• Lykilorð:
  • Hegningarauki
  • Ítrekun
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar
  • Eignaupptaka
  • Umferðarlagabrot

D Ó M U R

Héraðsdóms Suðurlands fimmtudaginn 14. febrúar 2019 í máli nr. S-24/2019:

Ákæruvaldið

(Grímur Hergeirsson fulltrúi)

gegn

Hákoni Má Jósepssyni

 

 

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið fimmtudaginn 7. febrúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi þann 11. janúar sl., á hendur Hákoni Má Jósepssyni,

fyrir eftirfarandi umferðarlagabrot:

 

I.

með því að hafa, þriðjudaginn 25. júlí 2017, ekið bifreiðinni […] sviptur ökurétti norður Hafnarfjarðarveg við Arnarnesveg í Garðabæ, með 96 km hraða á klukkustund þar sem leyfður hámarkshraði var 80 km á klukkustund.

 

Teljast brot ákærða varða við 2. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga. (007-2017-42148)

 

II.

með því að hafa, þriðjudaginn 12. september 2017, ekið bifreiðinni […] sviptur ökurétti suður Hafnarfjarðarveg við Arnarnesveg í Garðabæ, með 97 km hraða á klukkustund þar sem leyfður hámarkshraði var 80 km á klukkustund.

 

Teljast brot ákærða varða við 2. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga. (007-2017-54478)

 

III.

með því að hafa, sunnudaginn 28. janúar 2018, ekið bifreiðinni […] sviptur ökurétti austur Breiðholtsbraut við Jaðarsel í Reykjavík.

 

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga. (007-2018-5866)

 

IV.

með því að hafa, aðfaranótt mánudagsins 5. mars 2018, ekið bifreiðinni […] um Lækjargötu og Strandgötu í Hafnarfirði, sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa amfetamíns en ákærði ók bifreiðinni umrætt sinn gegn réttri akstursstefnu um hringtorgið á Fjarðartorgi.

 

Teljast brot ákærða varða við 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga. (007-2018-13538)

 

V.

með því að hafa, þriðjudaginn 13. mars 2018, ekið bifreiðinni […] sviptur ökurétti austur Suðurlandsveg við Hólmsá í Kópavogi.

 

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga. (007-2018-16384)

 

VI.

með því að hafa, að kvöldi laugardagsins 7. júlí 2018, ekið bifreiðinni […] norður Skútuhraun í Hafnarfirði, sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa amfetamíns.

 

Teljast brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga. (007-2018-47534)

 

VII.

með því að hafa, mánudaginn 30. júlí 2018, ekið bifreiðinni […] norður Biskupstungnabraut við Þrastalund í Grímsnes- og Grafningshreppi, sviptur ökurétti, ófær um að stjórna bifreiðinni örugglega vegna neyslu róandi/slævandi lyfja og óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa amfetamíns.

 

Teljast brot ákærða varða við 2. mgr. 44. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga. (318-2018-7264)

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 með áorðnum breytingum og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist með vísan til 2. mgr. 107. gr. a. umferðarlaga nr. 50, 1987 að bifreiðin ZN-500 verði gerð upptæk.

 

