sér til refsingar. Samkvæmt framlögðu sakavottorði gekkst ákærði undir 160.000 kr. fésekt fyrir brot gegn 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 á árinu 2005, auk þess að á árinu 2015 var hann dæmdur til greiðslu 50.000 kr. fésektar fyrir brot gegn áður greindum vegalögum.

            Við ákvörðun refsingar ákærða er höfð hliðsjón af 1. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og þykir hæfilegt að ákærði sæti fangelsi í 30 daga, en fresta ber fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en jafnframt greiði ákærði 50.000 kr. fésekt til ríkissjóðs innan 4 vikna en sæti ella fangelsi í 4 daga.

Samkvæmt 218., sbr. 216. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til greiðslu sakarkostnaðar. Samkvæmt yfirliti rannsakara er útlagður sakarkostnaður kr. 106.253, en þar er annars vegar um að ræða læknisvottorð kr. 21.065 og hins vegar þóknun réttargæslumanns vegna kröfu um nálgunarbann sem var hafnað. Verður ákærða ekki gert að greiða þá þóknun. 

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Hreggviður Hermannsson, sæti fangelsi í 30 daga.

Frestað er fullnustu fangelsisrefsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði kr. 50.000 fésekt til ríkissjóðs innan 4 vikna en sæti ella fangelsi í 4 daga.

Ákærði greiði sakarkostnað kr. 21.065.

 

Sigurður G. Gíslason