Ákærði mætti ekki við þingfestingu málsins þrátt fyrir lögmæta birtingu ákæru þann 24. janúar sl., ásamt fyrirkalli þar sem þess var getið að málið kynni að verða dæmt að ákærða fjarstöddum. Málið var því tekið til dóms samkvæmt 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Í matsgerð frá rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, sem liggur frammi meðal rannsóknargagna lögreglu vegna ákæruliðar IV, kemur fram að amfetamín hafi fundist í þvagi ákærða. Þá hafi í blóði hans mælst amfetamín 260 ng/ml. Í matsgerð frá rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, sem liggur frammi meðal rannsóknargagna lögreglu vegna ákæruliðar VI, kemur fram að amfetamín hafi fundist í þvagi ákærða. Þá hafi í blóði hans mælst amfetamín 80 ng/ml.  Í matsgerð frá rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, sem liggur frammi meðal rannsóknargagna lögreglu vegna ákæruliðar VII, kemur fram að amfetamín hafi fundist í þvagi ákærða. Þá hafi í blóði hans mælst amfetamín 45 ng/ml og alprazólam 165 ng/ml. Um málavexti að öðru leyti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði átta sinnum áður sætt refsingu, í öll skiptin vegna umferðarlagabrota. Þann 15. desember 2016 var ákærða gerð sekt meðal annars vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna, auk þess sem hann var þá sviptur ökurétti tímabundið. Þann 23. janúar 2017, var ákærða gerð sekt meðal annars fyrir að hafa þann 22. júlí 2016 ekið undir áhrifum fíkniefna og var hann jafnframt sviptur ökurétti tímabundið. Þann 18. ágúst 2017 lauk ákærði þremur málum með sektargerð hjá lögreglustjóra, þar sem honum var gerð sekt meðal annars fyrir að hafa þann 19. mars og 11. júní það ár ekið undir áhrifum fíkniefna sem og sviptur ökurétti, og fyrir að hafa þann 26. apríl 2017 ekið sviptur ökurétti. Var hann þá jafnframt sviptur ökurétti tímabundið og settur í akstursbann. Þann 4. desember 2017, var ákærða gerð sekt fyrir að hafa þann 22. júní 2017, meðal annars ekið sviptur ökurétti og undir áhrifum fíkniefna. Var hann þá enn sviptur ökurétti tímabundið. Þann 16. febrúar 2018 var ákærði dæmdur til að sæta fangelsi fyrir að hafa þann 27. ágúst og 8. október 2017 ekið sviptur ökurétti og undir áhrifum fíkniefna, og hann jafnframt sviptur ökurétti ævilangt. Var þar um að ræða hegningarauki við síðastgreinda sektarákvörðun. Loks var ákærði þann 14. desember 2018 dæmdur til að sæta fangelsi, fyrir að hafa þann 12. maí sama ár ekið sviptur ökurétti og þann 28. maí sama ár ekið sviptur ökurétti sem og undir áhrifum fíkniefna. Ljóst er að brot ákærða samkvæmt ákæru eru öll framin fyrir uppkvaðningu síðastgreinds dóms, og sum hver fyrir ákvörðun annarra fyrri refsinga hans. Verður ákærða því nú dæmdur hegningarauki, með vísan til 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Refsing ákærða er að virtum sakaferli hans og að teknu tilliti til hegningaraukasjónarmiða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Með vísan til dómvenju þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna. Með vísan til 101. og 102. gr., þó einkum 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum, er ævilöng svipting ökuréttar ákærða áréttuð. Með vísan til 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, með síðari breytingum, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem nemur samkvæmt yfirlitum lögreglu samtals 382.939 kr. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hafði ákærði fjórum sinnum á síðustu þremur árum fyrir brot þau sem lýst er í IV., VI. og VII lið ákæru sætt refsingu sem og ökuréttarsviptingu, vegna brota gegn 45. gr. a. umferðarlaga, þ.e. akstur undir áhrifum fíkniefna. Ákærði er nú fundinn sekur um brot gegn sama ákvæði og hann sviptur ökurétti vegna þeirra. Að framansögðu virtu þykja uppfyllt skilyrði 2. mgr. 107. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987, enda er ákærði samkvæmt gögnum málsins skráður eigandi umrædds ökutækis. Með vísan til þessa ber að fallast á kröfu ákæruvaldsins um upptöku framangreinds ökutækis líkt og greinir í dómsorði. Engan sakarkostnað leiddi af máli þessu.

Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Hákon Már Jósepsson, sæti fangelsi í sex mánuði.

Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, 382.939 krónur.

Gerð er upptæk bifreiðin ZN-500.

 

                                                                        Sólveig Ingadóttir.